Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2023 Mennta- og barnamálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Íslensku menntaverðlaunin 2023

 Sigurður Hannesson, Arnar Óskarsson, Engilbert Valgarðsson, Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, Valgarð Már Jakobsson, Guðbjörg Aðalbergsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Gunnar E. Sigurbjörnsson, Arnar Helgi Magnússon, Fiona Elizabeth Oliver, Ásmundur Einar Daðason, Sigurður Ingi Jóhannsson og Gerður Kristný Guðjónsdóttir. Ljósmynd: Embætti forseta Íslands/Mummi Lú - mynd

Íslensku menntaverðlaunin 2023 voru veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Verðlaunin eru veitt í fimm flokkum; fyrir framúrskarandi skóla- eða menntaumbótastarf, kennslu, þróunarverkefni, iðn- og verkmenntun, auk sérstakra hvatningarverðlauna.

Markmið verðlaunanna er að efla menntun og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum. Að auki er veitt hvatning til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr.

A. Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur

Verðlaun veitt menntastofnun sem stuðlað hefur að umbótum er þykja skara fram úr.

Verðlaunin hlýtur Framhaldskólinn í Mosfellsbæ fyrir þróun verkefnamiðaðra kennsluhátta og leiðsagnarnáms. Skólinn hefur verið í fararbroddi á þessu sviði, en þar er lögð áhersla á að virkja nemendur til þátttöku og koma til móts við þarfir þeirra með fjölbreyttum og skapandi aðferðum.

B. Framúrskarandi kennari

Verðlaun veitt kennara sem stuðlað hefur að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.

Verðlaunin fær Fiona Elizabeth Oliver kennari við Víkurskóla í Reykjavík. Víkurskóli er nýsköpunarskóli og Fiona hefur tekið virkan þátt í þróun skólans og verið verkefnistjóri um innleiðingu og þróun leiðsagnarnáms en námsmat er eitt af helstu áhugasviðum hennar.

C. Framúrskarandi þróunarverkefni

Verðlaun fyrir verkefni sem þykir standast ítrustu gæðakröfur um markmið, leiðir, inntak, mat og kynningu.

Verðlaunin hlýtur verkefnið  Samstarf  velferðarþjónustunnar í Árborg og félagsmiðstöðvarinnar Zelsíuz.

Í ár koma þessi verðlaun í fyrsta sinn í hlut félagsmiðstöðvar, sem í samstarfi við velferðarþjónustu sveitarfélagsins, hefur lyft grettistaki við að rjúfa félagslega einangrun barna og unglinga og stuðla að því að þeir verði virkir þátttakendur í félagsstarfinu. Verkefnið sýnir vel hvað þverfaglegt samstarf er mikilvægt til að koma til móts við börn, eins snemma og unnt er, sem er markmið nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

D. Framúrskarandi iðn- eða verkmenntun

Verðlaun veitt kennara, námsefnishöfundi, skóla- eða menntastofnun fyrir framúrskarandi starf, verk eða framlag til iðn- eða verkmenntunar.

Verðlaunin fær Málarabraut Tækniskólans fyrir að þróa einstaklingsmiðað nám, en námi á brautinni hefur á undanförnum árum verið umbylt með þeim hætti að nemendur geta tekið námið á eigin hraða, með hliðsjón af hæfniviðmiðum. Námið getur farið fram hvar sem er og nemendum á landsbyggðinni verið gert kleift að stunda málaranám úr heimabyggð.

E. Hvatningarverðlaun

Hvatningarverðlaun eru veitt til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr.

Verðlaunin hlýtur Jafnréttisskólinn í Reykjavík en þar hefur verið unnið ómetanlegt starf við að miðla þekkingu á jafnréttismálum til starfsfólks leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva Reykjavíkurborgar og veita ráðgjöf og stuðning varðandi ýmis málefni sem varða jafnréttismenntun, mannréttindi og kynheilbrigði. Þetta starf hefur ekki aðeins nýst í starfi með börnum í höfuðborginni, heldur getur þjónusta skólans nýst öllum kennurum og öðrum uppalendum um land allt.

Að verðlaununum standa embætti forseta Íslands, mennta- og barnamálaráðuneytið, innviðaráðuneytið, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og Samtök iðnaðarins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum