Hoppa yfir valmynd

01 Alþingi og eftirlitsstofnanir þess

Skilgreining málefnasviðs

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð forseta Alþingis. Það skiptist í tvo málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu. Þar má jafnframt sjá fjárhagslega þróun málefnasviðsins og einstakra málaflokka á tímabilinu 2022–2024. Helstu áherslum, framtíðarsýn og meginmarkmiðum á málefnasviðinu er lýst í fjármálaáætlun.

Fjárhagsleg þróun málefnasviðsins og einstakra málaflokka á tímabilinu 2022–2024

Útgjaldarammi - heildaryfirlit og breytingar eftir tilefnum

Myndin hér á eftir sýnir sundurliðaðar breytingar á útgjaldaramma málefnasviðsins eftir helstu tilefnum, sem nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða.

Breytingar á ramma milli áranna 2023–2024

Heildargjöld málefnasviðs 01 Alþingi og eftirlitsstofnanir þess árið 2024 eru áætluð 6.673,7 m.kr. og lækka um 843,4 m.kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2023, eða sem svarar til 11,8%. Þegar tekið er tillit til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum lækka útgjöldin um 495,4 m.kr. milli ára, eða sem svarar til 6,9%.

Myndin endurspeglar þá útfærslu og forgangsröðun sem unnin er út frá stefnumótun málefnasviðsins. Sú niðurstaða getur eftir atvikum vikið frá þeim viðmiðum sem sett voru í fjármálaáætlun, til að mynda þannig að nýju útgjaldasvigrúmi hafi að einhverju leyti verið jafnað á móti aðhaldsmarkmiði. Aðhaldsmarkmiðið felur m.a. í sér sértækar afkomubætandi aðhaldsráðstafanir á málefnasviðum og er nánar fjallað um þær í kafla 5 Gjöld ríkissjóðs.

Útgjaldarammi - Hagræn skipting útgjalda

Í eftirfarandi töflu eru útgjöld málefnasviðsins, þróun fjárheimilda og fjármögnun frá árinu 2022 greind í fjóra þætti eftir hagrænni skiptingu, eins og nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða. Hagræn skipting útgjalda niður á málaflokka birtist í fylgiriti með fjárlögum.

Útgjöld málefnasviðsins, þróun fjárheimilda og fjármögnun frá árinu 2022 greind í fjóra þætti eftir hagrænni skiptingu

01.10 Alþingi

Starfsemi málaflokksins er í höndum forseta Alþingis. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.

Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2024 og tengingu þeirra við markmið ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum á milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna frá fjárlögum ársins 2023. Þannig endurspegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.

 

Helstu verkefni 2024

Framkvæmdaraðili

Breyting á fjárveitingu til verkefnis

Markmið 1: Bæta gæði og öryggi upplýsingakerfa á Alþingi

Endurnýjun og bæting þingfundakerfa og útleiðing á eldri kerfum.

Skrifstofa Alþingis

Innan ramma

Markmið 2: Bæta réttaröryggi og gegnsæi í lagasetningu með stafrænni þróun þingskjala

Snjöll þingskjöl. Verkefnið felst í stafrænni þróun á þingskjölum. Verkefnið er í greiningarfasa og unnið er með Stjórnarráðinu við að rýna mögulegar lausnir.

Skrifstofa Alþingis

Innan ramma

Markmið 3: Aukin fræðsla og upplýsingar til almennings

Unnið er að því að auka fræðslustarf Alþingis, einkum meðal ungs fólks, enda mikilvægt að efla lýðræðisvitund fólks og fræða almenning um þá stofnun sem er grundvöllur íslensks lýðræðisskipulags. Meðal annars er stefnt á að koma á rafrænni útgáfu af Skólaþingi og gera þannig ungmennum á landsbyggðinni kleift að taka þátt í leiknum.

Skrifstofa Alþingis

Innan ramma

     

Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 5.405,1 m.kr. og lækkar um 818,6 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 260 m.kr.

Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:

  1. Fjárheimild málaflokksins lækkar alls um 637,5 m.kr. vegna nýbyggingar Alþingis.
  2. Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 82,5 m.kr.
  3. Veitt er 106 m.kr. tímabundið framlag vegna Norðurlandaráðsþings sem verður á Íslandi árið 2024.

01.20 Eftirlitsstofnanir Alþingis

Starfsemi málaflokksins er í höndum umboðsmanns Alþingis og ríkisendurskoðanda. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.

Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2024 og tengingu þeirra við markmið ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum á milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna frá fjárlögum ársins 2023. Þannig endurspegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.

 

Helstu verkefni 2024

Framkvæmdaraðili

Breyting á fjárveitingu til verkefnis

Markmið 1: Að UA leysi úr kvörtunum innan hæfilegs tíma

Taka í notkun hugbúnað til rafrænna samskipta vegna erinda og gagna þeirra sem kvarta við stjórnvöld.

Umboðsmaður Alþingis

Innan ramma

Markmið 2: Að UA geti sinnt hæfilegum fjölda frumkvæðisathugana

Aukin áhersla á frumkvæðis- og vettvangsathuganir, sem er þó háð fjölgun starfsfólks.

Umboðsmaður Alþingis

Innan ramma

Markmið 3: Að UA geti sinnt OPCAT-eftirliti

Miðað er við 4–6 athuganir og skýrslur á árinu.

Umboðsmaður Alþingis

Innan ramma

Markmið 4: Að viðhaldið verði upplýsingagjöf um störf UA

Birta sem fyrst eftir lok máls í gagnagrunni reifun álita og bréfa.

Umboðsmaður Alþingis

Innan ramma

Markmið 5: Skýrari ábyrgð í opinberri þjónustu

Kanna ráðstöfun fjárveitinga til allra málefnasviða og málaflokka, hafa eftirlit með ríkistekjum og endurskoða ríkisreikning á hverju ári.

Ríkisendurskoðandi

Innan ramma

Haga endurskoðun m.t.t. skilgreinds mats á mikilvægi og áhættu. Annast eftirlit með framkvæmd fjárlaga með vísun til málefnasviða og málaflokka. Skila í skýrslum skýrum niðurstöðum um endurskoðun og ábendingar til úrbóta.

Ríkisendurskoðandi

Innan ramma

Markmið 6: Betri nýting fjármuna

 

Verkefnaval stjórnsýsluúttekta taki mið af umfangi á fjárlögum. Úttektir verði stærri, skýrari í framsetningu og ályktunum er skili meiri árangri og séu áhrifameiri.

Ríkisendurskoðandi

Innan ramma

Markmið 7: Bætt stjórnsýsla

 

Taka upp rafræna þjónustugátt vegna skila á gögnum frá stjórnmálasamtökum og frambjóðendum, sjóðum, sjálfseignarstofnunum og kirkjugörðum. Stuðla að því að ríkisaðilar leggi áherslu á að veita viðskiptavinum sínum rafræna þjónustu. Jafnframt skal sinna almennu leiðbeiningarstarfi á þessu sviði.

Ríkisendurskoðandi

Innan ramma

Markmið 8: Efla eftirlit með tekjuöflun ríkisins, rekstrartekjum stofnana og innheimtu opinberra gjalda

Heimsækja ríkisaðila og innheimtumenn til að kanna tekjuskráningu og innheimtu.

Ríkisendurskoðandi

Innan ramma

Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 1.268,6 m.kr. og lækkar um 24,6 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 87,8 m.kr.

Ekki er um breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða.

Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:

  1. Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 48,6 m.kr.
  2. Gert er ráð fyrir að sértekjur Ríkisendurskoðunar hækki um 24 m.kr.
Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum