Hoppa yfir valmynd

24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð heilbrigðisráðherra. Það skiptist í fjóra málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2021–2023.

Tafla: Heildarúgjöld málasviðsins

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn málefnasviðsins er sameiginleg öllum málefnasviðum heilbrigðisráðuneytis­ins, að íslensk heilbrigðisþjónusta sé á heimsmælikvarða og að lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir sé hluti af allri þjónustu, sérstaklega þjónustu heilsugæslunnar, að árangur heilbrigðisþjónustunnar sé metinn með því að mæla gæði þjónustunnar, öryggi hennar, hversu aðgengileg hún er og hvað hún kostar. Heilsugæslan sem fyrsti viðkomustaður notenda heilbrigðisþjónustunnar verður styrkt enn frekar og byggð upp þverfagleg teymisvinna þar sem unnið er að stöðugum umbótum. Heilsugæslan verður leiðandi þátttakandi í heilsueflingu og aðgerðaáætlun um lýðheilsu og forvarnir. Þjónustan verður aukin og heilsugæslustöðvum fjölgað til að minnka álagið á aðra viðkomustaði á borð við bráðamótttöku. Sérstök áhersla verður á að efla almenna og sérhæfða heimahjúkrun, fjölbreytta geðheilbrigðisþjónustu og nýsköpun þar sem hún getur stuðlað að betri meðferð/þjónustu og nýtingu mannafla.

Meginmarkmið heilbrigðisþjónustu er að veitt sé örugg, aðgengileg og hagkvæm heil­brigðisþjónusta þar sem sjúklingum er tryggð greið leið að réttri þjónustu á réttum stað.

Fjármögnun

Helstu útgjaldabreytingar málefnasviðsins lúta að áframhaldandi lækkun á greiðsluþátttöku sjúkratryggðra einstaklinga en einnig er stefnt að því að gera hana gegnsærri og skilvirkari. Að auki er veitt heimildum til mótttökumiðstöðvar um alþjóðlega vernd og geðheilbrigðis- og öldrunarþjónustu. Áfram verður staðið að byggingu heilsugæslustöðva á Akureyri og á Suðurnesjum.]

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Tafla: Fjárheimildir málasviðsins

Helstu áherslur 2024-2028

VELSÆLD OG FRELSIRÉTT ÞJÓNUSTA Á RÉTTUM STAÐ OG TÍMA  -  Heilsugæslan styrkt enn frekar sem fyrsti viðkomustaður og biðtími sé ásættanlegur. Geðheilbrigðis-þjónusta í öndvegi, hún sé fjölbreytt og miðuð að ólíkum þörfum. Stafrænar lausnir og tækni nýttar til að auka gæði þjónustu, hagkvæmni og nýtingu mannafla.

24.1 Heilsugæsla

Verkefni

Heilsugæslan er fyrsti viðkomustaður notenda heilbrigðisþjónustunnar en þar er veitt fyrsta stigs og eftir atvikum annars stigs heilbrigðisþjónusta. Heilsugæsluþjónustu veita Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, heilsugæslusvið heilbrigðisstofnana heilbrigðisumdæmanna og einka­reknar heilsugæslustöðvar. Auk þess sinna sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn ákveðnum þáttum heilsugæsluþjónustu. Sjá nánar um helstu verkefni heilsugæslunnar á bls. 377–378 í fjármálaáætlun 2023–2027.

Helstu lög sem gilda um málefnaflokkinn eru lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 með síðari breytingum, og lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008. Reglugerð nr. 1111/2020 fjallar um heilbrigðisumdæmi og hlutverk, starfsemi og þjónustu heilsugæslustöðva, heilbrigðis­stofnana og sjúkrahúsa.

Helstu áskoranir

Þar sem heilsugæslan er fyrsti viðkomustaður notenda í þjónustukeðju heilbrigðiskerfisins eiga allflestir landsmenn erindi þangað með margþætt vandamál. Til að veita sem besta heil­brigðisþjónustu á sem hagkvæmastan hátt og nýta sem best þekkingu hverrar heilbrigðisstéttar er mikilvægt að einstaklingar geti haft aðgang að þverfaglegri þjónustu og þeim þekkingar­starfsmönnum heilbrigðisþjónustunnar sem þörf er á hverju sinni. Aukinn aðgangur fólks að fjölbreyttri fagþekkingu heilbrigðisstarfsmanna getur stytt biðtíma eftir þjónustu. Því hefur verið lögð áhersla á að auka fjármagn til heilsugæslunnar svo hún hafi meiri burði til að fjölga heilbrigðisstarfsfólki í takt við þörf notenda og í samræmi við hlutverk sitt. Þessi áskorun tengist einnig mönnun heilbrigðisþjónustunnar og möguleikum til að tryggja hana.

Í áætlun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um langtímahorfur í efnahagsmálum og opin­berum fjármálum kemur fram að þjóðin sé ung og eins og er séu hlutfallslega fleiri á vinnumarkaði hér á landi en í öðrum löndum. Samt sem áður er fyrirséð að aldurssamsetning þjóðarinnar muni breytast á næstu árum. Samkvæmt forsendum grunnsviðsmyndar framreiknings í skýrslu[1] um langtímahorfur í efnahagsmálum og opinberum fjármálum mun lýðfræðileg þróun vegna fólksfjölgunar og öldrunar þjóðarinnar leiða til 50% hækkunar á heilbrigðisútgjöldum á föstu verðlagi á næstu þremur áratugum ef viðhalda á óbreyttu þjónustustigi og verð á heilbrigðisþjónustu þróast í takt við annað verðlag. Það er því áskorun fyrir heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa að þróa tímanlega viðeigandi þjónustuúrræði utan stofnana svo hægt sé að mæta þörfum fólks þegar þjónustunnar er þörf.

Mönnun heilbrigðisþjónustunnar verður áfram ein af stærstu áskorununum á málefna­sviðinu. Nýting allra fagstétta heilbrigðisþjónustunnar í samræmi við hámark þekkingar þeirra er áskorun fyrir skipulag og veitingu þjónustunnar til notenda hennar. Nýsköpun og notkun heilbrigðistækni leikur þar einnig stórt hlutverk og er í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmál­anum og velsældaráherslu ríkisstjórnarinnar um grósku í nýsköpun.

Áskorun er að halda áfram að þróa og efla fjölbreytta geðheilbrigðisþjónustu, í samræmi við stjórnarsáttmálann, sem taki mið af ólíkum þörfum til að auka lífsgæði og vellíðan. Geð­heilsumiðstöð barna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur tekið til starfa og þjónar á landsvísu. Heilaörvunarmiðstöð er ný meðferðareining innan geðheilsuteyma Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þar er veitt svokölluð TMS-meðferð (Transcranial Magnetic Simu­lation) við meðferðarþráu (unipolar) þunglyndi. Áskorun er að þróa þjónustuna áfram í takt við umfang vandans og þörf skjólstæðinga. Sjá nánar um áskoranir málefnasviðsins á bls. 378–380 í fjármálaáætlun 2023–2027.

Markmiðið er að heilsugæslan sé aðgengileg fyrir alla sem þurfa á henni að halda, óháð kyni. Fyrir liggur að karlar nýta sér síður en konur þjónustu heilsugæslunnar. Konur virðast búa við lakara heilsufar og verri lífsgæði en karlar og má rekja ástæður þess að hluta til félags­legrar og efnahagslegrar stöðu þeirra í samfélaginu. Kann þetta að skýra að einhverju leyti þann mun sem hefur hingað til verið á notkun þjónustu heilsugæslu hjá konum og körlum.[2] Áskorun er að mæta sértækri þjónustuþörf kvenna. Kvenheilsa er nýtt teymi innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hlutverk teymisins er að sinna sjúkdómum og heilsufarsvanda sem eingöngu er til staðar hjá konum. Þjónustan er viðbót við þá þjónustu sem fyrir er og stendur öllum konum til boða. Áskorun er að þróa þjónustuna áfram þannig að hún mæti sem best þörfum kvenna og auki þekkingu annarra heilbrigðisstarfsmanna á málefninu. Sjá nánar umfjöllun um kynja- og jafnréttissjónarmið málaflokksins á bls. 380–381 í fjármálaáætlun 2023–2027.

Tækifæri til umbóta

Mikil tækifæri felast í að koma á miðlægum gagnsæjum biðlistum, ekki hvað síst innan geðheilbrigðisþjónustu heilsugæslunnar. Tækifæri felast einnig í að innan heilsugæslunnar starfi fjölbreyttur hópur fagfólks þar sem sérþekking er nýtt til hins ýtrasta og þverfagleg teymisvinna viðhöfð til að tryggja notendum þjónustunnar skjóta og örugga þjónustu. Einnig felast mikil tækifæri í því að efla endurhæfingarþjónustu innan heilsugæslunnar og taka upp staðlað matstæki til að meta færni, fötlun og heilsu (ICF). Síðast en ekki síst felast tækifæri í að starfsumhverfið styðji við nýsköpun í þjónustu og meðferð sem stuðlar að bættri heilsu og vellíðan skjólstæðinga en það fellur undir þrjár velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar, þ.e. grósku í nýsköpun, andlegt heilbrigði og virkni í námi og starfi. Sjá nánar um tækifæri á bls. 378–380 í fjármálaáætlun 2023–2027.

Áhættuþættir

Helsti áhættuþáttur sem getur haft áhrif á aðgerðir til að efla fyrsta og annars stigs heilsu­gæsluþjónustu er mönnun fagfólks. Veiting heildstæðrar þjónustu út frá þörfum hvers einstaklings kallar á náið samstarf milli þjónustustiga, stofnana, ríkis og sveitarfélaga. Þetta nauðsynlega samstarf getur einnig verið ákveðinn áhættuþáttur ef einhver brotalöm er þar á.

Markmið og mælikvarðar

Markmið
HM
Mælikvarðar
Staða 2022
Viðmið 2024
Viðmið 2028
Að fyrir liggi miðlægir biðlistar fyrir geð­heilbrigðisþjónustu heilsugæslunnar.
3.8
Miðlægir biðlistar komnir í notkun.
-
-

3.8
Miðlægir gagnsæir biðlistar fyrir börn.
-
-

3.8
Miðlægir gagnsæir biðlistar fyrir fullorðna.
-
-

Skilvirkari þjónusta fyrir fólk sem leitar til heilsugæslu.
3.8
Vel leyst úr erindum fólks hjá heilsugæslum á höfuðborgar­svæðinu (gildi 1–5 þar sem 5 er hæst). [3]
4,32
4,5
4,5
3.8
Vel leyst úr erindum fólks hjá heilsugæslum á landsbyggðinni (gildi 1–5 þar sem 5 er hæst).[4]
4,06
4,2
4,5
Aðgengilegri þjónusta fyrir fólk sem leitar til heilsugæslu.
3.8
Bið eftir hentugum tíma á höfuðborgarsvæðinu (könnun SÍ, 2022).
2,66
3
4
3.8
Bið eftir hentugum tíma á landsbyggðinni (könnun SÍ, 2022).
2,77
3
4

Örlítil orðalagsbreyting var gerð á markmiðum 2 og 3 frá fjármálaáætlun 2023–2027. Þar er sett inn orðið fólk í staðinn fyrir orðið sjúklinga.

24.2 Sérfræðiþjónusta og hjúkrun

Verkefni

Sérgreinalæknar, tannlæknar, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar og ljósmæður veita sér­hæfða þjónustu utan sjúkrahúsa. Þjónustan er almennt veitt á grundvelli samninga Sjúkratrygg­inga Íslands við fyrirtæki heilbrigðisstarfsmanna og nær til rannsókna og meðferða. Allir landsmenn skulu hafa aðgang að skilgreindri sérhæfðri þjónustu, óháð búsetu og efnahag. Þeir skulu hafa aðgang að starfsstöðvum þeirra sem veita sérhæfða þjónustu í heilbrigðisumdæmum eða með fjarheilbrigðisþjónustu. Helstu lög sem gilda um málefnasviðið eru lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, og lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008.

Markmið laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, er að styrkja hlutverk ríkisins sem kaup­anda heilbrigðisþjónustu og að sú þjónusta sé kostnaðargreind. Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er miðað við að Sjúkratryggingar Íslands annist alla samningagerð um kaup á heil­brigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins, hvort sem um er að ræða þjónustu opinberra aðila eða einkaaðila.

Helstu áskoranir

Í ljósi þess að meginmarkmið heilbrigðisþjónustu er að veitt sé örugg, aðgengileg og hagkvæm heilbrigðisþjónusta þar sem sjúklingum er tryggð greið leið að réttri þjónustu á réttum stað er mikilvægt að samningar Sjúkratrygginga Íslands um heilbrigðisþjónustu byggi á vönduðum greiningum og tryggi þannig aðgengi sjúkratryggðra að þjónustunni. Þá er einnig mikilvægt að samningar stofnunarinnar um heilbrigðisþjónustu byggi á ítarlegum greiningum á þörfum landsmanna fyrir heilbrigðisþjónustu og tryggi hæfilegt þjónustumagn af viðunandi gæðum til að koma í veg fyrir óhóflegan biðtíma og óhagkvæma nýtingu þess fjár sem varið er til kaupanna. Hins vegar er staðan sú að samningslaust hefur verið við sérgreinalækna frá 1. janúar 2019 og við sjúkraþjálfara síðan í janúar 2020. Unnið er að gerð samnings um tannréttingar. Þegar ekki eru í gildi samningar og þegar endurgreiðsla til sjúklinga er gerð samkvæmt gjaldskrá og reglugerð hefur borið á því að veitendur heilbrigðisþjónustu krefja sjúklinga um sérstök gjöld umfram það sem tekið er fram í gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands sem sjúklingar greiða að fullu. Við samningsleysi eru greiðslur til þjónustuveitenda almennt ekki hækkaðar og eru viðbótargjöld rökstudd með því að þau komi í stað verðlagshækkana í samningi.

Konur nýta þjónustu sérgreinalækna að jafnaði í meira mæli en karlar en munurinn minnkar heldur þegar komur til annarra sérgreinalækna en kvensjúkdómalækna eru skoðaðar. Samn­ingar um kaup á heilbrigðisþjónustu, þar sem allur kostnaður sjúklings reiknast inn í greiðslu­þátttökukerfið, ættu að koma konum til góða þar sem kynbundinn launamunur er enn til staðar í þjóðfélaginu og stórar kvennastéttir eru með laun undir miðgildi. Einnig eru konur oftar en karlar einar með börn á framfæri. Samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofu Íslands sóttu hlutfallslega fleiri konur en karlar sér ekki þjónustu læknis, þrátt fyrir að þurfa á því að halda, vegna of mikils kostnaðar.

Tækifæri til umbóta

Samkvæmt lögum um sjúkratryggingar er það hlutverk heilbrigðisráðherra að ákveða hvaða samninga skuli gera um kaup á heilbrigðisþjónustu en það er Sjúkratrygginga Íslands að annast gerð slíkra samninga. Samningar skulu gerðir í samræmi við stefnumörkun skv. 2. gr. laganna, m.a. um skipulag heilbrigðisþjónustu, forgangsröðun verkefna innan hennar, hagkvæmni, gæði og öryggi þjónustunnar og aðgengi að henni. Við samningsgerð skal hafa hagsmuni sjúkra­tryggðra að leiðarljósi. Meginreglan er sú að í öllum tilvikum þurfi að liggja fyrir samningar milli Sjúkratrygginga Íslands og veitenda þjónustu eigi ríkið að greiða hlutdeild í kostnaði við heilbrigðisþjónustu. Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er aftur á móti lögð áhersla á að greiðsluþátttaka sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónustu jafnist á við það sem lægst er í nágranna­löndum. Mikilvægt er að samningar um kaup á heilbrigðisþjónustu sem sérgreinalæknar og sjúkraþjálfarar veita náist sem allra fyrst enda er greiðsluþátttaka ríkisins samkvæmt reglugerð og gjaldskrá byggð á undantekningarheimild í 38. gr. laga um sjúkratryggingar.

Áhættuþættir

Samningar um kaup á þjónustu sérgreinalækna utan sjúkrahúsa og sjúkraþjálfara eru tveir af kostnaðarsömustu samningunum sem stofnunin gerir um kaup á heilbrigðisþjónustu. Samn­ingarnir hafa verið útrunnir til nokkurra ára. Við samningaleysi greiða sjúklingar aukagjöld sem þeir bera að fullu og erfiðara er fyrir stjórnvöld að hafa yfirsýn yfir raunkostnað þjónust­unnar. Staða samninganna í drögum að útkomuspá ársins er jákvæð en vegna óvissu um kostnað við mögulega samningsgerð ríkir ákveðin óvissa um fjármögnun þjónustunnar. Inni á báðum liðum eru sérstakar fjárveitingar á árinu 2023 vegna kostnaðar við mögulega samnings­gerð á árinu.

Markmið og mælikvarðar

Markmið
HM
Mælikvarðar
Staða 2022
Viðmið 2024
Viðmið 2028
Ná lykilsamningum um kaup á heilbrigðis­þjónustu.
3.8
Samningar um sérgreinalæknaþjónustu.
Unnið skv. reglu­gerð
Samn­ingar komn­ir á
>80% vinna skv. samn­ingi
 
3.8
Samningar um
sjúkraþjálfun.
Unnið skv. reglu­gerð
Samn­ingar komn­ir á
>80% vinna skv. samn­ingi
 








24.3 Sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun

Verkefni

Þjónusta í þessum málaflokki er að stærstum hluta veitt af sjúkraþjálfurum, iðjuþjálfum og talmeinafræðingum á grundvelli samninga við Sjúkratryggingar Íslands. Notendur hafa aðgang að þjónustunni á starfsstöðvum viðkomandi sérfræðinga eða í gegnum fjarþjónustu. Þá fellur þjónusta Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands einnig undir málaflokkinn, en þar er sinnt bæði heyrnar- og talmeinaþjónustu. Helstu lög sem gilda um málefnasviðið eru lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, og lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008.

Helstu áskoranir

Helsta áskorun vegna sjúkra- og iðjuþjálfunar er að fjölgun aldraðra kallar á aukna þjálfun til að draga úr færnitapi. Einnig mun fólki með tímabundna eða varanlega færniskerðingu fjölga vegna betri meðferðar eftir veikindi, áföll eða slys.

Bent hefur verið á langa bið eftir þjónustu talmeinafræðinga en engar miðlægar upplýsingar um biðtíma eða fjölda barna á biðlistum hafa verið aðgengilegar. Starfshópur á vegum heilbrigðisráðuneytisins skilaði skýrslu í maí 2022 um fyrirkomulag þjónustu talmeinafræð­inga við börn og hvernig bæta megi þjónustuna, með hliðsjón af lögum um samþættingu þjón­ustu í þágu farsældar barna. Skjólstæðingar talmeinafræðinga eru í flestum tilfellum börn. 92,3% karlkyns og 90,6% kvenkyns skjólstæðinga talmeinafræðinga eru á aldrinum 0–14 ára. Hlutdeild karla/drengja í talmeinaþjónustu er um 70%, hvort sem horft er til fjölda notenda eða komufjölda.

Stoðkerfisvandamál geta haft mikil áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks. Stoðkerfis­vandamál eru önnur algengasta ástæða örorku á Íslandi og eru mun fleiri konur meðal örorku­lífeyrisþega með stoðkerfissjúkdóma sem fyrstu sjúkdómsgreiningu en karlar í sama hópi. Einnig eru mun fleiri konur en karlar greindar með gigtarsjúkdóma, sér í lagi vefjagigt og slitgigt. Rammasamningur við sjúkraþjálfara rann út í janúar 2019 og sögðu sjúkraþjálfarar sig af samningnum í nóvember sama ár. Síðan þá hafa sjúkraþjálfarar ekki unnið samkvæmt samn­ingi heldur hefur verið greitt fyrir þjónustuna á grundvelli reglugerðar um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra.

Notendur þjónustu sjúkraþjálfara árið 2022 voru 60% konur og áttu þær jafnframt 63% af komum til sjúkraþjálfara. Konur voru meiri hluti notenda sjúkraþjálfunar í flestum aldursbilum en stærsti notendahópurinn er á aldrinum 60–64 ára. Aftur á móti þurfa einstaklingar á aldrinum 75 ára og eldri flesta tíma á hvern einstakling að meðaltali. Þrátt fyrir að konur lifi lengur en karlar lifa þær að meðaltali færri ár við góða heilsu en karlar og eru líklegri til að lifa við heilsubrest í daglegu lífi. Eina ástæðu fyrir stoðkerfisvanda hjá konum má mögulega finna í vinnuumhverfi þeirra en rannsóknir hafa sýnt tengsl á milli áhættuþátta í vinnuumhverfi kvenna og einkenna í stoðkerfi eða andlegri vanlíðan.

Vísbendingar eru um að aðgengi sjúklinga sem glíma við langvarandi færniskerðingar að þverfaglegri þjálfun og endurhæfingu sé ekki nógu gott. Auka þarf aðkomu ofangreindra fag­stétta að þverfaglegri endurhæfingu utan stofnana. Auk þess eru engir miðlægir biðlistar í þjónustu sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara eða miðlægar upplýsingar um bið eftir þjónustunni.

Tækifæri til umbóta

Aukin niðurgreiðsla sjúkraþjálfunar í kjölfar þess að þjónustan var færð inn í greiðslu­þátttökukerfið hefur aukið möguleika fólks á að nýta sér þjónustu sjálfstætt starfandi sjúkra­þjálfara og hefur aðsókn í þjónustuna aukist á síðustu árum. Embætti landlæknis vinnur að upplýsingagátt um biðtíma eftir ýmiss konar heilbrigðisþjónustu.

Þrátt fyrir samningsleysi er ákvæði um sex meðferðir án tilvísunar læknis komið inn í endurgreiðslureglugerð að nýju. Ákvæðið var sett inn í endurnýjun reglugerðarinnar sem tók gildi í febrúar 2023. Í kjölfarið hófust samningaviðræður að nýju sem höfðu legið niðri frá árinu 2020. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að sjúklingar skuli hafa greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu þegar hennar er þörf og í velsældaráherslum ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á virkni í námi og starfi, þ.m.t. aðgerðir sem auka möguleika aldraðra og öryrkja á vinnumarkaði Með auknu framboði á þjálfun og þverfaglegri endurhæfingu utan stofnana má draga úr þörf fyrir innlögn á endurhæfingarstofnanir og mögulega seinka flutningi á hjúkrunarheimili. Fjölgun fagstétta í heilsugæslunni er liður í því að tryggja sem best skilvirka og rétta þjónustu við fjölþættum vanda.

Áhættuþættir

Ekki hafa náðst samningar um þjónustu sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara og er þjónustan veitt á grundvelli reglugerðar um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra. Viðbótargjöld sem ekki telja inn í greiðsluþátttöku skjólstæðinga eru lögð á greiðslu fyrir þjónustu sem getur aukið verulega heildarkostnað skjólstæðinga sem þurfa að nýta sér þjónustuna og dregið úr aðgengi viðk­væmra hópa að henni.

Markmið og mælikvarðar

Markmið
HM
Mælikvarðar
Staða 2022
Viðmið 2024
Viðmið 2028
Biðtími eftir þjónustu sjúkraþjálfara er <30 dagar skv. miðlægum biðlista.
3.8
Hlutfall skjólstæðinga sem bíða skemur en 30 daga.
Mæli­kvarði í þróun
65%
80%







24.4 Sjúkraflutningar

Verkefni

Til sjúkraflutninga teljast allir flutningar sjúkra og slasaðra utan sjúkrahúsa, á landi og í lofti. Þjónustan er veitt af rekstraraðilum sem starfa samkvæmt samningum eða á vegum heil­brigðisstofnana. Öruggir sjúkraflutningar eru mikilvægur þáttur til að tryggja markmið um jafnt aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustunni.

Undir þennan málaflokk falla einnig ferðir innan lands sem greiddar eru á grundvelli reglu­gerðar um ferðakostnað. Helstu lög sem gilda um málefnasviðið eru lög um heilbrigðis­þjónustu, nr. 40/2007, og lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008.

Helstu áskoranir

Helstu áskoranir varðandi sjúkraflutninga/utanspítalaþjónustu eru vaxandi þörf fyrir þjón­ustuna vegna breytinga á skipulagi heilbrigðisþjónustu og fjölgunar ferðamanna hér á landi. Þá eru gerðar auknar kröfur um færni og þekkingu sjúkraflutningamanna sem oft sinna fyrstu þjónustu við veika og slasaða. Þjónustustig í sjúkraflutningum er mismunandi milli landsvæða og þjónustuaðila sem eru margir á landsvísu og boðleiðir eru víða dreifðar og óskýrar. Til að sjúkraflutningar gangi greiðlega þarf að tryggja að flutningstæki og búnaður sé í lagi en víða er þörf á endurnýjun. Endurnýjun sjúkrabílaflotans er að mestu lokið og samhliða hefur ýmis búnaður í sjúkrabílunum verið endurnýjaður.

Samkvæmt stöðuskýrslu jafnréttismats er ekki að sjá kynjamun í sjúkraflutningum út frá þeim gögnum sem liggja fyrir. Karlar eru þó frekar fluttir F1-flutningum með bráðaeinkenni frá hjarta eða blóðrásarkerfi og vegna slysa á landi en konur. Þær flutningstölur ríma við aðrar greiningar á algengi slíkra sjúkdóma sem er meira hjá körlum en konum.

Sjúkraflutningar með sjúkrabílum flokkaðir eftir landshlutum sýna nokkuð jafna kynja­skiptingu samkvæmt tölum frá Neyðarlínunni.

Tækifæri til umbóta

Unnið er eftir aðgerðaáætlun um bráðaþjónustu og sjúkraflutninga til ársins 2025 sem byggist að stærstum hluta á tillögu starfshóps um stefnu þjónustunnar til ársins 2030.

Viðbragðsteymi um bráðaþjónustu í landinu skilaði ráðherra tillögum að verkefnum til næstu ára um breytingar og umbætur í bráðaþjónustu á landinu öllu í lok árs 2022. Teymið telur margvísleg sóknarfæri til að efla og bæta bráðaþjónustu á landsvísu. Í megindráttum snúa tillögur viðbragðsteymisins að því að efla og samræma bráðaþjónustu um allt land, auka sam­vinnu milli stofnana, skilgreina viðmið um gæði þjónustunnar, styðja við menntun og þjálfun viðbragðsaðila, innleiða skilgreiningar á viðbragðstíma sjúkraflutninga o.fl. Viðbragðsteymið leggur ríka áherslu á að stórefla faglegan stuðning við alla þá viðbragðsaðila sem sinna bráða­þjónustu um allt land, m.a. við sjúkraflutninga, og ekki síður heilbrigðisstarfsfólk á starfs­stöðvum heilbrigðisstofnana í dreifðari byggðum.

Bætt menntun og þjálfun sjúkraflutningamanna er ekki síður mikilvæg og hafin er vinna við endurskoðun námskrár sjúkraflutninganámsins með það að markmiði að koma náminu inn í formlega skólakerfið, ásamt því að auka þjálfunarmöguleika starfsmanna í dreifbýli við heilbrigðisstofnanir eða með aðkomu stærri rekstraraðila. Slíkar breytingar eru í takt við velsældaráherslur um virkni í námi og starfi. Samráðshópur um sjúkraflug hefur verið stofn­aður og er hann að útfæra ýmsar tillögur sem ætlað er að tryggja bættan viðbragðstíma í sjúkra­flugi. Markmiðið er að stytta viðbragðstíma innan þess svæðis sem þyrlan er staðsett og flytja sérhæfða heilbrigðisþjónustu fyrr til sjúklings á vettvangi.

Samkvæmt reglugerð um framkvæmd sjúkraflutninga ber fagráði sjúkraflutninga að gera tillögur að þjónustuviðmiðum um sjúkraflutninga á landinu. Þjónustuviðmið skulu liggja til grundvallar skipulagi bráðaþjónustu og sjúkraflutninga og er sú vinna hafin að nýju eftir nokkurt hlé. Með þeim yrði lagður grundvöllur að samræmdri þjónustu fyrir alla landsmenn. Þjónustuviðmið taka til þátta eins og viðbragðstíma, þjálfunar, tækjabúnaðar, lyfja, sérhæfðrar meðferðar og tíma þar til komið er á sérhæft sjúkrahús. Samræmd skráning og gæðaeftirlit mun auðvelda aðilum að staðsetja tæki og mannafla þannig að hann nýtist sem best og tryggi hagstæðan viðbragðstíma.

Mikilvægt er að styrkja fyrsta viðbragð við slysum og bráðum veikindum. Hætta er á að íbúar í dreifbýli líði óþarflega fyrir fjarlægð frá sérgreinasjúkrahúsi. Til að bregðast við þeirri stöðu þarf að tryggja að á hverju svæði sé m.a. skipulag vegna bráðaviðbragðs og sjúkra­flutninga, að áhöfn sjúkrabíls sé með viðeigandi þjálfun til að takast á við uppákomuna innan þess tíma sem þarf til að bjarga lífi og heilsu og að notuð séu farartæki við hæfi. Vettvangsliðar eru samheiti yfir fyrstuhjálparliða sem nýttir eru í auknum mæli til þess að stytta tímann þar til fyrsta viðbragð berst og brúa bilið milli skyndihjálpar og sérhæfðra sjúkraflutninga. Hafin er vinna við að móta regluverk um vettvangsliða og skapa umgjörð í kringum þá er varðar þjálfun, ábyrgð og mögulegar greiðslur.

Vegna vaxandi álags á bráðadeildir sjúkrahúsa er horft til þess í vaxandi mæli að auka getu sjúkraflutningaaðila til að geta sinnt sjúklingum heima, að „afgreiða á staðnum“ þau útköll sjúkrabíla þar sem hægt er að veita nauðsynlega þjónustu án flutnings og án þess að það rýri öryggi sjúklings eða skerði þjónustu við hann. Nágrannaþjóðir okkar hafa í auknum mæli farið þessa leið. Góð samskipti sjúkraflutningamanna og fjarskiptalæknis eru lykilatriði og unnið er að því að innleiða rafrænar sjúkraflutningaskýrslur. Eftirfylgd á heilsugæslu eða göngudeild er forsenda fyrir því að svona fyrirkomulag nýtist sem skyldi og sé öruggt. Þá hafa hjúkrunar­fræðingar með bráðatæknimenntun nýst vel í þessum tilgangi og stefnt er að því að bjóða upp á sérstaka viðbótarmenntun fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem kemur að bráðaþjónustu utan sjúkra­húsa. Unnið er að tillögum sem bæta faglegan stuðning í gegnum fjarskipti við neyðarsímverði, vettvangsliða, sjúkraflutningamenn, lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk sem kemur að sjúkraflutningum og bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa. Tillögurnar eru vel til þess fallnar að styðja við fagfólk í dreifbýli og efla nýsköpun.

Möguleg tækifæri til hagræðingar geta legið í því að bjóða upp á einfaldari flutningstæki til sjúkraflutninga en fullbúna og fullmannaða sjúkrabíla eða sérhæfða sjúkraflugvél. Þá er nauðsynlegt að stilla fjárhagslegum hvötum þannig að beiðendur sjúkraflutnings velji ætíð hagkvæmasta kostinn út frá ástandi sjúklings.

Áhættuþættir

Rekstraraðilar og þjónustuveitendur bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa eru margir og ótengdir sem í mörgum tilfellum kemur í veg fyrir skilvirkni og hagkvæmni og getur dregið úr öryggi. Aðgengi að gögnum um afdrif sjúklinga eftir flutning hefur verið ábótavant og því hefur reynst erfitt að meta gæði þjónustunnar á landsvísu.

Markmið og mælikvarðar

Markmið
HM
Mælikvarðar
Staða 2022
Viðmið 2024
Viðmið 2028
Skjótari viðbrögð við bráðaútköllum í dreifbýli.
3.6
Hlutfall bráðaútkalla (F1 og F2) í dreifbýli þar sem við­bragðstíminn er undir 25 mínútum.
87%
90%
90%
Betri faglegur stuðningur á vettvangi.
3.6, 8.2
Hlutfall útkalla sem nýta sér miðlægan faglegan stuðning.
Í þróun
 
 
3.4, 8.2
Hlutfall bráðaútkalla sem lýkur með „afgreiðslu á staðnum“.
16%
16%
20%
Aukin þjónusta á vettvangi.
3.4, 3.6, 13.1, 11.A17.17
Hlutfall heilbrigðisumdæma sem hafa sett upp skipulag um vettvangshjálp á öllum sínum starfsstöðvum.
Í þróun
 
 

[1] Fjármálaráðuneytið, maí 2021 Langtímahorfur í efnahagsmálum og opinberum fjármálum, sjá á vefslóð: https://www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/Vef-fylgiskjal-s1497-f_I.pdf
[2] Finnborg S. Steinþórs­dóttir (2021): Úttekt unnin fyrir heilbrigðisráðuneytið, þar sem heilsufar kynj­anna er kortlagt út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum og lagt mat á hvort heilbrigðis­þjónustan mæti ólíkum þörfum kynjanna.
[3]Þjónustukönnun SÍ um heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu 2022, sjá á https://island.is/s/sjukratryggingar/frett/2022-06-03-konnun-um-thjonustu-heilsugaeslustodva
[4] Þjónustukönnun SÍ um heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum