Hoppa yfir valmynd

18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Mennta- og barnamálaráðuneytið
Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið
Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Skilgreining málefnasviðs

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð menningar- og viðskiptaráðherra, mennta- og barnamálaráðherra og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Það skiptist í fimm málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu. Þar má jafnframt sjá fjárhagslega þróun málefnasviðsins og einstakra málaflokka á tímabilinu 2022–2024. Helstu áherslum, framtíðarsýn og meginmarkmiðum á málefnasviðinu er lýst í fjármálaáætlun.

Fjárhagsleg þróun málefnasviðsins og einstakra málaflokka á tímabilinu 2022–2024

Útgjaldarammi - heildaryfirlit og breytingar eftir tilefnum

Myndin hér á eftir sýnir sundurliðaðar breytingar á útgjaldaramma málefna­sviðsins eftir helstu tilefnum, sem nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða.

Breytingar á ramma milli áranna 2023 og 2024

Heildargjöld málefnasviðs 18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál árið 2024 eru áætluð 21.216,4 m.kr. og lækka um 850,4 m.kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2023, eða sem svarar til 4,1%. Þegar tekið er tillit til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum hækka útgjöldin um 223,1 m.kr. milli ára, eða sem svarar til 1,1%.

Myndin endurspeglar þá útfærslu og forgangsröðun sem unnin er út frá stefnumótun málefnasviðsins. Sú niðurstaða getur eftir atvikum vikið frá þeim viðmiðum sem sett voru í fjármálaáætlun, t.a.m. þannig að nýju útgjaldasvigrúmi hafi að einhverju leyti verið jafnað á móti aðhaldsmarkmiði. Aðhaldsmarkmiðið felur m.a. í sér sértækar afkomubætandi aðhaldsráðstafanir á málefnasviðum og er nánar fjallað um þær í kafla 5 Gjöld ríkissjóðs.

Útgjaldarammi - hagræn skipting útgjalda

Í eftirfarandi töflu eru útgjöld málefnasviðsins, þróun fjárheimilda og fjármögnun frá árinu 2022 greind í fjóra þætti eftir hagrænni skiptingu, eins og nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða. Hagræn skipting útgjalda niður á málaflokka birtist í fylgiriti með fjárlögum.

Útgjöld málefnasviðsins, þróun fjárheimilda og fjármögnun frá árinu 2022 greind í fjóra þætti eftir hagrænni skiptingu

18.10 Safnamál

Starfsemi málaflokksins er í höndum ríkisins, sveitarfélaga, sjálfseignarstofnana og annarra aðila. Þá falla málefni almenningsbókasafna, héraðsskjalasafna og annarra safna undir bóka­safnalög og lög um opinber skjalasöfn. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.

Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2024 og tengingu þeirra við markmið ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum á milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna frá fjárlögum ársins 2023. Þannig endurspegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.

 

Helstu verkefni 2024

Framkvæmdaraðili

Breyting á fjárveitingu til verkefnis

Markmið 1: Að almenningur hafi betri aðgang að menningar- og náttúruarfi þjóðarinnar

Þarfagreining gerð til að kanna betri húsakost sögufrægra staða, s.s. Snorrastofu í Reykholti, í því skyni að styrkja og efla starfsemi þeirra.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti

Innan ramma

Starfshópur settur á laggirnar til að styrkja betur sögufræga staði, s.s. Hraun í Öxnadal.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti

Innan ramma

Vinna að framtíðaruppbyggingu Náttúruminjasafns Íslands.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti og Náttúruminjasafn Íslands

Innan ramma

Stuðla að auknu samstarfi safna í samráði við hagsmunaaðila og huga að nauðsynlegum lagabreytingum.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti

Innan ramma

Vinna áfram við að bæta aðstöðu á Gljúfrasteini og Listasafni Einars Jónssonar ásamt því að gera þarfagreiningar á húsnæðismálum Listasafns Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti

Innan ramma

Markmið 2: Efla vernd á menningararfi þjóðarinnar í samræmi við alþjóðlegar kröfur

Gera áætlun um uppbyggingu og endur­nýjun varðveislurýma fyrir safnkost í ríkiseigu.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti

Innan ramma

Efla rafræna innviði Þjóðskjalasafns Íslands.

Þjóðskjalasafn Íslands

Innan ramma

Undirbúa viðbrögð vegna hættu sem safnkosti um land allt stafar af loftslags- eða náttúruvá og öðrum hamförum.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti og safnaráð

Innan ramma

Markmið 3: Efla skráningu og rannsóknir safnkosts

Styðja sjálfstæðar rannsóknir safna.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti

Innan ramma

     
Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 5.834,6 m.kr. og lækkar um 210 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 397,1 m.kr.

Ekki er um miklar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða.

Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:

  1. Fjárheimild málaflokksins er tímabundið aukin um 20 m.kr. fram til ársins 2028 vegna starfsemi safna. Meðal annars er um að ræða hækkun hjá Kvikmyndasafni vegna staf­væðingaráætlunar og hjá Náttúruminjasafni vegna aukinnar fjárfestingarþarfar. Hækkunin tengist auknu framlagi til menningarmála á tíma fjármálaáætlunar 2024–2028.
  2. Fjárheimild málaflokksins er tímabundið aukin um 15 m.kr. í eitt ár vegna framlags til Hljóðbókasafns Íslands af fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar í úrbótaverkefni varðandi hugbúnað og tölvukerfi.
  3. Fjárheimild málaflokksins lækkar um 35 m.kr. þar sem tímabundið framlag til Listasafns Íslands vegna endurnýjunar á ljóskösturum gengur til baka. Framlagið kom af tímabundnu fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar til menningarmála.
  4. Fjárheimild málaflokksins lækkar um 30 m.kr. þar sem tímabundin framlög til Lands­bókasafns Íslands vegna skönnunar og endurnýjunar búnaðar og átaks í skráningu á íslenskri tónlist gengur til baka. Framlögin komu af tímabundnu fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar til menningarmála. 
  5. Fjárheimild málaflokksins lækkar um 25 m.kr. þar sem tímabundið framlag til Þjóð­skjalasafns Íslands vegna átaksverkefnis við frágang skjala gengur til baka. Framlagið kom af tímabundnu fjárfestingarátaki til menningarmála.
  6. Fjárheimild málaflokksins lækkar um 33 m.kr. vegna tímabundinna verkefna sem falla niður, m.a. 15 m.kr. til Tækniminjasafns Austurlands og 9 m.kr. til Safnasafnsins.
  7. Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 204,3 m.kr. sem er skipt hlutfallslega niður á stofnanir og verkefni málaflokksins.

18.20 Menningarstofnanir

Starfsemi málaflokksins nær yfir opinberar stofnanir á sviði lista og menningar, s.s. Þjóðleikhússins, Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Íslenska dansflokksins, Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Minjastofnunar Íslands. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.

Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2024 og tengingu þeirra við markmið ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum á milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna frá fjárlögum ársins 2023. Þannig endurspegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.

 

Helstu verkefni 2024

Framkvæmdaraðili

Breyting á fjárveitingu til verkefnis

Markmið 1: Efla miðlun á menningu og listum

Viðhalda listrænum áherslum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og bregðast við áhrifum heimsfaraldurs kórónuveirunnar á rekstur stofnunarinnar.

Sinfóníuhljómsveit Íslands

135 m.kr.

Áframhaldandi undirbúningur að stofnun Þjóðaróperu samhliða könnun á samstarfsmöguleikum við Þjóðleikhúsið, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslenska dansflokkinn.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti

Innan ramma

Styrkja rekstrargrundvöll Íslenska dansflokksins.

Íslenski dansflokkurinn

65 m.kr.

Efling barnamenningar.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti og List fyrir alla

Innan ramma

Markmið 2: Vernda menningararf þjóðarinnar með markvissari hætti

Efla skráningu menningarminja í landinu, bæði út frá skilgreindum forgangssvæðum og áherslusvæðum, þ.m.t. svæði sem eru utan skráningarskyldra svæða sveitarfélaga vegna skipulagsgerðar, þjóðlendur og friðlýst svæði.

Minjastofnun

Innan ramma

Fornminjasjóður: Efla skráningu og rannsóknir fornminja vegna náttúruvár, einkum vegna jarðelda á Reykjanesi.

Minjastofnun

Innan ramma

Efla tækniinnviði, upplýsingaveitur og miðlun gagna á sviði fornleifaskráningar, þ.m.t. gagnagrunn um fornleifar.

Minjastofnun

Innan ramma

     

Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 7.767,6 m.kr. og lækkar um 279,9 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 482,8 m.kr.

Ekki er um neinar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða.

Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:

  1. Fjárheimild málaflokksins er varanlega aukin um 65 m.kr. til að efla rekstur Íslenska dansflokksins og mæta auknum launakostnaði í kjölfar kjarasamninga og stofnanasamninga.
  2. Fjárheimild málaflokksins er varanlega aukin um 135 m.kr. til að bæta rekstur Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Um er að ræða úrræði til að viðhalda listrænum áherslum og bregðast við áhrifum heimsfaraldurs kórónuveirunnar á rekstur stofnunarinnar.
  3. Fjárheimild málaflokksins er varanlega aukin um 35 m.kr. vegna aukinnar mann­afla­þarfar hjá Stofnun Árna Magnússonar í kjölfar flutnings stofnunarinnar í Eddu, hús íslenskunnar.
  4. Fjárheimild málaflokksins er tímabundið aukin um 25 m.kr. í formi framlags til samn­inga og styrkja til starfsemi menningarstofnana, á tíma fjármálaáætlunar 2024–2028.
  5. Fjárheimild málaflokksins lækkar um 75 m.kr. vegna tímabundinna framkvæmda­verkefna sem eru að falla niður. Verkefnin voru hluti af fjárfestingar- og uppbyggingar­átaki til að sporna við niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónu­veirunnar.
  6. Fjárheimild málaflokksins lækkar um 34 m.kr. vegna tímabundinna framlaga frá fjárlaganefnd í ýmis menningartengd verkefni sem eru að falla niður.
  7. Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 271,1 m.kr. og er skipt hlutfallslega niður á stofnanir og verkefni málaflokks.

18.30 Menningarsjóðir

Starfsemi málaflokksins felst í fjárveitingum ríkisins sem er úthlutað í gegnum lögbundna sjóði. Helstu sjóðir málaflokksins eru Fornminjasjóður, Húsafriðunarsjóður, launasjóðir listamanna, Kvikmyndasjóður, Myndlistarsjóður, Bókasafnssjóður höfunda, Stuðningur við útgáfu bóka á íslensku, Starfsemi áhugaleikfélaga, Starfsemi atvinnuleikhópa (Sviðs­listasjóður), Tónlistarsjóður, Barnamenningarsjóður Íslands, Bókasafnasjóður og heiðurslaun listamanna. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.

Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2024 og tengingu þeirra við markmið ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum á milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna frá fjárlögum ársins 2023. Þannig endurspegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.

 

Helstu verkefni 2024

Framkvæmdaraðili

Breyting á fjárveitingu til verkefnis

Markmið 1: Efla stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu

Unnið samkvæmt aðgerðaáætlun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti

75 m.kr.

Unnið að málefnum íslensks táknmáls í samræmi við málstefnu um íslenskt táknmál.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti

7,5 m.kr.

Verkáætlun í máltækni hrint í framkvæmd.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti

Innan ramma

Stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti

75 m.kr.

Endurskoða og efla starfslaunakerfi listamanna.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti

75 m.kr.

Efla Myndlistarsjóð til samræmis við myndlistarstefnu.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti

22,4 m.kr.

Stofnun Tónlistarmiðstöðvar og efling Tónlistarsjóðs í samræmi við stjórnarsáttmála og menningarsókn.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti

45 m.kr.

Unnið verði samkvæmt gildandi stefnum á sviði menningar, s.s. Menningarsókn og kvikmyndastefnu með áherslu á bætt sjóðakerfi og starfsumhverfi.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti

Innan ramma

Unnið verði að stefnumótun á sviði listgreina á borð við bókmenntir og sviðslistir.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti

Innan ramma

     

Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 5.186 m.kr. og lækkar um 186,4 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 119,3 m.kr.

Ekki er um miklar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða.

Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:

  1. Fjárheimild málaflokksins er aukin tímabundið um 75 m.kr. á tíma fjármálaáætlunar 2024–2028 til hækkunar á starfslaunum listamanna í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
  2. Fjárheimild málaflokksins er aukin varanlega um 75 m.kr. til að efla stuðning vegna útgáfu bóka á íslensku.
  3. Fjárheimild málaflokksins er aukin tímabundið til eins árs um 75 m.kr. vegna aðgerðaáætlunar í málefnum íslenskrar tungu.
  4. Fjárheimild málaflokksins er aukin varanlega um 22,4 m.kr. til að efla Myndlistarsjóð í samræmi við myndlistarstefnu.
  5. Fjárheimild málaflokksins er tímabundið aukin um 45 m.kr. til tveggja ára vegna stofnunar Tónlistarmiðstöðvar Íslands og eflingar Tónlistarsjóðs í samræmi við stjórnarsáttmála og Menningarsókn 2030.
  6. Fjárheimild málaflokksins er aukin um 98 m.kr. vegna tímabundinnar hækkunar í Kvikmyndasjóð í eitt ár af fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar til menningarmála árið 2024.
  7. Fjárheimild málaflokksins lækkar um 100 m.kr. vegna tímabundinnar hækkunar vegna útgreiðslu framleiðslustyrkja úr Kvikmyndasjóði sem er að falla niður.
  8. Fjárheimild málaflokksins lækkar tímabundið í eitt ár um 53,2 m.kr. vegna flutnings á fjárheimild yfir á málaflokk 7.20 Nýsköpun, samkeppni og þekkingargreinar vegna aðgerða í hönnunarstefnu.
  9. Fjárheimild málaflokksins lækkar um 139,5 m.kr. vegna tímabundinna framlaga frá fjárlaganefnd í ýmis menningartengd verkefni sem eru að falla niður.
  10. Fjárheimild málaflokksins lækkar um 190 m.kr. vegna tímabundins framlags til flutnings húsa af hættusvæðum á Seyðisfirði sem er að falla niður.
  11. Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 152,9 m.kr. og er skipt hlutfallslega niður á stofnanir, sjóði og verkefni málaflokks að undanskildum launasjóðum listamanna, Myndlistarsjóði, Barnamenningarsjóði Íslands og heiðurslaunum listamanna en þar er aðhaldið lægra í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar.

18.40 Íþrótta- og æskulýðsmál

Starfsemi málaflokksins er að mestu leyti á hendi frjálsra félaga og félagasamtaka sem og sveitarfélaga í samstarfi við ríkið. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.

Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2024 og tengingu þeirra við markmið ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum á milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna frá fjárlögum ársins 2023. Þannig endurspegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.

 

Helstu verkefni 2024

Framkvæmdaraðili

Breyting á fjárveitingu til verkefnis

Markmið 1: Bæta umgjörð og auka gæði í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi

Þjóðarleikvangar.

  1. Unnið að undirbúningi vegna þjóðarleikvangs í frjálsíþróttum.
  2. Unnið að undirbúningi vegna þjóðarleikvangs í knattspyrnu.
  3. Unnið að undirbúningi fram­kvæmda vegna þjóðarleikvangs (Þjóðarhallar) fyrir inniíþróttir.

Mennta- og barnamálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, forsætisráðuneyti, ÍSÍ og sérsambönd

Innan ramma

Börn með annað móðurmál en íslensku.

  1. Fylgjast með þátttöku þeirra í íþrótta- og æskulýðsstarfi í samvinnu við Mennta­vísindasvið Háskóla Íslands.
  2. Setja áherslur í samninga við íþrótta- og æskulýðs­hreyfinguna og sjóði sem stuðla að aukinni þátttöku iðkenda í þessum hópi.

Mennta- og barnamálaráðuneyti, Menntavísindasvið HÍ og íþrótta- og æskulýðsfélög

Innan ramma

Innleiðing aðgerðaáætlunar í tómstunda- og félagsstarfi barna og ungmenna.

Mennta- og barnamálaráðuneyti, æskulýðsráð, samband sveitarfélaga, umboðsmaður barna

Innan ramma

Efla starfsemi samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs.

Mennta- og barnamálaráðuneyti

Innan ramma

Efla sjálfboðaliðastarf hjá íþrótta- og æskulýðsfélögum.

Mennta- og barnamálaráðuneyti

Innan ramma

Efla almenningsíþróttastarf íþrótta­hreyfingarinnar, s.s. íþróttir eldri borgara.

Mennta- og barnamálaráðuneyti

Innan ramma

Markmið 2: Efla umgjörð og stuðning við afreksíþróttafólk

Þróun samstarfsvettvangs gegn hag­ræðingu úrslita í íþróttakeppnum í samræmi við alþjóðasamning Evrópu­ráðsins. Samlegð við starfsemi Lyfja­eftirlits Íslands verði skoðuð.

Mennta- og barnamálaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, ríkislögreglustjóri og hagsmunaaðilar

Innan ramma

Efla heildarumgjörð afreksíþrótta og þ.m.t. að vinna að réttindamálum afreksfólks í íþróttum.

Mennta- og barnamálaráðuneyti, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands

Innan ramma

     

Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 1.436,3 m.kr. og lækkar um 147,5 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 33,3 m.kr.

Ekki er um miklar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða.

Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:

  1. Fjárheimild málaflokksins er aukin um 60 m.kr. til þess að fylgja eftir aðgerðum í stjórnarsáttmála tengdum íþrótta- og æskulýðsmálum.
  2. Fjárheimild málaflokksins lækkar um 172 m.kr. vegna tímabundinna verkefna sem falla niður. Helstu framlög sem falla niður eru 100 m.kr. framlag til undirbúnings framkvæmda vegna þjóðarleikvangs (Þjóðarhallar) fyrir inniíþróttir og vegna annarra tímabundinna framlaga frá fjárlaganefnd í ýmis íþróttatengd verkefni sem eru að falla niður.
  3. Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 35,5 m.kr. og er skipt niður á milli verkefna og sjóða innan málaflokksins.

18.50 Stjórnsýsla menningar og viðskipta

Starfsemi málaflokksins er í höndum menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.

Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 991,9 m.kr. og lækkar um 26,6 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 41 m.kr.

Ekki er um miklar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða.

Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:

  1. Fjárheimild málaflokksins er aukin um 22 m.kr. vegna tímabundinna verkefna sem er nú lokið og er fjármagnið að ganga til baka inn í ramma málaflokksins.
  2. Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 46,4 m.kr. sem fellur að mestu leyti á menningar- og viðskiptaráðuneytið.
Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum