Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2017 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Degi íslenskrar tungu fagnað víða um land

Degi íslenskrar tungu var fagnað víða um land þann 16. nóvember síðastliðinn. Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, lagði land undir fót og heimsótti skóla og mennta- og menningarstofnanir í Dalvíkurbyggð.

Hann hóf daginn í Árskógarskóla þar sem börnin voru að vinna með ljóð Jónasar Hallgrímssonar. Að svo búnu heimsótti ráðherra Leikskólann Krílakot, Dalvíkurskóla, Bókasafn Dalvíkurbyggðar, Tónlistarskólann á Tröllaskaga og Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar en lauk ferðalagi sínu í menningarhúsinu Bergi á Dalvík þar sem fram fór hátíðardagskrá dags íslenskrar tungu.

Við hátíðardagskrána afhenti mennta- og menningarmálaráðherra Vigdísi Grímsdóttur rithöfundi Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Að auki fékk Gunnar Helgason rithöfundur sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu.

Jónas Hallgrímsson náði einungis 37 ára aldri en þrátt fyrir það lifa ljóðin hans góðu lífi enn í dag, sem og önnur skrif eins og um vísindi og náttúrufræði, svo ekki sé minnst á öll nýyrðin sem hann smíðaði en í ávarpi mennta- og menningarmálaráðherra kom fram að þau eru um 190 talsins. Þar á meðal eru orðin sund, meðalhraði, hugsunarleysi, uppsprettulind og sólkerfi.
Ráðherra sagði einnig:
„Íslenskan á undir högg að sækja og það getur haft afgerandi áhrif á framtíð hennar hvort kennarar, foreldrar, læknar, fjölmiðlafólk eða íþróttaþjálfarar, svo dæmi séu tekin, tali vandað mál. Ef við notum ekki fjölbreytt íslenskt mál dags daglega þá er hætt við því að íslenskan endi með þeim hætti sem Þórarinn Eldjárn nefnir í kvæðinu Á íslensku en þar segir:
„Ef íslensk tunga er aðeins spariflík,
að endingu hún verður fagurt lík.“

Ávarp ráðherra má nálgast hér.

Vigdís Grímsdóttir sagði í ávarpi sínu að töfrar íslenskunnar væru ómældir og að íslensk tunga væri ævintýri. Hún minntist þess þegar hún lærði ljóð Jónasar sem barn:
„Ég var að verða átta ára þegar þetta var. Í þá daga var það dálítið mál að vera átta ára. Ég var með þvertopp og í hvítri blúndutreyju, með stórar gleiðar framtennur og langt nef og vildi gera öllum til geðs og einmitt þess vegna lærði ég ljóðið hans Jónasar utanbókar, eins og títt var um krakka hér áður fyrr. Ég lærði orð fyrir orð, línu fyrir línu, setningu fyrir setningu, erindi á erindi ofan. Þetta var mikið púl og puð, en gekk samt þokkalega hjá mér enda kveðandinn yndislegur. Ljóðið var Ferðalok sem er kannski fegursta ljóð sem ort hefur verið á tungumáli manna og engla, sem íslenskan auðvitað er.
Núna hérna sem ég stend og er orðin átta sinnum átta ára, næstum uppá dag, man ég hvað ég átti bágt með að skilja síðasta erindið, en það gekk þó upp að lokum mér til ómældrar gleði og ómælds monts. Það skildi nefnilega enginn segja mér neinsstaðar, að ég skildi ekki ljóðin sem ég kunni, ég skyldi ekki rekin á gat nokkursstaðar. Ég veit að þið munið þetta síðasta erindi:

„Háa skilur hnetti
himingeimur,
blað skilur bakka og egg,
en anda sem unnast,
fær aldregi 
eilífð að skilið.“

Ávarp Vigdísar má nálgast hér.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira