Hoppa yfir valmynd

Orðskýringar

Leikskóli er fyrsta skólastigið í skólakerfinu og er fyrir börn undir skólaskyldualdri. Sbr. 1. gr. laga nr. 90/2008.

Sérfræðiþjónusta í leikskóla

Í sérfræðiþjónustu felst annars vegar stuðningur við nemendur og fjölskyldur þeirra og hins vegar stuðningur við starfsemi grunnskóla og starfsfólk. Sveitarfélög reka sérfræðiþjónustu fyrir leikskóla. Í sérfræðiþjónustu felst annars vegar stuðningur við leikskólabörn og fjölskyldur þeirra og hins vegar stuðningur við starfsemi leikskóla og starfslið þeirra. Sveitarfélög ákveða fyrirkomulag sérfræðiþjónustu en stuðla að því að hún geti farið fram innan leikskóla. Sbr. 21. gr. laga nr. 90/2008.

Foreldraráð leikskóla

Hlutverk foreldraráðs, sem kosið er árlega, er að gefa umsagnir til leikskóla og nefndar um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans. Þá fylgist ráðið með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum. Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiriháttar breytingar á leikskólastarfi. Sbr. 11. gr. laga nr. 90/2008.

Þróunarleikskólar

Ráðherra getur veitt sveitarfélögum og sjálfstætt reknum leikskólum heimild til að reka þróunarleikskóla eða gera tilraunir með ákveðna þætti skólastarfs með undanþágu frá ákvæðum laga, reglugerða og aðalnámskráa. Slíkum tilraunum eru sett tímamörk og kveðið á um úttekt að tilraun lokinni. Sbr. 29. gr. laga nr. 90/2008.

Innra mat leikskóla

Á grundvelli markmiða um mat og eftirlit með gæðum starfs í leikskólum metur sérhver leikskóli með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs, með virkri þátttöku starfsmanna, barna og foreldra eftir því sem við á. Leikskóli birtir opinberlega upplýsingar um innra mat sitt, tengsl þess við skólanámskrá og áætlanir um umbætur.Sbr. 18. gr. laga nr. 90/2008.

Ytra mat leikskóla

Sveitarfélög sinna mati og eftirliti með gæðum skólastarfs og láta ráðuneyti í té upplýsingar um framkvæmd skólahalds, innra mat skóla, ytra mat sveitarfélaga, framgang skólastefnu sinnar og áætlanir um umbætur. Sveitarfélög skulu fylgja eftir innra og ytra mati þannig að slíkt mat leiði til umbóta í skólastarfi. Menntamálaráðuneyti annast greiningu og miðlun upplýsinga um starf leikskóla á grundvelli upplýsinga frá sveitarfélögum og með sjálfstæðri gagnaöflun. Sbr. 19. og 20. gr. laga nr. 90/2008.

Þagnarskylda í leikskóla

Starfsfólki leikskóla ber að gæta fyllstu þagmælsku, um hagi barna og foreldra þeirra, sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanna og eðli máls. Þagnarskylda helst þótt viðkomandi láti af störfum. Þagnarskylda starfsfólks leikskóla nær ekki til atvika sem ber að tilkynna um lögum samkvæmt. Leikskólastjóra ber að brýna skyldur þessar fyrir starfsfólki og sérstaklega tilkynningarskyldu þess samkvæmt barnaverndarlögum.

Ráðningar í leikskóla

Óheimilt er að ráða til starfa við leikskóla einstakling sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Við ráðningu á að liggja fyrir sakavottorð eða heimild leikskólastjóra til að afla upplýsinga úr sakaskrá.

Aðalnámskrá leikskóla

Uppeldis- og menntunarhlutverk leikskóla endurspeglast í aðalnámskrá. Þar er fjallað um markmið fyrir námssvið leikskólans, foreldrasamstarf, þróunarstarf, mat á leikskólastarfi og tengsl leikskóla og grunnskóla. Í aðalnámskrá eru hæfniþættir á námssviðum leikskólans skilgreindir í samræmi við aldur og þroska barna. Sbr. 13. gr. laga nr. 90/2008.

Skólanámskrá leikskóla

Í hverjum leikskóla skólanámskrá gefin út og er leikskólastjóri ábyrgur fyrir gerð hennar. Skólanámskrá er nánari útfærsla á aðalnámskrá leikskóla og felur í sér uppeldis- og námsáætlun leikskóla þar sem markmið eru sett og skilgreindar leiðir að þeim markmiðum. Skólanámskrá tekur mið af sérstöðu skóla og skólastefnu viðkomandi sveitarfélags. Skólanámskrá skal endurskoða reglulega. Leikskólastjóri gefur árlega út sérstaka starfsáætlun. Í starfsáætlun er gerð grein fyrir árlegri starfsemi leikskóla, svo sem skóladagatali og öðru því sem varðar starfsemi leikskólans. Sbr. 14. gr. laga nr. 90/2008.

Skólaskylda á grunnskólastigi er að jafnaði í 10 ár, en getur verið skemmri. Öllum börnum, að jafnaði á aldrinum 6-16 ára, er skylt að sækja grunnskóla. Sbr. 3. gr. laga nr. 91/2008.

Aðalnámskrá grunnskóla

Í aðalnámskrá er kveðið á um meginmarkmið náms og kennslu, uppbyggingu og skipan náms, svo og hlutfallslega skiptingu tíma milli námssviða og námsgreina í grunnskóla. Námið sé sem heildstæðast, en hver grunnskóli ákveður hvort námsgreinar og námssvið eru kennd aðgreind eða samþætt. Í aðalnámskrá skal skilgreina þekkingar- og hæfniþætti á hverju námssviði. Sbr. 25. gr. laga nr. 91/2008.

Skólanámskrá grunnskóla

Skólanámskrá er nánari útfærsla hvers grunnskóla á aðalnámskrá. Skólanámskrá tekur mið af sérstöðu grunnskóla og aðstæðum og er endurskoðuð reglulega. Í henni er útfærsla á markmiðum og inntaki náms og námsmati annars vegar en  starfsháttum og mati á árangri og gæðum skólastarfs hins vegar. Sbr. 29. gr. laga nr. 91/2008.

Námsmat í grunnskóla

Mat á árangri og framförum nemenda er reglubundinn þáttur í skólastarfi. Tilgangur þess er að fylgjast með því hvernig nemendum tekst að mæta markmiðum aðalnámskrár og ná námsmarkmiðum sínum, örva nemendur til framfara og meta hverjir þurfa á sérstakri aðstoð að halda. Sbr. 27. gr. laga nr. 91/2008.

Samræmt námsmat grunnskóla

Mennta- og menningarmálaráðuneyti stendur fyrir samræmdu námsmati í grunnskólum með könnunarprófum og annast framkvæmd námsmatsins. Samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði skulu lögð fyrir alla nemendur í 4. og 7. bekk grunnskóla. Nemendur  í fyrri hluta 10. bekkjar skulu þreyta samræmd könnunarpróf í íslensku, stærðfræði og ensku. Sbr. 39. gr. laga nr. 91/2008.

Sérfræðiþjónusta í grunnskóla

Sveitarfélög tryggja að sérfræðiþjónusta sé veitt í grunnskólum, ákveða fyrirkomulag hennar og stuðla að því að hún fari fram innan grunnskóla. Í sérfræðiþjónustu felst annars vegar stuðningur við nemendur og fjölskyldur þeirra og hins vegar stuðningur við starfsemi grunnskóla og starfsfólk þeirra. Innan hvers skóla samræmir skólastjóri störf þeirra sem sjá um málefni einstakra nemenda er lúta að sérfræðiþjónustu, námsráðgjöf og skólaheilsugæslu með stofnun nemendaverndarráðs. Jafnframt er stuðlað að samráði við félagsþjónustu sveitarfélags og barnaverndaryfirvöld vegna málefna einstakra nemenda eftir því sem þurfa þykir. Sbr.40. gr. laga nr. 91/2008.

Gjaldfrjálsir áfangar í  grunnskólanámi

Grunnskólalögin miða að því að kennsla og námsgögn í skyldunámi skuli veitt nemendum þeim að kostnaðarlausu. Hið sama á við um nám grunnskólanemenda í framhaldsskóla ef námið er hluti af grunnskólanámi. Sé námið ekki tengt námi í grunnskóla gilda ákvæði framhaldsskólalaga um innritunargjald og efnisgjald. Sé nám metið sem hluti af bæði grunn- og framhaldsskólanámi segir að viðkomandi skólar skuli gera samkomulag um kostnaðarskiptinguna. Sbr. 31. gr. laga nr. 91/2008.

Nám á framhaldsskólastigi er skipulagt sem framhald af námi á grunnskólastigi. Það miðar að lokaprófi, svo sem framhaldsskólaprófi, starfsréttindaprófi, stúdentsprófi eða öðrum skilgreindum námslokum, sem geta verið miðuð við tiltekin störf og veitt sérstök réttindi þeim tengd. Sbr. 1. gr. laga nr. 92/2008.

Starfsgreinaráð fyrir framhaldsskóla

Mennta- og menningarmálaráðherra gefur út reglur1) um viðurkenningu háskóla sem byggjast á alþjóðlegum viðmiðum um háskólastarfsemi. Viðurkenning háskóla er bundin við tiltekin fræðasvið.

Kjarnaskóli framhaldsskóla

Ráðherra getur gert framhaldsskóla að kjarnaskóla á tilteknu sviði um lengri eða skemmri tíma. Kjarnaskóli hefur forgöngu um að þróa námsefni, námsskipan og kennsluaðferðir og aðstoðar aðra skóla og fyrirtæki við umbætur í kennslu og þjálfun á viðkomandi sviði. Sbr. 29. gr. laga nr. 92/2008.

Aðalnámskrá framhaldsskóla

Í almennum hluta aðalnámskrár verður kveðið á um fjölmörg atriði sem varða almenna menntastefnu og skólahald í framhaldsskólum. Þar verður jafnframt kveðið á um þau atriði sem framhaldsskólum ber skylda til að útfæra nánar við gerð skólanámskrár. Í aðalnámskrá verða einnig ákvæði um uppbyggingu námsbrautarlýsinga. Sbr. 21. gr. laga nr. 92/2008.

Einingakerfi framhaldsskóla

Vinna nemenda er metin í stöðluðum námseiningum. Eitt námsár, sem mælir alla ársvinnu nemanda með fullnaðarárangri, veitir 60 einingar. Er þá miðað við að árlegur fjöldi vinnudaga nemenda sé að lágmarki 180 dagar. Sbr. 15. gr. laga nr. 92/2008.

Framhaldsskólapróf

Til að útskrifast með framhaldsskólapróf skal nemandi hafa lagt stund á nám sem svarar til 90–120 eininga samkvæmt námskrá. Sbr. 16. gr. laga nr. 92/2008.

Starfsréttindapróf framhaldsskóla

Til að útskrifast með starfsréttindapróf frá framhaldsskóla skal nemandi hafa lokið námi með fullnaðarárangri samkvæmt námskrá. Sbr. 17. gr. laga nr. 92/2008.

Stúdentspróf framhaldsskóla

Námsbraut til stúdentsprófs skal innihalda að lágmarki 45 námseiningar er skiptast milli náms í kjarnagreinum framhaldsskóla, þ.e. íslensku, stærðfræði og ensku, samkvæmt nánari ákvæðum í aðalnámskrá. Stúdentspróf miðar fyrst og fremst að því markmiði að undirbúa nemendur undir nám á háskólastigi. Námstími til stúdentsprófs getur verið mismunandi eftir einstaklingum og brautum. Sbr. 18. gr. laga nr. 92/2008.

Réttur til náms á framhaldsskólastigi

Þeir sem lokið hafa grunnskólanámi, hafa hlotið jafngilda undirstöðumenntun eða hafa náð 16 ára aldri eiga rétt á að hefja nám í framhaldsskóla. Þeir sem rétt eiga á að hefja nám í framhaldsskóla samkvæmt málsgrein þessari eiga jafnframt rétt á því að stunda nám í framhaldsskóla til 18 ára aldurs. Sbr. 32. gr. laga nr. 92/2008.

Skólanámskrá framhaldsskóla

Sérhver framhaldsskóli skal gefa út skólanámskrá. Skólanámskrá skiptist í tvo hluta, almennan hluta og námsbrautarlýsingar. Í almennum hluta skólanámskrár skal gerð grein fyrir starfsemi skólans, helstu áherslum og stefnumörkun, stjórnskipan, námsframboði og skipulagi náms, kennsluháttum, námsmati, stuðningi, ráðgjöf og þjónustu við nemendur, réttindum og skyldum nemenda, foreldrasamstarfi og samstarfi við utanaðkomandi aðila, sjálfsmati og gæðamálum og öðru sem skóli kýs að kveða á um í skólanámskrá. Sbr. 22. gr. laga nr. 92/2008.nmál

Háskóli er sjálfstæð menntastofnun sem sinnir kennslu, rannsóknum, þekkingarleit og sköpun á sviðum vísinda, fræða, tækniþróunar eða lista. Háskólar mennta nemendur með kennslu og þátttöku í vísindarannsóknum og búa þá undir að gegna störfum sem krefjast vísindalegra vinnubragða, þekkingar og færni. Menntun, sem háskólar veita, tekur mið af þörfum samfélagsins hverju sinni og getur verið fræðilegs eðlis og starfsmiðuð. Sbr. 2. gr. laga nr. 63/2006

Háskólaráð

Háskólaráð markar heildarstefnu í kennslu og rannsóknum og mótar skipulag háskóla. Háskólaráð fer með almennt eftirlit með starfsemi háskólans í heild, einstakra skóla og háskólastofnana og ber ábyrgð á því að háskóli starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Sbr. 5. gr. laga nr. 85/2008. Skólar eru megineiningar háskóla og deildir grunneiningar. Háskólaráð ákvarðar hlutverk, mörk og verkaskiptingu milli skóla og kveður á um skipan þeirra í reglum. Hver skóli skiptist í deildir samkvæmt tillögu skólans sem lögð er fyrir háskólaráð. Sbr. 11. gr. laga nr. 85/2008.

Háskólafundur

Háskólafundur er samráðsvettvangur háskólasamfélagsins þar sem fram fer umræða um þróun og eflingu háskólans. Háskólafundur fjallar um og tekur þátt í að móta sameiginlega vísinda- og menntastefnu háskólans að frumkvæði rektors. Sbr. 9. gr. laga nr. 85/2008.

Forseti háskóla

Daglegri starfsemi skóla stýrir forseti. Rektor ræður forseta hvers skóla að undangenginni auglýsingu. Heimilt er rektor að kalla starfsmann háskóla til þess að vera forseti yfir skóla. Um tímalengd ráðningar fer samkvæmt reglum sem háskólaráð setur. Rektor setur forsetum erindisbréf. Í umboði háskólaráðs og rektors á forseti frumkvæði að mótun stefnu fyrir skóla, hefur eftirlit með starfi og stjórnsýslu hans og ræður til hans starfsfólk. Forseti ber ábyrgð á fjármálum og almennum gæðakröfum skóla gagnvart rektor og háskólaráði,  Sbr.12. gr. laga nr. 85/2008.

Skólaráð háskóla

Forseti og deildarformenn mynda skólaráð háskóla. Í skólaráði skal einnig sitja fulltrúi nemenda, einn eða fleiri, sem valinn er af nemendum samkvæmt reglum sem háskólaráð setur. Skólaráð fjallar um sameiginleg málefni skólans, þar á meðal ákvarðanir deilda um námsframboð. Háskólaráð setur nánari reglur um starfsemi skóla, stjórn þeirra, skiptingu skóla í deildir, hlutverk deildarformanna og skóla- og deildarfundi. Sbr. 13. gr. laga nr. 85/2008.

Dómnefndir í háskóla

Háskóli setur á fót dómnefnd til þess að meta hæfi þeirra sem sækja um akademísk störf eða fá boð um slíkt starf. Þeir sem hljóta akademískt starf við háskóla eða háskólastofnun skulu hafa lokið meistaraprófi hið minnsta eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar. Þeir skulu jafnframt hafa sýnt þann árangur í starfi að þeir njóti viðurkenningar á viðkomandi sérsviði. Sbr. 16. gr. laga nr. 85/2008.

Háskólaeiningar

Kennsla í háskólum fer fram í námskeiðum sem metin eru í stöðluðum námseiningum (ECTS). Að jafnaði svara 60 námseiningar til fulls náms á ársgrundvelli og endurspegla alla námsvinnu nemenda. Sbr. 6. gr. laga nr. 63/2006.

Prófgráður háskóla

Viðurkenndar prófgráður og lokapróf í háskólum: diplómapróf sem jafngildir a.m.k. 30–120 stöðluðum námseiningum, bakkalárpróf sem jafngildir a.m.k. 180–240 stöðluðum námseiningum, meistara- eða kandídatspróf sem jafngildir a.m.k. 90–120 stöðluðum námseiningum til viðbótar bakkalárprófi eða jafngildi þess, doktorspróf sem jafngildir að lágmarki 180 stöðluðum námseiningum til viðbótar tilskildum einingafjölda til meistara- eða kandídatsprófs. Sbr. 7. gr. laga nr. 63/2006.

Viðurkenning háskóla

Mennta- og menningarmálaráðherra veitir háskólum viðurkenningu að uppfylltum skilyrðum laga.  Menntamálaráðherra gefur út reglur um viðurkenningu háskóla sem byggjast á alþjóðlegum viðmiðum um háskólastarfsemi. Viðurkenning háskóla er bundin við tiltekin fræðasvið. Háskóli skal sækja um heimild til menntamálaráðherra óski hann eftir viðurkenningu til að stunda kennslu eða rannsóknir á öðru fræðasviði en viðurkenning hans nær þegar til. Háskólar geta eingöngu starfað á fræðasviðum sem viðurkenning þeirra nær til. Sbr. 3. gr. laga nr. 62/2006.

Viðmið um prófgráður háskóla

Mennta- og menningarmálaráðherra gefur út formleg viðmið um æðri menntun og prófgráður. Viðmið um æðri menntun og prófgráður eru kerfisbundin lýsing á prófgráðum og lokaprófum þar sem lögð er áhersla á almenna lýsingu á þeirri þekkingu, hæfni og færni sem námsmenn eiga að ráða yfir við námslok. Í þeim koma fram þau skilyrði sem háskólum ber að uppfylla á hverju námsstigi. Háskólum ber að birta sambærilegar lýsingar fyrir hverja námsleið á þeirri þekkingu, hæfni og færni sem námsmenn eiga að ráða yfir við námslok. Birta skal viðmiðin á íslensku og ensku. Sbr. 5. gr. laga nr. 62/2006.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum