Hoppa yfir valmynd

Kvísker

Kvísker er austasti bær í Öræfum. Að baki gnæfir Öræfajökull, framan við bæinn og á báðar hliðar eru víðáttur Breiðamerkursands sem oftar en ekki var umflotinn óbeisluðum jökulvötnum og í suðri brotnar úthafsaldan við sendna strönd. Fegurðin er ólýsanleg, andstæður í náttúrunni skarpar og ákjósanlegur vettvangur frjórra og skapandi hugsana. Þetta stórbrotna og fagra umhverfi var þó jafnframt vettvangur örlagaþrunginna atburða áður fyrr.

Saga Kvískerjasystkina er svo samofin að oft er eins og ekki verði þörf aðgreiningar. Þar voru allir fyrir einn og einn fyrir alla. En þó hafði hver sinn sérstaka blæ sem er umvafinn þokka, hlýju og birtu áranna liðnu. Systkinin á Kvískerjum voru og eru einstök í sinni röð. Á fræðisviðinu urðu þau sín eigin Akademía svo annálað þykir.

Kvískerjaheimilið

Á Kvískerjum ólust upp börn hjónanna Björns Pálssonar og Þrúðar Aradóttur, þau Flosi, Guðrún eldri, Ari, Guðrún yngri, Páll, Sigurður, Ingimundur, Helgi og Hálfdán.

Kvískerjasystkinin voru áhugasöm um ræktun lands og lýðs og á undan sinni samtíð varðandi náttúru- og gróðurvernd. Fylgdust gjörla með umhverfinu, misstu aldrei sjónar á gömlum gildum en voru órög að finna á þeim nýjan flöt. Það var eins og öll störf kæmu af sjálfu sér, hver heimilismaður fór ósjálfrátt til þeirra verka sem að kölluðu og honum hentuðu. Þó var eins og alltaf gæfist tími til fræðiiðkana og áhugamála. En þau sköruðust gjarnan og hver vissi gjörla um annars iðju.

Kynslóðabilið fræga fyrirfannst ekki. Þar var talað við börnin eins og fulltíða fólk – aldrei aðfinnslur né nöldur. Þar ríkti hlýja og eindrægni ásamt þeirri hófstillingu sem er nauðsynleg til þroska. Ærsl og bernskubrek voru umborin með duldu brosi.

Þau eru ófá börnin og fræðimennirnir sem dvalið hafa á Kvískerjum í lengri eða skemmri tíma í áranna rás og notið handleiðslu þessarar geðþekku fjölskyldu. Fjölskyldu sem með lífsverki sínu hefur sýnt að íslenskt alþýðuheimili getur jafnast á við fremstu háskóladeildir.

 

Systkinin á Kvískerjum

Flosi Björnsson, fæddur 13. desember 1906, lést 22. maí 1993.

Flosi lét ekki mikið að sér kveða um hin hversdagslegu málefni samfélagsins, en aflaði sér staðgóðrar menntunar i ýmsum fræðigreinum, lagði mikla stund á jökla- og náttúrurfræði og var sjálflærður í ýmsum erlendum tungumálum með aðstoð orðabóka og málakennslu útvarpsins. Öll menntun hann byggðist á heimanámi. Það kom helst í hlut Flosa vegna málakunnáttu hans að ræða við erlenda fræðimenn sem komu að Kvískerjum. Hann kom fram í spurningaþáttum í útvarpi sem og bræður hans fleiri og var þar öllu svarað skilmerkilega. 

Guðrún Björnsdóttir, fædd 30. apríl 1908, lést 7. desember 1991.

Það kom snemma í hlut Guðrúnar eldri að sjá um mikinn hlut heimilisstarfanna, einkum innanbæjar og hjálpa til við þjónustu og uppeldi yngri bræðra sinna. Hún hafði yndi af bóklestri og útiveru en gekk ekki heil til skógar og naut sín því ekki oft sem skyldi.

Ari Björnsson, fæddur 2. júní 1909, lést 1. maí 1982.

Búfjárhirðing á Kvískerjum mun lengi hafa hvílt einna mest á Ara, enda mun hann ungur að árum hafa fylgt föður sínum til þeirra verka. Ari var mjög áhugasamur um að kynbæta bústofninn og nutu sveitungar hans þar góðs af.

Guðrún Björnsdóttir, fædd 14. júlí 1910, lést 24. desember 1999.

 Guðrún yngri, ætíð kölluð Rúna átti löngum ásamt systur sinni og móður drjúgan þátt í gestamóttökum á Kvískerjum með hinum mesta myndarbrag og hlýju viðmóti. Enda voru þær allar samhuga i umönnun heimilisins. Hún var hannyrðakona og stundaði það töluvert meðan heilsan entist.

Páll Björnsson, fæddur 25. mars 1914, lést 14. mars 1993.

 Páll var á barnsaldri tekinn í fóstur hjá móðurafa sínum og ömmu, Ara Hálfdánarsyni og Guðrúnu Sigurðardóttur á Fagurhólsmýri og ólst hann þar upp með móðursystkinum sínum og átti þar heima til æviloka. Hann lærði á orgel hjá Bjarna Bjarnasyni á Brekkubæ í Nesjum og var organisti í Hofskirkju um nær 60 ára skeið. Hann hafði forgöngu um stofnun Slysavarnardeildar Öræfa og var fyrsti formaður hennar. Páll var verkmaður góður og hafði yndi af að kenna söng og var að öllu leyti ómetanlegur máttarstólpi heimili sínu og heimabyggð. Var lengi vitavörður í Ingólfshöfða.

Sigurður Björnsson, fæddur 24. apríl 1917, lést 10. apríl 2008.

 Sigurður var alkunnur félagsmála- og fræðimaður. Hann var léttur í lund, hafði skemmtilegan húmor og sagði vel frá. Penninn lék í höndum hans og hann hefur skráð sögu Öræfasveitar og ýmsar merkar frásagnir úr sveitinni. Ber þar hæst frásögn af því þegar hann lenti ofan í jökulgeil með höfuðið á undan. Æðruleysi hans vakti furðu og aðdáun en hann hafði ofan af fyrir sér, klemmdur ofan í geilinni, með því að syngja sálma. Þannig barst rödd hans til eyrna leitarmanna og hann fannst eftir margra klukkutíma leit. (Þórunn Sig) Sigurður stundaði oft vinnu utan heimilis. Hugðarefni hans hafa á síðustu árum einkum beinst að því að leita forna heimilda í byggðasögu og hefur hann gert ýmsar athyglisverðar uppgötvanir í því sviði. Sigurður hefur verið í ritnefnd Skaftfellings, sem komið hefur út frá árinu 1978 og ritað fjölmargar greinar í ritið. Einnig er að finna greinar eftir hann í Félagsvininum, riti Ungmennafélags Öræfa. Árið 2007, á nítugasta aldursári Sigurðar kom út bók hans, „Sótt fram – saga Sýslunefndar Austur-Skaftafellssýslu og þættir úr Öræfum“. Og er þá ekki nær allt upptalið.

Ingimundur Björnsson, fæddur 4. febrúar, 1921, lést 16. september 1962.

 Ingimundur var afburða röskleikamaður og velvirkur en átti oft við áhæga heilsu að búa, sem hamlaði atgervi hans. Hann var hestamaður góður og hafði yndi af veiði svo og öllum íþróttum.

Helgi Björnsson, fæddur 2. febrúar 1925, lést 27. september 2015.

 Helgi var einstakur hagleiksmaður og allt lék í höndunum á honum. Hann var góður teiknari og uppfinningamaður og frumkvöðull. Hann hefur fundið upp gripi sem létta mönnum störf, til dæmis verkfæri sem gerir rúning fjárins léttari. Útsjónarsemi hans kemur vel fram í engjahúsinu sem segja má að sé fyrsta „hjólhýsið” sem framleitt er á Íslandi. (Þórunn Sig.) Helgi er verkmaður góður og listasmiður. Helgi smíðaði m.a. skírnarfontinn í Hofskirkju. 

Hálfdán Björnsson, fæddur 14. mars 1927,  lést 10. febrúar 2017.

Hálfdán var sjálfmenntaður náttúrufræðingur og þjóðkunnur fyrir fjölbreytt náttúrugripasafn og frábæra þekkingu á jurta- og dýralífi, enda var hann valinn í náttúrufræðileiðangur til Grænlands á 6. áratugnum. Hálfdán stundaði nám að Laugarvatni vetrarlangt. Sagan segir að kennarar hafi ekki getað kennt honum neitt í náttúrufræði. Hann vissi þetta allt. Hluti af geysimiklu skordýrasafni hans er nú á Byggðasafninu á Höfn. Skordýrasafn hans er hið stærsta í einkaeign á landinu. 

 

Heimildir: Kvískerjabók, 1998. Greinar e. Þorstein Jóhannsson og Þórunni Sigurðardóttur. Yfirlestur og góðar ábendingar: Séra Einar Jónsson, sóknarprestur á Kálfafellsstað.

Síðast uppfært: 25.9.2017
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum