Hoppa yfir valmynd

1. Áherslur og forgangsmál

Vaxtarþróttur íslensks samfélags er mikill um þessar mundir. Ekkert Evrópuríki, sem tölur ná til, hafði meiri hagvöxt á fyrri helmingi ársins. Þótt ferðaþjónusta hafi leitt vöxtinn að undanförnu má einnig rekja hann til vaxtarsprota íslensks atvinnulífs sem verður sífellt fjölbreyttara. Þannig hefur útflutningur á tæknitengdri þjónustu t.a.m. aukist um tugi prósenta á undanförnum árum. Þessum hraða vexti hafa fylgt mikil umsvif á vinnumarkaði. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist um 18% frá árinu 2017 að teknu tilliti til skatta og vaxtagjalda, atvinnuleysi er hverfandi og starfandi fólki hefur fjölgað um 19 þúsund síðastliðin tvö ár. Á sama tíma hefur samsvarandi fjöldi fólks flutt til landsins umfram þá sem hafa flutt frá því.

Talsverð spenna hefur haldist í hendur við mikinn slátt í hagkerfinu og fylgifiskur þess birtist m.a. í verðbólgu. Hún er ekki séríslenskt vandamál en hefur þó reynst þrálát hér undanfarna mánuði. Við því verður að bregðast. Þegar eru komnar fram vísbendingar um að draga muni úr þenslunni næstu misserin og hagstjórnarlegt aðhald er farið að ýta undir aukinn sparnað á ný. Þrátt fyrir það er fjárfesting enn mikil og útlit fyrir að hún verði það áfram á næsta ári. Þá standa helstu útflutningsgreinar styrkum fótum.

Forgangsröðun í þágu mikilvægra innviða og almannaþjónustu einkennir komandi ár þar sem ríkið heldur áfram að leggja sín lóð á vogarskálarnar til að draga úr verðbólguþrýstingi í hagkerfinu. Augljóst er að við núverandi aðstæður er ríkisfjármálunum beitt með öðrum hætti en við gerðum í heimsfaraldri. Við höfum einsett okkur að bæta afkomuna og það hefur gengið langtum betur en nokkrar spár gerðu ráð fyrir.

Undanfarið hafa nær allir helstu tekjustofnar ríkisins vaxið meira en áætlað var. Aukin einkaneysla og fjölgun ferðmanna hafa aukið tekjur af virðisaukaskatti og öðrum neyslusköttum markvert og samhliða auknum kaupmætti almennings hafa bæði tekjuskattur og tryggingagjöld skilað meiri tekjum en áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir. Bætt afkoma fyrirtækja síðustu ár gefur einnig tilefni til bjartsýni en álagning lögaðila fyrir síðastliðið ár mun líta dagsins ljós í nóvember.

Gert er ráð fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs í ár verði hátt í 100 milljörðum króna betri en áætlað var við samþykkt fjárlaga yfirstandandi árs en þannig verða tekjur 50 milljörðum meiri en útgjöld að frádregnum vaxtagjöldum og vaxtatekjum. Frumjöfnuður var þegar orðinn jákvæður á ný í fyrra og nemur batinn yfir 190 ma.kr. milli áranna 2021 og 2022. Ekki eru mörg dæmi í hagsögu Íslands þar sem jafn mikill viðsnúningur hefur átt sér stað milli ára, en ef haldið er áfram á sömu braut er færi á að heildarjöfnuður verði jákvæður áður en langt um líður.

Frumjöfnuður verður jákvæður

Sækja mynd 1-1

Langtum betri afkoma hefur stutt við þá jákvæðu þróun sem birtist í skuldastöðu ríkissjóðs. Þegar fjármálaáætlun 2021-2025 var lögð fram á fyrsta ári kórónuveirufaraldursins voru horfur á því að skuldahlutfallið yrði um og yfir 50% af VLF árin 2023 og 2024. Nú er ljóst að hlutfallið náði hámarki langtum neðar árin 2021–2022 og gangi áætlanir eftir mun það lækka smám saman og verða innan við 31% af VLF í árslok 2024. Það er meira en 20 prósentustigum lægra hlutfall á næsta ári en viðmið fjármálaáætlunarinnar gerði ráð fyrir. Með lækkandi skuldastöðu höfum við náð meginmarkmiði fjármálastefnu um að stöðva vöxt skulda sem hlutfall af landsframleiðslu og gott betur.

Skuldir ríkissjóðs fara lækkandi frá miklu lægra stigi en óttast var fyrir þremur árum

Sækja mynd 1-2

Gert er ráð fyrir að jákvæð þróun haldi áfram á nýju ári og frumjöfnuðurinn haldi áfram að batna þegar leiðrétt er fyrir liðum sem skekkja samanburðinn við yfirstandandi ár, s.s. einskiptistekjum vegna sölu Landsvirkjunar á Landsneti í lok síðasta árs. Stefnufesta í ríkisfjármálum mun leiða til þess að áætluð lántaka ríkissjóðs á næsta ári verður um 100 ma.kr. lægri en í ár.

Sama til hvaða greininga er horft, þá er niðurstaðan alltaf sú sama. Ríkissjóður hefur dregið úr vexti eftirspurnar og þar með verðbólgu frá árinu 2022. Þetta fjárlagafrumvarp gerir ráð fyrir að svo verði enn á næsta ári. Ekki aðeins hefur afkomubatinn verið umfram það sem vænta mætti af áhrifum hagsveiflunnar heldur er batinn einn sá mesti sem þekkist meðal þróaðra ríkja.

Skattkerfisbreytingar síðustu ára spila stóran þátt í því að kjör fólks halda áfram að batna og tilefni er til að líta björtum augum fram veginn. Til þess þarf þó samstillt átak en aðilar vinnumarkaðarins eru þar í lykilhlutverki. Ef launahækkanir í komandi kjarasamningum samræmast efnahagslegum stöðugleika má því eiga von á nokkuð hratt lækkandi verðbólgu og vöxtum á næsta ári.

Sterk staða heimila samhliða betri afkomu

Á sama tíma og afkoman batnar til muna hefur tekist að viðhalda kaupmætti og styrkja húsnæðis- og barnabótakerfin. Sú breyting á tekjuskatti sem tekin var upp í áföngum á árunum 2020–2022 hefur ótvírætt sannað gildi sitt. Kerfið stuðlar að bættum kaupmætti heimilanna, ekki síst þeirra sem eru með lægstar tekjur. Í ársbyrjun er gert ráð fyrir að persónuafsláttur hækki um rúmlega 5 þúsund kr. á mánuði og skattleysismörk hækka um rúmlega 16 þúsund kr. Einstaklingur með 500 þúsund í mánaðartekjur mun því greiða 7.314 kr. minna í skatt í janúar 2024 heldur en hann gerði í desember 2023.

Seinna skrefið í nýju barnabótakerfi tekur gildi í ársbyrjun. Breytingarnar sem hafa verið innleiddar undanfarin tvö ár hafa tryggt 3.000 fleiri fjölskyldum barnabætur en raunin hefði verið í óbreyttu kerfi. Nýju fyrirkomulagi fylgir einnig töluvert hagræði fyrir barnafjölskyldur, því auk þess sem stuðningur er efldur með hækkun fjárhæða, minni skerðingum og lægri jaðarsköttum, þá verða einnig teknar upp samtímagreiðslur barnabóta. Í því felst að biðtími eftir greiðslum verður aldrei meiri en fjórir mánuðir en biðtími gat áður verið ríflega ár frá fæðingu barns.

Stjórnvöld hafa sömuleiðis lagt áherslu á að verja kaupmátt bóta almannatrygginga undanfarin ár. Því til marks var tekin sérstök ákvörðun um að hækka bætur, umfram hækkun í fjárlögum, um mitt ár 2022 og 2023 til að mæta áhrifum verðbólgu.

Áhersla á aðhald

Ríkissjóður hefur staðið gegn vexti eftirspurnar og verðbólgu síðastliðin tvö ár og útlit er fyrir að svo verði enn á næsta ári. Það ár munu áhrif efnahagslega aðhaldsins koma fram í auknum mæli.

Til viðbótar við mikinn viðsnúning síðustu misseri eru 17 milljarða ráðstafanir útfærðar í frumvarpinu til að hægja á vexti útgjalda. Þar af er gert ráð fyrir að launakostnaður stofnana lækki um 5 milljarða króna. Mun því koma til nokkurrar fækkunar stöðugilda í stofnanakerfinu sem bæði getur komið fram í gegnum starfsmannaveltu og uppsagnir. Vörður verður þó áfram staðinn um framlínustarfsemi, m.a. á sviði heilbrigðismála, löggæslu, dómstóla og menntamála.

Þá lækka önnur rekstrargjöld á borð við ferðakostnað, auk þess sem lögð verður áhersla á hagkvæmari opinber innkaup en stefnt er að um 4 milljarða hagræðingu með þeim aðgerðum. Enn fremur er aukið á aðhald innan ráðuneyta og dregið úr nýjum verkefnum – og er með því stefnt að 8 milljarða hagræðingu.

17 milljarða ráðstafanir til að hægja á útgjaldavexti

Góður árangur í stafvæðingu ríkisins styður við að verkefnið takist vel samhliða áframhaldandi bættri þjónustu við landsmenn. Í þeim efnum er af mörgu að taka en nefna má að innleiðingu stafrænna þinglýsinga er að miklum meirihluta lokið og er áætlað að þær spari samfélaginu um 1,6 milljarða króna árlega. Heimsóknir á Ísland.is hafa margfaldast á síðustu tveimur árum og nema nú milljónum ár hvert enda hundruð þjónustuleiða verið innleiddar með tilheyrandi sparnaði á tíma og fjármunum fyrir bæði almenning og starfsfólk. Daglega bætast nýjar þjónustuleiðir við vefinn en nú þegar fara mánaðarlega tugþúsundir umsókna í gegnum umsóknarkerfi Ísland.is.

Heimsóknir á Ísland.is

Sækja mynd 1-3

Samhliða aðhaldi í útgjöldum er ráðist í nokkrar aðgerðir á tekjuhlið ríkisfjármálanna. Nefna má að fyrsta skrefið verður tekið í breyttri gjaldtöku af ökutækjum og umferð á nýju ári, líkt og boðað hefur verið. Tekjur ríkissjóðs af þeirri skattlagningu hafa rýrnað mikið á undanförnum árum samhliða breytingum á bílaflota landsmanna. Til að bregðast við þeirri þróun verður innleitt nýtt, einfaldara og sanngjarnara kerfi þar sem greiðslur eru í auknum mæli tengdar notkun. Þannig verður áfram hægt að standa að metnaðarfullri uppbyggingu samhliða nauðsynlegu viðhaldi vegakerfisins. Í fyrsta skrefi er horft til raf- og tengiltvinnbíla sem hafa hingað til borið takmarkaðan kostnað af notkun vegakerfisins. Gjaldtöku verður þó hagað með þeim hætti að eftir sem áður verður umtalsvert hagkvæmara að eiga slíka bíla heldur en bensín- eða díselbíla. Á næsta ári munu ívilnanir til stuðnings vistvænum samgöngum sömuleiðis breyta um form og hverfa úr virðisaukaskattskerfinu en verða þess í stað útfærðar á gjaldahlið í gegnum Orkusjóð.

Tekjur af ökutækjum og eldsneyti hafa lækkað mikið

Sækja mynd 1-4

Gistináttaskattur var felldur niður tímabundið á tímum faraldursins. Að óbreyttu er gert ráð fyrir að hann taki aftur gildi um áramót og leggist þá einnig á skemmtiferðaskip. Nú stendur yfir vinna með hagaðilum þar sem skoðaðar verða ólíkar leiðir, m.a. í ljósi tæknibreytinga, um breytt gjalda- og skattaumhverfi fyrir greinina. Krónutölugjöld verða hins vegar almennt ekki látin fylgja verðlagi, ólíkt fyrra ári þar sem þau héldust í við verðlagsforsendur. Þannig munu þau aðeins uppfærast um 3,5% um áramót en með því eru skattarnir um 3 ma.kr. lægri en ef þeir hefðu fylgt verðlagi.

Forgangsraðað fyrir öflugt samfélag

Í samræmi við þá megináherslu frumvarpsins að bæta áfram afkomuna og vinna gegn verðbólguþrýstingi hefur það ekki að geyma stór ný útgjaldamál. Vöxtur útgjalda ríkissjóðs að nafnvirði er þannig að stærstum hluta drifinn áfram af launa- og verðlagsbreytingum en ekki nýjum ákvörðunum. Þær eru áætlaðar um 68 ma.kr. á næsta ári sem er um tveir þriðju hluta aukningarinnar á útgjaldahliðinni og eru þær hlutfallslega miklar í sögulegu samhengi. Hins vegar er áfram fjárfest í mikilvægum innviðum og vaxtargreinum hagkerfisins auk þess að bæta og styrkja þjónustu við almenning.

Heilbrigðismál tæpur þriðjungur útgjalda

Sækja mynd 1-5

Heilbrigðismál eru í forgrunni nú líkt og áður. Stærsta einstaka framkvæmdin í frumvarpinu er bygging nýja Landspítalans en fjárheimild til verkefnisins er aukin um 10,5 ma.kr. og verður tæplega 24 ma.kr. á árinu. Spítalinn sem rís nú hratt er stærsta fjárfestingaverkefni ríkisins í sögunni og mun gjörbylta aðstöðu og umgjörð heilbrigðisþjónustu í landinu. Alls aukast útgjöld til heilbrigðismála um rúmlega 14 ma.kr. að raungildi milli ára en auk byggingar Landspítalans má nefna rekstur hjúkrunarrýma, framlög til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga og samninga við sérgreinalækna.

Stóraukna fjárveitingar til byggingar nýs Landspítala 2024

Sækja mynd 1-6

Það er mikilvægt að létta skrefin inn á fasteignamarkað en þar skiptir framboð mestu máli samhliða áframhaldandi lækkun verðbólgu sem ætti að fylgja lækkun vaxta. Nýbyggðum íbúðum hefur fjölgað umtalsvert á þessu ári og enn er mikill kraftur í byggingu nýs íbúðarhúsnæðis en fjöldi íbúða í byggingu er við sögulegt hámark. Mikilvægt er að kröftug uppbygging haldi áfram en þar spila sveitarfélög lykilhlutverk. Ríkið mun sömuleiðis halda áfram að leggja sitt af mörkum með tvöföldun stofnframlaga til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins þannig að í stað þess að 500 íbúðir verði byggðar árlega árin 2024 og 2025 með stuðningi ríkisins verði þær 1.000 á ári. Sömuleiðis verður horft til frekari lánsfjárheimildar til hlutdeildarlána í samræmi við þetta markmið en gert er ráð fyrir að áætlanir vegna lánveitinga verði endurmetnar við aðra umræðu frumvarpsins.

Fjöldi íbúða í byggingu við sögulegt hámark

Sækja mynd 1-7

Fyrrnefndar aðgerðir spila stærstan þátt í því að næstmest aukning útgjalda er í félags-, húsnæðis- og tryggingamálum en þar hafa fyrrnefndar kerfisbreytingar í barnabótum sömuleiðis mikið að segja. Útgjöld til málefna umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks hafa sömuleiðis aukist umtalsvert samhliða fjölgun í þeim hópi að undanförnu. Gert er ráð fyrir að heildarframlög þvert á málefni útlendinga, umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks verði ríflega 15 ma.kr. Hækkunin nemur 7 ma.kr. á raunvirði á milli ára en m.a. er um að ræða framlög vegna fæðis- og húsnæðiskostnaðar, endurgreiðslur til sveitarfélaga og samninga um samræmda móttöku flóttafólks.

Af öðrum málum má nefna að fjárfestingarframlög til samgönguframkvæmda aukast um 2,4 ma.kr. milli ára og 1,3 milljarða aukning í rekstrarframlögum rennur til eflingar háskólastigsins m.a. til að auka samkeppnishæfni í alþjóðlegum samanburði. Þá á að fjölga nemendum í starfs- og tækninámi á framhaldsskólastigi. Helmingshækkun verður á stuðningi við einkarekna fjölmiðla á milli ára. Framlög til varnarmála eru aukin, m.a. til að standa að sameiginlegum tímabundnum verkefnum í Úkraínu. Undirbúningur vegna heildarendurskoðunar á örorkulífeyriskerfinu heldur áfram á árinu 2024, stutt verður við innlenda framleiðslu á korni og kaup björgunarskipa fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörgu verða styrkt.

Mikið í húfi

Áframhaldandi lækkun skulda er grundvallaratriði á komandi ári. Það er ekki aðeins mikilvægt til að búa í haginn fyrir áföll sem geta fyrirvaralaust haft mikil áhrif á lítið samfélag á eldfjallaeyju. Lægri skuldir munu sömuleiðis draga úr vaxtakostnaði ríkissjóðs sem er enn of hár og styrkja getu okkur til að sækja fram og lækka skatta þegar fram í sækir. Áframhaldandi afkomubati, sala á eignarhlutum ríkissjóðs í Íslandsbanka og viðvarandi efnahagsbati munu stuðla að frekari lækkun skulda.

Markmiðið er að komast á þann stað sem við vorum á árið 2019 enda var sterk staða okkar gulls ígildi þegar á reyndi ári síðar. Til viðbótar við afkomubata og aðhald er tónninn því settur með enn frekari aðgerðum. Eitt grundvallaratriða í því samhengi er að fjármálareglur taka gildi ári fyrr en áætlað var en þeim var tímabundið vikið til hliðar í heimsfaraldri. Samhliða munum við leggja mat á árangur af núverandi fjármálareglum og kanna tækifæri til að gera enn betur. Frumvarp um stofnun Þjóðarsjóðs verður sömuleiðis lagt fram að nýju til að styrkja enn frekar áfallaþol ríkissjóðs til framtíðar.

Árangur næst þó ekki aðeins með aðhaldi og reglusetningu. Við þurfum að halda áfram að stækka kökuna, breikka tekjustofninn og fjölga tækifærum á Íslandi. Þar gengur okkur vel en mikil tækifæri eru enn til staðar. Gert er ráð fyrir að útgjöld vegna endurgreiðslna á rannsókna- og þróunarkostnaði fyrirtækja muni nema um 15 ma.kr. á komandi ári. Undanfarin ár hefur ríkissjóður aukið gríðarlega fjárfestingu sína á þessu sviði og er nú óvíða meira fjárfest í rannsóknum og þróun.

Þessi stuðningur hefur þegar borið ríkulegan ávöxt og hefur störfum í hátækni- og hugverkaiðnaði fjölgað umfram önnur störf síðastliðin þrjú ár. Vonir standa til að ábatinn af þessari fjárfestingu aukist ár frá ári með fjölbreyttum og eftirsóttum störfum sem styðji við hagsæld samfélagsins alls. Fjárfesting vísisjóða í frumkvöðlafyrirtækjum hefur stóraukist og útflutningstekjur í greininni hafa vaxið gríðarlega undanfarin ár. Nýlega seldu frumkvöðlar á Vestfjörðum íslenskt hugvit fyrir tæplega tvö hundruð milljarða króna. Við það tilefni sagði stofnandinn að í dag væri hvergi betra að vera nýsköpunarfyrirtæki en á Íslandi. Í þessu kristallast það samfélag sem við viljum halda áfram að byggja.

Ísland er í sterkri stöðu og öllu máli skiptir að halda fast í árangurinn. Hratt batnandi staða ríkissjóðs og áframhaldandi vöxtur stuðlar að efnahagslegum stöðugleika og samhliða gæti verðbólgan lækkað hröðum skrefum en jákvæð þróun í þeim efnum er stærsta hagsmunamál samfélagsins alls. Það er því sannarlega mikið í húfi.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta