Hoppa yfir valmynd

15 Orkumál

Umfang

Starfsemi á málefnasviði orkumála er á ábyrgð ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála. Undir málefnasviðinu er einn málaflokkur sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun hans á tímabilinu 2021–2023.

Tafla: Heildarúgjöld málasviðsins

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn stjórnvalda er að Ísland sé land hreinnar orku þar sem öll orkuframleiðsla er af endurnýjanlegum uppruna. Orkan er nýtt með sjálfbærum hætti samfélagi og almenningi til hagsbóta. Landið er leiðandi í sjálfbærri orkuvinnslu, orkuskiptum, orkunýtni og skilvirkri fjölnýtingu orkugjafa. Orkan er hreyfiafl fjölbreyttrar atvinnustarfsemi þar sem er jafn aðgangur á landsvísu að orku á samkeppnishæfu verði. Þjóðin býr yfir framúrskarandi þekkingu og framsækni í orkumálum sem skilar sér í gróskumikilli verðmæta- og nýsköpun.

Meginmarkmið málefnasviðsins er aukin samkeppnishæfni orkumarkaðar á grunni efna-hagslegs, umhverfislegs og samfélagslegs jafnvægis. Sérstök áhersla er lögð á samspil lofts¬lags, orku- og byggðamála og að tryggja afhendingaröryggi raforku á landsvísu og jöfnun orkukostnaðar. Stefnt er að kolefnishlutlausri framtíð með því að ná fullum orkuskiptum þar sem jarðefnaeldsneyti verður leyst af hólmi með orku af endurnýjanlegum uppruna. Orkumál eru auðlindadrifin atvinnugrein og því þarf að huga að áhrifum greinarinnar á þróun umhverfis og auðlinda. Þá er mikilvægt að orðspor greinarinnar sé jákvætt í augum samfélags, ekki síður en meðal erlendra aðila. Aukin verðmætasköpun orkumála má ekki ganga á sameiginlegar auðlindir á kostnað komandi kynslóða og stuðla verður að sátt um þróun greinarinnar og samfélagsleg áhrif.

Til að framtíðarsýn og meginmarkmið málefnasviðsins nái fram að ganga eru lögð til markmið og aðgerðir sem varða m.a. orkuöryggi, aukið hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa og jöfnun orkukostnaðar á landsvísu. 

Framtíðarsýn og meginmarkmið málefnasviðsins eru í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og áherslur úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Fjármögnun

Helstu breytingar á útgjaldaramma málefnasviðsins frá fjármálaáætlun 2023–2027 má rekja til 7,5 ma.kr. aukinnar fjárheimildar í Orkusjóð árin 2024 og 2025 sem lækkar árið 2026 og verður 5 ma. kr. tímabilið 2026–2030. Um er að ræða stuðning stjórnvalda við orkuskipti í landinu og er gert ráð fyrir að fjármagninu verði varið í margvísleg verkefni á því sviði, s.s. styrki til hreinorkuökutækja, átaksverkefni og innviðauppbyggingar og beint í farveg þar sem þörfin er mest á hverjum tíma. Verkefnið er liður í að uppfylla markmið og framtíðarsýn Íslands í loftlagsmálum. Aðgerðin er framhald ívilnanaaðgerðar um afslátt af virðisauka sem hefur verið í gangi undanfarin ár og mun ljúka í árslok 2023. 

Á móti falla niður fjárheimildir að upphæð 1.888 m.kr. og vegur þar þyngst 1.800 m.kr. fjárheimild til orkuskipta á árunum 2024–2026 eða 1,4 ma.kr. árið 2024, 250 m.kr. árið 2025 og 150 m.kr. árið 2026. Að auki er gert ráð fyrir 363 m.kr. aðhaldi í starfsemi málefnasviðsins á tímabilinu.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.Tafla: Fjárheimildir málasviðsins

Helstu áherslur 2024–2028

ORKUÖRYGGI Í FORGANG OG JAFNT AÐGENGI  -  Orkuöryggi fyrir alla landsmenn.	Orkuskipti.	Jöfnun orkukostnaðar á landsvísu.

Málaflokkar 

15.1 Stjórnun og þróun orkumála

Verkefni

Undir málaflokkinn falla málefni/verkefni á sviði stefnumótunar og eftirlits stjórnvalda með orkumálum, s.s. vegna flutnings og dreifingar raforku, eftirlits með raforkumarkaði, orkuskipta, orkunýtni, nýtingar auðlinda í jörðu, orkuöryggis, hitaveitu, eldsneytis og kolvetnismála.

Helstu áskoranir

Mikil umframeftirspurn er eftir orku á sama tíma og nýtt orkuframboð er af skornum skammti. Til að mynda er talsverð umframeftirspurn eftir raforku til orkuskipta (s.s. framleiðslu á rafeldsneyti) og annarrar starfsemi. Skýrist það að hluta til vegna þess að dregist hefur að afgreiða tillögur um virkjanakosti úr rammaáætlun, vegna skorts á stefnumótun og regluverki um nýtingu vindorku og vegna hægrar uppbyggingar flutnings- og dreifikerfa, m.a. vegna tafa á skipulags- og leyfisveitingastigi. Orkuöryggi hvað varðar eldsneyti er ekki fullnægjandi þar sem engar kröfur eru settar um lágmarksbirgðir í landi.

Staða orkuskipta samgangna á landi nemur um 15%. Orkuskipti í skipum, höfnum og haftengdri starfsemi er nær engin en sett hafa verið þau viðmið að um 10% þeirrar starfsemi verði orkuskipt fyrir 2030. Orkuskipti eru sömuleiðis ekki hafin í flugrekstri. Því er mikilvægt að leggja aukinn kraft og hraða í orkuskipti eigi að ná settum markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 og markmiðum um full orkuskipti og kolefnishlutleysi Íslands árið 2040.

Tækifæri til umbóta

Til að ná framangreindum markmiðum og mæta helstu áskorunum hefur verið unnin lang¬tímaorkustefna ásamt aðgerðaáætlun. Sú orkustefna miðar að sjálfbærri orkuframtíð og mun byggjast á samspili orkuöryggis, orkuskipta, orkunýtni, umhverfis, samfélags og efnahags.
Eitt af forgangsmálum stjórnvalda er að tryggja orku- og afhendingaröryggi raforku á landsvísu. Settir hafa verið á laggirnar starfshópar til að takast á við svæðisbundnar áskoranir varðandi flutning og framboð raforku. Einnig er starfshópur varðandi nýtingu vindorku á landi og hafi. Jafnframt er í vinnslu frumvarp um breytingu á raforkulögum sem setja mun hagsmuni almennings og lítilla fyrirtækja í forgang ef kemur til skerðinga. Enn fremur er unnið að því að skilgreina hlutverk og ábyrgð flutningsfyrirtækis og Orkustofnunar hvað varðar raforkuöryggi, unnið að því að skilgreina viðmið um raforkuöryggi og frekari öryggisviðmið í samvinnu við aðila á raforkumarkaði og unnið er að úrbótum í átt til aukinnar skilvirkni og einföldunar á sviði orkumála.

Enn fremur er unnið að því að skilgreina hlutverk og ábyrgð flutningsfyrirtækis og Orkustofnunar hvað varðar raforkuöryggi, unnið að því að skilgreina viðmið um raforkuöryggi og frekari öryggisviðmið í samvinnu við aðila á raforkumarkaði og unnið er að úrbótum í átt til aukinnar skilvirkni og einföldunar á sviði orkumála.

Stjórnvöld hafa stutt við hitaveituvæðingu undanfarna áratugi og árið 2023 verður ráðist í sérstakt átak í leit og nýtingu jarðhita á köldum svæðum. Átakið verður mótað með hliðsjón af skýrslu Orkustofnunar um hugmyndir til að lækka kostnað við húshitun í þéttbýli og úttekt ISOR á stöðu nýtingar hjá hitaveitum. 

Stjórnvöld hafa stutt við áframhald orkuskipta sem snýr að samgöngum og iðnaði þar sem notast er við jarðefnaeldsneyti. Innlend notkun jarðefnaeldsneytis er að mestu frá samgöngum á landi, í lofti og frá fiskiskipaflotanum. Áfram verða veittir styrkir til uppbyggingar innviða fyrir rafknúin farartæki og til tækjakaupa; bílaleiga, almennings og þungaflutninga, auk stuðnings fyrir innlenda rafeldsneytisframleiðslu. Í þessu skyni hefur Orkusjóður verið styrktur verulega og er mikilvægt tæki til að hrinda áherslum stjórnvalda í framkvæmd. 

Stuðningi í formi styrkja er í auknum mæli beint að orkuskiptum á fleiri sviðum en samgöngum á landi, þá einna helst orkuskiptum í skipum, höfnum, haftengdri starfsemi og flugi. Stefnt er að því að flýta orkuskiptum í flugi og hefur í því augnamiði verið settur á laggirnar starfshópur um flugeldsneyti. Í sjávarútvegi er í skoðun að auka notkun raf- og líf-eldsneytis á vélar skipaflotans og er sú leið talin ódýr og geta minnkað losun gróðurhúsa-lofttegunda. Þá þarf að huga frekar að orkuskiptum innan atvinnugreinarinnar, þ.m.t. hjá fiski¬mjölsverksmiðjum og með rafvæðingu hafna.

Dreifikostnaður raforku er meiri í dreifbýli en þéttbýli og kostnaður við húshitun hærri á stöðum sem ekki búa við möguleika á hitaveitu með jarðvarma. Í samræmi við stefnu stjórn-valda um jöfnun orkukostnaðar á landsvísu er því stefnt að aukinni jöfnun dreifikostnaðar raforku í dreifbýli. 

Í orkumálum eru ýmis tækifæri til úrbóta þegar kemur að kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Mikið hefur þó áunnist á undanförnum árum í þeim efnum og má þar t.d. nefna að jöfn kynja¬hlutföll eru í stjórnum stærstu orkufyrirtækja landsins og á stjórnendastigi. Á hinn bóginn má nefna að úthlutanir úr Orkusjóði fara að mestu leyti til verkefna sem eru frá karlmönnum, í sama hlutfalli og umsóknir.

Áhættuþættir

Ýmsar afleiðingar koma í ljós ef ekki tekst að ná markmiðum um orkuöryggi og orkuskipti. Fyrir það fyrsta, ef ekki er nægilega mikið orkuframboð til staðar leiðir það til hækkunar á raforkuverði til almennings og fyrirtækja með tilheyrandi skertum lífskjörum. Sömuleiðis ef um orkuskort er að ræða er það alvarleg staða í einangruðu orkukerfi sem reiðir sig á eigin framleiðslu eingöngu. Nauðsynlegt er, í samræmi við orkustefnu, að tryggja forgang almenn¬ings ef slík staða kemur upp. Skortur á heitu vatni til kyndingar húsa leiðir einnig til verð¬hækkana, ef nauðsynlegt er að skipta yfir á dýrari rafkyndingu, sérstaklega í þegar lestuðu kerfi.

Markmið og mælikvarðar

Sett eru þrjú markmið fyrir málaflokkinn og standa þau óbreytt frá fyrri fjármálaáætlun og er því vísað til fyrri áætlunar varðandi lýsingu á tilgangi þeirra. Yfirlit yfir markmið, mæli¬kvarða og sett viðmið um framgang þeirra má sjá í meðfylgjandi töflu:

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2022

Viðmið 2024

Viðmið 2028

Tryggt orkuöryggi fyrir alla landsmenn.

7,

8, 10

Hlutfall framboðs og eftirspurnar raforku með hliðsjón af orkuspá.

Aukið afhendingar­öryggi raforku á landsvísu.

Eftirspurn umfram framboð.*

Framboð nálgast að vera í takt við eftir­spurn.

Framboð í takt við eftirspurn.

Aukið hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orku­búskap Íslands.

7,

13

Hlutfall endurnýjan­legra orkugjafa í samgöngum.

15%

18%

22%

Hlutfall endurnýjan­legra orkugjafa í sjávarútvegi og skyldri starfsemi.

0,5%

0,5%

3%**

Jöfnun orkukostnaðar á landsvísu.

10

Hlutfall á jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku í dreifbýli (%).***

78

78****

78****

* Unnið er að tölulegu öryggisviðmiði.
** Skoða þarf mögulega íblöndun í hefðbundið jarðefnaeldsneyti til að ná þessu markmiði. 
*** Viðmið vísar til hlutfalls af þeim kostnaði sem þarf að niðurgreiða til að ná fullri jöfnun í dreifikostnaði raforku.
**** Hækkuð viðmið um hlutfallslega jöfnun á kostnaði við dreifingu raforku eru háð framlögum til jöfnunar raforkukostnaðar heimila milli dreifbýlis og þéttbýlis sem munu standa óbreytt.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum