Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Auka þjónustu og bæta lífsgæði táknmálstalandi fólks

Auka þjónustu og bæta lífsgæði táknmálstalandi fólks - myndMenningar- og viðskiptaráðuneytið

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Hildur Jörundsdóttir sérfræðingur hjá ráðuneytinu funduðu með Hönnu Láru Ólafsdóttur, Selmu Kaldalóns og Huldu M. Halldórsdóttur á dögunum. 

Þróun og framtíð íslenskrar tungu á tímum örrar alþjóðavæðingar og tæknibyltinga er mikilvæg til að styrkja stöðu þjóðtungunnar. Í nýju fjármálafrumvarpi er meðal annars fjallað um stuðning við íslenskt táknmál.

Lögð verður fram tillaga til þingsályktunar um íslenskt táknmál og aðgerðaráætlun vegna hennar. Í drögum að þingsályktunartillögu um fyrstu opinberu málstefnuna um íslenskt táknmál er staða íslenska táknmálsins skýrð og hún unnin í samræmi við drög að íslenskri málstefnu. 

,,Við viljum gera betur í þágu heyrnarlausra og heyrnarskertra með það að markmiði að auka lífsgæði þeirra. Við ætlum okkur að hrinda stefnu um íslenskt táknmál til framkvæmdar og forgangsraða fjármunum til að bæta aðgengi heyrnarskerta og heyrnarlausa að félagslegri túlkaþjónustu,‘‘ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra. 

Drög að tillögu til þingsályktunar um málstefnu íslensks táknmáls (ÍTM) voru unnin af starfshópi skipuðum fulltrúum Málnefndar um íslenskt táknmál, Félags heyrnarlausra og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, í víðtæku samstarfi við sérfræðinga í málaflokknum. 

Íslenskt táknmál (ÍTM) er hefðbundið minnihlutamál á Íslandi skv. lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011.  Tillaga til þingsályktunar um málstefnu og aðgerðaáætlun um íslenskt táknmál er í vinnslu þar sem Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra verður falin meginábyrgð á framkvæmd aðgerða í aðgerðaáætlun eftir því sem við á. 

Aukin þjónusta við táknmálstalandi fólk gerir því kleift að taka fyllri þátt í samfélaginu en ella og stuðlar aukin þjónusta þannig að því að það standi jafnfætis einstaklingum sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.

Sjá einnig: Viðspyrna gegn verðbólgu með aðhaldi og skýrri forgangsröðun

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum