Hoppa yfir valmynd

21 Háskólastig

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði heyrir undir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, utan Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem heyrir undir ferðamála-, viðskipta og menningarmálaráðherra. Málefnasviðið skiptist í þrjá málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2021–2023.

Tafla: Heildarúgjöld málasviðsins

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýnin er að úr öflugum háskólum útskrifist einstaklingar sem fái störf við hæfi eða geti skapað sér áhugaverð tækifæri sem byggist á þekkingu, hugviti og nýsköpun.

Samkeppnishæfar rannsóknarstofnanir og háskólar eru grundvöllur verðmætasköpunar hér á landi. Leiðarljósið í starfi háskólanna er að efla gæði námsins, styrkja sérstöðu skólanna og tryggja að þeir verði betur í stakk búnir til að sinna því mikilvæga hlutverki sem þeir hafa á tímum tæknibreytinga og hnattrænna samfélagslegra áskorana.

Eitt af meginmarkmiðunum er að fjárveitingar styðji við greinar sem gera Ísland að sjálfbærari þjóð, t.d. varðandi heilbrigðisþjónustu, tæknigreinar, matvælaframleiðslu, fiskeldi og umhverfisvernd.

Framtíðarsýn og meginmarkmið eru í samræmi við velsældaráherslu ríkisstjórnarinnar um virkni í námi og starfi og þýðingu menntunar fyrir samkeppnishæfni þjóða og lífsgæði einstaklinga. Menntun og rannsóknir styðja við lýðræðisþróun, gagnrýna og skapandi hugsun, sjálfbærni og velferð.

Fjármögnun

Ný rekstrarframlög til háskóla og rannsóknastarfsemi (málefnasvið 21.10) nema 3,5 ma.kr. árið 2024. Þessi hækkun er 1,1 ma.kr. hærri en tímabundin framlög vegna Covid-19 heimsfaraldurs sem voru veitt í síðasta sinn árið 2023. Á móti þessari hækkun kemur aðhaldskrafa sem nemur 359 m.kr,-, auk tímabundinna verkefna sem falla niður. Árin 2025-2028 halda rekstrarframlög áfram að aukast, sem leiðir til þess að rekstrarframlög aukast um 2,4 ma.kr. til ársins 2028. Nýta á aukið svigrúm til þess að móta og innleiða nýtt reiknilíkan um framlög til háskóla þar sem meiri áhersla verður lögð á gæði og rannsóknir en áður. Jafnframt verður sótt fram í heilbrigðisvísindum og í STEAM-greinum þar sem áherslan verður á betra nám og fjölgun nemenda.

Hús heilbrigðisvísindasviðs HÍ á Landspítalalóð verður reist á tímabili áætlunarinnar og útgjöld vegna þess aukast um 1,2 ma.kr. árið 2024. Er framkvæmdin að fullu fjármögnuð með framlagi frá Happdrætti Háskóla Íslands. Listaháskóli Íslands færir starfsemi sína í Tollhúsið líkt og kveðið er á um í stjórnarsáttmála. Í samræmi við heimildir í 5. gr. fjárlaga mun ríkissjóður fjármagna framkvæmdir vegna endurbyggðs Tollhúss undir starfsemi LHÍ með láni til fasteignafélags Háskóla Íslands

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Tafla: Fjárheimildir málasviðsins

Helstu áherslur 2024–2028

NEMENDUR BÚNIR UNDIR TÆKIFÆRI ÞEKKINGARSAMFÉLAGSINS  -  Aukið samstarf háskóla. Sterk tengsl háskóla við samfélag og atvinnulíf. Samkeppnishæft háskóla- og rannsóknarstarf.

21.1 Háskólar og rannsóknastarfsemi

Verkefni

Opinberir jafnt sem einkareknir háskólar eru sjálfstæðar mennta- og rannsóknastofnanir sem sinna kennslu, rannsóknum, varðveislu og miðlun þekkingar, þekkingarleit og sköpun á sviðum vísinda, fræða, tækniþróunar og lista. Sjá nánar á bls. 345 í fjármálaáætlun 2023–2027.

Helstu áskoranir

Háskólar og rannsóknastofnanir gegna meginhlutverki í að ná fram áherslum stjórnvalda í gildandi stjórnarsáttmála, ekki einungis í mennta- og vísindamálum, heldur einnig til að takast á við samfélagslegar áskoranir sem Ísland stendur frammi fyrir, s.s. á sviði loftslagsmála, stafrænnar umbyltingar og öldrunar þjóðarinnar.

Ein helsta áskorunin sem háskólar standa frammi fyrir er sú að viðhalda samkeppnishæfni og auka gæði náms og rannsókna svo að háskólar hérlendis standi jafnfætis háskólum í samanburðarlöndum hvað varðar fjármögnun og aðstöðu. Þörf er fyrir aukna fjármögnun til háskóla og rannsóknastofnana svo nemendum og kennurum bjóðist eftirsóknarverð kjör og starfsumhverfi og kennsla og rannsóknir þróist til til framtíðar. Þörf er á aukinni uppbyggingu rannsóknainnviða hér á landi á sama tíma og þess sé gætt að nýta vel þá alþjóðlegu innviði sem Ísland hefur aðgang að.

Mikilvægt er að tryggja að fjárveitingar styðji við greinar sem stuðla að aukinni sjálfbærni, t.d. hvað varðar heilbrigðisþjónustu, menntun, tæknigreinar, matvælaframleiðslu, fiskeldi og umhverfisvernd í samræmi við velsældaráherslu ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutlausa framtíð. Þá þurfa starfsumhverfi og rannsóknainnviðir háskólastarfsins að vera þess eðlis að mögulegt sé að byggja upp og þróa metnaðarfullar námsleiðir s.s. á sviði matvælaframleiðslu og landbúnaðar. Hæfni og færni menntaðs vinnuafls þarf að haldast í hönd við síkvikan vinnumarkað og háskólarnir þurfa að geta boðið upp á fjölbreytt framboð náms til starfsþróunar. Marka þarf stefnu um opin vísindi til að tryggja aðgengi sem flestra að þeim gögnum sem til verða fyrir opinbert fé og niðurstöður rannsókna sem skili sér sem best til samfélagsins.

Tryggja þarf sem best jafnrétti á milli mismunandi samfélagshópa og vinna að velsældaráherslu ríkisstjórnarinnar um virkni í námi og starfi og velsæld borgaranna. Jafna þarf aðstöðumun landsbyggðarinnar til háskólanáms með aukinni áherslu á fjarnám og gæði þess. Vísbendingar eru um að nemendur og starfsfólk með erlendan bakgrunn skili sér síður í háskóla en aðrir. Líta þarf sérstaklega til mismunandi stöðu kynja innan háskólasamfélagsins, annars vegar hvað varðar nemendur og hins vegar hvað varðar akademíska starfsmenn. Í þessu samhengi má líta til heimsmarkmiðs SÞ 4.5 um að afnema kynjamismunun í menntakerfinu. Af nemendum háskólanna hér á landi eru um 35% karlar en 65% konur. Rúmlega 30% karlmanna á aldrinum 16-74 ára hafa lokið háskólaprófi hér á landi og er þetta hlutfall lægra en á öðrum Norðurlöndum. Hér liggja því tækifæri til umbóta hvað varðar fjölgun háskólanema. Hvað varðar akademíska starfsmenn háskóla eru konur í meiri hluta stunda­kennara, en þau störf fela í sér ótryggara starfsumhverfi og lakari kjör en gerist meðal fastráðinna starfsmanna og hlutfall kvenna lækkar eftir því sem ofar dregur í framgangskerfi háskólanna.

Í alþjóðlegu umhverfi menntunar og rannsókna er nauðsynlegt að grunngildi háskólastarfs, s.s. akademískt frelsi og sjálfstæði stofnana, verði höfð að leiðarljósi og að tryggt verði að samstarf við erlenda aðila samræmist þeim kröfum sem gerðar eru til vísindamanna hérlendis. Þetta á einnig við um opin vísindi og vandaða starfshætti í vísindum þar sem mikilvægt er að fylgja alþjóðlegum viðmiðum.

Sjá nánar í umfjöllun á bls. 345–348 í fjármálaáætlun 2023–2027.

Tækifæri til umbóta

Mikilvægasta fyrirliggjandi verkefni á háskólastiginu er endurskoðun reglna nr. 646/1999 um fjárveitingar til háskóla. Unnið er að nýjum reglum og reiknilíkani sem ætlað er að auka gæði og skilvirkni háskólanáms. Draga á úr brottfalli nemenda, ýta undir alþjóðlegt samstarf og tryggja að nám sé í takti við þarfir nútímasamfélagsins með jafnrétti að leiðarljósi. Stefnt er á að rannsóknastarf háskóla verði hluti af reiknilíkaninu og þannig munu framlög háskóla til rannsókna í fyrsta sinn ráðast af árangri á þeim vettvangi.

Öflugt samstarf allra íslensku háskólanna er ein af forsendum samkeppnishæfni þjóðarinnar og aukinna gæða náms og því var nýr hvati settur á fót undir formerkjunum, Samstarf háskóla. Ráðstöfun af safnlið háskólastigsins í gegnum Samstarfið gerir fjármögnun á háskólastigi gagnsærri en áður og býður upp á að efnt sé til samkeppni um umbótaverkefni í meira mæli en áður. Þá mun þessi nálgun styðja við áherslur ríkisstjórnarinnar um einföldun stofnanakerfisins með það að markmiði að það verði burðugra, sveigjanlegra og hagkvæmara. Þess er vænst að háskólarnir sýni frumkvæði í greiningu á samstarfsmöguleikum sín á milli og sjálfstæði í vali verkefna sem styðja við rannsóknir, nýsköpun og framfarir á háskólastigi.

Sókn í STEAM-greinum.Markmiðið samræmist áherslu í stjórnarsáttmála um að búa íslenskt samfélag undir aukna tæknivæðingu, fjölga fólki með fjölbreyttan bakgrunn með tækni- og raungreinamenntun og auka samkeppnishæfni með því að hlúa að skapandi hugsun, þekkingu og vísindum. Mikilvægt er að nýta aðferðir lista og skapandi greina í sókninni þó að markmiðið sé að fjölga útskrifuðum í STEM greinum á háskólastigi eins og mælikvarði í töflunni hér fyrir neðan ber með sér.

Fjölga á leiðum til náms á háskólastigi fyrir einstaklinga sem hafa farið óhefðbundnar leiðir en búa yfir nægilega traustum undirbúningi fyrir háskólanám í samræmi við velsældaráherslu ríkisstjórnarinnar um virkni í námi og starfi. Í því skyni er unnið að þróun raunfærnimats til styttingar háskólanáms, m.a. með það fyrir augum að auka sýnileika og meta að verðleikum þá hæfni og þekkingu sem fólk hefur aflað sér í starfi á ýmsum vettvangi. Einnig er unnið að þróun örnáms (e. micro-credentials) sem mun auka aðgengi fólks til símenntunar/ starfsþróunar á háskólastigi, sem og áframhaldandi þróun fagháskólanáms sem getur brúað bilið milli starfsnáms á framhaldsskólastigi og náms til viðurkenndrar háskólagráðu á skyldusviði. Hugað verður að jafnrétti í sem víðustum skilningi í íslensku háskólasamfélagi, þetta á m.a. við um aukna sókn karla í nám sem hingað til hefur höfðað mest til kvenna, til dæmis menntavísindi og heilbrigðisvísindi. Þá verður leitað leiða til að auka hlut kvenna meðal prófessora í háskólum.

Unnið verður að mótun og innleiðingu stefnu um opin vísindi á tímabilinu með það að markmiði að styrkja gæði vísindastarfs, inngildingu og jafnræði meðal vísindafólks ásamt því að auka samfélagslegan ávinning af rannsóknum.

Mikilvægt er að vísinda- og rannsóknastarf skili sér í þverfaglegu þekkingarsamfélagi með bættu aðgengi að þekkingu og færni, virðisaukandi nýsköpun, nýjum og verðmætum fyrirtækjum, hugverkaréttindum, fjölbreyttara atvinnulífi og öflugu samspili háskóla og atvinnulífs.

Sjá nánar í umfjöllun á bls. 345–348 í fjármálaáætlun 2023–2027.

Áhættuþættir

Helstu áhættuþættir í starfsemi háskólastigsins lúta að nauðsynlegri uppbyggingu svo tryggja megi gæði náms og rannsókna. Ef ekki tekst að halda í við þau lönd, sem við kjósum að bera okkur saman, eykst hættan á því að samkeppnishæfni íslenskra háskóla minnki, nemendur og starfsfólk leiti á önnur mið og nemendur í námi erlendis komi ekki aftur heim til Íslands að námi loknu. Ef nauðsynleg nýliðun starfsfólks í háskólana næst ekki fram getur það valdið auknu álagi á það starfsfólk sem fyrir er, rýrt tækifæri starfsmanna til að þróa sig í starfi, hvort sem er í kennslu eða rannsóknum og haft neikvæð áhrif á innleiðingu nýrra hugmynda, tækni og alþjóðlegs starfs í háskólunum. Þá er hætta á að ekki verði mögulegt að fjárfesta í rannsóknainnviðum með slæmum afleiðingum fyrir nýsköpun, rannsóknir og vísindastarf innan háskólanna.

Markmið og mælikvarðar

Markmið
HM
Mælikvarðar
Staða 2022
Viðmið 2024
Viðmið 2028
Aukið samstarf háskóla í þágu gæða og samfélags
4.4 4.c.,
*1.1 Fjöldi sameiginlegra námsleiða innlendra háskóla
2
8
20
4.3,
*1.2. Fjöldi nemenda sem fer í háskólanám á grundvelli raunfærnimats
17
34
120
4.3,
*1.3. Hlutfall brautskráðra úr háskólum í STEM-greinum/ heilbrigðisvísindum
17%/
15%
18%/
16%
22%/
20%
Aukin gæði náms og námsumhverfis
16.6,
*2.1 Hlutfall akademískra starfsmanna undir 40 ára (fastráðnir starfsmenn)
17%
18%
21%
16.6,
*2.2 Fjöldi íslenskra skiptinema erlendis og erlendra gráðunema við íslenska háskóla.
1000/1600
1200/
1800
1400/
2200

 
*2.3 Hlutfall karlkyns nemenda í háskólanámi
35%
38%
>40%
Styrkja rannsóknastarf og umgjörð þess
16.6,
*3.1 Ritrýndar birtingar háskóla (þriggja ára meðaltal)/þar af í opnum aðgangi
1563/68%
1600/
75%
1800/
85%
16.6,
*3.2 Fjöldi og heildarupphæð alþjóðlegra samstarfsverkefna í háskólum (úr Samstarfsáætlun ESB)
13/
8.000.000€
15/10. 000.000€
20/15. 000.000€
16.6,
*3.3 Hlutfall kvenna meðal prófessora
36%
38%
40%

*1.1 Framvinda samstarfsverkefna háskólanna við HVIN.
*1.2 Framvinda samstarfsverkefna háskólanna við HVIN.
*1.3 Upplýsingar frá Hagstofu Íslands https://hagstofa.is/talnaefni/samfelag/menntun/haskolastig/
*2.1 Upplýsingar frá öllum háskólum.
*2.2 Upplýsingar frá Landsskrifstofu Erasmus+ og alþjóðaskrifstofum háskólanna.
*2.3 Upplýsingar frá öllum háskólum.
*3.1 www.scopus.com/sources.uri Undir málefnasviði 7 er einnig mælikvarði um fjölda birtinga í opnum aðgangi.
*3.2 cordis.europa.eu
*3.3 Upplýsingar frá öllum háskólum.

Markmið og mælikvarðar undir málefnasviði 21.1 hafa tekið talsverðum breytingum frá fjármálaáætlun 2023-2027. Breytingarnar koma til vegna stefnumótunar á fyrsta ári nýs ráðuneytis og draga markmiðin fram þá stefnu. Mælikvarðarnir styðja við eftirfylgni og innleiðingu stefnunnar og varpa ljósi á það hvernig ná á fram markmiðunum.

  1. Auka samstarf háskóla í þágu gæða og samfélags. Áhersla er lögð á eflingu háskólastigs með auknu samstarfi milli háskóla, innlendra sem erlendra, og samstarfi við atvinnulífið um nám og kennslu, þ.m.t. samþættingu námsgráða og stoðþjónustu. Unnið verður að því að fjölga brautskráðum af samfélagslega mikilvægum námsbrautum, s.s. í heilbrigðisþjónustu og menntavísindum, í raunvísindum, tæknigreinum og náttúruvísindum. Þá verður unnið að þróun raunfærnimats á háskólastigi með það fyrir augum að fjölga leiðum til náms fyrir þá sem hafa aflað sér nægilegrar hæfni og þekkingar í starfi á ýmsum vettvangi og auka jafnrétti til náms í víðum skilningi.
  2. Auka gæði náms og námsumhverfis. Háskólar bjóða hvetjandi námsumhverfi þar sem skapandi og gagnrýnin hugsun og vinnubrögð eru grunnáhersla í öllu háskólastarfi. Háskólanám er opið og eftirsóknarvert fyrir nemendur af öllum kynjum. Unnið verður að því að efla starfsfólk til að ná árangri í kennslu og takast á við óvæntar áskoranir með því að bjóða upp á tækifæri til starfsþróunar og hvetja til nýjunga í kennslu. Til þess þarf að fjölga fastráðnu akademísku starfsfólki. Fjölga þarf erlendum nemendum sem ljúka námi hér á landi og styrkja alþjóðlegt samstarf háskólanna með áframhaldandi þátttöku í erlendum samstarfsáætlunum.
  3. Styrkja rannsóknastarf og umgjörð þess. Öflugt rannsóknastarf er forsenda gæða í háskólanámi og laðar framúrskarandi nemendur og starfsfólk til náms og starfa í háskólum og rannsóknastofnunum. Alþjóðlegt samstarf í rannsóknum og vísindum er grunnforsenda gæða og uppbyggingar vísindastarfs, fjölbreytni í námi og víðsýni akademísks samfélags. Markmiðið felur í sér að háskólar hvetji, samhliða innlendri uppbyggingu, nemendur og starfsfólk á Íslandi til náms og rannsókna við erlenda háskóla. Markmiðið felur einnig í sér að námstími doktorsnema sé að jafnaði ekki lengri en almennt gerist í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.

21.3 Stuðningur við námsmenn

Verkefni

Málaflokkurinn tekur til Menntasjóðs námsmanna. Meginhlutverk sjóðsins er að veita námsmönnum fjárhagslegan stuðning og tryggja þeim tækifæri til náms hérlendis og erlendis án tillits til efnahags. Mikilvægt er að námsmenn haldi áfram að sækja sér menntun utan landsteinanna til að auka fjölbreytni í námi og efla alþjóðleg tengsl íslensks samfélags.

Menntasjóður námsmanna styður markvisst við áherslur stjórnvalda um að efla atvinnulíf samhliða menntun og breyttum þörfum samfélagsins. Hann er auk þess tæki til að mennta sem flesta vel og styrkja faglega þróun fólks á vinnumarkaði um allt land.

Helstu áskoranir

Tryggja þarf að sjóðurinn sinni grundvallarmarkmiðum sínum sem er að tryggja jafnrétti til náms og að framkvæmd nýrra laga um Menntasjóð námsmanna nr. 60/2020 styðji við það samfélagslega hlutverk sjóðsins.

Tækifæri til umbóta

Lögum um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020, er ætlað að efla stuðning við námsmenn með áherslu á jafnræði og sanngirni, með stuðningi við foreldra í námi, hvetja til aukinnar námsframvindu og skapa réttlátt og nútímalegt stuðningskerfi.

Lögunum er ætlað að hvetja til markvissari námsframvindu nemenda með námsstyrk samhliða námslánum og tryggja þannig hagsmuni íslenskra námsmanna en jafnframt auka skilvirkni kerfisins. Unnið er að greiningu á áhrifum laganna á mismunandi hópa. Áætlað er að niðurstaða þeirrar greiningar liggi fyrir á árinu 2023.

Markmið og mælikvarðar

Markmið Menntasjóðs námsmanna eru:

  1. Að tryggja námsmönnum sem falla undir lögin tækifæri til náms, án tillits til efnahags með því að veita námsmönnum fjárhagslega aðstoð til náms á Íslandi og erlendis í formi námslána og styrkja.
  2. Jöfn og gagnsæ dreifing á framlagi ríkisins til nemenda og bætt námsframvinda nemenda í háskólum. Bætt námsframvinda dregur úr skuldsetningu nemenda og stuðlar að bættri nýtingu fjármuna í menntakerfinu og aukinni skilvirkni.
  3. Að styðja við öflugt menntakerfi sem er forsenda framfara. Mikilvægt er að Menntasjóður námsmanna geti stutt við þær áherslur stjórnvalda að draga úr skorti á ákveðnum starfsstéttum á borð við kennara og heilbrigðisstarfsfólk og efla list-, tækni, verk- og starfsnám til að bregðast við breyttum atvinnuháttum. 

Sjá nánar í fjármálaáætlun 2023–2027 bls. 349–350.

21.4 Stjórnsýsla háskóla, iðnaðar og nýsköpunar

Verkefni

Hlutverk nýs ráðuneytis háskóla, iðnaðar og nýsköpunar er að leysa krafta úr læðingi og framsækið skipuritið ber það með sér að ráðuneytið ætlar sér að leiða saman það afl sem býr í háskólum, vísindum, nýsköpun, iðnaði, fjarskiptum og upplýsingatækni. Á kjörtímabilinu verður lögð áhersla á að styrkja enn frekar tæknilega innviði. Sú staða skapar mikla möguleika til hagnýtingar hugvits, til að auka fjölbreytni atvinnulífsins og fjölga spennandi og verðmætum störfum og styrkja þannig samkeppnisstöðu Íslands.

Meðal helstu viðfangsefna ráðherra á kjörtímabilinu verður endurskoðun reglna um fjármál háskóla, endurskoðun á umhverfi samkeppnissjóða og fjármögnun nýsköpunar, efling staf­rænnar væðingar og netöryggis, ljóstenging landsins o.fl. Markmið málaflokka ráðuneytisins styðja a.m.k. við þrjár velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar, um grósku í nýsköpun, bætt samskipti við almenning og virkni í námi og starfi. Ráðherra fer með yfirstjórn þeirra stjórnvalda sem undir hann heyra og hefur eftirlit með starfrækslu, fjárreiðum og eignum á vegum þeirra.

Helstu áskoranir og tækifæri til umbóta

Uppbygging nýs ráðuneytis. Þegar gildandi fjármálaáætlun kom út var ráðuneytið nýtt og ljóst að það tæki tíma að koma nýju ráðuneyti á koppinn. Á þessu rúma ári sem ráðuneytið hefur starfað hefur stefna ráðherra í málaflokknum verið sett fram og unnið er að forgangsmálum með breyttu vinnulagi og í skipuriti sem styður við það vinnulag. Breytingar á markmiðum og mælikvörðum í nýrri fjármálaáætlun endurspegla vinnu fyrsta árs ráðuneytisins. Markmiðið er að horfa stöðugt til þess hvernig unnt er að gera hlutina betur en áður, hvernig hægt er að innleiða nýjungar og gera þannig bæði einstaklingum og fyrirtækjum kleift að bæta hag sinn og framtíðarhorfur. Ráðuneytið heldur áfram að styðja við umhverfi nýsköpunar þar sem sköpunarkraftur fólks fær að njóta sín, dafna og vaxa í opnu og frjálsu samfélagi nýsköpunar og samkeppni.

Hugvitið stærsta útflutningsgreinin. Verkefniráðuneytisins miða að því að gera hugvitið að stærstu útflutningsgrein þjóðarinnar. Slíkt kallar á fjölbreytni í atvinnulífinu, s.s. með auknum tækifærum fyrir erlenda sérfræðinga til að koma hingað til lands og setjast hér að. Öll vinna í málaflokkum ráðuneytisins miðar að því að styrkja samkeppnisstöðu Íslands. Virkja þarf tækifærin og ryðja braut nýsköpunar og iðnaðar á öllum sviðum samfélagsins. Ráðuneytið hyggst því styrkja enn frekar undirstöður rannsókna og nýsköpunar í landinu svo að samfélagið verði betur í stakk búið til að takast á við áskoranir framtíðarinnar.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum