Hoppa yfir valmynd

14 Ferðaþjónusta

Umfang

Starfsemi á málefnasviði ferðaþjónustu er á ábyrgð menningar- og viðskiptaráðherra. Undir málefnasviðinu er einn málaflokkur sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun á tímabilinu 2021–2023.

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 er að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni efnahagslegs og samfélagslegs jafnvægis. Í því felst að ferðaþjónustan sé arðsöm og samkeppnishæf í sátt við náttúru, íslenska menningu og tungu. Að sama skapi stuðlar hún að bættum lífskjörum og hagsæld og er þekkt fyrir sjálfbæra þróun, gæði og einstaka upplifun.
Meginmarkmið málefnasviðsins er í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem fela m.a. í sér að ferðaþjónusta verði sjálfbær atvinnugrein og stuðli að auknum efnahagslegum tækifærum, aukinni velmegun og byggi á ábyrgri nýtingu auðlinda.

Fjármögnun 

Gert er ráð fyrir að útgjaldarammi málefnasviðsins í heild lækki um 321 m.kr. frá fjárlögum 2023 til ársins 2028. Helstu breytingar til lækkunar felast í 138 m.kr. aðhaldskröfu á tímabilinu, 200 m.kr. niðurfellingu á tímabundnu framlagi vegna uppbyggingar og þróunar fyrirmyndaráfangastaða auk 31 m.kr. niðurfellingar á tímabundnum styrkjum frá fjárlaganefnd. 
Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Helstu áherslur 2024–2028

LEIÐANDI Í SJÁLFBÆRRI ÞRÓUN  -  Aðgerðaáætlun á grunni Ferðamálastefnu  til 2030	Áframhaldandi þróun og innleiðing Jafnvægisáss ferðamála	Þróun í sátt við náttúru, menningu og íslenska tungu

Málaflokkar 

14.1 Ferðaþjónusta

Verkefni

Málaflokkurinn tekur til eftirtalinna þátta: stjórnunar ferðamála, þ.m.t. stjórnsýslu Ferðamálastofu sem er sú stofnun sem heyrir undir málefnasviðið, vöktunar og eftirlits stjórnvalda með þróun starfsemi ferðaþjónustu, rannsókna og gagnaöflunar í ferðamálum. Hann tekur einnig til innviðauppbyggingar, m.a. í gegnum Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Þá tekur málaflokkurinn til nýsköpunar og markaðsstarfs sem varðar aðgerðir stjórnvalda til að stuðla að aukinni verðmætasköpun, framþróun og sjálfbærni ferðaþjónustu, m.a. í gegnum Flugþróunarsjóð og samninga við Íslandsstofu og áfangastaðastofur landshlutanna. Undir málaflokkinn falla m.a. lög um Ferðamálastofu, lög um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Helstu áskoranir

Hraður viðsnúningur hefur átt sér stað hjá ferðaþjónustunni og í brottförum erlendra ferðamanna árið 2022 eftir að öllum takmörkunum var aflétt seint í febrúar það ár. Heildarfjöldi erlendra ferðamanna árið 2022 var um 1,7 milljónir sem er aukning upp á 146% frá árinu 2021 og einungis 289.000 ferðamönnum færri en árið 2019 en þá voru ferðamenn tæpar 2 milljónir. Spár fyrir árið 2023 gera ráð fyrir álíka fjölda og metárið 2018 eða 2,1–2,4 milljónum ferðamanna til landsins. Til samanburðar gerir Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna ráð fyrir að fjöldi erlendra ferðamanna í Evrópu verði sá sami og fyrir faraldur þrátt fyrir styrjöldina sem geisar í Úkraínu.
Fjöldi koma skemmtiferðaskipa og farþega þeirra árið 2022 var svipaður og árið 2019. Samkvæmt gögnum Ferðamálastofu kom ríflega hálf milljón farþega gegnum hafnir landsins og áætlanir stærstu hafnanna benda til þess að skipakomum gæti fjölgað um helming og farþegum um allt að 80% árið 2023.

Ferðaþjónusta er ein af stærstu útflutningsgreinum landsins og mikilvægur drifkraftur hagvaxtar. Gangi spár eftir eru horfur á að næstu ár verði góð fyrir ferðaþjónustu og alla verðmætasköpun sem á henni byggir. Þrátt fyrir jákvæðar horfur felur áframhaldandi vöxtur greinarinnar í sér áskorun varðandi álagsstýringu og afkastagetu innviða í víðum skilningi. Þá benda niðurstöður könnunar Ferðamálastofu meðal fyrirtækja í ferðaþjónustu til þess að greinin standi frammi fyrir margvíslegum áskorunum, t.a.m. skuldavanda, jöfnun árstíðasveiflu, mönnunarvanda og húsnæðisskorti. Ferðaþjónusta er einnig háð mörgum utanaðkomandi þáttum sem geta haft áhrif á þróun eftirspurnar frá helstu mörkuðum. Nefna má náttúruhamfarir, faraldra, stríð, verðbólgu, orku- og olíuverð, efnahagslægðir, loftslagsbreytingar, samkeppni við aðra áfangastaði, gengi gjaldmiðla og orðspor. Aukin alþjóðleg skattlagning eða aðrar takmarkanir vegna mengunar frá samgöngum er líka áhættuþáttur varðandi samkeppnishæfni áfangastaðarins og stöðu Íslands sem tengimiðstöðvar.

Tækifæri til umbóta

Ný ferðamálastefna verður kynnt á tímabilinu. Stefnunni verður fylgt eftir með aðgerðaáætlun sem mun taka mið af áðurnefndum áskorunum. Stefnt er að því að leggja ferðamálastefnu 2030 og aðgerðaáætlun hennar fyrir Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar á haustþingi 2023.

Líkt og áður munu stjórnvöld einnig halda áfram að leggja áherslu á öflun áreiðanlegra gagna og innviðauppbyggingu ásamt aðgerðum sem miða að því að dreifa ferðamönnum víðar um landið og yfir allt árið, auka öryggi, stuðla að ábyrgri ferðahegðun og leita leiða til að bæta rekstrarskilyrði greinarinnar. Þá er unnið að því að náttúra, menning og afþreying stuðli að einstakri upplifun gesta. Þetta samræmist velsældaráherslum ríkisstjórnarinnar og þeirri stefnumörkun sem birtist í framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til 2030.
Stór þáttur í aðdráttarafli Íslands sem ferðamannalands er fólginn í sterku menningarlífi og menningararfi þjóðarinnar. Á kjörtímabilinu verður lögð áhersla á samlegð ferðaþjónustunnar við þessa geira. Breytingar á stjórnsýslu málaflokksins með sameiningu menningar, ferðaþjónustu og viðskipta í menningar- og viðskiptaráðuneyti styðja við aukna samþættingu og verðmætasköpun þessara málaflokka til framtíðar.

Jafnvægisás ferðamála er stjórntæki til að meta reglulega áhrif ferðaþjónustu á umhverfi, innviði, samfélag og efnahag landsins þar sem horft er til skilgreindra sjálfbærnivísa. Unnið verður að því að þróa Jafnvægisásinn til að hann nýtist sem skyldi við forgangsröðun aðgerða og stefnumarkandi ákvarðanatöku í ferðaþjónustu.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða og Flugþróunarsjóður eru starfræktir á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytisins til að styðja við uppbyggingu áfangastaða um allt land. Þessi verkfæri eru liður í því markmiði að stuðla að dreifingu ferðamanna um land allt og leitast við að jafna álag á ferðamannastöðum til hagsbóta fyrir greinina jafnt sem landsmenn. Starfshópur um endurskoðun á markmiði og hlutverki Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða er að hefja störf. Ráðuneytið gerir jafnframt samning við Íslandsstofu um markaðs- og kynningarstarf á erlendri grundu en þar undir heyra m.a. ferðaþjónusta, listir og skapandi greinar.

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar styður við aukin gæði og fagmennsku í greininni með því að auka hæfni starfsfólks. Þá er á vegum stjórnvalda einnig unnið að því að styðja við nýsköpun og stafræna þróun í greininni.

Bætt öryggi og upplifun ferðamanna, m.a. með stýringu áfangastaða í víðu samhengi, verður áfram í fyrirrúmi ásamt verkefnum sem skilgreind eru í stjórnarsáttmála, s.s. orkuskipti í ferðaþjónustu og skoðun á fyrirkomulagi gjaldtöku í greininni.

Á grunni rannsóknaráætlunar Ferðamálastofu er unnið að gagnaöflun og rannsóknum í ferðaþjónustu sem m.a. er ætlað að styðja við stefnumótun stjórnvalda. Á Íslandi hafa kynja- og jafnréttissjónarmið innan greinarinnar lítið verið rannsökuð til þessa sem hafa þarf í huga í vinnu við aðgerðaáætlun.

Markviss skref hafa undanfarin ár verið tekin til að styðja við orkuskipti í ferðaþjónustu sem eru helsta verkfæri greinarinnar til að styðja við stefnu ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Þeim verður haldið áfram, m.a. með stuðningi við uppbyggingu hleðslunets um land allt, rafvæðingu bílaleigubíla og grænni tengingu við Keflavíkurflugvöll.

Áhættuþættir

Ef ekki tekst að bregðast við þeim áskorunum sem fylgja auknum fjölda ferðamanna verður sjálfbærri framþróun ferðaþjónustu á Íslandi stefnt í hættu. Hætta væri á ruðningsáhrifum ferðaþjónustu sem gætu valdið þrýstingi á gengi krónunnar, hækkun húsnæðisverðs og neikvæðum áhrifum á samkeppnishæfni annarra útflutningsgreina. Þá gæti óheft fjölgun ferðamanna leitt til átroðnings á náttúru, óþols meðal heimamanna í garð ferðamanna og greinarinnar í heild og upplifun ferðamanna gæti versnað sem myndi leiða til orðsporshnignunar og minnkandi eftirspurnar. Eins og sýndi sig í kórónaveirufaraldrinum geta utanaðkomandi óvissuþættir haft veruleg og skyndileg áhrif á stöðu ferðaþjónustu og þar með efnahag og samfélag landsins. Mikilvægt er að stuðla að seiglu í greininni og vera með tiltækar viðbragðsáætlanir.

Hafa ber í huga að margir snertifletir ferðaþjónustunnar heyra undir málefnasvið annarra ráðuneyta. Í því samhengi má nefna samgönguáætlun sem inniheldur m.a. flugstefnu, byggðaáætlun, landsáætlun um uppbyggingu innviða, málefni þjóðgarða og loftslagsmál. Mikilvægt er að áfram verði unnið að samræmingu milli greinarinnar og stjórnvalda með hliðsjón af fjölþættu eðli ferðaþjónustunnar.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2022

Viðmið 2024

Viðmið 2028

1. Aukin verðmætasköpun.

8.9,

12.B

Heildarneysla erlendra og innlendra ferðamanna.

477 ma.kr.[1]

525 ma.kr. [2]

635 ma.kr.

8.9,

12.B

Meðalútgjöld hvers erlends ferðamanns.

204.000 kr.[3]

210.000 kr.[4]

232.000 kr.

8.9,

12.B

Hlutfall gistinátta á hótelum og gistiheimilum utan háannatíma á landsbyggðinni.

57%[5]

61%

65%

2. Jákvæð upplifun heimamanna og ferðamanna.

8.9,

11.A,

12.B

Hlutfall Íslendinga sem telur fjölda ferðamanna í heimabyggð hæfilegan.[6]

55,4%

80%

80%

8.8,

8.9,

12.B

Ánægja starfsfólks í ferðaþjónustu (hlutfall ánægðra).

68%[7]

70%

72%

8.9,

11.A,

12.B

Meðmælaskor ferðamanna.[8]

82/100

86/100

86/100

3. Umhverfis­leg sjálfbærni í ferða­þjónustu.

7.2,

8.9,

12.B,

13.2

Hlutfall vistvænna bíla hjá bílaleigum.

20%

50%

90%

8.9,

12.6,

12.B

Fjöldi fyrirtækja í ferðaþjónustu sem eru með vottuð gæða- eða umhverfisstjórnunarkerfi.

77

105

150

[1] Áætlun menningar- og viðskiptaráðuneytis miðað við gögn Hagstofu Íslands um heildarneyslu ferðamanna fyrir árið 2021 og þróun gistinátta árið 2022.
[2] Viðmið fyrir árin 2024 og 2028 byggja á forsendu um 4,9% línulegan árlegan vöxt fram til ársins 2030 en það ár verði heildarneysla ferðamanna um 700 ma.kr.
[3] Staða fyrir 2022 er áætluð út frá gögnum Hagstofu Íslands um neyslu erlendra ferðamanna 2021 og þróun gistináttafjölda erlendra ferðamanna árið 2022.
[4] Viðmið fyrir árin 2024 og 2028 byggja á forsendu um 4,9% línulegan árlegan vöxt.
[5] Hagstofa Íslands. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum (september–maí). Gögn fyrir árið 2022 liggja ekki fyrir og talan vísar því til stöðunnar árið 2021. Samsvarandi hlutfall fyrir árið 2022 þegar eingöngu er miðað við hótel sem opin eru allt árið er 42,3%.
[6] Orðalag mælikvarða skýrt í samræmi við gögn í Jafnvægisás ferðamála. Þolmörk þessara viðmiða samkvæmt Jafnvægisás ferðamála liggja við 80.
[7] Ferðamálastofa. Ánægja starfsfólks í ferðaþjónustu. Talan er fyrir árið 2019. Nýrri tölur liggja ekki fyrir.
[8] Ferðamálastofa. Landamærakönnun 2019. Meðmælaskor (e. Net Promoter Score) er alþjóðlegur mælikvarði í þjónustustjórnun sem byggir á því hversu líklegir viðskiptavinir eru til að mæla með eða hallmæla fyrirtækjum/löndum eftir að hafa upplifað þjónustu þeirra. Þetta er því einföld og góð árangursmæling á ánægju og tryggð viðskiptavina.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum