Hoppa yfir valmynd
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Vilji til að efla byggðamálin á öllum sviðum

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra flytur ávarp á ársfundi Byggðastofnunar. - myndByggðastofnun

Stjórnarsáttmálinn staðfestir mikinn vilja til að efla byggðamálin á öllum sviðum og styrkja búsetu vítt og breitt um landið,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í ávarpi á ársfundi Byggðastofnunar, sem haldinn er á Hótel Laugarbakka í Miðfirði í dag.

Ráðherra sagði m.a. að með því að færa byggðamálin yfir í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið á síðasta ári hafi gefist tækifæri til að samþætta þau betur við málaflokka sem hafi mikla þýðingu fyrir þróun byggðar og búsetu, eins og samgöngu- og fjarskiptamálin hafa. „Byggðamálin eru sem slík afar mikilvægur málaflokkur - en það er líka mikilvægt að hafa í huga að byggðamál koma við sögu í flestum ef ekki öllum málaflokkum og viðfangsefnum hins opinbera - ríkis og sveitarfélaga,‘‘ sagði hann. „Það er síðan okkar verkefni, sem vinnum að byggðamálum, að tryggja að byggðagleraugun séu til staðar - alls staðar.“

Ráðherra sagði að meðal áforma ríkisstjórnarinnar væri að

 • styrkja sóknaráætlanir enda eru þær mikilvægt tæki til að reka byggðastefnu á forsendum heimamanna,
 • skoða kosti þess að nýta námslánakerfið og önnur kerfi sem hvata fyrir fólk til að setjast að í dreifðum byggðum,
 • fela ráðuneytum og stofnunum að skilgreina störf og auglýsa þau án staðsetningar eins og kostur er, og
 • lokið verði gerð þjónustukorts sem sýnir aðgengi landsmanna að allri almennri þjónustu og gripið til aðgerða í kjölfarið þar sem þess er þörf – viðræður séu hafnar við Byggðastofnun um framkvæmd þessa verkefnis.

Þá sé stefnt að því að gera innanlandsflug að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðarinnar og síðast en ekki síst sé ætlunin að ljúka ljósleiðaravæðingu árið 2020. „Allt eru þetta geysilega mikilvæg verkefni sem brýnt er að vinna að og bæta búsetuskilyrði á landinu.“

Sigurður Ingi sagði að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem nýlega var lögð fram á Alþingi, tryggi síðan fjármögnun fjölda umbótaverkefna. „Við stöndum auðvitað frammi fyrir forgangsröðun, ekki eru til nægir fjármunir í allt sem við viljum gera og teldum þarft - þannig verður það alltaf. Við getum hins vegar glaðst yfir töluverðri aukningu til málefnasviða samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Aukningin nemur alls 13,6 ma.kr. yfir tímabil áætlunarinnar og aukningin á heildarframlagi til málefnasviðs sveitarfélaga og byggðamála alls 791 m.kr.“

Ráðherra ræddi einnig tillögu til þingsályktunar um stefnumarkandi byggðaáætlun til sjö ára sem hann mælti fyrir á Alþingi í síðustu viku. „Byggðaáætlun er nú í fyrsta skipti lögð fram á grundvelli nýrra laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, sem samþykkt voru á Alþingi árið 2015. Hér er um metnaðarfulla áætlun að ræða, sem lýsir framtíðarsýn stjórnvalda í málaflokknum. Byggðaáætlun er nú sett fram í fyrsta skipti með skýrum markmiðum og mælikvörðum.“ Ráðuneytið mun í samstarfi við Byggðastofnun og stýrihóp stjórnarráðsins um byggðamál tryggja skilvirka framkvæmd áætlunarinnar, eftirfylgni og endurmat. „Við ætlum að færa þessa áætlun frá orðum til athafna - það gerum við saman.“

Ráðherra sagði frá því að hann hefði í hyggju að skipa starfshóp sem fær það hlutverk að meta þörf fyrir endurskoðun laga um Byggðastofnun, sem eru frá árinu 1999. Hann kvaðst telja eðlilegt að lagaumhverfið sé yfirfarið reglulega og tryggt að það styðji á hverjum tíma við hlutverk og gildi stofnunarinnar.

Samkvæmt ákvæðum laga um Byggðastofnun skipar ráðherra á ársfundi stofnunarinnar sjö menn í stjórn hennar til eins árs í senn og sjö menn til vara. Ráðherra skipar einnig formann og varaformann og ákveður þóknun stjórnar. Skýrði ráðherra frá því að hann hafi ákveðið að eftirtaldir aðilar verði skipaðir í stjórn Byggðastofnunar:

 • Illugi Gunnarsson, formaður
 • Einar E. Einarsson, varaformaður
 • Sigríður Jóhannesdóttir
 • Gunnar Þorgeirsson
 • Karl Björnsson
 • María Hjálmarsdóttir
 • Gunnar Þór Sigbjörnsson

Varamenn verði:

 • Ásthildur Sturludóttir
 • Eygló Björg Jóhannsdóttir
 • Þórey Edda Elísdóttir
 • Eiríkur Blöndal
 • Anna Guðrún Björnsdóttir
 • Oddný María Gunnarsdóttir
 • Halldór Gunnarsson

- Nánar um ársfundinn á vef Byggðastofnunar

Frétt um framlagningu stefnumótandi byggðaáætlunar 2018-2024

 

 • Illugi Gunnarsson, formaður stjórnar Byggðastofnunar, flytur ávarp sitt.
 • Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar.
 • Ársfundur Byggðastofnunar 2018 var haldinn á Laugarbakka í Miðfirði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira