Hoppa yfir valmynd

Vísinda- og tæknistefna 2020-2022

 

Öflugir samkeppnissjóðir eru forsenda fyrir árangri í rannsóknum og nýsköpun. Þeir eru lykilþáttur grósku í vistkerfi vísinda og nýsköpunar.

Styrkveitingar úr samkeppnissjóðum sem fylgja áherslum Vísinda- og tækniráðs byggjast á faglegum og gagnsæjum ferlum. Sjóðirnir gera ríkar kröfur til gæða og stuðla þannig að aukinni samkeppnishæfni í rannsóknum og nýsköpun á Íslandi.

Öflugir innlendir samkeppnissjóðir eru grundvöllur sóknar vísindamanna, frumkvöðla og fyrirtækja í alþjóðlega sjóði. Innlendu sjóðirnir gera ungum vísindamönnum og frumkvöðlum kleift að öðlast mikilvæga færni og þeir styðja við nýsköpun á mikilvægu vaxtarskeiði sprotafyrirtækja. Innlendu sjóðirnir eru stökkpallur út í alþjóðlegt samstarf og efla þannig möguleika vísindamanna og fyrirtækja hér á landi á að vera í fararbroddi á alþjóðavísu.

Íslenskum aðilum hefur vegnað vel í norrænu og evrópsku rannsóknar- og vísindasamstarfi. Ef miðað er við styrkfé á íbúa er árangur Íslands samanborið við önnur ríki á Norðurlöndum eftirtektarverður. Árangur sem þessi er ekki sjálfsagður. Öflugir innlendir sjóðir eru forsenda þess að Ísland haldi áfram að sækja fram í erlendu samstarfi.

Í fjárfestingarátaki stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónaveiru voru sjóðirnir efldir tímabundið um 1,6 ma.kr.; 775 m.kr. fóru til Rannsóknasjóðs, 700 m.kr. til Tækniþróunarsjóðs og 125 m.kr. til Innviðasjóðs.

Í aðgerðinni felst að sjóðirnir verða efldir tímabundið með sérstöku átaksverkefni í þrjú ár. Á árinu 2021 verður fjármagn til samkeppnissjóðanna aukið um u.þ.b. 50% miðað við fjárlög ársins 2020.

Enn fremur verður áfram unnið að því að efla faglega ákvarðanatöku um markáætlanir og Innviðasjóð:

– Gerðar verða breytingar á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir nr. 3/2003 með það fyrir augum að efla   markáætlanir og gera þær sveigjanlegri. Markmiðið er að markáætlanir nýtist betur fyrir tímabundnar áherslur í rannsóknum og     nýsköpun, til að styðja við markvissa uppbygginu á ákveðnum sviðum og til að afla þekkingar fyrir stefnumótun um     samfélagslegar áskoranir. Breytingarnar leiði til þess að ráðuneyti geti þannig nýtt markáætlun betur til að fjalla um tilteknar     samfélagslegar áskoranir með aðstoð rannsókna og nýsköpunar.

–  Stjórn Innviðasjóðs vinnur að útgáfuvegvísis um rannsóknarinnviði á Íslandi í samræmi við Stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2017-2019. Markmið vegvísis er að skapa öflugt rannsóknar- og nýsköpunarumhverfi sem eykur gæði rannsókna og     nýsköpunar, eflir samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegu vísindasamfélagi og styrkir möguleika landsins til þess að takast á við     samfélagslegar áskoranir. Til þess að ná fram markmiðunum er sérstaklega hugað að opnu aðgengi að rannsóknarinnviðum og     samstarfi um uppbyggingu og nýtingu innviðanna.

Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Stjórn Innviðasjóðs vinnur að gerð vegvísis um rannsóknarinnviði.

Tímaáætlun: Átaksverkefni í þrjú ár frá árinu 2021.

 

Stjórnvöld leggja áherslu á stuðning og umhverfi sem hvetur til rannsókna og nýsköpunar. Með það að leiðarljósi verður gerð úttekt á skatta- og styrkjakerfi til rannsókna og nýsköpunar. Í aðgerðinni felst kortlagning á hvernig skatta- og styrkjakerfinu er háttað í heild sinni með það að markmiði að efla yfirsýn svo hægt sé að meta hvernig markmiðum um stuðning við rannsóknir og nýsköpun verði best mætt.

Meðal annars verður gerð úttekt á áhrifum skattaívilnana vegna rannsóknar- og þróunarstarfs. Markmiðið er að leggja faglegt og hlutlaust mat á notkun, gagnsemi og skilvirkni laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Metið verður hvort markmið laganna um að efla rannsóknar- og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja hafi náðst á þeim tíu árum sem stuðningurinn hefur verið veittur, og þá með hvaða hætti. Einnig verður skoðað hver ávinningurinn af fyrirkomulaginu hefur verið fyrir atvinnulíf og samfélag.

Þá verður gerð úttekt á skattalegu umhverfi rannsókna og háskóla og það metið með hliðsjón af stefnu í skattamálum.

Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti og atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti.

Tímaáætlun: Aðgerðinni verði lokið árið 2023.

 

 

Öflugir háskólar eru meginuppspretta þekkingarstarfsemi í samfélaginu, mennta og þjálfa fagfólk til fjölbreyttra starfa, eru undirstaða þekkingardrifinnar nýsköpunar og leggja rækt við menningu og lýðræðislega umræðu. Háskólar flytja enn fremur nýja þekkingu, tækni og aðferðir hingað til lands. Nærri helmingur ungs fólks á aldrinum 25-34 ára á Íslandi hefur lokið háskólaprófi (47%) og er það svipað og í öðrum ríkjum á Norðurlöndum en hærra en að jafnaði í ríkjum OECD.

Markmið aðgerðarinnar er að fjármögnun háskóla verði sambærileg öðrum ríkjum á Norðurlöndum árið 2025 og að auka gæði og skilvirkni starfsins. Aðgerðin er framhald aðgerða 4 og 5 í síðustu stefnu. Sú vinna leiddi til þess að fjármögnun háskóla er sambærileg við meðaltal OECD ríkjanna og til Grænbókar um fjárveitingar til háskóla, sem fjallar um aðferðir við fjármögnun háskóla. Starfshópur mennta- og menningar-málaráðuneytis og vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs sem hóf störf árið 2020 mun vinna á grundvelli Grænbókarinnar þróa mælikvarða á gæði og skilvirkni háskólastarfs í samráði við háskólana.

Í aðgerðinni felast eftirfarandi vörður:

Á árinu 2020: Starfshópur vinnur að endurbótum á reiknilíkani svo það styðji betur við gæði og skilvirkni háskólastarfs; Gerð verður greining á fjármögnun norrænna háskóla í samstarfshópi háskólanna, mennta- og menningarmálaráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis; Unnið að stefnu um gæði og skilvirkni í háskólastarfi og mælikvarðar þróaðir, þar með talið um jafnvægi kynjanna í störfum háskóla, með það að leiðarljósi að umhverfi íslenskra háskóla verði sambærilegt við norræna samanburðarháskóla.

Á árinu 2021: Samráð um breytingar á reiknilíkani með áherslu á gæði og skilvirkni. Að samráði komi Vísinda- og tækniráð og fjölbreyttur hópur haghafa; Vinna við stefnu um gæði og skilvirkni í háskólastarfi heldur áfram og einkum horft til samsetningar nemendahóps, hlutverks háskóla við þekkingarsköpun og hlutverks þeirra í samfélaginu; Samráð haft um stefnu, mælikvarða og niðurstöðu greiningarvinnu á fjármögnun háskóla á Íslandi, þar með talið um aðferðir við að mæla hvað er sambærilegt við önnur Norðurlönd.

Á árinu 2022: Byrjað að meta fjármögnun í samanburði við önnur norræn lönd og hvernig markmiði aðgerðarinnar skuli náð; Byrjað að beita mælikvörðum fyrir skilvirkni og gæði til að meta háskólastarf. Raunhæf áætlun verði komin til framkvæmda til að markmið náist 2025.

Á árinu 2025: Fjármögnun háskóla er sambærileg við fjármögnun annars staðar á Norðurlöndunum og byggist á svipuðum mælikvörðum; Skýrir mælikvarðar eru fyrir hendi til að meta áhrif opinberrar fjárfestingar í gæðum og skilvirkni í háskólastarfi á íslenskt samfélag.

Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Tímaáætlun: Fjármögnun háskóla verði sambærileg og annars staðar á Norðurlöndum árið 2025 og byggi á svipuðum mælikvörðum. Skýrsla um stöðu vinnunnar komi út árið 2022.

 

Nýsköpunar- og sprotafyrirtæki þurfa oft sérhæfða þekkingu sem er ekki til staðar innanlands. Skortur á sérhæfðri þekkingu getur verið fyrirtækjum mikill fjötur um fót og staðið vexti þeirra og uppbyggingu fyrir þrifum. Fyrirtæki geta jafnvel séð sig knúin til að flytja verðmæt störf úr landi geti þau ekki ráðið til sín starfsfólk með nauðsynlega færni. Markmið aðgerðarinnar er að auðvelda fyrirtækjum að ráða til sín sérfræðinga frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins og bæta þannig aðgang fyrirtækja að mikilvægri færni, þekkingu og alþjóðlegri reynslu. Mikilvægt fyrsta skref var stigið árið 2016 þegar reglugerð um frádrátt frá tekjum erlenda sérfræðinga nr. 1202 var innleidd.

Í aðgerðinni felst að settur verður á laggirnar verkefnishópur, sem leiddur er af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, og í sitja fulltrúar félagsmálaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, Íslandsstofu og hagaðila. Hópnum verður falið að leggja fram tillögur að einföldun fyrirkomulags við afgreiðslu og meðferð umsókna um atvinnu- og dvalarleyfi fyrir sérfræðinga utan EES.

Hópurinn mun líta til löggjafar, regluverks og ferla stjórnsýslustofnana við afgreiðslu umsókna um atvinnu- og dvalarleyfi fyrir erlenda sérfræðinga og fjölskyldur þeirra með það að markmiði að draga úr óþörfum hindrunum og auka sveigjanleika.

Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti í samstarfi við félagsmálaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og hagaðila.

Tímaáætlun: Greiningarvinna hefst 2020 og unnið verður að umbótum frá árinu 2021, í takti við niðurstöður greiningar.

 

Örar samfélags- og tæknibreytingar valda því að vinnumarkaður er kvikari en áður. Bæði fyrirtæki og einstaklingar munu þurfa að bregðast við kröfum um nýja færni, meðal annars á sviði nýsköpunar. Fyrirtæki og atvinnulíf þurfa að þróast hratt til að halda samkeppnisforskoti. Ef efla á nýsköpun á landinu og nýta til fulls tækifærin sem felast í fjórðu iðnbyltingunni skiptir lykilmáli að framboð á námi og símenntun séu í takti við tímann og taki mið af því hvaða lykilhæfni atvinnulíf og samfélag kallar eftir.

Góður aðgangur að hæfu starfsfólki eflir samkeppnishæfni og framleiðni. Formleg menntun segir ekki lengur alla söguna; vinnuveitendur líta í auknum mæli til reynslu og færni við ráðningar. Grunnfærni eins og læsi og talnalæsi skipta þar miklu.

Haustið 2019 gaf OECD út skýrslu um efnahagsmál á Íslandi þar sem fjallað er sérstaklega um menntun og færni. Þar er meðal annars vakin athygli á lakri útkomu íslenskra nemenda í PISA og sérstaklega bent á slaka stöðu nemenda með annað móðurmál en íslensku. Einnig er bent á vaxandi misræmi á milli færni fólks á vinnumarkaði og þeirrar færni sem fyrirtæki kalla eftir. Ábendingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru á svipaða vegu. Menntakerfið verðurað bregðast við þessum áskorunum.

 

Verkhluti 1: Færnispá fyrir íslenskan vinnumarkað

Mikilvægt er að efla getu stjórnvalda, stofnana og einstaklinga til að taka ákvarðanir um nám og færniuppbyggingu. Í dag skortir gögn um færniþörf á íslenskum vinnumarkaði. Miklu máli skiptir að fjárfest sé í þeirri menntun og færniuppbyggingu sem nýtist best. Í aðgerðinni felst að gerð verður spá um færniþörf og munu niðurstöðurnar verða nýttar til að efla getu stjórnvalda til árangursríkra aðgerða í stefnumótun um menntun og atvinnumarkað.

Ábyrgð: Félagsmálaráðuneyti í samstarfi við forsætisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Tímaáætlun: Fyrsta færnispá liggi fyrir árið 2021.

 

Verkhluti 2: Hæfnistefna fyrir íslenskan vinnumarkað

Mótuð verður hæfnistefna með það fyrir augum að menntun og reynsla fólks nýtist vel á vinnumarkaði og skapi sterkan grundvöll fyrir verðmætasköpun og velferð. Í hæfnistefnu felst samþætt framtíðarsýn í mennta-, atvinnu- og vinnumarkaðsmálum. Markmið stefnunnar er að stuðla að því að framboð náms og fræðslu sé í samræmi við þarfir samfélagsins hverju sinni.

Í skýrslu sinni um færniþörf á vinnumarkaði, sem kom út árið 2018, benti sérfræðingahópur á mikilvægi þess að setja á fót vettvang til samtals um niðurstöður færnispár og til að móta stefnu og aðgerðir á grundvelli þeirra til að bæta samspil menntakerfis og vinnumarkaðar.

Í aðgerðinni felst að mennta- og menningarmálaráðuneyti leiði vinnu við hæfnistefnu í samstarfi við félagsmálaráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og hagaðila. Mikilvægt er að fulltrúar atvinnulífsins taki virkan þátt í að móta stefnuna. Við gerð hæfnistefnu fyrir Ísland verði til dæmis horft til stefnu norskra stjórnvalda um hæfni fyrir árin 2017–202116 sem byggist á úttekt OECD frá árinu 2014.

Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti í samstarfi við félagsmálaráðuneyti og atvinnuvega og nýsköpunarráðuneyti.

Tímaáætlun: Hæfnistefna liggi fyrir árið 2022.

 

Verkhluti 3: Efla menntun til nýrrar hæfni

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hefur áætlað að um helmingur starfa muni breytast töluvert vegna sjálfvirknivæðingar í tengslum við aukna hagnýtingu gervigreindar og þar af muni eitt starf af hverjum sjö hverfa. Í skýrslunni Ísland og fjórða iðnbyltingin, sem gefin var út 2019 á vegum forsætisráðuneytisins, er gert ráð fyrir að ríflega 50 þúsund einstaklingar hér á landi séu í störfum sem mjög líklegt er að verði sjálfvirknivædd á næstu árum. Í samfélagi sem tekur svo örum breytingum skiptir lykilmáli að fólk hafi tækifæri til að mennta sig og efla færni sína til þess að takast á við nýjar og breyttar kröfur á vinnumarkaði, óháð aldri og félagslegri stöðu.

Margir þeirra sem nú sinna störfum sem munu úreldast vegna sjálfvirknivæðingar á næstu árum eru með litla formlega menntun. Úttekt OECD bendir til þess að þetta sé einmitt sá hópur sem er ólíklegastur til að nýta sér tækifæri til menntunar. Verkefnisstjórn forsætisráðherra um fjórðu iðnbyltinguna hefur bent á mikilvægi þess að grípa til aðgerða til að tryggja að tæknibreytingar verði til þess að renna styrkari stoðum undir samfélag sem byggist á grunngildum jafnaðar og velferðar. Huga þurfi að úrræðum sem stuðla að því að þeir sem missa starf sitt vegna tækniframfara hafi aðgang að viðeigandi menntun og geti skipt um starfsvettvang. Efla þarf framboð náms og fræðslu og stuðla að því að ný þekking í fag- og fræðigreinum sé aðgengileg fólki á öllum sviðum atvinnulífsins. Hvetja þarf fyrirtæki og stofnanir til að setja sér stefnu um stuðning við ævinám starfsfólks.

Í aðgerðinni felst úttekt á stöðu framhaldsfræðslukerfisins hér á landi og endurskoðun laga um framhaldsfræðslu. Mikilvægt er að skýra og einfalda kerfið til að það nái til breiðari hóps fullorðinna en nú er.

Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti í samstarfi við félagsmálaráðuneyti og atvinnuvegaog nýsköpunarráðuneyti.

Tímaáætlun: Úttekt á framhaldsfræðslukerfinu og endurskoðun laga liggi fyrir á árinu 2022.


 

Mikil áhersla hefur verið á það í nágrannaríkjum Íslands að auka samfélagslegan ábata af opinberri fjárfestingu í gögnum með því að opna aðgang að þeim. Meðal annars hefur í auknum mæli verið kallað eftir opnum aðgangi að gögnum sem verða til fyrir tilstilli opinberra samkeppnissjóða.

Verkhluti 1: Opinn aðgangur að rannsóknargögnum

Í aðgerðinni felst að unnið verði að því að opna aðgang að opinberum gögnum háskóla, rannsóknarstofnana og gagna sem verða til með styrkjum úr opinberum samkeppnissjóðum á sviði rannsókna og nýsköpunar svo fremi sem það brjóti ekki í bága við sjónarmi persónuverndar og einkaréttar. Tekið verði tillit til sjónarmiða um að rannsóknargögn verði ekki gerð opinber fyrr en að ákveðnum tíma liðnum, til að gera vísindamönnum kleift að birta niðurstöður sínar fyrst. Greint verði hvaða hindranir séu í vegi fyrir opnum aðgangi og hvaða kostnaður felist í að opna aðgang og gerð aðgerðaáætlun um innleiðingu.

Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Tímaáætlun: Tillögurnar liggi fyrir árið 2021.

 

Verkhluti 2: Aukin notkun gagna í þágu nýsköpunar

Mikil verðmæti eru fólgin í gögnum sem safnað er af opinberum stofnunum. Aukið aðgengi að gögnum getur falið í sér mikil tækifæri, bæði fyrir nýsköpun og aukið gagnsæi og skilvirkni í opinberri þjónustu. Hvatt verður til aukinnar notkunar opinberra gagna í þágu nýsköpunar og samfélagslegra umbóta í samstarfi ráðuneyta, stofnana og fyrirtækja. Hleypt verður af stokkunum svonefndum gagnaþonum þar sem fulltrúar stofnana vinna með frumkvöðlum að því að nýta gögn á nýjan máta. Fyrsta gagnaþonið mun eiga sér stað á árinu 2020 og verður í þágu umhverfismála. Verkefninu er ætlað að efla samstarf stofnana, fyrirtækja og almennings, auka vitund um opinber gögn og hvetja til nýsköpunar. Fleiri aðgerðir af svipuðu tagi verða framkvæmdar á árunum 2020–2022.

Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og önnur ráðuneyti eftir atvikum.

Tímaáætlun: Fyrsta gagnaþonið verður haldið á árinu 2020. Fleiri aðgerðir um aukna notkun gagna fylgi í kjölfarið.

Stjórnvöld hafa mikilvægu hlutverki að gegna við að skapa góðar aðstæður fyrir nýsköpun í landinu, allt frá stefnumótun, menntun og uppbyggingu innviða að því að skapa fyrirtækjum hagstætt rekstrarumhverfi. Til að ná þeim markmiðum þarf að efla og samhæfa vistkerfi nýsköpunar með markvissum aðgerðum. Vistkerfi nýsköpunar á Íslandi, regluverk og umgjörð þarf að vera samkeppnishæft við það sem best gerist.

Til þess að stefna og aðgerðir stjórnvalda séu markvissar og byggi á réttum upplýsingum verður sett upp mælaborð nýsköpunar. Mælaborðið verður eins konar „stjórnborð” sem birtir með myndrænum hætti upplýsingar um stöðu, þróun og horfur lykilþátta í vistkerfi nýsköpunar hér á landi. Með því að byggja upp og birta slíkar upplýsingar reglulega mun þekking á því hvaða þættir hafa áhrif á þróun og árangur í nýsköpun aukast.

Meðal mælikvarða sem geta gefið mikilvægar upplýsingar um stöðu og framlag fyrirtækja til nýsköpunar og vaxtar í íslensku samfélagi eru: alþjóðavæðing; aðgengi að mörkuðum og alþjóðasókn; hugarfar gagnvart nýsköpun; skattalegir hvatar; fjárfesting í nýsköpun; staða Íslands í alþjóðlegum mælikvörðum um samkeppnishæfni; samfélagslegir innviðir; stafrænir innviðir; menntun og hæfni; stuðningur við viðskiptaþróun og vöxt; hæfi til að innleiða nýsköpun og fleira.

Mælaborðið mun gera notendum kleift að bera mælanleg markmið stjórnvalda á sviði nýsköpunar saman við raunstöðu hverju sinni. Mælaborð nýsköpunar verður ekki aðeins mikilvægt verkfæri við stefnumótun stjórnvalda, það getur einnig nýst til að miðla upplýsingum um stöðu nýsköpunar og frumkvöðlastarfs til atvinnulífs, stofnana og almennings. Byggt verður á fyrirmynd mælaborðs ferðaþjónustunnar.

Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Tímaáætlun: Fyrsta útgáfa mælaborðs verði til árið 2021, frekari umbætur fylgi jafnt og þétt í kjölfarið.

 

Mikilvægt er að vísindastarf nýtist íslensku samfélagi í stefnumótun og lýðræðislegum ákvörðunum. Ekki verður unnt að ná tökum á samfélagslegum áskorunum, svo sem lýðheilsuvandamálum og loftslagsvá, nema stefnumótandi aðilar og almenningur hafi greiðan aðgang að áreiðanlegri þekkingu. Markmið þessarar aðgerðar er að skapa umgjörð sem tryggir sýnileika vísinda, stuðlar að aukinni þekkingu á aðferðum vísinda, eykur skilning og traust á og virðingu fyrir niðurstöðum vísinda og sérfræðiþekkingar, tryggir aðgang að gagnreyndum upplýsingum og vinnur markvisst gegn áhrifum falsfrétta og rangra upplýsinga í samfélaginu. 

Aðgerðin snýr að því að skapa umgjörð og áætlun um með hvaða hætti aðgangur almennings að gagnreyndum upplýsingum og miðlun vísindalegra aðferða og vísinda sé tryggð á Íslandi til lengri tíma. Unnið verður sérstaklega að miðlun þekkingar á sviði heilbrigðis- og loftslagsmála með það fyrir augum að þróa aðferðir sem síðar geti nýst öðrum sviðum. Mikilvægt er að horfa til fyrirmynda frá öðrum ríkjum og alþjóðastofnunum, svo sem National Co-ordinating Centre for Public Engagement í Bretlandi, leiðarljósa OECD um upplýsingagjöf í opinberri stefnumótun og til almennings og styrkja ESB til verkefna um miðlun á niðurstöðum rannsókna til almennings. Horfa skal til þess hvernig nýta megi fjölbreyttar aðferðir og miðla, þar með talið tækni og listir, til að auka áhuga og þekkingu á vísindum. Meta þarf árangur þeirra ólíku leiða sem farnar verða.

Skipaður verður verkefnishópur um annars vegar heilbrigðismál og hins vegar umhverfismál, með fulltrúum starfsnefnda Vísinda- og tækniráðs, hagaðila og ráðuneyta. Starfsmaður á vegum heilbrigðisráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis mun vinna með verkefnishópnum í hálfu starfi í þrjú ár. Í vinnunni verður leitað leiða til að bæta aðgengi að vísindalegum upplýsingum, bæta skilning og virðingu fyrir niðurstöðum rannsókna og kannaðar leiðir til að auka samtal vísindamanna, almennings, fulltrúa stofnana og stjórnmála í opinberri stefnumótun.

Nauðsynlegt er að kortleggja til hvaða hópa er brýnast að ná, til dæmis þeirra sem hafa takmarkað aðgengi að vísindalegri þekkingu, ungs fólks og þeirra sem vinna að stefnumótun. Greina þarf á hvaða sviðum er mikilvægast að efla aðgengi að þekkingu og hvaða stofnanir gegna þar lykilhlutverki. Sérstaklega verður hugað að því að skapa kennurum og öðrum fagaðilum stuðning og tækifæri til að nýta aðferðafræði vísinda til að efla þekkingu barna- og unglinga á gildi vísinda.

Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti í samstarfi við heilbrigðisráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Tímaáætlun: Aðgerðaáætlunin skilað til Vísinda- og tækniráðs í lok árs 2022.

Verkhluti 1: Efling rannsókna, vöktunar og samlegðaráhrifa

Vísindarannsóknir og vöktun á ástandi og breytingum á náttúru Íslands verða efld sérstaklega með tilliti til áhrifa af völdum loftslagsbreytinga og annarra hnattrænna umhverfisbreytinga. Þekking og skilningur á samlegðaráhrifum aðgerða á mismunandi sviðum umhverfismála verður aukinn.

Öflugar rannsóknir og vöktun náttúrunnar eru lykilatriði fyrir aðgerðir í þágu loftslagsmála og endurheimtar lífríkis, ekki síst þegar litið er til aðlögunar íslensks samfélags að loftslagsbreytingum. Áríðandi er að auka þekkingu á kolefnisforða, losun og bindingu kolefnis frá landi og landnotkun hérlendis með frekari grunnrannsóknum sem byggir undir þekkingu á hagnýtum aðgerðum í framtíðinni.

Mikilvægt er að aðgerðir á mismunandi sviðum umhverfismála vinni ekki hver gegn annarri. Þess vegna þarf að greina samlegðaráhrif aðgerða, til dæmis milli loftslagsmála, endurheimtar vistkerfa, líffræðilegrar fjölbreytni og hringrásarhagkerfis. Samlegðaráhrif geta skipt miklu máli í að ná frekari árangri í að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar þjóða á sviði hnattrænna umhverfisáskorana og stuðla einnig að betri nýtingu fjármagns til umhverfismála.

Áætlun verður gerð til að efla rannsóknir og vöktun á náttúrufari með tilliti til áhrifa loftslagsbreytinga og möguleika á aðgerðum í þágu loftslagsins. Jafnframt verður unnin áætlun um hvernig tryggja megi samlegðaráhrif aðgerða vegna hnattrænna umhverfismála í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, samninga og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Ábyrgð: Umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Tímaáætlun: Áætlanir tilbúnar haust 2021.

 

Verkhluti 2: Auka nýsköpun á sviði loftslagsmála og hringrásarhagkerfis

Nýsköpun er lykill að árangri í umhverfismálum. Áskorunum í loftslagsmálum verður að stórum hluta mætt með nýrri tækni og nýsköpun en einnig minni neyslu og betri nýtingu auðlinda. Hringrásarhagkerfið og innleiðing þess hérlendis skapar fjölmörg tækifæri til að fara betur með auðlindir jarðar og búa til verðmæti úr afgöngum og úrgangi sem myndast á mismunandi stöðum í virðiskeðjunni.

Stutt verður við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og hringrásarhagkerfis, meðal annars til að styrkja rannsóknir og þróunarstarf við innleiðingu á nýjum loftslagsvænum tæknilausnum og hönnun. Loftslagssjóður verður meðal annars notaður í þessum tilgangi.

Ábyrgð: Umhverfis- og auðlindaráðuneyti í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Tímaáætlun: Á árinu 2020.

Verkhluti 1: Efla vísindarannsóknir á heilbrigðissviði

Rannsóknir og nýsköpun á heilbrigðissviði verða efld og opinber fjármögnun þeirra aukin á grunni greiningar á stöðu fjármögnunar á þessu sviði á Íslandi í samanburði við nágrannaríki. Sérstök áætlun verður gerð til að efla rannsóknir í heilbrigðisvísindum. Í Heilbrigðisstefnu til 203025 er lögð áhersla á að efla vísindi, menntun og nýsköpun í heilbrigðisþjónustu og lögð til stofnun Heilbrigðisvísindasjóðs. Í aðgerðinni felst að staða fjármögnunar á sviði heilbrigðisvísinda á Íslandi verður greind og borin saman við nágrannaríki. Á grundvelli greiningarinnar verður rannsóknasjóður í heilbrigðisvísindum stofnaður. Úthlutað verður úr sjóðnum með faglegum og gagnsæjum aðferðum sem byggjast á samkeppni. Áhersla verður lögð á að efla rannsóknir í heilbrigðisvísindum frá grunnvísindum til lýðheilsu og klínískra rannsókna og hvatt til þverfaglegs samstarfs.

Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneyti.

Tímaáætlun: Greiningin liggi fyrir á árinu 2021.

 

Verkhluti 2: Efla nýsköpun í heilbrigðisþjónustu

Átaki um nýsköpun í heilbrigðisþjónustu var hrint úr vör í tengslum við aðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19. Átakið er samstarfsverkefni nýsköpunar-, heilbrigðis- og fjármálaráðherra og er markmiðið að auka samtal og auðvelda samvinnu opinberra aðila í heilbrigðisþjónustu við þá sem vinna að nýsköpun og tækniþróun á heilbrigðissviði. Í átakinu felst meðal annars stafrænt heilbrigðismót, þar sem aðilar sem veita heilbrigðisþjónustu skilgreina áskoranir og eiga í samstarfi við fyrirtæki og frumkvöðla um lausnir. Einnig verða veittir styrkir til útfærslu og þróunar nýrra lausna í heilbrigðisþjónustu. Árangur verkefnisins verður metinn í lok árs 2020 og í kjölfarið tekin ákvörðun um útfærslu frekari aðgerða í þágu nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu.

Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti í samstarfi við heilbrigðisráðuneyti og fjármála og efnahagsráðuneyti.

Tímaáætlun: Átaksverkefnið um nýsköpun í heilbrigðisþjónustu stendur yfir árið 2020. Ákvörðun um frekari aðgerðir verður tekin með tilliti til árangurs verkefnisins.

Síðast uppfært: 1.3.2022 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum