Hoppa yfir valmynd
9. júní 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Aukin ánægja með þjónustu stofnana

73% þátttakenda í könnun á þjónustu stofnana ríkisins eru ánægðir með þjónustuna að því er fram kemur í árlegri könnun á þjónustunni. Tæplega 5.000 notendur tóku þátt í könnuninni og var spurt um heildaránægju í fjórum þáttum – þjónustu, viðmóti, hraða og áreiðanleika.

Heildareinkunn stofnana hækkaði í öllum þáttum eftir að hafa lækkað lítillega í síðustu könnun. Hraði þjónustunnar er sá mælikvarði sem hækkar mest á milli ára.

Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að almenningur kýs helst sjálfsafgreiðslu á vef þegar kemur að þjónustu stofnana. Þó gátu fleiri hugsað sér að mæta á staðinn nú en í síðustu könnun, en þá þarf að hafa til hliðsjónar að sú könnun var framkvæmd á tímum heimsfaraldurs. Yngra fólk (55%) er líklegra til að kjósa stafræna þjónustu en þeir sem eldri eru (39%) og þau sem búsett eru á höfuðborgarsvæðinu (48%) kjósa stafræna þjónustu í ríkara mæli en þau sem búsett eru á landsbyggðinni (40%).

Sé litið framhjá þeim stofnunum sem eðlilegt er að fólk sæki þjónustu beint til, svo sem mennta- og menningarstofnanir eða heilbrigðisstofnanir, fer áhugi á að nýta stafræna þjónustu yfir 55%.


Könnun á þjónustu stofnana er mikilvægur liður í að meta frammistöðu opinberra aðila og setja mælikvarða fyrir rekstur ríkisins sem stuðla að bættum árangri. Þá er könnunin mikilvægur mælikvarði á framgang stafrænnar þjónustu, sem stjórnvöld hafa lagt ríka áherslu á, og vitni um áhuga almennings á notkun hennar.

Framkvæmd könnunarinnar í ár var í höndum Maskínu og náði til 134 stofnana, en 4.904 tóku þátt í könnuninni, sem gerð var á frá mars-maí í ár. 

 

 
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum