Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2017 Innviðaráðuneytið

Ríki og sveitarfélög skrifa undirsamkomulag um afkomumarkmið til 2022

Skrifað undir samkomulag ríkis og sveitarfélaga um afkomumarkmið. - mynd

Fulltrúar ríkis og sveitarfélaga hafa skrifað undir samkomulag um markmið og afkomu sveitarfélaga árin 2018 til 2022. Samkomulagið byggist á ákvæðum í lögum um opinber fjármál þess efnis að ríki og sveitarfélög stuðli að góðri hagstjórn og styrkri og ábyrgi stjórn opinberra fjármála og fylgir samkomulagið gildistíma fjármálaáæltunar ríkisins.

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, skrifuðu undir samkomulagið fyrir hönd ríkisins og þeir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Karl Björnsson framkvæmdastjóri fyrir hönd sambandsins. Þetta er í annað sinn sem ríki og sveitarfélög skrifa undir samkomulag á grundvelli laga um opinber fjármál og skal endurnýja það í marsmánuði ár hvert.

Í samkomulaginu eru meðal annars ákvæði um forsendur og markmið, samskipti og samráð ríkis og sveitarfélaga, þróun samstarfs, efnahagsforsendur, afkomumarkmið og um sameiginleg verkefni ríkis og sveitarfélaga.

Um afkomuhorfur og afkomumarkmið segir í samkomulaginu að heildarafkoma A-hluta sveitarfélag skuli stuðla að efnahagslegum stöðugleika og verði jákvæð um allt að 0,1% af vergri landsframleiðslu á næsta ári og um 0,2% árin 2019 til 2022. Einnig segir að aðilar muni samhæfa launastefnu sína og leitast við að tryggja sambærileg kostnaðaráhrif kjarasamninga. Þá segir að rekstri sveitarfélaga skuli haldið innan varúðarmarka í þeim skilningi að tekjuöflun sé varfærin, útgjaldaáætlun raunsæ og að sveitarfélög gangist ekki undir skuldbindingar sem raski forsendum í rekstri og afkomu til lengri tíma.

Sameiginleg verkefni

Um sameiginleg verkefni ríkis og sveitarfélaga segir meðal annars að á gildistíma samkomulagsins muni ríki og Samband íslenskra sveitarfélaga vinna í sameiningu að eftirtöldum verkefnum:

  • Bætt verða gögn um afkomu og áætlanir sem mynda forsendur fjármálastefnu og fjármálaáætlunar.
  • Endurskoðað verði núverandi regluverk til að styðja við samræmda fjárhagsáætlanagerð sveitarfélaga til lengri og skemmri tíma.
  • Bæta upplýsingar um afkomu og fjárhagsáætlanir fyrirtækja hins opinber til að treysta greiningu á stöðu þeirra og áformum með tilliti til markmiðs um heildarafkmu þeirra, fjárfestingar og skuldastöðu.

Þá segir að unnið verði að endurskoðun á fjármálareglum sveitarfélaga og áfram verði unnið að endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Einnig segir að þegar niðurstöður verkefnisstjórnar um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga liggi fyrir verði ákveðið hvernig skuli standa að næsta áfanga sem snýr að stefnumótun til eflingar sveitarstjórnarstigsins með áherslu á að auka getu þeirra til að veita íbúum þeirra góða og hagkvæma þjónustu og efla faglega stjórnsýslu þeirra.

Samkomulagið gerir ráð fyrir að unnin verði sameiginleg aðgerðaáætlun fyrir svokölluð grá svæði í þjónustu ríkis og sveitarfélaga þar sem hún skarast. Unnið verði að því að skýra ábyrgð og fjármögnun vegna viðkomandi þjónustuþátta, einkum innan velferðarþjónustunnar en einnig á sviði tónlistarfræðslu og almenningssamgangna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum