Hoppa yfir valmynd

Saga Alþjóðavinnumálastofnunarinnar

Aðdragandi

Þótt Alþjóðavinnumálastofnunin (International Labour Organization – ILO) eigi upphaf sitt að rekja til ársins 1919 er hugmyndin um stofnun samtaka sem yrðu sameiginlegur vettvangur fulltrúa ríkisvalds, atvinnurekenda og launafólks, þar sem mótuð yrði stefna í félagslegum umbótamálum, mun eldri. Framfarasinnaðir hagfræðingar og félagsfræðingar 19. aldarinnar töldu þær aðstæður sem iðnbyltingin hafði skapað launafólki með öllu óviðunandi. Nýjar hugmyndir um jafnrétti, bættar vinnuaðstæður og félagslegt öryggi náðu eyrum manna og fengu hljómgrunn. Umbótasinnaðir félagsfræðingar eins og til dæmis Robert Owen voru þeirrar skoðunar að bætt vinnuskilyrði hækkuðu launakostnað sem leiddi til lakari samkeppnisstöðu gagnvart öðrum löndum og iðngreinum. Af þessari ástæðu hvöttu þeir stjórnvöld Evrópu til að gera alþjóðasamninga um bætt vinnuskilyrði og styttri vinnudag.

Fyrsti áþreifanlegi árangurinn var alþjóðaráðstefna sem haldin var í Berlín árið 1890 með þátttöku fulltrúa frá 14 ríkjum. Þeir samþykktu ráðleggingar en án nokkurra skuldbindinga. Árið 1897 var haldin önnur ráðstefna, að þessu sinni í Brussel, sem samþykkti ályktun meðal annars um stofnun skrifstofu til verndar vinnandi fólki. Sá hluti ályktunarinnar sem snerti skrifstofuna varð ekki að veruleika en önnur ráðstefna sem haldin var þremur árum síðar í París lagði til stofnun Alþjóðasamtaka um vinnumálalöggjöf. Þessi stofnun, sem var staðsett í Basel, hóf að þýða og gefa út vinnumálalöggjöf margra landa í Lagatíðindum (Legislative Series). Alþjóðavinnumálastofnunin tók síðar við útgáfu tímaritsins sem kemur enn út.

Hin nýju samtök efndu til alþjóðaráðstefnu árið 1906 í því skyni að kanna hvort grundvöllur væri fyrir afgreiðslu tveggja alþjóðasamþykkta. Önnur hafði að markmiði að draga úr notkun á hvítum brennisteini sem er skaðlegur heilsu manna og var mikið notaður við eldspýtnagerð. Hinn fjallaði um bann við næturvinnu kvenna í iðnaði. Afgreiðsla þessara tveggja alþjóðasamþykkta markaði tímamót í tvennum skilningi. Um var að ræða fyrstu alþjóðasamþykktirnar sem snertu aðbúnað á vinnumarkaði. Í öðru lagi upphaf alþjóðasamþykkta sem miða að bættu öryggi og hollustu á vinnustöðum. Samtökin héldu starfinu áfram og börðust fyrir banni við næturvinnu ungs fólks og tíu tíma vinnudegi fyrir unglinga og konur. Fyrri heimstyrjöldin kom í veg fyrir afgreiðslu þessara tveggja alþjóðasamþykkta.

Alþjóðleg stofnun sem fjalli um vinnumál

Við lok fyrri heimstyrjaldarinnar opnuðust nýjar leiðir í alþjóðasamstarfi. Að beiðni samtaka launafólks í nokkrum ríkjum samþykkti friðarráðstefnan í París 1919 að stofna nefnd til að fjalla almennt um vinnurétt. Nefndin hafði nokkra sérstöðu vegna þess að í henni áttu ekki aðeins sæti fulltrúar ríkisstjórna heldur einnig talsmenn atvinnurekenda og launafólks. Í nefndinni sátu 15 fulltrúar, þeirra á meðal Bandaríkjamaðurinn Samuel Gomper, forseti Alþýðusambands Bandaríkjanna, sem var kjörinn formaður, og Frakkinn Leon Jouhaux sem síðar hlaut friðarverðlaun Nóbels.

Meðal nefndarmanna voru forsvarsmenn alþjóðanefndar um vinnumálalöggjöf, Arthur Fotaine frá Frakklandi, sem var kjörinn fyrsti formaður stjórnarnefndar ILO, Ernest Mahaim frá Belgíu, sem tók við formennskunni af Fotaine, sósíalistinn Emile Vandervede, einnig frá Belgíu, og Harold Butler frá Bretlandi en hann varð síðar forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar. Að loknu tíu vikna starfi afgreiddi vinnumálanefndin skjal er byggt var á breskum drögum, sem 11. apríl 1919 varð XIII. kafli friðarsamninganna sem kenndir eru við Versali. Í kaflanum er meðal annars kveðið á um það að komið skuli á fót sérstakri stofnun er hafi það hlutverk að reyna að ráða bót á þeim félagslegu vandamálum sem öll ríki eigi við að stríða og aðeins verði sigruð með sameiginlegu félagslegu átaki þjóðanna. Sérstaklega er tekið fram að varanlegur friður verði ekki tryggður nema félagslegu réttlæti sé fyrst komið á innan þjóðfélaganna sjálfra vegna þess að vísirinn að árekstrum sem leiða til styrjalda þjóða í milli leynist í því félagslega ranglæti sem milljónir manna búi við í hinum ýmsu löndum. Í því skyni viði stofnunin að sér upplýsingum um atvinnumál og ástand í félagsmálum, ákveði lágmarkskröfur og samræmi þær í hverju landi eftir aðstæðum þess og þörfum. Þessi kafli Versalasamningsins er kjarninn í stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Fyrstu starfsár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar

Fyrsta ársþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, Alþjóðavinnumálaþingið, var haldið í Washington í október 1919. Á þinginu var Albert Thomas frá Frakklandi kosinn fyrsti forstjóri skrifstofu stofnunarinnar, alþjóðavinnumálaskrifstofunnar.

Á millistríðsárunum var Alþjóðavinnumálastofnunin ein af stofnunum Þjóðabandalagsins og starfaði innan vébanda þess. Eftir því sem tímar liðu varð hún óháðari bandalaginu og gat með stuðningi ýmissa þjóða unnið að markmiðum sínum þótt mátt drægi úr Þjóðabandalaginu við það að sum stórveldi gengu úr því. Helstu viðfangsefni stofnunarinnar á þessum árum voru stytting vinnutíma, öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vernd vinnandi mæðra og vinnuaðstæður kvenna og ungs fólks. Árið 1946 gerðist ILO fyrsta sérstofnun Sameinuðu þjóðanna.

Skipulag og sérstaða stofnunarinnar

Samkvæmt 2. gr. stofnskrár ILO skulu fastastofnanir vera: Allsherjarþing fulltrúa frá þeim ríkjum sem aðild eiga, stjórnarnefnd og alþjóðavinnumálaskrifstofan. Í öllum þessum stofnunum eiga sæti fulltrúar atvinnurekenda, launafólks og ríkisstjórna. Samstarf þessara þriggja aðila er einstætt fyrir stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna og er eitt af grundvallaratriðunum í starfseminni.

Allsherjarþing ILO – Alþjóðavinnumálaþingið

Sérstaða Alþjóðavinnumálastofnunarinnar kemur glöggt fram í 3. gr. stofnskrárinnar um allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Þar kemur fram að fjórir fulltrúar frá hverju aðildarríki skuli eiga sæti á þinginu. Tveir skulu vera fulltrúar hlutaðeigandi ríkisstjórnar, annar hinna tveggja fulltrúi atvinnurekenda, en hinn fulltrúi launafólks viðkomandi ríkis. Í 5. tölul. 3. gr. skuldbinda aðildarríki sig til að nefna fulltrúa og ráðunauta aðila vinnumarkaðarins í samráði við heildarsamtök atvinnurekenda og launafólks. Á 46. Alþjóðavinnumálaþinginu 1962 var þetta ákvæði túlkað af kjörbréfanefnd með þeim hætti að hafa eigi samráð um val þessara fulltrúa. Þetta samráð sé haft við stærstu samtök aðila vinnumarkaðarins, ef slík samtök eru þar til, og fulltrúarnir valdir með samkomulagi við hlutaðeigandi heildarsamtök til þátttöku í Alþjóðavinnumálaþinginu.

Í 1. tölul. 4. gr. stofnskrárinnar er tekið fram að sérhver fulltrúi á rétt á því að greiða sjálfstætt atkvæði um öll mál sem tekin eru til meðferðar á þinginu. Í því skyni að viðhalda jafnvægi á milli fulltrúa aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórna er kveðið á um það í 2. tölul. greinarinnar að ef aðildarríki láti undir höfuð leggjast að nefna annan þeirra fulltrúa sem ekki er fyrirsvarsmaður ríkisstjórnar skal hinn fulltrúinn er eigi fer með fyrirsvar ríkisstjórnarinnar eiga sæti á þinginu og hafa þar málfrelsi en ekki atkvæðisrétt.

Alþjóðavinnumálaþingið kemur saman að jafnaði einu sinni á ári í júní og stendur í þrjár vikur. Þingið er haldið í hinni virðulegu höll sem reist var yfir Þjóðabandalagið í Genf og er kennd við það. Þingfulltrúarnir, þ.e. fulltrúar og ráðgjafar, voru um 4.000 árið 2009. Þess má geta að samkvæmt ákvæðum í stofnskrá ber að gefa löggjafarsamkomu aðildarríkis skýrslu um samþykktir og tilmæli Alþjóðavinnumálaþingsins. Á Íslandi er þessari skyldu fullnægt með skýrslu félagsmálaráðherra sem er lögð fyrir Alþingi.

Meginviðfangsefni Alþjóðavinnumálaþingsins er afgreiðsla alþjóðasamþykkta. Þær taka til allra þátta atvinnulífsins og félagslegs öryggis, svo sem félagafrelsis, vinnuumhverfis, vinnu, starfsmenntunar og -þjálfunar, misréttis á vinnumarkaðinum, vinnu barna og aðbúnað skipverja svo fátt eitt sé nefnt.

Í samþykktum ILO eru settar fram lágmarkskröfur. Með fullgildingu samþykktar skuldbindur aðildarríki sig til að uppfylla kröfur sem í flestum tilvikum snerta rétt þegnanna til félagslegs öryggis, til dæmis til öruggrar afkomu, vinnuumhverfis sem er skaðlaust heilsu þeirra o.s.frv. Að öðrum þræði fjalla samþykktirnar um skyldu aðildarríkis til afla á markvissan hátt upplýsinga um þróunina á vinnumarkaðinum, til dæmis um atvinnuleysi, framboð atvinnu, vinnutíma o.s.frv. Samtals hefur Alþjóðavinnumálaþingið afgreitt 188 alþjóðasamþykktir. Meðal þeirra merkustu eru samþykkt nr. 87, um félagafrelsi, nr. 98, um beitingu grundvallarreglnanna um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega, nr. 100, um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf, og nr. 111, um mismunun, meðal annars vegna kynferðis, með tilliti til starfs og launa. Ísland hefur fullgilt 18 alþjóðasamþykktir og þar af hafa fjórar verið fullgiltar á síðastliðnum tveimur árum.

Genfarskólinn

Genfarskólinn er skóli sem norrænu alþýðusamböndin reka á hverju ári í júní í tengslum við vinnumálaþingið í Genf. Skólahaldið, sem nýtur smávægilegs framlags stjórnvalda, hófst árið 1931. Um 40 nemendur stunda árlega nám í skólanum og fer kennsla fram í húsakynnum alþjóðavinnumálaskrifstofunnar. Nemendur fylgjast með framvindu Alþjóðavinnumálaþingsins og fá tilsögn í helstu þáttum alþjóðlegs vinnuréttar. Yfirleitt stunda tveir íslenskir nemendur á ári nám við skólann.

Alþjóðavinnumálaskrifstofan í Genf

Stjórnarnefnd alþjóðavinnumálaskrifstofunnar

Hlutverk stjórnarnefndar er meðal annars að annast framkvæmd ályktana sem Alþjóðavinnumálaþingið samþykkir, ákveða dagskrá vinnumálaþinganna, samþykkja starfsáætlun fyrir alþjóðavinnumálaskrifstofuna og ráða henni aðalforstjóra. Samkvæmt gildandi 7. gr. stofnskrárinnar eiga 56 fulltrúar sæti í stjórnarnefnd. Eru 28 fulltrúar ríkisstjórna, 14 fulltrúar atvinnurekenda og jafnmargir fulltrúar launafólks. Auk þess hafa 46 varamenn í stjórnarnefnd öll sömu réttindi önnur en atkvæðisrétt. Tíu af 28 fulltrúum ríkisstjórna eru tilnefndir af aðaliðnaðarríkjunum í heiminum. Fulltrúar þessara ríkja hafa ekki varamenn í stjórnarnefndinni.

Á 72. Alþjóðavinnumálaþinginu árið 1986 voru gerðar veigamiklar breytingar á 7. gr. stofnskrárinnar. Í þeim felst meðal annars að afnuminn er sá munur sem er á aðal- og varamönnum í stjórn. Einnig eru afnumin fastasæti aðal iðnaðarríkjanna. Jafnframt er fulltrúum í stjórnarnefnd fjölgað í 112 (56-28-28). Enn hefur tilskilinn fjöldi aðildarríkjanna ekki fullgilt þessar breytingar og hafa þær þar af leiðandi ekki gengið í gildi.

Alþjóðavinnumálaskrifstofan

Eins og áður er getið er eitt aðalhlutverk stjórnarnefndarinnar að samþykkja starfsáætlun fyrir alþjóðavinnumálaskrifstofuna sem hefur aðsetur í Genf. Helstu verkefni skrifstofunnar samkvæmt 10. gr. stofnskrárinnar er að annast rannsóknir á ýmsum þáttum félagsmála, einkum þeim sem snerta atvinnuhætti og samskipti aðila vinnumarkaðarins. Hún undirbýr þing, ráðstefnur og sérfræðingafundi með því að safna gögnum og semja skýrslur um þau málefni sem eru til umfjöllunar hverju sinni. Alþjóðavinnumálaskrifstofan annast upplýsingamiðlun og veitir margháttaða þjónustu. Innan skrifstofunnar er meðal annars að finna deildir sem sérhæfa sig í málefnum sem snerta hollustu og öryggi á vinnustöðum, þjálfun og endurmenntun og samvinnumál svo fátt eitt sé nefnt. Skrifstofan stendur fyrir fjölbreytilegri útgáfustarfsemi á bókum, tímaritum og hagskýrslum.

Alþjóðavinnumálaskrifstofunni er stjórnað af aðalforstjóra og þremur varaforstjórum. Auk aðalskrifstofunnar í Genf eru starfræktar svæðaskrifstofur í Afríku, Ameríku og Asíu. Starfsfólk er samtals um 3.000 og er tæpur helmingur þess á skrifstofunni í Genf. Einn Íslendingur hefur ráðist til starfa hjá alþjóðavinnumálaskrifstofunni. Það var Jóhann Guðmundsson sem var starfsmaður deildar er fjallar um samvinnumál. Jóhann lét af störfum um 1987 vegna aldurs. Þá hafði hann verið í þjónustu ILO í um þrjá áratugi. Þess má geta að áður en Jóhann réðist til starfa hjá alþjóðavinnumálaskrifstofunni var hann starfsmaður Sambands íslenskra samvinnufélaga.

Eftirlit

Fram er komið að eitt meginhlutverk Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er að setja reglur, alþjóðasamþykktir og tillögur um lágmarksréttindi og lágmarkskröfur á sviði félags- og vinnumála. Annað höfuðviðfangsefni stofnunarinnar er að fylgjast með því að reglum sé framfylgt.

Með fullgildingu alþjóðasamþykktar fellst aðildarríki á að haft sé alþjóðlegt eftirlit með því hvernig það framfylgir samþykktinni. Venjulega fer þetta fram með þeim hætti að hlutaðeigandi aðildarríki tekur saman skýrslu um framkvæmd þeirrar samþykktar sem það hefur fullgilt. Hún er tekin saman í samráði við helstu samtök aðila vinnumarkaðarins. Á Íslandi fer þetta samráð fram í svonefndri ILO-nefnd á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins en í henni sitja fulltrúar Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins auk fulltrúa ráðuneytisins sem er formaður. Skýrsla um framkvæmd alþjóðasamþykktar er lögð fyrir nefnd sérfræðinga Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem kannar hvort framkvæmdin sé í samræmi við ákvæði samþykktarinnar. Í henni eiga sæti 20 manns, allt sérfræðingar á sviði félagsfræði, lögfræði og hagfræði, en dómarar og prófessorar eru fjölmennir í nefndinni. Álit og sjónarmið hennar njóta mikils álits sem meðal annars kemur fram í því að oft er vitnað til álits sérfræðinganefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í öðrum alþjóðastofnunum sem vinna að hliðstæðum viðfangsefnum á sviði félagsmála.

Sérfræðinganefndin birtir niðurstöður sína í um 500 blaðsíðna skýrslu sem er til umfjöllunar í einni af þingnefndum Alþjóðavinnumálaþingsins. Eins og í öðrum stofnunum ILO sitja fulltrúar ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks í þingnefndinni. Um 300 þingfulltrúar taka þátt í fundum nefndarinnar og er hún þar með fjölmennasta þingnefndin á vinnumálaþinginu. Í nefndinni hefur skapast sú verklagsregla að fulltrúar aðila vinnumarkaðarins koma sér saman um að skrá yfir um 40 mál í skýrslunni sem tekin eru til umræðu í nefndinni. Þar eiga sér stað skoðanaskipti milli fulltrúa aðila vinnumarkaðarins og hlutaðeigandi ríkisstjórnar um atriði sem koma fram í athugasemdum sérfræðinganefndarinnar og önnur atriði sem fulltrúar vilja taka til umfjöllunar í sambandi við framkvæmd á hlutaðeigandi alþjóðasamþykkt eða varðandi skuldbindingar sem felast í stofnskrá ILO. Kemur ýmislegt til greina, til dæmis að ríkisstjórn hafi ekki gert löggjafarsamkomu aðildarríkis grein fyrir nýjum alþjóðasamþykktum, dráttur á skýrslugjöf um framkvæmd alþjóðasamþykkta eða ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda stofnunarinnar svo getið sé nokkurra algengra yfirsjóna.

Vanefndir á nokkrum grundvallarskuldbindingum eru litnar sérstaklega alvarlegum augum. Brot á stofnskránni er mjög alvarlegt, enn fremur brot á grundvallarsamþykktum sem snerta mannréttindi. Þeirra á meðal eru alþjóðasamþykkt nr. 87, um félagafrelsi, og samþykkt nr. 98, um beitingu grundvallarreglnanna um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega. Á síðustu áratugum hefur stofnunin fylgst náið með framkvæmd tveggja grundvallarsamþykkta á sviði jafnréttismála, þ.e. samþykkt nr. 100, um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf, og nr. 111, um misrétti með tilliti til atvinnu og starfs. Ísland hefur fullgilt allar framangreindar alþjóðasamþykktir.

Svo mikil áhersla er lögð á framkvæmd samþykkta nr. 87 og 98 að brot á þessum samþykktum eru rannsökuð af sérstakri nefnd, þ.e. nefnd um félagafrelsi. Nefndin tekur við ábendingum um ætluð brot á þessum samþykktum og gildir einu hvort ríkisstjórn sem í hlut á hefur fullgilt samþykktirnar eða ekki. Í fyrra tilvikinu er niðurstaða nefndarinnar send sérfræðinganefnd ILO til athugunar.

Aðild Íslands að Alþjóðavinnumálastofnuninni

Eftir því sem næst verður komist er Alþjóðavinnumálastofnunin fyrstu alþjóðalegu samtökin sem Ísland gekk í eftir lýðveldisstofnunina árið 1944. Upphafið má finna í þingsályktunartillögu sem Stefán Jóhann Stefánsson, alþingismaður og síðar forsætisráðherra, lagði fyrir Alþingi í september 1943 um athugun og undirbúning á þátttöku Íslands í alþjóðlegu félagsmálastarfi. Þingsályktunartillagan hljóðar svo: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram athugun á því, á hvern hátt Ísland gæti orðið þátttakandi í alþjóðlegu félagsmálastarfi með því að gerast meðlimur í Alþjóðlega vinnumálasambandinu (International Labour Organization) og þó sérstaklega, á hvern hátt Ísland gæti orðið aðili að Alþjóðlegu vinnumálaskrifstofunni (International Labour Office) sem aðsetur hafði áður í Genf í Sviss, en nú í Montreal í Kanada. Sé það athugað, hvaða kostnað það hefði í för með sér fyrir ísland. Athuganir sínar leggi ríkisstjórnin fyrir Alþingi, svo fljótt sem verða má.“

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir meðal annars að þegar Þjóðabandalagið hafi verið stofnað að lokinni heimsstyrjöldinni 1918 hafi samstarf um félagsmálefni verið talið nauðsynlegur þáttur í starfsemi bandalagsins. Þess vegna hafi Alþjóðavinnumálastofnunin, sem hafi rekið og starfrækt alþjóðavinnumálaskrifstofuna, verið stofnuð. Flutningsmaður rekur í greinargerðinni vonbrigði manna með starfshætti Þjóðabandalagsins en tekur sérstaklega fram að flestir hafi orðið að viðurkenna að starfsemi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og alþjóðavinnumálaskrifstofunnar hafi haft ómetanlegt gildi fyrir rannsóknir og samtök um endurbætur og nýsköpun á félagsmálum yfirleitt.

Þingsályktunartillagan var tekin til einnar umræðu í sameinuðu þingi 28. september 1943. Í framsöguræðu sinni rakti Stefán Jóhann tillögur Wilson, forseta Bandaríkjanna, sem lágu til grundvallar stofnun Þjóðabandalagsins og hugmyndir hans um það hve mikilvægt væri að koma á hagnýtum úrbótum í alþjóðlegu félagsmálastarfi. Hann vakti athygli á því sem kemur fram í forspjalli stofnskrár ILO um að orsaka styrjalda sé ekki síður að leita í félagslegu ranglæti innan þjóðfélaga en ágreiningi milli þjóða. Flutningsmaður gerði í ræðunni grein fyrir starfsemi stofnunarinnar og alþjóðavinnumálaskrifstofunnar og benti á að „nú eru svo mörg félagsleg mál á döfinni hjá íslenska ríkinu og gera má ráð fyrir, að þátttakan í Alþjóðlega vinnumálasambandinu verði ríkinu til mikils hagræðis við að fá góða lausn á þeim málum“. Þingsályktunartillaga Stefáns Jóhanns Stefánssonar um könnun á aðild Íslands að ILO var borin undir atkvæði 15. október 1943 og samþykkt með 27 samhljóða atkvæðum.

Alþingi heimilar umsókn

Hinn 14. nóvember 1944 var útbýtt í sameinuðu þingi þingsályktunartillögu um þátttöku í alþjóðlega „verkamálasambandinu“. Samkvæmt tillögunni ályktar Alþingi að fela ríkisstjórninni að sækja um fyrir Íslands hönd um upptöku í alþjóðlega vinnumálasambandinu (ILO) og greiða kostnað við þátttökuna úr ríkissjóði. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er vitnað til málefnasamnings ríkisstjórnarinnar en þar segir svo: „Ríkisstjórnin hefur ákveðið og tryggt, að samþykkt verði á Alþingi, að Ísland gerist nú þegar þátttakandi í I.L.O. eða þeirri stofnun, er við hennar störfum kann að taka.“

Þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar um þátttöku Íslands í Alþjóðavinnumálastofnuninni eða Alþjóðavinnumálasambandinu eins og stofnunin var kölluð á þessum árum var tekin til fyrri umræðu 24. nóvember l944. Framsögumaður tillögunnar var félags- og dómsmálaráðherra, Finnur Jónsson. Í framsöguræðunni gerði hann ítarlega grein fyrir skipulagi og starfsháttum ILO. Einnig kom fram í ræðu hans að Þórhallur Ásgeirsson hafi setið þing stofnunarinnar sem haldið var þá um vorið dagana 20. apríl til 5. maí í Fíladelfíu í Bandaríkjunum. Félagsmálaráðherra getur þess að Þórhallur hafi sent ríkisstjórninni greinargóða skýrslu um störf þingsins og getið helstu starfa „vinnumálasambandsins“ á liðnum árum. Segir hann að Þórhallur hafi eindregið hvatt til þátttöku og að raddir á þinginu hafi talið mjög æskilegt að Ísland stæði eigi utan við þessi alþjóðasamtök. Finnur tekur undir þetta álit í ræðu sinni með því að segja það augljóst „að gagn Íslendinga getur orðið margvíslegt, og er ekkert áhorfsmál, að þetta ber að samþykkja“. Þingsályktunartillögunni var vísað til síðari umræðu með 28 samhljóða atkvæðum. Hún fór fram í sameinuðu þingi 7. desember árið 1944 og var samþykkt með 27 samhljóða atkvæðum.

Aðild samþykkt

Næsta skref í átt að aðild Íslands var stigið haustið 1945. Hinn 19. október á 27. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem haldið var í París var lögð fram tillaga um aðild Íslands að stofnuninni. Tillagan var samþykkt samhljóða. Forseti þingsins gaf út tilkynningu 22. október 1945 um að Ísland væri orðið aðildarríki ILO. Í framhaldi af því flutti fulltrúi Íslands ræðu þar sem hann þakkaði stuðning þingfulltrúa við aðildarumsóknina. Þetta var Þórhallur Ásgeirsson, þá fulltrúi í utanríkisráðuneytinu en síðar ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneytinu.

Fyrsta Alþjóðavinnumálaþingið eftir að Ísland gerðist aðili að Alþjóðavinnumálastofnuninni var haldið í Seattle í Bandaríkjunum í byrjun júní 1946. Það var hið 28. í röðinni. Næsta þing var haldið í Montreal í Kanada dagana 19. september til 9. október 1946. Af hálfu Íslands sóttu þingið Thor Thors, sendiherra Íslands í Washington, og Þórhallur Ásgeirsson, fulltrúi í utanríkisráðuneytinu. Fulltrúi atvinnurekenda var Kjartan Thors og fulltrúi launafólks Pétur G. Guðmundsson.

Þess má geta að sumarið 1946 fór fulltrúi í félagsmálaráðuneytinu, Jón S. Ólafsson, vestur um haf til höfuðstöðva Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem voru í Kanada. Jón dvaldi í Kanada í sex mánuði og kynnti sér starfsemi alþjóðavinnumálaskrifstofunnar með það að markmiði að annast samskipti Íslands við ILO. Það gerði hann til dauðadags árið 1984, í tæplega fjóra áratugi, fyrst sem fulltrúi en síðar sem skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu.

Alþjóðavinnumálastofnunin

Sjá einnig:

Yfirlit um lög

Yfirlit um lög er varða vinnurétt er að finna á vef Alþingis

 

Alþjóðavinnumálastofnunin

Síðast uppfært: 9.3.2022 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum