Hoppa yfir valmynd
Yfirfasteignamatsnefnd

Mál nr. 2/2018

Frostastaðir [...], Akrahreppi

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 18. september 2018 í máli nr. 2/2018.

Fasteign: Frostastaðir [...], Akrahreppi, fnr. [...].

Kæruefni: Endurmat fasteignamats.

 

Árið 2018, 18. september, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 2/2018 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

 

Með erindi, dags. 24. apríl 2018, kærðu X og Y, ákvörðun Þjóðskrár Íslands um endurmat á fasteignamati fasteignar þeirra að Frostastöðum […], Akrahreppi, fnr. […], fyrir árið 2018.

 

Með bréfum, dags. 24. og 27. apríl 2018, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir umsögnum frá Þjóðskrá Íslands og sveitarfélaginu Akrahreppi vegna kærunnar. Umsögn Þjóðskrár Íslands barst nefndinni þann 9. maí 2018 en engin umsögn barst frá sveitarfélaginu.

 

Með bréfi, dags. 16. maí 2018, var umsögn Þjóðskrár Íslands send kærendum og þeim gefinn kostur á að gera við hana athugasemdir. Með bréfi, dags. 7. júní 2018, bárust frekari athugasemdir af hálfu kærenda.

 

Með tölvubréfi, dags. 13. júlí 2018, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir frekari rökstuðningi frá Þjóðskrá Íslands á fasteignamati eignarinnar. Vísaði nefndin til þess að í fyrri rökstuðningi stofnunarinnar hefði ekki komið fram hvaða sjónarmið hefðu legið til grundvallar þeirri hækkun sem orðið hefði á fasteignamati eignarinnar milli áranna 2017 og 2018. Þjóðskrá Íslands sendi frekari rökstuðning af sinni hálfu með bréfi, dags. 2. ágúst 2018.

 

Málið var tekið til úrskurðar 19. september 2018.

 

I.              Málavextir.

Með bréfi Þjóðskrár Íslands, dags. 15. febrúar 2018, var kærendum sendur úrskurður stofnunarinnar þar sem fram kom að með vísan til 2. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, hefði hún endurmetið áður tilkynnt fasteignamat fasteignar kærenda að Frostastöðum […], Akrahreppi, fnr. […], fyrir árið 2018. Í úrskurðinum kom fram að áður tilkynnt fasteignamat eignarinnar fyrir árið 2018 hefði verið kr. 12.200.000.- en við endurmatið hefði það verið lækkað í kr. 10.600.000.-

 

Tekið var fram í bréfinu að unnt væri að beiðast rökstuðnings fyrir ákvörðuninni og skyldu beiðni þar um berast Þjóðskrá Íslands innan 14 daga frá móttöku hennar, sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig væri hægt að óska eftir endurupptöku á ákvörðuninni innan eins mánaðar frá tilkynningu hennar eða endurmats samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Þá kom jafnframt fram að hægt væri að kæra ákvörðunina til yfirfasteignamatsnefndar samkvæmt 34. gr. laga nr. 6/2001 og kærufrestur væri þrír mánuðir.

 

Kærendur nýttu sér ekki heimild til að beiðast rökstuðnings né óskuðu þeir eftir endurupptöku eða endurmats. Með bréfi, dags. 24. apríl 2018, ákváðu kærendur hins vegar að kæra áðurnefndan úrskurð Þjóðskrár Íslands til yfirfasteignamatsnefndar líkt og að framan greinir.


 

II.           Sjónarmið kærenda.

Kærendur taka fram að umrædd fasteign þeirra sé sumarbústaður og vinnuskúr sem standi á afmarkaðri lóð sem hafi verið skilin frá landi jarðarinnar Frostastaða […], Akrahreppi, sem einnig sé í eigu kærenda. Fasteignamat eignarinnar hafi hækkað mikið milli áranna 2017 og 2018. Þannig hafi heildarfasteignamat eignarinnar á árinu 2017 verið kr. 4.631.000.-, en þar af hafi sumarbústaðurinn verið metinn á kr. 2.560.000.-, vinnuskúr (aðstöðuhús) á kr. 461.000.- og lóðin á kr. 1.610.000.- Fasteignamat ársins 2018 hafi upphaflega verið kr. 12.200.000.- en með endurmati Þjóðskrár Íslands þann 15. febrúar 2018 hafi það verið lækkað í kr. 10.600.000.- Kærendur kannast ekki við að hafa fengið tilkynningu um upphaflegt fasteignamat eignarinnar fyrir árið 2018 eða verið kunnugt um það fyrr en þau fengu úrskurð Þjóðskár Íslands um endurmat eignarinnar með bréfi, dags. 15. febrúar 2018.

 

Kærendur taka fram að ekki sé gerð athugasemd við þá lækkun á fasteignamati eignarinnar sem gerð var með hinni kærðu ákvörðun Þjóðskrár Íslands. Hins vegar hafi álagningarseðill fasteignagjalda ársins 2018 ekki tekið mið af endurmatinu heldur verið í samræmi við upphaflegt fasteignamat eignarinnar fyrir árið 2018, þ.e. eins og það var skráð fyrir ákvörðun Þjóðskár Íslands.

 

Kærendur vekja athygli á því að þrátt fyrir fyrrgreinda lækkun á fasteignamati eignarinnar með hinni kærðu ákvörðun Þjóðskrár Íslands hafi fasteignamatið hækkað meira en tvöfalt milli áranna 2017 og 2018. Telja kærendur að sennileg skýring á þessari stórfelldu hækkun sé breytt tilgreining fasteignarinnar. Þannig virðist sem vinnuskúr (aðstöðuhús) sé ekki lengur metið sem slíkur í fasteignamati ársins 2018 heldur sem hluti af sumarbústaðnum. Þannig hafi sumarbústaðurinn stækkað um rúma 15 fermetra milli ára og sé nú talinn 48,6 fermetrar en hafi áður verið 33,5 fermetrar. Kærendur geta ekki sætt sig við að umræddur vinnuskúr sem sé í bágu ásigkomulagi og notaður til geymslu verkfæra, sé gerður að hluta af sumarbústaðnum. Því til viðbótar hafi vinnuskúrinn staðið mun lengur á lóðinni en sumarbústaðurinn.

 

Kærendur vísa einnig til þess að samkvæmt 2. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna skuli meta hverja fasteign til verðs eftir því sem næst verður komist á hverjum tíma, og skuli skráð matsverð vera gangverð umreiknað til staðgreiðslu miðað við heimila og mögulega nýtingu viðkomandi eignar á hverjum tíma. Sé gangverð fasteignar ekki þekkt skuli matsverð ákveðið eftir bestu fáanlegri vitneskju um gangverð sambærilegra fasteigna, m.a. með hliðsjón af aldri, nýtingarmöguleikum og öðrum þeim atriðum sem kunna að hafa áhrif á gangverð eignarinnar, sbr. 1. og 2. mgr. 28. gr. laganna. Sérstaklega sé tekið fram i 2. mgr. 28. gr. laga nr. 6/2001 að huglægu og órökstuddu mati skuli ekki beitt nema engra annarra kosta sé völ um ákvörðun matsverðs. 

 

Kærendur gera kröfu um að endurmati Þjóðskrár Íslands vegna fasteignarinnar verði hnekkt og skráning húseignarinnar verði færð til fyrra horfs. Þá er einnig gerð krafa um lækkun á fasteignamati eignarinnar fyrir árið 2018. Því til viðbótar gera kærendur kröfu um að álagning fasteignagjalda eignarinnar taki mið af skráðu fasteignamati hennar en á því hafi verið vanhöld.

 

 

 

 


 

III.       Sjónarmið Þjóðskrár Íslands.

Í umsögn Þjóðskrár Íslands, dags. 9. maí, 2018, kemur fram að nýtt fasteignamat fyrir fasteign kærenda að Frostastöðum […], Akrahreppi, fnr. […], hafi verið úrskurðað í áramótastöðu þann 15. febrúar 2018. Uppfærsla á fasteignaskránni hafi hins vegar ekki farið fram fyrr en aðfararnótt 16. febrúar 2018. Vinnsla sveitarfélagsins vegna álagningar fasteignagjalda ársins 2018 hafi miðast við matsstöðu fasteignarinnar 15. febrúar 2018 en ekki við þá uppfærslu sem átti sér stað aðfararnótt 16. febrúar 2018. Þjóðskrá Íslands telji sjálfsagt að leiðrétta álagningu fasteignagjalda vegna eignarinnar af þessum sökum en bendi á að slíku erindi beri að beina til viðkomandi sveitarfélags.

Varðandi stækkun sumarbústaðarins í fasteignamati ársins 2018 þá hafi einungis verið um að ræða breytingu á framsetningu upplýsinga í fasteignaskrá. Glöggt megi sjá af fasteignamati eignarinnar fyrir árið 2017 að heildarstærð hennar sé 48,6 fermetrar, þ.e. sumarbústaðurinn 33,5 fermetrar og aðstöðuhúsið 15,1 fermetrar. Við framsetningu fasteignamats ársins 2018 hafi í raun engin breyting verið gerð heldur hafi upplýsingar um eignina verið settar fram með öðrum hætti en árið áður, þar sem nú sé birt heildarstærð eignarinnar auk stærðar sumarbústaðarins annars vegar og aðstöðuhússins hins vegar.

 

IV.        Athugasemdir kærenda.

Með bréfi, dags. 7. júní, 2018, komu kærendur á framfæri athugasemdum sínum við umsögn Þjóðskrár Íslands í málinu.

 

Kærendur árétta að umrædd fasteign þeirra sé annars vegar sumarbústaður og hins vegar vinnuskúr. Það að kalla hvoru tveggja og í einu lagi ,,sumarbústað“ sé í besta falli villandi, sérstaklega í ljósi þess hvernig fasteignin hafi áður verið skráð hjá Þjóðskrá Íslands. Telja kærendur að sú skýring Þjóðskrár Íslands að einungis hafi verið um að ræða breytta framsetningu á upplýsingum, ótrúverðuga með hliðsjón af því að með þessari breyttu framsetningu hafi fasteignamat eignarinnar meira en tvöfaldast. Því geti kærendur ekki með nokkru móti fallist á að svonefnd ,,breyting á framsetningu upplýsinga“ hafi engu skipt.

 

Kærendur vekja athygli á því að í umsögn Þjóðskrár Íslands sé ekki vikið einu orði að ástæðum þess að fasteignamat eignarinnar hafi meira en tvöfaldast frá fasteignamati ársins 2017, og það eftir að matið hafi verið lækkað í kjölfar endurmats Þjóðskrár Íslands.

 

Þá telja kærendur að þær ákvarðanir Þjóðskrár Íslands, sem annars vegar felist í breyttri skráningu eignarinnar og hins vegar hækkun á fasteignamati hennar séu byggðar á órökstuddum og ómálefnalegum sjónarmiðum. Slík framkvæmd gangi gegn meginreglum stjórnsýsluréttarins, þ. á m. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá verði stórfelld hækkun á fasteignamati eignarinnar milli ára ekki studd við ákvæði laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna.

 

V.        Viðbótarsjónarmið Þjóðskrár Íslands.

Með bréfi Þjóðskrár Íslands, dags. 2. ágúst 2018, kom stofnunin á framfæri frekari rökstuðningi vegna málsins. Þar kom m.a. fram að Þjóðskrá Íslands hafi á árinu 2017 endurskoðað matsaðferðir sumarhúsa og þá hafi nýrri matsaðferð, svonefndri markaðsaðferð, verið beitt við fasteignamat slíkra eigna. Sú aðferð byggi í grunninn á því að fundin séu línuleg tengsl milli kaupsamninga um sumarbústaði og fyrirliggjandi skráningarupplýsinga. Eldri matsaðferð frá árinu 2005 hafi hins vegar byggst á framreikningi sem ekki hafi verið talin skila réttu fasteignamati en samkvæmt lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna skuli fasteignamat endurspegla gangvirði fasteigna á markaði. Í fjöldamati fasteigna geti skortur á nýjustu upplýsingum um tiltekna eign leitt til þess að mat hennar verði of hátt eða of lágt. Með uppfærðum upplýsingum og beiðni um endurmat leiðréttist mat viðkomandi eignar.

 

Fram kemur að nýja matsaðferðin hafi haft í för með sér töluverða breytingu frá fyrri matsaðferð þar sem fasteignamat hafi áður byggt á endurstofnverði eigna ásamt staðsetningaráhrifum og verið árlega framreiknað á grundvelli verðlags. Á þeim tíma hafi t.d. landupplýsingar ekki verið jafn góðar og þær séu í dag og því spili þær stærra hlutverk nú en áður sem leiði til meiri nákvæmni í mati. Þar sem rúmur áratugur sé liðinn frá síðasta endurmati sumarhúsa hafi núverandi matsaðferð haft talsverðar breytingar í för með sér. Markmið Þjóðskrár Íslands með upptöku nýrra matsaðferða sé ætíð að minnka misræmi í fasteignamati og uppfylla eins vel og kostur er ákvæði laga um að fasteignamat skuli endurspegla gangverð fasteigna.

 

Eftir að matslíkan fyrir sumarhús hafi verið sett upp og fasteignamat sumarhúsa verið unnið eftir líkaninu hafi komið í ljós að í einhverjum tilfellum hefðu sumarhús eða hlutar þeirra ekki fallið í rétta verðflokka. Til að tryggja samræmt mat á hliðstæðum eignum hafi verið gerðir vinnulistar yfir sumarhús sem mögulega væru ranglega flokkuð í fasteignamati stofnunarinnar. Við þá skoðun hafi komið í ljós að sá hluti fasteignar kærenda að Frostastöðum […], Akrahreppi sem merktur sé sem „aðstöðuhús“ hafi verið ranglega flokkaður. Umrætt aðstöðuhús hafi ranglega verið metið sem sumarbústaður í stað geymslu. Að frumkvæði stofnunarinnar hafi flokkunin verið leiðrétt og fasteignamat eignarinnar lækkað. Tilkynning þess efnis hafi verið ð send kærendum þann 15. febrúar 2018 og var sú ákvörðun byggð á heimild í 2. mgr. 31. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001.

 

Við fyrrgreinda leiðréttingu hafi fasteignamat eignarinnar lækkað fyrir árið 2018 úr kr. 12.200.000.- í kr. 10.600.000.-. Ekki hafi verið tekin afstaða til þess hvort heildarmatið á fasteigninni sem slíkri væri of hátt eða of lágt enda hefðu eigendur fasteignarinnar ekki gert athugasemdir við fasteignamat eignarinnar fyrir árið 2018. Þar sem stofnunin hafi mögulega ekki nýjustu upplýsingar um fasteignina kunni að vera að viðkomandi eign sé verri eða betri að gæðum og ástandi en almennt sé um viðmiðunareignir. Með erindi til kærenda, dags. 27. júlí 2018, hafi stofnunin því óskað eftir nýlegum myndum af fasteigninni, jafnt að utan sem innan, en engin svör hafi borist við erindinu.

 

Í tilkynningu Þjóðskrár Íslands til kærenda, dags. 15. febrúar 2018, hafi kærendum verið leiðbeint um kæruleið til yfirfasteignamatsnefndar og kærufrestur tilgreindur. Með vísan til skilyrða í 34. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 telji Þjóðskrá Íslands að kærendum hafi ranglega verið bent á kæruleið til yfirfasteignamatsnefndar enda skilyrði kæru að hún snúist um endurmat. Telji stofnunin þó að þar sem efni tilkynningar þann 15. febrúar 2018 hafi verið með fyrrgreindum hætti eigi kærendur ekki að bera hallann af því.

 

Að endingu bendir Þjóðskrá Íslands á að ástæða hækkunar fasteignamats fasteignarinnar milli áranna 2017 og 2018 sé breyting á matsaðferð fasteignamats sumarhúsa í markaðsaðferð, sem gerð hafi verið fyrir öll sumarhús á Íslandi. Með breyttri matsaðferð hafi fasteignamat sumarhúsa í mörgum tilfellum hækkað verulega og eigi það við um áðurnefnda fasteign kærenda að Frostastöðum […], Akrahreppi.

VI.           Niðurstaða.

I.

Í 2. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna kemur fram að Þjóðskrá Íslands geti að eigin frumkvæði endurmetið einstakar eignir í því skyni að tryggja samræmt mat hliðstæðra eigna. Nýtt matsverð skal þegar skráð í fasteignaskrá og gilda með þeim almennu breytingum sem á því geta orðið, sbr. 32. gr. sömu laga, þar til því er hrundið með nýju mati eða yfirmati.

 

Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. sömu laga geta hagsmunaaðilar kært niðurstöðu endurmats til yfirfasteignamatsnefndar. Með breytingum sem gerðar voru á lögum nr. 6/2001 með lögum nr. 83/2008 var lögfest að eigandi fasteignar hafi rétt til að skjóta öllum ákvörðunum um endurmat matsverðs til æðra stjórnvalds í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þannig sæta allar ákvarðanir Þjóðskrár Íslands um endurmat, hvort heldur um er að ræða endurmat samkvæmt 1. eða 2. mgr. 31. gr. eða 1. mgr. 32. gr. laga nr. 6/2001, kæru til yfirfasteignamatsnefndar samkvæmt 1. mgr. 34. gr. sömu laga.

 

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að Þjóðskrá Íslands hafi með vísan til 2. mgr. 31.gr. laga nr. 6/2001 ákveðið að endurmeta áður tilkynnt fasteignamat fasteignar kærenda fyrir árið 2018. Í niðurlagi úrskurðarins var athygli kærenda vakin á því að kæra mætti úrskurðinn til yfirfasteignamatsnefndar á grundvelli 34. gr. laga nr. 6/2001. Með vísan til sem að framan er rakið verður að telja að fyrrgreindur úrskurður Þjóðskrár Íslands frá 15. febrúar 2018 um endurmat á fasteign kærenda sé kæranlegur til yfirfasteignamatsnefndar.

 

II.

Kærendur gera kröfu um að því endurmati á fasteign þeirra að Frostastöðum […], Akrahreppi, fnr. […], sem fram kemur í úrskurði Þjóðskrár Íslands frá 15. febrúar 2018 verði hnekkt og að skráning eignarinnar verði færð til fyrra horfs. Þá gera kærendur einnig kröfu um að fasteignamat eignarinnar fyrir árið 2018 verði lækkað frá því sem ákveðið var 15. febrúar 2018. Kærendur gera auk þess athugasemdir við að álögð fasteignagjöld eignarinnar skuli ekki hafa verið lækkuð í samræmi við endurmatið frá 15. febrúar 2018.

 

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 6/2001, sbr. 15. gr. laga nr. 83/2008, skal skráð matsverð fasteignar vera gangverð umreiknað til staðgreiðslu, miðað við heimila og mögulega nýtingu á hverjum tíma, sem ætla má að eignin hefði í kaupum og sölum í febrúarmánuði næst á undan matsgerð, enda taki hún gildi á tímabilinu 31. desember til loka febrúarmánaðar. Ef gangverð fasteignar er ekki þekkt skal matsverð samkvæmt 2. mgr. sömu greinar ákveðið eftir bestu fáanlegu vitneskju um gangverð sambærilegra fasteigna með hliðsjón af tekjum af þeim, kostnaði við gerð mannvirkja, aldri þeirra, legu eignar með tilliti til samgangna, nýtingarmöguleikum, hlunnindum, jarðvegsgerð, gróðurfari, náttúrufegurð og öðrum þeim atriðum sem kunna að hafa áhrif á gangverð eignarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. sömu laga skal svo við ákvörðun matsverðs samkvæmt 27. gr. eftir föngum finna tölfræðilega fylgni gangverðs við ýmsar staðreyndir um seldar eignir, svo sem stærð, gerð, búnað, stað o.s.frv., og sennilegt gangverð ákvarðað með útreikningum á grundvelli þeirra vísbendinga.

 

III.

Þjóðskrá Íslands hefur fyrst og fremst stuðst við þrjár matsaðferðir við mat á fasteignum; þ.e. markaðsaðferð, tekjuaðferð og kostnaðaraðferð. Allar þessar þrjár aðferðir hafa það markmið að ákvarða gangverð fasteignar umreiknað til staðgreiðslu miðað við nýtingu viðkomandi eignar á hverjum tíma, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Val á aðferð veltur á þeim gögnum sem tiltæk eru hverju sinni. 

 

Samkvæmt fyrirliggjandi umsögn Þjóðskrár Íslands voru matsaðferðir stofnunarinnar vegna sumarhúsa endurskoðaðar á árinu 2017 og var markaðsaðferð beitt við ákvörðun á fasteignamati sumarhúsa fyrir árið 2018. Eldri matsaðferð fyrir sumarhús, svonefnd kostnaðaraðferð, byggist á framreikningi sem ekki hafi verið talin skila réttu fasteignamati. Þessi breyting á matsaðferð hafi haft í för með sér allnokkrar breytingar á fyrra fasteignamati sumarhúsa.

 

Þegar stuðst er við almenn matslíkön kann sú staða að koma upp að einstakar eignir verði of hátt eða of lágt metnar miðað við sambærilegar eignir. Slík staða getur einnig komið upp þegar verið er að skipta um matsaðferð. Slíkt misræmi getur m.a. orsakast af ástandi, raunverulegri notkun og nýtingarmöguleikum viðkomandi eignar. Í ljósi þess er mikilvægt að það sé skoðað sérstaklega hvort samræmi sé milli sambærilegra eigna á sama markaðssvæði með það að markmiði að ganga úr skugga um hvort skráning eignar, ástand hennar eða aðrar aðstæður, gefi til kynna að viðkomandi eign sé réttilega metin samkvæmt almennu matslíkani.

 

Tölfræðilíkön eru ekki óskeikul og það hefur úrslitaþýðingu að ástand eigna sé réttilega metið og samræmis sé gætt við fasteignamat annarra sambærilegra eigna á sama matssvæði. Það er fyrir það fyrsta mjög mismunandi hvernig upprunaleg hönnun, notkun byggingarefna og annar umbúnaður fellur að nútímaþörfum og í annan stað er allur gangur á því hvernig staðið hefur verið að viðhaldi og endurbótum í gegnum tíðina. Í þriðja lagi skiptir miklu að nákvæm skoðun hafi farið fram á eigninni af hálfu Þjóðskrár Íslands þannig að hún sé rétt skráð þegar hún er færð inn í viðeigandi matslíkan.

 

IV.

Sú mikla hækkun sem varð á fasteignamati fasteignar kærenda milli áranna 2017 og 2018 gefur tilefni til þess að það verði skoðað sérstaklega hvort fasteignin sé réttilega metin til fasteignamats með hliðsjón af ákvæðum 1. mgr. 27. gr. laga nr. 6/2011. Vísað hefur verið til þess af hálfu Þjóðskrár Íslands að ástæða þessarar miklu hækkunar sé fyrst og fremst breyting á matsaðferðum stofnunarinnar. Þjóðskrá Íslands hefur jafnframt bent á það í umsögnum sínum að við fjöldamat fasteigna geti skortur á nýjustu upplýsingum um einstakar eignir leitt til þess að fasteignamat viðkomandi eignar sé of hátt eða of lágt. Þjóðskrá Íslands hefur af þeim sökum farið þess á leit við kærendur að þeir sendi stofnuninni nýjar ljósmyndir af fasteign kærenda. Af gögnum málsins má ráða að ekki hafi verið óskað eftir þessum gögnum fyrr en eftir að kæra var send yfirfasteignamatsnefnd.

 

Ekki verður séð að fasteign kærenda hafi verið skoðuð af Þjóðskrá Íslands. Þá hefur stofnunin ekki fengið nýjar upplýsingar eða gögn um eignina, s.s. ljósmyndir, líkt og óskað hefur verið eftir. Megintilgangurinn með skoðun eigna er að ganga úr skugga um að skráning viðkomandi eignar sé rétt og að ástand hennar sé rétt metið. Það er mat yfirfasteignamatsnefndar að nauðsynlegt sé að skoða fasteign kærenda eða fá gleggri og ítarlegri upplýsingar eða gögn um eignina, þannig að Þjóðskrá Íslands geti, m.a. með hliðsjón af framkomnum athugasemdum kærenda varðandi skráningu og ástand eignarinnar, lagt fullnægjandi mat á það hvort skráning og ástand hennar hafi verið rétt metið, hvort heldur við árlegt endurmat eignarinnar samkvæmt 1. mgr. 32. gr. laga nr. 6/2001 eða við endurmat stofnunarinnar þann 15. febrúar 2018. Í ljósi þess telur nefndin rétt að Þjóðskrá Íslands endurskoði matsforsendur viðkomandi eignar og taki fasteignamat hennar til endurskoðunar og afli við það mat , nýrra gagna og frekari upplýsinga um eignina. Viðbúið er að frekari gögn og upplýsingar um fasteignina geti haft áhrif á matsverð hennar.

 

V.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða yfirfasteignamatsnefndar að ákvörðun Þjóðskrár Íslands, dags. 15. febrúar 2018, er lýtur að endurmati fasteignamats fasteignar kæranda fyrir árið 2018 skuli felld úr gildi og er lagt fyrir Þjóðskrá Íslands að taka málið til meðferðar að nýju með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum um skráningu og ástand eignarinnar.

 

Úrskurðarorð.

Ákvörðun Þjóðskrár Íslands, dags. 15. febrúar 2018, um endurmat fasteignamats Frostastaða […], Akrahreppi, fnr. […], fyrir árið 2018 er felld úr gildi og lagt fyrir Þjóðskrá Íslands að taka málið til meðferðar að nýju.

 

 

 

___________________________

                                                           Hulda Árnadóttir

 

 

 

___________________________                                          __________________________

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira