Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2002 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Íslenskir nemendur standi sig að jafnaði jafnvel eða betur en nemendur þeirra þjóða sem Íslendingar vilja gjarnan bera sig saman við.

Til skólastjóra grunnskóla

Íslenskir nemendur standi sig að jafnaði, jafnvel eða betur en nemendur
þeirra þjóða sem Íslendingar vilja gjarnan bera sig saman við.

Í desember sl., voru kynntar niðurstöður úr PISA rannsókninni (Programme for International Student Assessment) sem er alþjóðleg rannsókn á vegum OECD á árangri 15 ára nemenda í lestri, stærðfræði og náttúrufræði. Nemendur í 10. bekk á Íslandi árið 2000 tóku þátt í rannsókninni. Almennt má segja að árangur íslenskra nemenda í þessari rannsókn hafi verið vel viðunandi, þar sem niðurstöðurnar gefa til kynna að íslenskir nemendur standi sig að jafnaði jafnvel eða betur en nemendur þeirra þjóða sem Íslendingar vilja gjarnan bera sig saman við. Ljóst er þó af samanburði við þær þjóðir sem standa sig best, að enn má gera verulega betur í öllum greinunum sem rannsakaðar voru.

Fyrsta skoðun niðurstaða bendir til þess, að í íslenskum skólum sé allstór hópur nemenda, sem hefur ekki nægilega verðug verkefni eða sem fullnýta ekki getu sína í grunnskólanum. Því þarf að fjölga þeim nemendum sem ná hæsta getustigi. Lítill sem enginn munur er á árangri íslenskra nemenda eftir skólum, en það endurspeglar einsleitni í íslenska skólakerfinu og rannsóknin bendir til þess, að hér á landi sé lökustu nemendunum vel sinnt í samanburði við það, sem gerist annars staðar.

Í framhaldi af niðurstöðum PISA óskar menntamálaráðuneytið eftir upplýsingum frá grunnskólum um hvort og þá hvaða úrræði þeir hafa fyrir afburðanemendur, þ.e. nemendur sem skara fram úr jafnöldrum sínum í námi.

Meðfylgjandi er stuttur spurningalisti (doc - 26,5 Kb) (pdf - 13,7KB) sem óskað er eftir að allir skólastjórar grunnskóla svari og sendi til menntamálaráðuneytisins fyrir 4. mars nk.
(Febrúar 2002)




Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum