Hoppa yfir valmynd

20 Framhaldsskólastig

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð mennta- og barnamálaráðherra. Það skiptist í fjóra málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2021–2023. 

Tafla: Heildarúgjöld málasviðsins

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn fyrir framhaldsskóla er að fleiri einstaklingar verði virkir og skapandi þátttakendur í samfélaginu, vel undirbúnir fyrir þátttöku á vinnumarkaði, tæknibreytingar og fræðilegt og/eða starfstengt framhaldsnám.

Meginmarkmið málefnasviðsins er að veita framúrskarandi menntun um allt land með áherslu á þekkingu, vellíðan, þrautseigju og árangur í umhverfi þar sem allir skipta máli og geta lært.

Fjármögnun

Gert er ráð fyrir því að útgjaldarammi málefnasviðs lækki um 73 m.kr. frá fjárlögum 2023 til ársins 2028. Helstu breytingar á útgjöldum málefnasviðs má skýra með því að 682 m.kr. falla niður vegna tímabundinna verkefna og þá koma inn 445 m.kr. vegna fjölgunar nemenda í framhaldsskólum og 600 m.kr. vegna fjölgunar nemenda í verknámi.

Tafla: Fjárheimildir málasviðsins

Helstu áherslur 2024–2028

NÁM Í TAKT VIÐ ÞARFIR SAMFÉLAGS  -  Samhæfð þjónusta fyrir viðkvæma hópa	Stuðningur við nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn	Fjölga útskrifuðum úr starfs- og tækninámi

20.1 Framhaldsskólar

Verkefni

Ábyrgð á málaflokknum liggur hjá ríkinu bæði er varðar rekstur og fagleg málefni skólastigsins. Löggjöf um málaflokkinn tekur til opinberra framhaldsskóla og annarra framhaldsskóla, bæði skóla sem hlotið hafa viðurkenningu til kennslu á framhaldsskólastigi og skóla sem ekki hafa hlotið viðurkenningu. Framhaldsskólarnir eru um 40 og bjóða ýmist upp á almennt eða sérhæft nám, þar af bjóða 30 upp á fjölbreytt heildstætt nám samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla. Saga skólanna og sérhæfing er ólík, þeir eru misjafnir að stærð og gerð og staðsettir víðs vegar um landið. Undir málaflokkinn falla einnig fagleg mál svo sem starfsþróun kennara, námskrárgerð og innleiðing og eftirfylgni með aðalnámskrá.

Menntastefna til 2030 styður við velsældaráherslu ríkisstjórnarinnar um virkni í námi og starfi þar sem lögð er áhersla á þýðingu menntunar fyrir samkeppnishæfni þjóða og lífsgæði einstaklinga og markast áherslur málaflokksins auk þess af sýn og markmiðum menntastefnunnar um menntun fyrir alla, læsi og góða íslenskukunnáttu, stærðfræði og náttúrugreinar, list-, verk- og tæknimenntun, námsgögn og nýliðun kennara. Sjá umfjöllun nánar á bls. 354–357 í fjármálaáætlun 2023–2027.

Helstu áskoranir

Brýnt er að skólastarf í framhaldsskólum taki mið af aðstæðum hverju sinni og unnið sé að sveigjanlegum lausnum, breytingum á kennsluháttum og eflingu frumkvöðlamenntar og þróun starfsfólks í starfi. Eins er mikilvægt að vinna að samhæfðari þjónustu fyrir viðkvæma nemendahópa og innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Þá standa framhaldsskólar frammi fyrir miklum umbreytingum vegna hlýnunar jarðar, örra tæknibreytinga sem hafa áhrif á öllum sviðum samfélagsins og þurfa jafnframt að mæta fjölbreyttum námsþörfum einstaklinga og gera þeim kleift að ljúka námi.

Brotthvarf nýnema hefur aukist aftur eftir að hafa farið minnkandi síðustu ár. Skólaárið 2021–22 mældist það 5,7%. Áhyggjur vekur að nokkur kynjamunur er á brotthvarfi eða 7,4% meðal drengja en 4,0% með stúlkna. Ein af helstu áskorunum skólasamfélagsins er að tryggja öllum nemendum viðeigandi stuðning í námi og að vellíðan þeirra og farsæld sé tryggð.

Ísland er fjölmenningarsamfélag og fagnar margbreytileika nemenda. Mikilvægt er að styðja vel við nemendur og sömuleiðis meta menntun nemenda með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn sem og flóttafólks í ríkari mæli svo þeirra þekking nýtist þeim og samfélaginu sem best. Aukinn fjöldi umsókna barna um alþjóðlega vernd kallar á aukinn stuðning skólakerfisins, s.s. sálrænan stuðning, almenna móttöku og styrkingu kennslu í íslensku sem annars tungumáls (ÍSAT) (Sjá einnig málefnasvið 29.7 Málefni innflytjenda og flóttamanna).

Í stjórnarsáttmála er lögð áhersla á að efla iðn- og verknám um allt land og fjölga útskrifuðum úr starfs- og tækninámi. Forsenda velferðar og lífsgæða á Íslandi er öflugt og fjölbreytt atvinnulíf þar sem til staðar er vel menntað fólk sem stuðlar að nýsköpun og þróun. Bregðast þarf við því misræmi sem er milli þeirrar menntunar sem í boði er og þarfa atvinnulífs og vinnumarkaðar sem sækjast eftir starfsfólki með sérhæfða færni í verk- og tæknigreinum. Jafnframt er aðgerðaáætlun í mótun til að mæta þeim áskorunum vegna aukins vægi starfsnáms með áherslu á kynningu á starfsnámi í efstu bekkjum grunnskóla, aukið samstarf við atvinnulífið um vinnustaðanám og nýtingu tækja, samráð milli starfsmenntaskóla um samræmingu námsbrautalýsingar og mótun verklagsreglna til að auðvelda samstarf milli um kennslu.

Þegar hugað er að gæðum skólastarfs skipta vel menntaðir kennarar og skólastjórnendur, sem sinna reglulegri starfsþróun, meginmáli. Innleiðing laga nr. 95/2019 og reglugerðar um hæfniramma með viðmiðum fyrir almenna og sérhæfða hæfni kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla er liður í að auka faglegt skólastarf, sjá einnig málaflokk 22.1 Önnur skólastig og stjórnsýsla menntamála og málaflokk 21.1 Háskólar og rannsóknastarfsemi). Nauðsynlegt er að vinna áfram markvisst að nýliðun kennara og auka stuðning við nýja kennara en einnig felst töluverð áskorun í skorti á starfsmenntakennurum og hækkandi starfsaldri kennara.

Mikilvægt er að nám á framhaldsskólastigi standist alþjóðlegan samanburð og bjóði upp á hagnýtar lausnir til að mæta tæknibreytingum. Jafnframt þarf framhaldsskólakerfið að geta brugðist við hnattrænum áskorunum á hverjum tíma.

Nemendur á framhaldsskólastigi eiga að njóta fræðslu um jafnréttismál og kynjafræði og kynheilbrigði. Unnið verður áfram að eflingu jafnréttis- og kynfræðslu og ofbeldisforvörnum í skólum, m.a. með útgáfu fræðslumynda, kennsluefnis, gerð leiðbeininga og miðlægrar viðbragðsáætlunar gegn einelti, kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni (EKKO) fyrir framhaldsskóla, m.a. í samvinnu við embætti landlæknis og Samband íslenskra sveitarfélaga o.fl. Jafnframt verður staða kynjanna í skólakerfinu rýnd nánar.

Tækifæri til umbóta

Í aðdraganda þessarar fjármálaáætlunar og með lögum um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna hafa verið stigin stór skref í þá átt að samræma þjónustu við börn til 18 ára aldurs. Þá er unnið að nýjum heildarlögum um skólaþjónustu og nýrri ráðgjafar- og stuðningsstofnun þvert á skólastig. Skólaþjónustan á að beinast að því að efla skóla sem faglegar stofnanir, svo sem með kennslufræðilegri ráðgjöf, stuðningi við leiðtoga í skólastarfi, stuðningi við skólaþróun o.fl.

Liður í því að hækka menntunarstig þjóðarinnar er að draga úr brotthvarfi úr framhaldsskóla og hækka hlutfall þeirra sem ljúka námi úr framhaldsskóla. Markmið frumvarpsins um skólaþjónustu er m.a. að tryggja jafnræði í þjónustu við börn á öllum skólastigum óháð aldri, menningarlegum bakgrunni og búsetu. Eins mætir væntanleg löggjöf ákalli um ráðgjöf og tryggir skólum faglegt bakland. Með því aukast líkur á að þörfum nemenda sé mætt.

Fram undan er áframhaldandi vinna við að efla iðn- og verknám um allt land, fjölga útskrifuðum úr starfs- og tækninámi og fjölga þeim sem velja starfsmenntanám strax að loknum grunnskóla. Þá er viðvarandi verkefni að draga úr kynjaslagsíðu sem finna má í flestum starfsmenntagreinum og ráðuneytið hefur stutt fjölmargar aðgerðir í þágu þess. Til þess að fylgja eftir stefnu stjórnvalda um aukið vægi starfsnáms og fyrirsjáanlegri fjölgun nemenda, sem ljúka starfs- og tækninámi, hefur húsakostur starfsmenntaskóla verið skoðaður heildstætt með tilliti til næstu 10 ára. Helsta hindrun fjölgunar nemenda er skortur á viðeigandi kennsluhúsnæði í starfsmenntaskólum víða um land ásamt skorti á starfsmenntakennurum. Við þessu verður brugðist með sérstakri framkvæmdaáætlun um stækkun starfsmenntaskóla. Ráðherra mennta- og barnamála hefur sett fram tímasetta forgangsröðun um að byggja við átta starfsmenntaskóla í öllum landsfjórðungum, er áformað að efna til samstarfs við viðkomandi sveitarfélög. Gert er ráð fyrir að þessi stækkun sé um 10–12.000 fm og verði á næstu 5–7 árum samhliða er unnið að framtíðarlausn á húsnæðismálum Tækniskólans.

Liður í því að tryggja gæði náms og kennslu er fimm ára átaksverkefni stjórnvalda um nýliðun kennara sem hófst 2019 og stendur til ársloka 2024. Mikill skortur hefur verið á starfsmenntakennurum og gera má ráð fyrir töluverðri endurnýjun vegna hækkandi starfsaldurs. Efnt verður til kynningarátaks í samstarfi við Félag framhaldsskólakennara, sveina- og meistarafélög iðnaðarmanna og Skólameistarafélag Íslands til að laða að fleiri starfsmenntakennara.

Áhættuþættir

Sérstakar áskoranir framhaldsskólastigsins tengjast breyttu hlutverki framhaldsskólans og því að mæta fjölbreyttum námsþörfum einstaklinga og gera þeim kleift að ljúka námi.

Nokkur áhætta tengjast því að innleiðing laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna gangi ekki eftir. Sömuleiðis felst áhætta í mikilli fjölgun barna með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn og að ekki takist að manna nauðsynlegar stöður sérfræðinga og kennara til að væntanleg lög um skólaþjónustu og nýja ráðgjafar- og stuðningsstofnun á sviði menntamála nái fram að ganga. (Sjá einnig málefnasvið 22, Önnur skólastig og stjórnsýsla menntamála.)

Áhætta er einnig falin í því að ekki takist að manna stöður starfsnámskennara og að tryggja nægt húsnæði til að bregðast við fjölgun nemenda í starfs- og tækninámi.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2022

Viðmið 2024

Viðmið 2028

Hækka hlutfall nemenda sem ljúka starfs- og tækninámi og jafna kynjadreifingu.

4.4

Hlutfall skráðra nemenda í starfsnámi, samanborið við nemendur í námi til stúdentsprófs.

a) alls,

b) karlar,

c) konur.

a) 5,1:10

b) 7,4:10

c) 3,3:10

(2020)

5,2:10

5,4:10

4.4

Hlutfall brautskráðra nemenda í starfsnámi, samanborið við nemendur í námi til stúdentsprófs.

a) alls,

b) karlar,

c) konur.

a) 5,8:10

b) 7,8:10

c) 4,4:10

(2021)

5,9:10

6,1:10

Fjölga nemendum sem ljúka námi úr framhaldsskóla

4.4

Hlutfall nýnema sem ljúka námi innan fjögurra ára af bók- og starfsnámsbrautum.

a) alls,

b) karlar,

c) konur.

a) 61,7%

b) 52,6%

c) 70,9%

(2021)

63%

65%

4.4

Hlutfall nýnema sem hverfa brott úr námi innan fjögurra ára frá innritun.

a) alls,

b) karlar,

c) konur.

a) 19,9%

b) 24,7%

c) 15,0%
(2021)

19%

17%

4.4

Námstími á námsleiðum til stúdentsprófs. Hlutfall nema á stúdentsbraut sem útskrifast innan 3 ára.

a) alls,

b) karlar,

c) konur.

a) 59,1%

b) 49,7%

c) 65,8%

(2021)

60%

62%

Auka gæði menntunar í framhaldsskólum.

4.3,

Hlutfall nýnema í framhaldsskólum sem hverfa brott úr námi fyrsta skólaárið.

a) alls,

b) karlar,

c) konur.

a) 5,7%
b): 7,4%

c) 4,0%

(2021)

5%

4,5%

4.3

Fjöldi virkra rafrænna ferilbóka í starfsnámi.

36

45

45

20.2 Tónlistarfræðsla

Verkefni

Um málaflokkinn gilda lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985, og taka þau til tónlistarskóla sem reknir eru af sveitarfélögum og annarra sem njóta styrks samkvæmt lögunum. Mennta- og barnamálaráðuneytið fer með faglega umsjón og eftirlit með tónlistarfræðslu, s.s. yfirstjórn námsskrár- og námsefnisgerðar. Þá skipar ráðuneytið samstarfsnefnd tónlistarfræðslunnar til að fjalla í heild um starfsemi tónlistarskóla, samstarf skólanna og/eða rekstraraðila þeirra svo og samstarf tónlistarskóla við grunnskóla og framhaldsskóla. Ríki og sveitarfélög hafa gert samkomulag um fjárhagslegan stuðning ríkisins við tónlistarnám á vegum sveitarfélaga á framhaldsstigi í hljóðfæraleik og mið- og framhaldsstigi í söng. Gildistími samkomulagsins er frá 1. janúar 2022 til 31. desember 2024. Í tengslum við samkomulagið hefur verið settur á laggirnar vinnuhópur sem hefur það hlutverk að vinna að framgangi samningsins. Á grundvelli samkomulags þessa tryggja sveitarfélög að nemendur, sem uppfylla inntökuskilyrði tónlistarskóla og reglur um námsframvindu, geti stundað tónlistarnám á framhaldsstigi í hljóðfæraleik og á mið- og framhaldsstigi í söng án tillits til búsetu. Samkomulag þetta hefur ekki áhrif á rétt tónlistarskóla til að krefja nemendur um skólagjöld samkvæmt gildandi lögum.

 

Helstu áskoranir

Miklar breytingar hafa orðið á öllu skólastarfi síðustu ár. Mikilvægt er aðalnámskrá tónlistarskóla og greinabundnar námskrár í tónlist endurspegli það.

Núgildandi námskrár í tónlist hafa ekki verið endurskoðaðar um langt skeið og er það bagalegt sökum ósamræmis sem gætir með tilliti til aðalnámskráa grunnskóla og framhaldsskóla sem eru frá árinu 2011 og þá einkum sú áhersla á hæfnimiðað nám sem ekki er að finna í núgildandi námskrám tónlistarskóla.

Tækifæri til umbóta

Mörg tækifæri eru til úrbóta og aukins samræmis. Hafin er vinna á vegum ráðuneytisins ásamt haghöfum við endurskoðun aðalnámskrár tónlistarskóla sem áætlað er að ljúki við árslok 2024. Fyrsta skrefið er að gera úttekt á tónlistarfræðslu sem fellur undir lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985, og í framhaldinu tekur við stefnumótun og áætlanagerð í tengslum við aðrar listgreinar. Jafnframt verða lögin frá árinu 1985 rýnd til samræmis við núgildandi löggjöf um grunn- og framhaldsskóla. Eðli málaflokksins er með þeim hætti að ekki verða sett markmið um starfsemi hans.

20.3 Vinnustaðanám og styrkir

Verkefni

Tilgangur löggjafar um vinnustaðanámssjóð er að auðvelda nemendum að ljúka tilskildu námi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla, koma til móts við kostnað fyrirtækja og stofnana af vinnustaðanámi og auðvelda fyrirtækjum og stofnunum að taka nemendur á náms- eða starfsþjálfunarsamning.

Helstu áskoranir og tækifæri til umbóta

Aðgengi að vinnustaðanámi er mikilvægur þáttur í menntun þeirra sem leggja stund á verklegt nám. Það er áskorun að standa vörð um gæði vinnustaðanáms og tækifæri til að auka gagnsæi í fjárveitingum og skilvirkni í nýtingu fjármuna. Ríkisstjórnin gaf fyrirheit í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í desember 2022 um að málefni og fjármögnun vinnustaðanámssjóðs verði tekin til endurskoðunar í tengslum við gerð fjármálaáætlunar á árinu 2023 til að styðja við markmið um aukið vægi starfsnáms.

Unnið er að endurskoðun á umgjörð og úthlutunarreglum sjóðsins á til að styðja betur við þróun vinnustaðanáms m.a. samkvæmt þeim breytingum sem boðaðar voru með reglugerð um vinnustaðanám, nr. 180/2021.

Eðli málaflokksins er með þeim hætti að markmið og aðgerðir í málaflokki 20.1 Framhaldsskólar eru að hluta til leiðandi fyrir úthlutun námsstyrkja.

Áhættuþættir

Helstu áhættuþættir varðandi fjölgun nemenda í starfs- og tækninámi er að ekki takist að fá atvinnulífið til að fjölga náms- og starfsþjálfunarplássum en afleiðing þess yrði sú að nemendum takist ekki að ljúka formlegu námi. Markmið breytinga á úthlutunarreglum Vinnustaðanámssjóðs sem og aukning framlaga til sjóðsins er að milda þessa áhættu en jafnframt er mennta- og barnamálaráðuneytið í samstarfi við atvinnulífið um að fjölga fyrirtækjum sem taka að sér nema með stuðningi við Nemastofuna.

20.4 Jöfnun námskostnaðar

Verkefni

Undir málaflokkinn falla lög um námsstyrki, nr. 79/2003. Námsstyrkir eru veittir til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum að því leyti sem búseta veldur þeim misþungri fjárhagsbyrði eða efnaleysi torveldar þeim nám.

Helstu áskoranir og tækifæri til umbóta

Stjórnvöld leggja áherslu á jafnt aðgengi að námi óháð búsetu og öðrum aðstæðum. Með tilkomu fjar- og dreifnáms og fjölbreyttra námsaðferða er mikilvægt að skoða hvort og þá hvernig búseta veldur fjárhagslegum aðstöðumun. Í framhaldi er þörf endurskoðunar hvort þörf sé á að auka gagnsæi og skilvirkni í nýtingu fjárveitinga til málaflokksins. Til stendur að gera úttekt á framkvæmd laga um námsstyrki. Eðli málaflokksins er með þeim hætti að markmið og aðgerðir í málaflokki 20.1 Framhaldsskólar eru að hluta til leiðandi fyrir úthlutun námsstyrkja.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum