Hoppa yfir valmynd
21. september 2003 Dómsmálaráðuneytið

Skýrsla starfshóps um skipulag vegna slysa

Skýrsla starfshóps um skipulag vegna slysa



Í skýrslu Rannsóknarnefndar umferðarslysa um banaslys í umferðinni árið 2000 kom fram, að nefndin hefði orðið þess vör að viðbrögð við slysum hefðu ekki verið eins og best hefði verið á kosið. Var einkum bent á þörf fyrir betra skipulag í þessum efnum varðandi þjálfun viðbragðsaðila og heilbrigðisstétta, fyrirkomulag búnaðar, verkaskiptingu aðila, samskipti, boðleiðir og samhæfingu við aðgerðir almennt. Lagði rannsóknarnefndin til að unnið yrði að heildarskipulagi um viðbúnað allra hlutaðeigandi aðila vegna slysa hérlendis. Vísað var til hins erlenda hugtaks "trauma system" í skýrslu nefndarinnar en skilningur á gildi skipulags sem slíks er mjög mikilvægur í þessu sambandi.

Dómsmálaráðherra ákvað í framhaldi af þessu og að höfðu samráði við heilbrigðisráðherra að stofna starfshóp til þess að gera tillögur til úrbóta á þessu sviði. Með skipunarbréfi 14. mars 2002 var hópnum falið "að fjalla um stjórn og samræmingu aðgerða bæði á vettvangi og fyrir landið í heild, um þjálfun heilbrigðisstarfsmanna í meðhöndlun slasaðra, einkum viðbrögðum á vettvangi, og aðra þætti í skipulögðum viðbrögðum þjóðfélagsins vegna slysa með það að markmiði að hér á landi verði komið á heildarskipulagi á þessu sviði."

Formaður starfshópsins var skipaður Jón Baldursson, yfirlæknir slysa- og bráðadeildar (SBD) Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH). Aðrir í starfshópnum voru Brynjólfur Mogensen, sviðsstjóri lækninga slysa- og bráðasviðs LSH, Guðbjörg Pálsdóttir, deildarstjóri slysa- og bráðadeildar LSH, Sólveig Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Almannavarna ríkisins, Hjálmar Björgvinsson, aðalvarðstjóri við embætti ríkislögreglustjóra, og Jón Gunnarsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Ritari starfshópsins var skipaður Hólmsteinn Gauti Sigurðsson, lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Hópurinn hefur haldið 10 bókaða fundi auk ýmiss konar undirbúningsstarfa og skilar nú skýrslu til ráðherra um niðurstöður sínar.

Skýrsla starfshóps um skipulag vegna slysa

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum