Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2020 Dómsmálaráðuneytið

Birting Landsáætlunar um samþætta Landamærastjórn

Dómsmálaráðherra hefur gefið út Landsáætlun um samþætta landamærastjórn 2019 til 2023. Landsáætlunin felur í sér stefnu sem er ætlað að afmarka umfang og skilgreina verkefni þeirra stjórnvalda sem koma að málefnum landamæra.

Er þar bæði átt við stefnumótun, skipulag verkefna og framkvæmd þeirra málefna. Stefnunni er jafnframt ætlað að innleiða samþætta landamærastjórn hér á landi en Íslandi er skylt að innleiða sérstaka áætlun um samþætta landamærastjórn á grundvelli Schengen samstarfsins. Byggir sú skylda á 3. gr. reglugerðar nr. EU 2016/1624 um Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu (Frontex). Megin inntak áætlunar um samþætta landamærastjórn er að samhæfa framkvæmd þeirra aðila sem koma að þessum málaflokki, auka samstarf, efla aðgerðir til að sporna við afbrotum innan svæðis og þvert á landamæri, efla nýtingu á þeirri tækni sem er fyrir hendi auk annarra þátta.

Samhliða stefnunni er lögð fram aðgerðaáætlun til 5 ára til að hrinda markmiðum stefnunnar í framkvæmd. Stefnunni í málefnum landamæra er ætlað að tryggja virkni, samræmingu og hagkvæmni í nýtingu starfskrafta og fjármuna sem varið er til málaflokksins.

Stefnan var unnin af landamæradeild embættis ríkislögreglustjóra fyrir hönd ráðuneytisins og var unnin í nánu samstarfi við fulltrúa rýnihóps sem settur var saman af þessu tilefni en í rýnihópnum sitja fulltrúar frá dómsmálaráðuneyti, Útlendingastofnun, lögregluembættum, Landhelgisgæslu Íslands, Tollstjóra auk utanríkisráðuneytisins.

Á þessari slóð má finna Landsáætlun um samþætta landamærastjórn

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum