Hoppa yfir valmynd

Framlög til loftslagsmála nema 30 ma.kr. í ár

Frá undirritun Parísarsamningsins hefur verið sívaxandi umræða um hlýnun jarðar og hvernig ríki geta brugðist við með aðgerðum í þágu loftslagsmála. Ríki heimsins hafa sett sér markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og ráðist í fjölbreyttar aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Ríkisstjórn Íslands hefur lagt ríka áherslu á að standa við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum sem tengist Parísarsamningnum og birt stefnumörkun þar að lútandi um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Nú er unnið að áfangaskiptum losunarmarkmiðum fyrir einstakar atvinnugreinar í samstarfi við atvinnulífið og uppfærslu aðgerða í samræmi við það. Markmið Íslands er að ná 55% samdrætti í losun fyrir árið 2030 miðað við 1990 í samfloti með Noregi og ESB og að ná kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040.

Aðgerðir í loftslagsmálum þurfa ekki allar að fela í sér kostnað heldur er einnig hægt að bregðast við með breytingum á gjöldum, lagabreytingum og fræðslu. Á síðustu árum hefur stefna stjórnvalda um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þó endurspeglast í auknum framlögum til loftslagsmála. Þessi framlög felast einkum í skattaívilnunum og útgjöldum til að stuðla að fjölbreyttum vistvænum samgöngum, landbúnaði og landnotkun (AFOLU) og ýmsar aðrar beinar aðgerðir.

Á árinu 2023 verður um 29,5 ma.kr. varið til loftslagsmála sem er tæplega þreföldun frá því sem var árið 2017. Gert er ráð fyrir að framlögin nái hámarki á árinu 2023 þar sem virðisaukaskattsívilnun vegna hreinorkubíla rennur út í lok árs 2023 og í fjárlögum ársins 2023 var veitt 1,4 ma.kr. í Orkusjóð til að styðja við orkuskipti hjá bílaleigum og í þungaflutningum. Helstu ástæður þess að framlög til loftslagsmála fara lækkandi á tíma fjármálaáætlunarinnar eru annars vegar að skattastyrkir eru yfirleitt settir til ákveðins tíma og renna svo út og hins vegar eru veittar fjárheimildir til tímabundinna verkefna. Fjárhæðir fyrri ára á myndinni eru á verðlagi hvers árs en fjárhæðir áranna 2024–2028 eru á verðlagi ársins 2023 og byggja á forsendum framlagðrar fjármálaáætlunar.

Stærsti þátturinn í framlögum ríkisins til loftslagsmála hefur falist í hagrænum hvötum í formi skattastyrkja (sjá nánar í rammagrein 4). Þar hafa skattastyrkir vegna bíla vegið þyngst. Á síðustu árum hefur ríkið fellt niður virðisaukaskatt af tengiltvinn- og rafbílum til að stuðla að loftslagsvænum samgöngum. Tengiltvinnbílar gegndu mikilvægu hlutverki við upphaf orkuskiptanna en ívilnunum vegna þeirra lauk á árinu 2022. VSK-ívilnanir vegna rafbíla voru framlengdar til ársloka 2023 og er áætlað að þær nemi yfir 10 ma.kr. á árinu 2023. Auk þess má nefna VSK-ívilnanir vegna hleðslustöðva, hjóla og útleigu bíla, skattfrelsi íblandaðs endurnýjanlegs eldsneytis, fulla fyrningu á kaupári vistvænna bíla, græna fjárfestingarhvata o.fl.

Í fjármálaáætlun er stuðningur við orkuskipti í samgöngum færður af tekjuhlið yfir á gjaldahlið. Á myndinni að ofan má sjá hvernig skattastyrkir dragast saman en útgjöld til samgangna aukast. Í stað VSK-endurgreiðslna vegna hreinorkubíla, sem renna út í árslok 2023, er í áætluninni gert ráð fyrir að fjárheimild til Orkusjóðs verði aukin um 7,5 ma.kr. á ári á árunum 2024–2025 og svo um 5 ma.kr. árin 2026–2030 eða alls 30 ma.kr. á tímabili áætlunarinnar. Dregið verður í framhaldinu úr stuðningnum samhliða bættum innviðum og vegna minni verðmunar en áður á hreinorkubílum og bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Með því fyrirkomulagi má áfram styðja vel við orkuskiptin og beina stuðningnum þangað sem ávinningurinn er mestur. Í flokknum útgjöld vegna samgangna teljast einnig styrkir vegna almenningssamgangna, Borgarlínu, göngu- og hjólastíga.

Framlög til landbúnaðar og landnotkunar vegna loftslagsmála skiptast með nokkuð jöfnun hætti í skógrækt, landgræðslu og grænmetisframleiðslu. Önnur bein framlög til loftslagsmála eru að stærstum hluta tengd aðgerðaáætlun í loftslagsmálum þar sem framlög er veitt í ýmis verkefni, bæði til að stuðla að samdrætti í losun en einnig vegna stefnumótunar um aðlögun að loftslagsbreytingum. Einnig eru þar framlög til Loftslagssjóðs, Loftslagsráðs og hluti fjárveitinga til ýmissa stofnana sem vinna að loftslagsmálum. Auk þess er vert að nefna 800 m.kr. fjárheimild á árinu 2023 til að mæta skuldbindingum Íslands á 2. tímabili Kýótó-bókunarinnar, 2013–2020 sem ekki eru inni í ofangreindum tölum sem orsakast af því að Ísland náði ekki að standa við skuldbindingar vegna Kýótó-samkomulagsins.


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum