Hoppa yfir valmynd

Samantekt á helstu atriðum skýrslunnar

Hér á eftir eru teknar saman meginniðurstöður úttektarinnar og raktar þær tillögur um ráðstafanir og mikilvægar lyftistangir til framtíðar sem fram koma í lokaskýrsl­unni Menntun fyrir alla á Íslandi: Úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi. Afrakstur úttektarinnar er að finna í lokaskýrslunni og sex viðaukum sem henni fylgja. Viðaukarnir hafa að geyma ítarlegar upplýsingar um tiltekin efnissvið: aðferðir, ágrip af fræðilegri umfjöllun og gagnagreiningu, sem lögð voru til grundvallar við ritun skýrslunnar.

 

Úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar ber að skoða í samhengi við þá þróunarvinnu sem nú á sér stað á Íslandi og verkferlana sem stuðst er við í þeirri vinnu, og er þá einkum vísað til þeirrar innri úttektar sem áður hefur farið fram á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar (Mat á framkvæmd stefnu um skóla án aðgreiningar, mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2015).

 

Úttektin snerist fyrst og fremst um að kanna framkvæmd íslenskrar menntastefnu og var hún í því skyni látin taka til:

  • leik-, grunn- og framhaldsskólastigs,
  • stofnana sem annast umsýslu fjárveitinga til menntunar án aðgreiningar,
  • allra hópa skólasamfélagsins, þar á meðal nemenda og aðstandenda þeirra.

 

Notað var viðmiðabundið úttektarlíkan, en það felur í sér að stuðst er við aðferðir gæðastjórnunar; líta má á sett viðmið sem gæðavísa og/eða mælikvarða sem nýtast við sjálfsmat og endurskoðun.

Með gagnrýnu sjálfsmati á málaflokknum, sem fól í sér þátttöku helstu aðila mennta­mála á Íslandi, voru dregin fram sjö áherslusvið. Á grundvelli þeirra voru skilgreind viðmið og vísbendingar sem segja má að endurspegli þær umbætur á íslenska menntakerfinu sem rétt þótti að stefna að. Með þeim eru dregin fram mikilvæg atriði á sviði stefnumótunar og framkvæmdar sem geta skipt sköpum um gæði menntunar án aðgreiningar. Gagnasöfnun og greining vegna úttektarinnar var byggð á þessum viðmiðum og vísbendingum.

 

Gagnasöfnun fór fram á tímabilinu frá mars til ágúst 2016. Um var að ræða þrjár tegundir gagnasöfnunar sem styðja hver aðra:

 

  1. Söfnun upplýsinga um grundvallar- eða lykilatriði sem fjallað er um í stefnu­markandi skjölum, skýrslum, greinum og á vefsíðum, á ensku eða íslensku.
     
  2. Vettvangsathuganir vegna úttektarinnar sem fóru fram í apríl 2016. Undir þær féllu: 27 rýnihópar með 222 þátttakendum, 11 heimsóknir í skóla og níu viðtöl við háttsetta stjórnendur sem taka ákvarðanir á sveitarstjórnarstigi eða á landsvísu.

 

  1. Netkönnun sem skilaði 934 svörum í fjórum mismunandi könnunum (hver könnun um sig tiltæk bæði á ensku og íslensku).

 

Greining úttektarhópsins á gögnunum leiddi í ljós að huga þyrfti sérstaklega að nokkrum tilteknum málefnum sem liggja til grundvallar meginþáttum stefnu­mótunar og framkvæmdar, og bent var á styrkleika sem talið var að nýta mætti í umbótaferli.

 

Niðurstöður

Niðurstöður úttektarinnar eru teknar saman í sjö meginköflum skýrslunnar og er í hverjum þeirra fjallað um eitt þeirra áherslusviða sem úttektin leiddi í ljós ásamt samsvarandi viðmiðum og vísbendingum:

1. viðmið: Allir í skólasamfélaginu sjái í menntun án aðgreiningar leið til að gefa öllum nemendum kost á gæðamenntun. Mismunandi skilningur er lagður í hug­takið menntun án aðgreiningar meðal þeirra sem sinna menntamálum, bæði innan hvers skólastigs og milli skólastiga. Almennt þarf að skýra betur bæði hugtakið sjálft og hvernig standa ber að framkvæmd menntunar án aðgreiningar.

 

2. viðmið: Löggjöf og stefnumótun á sviði menntunar án aðgreiningar hafi það markmið að tryggja öllum nemendum jöfn tækifæri. Núverandi löggjöf og stefnu­mótun felur í sér stuðning við markmið og áherslur menntakerfis án aðgreiningar. Samstaða er um þessi markmið og áherslur meðal flestra þeirra sem sinna menntamálum og á öllum stigum kerfisins. Á hinn bóginn er þörf á skýrari leiðsögn um hvernig standa ber að því að fella þessi stefnumið inn í áætlanir sveitarfélaga og skóla og hrinda þeim í framkvæmd. Þeir sem vinna að menntamálum þurfa jafnframt á leiðsögn að halda um hvernig haga skuli eftirliti með þeirri framkvæmd og mati á árangri hennar, í samræmi við landslög og markaða stefnu stjórnvalda.

 

3. viðmið: Stefnunni sem mörkuð hefur verið á sviði menntunar án aðgreiningar sé komið til framkvæmda með árangursríkum hætti á öllum skólastigum. Þótt starfsfólk á öllum stigum menntakerfisins vinni af heilindum að framgangi stefn­unnar hefur það ekki notið nægilegs stuðnings til þess. Formlegur stuðningur er að nokkru fyrir hendi en starfsfólk skóla lítur svo á að fleiri og sveigjanlegri kostir á slíkum stuðningi þurfi að bjóðast. Það er almenn skoðun að þessu viðmiði verði varla náð til fulls nema vel sé unnið að öðrum viðmiðum sem íslenski starfshópurinn mótaði og snúa einkum að skilvirkni stuðningskerfa, tilhögun fjárveitinga, stjórnunarháttum og gæðastjórnunaraðferðum.

 

4. viðmið: Öllum í skólasamfélaginu, á öllum stigum kerfisins, sé gert kleift að ígrunda og framkvæma dagleg störf sín með menntun án aðgreiningar að leiðarljósi. Margt starfsfólk skóla segist fá ófullnægjandi stuðning til að ígrunda og framkvæma dagleg störf sín með menntun án aðgreiningar að leiðarljósi. Á öllum stigum menntakerfisins má finna dæmi um umbætur að því er varðar skipulag, námsefni, námsmat, kennsluhætti, námsaðstoð, tækifæri til faglegrar starfsþróunar fyrir alla þá sem vinna að menntamálum og árangursrík samskipti starfsfólks. Slík vinnubrögð hafa þó hvorki náð mikilli útbreiðslu né orðið föst venja í skólastarfinu. Tryggja þarf að þörfin á viðeigandi og árangursríkum stuðningi við skólastarf, bæði almennt og í einstökum aldurshópum, sé öllum ljós.

 

5. viðmið: Ráðstöfun fjármuna taki mið af sjónarmiðum um jöfnuð, skilvirkni og hagkvæmni. Meirihluti viðmælenda í öllum hópum skólasamfélagsins telur núver­andi reglur um fjárveitingar og ráðstöfun fjármuna hvorki taka mið af sjónarmiðum um jöfnuð né hugmyndum um skilvirkni. Margir eru þeirrar skoðunar að núverandi fjárveitingavenjur auðveldi starfsfólki ekki að vinna að menntun án aðgreiningar, heldur tálmi framförum á því sviði. Margir sem starfa að menntamálum á vettvangi ríkis og sveitarfélaga telja að breytingar á núgildandi reglum um fjárframlög, sem taka mið af greiningu á sérþörfum í námi eða fötlun, gætu verið mikilvæg lyftistöng fyrir menntun án aðgreiningar á Íslandi.

 

6. viðmið: Stjórnunarhættir og gæðastjórnunaraðferðir tryggi að stefnumótun og framkvæmd á sviði menntunar án aðgreiningar nái fram að ganga á samhæfðan og árangursríkan hátt. Þeir sem sinna menntamálum á vettvangi ríkis, sveitarfélaga og skóla telja á það skorta að stjórnunarhættir og gæðastjórnunaraðferðir á sviði menntamála séu viðhlítandi. Hvort sem horft er til ráðuneyta eða sveitarfélaga þykir starfsfólki sem núverandi stjórnunarhættir tryggi því ekki nægan stuðning í starfi. Starfsfólki skóla þykir núverandi tilhögun gæðastjórnunar ekki alltaf skila sér með þeim hætti í skólastarfinu að í henni sé fólgin hvatning til frekari þróunar þess og umbóta.

 

7. viðmið: Unnið sé að faglegri starfsþróun á árangursríkan hátt á öllum stigum kerfisins. Margt starfsfólk skóla hefur efasemdir um að grunnmenntun þess og/eða tækifæri til faglegrar starfsþróunar nýtist sem skyldi til undirbúnings fyrir skólastarf án aðgreiningar. Að áliti margra þeirra sem sinna menntamálum á vettvangi ríkis og sveitarfélaga fellur hvorki grunnmenntun né fagleg starfsþróun nægilega vel að markaðri stefnu ríkis og sveitarfélaga, og starfsfólk skóla nýtur því ekki nægilegs stuðnings til að innleiða menntun án aðgreiningar sem stefnu sem byggist á rétti hvers og eins.

 

Mat á viðmiðum og vísbendingum

Mat úttektaraðila Evrópumiðstöðvarinnar á viðmiðunum og vísbendingunum var byggt á þeim gögnum sem tekin voru til skoðunar. Hópurinn komst að einróma niðurstöðu um eftirtalin atriði:

  • Sjö vísbendingar voru taldar vera á því stigi að vinna þyrfti að hefjast, í þeim skilningi að undirbúningur væri skammt á veg kominn eða starf ekki hafið, og því þyrfti að huga sérstaklega að þeim.
  • 31 vísbending var talin vera á því stigi að úrbóta væri þörf í þeim skilningi að framkvæmd þeirra væri ófullburða, eða misjöfn eftir skólum, aldurshópum eða sveitarfélögum, en starfið sem þegar hefði verið unnið mætti leggja til grund­vallar frekari vinnu í framtíðinni.
  • Ein vísbending var talin vera orðin föst í sessi, þ.e. hún hefði komist til fram­kvæmda á varanlegan hátt í stefnumótun og framkvæmd í öllum skólum, aldurshópum og sveitarfélögum.
  • Öll viðmiðin sjö voru í heild talin vera á því stigi að úrbóta væri þörf.

Þessi niðurstaða er í samræmi við það sem búast mátti við. Viðmiðin sem mótuð voru með vinnu íslenska starfshópsins og einstakra hópa íslenska skólasamfélagsins eru í eðli sínu atriði sem teljast eftirsóknarverð. Þess var því ekki að vænta að mörg þeirra væru þegar föst í sessi í menntakerfinu. Þótt flestar vísbendingar og öll viðmið séu talin vera á því stigi að „úrbóta sé þörf“ getur sú staða aðeins talist jákvæð. Af henni má ráða að vinna er hafin og að grunnur hefur verið lagður að frekari umbótum.

 

Hér má finna úttekt á framkvæmd stefnu um menntun fyrir alla á Íslandi.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum