Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Húsfyllir á heilbrigðisþingi um lýðheilsu á morgun – hægt að fylgjast með í beinu streymi

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra - myndStjórnarráðið

Mikill áhugi er á heilbrigðisþingi um lýðheilsu sem fram fer á hótel Nordica í Reykjavík á morgun. Rúmlega 300 manns hafa skráð sig á þingið og ekki sæti fyrir fleiri. Hægt er að fylgjast með þinginu í beinu streymi á vefnum www.heilbrigdisthing.is.

Formleg dagskrá þingsins hefst kl. 9.00 með setningarávarpi Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra. Framkvæmdastjóri Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) ávarpar einnig þingið og síðan tekur við fjölbreytt dagskrá með hérlendum og erlendum fyrirlesurum.

Dagskrá þingsins endurspeglar hversu breytt hugtakið lýðheilsa er. Fyrirlesarar og þátttakendur í pallborði koma því víða að, s.s. fulltrúar fræðasamfélagsins, sveitarfélaga, skóla, íþróttahreyfingarinnar og annarra félagasamtaka, auk fulltrúa frá WHO og Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD).

Upplýsingar um þingið, dagskrá þess og fyrirlesara ásamt fleiri hagnýtum upplýsingum og aðgengi að beinu streymi eru á vefnum www.heilbrigdisthing.is

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum