Hoppa yfir valmynd

Efnahagsleg áhrif flóttafólks

Fjöldi fólks á flótta hefur aukist á undanförnum árum og hefur fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd áhrif á þróun ríkisfjármála og getur umfang þeirra haft þjóðhagsleg áhrif bæði til skemmri og lengri tíma. Árið 2022 sóttu 4.518 einstaklingar um alþjóðlega vernd hér á landi og var hún veitt 3.455 einstaklingum. Langflestir þeirra sem hlutu vernd komu frá Úkraínu og Venesúela þar sem að umsækjendum frá þeim löndum er veitt vernd nær undantekningarlaust. Þannig fengu um 2.300 einstaklingar frá Úkraínu og 700 frá Venesúela vernd á síðasta ári. Talið er að umsækjendum um vernd fjölgi á líðandi ári og verði minnst 6.000 talsins í árslok. Um miðjan mars höfðu þegar tæplega 1.200 einstaklingar sótt um vernd hér á landi. Að auki kemur hingað fjöldi fólks til starfa á vinnumarkaði en þau sem fá hér alþjóðlega vernd teljast til aðfluttra erlendra ríkisborgara. Árið 2022 voru um 10 þúsund erlendir ríkisborgarar sem fluttu til landsins umfram brottflutta. Útlit er fyrir að þessi þróun haldi áfram og að fjöldinn verði ekki minni í ár. Spá Hagstofunnar sem lá til grundvallar fjármálaáætlun gerir ráð fyrir því að mannfjölda á vinnufærum aldri fjölgi um 2,4% á árinu 2023.

Samhliða verulegri fjölgun umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks hafa útgjöld málaflokksins aukist hröðum skrefum. Í fjárlögum 2023 er 7,9 ma.kr. varið til málefna útlendinga, innflytjenda og flóttafólks en útgjöldin voru um 4,8 ma.kr. árið 2017. Ætla má að kostnaðurinn verði töluvert umfram fjárheimild í árslok, jafnvel sem nemur 6 ma.kr., sem skýrist að stórum hluta af því að gert er ráð fyrir að umtalsvert fleira flóttafólk komi til landsins en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.

Í þessari fjármálaáætlun er gert ráð fyrir því að fjöldi flóttafólks haldi áfram að koma til landsins og áfram sæki 6.000 manns um vernd árin 2024 og 2025. Gert er ráð fyrir að framlag vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks verði í heildina 15,8 ma.kr. árin 2024 og 2025. Upphæðin skiptist annars vegar í 14,7 ma.kr. til málaflokka sem fara með málefni útlendinga, innflytjenda og flóttafólks og skýrist hækkun útgjaldanna milli ára aðallega af auknum kostnaði vegna húsnæðis og uppihalds umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks. Hins vegar er um að ræða 1,1 ma.kr. framlag til annarra verkefna sem falla utan fyrrgreindra málaflokka, svo sem aukin framlög til Vinnumálastofnunar vegna aðstoðar við atvinnuleit flóttafólks og til heilsugæslu vegna heilbrigðisskoðunar umsækjenda um vernd. Í ljósi stöðu mála á alþjóðlegum vettvangi ríkir mikil óvissa um þróun málaflokksins hér landi á síðari hluta áætlunarinnar og er gert ráð fyrir að hluti útgjaldaaukningarinnar verði tímabundinn til ársins 2025.

Þá er einnig óvissa um efnahagsleg áhrif af fjölgun flóttafólks og þau geta verið ólík til skemmri og lengri tíma. Til lengri tíma ráðast þau ekki síst af því hvernig fólkinu gengur að aðlagast íslensku samfélagi, vinnumarkaði og skólakerfi og hvernig tekst að tryggja aðgengi að íslenskukennslu. Í fyrstu getur fjölgun umsækjenda um alþjóðlega vernd ýtt undir eftirspurn og að sama skapi leiðir fjölgun fólks hér á landi til aukinnar spennu á húsnæðismarkaði. Á móti vegur að við núverandi aðstæður mikillar spurnar eftir starfsfólki vinnur aðflutningur flóttafólks á móti þenslu á vinnumarkaði. Að því marki sem flóttafólk leitar á vinnumarkað og fylla störf eykst framleiðslugeta hagkerfisins og þar með verðmætasköpun sem skilar hinu opinbera auknum skatttekjum. Áhrifin á framleiðni ráðast þó nokkuð af menntunar- og þekkingarstigi fólksins sem hingað kemur og hvernig til tekst við að tryggja að það fái störf í samræmi við menntun og hæfni. Aðgengi fólks sem hlýtur vernd að vinnumarkaðnum er ólíkt eftir því hvort það nýtur viðbótarverndar eða ekki. Þannig mun fólk frá Úkraínu og Venesúela t.a.m. fá óbundið atvinnuleyfi sem þýðir að það getur unnið hjá hvaða atvinnurekanda sem er þegar samþykkt breyting á útlendingalögum tekur gildi. Verður þá gildistími atvinnuleyfisins hinn sami og gildistími dvalarleyfis. Meðfylgjandi tafla sýnir bráðabirgðarniðurstöður sem félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur unnið og hefur að geyma upplýsingar um atvinnuþátttöku fullorðins flóttafólks, þ.e. einstaklinga eldri en 18 ára. Þar má sjá að tæplega þriðjungur þeirra sem hingað komu á árinu 2022 frá Venesúela eru nú starfandi og rúmlega 40% frá Úkraínu. Atvinnuþátttaka þeirra sem komið hafa hingað frá þessum tveimur ríkjum má því teljast nokkuð há. Vert er að benda á að fólk með tímabundið dvalarleyfi af mannúðarsjónarmiðum hefur ekki rétt í almanna¬tryggingakerfinu. Þá geta verið ýmsar ástæður fyrir því að hlutfall flóttafólks sem er utan vinnumarkaðar sé hærra en meðal þeirra sem hér búa fyrir. Þannig er rúmur helmingur Úkraínufólks sem fékk vernd konur og um fjórðungur börn. Þótt atvinnuþátttaka meðal kvenna sé óvíða hærri en hér getur verið erfitt um vik fyrir barnafólk með lítið bakland að festa starf fyrr en börn hafa aðlagast skólakerfinu. Atvinnuþátttaka er því yfirleitt lægri á fyrsta árinu eftir verndarveitingu.
Í stjórnarsáttmála ríkistjórnarinnar var lögð áhersla á skýra og heildstæða stefnu í málefnum útlendinga með það að markmiði að fólk sem sest hér að hafi tækifæri til aðlögunar og virkrar þátttöku í samfélaginu. Þannig hefur markvisst verið stutt við börn af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra enda sýna alþjóðlegar rannsóknir á efnahagslegum áhrifum flóttafólks að fátt skipti meira máli fyrir bæði einstaklinga og samfélag en að tryggja þjónustu og stuðning sem stuðlar að árangursríkri aðlögun að samfélaginu, vinnumarkaði og skólakerfi.




Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum