Hoppa yfir valmynd

35 Alþjóðleg þróunarsamvinna

Umfang

Starfsemi á málefnasviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands er á ábyrgð utanríkis­ráðherra. Verkefnum er sinnt af aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins, sendiskrifstofum í Afríku og fastanefndum Íslands í New York, Genf, París og Róm. Undir málefnasviðinu er einn málaflokkur sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun á tímabilinu 2021–2023.

Tafla: Heildarúgjöld málasviðsins

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Ísland styður framtíðarsýn heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra veröld þar sem hungri og sárafátækt hefur verið útrýmt, dregið hefur úr ójöfnuði innan og á milli ríkja, mannréttindi allra eru virt, allir eru jafnir fyrir lögum og lifa við frið og öryggi í daglegu lífi. Aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum er einn helsti grundvöllur þróunarsamvinnu Íslands og mannréttindi, jafnrétti kynjanna, umhverfis- og loftslagsmál eru þverlæg áherslumál og því leiðarljós í starfinu. Meginmarkmið Íslands er að draga úr fátækt og hungri og stuðla að almennri velferð á grundvelli mannréttinda, kynjajafnréttis og sjálfbærrar þróunar.

Fjármögnun

Fjárheimildir málefnasviðsins á fjárlögum 2023 nema 12.882,4 m.kr. Í samræmi við áherslur stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að heildarframlög til opinberrar þróunarsamvinnu hækki í samræmi við spá um vergar þjóðartekjur, þar sem hlutfall framlaga til þróunarsamvinnu mun haldast í 0,35% af vergum þjóðartekjum út tímabil fjármálaáætlunar. Ísland fylgir reglum Þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC) um hvaða útgjöld teljast til opin­berrar þróunaraðstoðar. Heildarframlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu ráðast einnig af um­fangi framlaga og starfs þeirra ráðuneyta sem einnig fara með framlög til þróunarsamvinnu og sinna slíkum verkefnum samkvæmt skilgreiningu Þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC). Því getur heildarrammi tekið einhverjum breytingum sem tekur mið af þeim útgjöldum. Má þar helst nefna kostnað við umsækjendur um vernd, málefni kvótaflóttafólks ásamt skuld­bind­ingum Íslands vegna stofnafjárframlaga til Alþjóðaframfarastofnunar Alþjóðabankans (IDA) og Norræna þróunarsjóðsins (NDF). Alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands leggur sitt af mörkum til sjálfbærrar fjármögnunar ríkissjóðs, sér í lagi á sviðum jafnréttis-, loftslags- og umhverfismála.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Tafla: Fjárheimildir málasviðsins

Helstu áherslur 2024–2028

VELSÆLD OG SJÁLFBÆR ÞRÓUN -  Öflugt alþjóðasamstarf. Virkt málefnastarf og forysta innan fjölþjóðastofnana. Græn framtíð og nýsköpun. Lausnamiðuð þróunarsamvinna í loftslags-, auðlinda- og umhverfismálum sem stuðlar að sjálfbærri þróun. Mannréttindi í forgrunn. Rétturinn til lífs, frelsis og mannhelgi, réttindi barna og kvenna í þróunarlöndum í öndvegi.

35.1 Þróunarsamvinna

Verkefni

Í samræmi við lög um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, nr. 121/2008, samþykkir Alþingi stefnu stjórnvalda um markmið og áherslur Íslands í málaflokknum til fimm ára í senn. Yfirstandandi er vinna við mótun stefnu Íslands um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir tímabilið 2024–2028 sem lögð verður fyrir 154. löggjafarþing 2023–2024. Hún mun taka við af núgildandi stefnu sem nær yfir tímabilið 2019–2023 og liggur til grundvallar markmiðum og mælikvörðum í þessu skjali. Aðgerðaáætlun og stefnumið veita frekari ramma um starfið. Yfirmarkmið Íslands er að draga úr fátækt og hungri en heimsmarkmið SÞ eru jafnframt leiðarljós í starfinu, Lögð er áhersla á uppbyggingu félagslegra innviða, störf í þágu friðar, verndun jarðarinnar og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Mannréttindi, kynjajafnrétti og umhverfismál eru sértæk og þverlæg áhersluatriði og því miðlæg í öllu starfi. Ísland vinnur að markmiðum sínum í gegnum tvíhliða samstarf í Malaví og Úganda þar sem stutt er við héraðsyfirvöld til að byggja upp getu til að veita íbúum grunnþjónustu, einkum á sviði menntunar, heilsu og vatns- og hreinlætismála. Þá hafa íslensk stjórnvöld hafið samstarf við Síerra Leóne um stuðning á framangreindum sviðum og unnið er að opnun sendiráðs í höfuðborginni Freetown. Þá er unnið að markmiðum Íslands í samstarfi við fjölþjóðlegar stofnanir þar sem lögð er áhersla á stuðning við fjórar lykilstofnanir í þróunarsamvinnu (Alþjóðabankann, Barnahjálp SÞ (UNICEF), Mannfjöldasjóð SÞ (UNFPA) og stofnun SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women). Á sviði mannúðaraðstoðar er áfram lögð áhersla á stuðning við lykilstofnanirnar Samhæfingarskrifstofu aðgerða SÞ í mannúðarmálum (OCHA), Neyðarsjóð SÞ (CERF), Flóttamannastofnun SÞ (UNHCR) og Matvælaáætlun SÞ (WFP) auk Palestínuflóttamannaaðstoðar SÞ (UNRWA), Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninnar (WHO) og alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC). Auk framangreinds eiga íslensk stjórnvöld í samstarfi við aðra aðila, s.s. félagasamtök og aðila atvinnulífsins, ásamt því að starfrækja GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu þar sem lögð er áhersla á að byggja upp færni einstaklinga og styrk stofnana í þróunarríkjum með starfsemi Jafnréttisskólans, Jarðhita­skólans, Landgræðsluskólans og Sjávarútvegsskólans. Til að tryggja fagleg vinnubrögð og góða nýtingu fjármuna lúta öll mannúðar- og þróunarverkefni Íslands faglegu eftirliti Þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC) sem byggist á reglulegum óháðum úttektum.

Helstu áskoranir

Það er á brattann að sækja ef ná á heimsmarkmiðum SÞ árið 2030 og fyrirséð að yfir­standandi fjölþátta krísa ógnar þeim árangri sem náðst hefur. Til dæmis hefur sárafátækt aukist í fyrsta sinn í tvo áratugi í kjölfar Covid-19 heimsfaraldursins og bakslag orðið í framförum, s.s. á sviði kynjajafnréttis, heilbrigðisþjónustu og menntunar. Neikvæð áhrif vegna loftslags­breytinga koma illa niður á fátækum þjóðum og hafa í för með sér ólíkar afleiðingar fyrir jaðarhópa, konur og karla. Umhverfistengd áföll eru tíðari þar sem hamfarir, flóð og þurrkar valda efnahagsþrengingum, fæðuóöryggi og fólksflótta en viðkvæmustu samfélögin búa ekki yfir viðnámsþrótti til að takast á við afleiðingarnar. Þörfin fyrir mannúðaraðstoð fer stöðugt vaxandi af völdum átaka og óstöðugleika, loftslagsbreytinga og efnahagslegra þrenginga víðs vegar um heiminn. Milljónir hafa flosnað upp af heimilum sínum og lent á vergangi eða flótta. Þá hefur innrás Rússlands í Úkraínu haft alvarlegar afleiðingar í fátækustu þróunarríkjunum sem glíma nú við mikla hækkun matvælaverðs, eldsneytis og áburðar sem kemur til viðbótar þeim víðtæku áskorunum sem ríkin glímdu við fyrir, auk félagslegra og hagrænna afleiðinga Covid-19 faraldursins.

Tækifæri til umbóta

Stefna Íslands skilgreinir sjálfbæra þróun sem leiðarljós. Í takt við stjórnarsáttmála er lögð stóraukin áhersla á loftslagsmál í öllu starfi. Ísland stefnir að því að skipa sér á meðal þjóða sem eru í fararbroddi í loftslagsmálum með öflugu samstarfi við helstu fjölþjóðastofnanir sem starfa að framgangi heimsmarkmiða SÞ og ákvæða Parísarsamningsins. Unnið er að yfirfærslu þekkingar og íslenskra lausna til hagsbóta fyrir þróunarríki þar sem því er viðkomið. Sér í lagi verður byggt á lausnum er viðkoma viðbrögðum við loftslagsbreytingum, orkuskiptum og nýjum grænum lausnum, sem og aukinni sjálfbærni í nýtingu auðlinda hafsins og nýsköpun í bláa hagkerfinu.

Framlög verða aukin til loftslagstengdra fjölþjóðasjóða og stofnana sem sinna loftslags­verkefnum. Auk þess að efla stuðning við Græna loftslagssjóðinn (GCF) hefur Ísland gerst aðili að Aðlögunarsjóði SÞ um loftslagsbreytingar (UNFCCC); Climate Promise á vegum Þróunaráætlunar SÞ (UNDP) sem styður ríki við að ná landsmarkmiðum (NDC) gagnvart Parísarsamningnum og sjóð á vegum Þróunaráætlunar SÞ sem Alþjóðaveðurmálastofnunin kemur til framkvæmdar (SOFF) sem veitir stuðning til veðurathugana í tekjulægstu ríkjunum. Ísland styður áfram við stofnun um sjálfbæra orku fyrir alla (SEforALL) og mun á alþjóða­vettvangi áfram tala fyrir mikilvægi endurnýjanlegra orkugjafa til að draga úr losun gróður­húsalofttegunda og enda orkufátækt í heiminum. Þá hefur allt starf GRÓ ríka tengingu við aðlögunaraðgerðir og mótvægisaðgerðir gegn loftslagsbreytingum.

Fjölbreyttum stuðningi og samstarfi við Alþjóðabankann verður fram haldið en aðild að bankanum er lykilþáttur í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands enda einn umfangsmesti fjármögnunarðili þróunarverkefna í þróunarríkjum. Þar má helst nefna þátttöku í hlutafjár­aukningu IBRD og 20. endurfjármögnun Alþjóðaframfarastofnunarinnar, IDA. Þá verða áfram veitt sérstök framlög í sjóði um endurnýjanlega orku, málefni hafs og vatna, jafnréttismála og mannréttindamála. Sérstökum stuðningi við Úkraínu hefur að stórum hluta verið varið í gegnum Alþjóðabankann og svo verður áfram enda gegnir bankinn lykilhlutverki í efnahags­legum stuðningi og endurreisn Úkraínu. Til þess að efla alþjóðastarf verða kjarnaframlög til áherslustofnana Íslands hækkuð, þátttaka á vettvangi þeirra aukin og mun Ísland taka að sér forystuhlutverk innan þeirra þegar við á. Þá verða stöður íslenskra sérfræðinga fjármagnaðar í tímabundin störf á sviði þróunar- og mannúðarmála innan alþjóðastofnana.

Í tvíhliða þróunarsamvinnu styður Ísland við félagslega innviði í samstarfshéruðum í Malaví og Úganda og mikilvægt er að byggja undir þá sérstöðu sem Ísland hefur skapað sér á þessum vettvangi á undanförnum áratugum. Í nýju samstarfslandi, Síerra Leóne, styður Ísland með heildrænum hætti við verkefni á sviði fiskimála með það að markmiði að stuðla að bættum lífsgæðum fólks í sjávarbyggðum, auk þess sem áhersla hefur verið lögð á jafnréttismál. Stefnt er að opnun sendiskrifstofu í höfuðborginni Freetown á haustmánuðum 2023 og kemur aukinn kostnaður til vegna reksturs nýrrar sendiskrifstofu. Nánari samþætting og áhersla á loftslags-, auðlinda- og umhverfismál verður í tvíhliða starfi Íslands á komandi árum til að fylgja eftir áherslum í stjórnarsáttmála.

Til að bregðast við aukinni þörf fyrir mannúðarðstoð hafa verið gerðir rammasamningar við stofnanir og sjóði Sameinuðu þjóðanna sem hafa það hlutverk að bregðast við neyðar- og mannúðarástandi og veita lífsbjargandi aðstoð og vernd (Samhæfingarskrifstofu aðgerða SÞ í mannúðarmálum (OCHA), Neyðarsjóð SÞ (CERF), Flóttamannastofnun SÞ (UNHCR) og Matvælaáætlun SÞ (WFP)) með það að markmiði að auka skilvirkni og árangur. Ramma­samningar kveða á um kjarnaframlög sem auka fyrirsjáanleika fyrir stofnanir.

Bætt samskipti við almenning í samræmi við velsældaráherslur ríkisstjórnar fela í sér að­gerðir til að tryggja skilvirka og réttláta stjórnsýslu, m.a. með bættri stafrænni þjónustu, upp­lýsingamiðlun og öflugu eftirliti. Ísland veitir framlög í samræmi við skilgreiningar og fag­legan ramma Þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC) og sýnir vefsvæðið openaid.is framlög Íslands til þróunarsamvinnu. Útgjaldaliðir í rekstraráætlun hafa verið endurskilgreindir í sam­ræmi við tilmæli Þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC) og starfar utanríkisráðuneytið með öðrum ráðuneytum sem sinna fjárumsýslu með þróunarfé að innleiðingu tilmæla DAC sem varða kostnað við umsækjendur um vernd og móttöku kvótaflóttafólks.

Önnur tækifæri til umbóta felast m.a. í að virkja enn betur krafta ólíkra aðila á Íslandi í þágu þróunarsamvinnu með öflugri samvinnu við atvinnulíf, frjáls félagasamtök og fræðasamfélagið í samræmi við heimsmarkmiðin. Til að auka grósku í nýsköpun í samræmi við velsældar­markmið ríkisstjórnarinnar er lögð rík áhersla á að nýta íslenska virðisaukandi sérþekkingu. Leitast verður við að hlúa að viðleitni nýrra aðila sem sýna áhuga á þátttöku í þróunarsamvinnu, hvort sem um ræðir úr röðum frjálsra félagasamtaka eða aðila atvinnulífsins, og að auka samþættingu og samlegð þess starfs sem Ísland styður eða innir af hendi.

Alþjóðleg þróunarsamvinna er mannréttindamiðuð. Aukin áhersla er á réttindi barna sem er m.a. sinnt með menntaverkefnum Íslands á vettvangi og í gegnum samstarf við íslensk félagasamtök sem vinna víða að þeim málaflokkum í þróunarríkjum. Rétturinn til lífs, frelsis og mannhelgi er grundvöllur annarra mannréttinda og leggur Ísland ríka áherslu á að leggja sín lóð á vogarskálarnar til að veita lífsbjargandi aðstoð. Margvíslegar ógnir steðja nú að og því er áhersla lögð á hækkun framlaga til mannúðarmála.

Til að takast á við bakslag í jafnréttismálum og stuðla að framförum er áfram stutt við leiðandi stofnanir og verkefni á vegum fjölþjóðastofnana, t.d. UN Women og UNFPA. Í tvíhliða samvinnu verður lögð áhersla á verkefni á sviði kyn- og frjósemisheilbrigðis í Malaví, sérstaklega mæðravernd, og hugað sérstaklega að þörfum stúlkna þegar kemur að menntun. Í tvíhliða samstarfslöndunum þremur styður Ísland við tíðaheilbrigði stúlkna í skólum (í gegnum héraðsverkefni í Malaví og Úganda og með UNICEF í Síerra Leóne) en blæðingar eru ein aðalorsök þess að unglingsstúlkur flosna upp úr námi. Stuðningurinn felst m.a. í bættri hreinlætisaðstöðu og aðgengi að tíðavörum og fræðslu. Þá er lögð áhersla á umbreytandi mannréttinda- og jafnréttisverkefni en dæmi um slíkt er samstarfsverkefni með Mannfjölda­sjóði Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) í Síerra Leóne. Þar eru stjórnvöld studd í viðleitni sinni við að útrýma fæðingarfistli í landinu með fyrirbyggjandi aðgerðum sem snúa að fræðslu og vitundarvakningu í samfélögum, betra aðgengi að kynheilbrigðisþjónustu og bættri mæðra­vernd. Stuðst er við kyngreind gögn í framkvæmd og vöktun verkefna þar sem tiltekinn er fjöldi og hlutfall drengja og stúlkna sem nýtur góðs af verkefnum.

Áhættuþættir

Helstu áhættuþættir innan málaflokksins eru margir hverjir hnattrænir og geta haft umtals­verð áhrif á framgang í átt að markmiðum. Aukinn óstöðugleiki og sívaxandi áhrif loftslags­breytinga ógna árangri sem náðst hefur á síðustu áratugum og víða er á brattann að sækja ef ná á heimsmarkmiðum SÞ um sjálfbæra þróun. Því er mikilvægt að halda áherslunni á stuðning við fátækustu þróunarríkin á sama tíma og framlög eru veitt til að bregðast við auknum óstöðugleika í Evrópu.

Innrás Rússlands í Úkraínu hefur sett mark sitt á starf Íslands á undanförnu ári líkt og annarra framlagsríkja og alþjóðastofnana. Lögð hefur verið rík áhersla á stuðning við Úkraínu og nágrannaríkið Moldóvu, og fyrirséð að svo verði áfram í náinni framtíð.

Málefni smáeyjaþróunarríkja hafa einnig verið í brennidepli þar sem þau eru sérlega við­kvæm fyrir áföllum og áhrifum vegna loftslagsbreytinga, s.s. hækkunar sjávarmáls. Hefur Ísland lagt ríka áherslu á að þau njóti stuðnings og athygli alþjóðasamfélagsins. Vopnuð átök, uppgangur öfgahópa, hungur og fólksflótti eru enn fremur þættir sem kalla á margþátta viðbrögð og stuðning frá alþjóðasamfélaginu. Til að bregðast við þessu hafa framlög til mannúðar- og neyðaraðstoðar farið vaxandi af Íslands hálfu.

Nýjar áskoranir á borð við Covid-19 faraldurinn og stríðsástand í Austur-Evrópu endurspegla mikilvægi þess að Ísland sýni sveigjanleika í sinni þróunarsamvinnu, hafi getu til að bregðast skjótt við og aðlaga starfið að þeim nýju aðstæðum sem upp kunna að koma hverju sinni.

Markmið og mælikvarðar

Markmið
HM
SR
Mælikvarðar
Staða 2022
Viðmið 2024
Viðmið 2028
Uppbygging félagslegra innviða og störf í þágu friðar; jafnréttis-, mennta-, vatns- og salernismál á samstarfssvæðum í Malaví, Síerra Leóne og Úganda.
4.1,
4.4,
4.a,
4.c
 
Bætt grunnmenntun. Fjöldi barna sem njóta góðs af mennta-verkefnum í:
a) Malaví
b) Síerra Leóne
c) Úganda
 
 
 
7.500
0[1]
6.000
 
 
 
28.070
350
10.000
 
 
 
 35.000
1.000
12.000
6.1,
6.2
209
Bætt aðgengi fólks að heilnæmu vatni. Viðbótarfjöldi fólks sem fær aðgengi að hreinu vatn á hverju ári:
a) Malaví
b) Síerra Leóne
c) Úganda
 
 
 
 
35.000
20.000
8.000
 
 
 
 
35.000
31.000
96.000
 
 
 
 
32.000
53.000
90.000
5.1,
5.2,
5.3,
5.6
 
Bætt staða kvenna.
a) Hlutfall heildar­framlaga til jafnréttis­verkefna skv. stiku OECD DAC.[2]
b) Fjöldi kvenna sem njóta góðs af efna­hagslegri valdeflingu í Malaví.
c) Fjöldi fólks sem fær aðgang að grunn-heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. kyn- og frjósemisheilbrigðis­þjónustu verkefnum í:
i) Malaví
ii) Síerra Leóne
81%
 
 
 
374
 
 
 
 
 
 
 
20.000
100
≥81%
 
 
 
550
 
 
 
 
 
 
 
65.000
900
≥81%
 
 
 
1.500
 
 
 
 
 
 
 
75.000
1.500
Verndun jarðarinnar og aukin geta sam­félaga í þróunar­löndum til vaxtar á grundvelli jafnaðar og sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda.
5.5
 
7.2,
7.a,
7.b
 
14.1, 14.2, 14.7, 14.a,
14.b
 
15.3
209
Aukin geta samfélaga í þróunarríkjum til vaxtar á grundvelli sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda og jafnaðar.
a) Fjöldi nemenda sem útskrifast úr 5/6 mánaða námi frá þekkingarmiðstöð þróunarlanda GRÓ:[3]
i) GRÓ – GEST Jafnréttisskólinn
ii) GRÓ – GTP Jarðhitaskólinn
iii) GRÓ – LRT Landgræðsluskólinn
iv) GRÓ – FTP Sjávarútvegsskólinn
b) Fjöldi styttri námskeiða GRÓ (í þróunarlöndum eða rafrænt), á ári.
 
 
 
 
 
 
 
23
 
23
 
19
 
27
 
8
 
 
 
 
 
 
 
25
 
25
 
23
 
25
 
14
 
 
 
 
 
 
 
25
 
25
 
25
 
25
 
25
13.1,
13.a
209
Aukin geta til að vinna að mótvægisaðgerðum og aðlögunarhæfni vegna loftslags­breyt­inga í þróunar­ríkjum.
a) Framlög til fjölþjóðlegra loftslagssjóða Sameinuðu þjóðanna[4] í m.kr.
b) Hlutfall heildarframlaga til loftslagsverkefna.[5]
 
 
 
 
 
187
 
 
 
31%
 
 
 
 
 
276
 
 
 
≥31%
 
 
 
 
 
368
 
 
 
≥31%
Ísland er ábyrgur og áreiðanlegur samstarfsaðili í alþjóðlegri þróunarsamvinnu.
16.6
 
Aukinn fyrirsjáanleiki og viðbragðsflýtir í mannúðaraðstoð.
a) Fjármagn til rammasamninga við félagasamtök í m.kr.
b) Kjarnaframlög til alþjóðastofnana í m.kr.
 
 
 
2
 
845
 
 
 
260
 
900
 
 
 
310
 
970
16.b
 
Öflugt starf innt af hendi innan fjölþjóða­stofnana.
a) Fjöldi útsendra fulltrúa Íslands hjá fjölþjóðastofnunum.
b) Fjöldi Íslendinga í ungliðaáætlun Sameinuðu þjóðanna, á ári.
 
 
 
8
 
6
 
 
 
 
10
 
9
 
 
 
12
 
9

Í ljósi yfirstandandi vinnu við stefnu Íslands um alþjóðlega þróunarsamvinnu 2024–2028, sem lögð verður fyrir næsta löggjafarþing, byggjast ofangreind markmið og mælikvarðar á núgildandi stefnu. Gera má ráð fyrir einhverjum breytingum í næstu fjármálaáætlun sem endurspegla þá nýja stefnu og þau markmið sem þar munu verða sett fram.

[1] Leikskólaverkefni í undirbúningi.
[2] Tvíhliða verkefni skv. skilgreiningu OECD DAC eru flokkuð eftir jafnréttisstiku.
[3] Í viðbót við neðangreindan fjölda verða nemendur sem eru greiddir af sértekjum skólanna.
[4] Hér er vísað til sjóða sem heyra undir loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC), Græna loftslagssjóðsins, Aðlögunar­sjóðsins og Sjóðs fyrir lágtekjuríki.
[5] Tölfræði byggist á alþjóðlegum viðmiðum og umhverfisstikum OECD DAC.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum