Hoppa yfir valmynd

Tillögur úttektarhópsins

Settar eru fram sjö megintillögur um æskilegar ráðstafanir, ein fyrir hvert þeirra sjö viðmiða sem liggja öllum þáttum úttektarinnar til grundvallar:

 1. Tryggt verði að allir í skólasamfélaginu líti á skólastarf án aðgreiningar sem grundvöll gæðamenntunar fyrir alla nemendur. Í þessu skyni þarf að efna til umræðna meðal þeirra sem sinna menntamálum á vettvangi ríkis og sveitarfélaga um hvers konar skólar og lærdómssamfélög séu eftirsóknarverð og bestu leiðirnar að því takmarki.
   
 2. Tryggt verði, með hliðsjón af niðurstöðu slíkra umræðna, að löggjöf og stefnu­mótun á vettvangi ríkis og sveitarfélaga stuðli að uppbyggingu menntunar án aðgreiningar á grundvelli réttar hvers og eins. Löggjöf og stefnumótun á sviði menntunar án aðgreiningar á öllum skólastigum þarf að byggjast á því að styðja alla nemendur til virkrar þátttöku, örva áhuga þeirra og gefa þeim sem fjölbreyttust tækifæri til náms.
   
 3. Mörkuð stefna ríkis og sveitarfélaga á sviði menntunar án aðgreiningar verði nýtt til að festa í sessi stjórnunarhætti og gæðastjórnunaraðferðir sem stuðla að árangursríkri framkvæmd á öllum stigum kerfisins. Skýra þarf betur einstök þrep stjórnskipunarinnar, þ.e. vinnuferla og kerfisþætti sem stuðla að samhæfðri starfsemi á einstökum skólastigum og hjá starfsfólki menntakerfisins.
   
 4. Til þess að tryggja góðan árangur af framkvæmd markaðrar stefnu á öllum stigum kerfisins verði teknar upp sveigjanlegar reglur um ráðstöfun fjármuna sem auka hæfni kerfisins til að vinna að menntun án aðgreiningar. Í þessu skyni ber að hverfa frá viðbragðsmiðuðum fjárframlögum og leggja þess í stað áherslu á íhlutun og forvarnir, en einnig þarf að endurskoða allar reglur um fjárframlög frá grunni. Leggja ber áherslu á að draga úr formlegum kröfum um greiningu, því að þær hafa leitt til þess að helsta leiðin til að veita nemendum sem eiga í erfiðleikum í námi viðeigandi aðstoð er að flokka þá í samræmi við greinda þörf.
   
 5. Byggt verði upp, bæði í grunnmenntun og í formi faglegrar starfsþróunar, námsframboð fyrir fagfólk sem fellur vel að stefnumörkun ríkis og sveitarfélaga og áætlunum á sviði skólaþróunar, til þess að allir þeir sem vinna að menntamálum eigi þess kost að tileinka sér árangursrík vinnubrögð á grundvelli stefnu um menntun án aðgreiningar. Í þessu skyni þarf að setja lágmarksviðmið um veitta þjónustu á grundvelli markaðrar stefnu ríkis og sveitarfélaga um menntun án að­grein­ingar, öllum þeim til leiðbeiningar sem sinna menntun og þjálfun á þessu sviði. Ætla má að þannig megi tryggja eðlilegt samræmi grunnmenntunar og starfs­þróunar og gefa starfsfólki færi á að þroska með sér jákvæð viðhorf og gildi, auk þess að efla þekkingu, skilning og kunnáttu allra þeirra sem sinna menntamálum á öllum stigum kerfisins.
   
 6. Aukin verði geta stuðningskerfa á öllum skólastigum til að laga námsumhverfið að menntun án aðgreiningar með heilstæðu framboði á stuðningi og aðstöðu. Stuðningskerfið verður að taka á misvægi í aðgangi að námi og námsaðstöðu sem rekja má til aldurs og búsetu. Tryggja verður nemendum, aðstandendum þeirra og skólum lágmarksaðstoð óháð búsetu og því hvaða skóla nemendurnir sækja.
   
 7. Efld verði geta allra sem starfa á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi til að ígrunda og framkvæma dagleg störf sín með menntun án aðgreiningar að leiðar­ljósi og til að byggja upp lærdómssamfélög án aðgreiningar. Styðja þarf allt starfs­fólk skóla til að taka ábyrgð á því, sem einstaklingar og í sameiningu, að komið sé til móts við þarfir allra nemenda. Kanna þarf enn frekar en gert hefur verið hvernig hægt er að efla sjálfsrýni og þróunarstarf í skólum og skólaþjónustu.

Tillögurnar sjö eru tengdar verkefnum sem nauðsynlegt er talið að ráðast í til að tryggja að viðmið og vísbendingar, sem skilgreindar hafa verið, festist í sessi sem þættir í stefnumótun og framkvæmd íslenska menntakerfisins.

Mikilvægar lyftistangir

Ógerningur er að koma öllum tillögunum í framkvæmd samtímis – og óvíst er að slík nálgun myndi skila bestum árangri. Bent er á verkefni sem brýnt þykir að koma til framkvæmda sem fyrst til að tryggja góðan árangur menntakerfisins. Um er að ræða þrjú nátengd forgangsverkefni sem líta má á sem mikilvægar lyftistangir og forsend­ur þess að gera megi ráðstafanir til lengri tíma og bregðast sérstaklega við þeim vísbendingum sem úttektin leiddi í ljós að hefja þyrfti vinnu við. Þessar lyftistangir eru lykillinn að því að tryggja að tillögur komist til framkvæmda og festist í sessi í menntakerfi án aðgreiningar á Íslandi. Þær eru taldar líklegastar til að stuðla að víðtækum kerfisbreytingum:

 • Efna þarf til víðtækra umræðna meðal þeirra sem vinna að menntamálum, í öllum sveitarfélögum, skólum og skólastigum, um hvernig best verði staðið að menntun án aðgreiningar.
 • Ráðast þarf í athugun og endurskoðun á núverandi reglum um ráðstöfun fjár­muna með aukinn árangur og meiri hagkvæmni fyrir augum.
 • Efna þarf til umræðna með það að markmiði að ná samkomulagi um lágmarks­viðmið um veitta þjónustu sem styðja við menntun án aðgreiningar í öllum skólum.

Hugmyndinni um þrjár mikilvægar lyftistangir er varpað fram gagngert í því skyni að örva frekari umræður og til stuðnings áframhaldandi vinnu við þróun mennta­kerfisins. Þær geta þjónað sem umræðugrundvöllur með það að markmiði að ná samstöðu meðal starfsfólks á öllum skólastigum um eftirtalin atriði:

 • Nauðsynlega þjónustu við skólakerfið, eða lágmarksbjargir sem aðgengilegar þurfa að vera.
 • Fyrirkomulag stuðnings við umbætur og þróun í kerfinu.
 • Skipan eftirlits í kerfinu og málefnasvið sem vinna ber að til að tryggja árangursríka framkvæmd allra kennsluúrræða.
 • Stefnumál og markmið sem telja má að geti leitt til árangurs í menntakerfi án aðgreiningar.
 • Endurskoðuð viðmið og vísbendingar sem notaðar verða sem leiðarljós til framtíðar í íslensku menntakerfi.

Úttekt á framkvæmd stefnu um menntun fyrir alla á Íslandi í heild

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira