Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 9. febrúar 2024

Heil og sæl, 

Enn er kominn föstudagur og eins og vanalega lítum við yfir vikuna og sjáum hvaða viðburðir stóðu upp úr hjá sendiskrifstofunum okkar. 

Byrjum í New York. Forseta allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, Dennis Francis, var í vikunni afhentur nýr fundarhamar allsherjarþingsins en upphaflega gaf Íslands Sameinuðu þjóðunum slíkan hamar að gjöf árið 1952.

Ástæða þess að afhenda þurfti nýjan var sú að sá fyrri brotnaði í meðförum forsetans í september síðastliðnum þegar forseti þingsins freistaði þess að ná ró í salinn eftir að Bandaríkjaforseti hafði lokið þar máli sínu. 

Lesa má meira um sögu þessa merkilega hamars í skemmtilegri samantekt á stjórnarráðsvefnum.

Fulltrúar þings og þjóðar voru áberandi í störfum Sameinuðu þjóðanna í vikunni. Formaður utanríkismálanefndar, Diljá Mist Einarsdóttir, hitti fyrir kollega frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum.

Þau áttu meðal annars fund með aðalframkvæmdastjóra SÞ og forseta allsherjarþingsins.

Í dag lauk svo hinum árlega fundi IPU þingamannasamtakanna í Sameinuðu þjóðunum þar sem sjónum var beint að friði og öryggi í fallvöltum heimi. Þórunn Sveinbjarnardóttir þátt í fundinum fyrir hönd Alþingis. 

Þingmennirnir notuðu ferðina yfir Atlantshafið vel og heimsóttu líka Washington D.C. Diljá Mist Einarsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, tók þátt í dagskrá sem var skipulögð fyrir formenn utanríkismálanefnda Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna en Bergdís Ellertsdóttir sendiherra tók jafnframt þátt í nokkrum fundanna, m.a. með Ron Johnson, öldungadeildarþingmanni Repúblikanaflokksins frá Wisconsin. Heimsókn formannanna vakti nokkra athygli en m.a. fjallaði CNN um hana, ritið Foreign Policy og Reuters.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingkona Samfylkingar, var einnig í Washington í vikunni og sótti fyrir hönd Alþingis Íslendinga dagskrá sem sendiráð Íslands bar hitann og þungann af því að skipuleggja, fyrir þingmenn frá öllum Norðurlöndunum sem hlut eiga að Alþjóðaþingmannasambandinu (IPU). Þórunn og hinir norrænu félagar hennar sóttu fundi í varnarmálaráðuneytinu, Pentagon, í utanríkisráðuneytinu, á Bandaríkjaþingi og með fulltrúum ýmissa hugveitna, um öll þau mál sem efst eru á baugi í utanríkismálum hér vestra. Mæltist dagskráin vel fyrir en þetta var annars tíðindamikil vika í bandarískum stjórnmálum og spenna farin að aukast vegna forseta- og þingkosninga sem fram fara síðar á árinu. Málefni Úkraínu og Miðausturlanda voru ofarlega á baugi á þeim fundum sem skipulagðir voru og tók sendiráðið vitaskuld fullan þátt í öllum fundum sem komið hafði verið á koppinn af þessu tilefni.

Ragnhildur E. Arnórsdóttir sendiráðunautur hjá sendiráði Íslands í Washington og Einar Hansen Tómasson, viðskiptafulltrúi í New York, voru á ferð í Denver í Colorado til að halda áfram að styrkja tengsl og skapa tækifæri fyrir Ísland á sviði orkumála en mikill áhugi er í Bandaríkjunum á grænum orkulausnum Íslendinga. 

Mannréttindi í Malaví voru í kastljósinu í vikunni en fulltrúar sendiráðs Íslands í Malaví, ásamt fulltrúum sendiráðs Noregs og Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP), undirrituðu samning um stuðning við stofnanir og samtök sem standa vörð um mannréttindi í landinu.

Hanna Dís Whitehead leiðir vinnustofu fyrir börn og fullorðna í gerð pappírsskúlptúra. Vinnustofan er samstarfsverkefni Hönnunarmars og sendiráðs Íslands í Stokkhólmi. 

Unnur Orradóttir Ramette sendiherra Íslands í París sótti árlegan fund kjörræðismanna Íslands á Spáni og í Andorra sem haldinn var í Barcelona undir dyggri stjórn Astridar Helgadóttur ræðismanns þar í borg. 

Ræðismenn Íslands komu líka við sögu í sendiráði Íslands í Osló í vikunni en þar var þeim boðið til samráðsfundar þar sem farið var yfir málefni sendiráðsins, ræðisskrifstofanna og annað er varðar hagsmunagæslu fyrir Ísland og Íslendinga í Noregi. 

Gestum og gangandi á vetrarhátíð sem fór fram í Ottawa í vikunni var boðið að "ferðast til Íslands" með hjálp nýjustu tækni og vísinda. 

Hlynur Guðjónsson sendiherra Íslands í Kanada tók þátt í hringborði sendiherra á Norðurslóðum á ráðstefnunni Arctic360 sem fer þessa dagana fram í Toronto. 

Sturla Sigurjónsson sendiherra Íslands í London heimsótti sendiráð Póllands í tilefni af "feitum fimmtudegi" sem svipar að vissu leiti til bolludags okkar Íslendinga sem við bíðum að sjálfsögðu í ofvæni eftir. 

Á morgun opnar myndlistarsýning Hallgríms Helgasonar: "Gruppeportræt af selvet". Hluti sýningarinn er í anddyri sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn, en líka í sýningarsal Norðurbryggju.

Árni Þór Sigurðsson sendiherra Íslands í Danmörku heimsótti Álaborg og kynnti sér meðal annars starfsemi UCN Professionshøjskolen sem á í samstarfi við HÍ, HA og Sjúkrahúsið á Ísafirði. 

 

Kynningarfundur um formennsku Íslands í Norðurlandaráði fór fram þann 7. febrúar í sendiherrabústað Íslands í Frederiksberg. Árni Þór Sigurðsson, sendiherra bauð gesti velkomna og síðan tók forseti Norðurlandaráðs, Bryndís Haraldsdóttir við, ásamt Oddnýju G. Harðardóttur, varaforseta Norðurlandaráðs og kynntu þær áherslur Íslands í formennskutíðinni framundan.

Það var hátíðleg stund í Namayingo-héraði í gær þegar nýju verkefni gegn fæðingarfistli, sem Ísland fjármagnar í samstarfi við Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) var formlega ýtt úr vör. Á meðal þeirra sem ávörpuðu samkomuna voru þær Hildigunnur Engilbertsdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Úganda, Gift Malunga, yfirmaður UNFPA í Úganda, og Margaret Makoha, þingkona Namayingo. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér

Íslensk menning blómstrar í Helsinki. Margrét Sara Jónsdóttir stendur fyrir sýningu í samtímalistamiðstöðinni MUU.

Kristín Gunnlaugsdóttir myndlistarkona Lene Wahlstend, sýningarstjóri frá Listasafni Finnlands auk Anu Utriainen listrannsakanda heimsóttu Harald Aspelund sendiherra Íslands í Finnlandi og könnuðu möguleika á samstarfi í framtíðinni. 

Í Brussel taka norrænu sendiráðin sig saman og ræða jafnréttismál í fótboltaheiminum. 

Starfsfólk sendiráðs Íslands í Berlín gladdist yfir komu Kokkalandslið Íslands til Stuttgart

Fleira var að ekki að sinni. 

Við óskum góðrar helgar!

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum