Hoppa yfir valmynd
21. júní 2023 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Heimsleikar fatlaðra í Berlín

Eliza Reid forsetafrú og Ásmundur Einar Daðason, ráðherra íþróttamála, á opnunarhátíð heimsleika fatlaðra í Berlín - mynd

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, er staddur í Berlín þar sem hann tók þátt í setningarathöfn heimsleika fatlaðra (Special Olympics) sem haldnir eru í Berlín 17.–25. júní. Markmið heimsleikanna er m.a. að vekja athygli á mikilvægi þátttöku fatlaðra í íþróttastarfi. Ráðherra ræddi samhliða við erlenda kollega um hvernig auka megi þátttökuna.

Á heimsleikunum eru 7.000 íþróttamenn frá 170 löndum mættir til keppni í 26 íþróttagreinum auk um 3.000 þjálfara og 20.000 sjálfboðaliða. Forseti Sambandslýðveldisins Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, er gestgjafi heimsleikanna. Yfirskriftin er #UnbeatableTogether þar sem lögð er áhersla á umburðarlyndi, virðingu og áræðni.

„Ávinningur íþróttastarfs er óumdeilanlegur og ber að efla og auka aðgengi að því þvert á samfélagið. Við erum svo lánsöm að hafa sterka bakhjarla á borð við Íþróttasamband fatlaðra og fleiri til að halda uppi öflugu íþróttastarfi fyrir fatlaða hérlendis. Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að fylgjast með íslenskum keppendum á stóra sviðinu hér í Berlín og ræða hvernig bæta megi umgjörð í almennu íþrótta-, frístunda- og skólastarfi við erlenda kollega,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Íþróttasamband fatlaðra (ÍF) var stofnað árið 1979 og varð formlega aðili að Special Olympics samtökunum tíu árum síðar. Á landinu eru nú starfandi 25 íþróttafélög sem skipuleggja íþróttir fyrir fatlaða með um 700 skráða iðkendur. Þessi íþróttafélög starfa um allt land og skipuleggja íþróttastarf hvert á sínu svæði. Alls tóku 30 keppendur frá Íslandi þátt í heimsleikunum.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum