Hoppa yfir valmynd

Alþjóðavinnumálastofnunin

Merki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar

Alþjóðavinnumálastofnunin (International Labour Organization - ILO) hóf starfsemi árið 1919 á grundvelli ákvæða í friðarsamningunum sem voru undirritaðir í Versölum 28. júní 1918 og bundu enda á fyrri heimstyrjöldina. Þar er kveðið á um það að þjóðir heimsins skuldbindi sig til að koma á fót sérstakri stofnun sem hafi það hlutverk að ráða bót á þeim félagslegu vandamálum sem öll ríki eigi við að stríða. Frá árinu 1945 hefur Alþjóðavinnumálastofnunin verið ein af sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna. Það ár var samþykkt aðild Íslands að stofnuninni. 

Starfsemi

Starfsemi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar snýst fyrst og fremst um að skilgreina og samræma grundvallarréttindi í atvinnulífinu, vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og stefnumótun í félags- og vinnumálum og bæta aðstæður og efla öryggi á vinnustöðum. Þetta er m.a. gert með afgreiðslu samþykkta og tilmæla stofnunarinnar til aðildarríkjanna um að virða grundvallarréttindi atvinnurekenda og launafólks, um félagafrelsi, réttinn til að gera kjarasamninga, afnám nauðungarvinnu, takmörkun barnavinnu, jafnrétti til vinnu, rétti til almannatrygginga, aðstoðar vegna atvinnuleysis og fjölmörg önnur réttindamál á sviði félags- og vinnumála.

Samstarf fulltrúa ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks skapar Alþjóðavinnumálastofnuninni sérstöðu meðal annarra alþjóðastofnana. Þeir eiga aðild að stjórnun stofnunarinnar og taka þátt í umræðum og ákvörðunum sem eru teknar á vettvangi hennar. Alþjóðavinnumálaþingið (International Labour Conference) fer með æðsta vald ILO. Það kýs stjórnarnefnd (Governing Body) sem fer með málefni alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf (International Labour Office).

Alþjóðavinnumálaþingið

Alþjóðavinnumálaþingið kemur saman í Genf í júní ár hvert. Samkvæmt stofnskrá skulu aðildarríki senda til þingsins sendinefnd fjögurra fulltrúa hið minnsta. Tveir skulu vera fulltrúar hlutaðeigandi ríkisstjórnar, einn fulltrúi samtaka atvinnurekenda og einn fulltrúi samtaka launafólks. Að auki er heimilt að senda til þingsins sérfræðinga. Algengast er að félags- og vinnumálaráðherrar fari fyrir sendinefndunum. Á Alþjóðavinnumálaþinginu er fjallað um aðkallandi viðfangsefni á svið félags- og vinnumála. Þingið afgreiðir samþykktir og tilmæli sem ber að kynna fyrir löggjafarsamkomum aðildarríkjanna. Enn fremur er fjallað um framkvæmd aðildarríkjanna á samþykktum og tilmælum stofnunarinnar. Á þinginu er jafnframt samþykkt fjárhagsáætlun stofnunarinnar og kosin stjórnarnefnd alþjóðavinnumálaskrifstofunnar.

Framkvæmdastjórn

Stjórnarnefnd ILO er framkvæmdastjórn stofnunarinnar. Hún kemur saman þrisvar á ári í Genf. Nefndin leggur drög að stefnu ILO og samþykkir tillögu að framkvæmda- og fjárhagsáætlun sem Alþjóðavinnumálaþingið tekur til umfjöllunar og afgreiðslu. Stjórnarnefndin kýs alþjóðavinnumálaskrifstofunni forstjóra til fimm ára í senn. Samkvæmt stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eiga 56 fulltrúar sæti í stjórnarnefnd hennar. Þar af eru 28 ríkisstjórnarfulltrúar, fjórtán fulltrúar launafólks og fjórtán fulltrúar atvinnurekenda. Ríkisstjórnir tíu helstu iðnríkja heimsins tilnefna tíu fulltrúa en hinir átján eru kosnir af fulltrúum ríkisstjórna á Alþjóðavinnumálaþinginu. Varamenn kjörinna fulltrúa taka þátt í störfum stjórnarnefndarinnar og hafa þar málfrelsi en ekki atkvæðisrétt.

Alþjóðavinnumálaskrifstofan starfar undir eftirliti stjórnarnefndarinnar og undir yfirstjórn forstjóra skrifstofunnar sem er kosinn til fimm ára í senn. Á vegum skrifstofunnar starfa um 2700 starfsmenn frá yfir 150 þjóðum í höfuðstöðvunum í Genf og á 40 skrifstofum sem settar hafa verið upp víða um heim vegna tækni- og þróunaraðstoðar.

Grundvallarsamþykktir

ILO hefur skilgreint átta samþykktir sem grundvallarsamþykktir stofnunarinnar. Þær eru nr. 29, um nauðungarvinnu eða skylduvinnu, nr. 87, um félagafrelsi og verndun þess, nr. 98 , um beitingu grundvallarreglnanna um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega, nr. 100. um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafn verðmæt störf, nr.105, um afnám nauðungarvinnu, nr.111, um misrétti með tilliti til atvinnu og starfs, nr.138, um lagmarksaldur við vinnu, og nr. 182, um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og tafarlausar aðgerðir til að afnema hana.

Alþjóðavinnumálastofnunin

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 9.3.2022 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum