Hoppa yfir valmynd
15. júní 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Álagning opinberra gjalda á einstaklinga árið 2022

Ríkisskattstjóri lauk á dögunum álagningu opinberra gjalda á einstaklinga. Álagningin 2023 tekur mið af tekjum einstaklinga árið 2022 og eignastöðu þeirra 31. desember 2022.

Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

  • Fjöldi framteljanda í álagningu var 332.069 og fjölgar um 14.502 milli ára. Almennur tekjuskattur nemur 236 ma.kr og fjármagnstekjuskattur 43 ma.kr. Samtals nemur tekjuskattur til ríkissjóðs 279 ma.kr og 306 ma.kr renna í útsvar til sveitarfélaga.
  • Í þeim tilvikum þar sem persónuafsláttur er nýttur til greiðslu útsvars ábyrgist ríkissjóður greiðslu útsvars til sveitarfélaganna. Ríkissjóður greiðir þannig að öllu leyti útsvar þeirra sem hafa tekjur undir skattleysismörkum. Persónuafsláttur nýttur til greiðslu útsvars nemur 10,5 ma.kr. Útsvar greitt af ríkissjóði nemur 3,4% af heildarútsvarstekjum sveitarfélaga.

Tæplega 246 þúsund einstaklingar fá álagðan tekjuskatt og fjölgar um tæplega 12 þúsund milli ára. Þá fá 319.500 einstaklingar álagt útsvar. Framteljendur sem hafa engar tekjur sem falla undir tekjuskatts- og útsvarsstofn eru 12.500.

 
  • Endanlegur tekjuskatts- og útsvarsstofn landsmanna hækkar um 10,5% frá tekjuárinu 2021 og nam 2.015 ma.kr árið 2022. Stofninn reiknast út frá öllum launum og ígildi launa, hlunninda, lífeyri frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbótum, styrkjum og hvers kyns öðrum greiðslum að teknu tilliti til frádráttar.
  • Af einstökum tekjuliðum hækkuðu laun og hlunnindi um 231 ma.kr (15,3%), greiðslur úr lífeyrissjóðum og frá Tryggingastofnun hækkuðu um 17,4 ma.kr (8,2%) og 11,8 ma.kr (6,9%). Atvinnuleysisbætur lækkuðu um 53% á milli ára og námu útgreiðslur 23,4 ma.kr. Lækkunin skýrist af öflugri viðspyrnu efnahagslífsins og afléttingu aðgerða vegna heimsfaraldurs.
  •  14.753 einstaklingar fá áætlaðan tekjuskattstofn upp á 75,7 ma.kr. að meðtöldu álagi. Fjölgar einstaklingum sem fá áætlaðan tekjuskattstofn um 586 (3,8%) á milli ára og nemur hlutfall þeirra 3,8% af tekjuskatts- og útsvarsstofninum.
  •  Einstaklingar sem greiddu einungis tekjuskatt í 1. þrepi voru 129.007 (39%), þeir sem greiddu tekjuskatt í fyrsta og öðru þrepi voru 183.816 (55%) að lokum greiddu 19.246 (6%) einstaklingar tekjuskatt í öllum þrepum tekjuskatts. Að jafnaði var tekjuskattsstofn einstaklings á aldursbilinu 25-67 ára 653 þ.kr. á mánuði. Í efra fjórðungsmarki var tekjuskattsstofn einstaklinga 805 þ.kr. og í neðra fjórðungsmarki var hann 391 þ.kr. á mánuði.
  •  
  • Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga nemur 42,8 ma.kr og hækkar um 11% á milli ára. Einstaklingum sem fá fjármagnstekjur fjölgar um 12.384 og fengu 41.057 einstaklingar greiddar fjármagnstekjur árið 2022. Fjármagnstekjur námu 227 ma. kr. og hækka um 32,5 ma.kr. (16,7%) milli ára. Skipta má fjármagnstekjum í arð, vexti, leigu og söluhagnað. Af undirliðum fjármagnstekna þá lækkaði söluhagnaður en aðrir liðir hækkuðu. Stærsti einstaki liður fjármagnstekna árið 2022 var arður hlutabréfa 93.102 ma. kr. (38%)
  • Eins og fyrr segir miðast eignastaða við 31. desember 2022. Heildareignir landsmanna voru metnar á 10.880 ma.kr. en á móti þeim eignum námu skuldir 2.980 ma.kr. Verðmæti eigna jókst um 1.900 ma.kr. (21%) og skuldir hækkuðu um 268 ma.kr. (10%) á milli ára. Eigið fé jókst um 1.600 ma.kr og munar þar mestu um að matsverð fasteigna hækkar um 1.700 ma.kr (26%) á milli ára.
  • Viðmiðunarfjárhæðir barnabóta hækkuðu um 8% á milli tekjuáranna og heildarfjárhæð útgreiddra barnabóta hækkaði um 4% á milli ára. Um áramótin urðu breytingar á barnabótakerfinu og það einfaldað Tilgangur breytinganna var að fjölga þeim sem nytu stuðnings og draga úr skerðingum í kerfinu, auk þess sem jaðarskattar af völdum barnabóta lækka og skilvirkni og tímanleiki bótanna verður aukinn. Árið 2023 er ein upphæð greidd með hverju barni, óháð fjölda barna. Skerðingarmörk tekna verða 4.750 þ.kr. hjá einstæðu foreldri og 9.500 þ.kr. hjá hjónum og sambúðarfólki. Skerðingarhlutföll eftir fjölda barna verða 4%, 6% og 8% óháð tekjum en voru áður 5,5%, 7,5% og 9,5% fyrir tekjur ofan tiltekinna marka
  •  Greiðslur ríkissjóðs vegna barnabóta, sem ákvarðast samkvæmt tekjum ársins 2022 og eru greiddar út árið 2023 nema 14,3 ma.kr . Foreldrar sem fengu greiddar barnabætur árið 2022 voru 55.842 og fjölgaði um 4.535 frá árinu á undan. Sérstakur barnabótaauki var greiddur út 1. júlí 2022 að upphæð 20 þ.kr. með hverju barni til þeirra sem fengu ákvarðaðar barnabætur við álagningu 31. maí 2022. Af greiddum barnabótum fengu konur 68,8%, karlar 31,1% og aðrir minna en 1%.
  •  

Vaxtabætur samkvæmt álagningu 2023 eru 2 ma.kr sem er áþekk fjárhæð frá fyrra ári.. Samtals fengu 13.195 vaxtabætur og fækkar um 340 milli ára. Markmið stjórnvalda síðustu ár hefur verið að beina húsnæðisstuðningi í annan farveg en í gegnum vaxtabótakerfið t.d. með skattfrjálsri úttekt séreignarsparnaðar þar sem gert er ráð fyrir 3,5 ma.kr eftirgjöf ríkisins af tekjuskatti á árinu 2023. Alls hefur úttekt séreignarsparnaðar kostað ríkissjóð 16 ma.kr frá árinu 2018.

 

Lækkun vaxtabóta nú eins og fyrri ár skýrist af betri eiginfjárstöðu heimila og auknum tekjum.

 

Inneign framteljenda að lokinni álagningu er alls 32,3 ma.kr. en þar af verður 5,7 ma.kr. ráðstafað upp í kröfur vegna vangoldinna gjalda. Eftir stendur því 26,6 ma.kr. sem tæplega 187 þúsund manns eiga í inneign hjá ríkissjóði 1. júní. Um er að ræða endurgreiðslur á ofgreiddum sköttum, barnabætur og vaxtabætur. Þá á ríkið kröfur á hluta gjaldenda sem verða á gjalddaga síðari hluta ársins 2023 vegna vangreiddra skatta ársins 2022 og eldri krafna. Sú fjárhæð nemur alls 73,3 ma.kr.

Útborgun til einstaklinga í kjölfar álagningarinnar

M.kr.

2022

2023

Barnabætur

3.740

3.856

Sérstakur barnabótaauki

1.117

-

Vaxtabætur

1.677

1.658

Ofgreidd staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars

16.209

17.633

Ofgreidd staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts

794

2.203

Annað

421

542

Alls

22.841

25.893

 

Heildarfjárhæðin sem greidd er út við álagninguna er 25.893 m.kr. og hækkar um 13,4% á milli ára. Mikil aukning varð á ofgreiddri staðgreiðslu fjármagnstekna. Þá mun ríkissjóður auk þess greiða 3,8 ma.kr í barnabætur 1. október næstkomandi.

Sjá einnig: Kaupmáttur jókst þrátt fyrir verðbólgu og mikill meirihluti skatttekna kom frá þeim tekjuhæstu 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum