Hoppa yfir valmynd

Aðgerðaáætlun 2014-2017

Innviðauppbygging

1.1. Uppbygging öflugs gagnanets

Markmið: Uppbygging fjarskiptakerfisins verði í samræmi við fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2022.

Aðgerðir: Unnar verði og kynntar heildstæðar upplýsingar meðal annars um lög og reglur sem nauðsynlegt er fyrir opinbera aðila að taka mið af við uppbyggingu ljósleiðara og annarra fjarskiptainnviða.

Vinnuhópur geri tillögur að fyrirkomulagi faglegs stuðnings við opinbera aðila sem koma að uppbyggingu ljósleiðarakerfa og annarra fjarskiptainnviða.

Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Kostnaður: Framlag úr byggðaáætlun til þróunar, framsetningar og kynningar á upplýsingum og leiðbeiningum er áætlað 10 millj. kr. á ári á tímabilinu 2014–2017.

1.2. Orkumál

Markmið: Framleiðsla og dreifing raforku mæti þörfum atvinnulífs og almennings alls staðar á landinu hvað varðar flutningsgetu og afhendingaröryggi. Jafnaður verði milli landshluta kostnaður við flutning og dreifingu á raforku.

Aðgerðir: Stefnt verði í átt að fullum jöfnuði milli dreifbýlis og þéttbýlis á kostnaði við dreifingu raforku og kostnaði við húshitun með greiðslum úr ríkissjóði, lagabreytingum eða jöfnun á kostnaði orkukaupenda á ólíkum svæðum.

Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Kostnaður: Kostnaður ríkissjóðs ræðst af því hvaða leið er farin við jöfnun kostnaðar.

1.3. Bættar samgöngur

Markmið: Vegfarendur komist leiðar sinnar innan og milli atvinnu- og þjónustusvæða á ódýran, fljótlegan og öruggan hátt.

Aðgerðir:

  1. Markmið um eflingu skilgreindra atvinnu- og þjónustusvæða verði skýrð í samræmi við samgönguáætlun 2011–2022 og formlegt mat lagt á líkleg áhrif einstakra framkvæmda á samgöngur innan þeirra.
  2. Í samgönguáætlun 2015–2018 verði lögð áhersla á að stækka núverandi atvinnu- og þjónustusvæði, auka umferðaröryggi og draga úr ferðatíma. Sérstök áhersla verði lögð á framkvæmdir á Vestfjörðum og Austurlandi. Einnig verði litið til mikilvægis ferðaþjónustunnar og tryggt að vegir haldist greiðfærir allt árið. Gerð verði áætlun um samgöngubætur og viðhald vega vegna mikilvægra ferðamannastaða.
  3. Skoðaðir verði möguleikar á samstarfi við einkaaðila um uppbyggingu byggða- og ferðamannavega um hálendið sem tengt geti mismunandi atvinnu- og þjónustusvæði átta til tólf mánuði á ári.
  4. Varanleg lausn verði fundin á vandanum við Landeyjahöfn.
  5. Flugvöllur í Reykjavík verði áfram í nálægð við stjórnsýslu og aðra þjónustu.
  6. Áfram verði stutt við áætlanir flugklasans á Norðurlandi um að tryggja beint millilandaflug til Akureyrar.

Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og undirstofnanir, sveitarfélög og landshlutasamtök þeirra.

Kostnaður:Kostnaður við samgönguáætlun er ákveðinn með fjárlögum hvers árs.

 

Sértækar aðgerðir

2.1. Brothætt byggðarlög

Markmið: Stöðva viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðakjörnum og í sveitum landsins.

Aðgerðir:

  1. Á tímabilinu 2014–2017 haldi Byggðastofnun áfram með verkefnið til stuðnings brothættum byggðum.
  2. Auknu fé verði varið til sértækra aðgerða sem byggist á niðurstöðu verkefnisins.

Ábyrgð: Byggðastofnun í samvinnu við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og landshlutasamtök sveitarfélaga.

Kostnaður: Kostnaður við verkefnið Brothættar byggðir er áætlaður 50 millj. kr. á ári á tímabilinu 2014–2017. Gert er ráð fyrir því að sú upphæð verði einnig nýtt til að fjármagna verkefni um stöðu og framtíð íslenskra landbúnaðarsamfélaga. Sérstakar fjárveitingar gætu komið til vegna einstakra aðgerða sem samstaða verður um að ráðast í.

2.2. Stuðningur við einstaklinga

Markmið: Fjölga vel menntuðum einstaklingum á varnarsvæðum landsins.

Aðgerðir:

  1. Vinnuhópi á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis verði falið að vinna tillögur að tilraunaverkefni til að fjölga vel menntuðu fólki á svæðum þar sem fólksfækkun er viðvarandi.
  2. Gerð verði úttekt á leiðum sem nýttar eru í nágrannalöndum til að styðja við einstaklinga búsetta á svæðum sem eiga undir högg að sækja.

Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Kostnaður: Enginn beinn kostnaður er við tillöguna.

2.3. Stuðningur við fyrirtæki

Markmið: Fjölbreytt atvinnustarfsemi geti dafnað á efnahagslega veikum svæðum.

Aðgerðir:

  1. Á tímabilinu 2014–2017 verði haldið áfram með sértækar aðgerðir vegna sjávarþorpa í alvarlegum og bráðum vanda. Metið verði á grundvelli reynslunnar hvort sams konar aðferðafræði verði tekin upp við úthlutun núverandi byggðakvóta.
  2. Jöfnun flutningskostnaðar og öðrum sambærilegum aðgerðum verði haldið áfram. Stuðningur sem snýr að jöfnun flutnings-, orku- og fjármagnskostnaðar verði samræmdur svo að hann nýtist sem best þeim svæðum sem verst standa.
  3. Skoðað verði hvort beita megi skattaívilnunum á borð við lækkun tryggingagjalds til að styðja við fyrirtæki á efnahagslega veikum svæðum.
  4. Markmið um viðhald búsetu og atvinnu í sveitum verði skýrð við endurskoðun stuðningskerfis landbúnaðarins.

Ábyrgð: Byggðastofnun í samvinnu við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og Bændasamtök Íslands.

Kostnaður: Enginn beinn viðbótarkostnaður er af fyrirhuguðum aðgerðum á tímabilinu 2014–2017.

 

Atvinnumál

3.1. Nýsköpun og vaxtargreinar

Markmið: Stuðlað verði að fjölbreyttu atvinnulífi og nýsköpun um allt land í samræmi við Atvinnustefnu fyrir Ísland.

Aðgerðir:

  1. Áhersla verði lögð á að efla gæði og sveigjanleika stoðkerfis atvinnulífsins í því skyni að bjóða frumkvöðlum og fyrirtækjum hagnýta og hvetjandi þjónustu sem mætir þörfum og leiðir til vaxtar og aukinnar samkeppnishæfni.
  2. Samkeppnissjóðir gegni áfram veigamiklu hlutverki til stuðnings nýsköpun og þróunarstarfi. Framlög til samkeppnissjóða verði hækkuð með reglubundnum hætti og aukin áhersla verði lögð á stuðning við markaðssetningu.
  3. Áfram verði lögð áhersla á klasasamstarf, sérstaklega þríhliða samstarf fyrirtækja, þekkingarstofnana og hins opinbera.
  4. Gjaldtaka af ferðamönnum verði þróuð áfram til að mæta fjárfestingarþörf í greininni.

Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Kostnaður: Enginn beinn viðbótarkostnaður er af fyrirhuguðum aðgerðum á tímabilinu 2014–2017.

3.2. Stuðningur við nýfjárfestingu og atvinnuuppbyggingu

Markmið: Nýfjárfesting í atvinnurekstri verði efld.

Aðgerðir:

  1. Stutt verði við nauðsynlega uppbyggingu innviða vegna iðnaðarsvæðisins á Bakka við Húsavík.
  2. Komi til uppbyggingar iðnaðarstarfsemi á Helguvíkursvæðinu munu stjórnvöld í samvinnu við sveitarfélög á svæðinu styðja við frekari uppbyggingu innviða með sambærilegum hætti.
  3. Á gildistíma áætlunarinnar verði unnin heildstæð úttekt og þarfagreining vegna mögulegrar aðkomu ríkisins að uppbyggingu iðnaðarhafna og iðnaðarsvæða í öðrum landshlutum sem verði liður í því að styðja við atvinnuuppbyggingu á svæðum sem eiga í vök að verjast.

Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Kostnaður: Gert er ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs vegna uppbyggingar innviða á Bakka og samninga um kísilver nemi um 3.400 millj. kr. Ekki liggur fyrir hver kostnaður ríkissjóðs verður komi til uppbyggingar iðnaðarstarfsemi á Helguvíkursvæðinu.

3.3. Dreifing opinberra starfa

Markmið: Stuðlað verði að fjölbreyttum atvinnutækifærum um allt land með dreifingu starfa á vegum ríkisins.

Aðgerðir:

  1. Staðsetning opinberra starfa verði notuð með markvissum hætti til að skapa störf og efla mannauð og fagumhverfi um land allt.
  2. Stefnt verði að því að á gildistíma áætlunarinnar snúist fækkun opinberra starfa utan höfuðborgarsvæðisins í fjölgun með nýjum verkefnum eða tilflutningi verkefna.
  3. Gerð verði heildarúttekt á umfangi og árangri af flutningi opinberra starfa hérlendis fyrir lok áætlunarinnar.

Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti í samstarfi við önnur ráðuneyti.

Kostnaður: Beinn kostnaður á tímabilinu er áætlaður 20 millj. kr.

3.4. Stoðkerfi hins opinbera

Markmið: Fyrirtæki og einstaklingar á landsbyggðinni hafi aðgengi að skilvirku og öflugu stoðkerfi atvinnuþróunar.

Aðgerðir:

  1. Áfram verði lagt fé til atvinnuþróunar, nýsköpunar og stoðkerfis atvinnulífsins. Áhersla verði lögð á að styðja við samstarfsverkefni og hvetja til samstarfsforma á borð við samvinnufélög til að sinna samfélagslega mikilvægum verkefnum.
  2. Stefnt verði að aukinni samræmingu aðgerða í gegnum sóknaráætlanir landshluta þar sem áherslur í atvinnulífi hvers landshluta verði lagðar.
  3. Stoðkerfi atvinnulífs verði tekið til endurskoðunar með þarfir notenda, einföldun og skilvirkni að leiðarljósi.

Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Kostnaður: Ekki er gert ráð fyrir umfangsmiklum breytingum á fjárframlögum til hins almenna stoðkerfis á tímabilinu 2014–2017.

3.5. Lánastarfsemi

Markmið: Fyrirtækjum á starfssvæði Byggðastofnunar verði tryggður aðgangur að lánsfjármagni á sambærilegum kjörum og fjármálafyrirtæki bjóða á höfuðborgarsvæðinu.

Aðgerðir:

  1. Gerð verði úttekt á lánastarfi Byggðastofnunar þar sem mat verði meðal annars lagt á reglubundinn kostnað af starfinu, ákvæði laga um varðveislu eigin fjár, fjármögnun tapaðra útlána og möguleika á auknu samstarfi við aðrar fjármálastofnanir, t.d. með veitingu ábyrgða.
  2. Afstaða verði tekin til þess hvort ákvæði um varðveislu eigin fjár í lögum um Byggðastofnun sé raunhæft og hvort ríkið eigi að styðja lánastarfsemina með föstum eiginfjárframlögum á hverju ári.

Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

Kostnaður: Enginn beinn kostnaður er áætlaður við þessa aðgerð.

 

Opinber þjónusta

4.1. Stefnumótun um opinbera þjónustu

Markmið: Íbúar landsins, óháð búsetu og efnahag, njóti sömu tækifæra hvað varðar aðgengi að opinberri grunnþjónustu og kröfur eru gerðar um í nútímasamfélagi.

Aðgerðir: Á tímabilinu 2014–2015 verði réttur landsmanna til grunnþjónustu í öllum landshlutum skilgreindur á helstu sviðum opinberrar þjónustu, svo sem að því er varðar heilbrigðisþjónustu, löggæslu, menntun, menningu, samgöngur og fjarskipti. Samráð verði haft við landshlutasamtök sveitarfélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem aðgengi að grunnþjónustu á öllum landsvæðum verði meðal annars metið og settar fram tillögur til úrbóta.

Ábyrgð: Byggðastofnun í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga og stýrinet stjórnarráðsins.

Kostnaður: Enginn beinn kostnaður er áætlaður vegna þessa verkefnis.

4.2. Opinberar upplýsingar á sviði byggðamála

Markmið: Stefnumótun í byggðamálum og framkvæmd hennar styðjist við traust gögn.

Aðgerðir:

  1. Á tímabilinu 2014–2017 verði efnt til samstarfs opinberra stofnana, sérstaklega Hagstofu Íslands og háskóla, um að byggja upp tölfræðilegan gagnagrunn á sviði byggðamála þar sem upplýsingar um þætti á borð við íbúaþróun, atvinnuþátttöku, tekjur, menntun og afkomu atvinnugreina verði aðgengilegar og samhæfðar við alþjóðlega gagnagrunna.
  2. Gerð verði rannsókn á orsökum búferlaflutninga á Íslandi og hvaða áhrifaþættir ráða búsetuvali kynjanna.
  3. Byggðastofnun kortleggi með beinum hætti hvar grunnþjónusta opinberra aðila og einkaaðila er staðsett og hversu langt íbúar þurfa að sækja þjónustuna. Þessi kortlagning verði undirstaða frekari stefnumörkunar um staðsetningu opinberrar þjónustu ríkisins.
  4. Leitað verði leiða til að efla fræðilegar rannsóknir á sviði byggðamála í samstarfi við íslenska og erlenda háskóla.

Ábyrgð: Byggðastofnun.

Kostnaður: Beinn kostnaður er áætlaður 20 millj. kr. á ári á tímabilinu 2014–2017.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum