Hoppa yfir valmynd

18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð forsætisráðherra, menningar- og viðskiptaráðherra, mennta- og barnamálaráðherra og umhverfis- orku- og loftslagsráðherra. Það skiptist í fimm málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2021–2023.

Tafla: Heildarúgjöld málasviðsins

Meginhluti menningarstarfs í landinu er í höndum einstaklinga eða samtaka þeirra án opinberrar íhlutunar um inntak og tilhögun starfseminnar. Að frátöldum rekstri nokkurra veigamikilla stofnana lýtur hlutverk ríkisins á þessu sviði einkum að því að búa í haginn fyrir starf sem aðrir eiga frumkvæði að og stuðla að því eftir föngum að slíkt frumkvæði fái notið sín.

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn fyrir málaflokk lista, menningar og íþrótta- og æskulýðsmála er að Ísland skipi sér í fremstu röð á þessum sviðum. Stefnt er að því að Ísland verði miðstöð skapandi greina. Allir landsmenn eiga að geta aukið lífsgæði sín með þátttöku í öflugu og fjölbreyttu starfi á þeim sviðum sem heyra undir málefnasvið 18. Málefnasviðið í heild hefur sterka samsvörun við velsældarmarkmið ríkisstjórnarinnar.

Meginmarkmið stjórnvalda á sviði menningar og lista er að jafna og bæta tækifæri til ný- og atvinnusköpunar í menningarstarfi, listum og skapandi greinum. Þannig er stefnt að því að auka verðmæti í skapandi greinum auk þess sem áhersla er lögð á varðveislu, aðgengi og miðlun menningararfs þjóðarinnar, uppbyggingu innviða og á að efla íslensku og íslenskt táknmál sem opinber mál á Íslandi. Meginmarkmið stjórnvalda á sviði íþrótta- og æskulýðsstarfs er að auka gæði og styrkja faglega umgjörð um skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf.

Fjármögnun

Gert er ráð fyrir að útgjaldarammi málefnasviðsins lækki um 2.634 m.kr. frá fjárlögum 2023 til ársins 2028. Helstu breytingar eru að 500 m.kr. tímabundið fjárfestingarframlag sem var hluti af aðgerðum til að draga úr þenslu og bæta afkomu ríkissjóðs í kjölfar heimsfaraldurs fellur niður á tímabilinu. Þá falla um 220 m.kr. framlög vegna tímabundinna styrkja frá fjárlaganefnd niður. Á tímabilinu falla niður ýmis fleiri tímabundin framlög, samanlagt um 820 m.kr., m.a. vegna kvikmyndasjóðs, máltækniverkefnis og verkefnis hjá Þjóðskjalasafni Íslands til að efla rafræna innviði. Þá er gert ráð fyrir því að 100 m.kr. tímabundið framlag til Barnamenningarsjóðs sem átti að falla niður árið 2024 verði framlengt til og með ársins 2028 og verði áfram 100 m.kr. á ári. Að lokum má nefna að gert er ráð fyrir aðhaldskröfum á málefnasviðið sem nema um 1.245 m.kr. en á móti kemur 276 m.kr. hækkun á almennu útgjaldasvigrúmi málefnasviðs sem bætist stigvaxandi við á tímabilinu.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Tafla: Fjárheimildir málasviðsins

Helstu áherslur 2024–2028

ÍSLENSKA OG ÍSLENSKT TÁKNMÁL Í ÖNDVEGI  -  Styrking innviða í listum. Uppbygging nýs Náttúruminja-safns. Undirbúningur að byggingu þjóðarleikvanga fyrir íþróttir.

8.10 Safnamál

Verkefni

Undir málaflokkinn fellur starfsemi safna á vegum ríkisins, sveitarfélaga, sjálfseignarstofnana og annarra aðila. Löggjöf um málaflokkinn tekur til opinberra safna og stuðnings við önnur söfn. Málefni almenningsbókasafna, héraðsskjalasafna og annarra safna, sem falla undir bókasafnalög og lög um opinber skjalasöfn auk málefna sem tengjast fjárhagslegum stuðningi við starfsemi safna á öllum sviðum, m.a. í gegnum samninga, falla einnig undir málaflokkinn. Myndlistarstefnu verður fylgt eftir. Stefnan felur í sér fjölbreyttan stuðning við listsköpun, menntun og myndlæsi sem styður við myndlistarmenningu og aukna þekkingu og áhuga almennings á myndlist. Stefnan miðar að því að Listasafn Íslands verði eflt í hlutverki sínu sem höfuðsafn, miðstöð safnastarfs og þátttakandi í alþjóðlegu safnastarfi. Staða húsnæðismála Listasafns Íslands verður greind með það að markmiði að móta framtíðarsýn fyrir uppbyggingu höfuðsafns á heimsmælikvarða. Í stefnunni eru lögð til markviss skref til einföldunar en jafnframt styrkingar stofnana- og stuðningskerfis myndlistar og að því hvernig hlúa má markvissar að innviðum atvinnulífs myndlistar.

Helstu áskoranir og tækifæri

Náttúruminjasafn Íslands hefur ekki eigið húsnæði til umráða til sýningarhalds. Unnið er að uppbyggingu í varanlegu húsnæði á Seltjarnarnesi þar sem náttúruvísindum verða gerð metnaðarfull skil.

Unnið er að því að koma menningararfi þjóðarinnar á stafrænt form. Skráning og endurgerð menningarverðmæta safna í eigu ríkisins bætir aðgang almennings að menningararfinum, stuðlar að rannsóknum og varðveitir hann fyrir komandi kynslóðir.

Viðbragðsáætlun er í vinnslu vegna þeirrar hættu sem að safnkosti um land allt stafar vegna loftslags- eða náttúruvár og annarra hamfara.

Sett verður stefna um rafræna langtímavörslu skjala. Rafræn skjalavistun er of skammt á veg komin og nauðsynlegt er að endurnýja rafræna innviði opinberrar stjórnsýslu til að mæta nýjum kröfum í málaflokknum.

Helsta úrlausnarefni til framtíðar er að leysa varðveisluhúsnæðisvanda Listasafns Íslands, Þjóðskjalasafns Íslands og Landsbókasafns – Háskólabókasafns. Menningararfur þjóðarinnar er í hættu og getur glatast að einhverju leyti ef ekki er tekið á varðveislumálum með markvissum hætti.

Skort hefur á tölfræði um menningarneyslu og -þátttöku landsmanna. Upplýsingar um gestafjölda á söfn hafa ekki verið kyngreinanlegar og ráðist verður í heildstæða könnun á menningarlífinu til að afla þeirra.

Ofangreind verkefni styðja við velsældaráherslur ríkisstjórnar hvað varðar grósku í nýsköpun og betri samskipti við almenning.

Markmið og mælikvarðar

Markmið
HM
Mælikvarðar
Staða 2022
Viðmið 2024
Viðmið 2028
Betri aðgangur að menningarstarfi.
4.7
Fjöldi heimsókna í söfn.
1.700.000*
2.900.000
3.200.000
Efla vernd á menningar-arfi þjóðarinnar í samræmi við alþjóðlegar kröfur.
11.4
Fjöldi safna í eigu ríkisins með viðunandi varðveislu- og sýningarhúsnæði.
1 af 5
2 af 5
5 af 5
 
Fjöldi viðurkenndra safna um landið sem eru hluti af viðbragðsáætlun stjórnvalda vegna loftslagsbreytinga og annarrar vár.
0%
50%
 
100%
 
Auka skráningu safnkosts.
11.4
Fjöldi skráninga í Sarp.
1.614.000
1.700.000
 
2.000.000
 
11.4
Stafræn endurgerð safnkosts Kvikmyndasafns.
10%
11%
12%
 
Stafræn endurgerð safnkosts Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.
7,5
millj. bls.
7,9 millj. bls.
8,7 millj. bls.

*Skv. tölum Hagstofunnar 2020

18.20 Menningarstofnanir

Verkefni

Löggjöf um málaflokkinn tekur til opinberra stofnana á sviði lista og menningar. Ríkið rekur menningarstofnanir sem það á en er einnig í samvinnu við aðra um eignarhald og rekstur og veitir fjárhagslegan stuðning. Stofnanirnar eru undirstaða fyrir aðra menningar- og listastarfsemi í landinu á viðkomandi sviði og þjóna landsmönnum öllum, auk þess sem sumar þeirra sinna stjórnsýslu eða rannsóknum á sínu sviði.

Menningarstofnanir gefa landsmönnum tækifæri til að njóta menningar og lista. Þær eru þjónustustofnanir sem taka mið af fjölbreytni samfélagsins í starfi sínu og dagskrá auk þess að gegna lykilhlutverki í menningarfræðslu og miðlun. Þar verður sýning Árnastofnunar í nýju Húsi íslenskunnar veigamikill þáttur, sem verður tekið til notkunar árið 2023.

Í gildi er menningarstefna stjórnvalda þar sem hlutverk menningarstofnana í aðgengi að listum og menningarstarfi er áréttað. Þar er einnig lögð áhersla á fjölmenningu og þátttöku barna og ungmenna með annað móðurmál en íslensku í menningarstarfi. Þá hefur verið sett fram aðgerðaáætlun um listir og menningu – Menningarsókn til 2030.

Helstu áskoranir og tækifæri til umbóta

Bygging menningarhúsa er liður í að jafna tækifæri landsmanna til að njóta og taka þátt í menningu og listum um land allt. Áhersla verður lögð á uppbyggingu í Skagafirði og á Selfossi í samvinnu við viðkomandi sveitarfélög.

Þá er liður í aðgerðaáætlun menningarstefnu að gera úttekt á menningarstarfi og árangri þess í samhengi við atvinnutækifæri, innviði og þátttöku og gera heildarstefnu um innviða­uppbyggingu og húsnæðismál opinberra menningarstofnana.

Sviðslistastefna er í undirbúningi. Áfram verður unnið að því að leysa húsnæðisvanda Íslenska dansflokksins og því að tryggja Þjóðleikhúsinu varanlegt æfingahúsnæði. Að auki er unnið að framtíðarfyrirkomulagi óperustarfsemi í landinu.

Unnið er að þróun hagvísa fyrir menningu og birtingu tölfræði um menningarþátttöku. Liður í áætlun menningarsóknar er að gera ítarlega rannsókn á menningarneyslu og -þátttöku landsmanna þannig að betur megi greina kynjahlutföll og hvort jafnréttissjónarmiða sé gætt.

Barnamenningarsjóður verður festur í sessi ásamt verkefninu List fyrir alla. Með því hafa allir aldurshópar í grunnskólum fengið tækifæri til að upplifa að minnsta kosti tvo listviðburði á ári fyrir tilstilli verkefnisins.

Fornleifar eru frumheimildir um sögu Íslands. Markviss og kerfisbundin fornleifaskráning og miðlun þekkingar er grundvöllur minjaverndar. Einnig er vitneskja um fornleifar mikilvæg fyrir skipulags- og framkvæmdaraðila, skógrækt og ferðaþjónustu. Eftir því sem skyldur stjórnvalda vegna minjaverndar aukast þarf að auka stafrænt aðgengi að upplýsingum um skráðar minjar. Unnið er að innleiðingu stefnu um varðveislu og aðgengi að menningararfi þjóðarinnar. Einnig er verið að leggja lokahönd á nýja stefnu um verndun og rannsóknir á fornleifum og byggingararfi. Lögum um verndarsvæði í byggð er ætlað að stuðla að vernd og varðveislu byggðar sem hefur sögulegt gildi. Unnið verður eftir áætlun um heildarskráningu fornleifa í landinu og mat verður lagt á reynslu af framkvæmd laga um verndarsvæðum í byggð.

Ofangreind verkefni styðja við velsældaráherslur ríkisstjórnar hvað varðar grósku í nýsköpun, virkni í námi og starfi og betri samskipti við almenning.

Markmið og mælikvarðar

Markmið
HM
Mælikvarðar
Staða 2022
Viðmið 2024
Viðmið 2028
Vernda menningararf þjóðarinnar með markvissari hætti.
11.4
Hlutfall skráðra fornleifa á Íslandi.
37%
42%
52%
 
Hlutfall stafrænnar endurgerðar handritasafns Árnastofnunar.
31%
39%
55%

Markmiðið „Efla miðlun á menningu og listum með bættum aðgangi“ var tekið út ásamt mælikvarðanum um hlutfall grunnskóla sem taka þátt í List fyrir alla þar sem því markmiði hefur verið náð og hefur haldist í nokkur ár.

18.30 Menningarsjóðir

Verkefni

Fjárveitingum til menningar og lista, sem ekki renna til ríkisstofnana eða eru bundnar í samningum, er að mestu úthlutað í gegnum lögbundna sjóði. Hlutverk þeirra er að stuðla að faglegri og sjálfstæðri lista- og menningarstarfsemi og samfellu hennar. Úthlutun styrkja grundvallast á opnu umsóknarferli og tillögum faglegra úthlutunarnefnda.

Sérlög og reglur gilda um sjóði innan málaflokksins, bæði lögbundna og aðra. Þeir eru fornminjasjóður, húsafriðunarsjóður, myndlistarsjóður, bókmenntasjóður, bókasafnasjóður, launasjóðir listamanna, kvikmyndasjóður, bókasafnssjóður höfunda, tónlistarsjóður, barnamenningarsjóður, starfsemi atvinnuleikhúsa, sóknaráætlun landshluta til stuðnings menningu og stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

Unnið er á grundvelli aðgerðaáætlunarinnar Menningarsókn til ársins 2030. Menningarsókn skilgreinir forgangsverkefni stjórnvalda út frá aðgerðum sem taka mið af sköpun, þátttöku og góðu aðgengi allra að listum og menningu, þróun stafrænnar tækni og fjölmenningarlegs samfélags.

Kvikmyndastefna gildir frá árinu 2020 til 2030 og er í framkvæmd. Tillaga til þingsályktunar um tónlistarstefnu var lögð fram í febrúar 2023 þar sem skilgreindar eru aðgerðir sem miða að framgangi greinarinnar. Stofnun tónlistarmiðstöðvar og efling tónlistarsjóðs eru meðal verkefnanna sem kynnt voru þegar frumvarp til laga um tónlist var jafnframt lagt fram á sama tíma og stefnan.

Helstu áskoranir og tækifæri til umbóta

Þróun og framtíð íslenskrar tungu á tímum örrar alþjóðavæðingar og tæknibyltinga er mikilvæg til að styrkja stöðu þjóðtungunnar. Tillaga til þingsályktunar um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi er í vinnslu og fjallar um mikilvægi íslenskrar tungu og nauðsyn þess að tryggja að tungumálið verði áfram notað á öllum sviðum íslensks samfélags.

Lögð verður fram tillaga til þingsályktunar um íslenskt táknmál og aðgerðaáætlun vegna hennar. Í drögum að þingsályktunartillögu um fyrstu opinberu málstefnuna um íslenskt táknmál er staða íslenska táknmálsins skýrð og er hún unnin í samræmi við drög að íslenskri málstefnu.

Starfsumhverfi listamanna og umgjörð starfslauna listamanna verður bætt á tímabilinu. Unnið er að því að samhæfa og styrkja sjóðakerfi menningar og lista með einföldun og skilvirkni að leiðarljósi. Markmið stjórnvalda er að starfslauna- og verkefnasjóðir tryggi betur afkomu þeirra sem starfa í listum eða við skapandi greinar, stuðli að meiri fjölbreytni í úthlutunum, auknu og jöfnu aðgengi mismunandi listgreina og raunsærri viðmiðum.

Endurskoðun sjóðakerfis heldur áfram í samvinnu við Bandalag íslenskra listamanna, m.a. með sameiningu og samhæfingu sjóða sem og starfslauna með það fyrir augum að gera kerfið einfaldara og skilvirkara fyrir notendur. Stefnt er að almennt hækki starfslaun frekar en að mánuðum til úthlutunar fjölgi og að starfslaunasjóðum verði skipt í deildir eftir aldri viðkomandi listamanna. Unnið verður með Bandalagi íslenskra listamanna að þessum markmiðum.

Í kvikmyndastefnu sem gildir til 2030 verður unnið eftir aðgerðaáætlun sem nær yfir hlut kvikmynda í menningu þjóðarinnar og hlut menntunar í kvikmyndagerð, miðlun íslensks kvikmyndaefnis og stuðning við framleiðslu. Vaxtarsprotar eru fólgnir í greininni, hvort heldur sem er að fjölga menntuðu fólki eða styðja enn frekar við kvikmyndagerð sem listgrein og sem mikilvæga atvinnugrein. Kvikmyndir styrkja stöðu íslenskrar tungu og koma Íslandi á framfæri erlendis. Meðal þess sem unnið verður að á tímabilinu eru breytingar á kvikmyndalögum um framleiðslustyrki til lokafjármögnunar sjónvarpsþáttaraða.

Íslensk tónlist hefur alla burði til að geta orðið stöndugur atvinnuvegur og mun stofnun tónlistarmiðstöðvar ásamt gerð tónlistarstefnu styrkja innviði greinarinnar. Unnið verður að því að auka sýnileika íslenskrar tónlistar á stærstu alþjóðlegu streymisveitunum og tryggja rétthöfum réttlátari hlut. Áfram verður unnið að því að nýta þá möguleika sem felast í verkefninu Record in Iceland til að festa Ísland í sessi sem starfsstöð skapandi greina, sbr. málefnasvið 7.

Ný hönnunarstefna og aðgerðir í hennar nafni miða að því að auka vægi hönnunar í íslensku atvinnulífi og skila vaxandi árangri, fagmennsku og gæðum til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag.

Skort hefur greinargóðar tölfræðilegar upplýsingar um menningarmál. Til að stefnumótun á sviði menningar og skapandi menningargreina geti þróast þarf að efla söfnun og miðlun tölfræðiupplýsinga, t.a.m. með hliðsjón af kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Hagræn áhrif lista og menningar eru veruleg í samspili við atvinnulífið, s.s. í bókmenntum, hönnun, kvikmyndagerð, myndlist, sviðslistum, tónlist, tölvuleikjagerð og öðrum skapandi greinum.

Rík áhersla er á eflingu slíkra greina í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem fram kemur að á kjörtímabilinu verði lögð áhersla á uppbyggingu sem renni stoðum undir fjölbreytni í atvinnulífinu og á að efla grunnsjóði í rannsóknum, nýsköpun og skapandi greinum.

Markmið og mælikvarðar

Markmið
HM
Mælikvarðar
Staða 2022
Viðmið 2024
Viðmið 2028
Efla stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu.
4
Hlutfall barnabóka af endurgreiðslu vegna bókaútgáfu.
25%
27%
30%
4
Hlutfall jákvæðra þátttakenda í viðhorfskönnunum sem hluti af því að bæta viðhorf almennings til íslensku.
Staða 2022 liggur ekki fyrir.
Viðmið 2024 veltur á niðurstöðum úr viðhorfskönnun 2023.
Viðmið 2028 veltur á niðurstöðum úr viðhorfskönnun 2023.
Tryggja tölfræði og kyngreind gögn um menningarsjóði.*
 
Fjöldi sjóða sem afla gagna skv. verklagi ráðuneytis.*
0%
25%
100%

*Nýtt markmið og nýr mælikvarði.

18.40 Íþrótta- og æskulýðsmál

Verkefni

Starfsemi í málaflokknum er að mestu leyti á hendi frjálsra félaga og félagasamtaka sem og sveitarfélaga, í samstarfi við ríkið og veltur starfsemin að hluta til á sjálfboðastarfi. Meginmarkmið aðgerða ríkis og sveitarfélaga samkvæmt íþróttalögum er að stuðla að því að allir landsmenn eigi þess kost að iðka íþróttir við sem hagstæðust skilyrði og tilgangur æskulýðslaga er að styðja börn og ungmenni til þátttöku í æskulýðsstarfi og skapa sem bestar aðstæður fyrir þau til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Samningar eru gerðir um framlög til heildarsamtaka til þess að ná markmiðum laganna, faglegri skipulagningu starfsins, þjónustu við félög og þátttakendur og framþróun í málaflokknum.

Aðgerðir styðja við velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar, þá helst um að efla forvarnir og styðja við íþróttalíf og æskulýðsstarf, sem hefur m.a. jákvæð áhrif á andlegt heilbrigði einstaklinga.

Helstu áskoranir

Áskoranir felast í auknum kröfum í alþjóðlegu samhengi um faglega umgjörð fyrir afreks­íþróttafólk, þ.e. aðstæður, umhverfi og starfsskilyrði sem aukið geta líkur á framúrskarandi árangri íslensks íþróttafólks á heimsvísu.

Aðstaða ýmissa íþróttagreina sem standa framarlega í alþjóðlegri keppni er orðin gömul og uppfyllir ekki alþjóðlega staðla.

Lýðheilsu landsmanna hefur hrakað á undanförnum árum og áratugum og rannsóknir sýna að þátttaka fólks af erlendum uppruna í íþrótta- og æskulýðsstarfi er minni en fólks með íslenskan uppruna.

Þátttaka ungs fólks í æskulýðsstarfi hefur aukist og ungt fólk tekið virkari þátt í mótun nærumhverfis síns en áður.

Rekstrargrundvöllur frjálsra félagasamtaka er viðkvæmur og felst áskorun í því að viðhalda fjölbreyttu íþrótta- og æskulýðsstarfi, ekki síst eftir heimsfaraldur Covid-19 sem hefur óhjákvæmilega haft mikil áhrif á allt íþrótta- og æskulýðsstarf. Rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi skipulagðs íþrótta- og æskulýðsstarfs enda margvíslegur ávinningur af skipulögðu starfi þegar horft er til forvarna, uppeldis og menntunar.

Áfram er unnið að því að efla starfsemi samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs enn frekar til þess að skapa örugga umgjörð um íþrótta- og æskulýðsstarf.

Vandamál sem tengjast veðmálum og hagræðingu úrslita á íþróttakappleikjum hafa aukist á undanförnum árum og nauðsynlegt að bregðast enn frekar við þeim. Í gildi er alþjóða­samningur gegn hagræðingu úrslita í íþróttakeppnum en áhætta á að leikjum sé hagrætt í tengslum við veðmálastarfsemi hefur aukist á undanförnum árum, m.a. með alþjóða­væðingunni.

Tækifæri til umbóta

Framlög til afrekssjóðs ÍSÍ að standa hluta til undir kostnaði við umgjörð hjá íslenskum sérsamböndum sem stuðla að auknum möguleikum íslensks íþróttafólks til að ná árangri í alþjóðlegum keppnum. Umbætur sem unnið er að felast í því að styðja betur við lífsafkomu afreksfólks í íþróttum til þess að ná betri árangri, byggja upp nýtt afrekskerfi auk uppbyggingar þjóðarleikvanga. Stjórnvöld vinna með Reykjavíkurborg og íþróttahreyfingunni að upp­byggingu þjóðarhallar í íþróttum auk þess sem unnið er að þjóðarleikvangi í knattspyrnu og frjálsíþróttum í Laugardal.

Unnið verður að því að efla starfsemi íþróttasambanda og íþróttafélaga með það fyrir augum að styðja við almenna heilsueflingu landsmanna. Styðja þarf því við þátttöku barna og ungmenna með annað móðurmál en íslensku í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Þátttaka í slíku starfi styður aðlögun fjölskyldunnar í heild og dregur úr líkum á einangrun. Sérstök áhersla hefur verið sett á þetta í samskiptum stjórnvalda við íþrótta- og æskulýðshreyfinguna.

Stutt verður enn frekar við æskulýðsfélög og samtök ungs fólks sem hafa samfélagsleg markmið og vinna að aukinni lýðræðisvitund þess. Stefna í æskulýðsmálum hefur verið samþykkt og er unnið samkvæmt henni. Stjórnvöld telja mikilvægt að viðhalda góðum árangri hjá frjálsum félagasamtökum með stuðningi við grasrótarstarf í áframhaldandi samvinnu við íþrótta- og æskulýðssamtök á þessu sviði.

Nauðsynlegt er að bregðast enn frekar við vandamálum sem tengjast veðmálum í íþróttum en í gildi er alþjóðasamningur gegn hagræðingu úrslita í íþróttakeppnum en áhætta af slíku í tengslum við veðmálastarfsemi hefur aukist á undanförnum árum, m.a. með alþjóðavæðingunni. Samráðshópur stjórnvalda vinnur að eftirfylgni samningsins.

Áhættuþættir

Stærsti áhættuþáttur hvað íþrótta- og æskulýðsstarf varðar er fjármögnun starfsins sem er undirstaða þess að fólk með faglega menntun fáist til þess að starfa í sveitarfélögum, íþrótta- og æskulýðsfélögum og annarri tengdri starfsemi sem miðar að uppbyggingu barna og ungs fólks í landinu. Afleiðingar þess að standa illa að íþrótta- og æskulýðsstarfi eru margvíslegar og tengjast verndandi forvarnarþáttum, aðstöðu til íþrótta- og æskulýðsstarfs sem og menntun og uppbyggingu mannauðs bæði sjálfboðaliða sem og starf launaðs fagfólks. Séu þessir þættir ekki fyrir hendi mun sá árangur, sem náðst hefur í forvörnum á Íslandi, hverfa á skömmum tíma með hruni félagslegrar þátttöku, heilsutengdum vandamálum og minni farsæld borgarana í heild.

Markmið og mælikvarðar

Markmið
HM
Mælikvarðar
Staða 2022
Viðmið 2024
Viðmið 2028
1. Bæta umgjörð og auka gæði í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi.
3.5,5
Fjöldi og hlutfall skráðra iðkenda í skipulögðu íþróttastarfi af mannfjölda. a) alls,
b) karlar,
c) konur,
d) kynsegin.
 
a) 111.958, 30,3%
b) 66.933
c) 45.002
d) 23
a) 114.200
32,%
b) 66.236
c) 47.964
d) 30
 
a) 120.000
34%
b) 66.000
c) 54.000
d) 40
Fjöldi iðkenda 16 ára og hlutfall af mannfjölda 2021
a) alls,
b) karlar,
c)konur,
d) kynsegin.
b) 1376
c) 982
d) 4
a) 52%
b) 59,3%,
c) 44%
d) 0,002%
a) 2600
b) 1420
c) 1180
a) 3000
b) 1650
c) 1350
Fjöldi iðkenda í skipulögðu starfi æskulýðsfélaga á aldrinum 6–18 ára af mannfjölda á þeim aldri.
15,5 %
16%
17%
Hlutfall af fjölda þátttakenda á námskeiðum og sumarbúðum á aldrinum 6–18 ára.
17,8%
19%
20%
Fjöldi þátttakenda í leiðtogaþjálfun æskulýðsfélaga.
1861
2500
3500
2. Efla umgjörð og stuðning við afreksíþróttafólk.
3.5, 5
Meðaltal íþróttamanna á Ólympíuleikum og lokamótum alþjóðlegra stórmóta á þriggja ára tímabili.
a) alls,
b) karlar,
c)konur.
a) 187
b) 111
c) 76
(2021)
b) 372
c) 241
(2021–2023)
b) 380
c) 260

18.50 Stjórnsýsla menningar og viðskipta

Verkefni

Stjórnsýsla menningar og viðskipta er á höndum aðalskrifstofu menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Meginverkefni menningar- og viðskiptaráðuneytisins er að stuðla að skilvirkri stjórnsýslu og eftirliti með þeirri starfsemi sem fellur undir ráðuneytið, sbr. starfsemi innan málefnasviða 7, 14, 16, 18, 19 og 22. Áframhaldandi vinna verður á árunum 2024–2028 við að samræma vinnubrögð, úthlutunarreglur, fjármál og ferla sjóða sem ráðuneytið hefur umsýslu með en þeir eru vistaðir á fjórum málefnasviðum og koma markmið þeirra fram á viðkomandi málefnasviðum. Einnig verður áhersla á að styrkja stjórnunar- og eftirlitshlutverk ráðuneytisins með að efla stefnumótun og áætlanagerð fyrir málefnasvið ráðuneytisins, m.a. á grunni samræmds verklags og samvinnu ráðuneytisins og undirstofnana þess. Auk þess verður unnið að sameiningu stofnana á tímabilinu með það að markmiði að ná hagræði.

Áherslur í starfi ráðuneytisins snúa m.a. að því að bæta eftirfylgni með gæðum og afrakstri verkefna og aðgerða innan ráðuneytisins og meðal stofnana þess og samþætta eins og kostur er framkvæmd aðgerða sem varða fleiri en eitt málefnasvið. Áfram verður unnið að mótun og framkvæmd tillagna um einföldun regluverks og verkferla í þágu atvinnulífs.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum