Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Skýrsla um flutning hergagna með borgaralegum loftförum 2008-2017

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur lokið könnun sinni á veitingu undanþága vegna flutninga á hergögnum með borgaralegum loftförum á árunum 2008-2017 og gefið út skýrslu þar að lútandi. Áfangaskýrsla var gefin út 13. apríl sl. þar sem greint var frá helstu niðurstöðum varðandi flutninga á hergögnum með íslenskum loftförum. Í kjölfarið hefur ráðuneytið með aðstoð Landhelgisgæslu kannað með sama hætti þær undanþágur sem veittar hafa verið sem og farmbréf og önnur fylgiskjöl vegna flutninga á hergögnum um íslenskt yfirráðasvæði.

Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

  • Engar vísbendingar eru um að íslensk stjórnvöld hafi veitt undanþágur til flutninga á hergögnum sem falla undir jarðsprengju- eða klasasprengjusamninga Sameinuðu þjóðanna. Gildir þetta bæði um flutninga um íslenskt yfirráðasvæði og um flutninga íslenskra flugrekenda.
  • Engar undanþágur hafa verið veittar vegna flutninga á hergögnum til ríkja eða aðila sem íslensk stjórnvöld hafa framfylgt þvingunaraðgerðum gegn né verið veittar í andstöðu við skuldbindingar íslenskra stjórnvalda samkvæmt Vopnasölusáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Forsetaúrskurður nr. 20/2018, um skiptingu stjórnarmálefna í Stjórnarráði Íslands, tók gildi 3. maí sl. Samkvæmt honum fer utanríkisráðherra nú með framkvæmd 1. og 5. mgr. 78. gr. loftferðalaga er varða flutning hergagna og annars slíks búnaðar með loftförum. Er sú ráðstöfun grundvölluð á vinnu sem hófst síðastliðið haust að frumkvæði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í samstarfi við utanríkisráðuneytið og Samgöngustofu og sneri að endurskoðun á reglugerð um flutning hergagna. Laut hún m.a. að því að tryggja aðkomu utanríkisráðuneytisins að veitingu undanþága til flutnings á hergögnum með borgaralegum loftförum enda þurfa ákvarðanir þar að lútandi að grundvallast á  stefnu stjórnvalda í utanríkis-, varnar- og öryggismálum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn