Hoppa yfir valmynd

03 Æðsta stjórnsýsla

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð forsætisráðherra. Það skiptist í þrjá málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2021–2023.

Tafla: Heildarútgjöld málefnasviðsins

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn forsætisráðuneytisins er að Ísland verði í fremstu röð þegar kemur að samhæfðri og framsækinni stjórnsýslu sem styður við góða þjónustu við íbúa landsins.

Meginmarkmið forsætisráðuneytisins er að styðja forsætisráðherra til að sinna forystu- og samhæfingarhlutverki sínu í samfélaginu, á vettvangi ríkisstjórnar og innan Stjórnarráðs Íslands.

Fjármögnun

Helstu breytingar á útgjaldaramma málefnasviðsins á tímabili fjármálaáætlunar skýrast af hliðrun framlags til viðbyggingar Stjórnarráðshússins, almennu útgjaldasvigrúmi og niðurfellingum framlaga frá fyrri árum til ýmissa verkefna. Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Tafla: Útgjaldarammi málasviðsins

Helstu áherslur 2024–2028

GÆÐI, FORYSTA OG SAMHÆFING - Mannréttindi og sjálfbær þróun.	Nútímalegt og samhent Stjórnarráð. Samhæfing stefnumála.

Málaflokkar 

3.1 Embætti forseta Íslands

Verkefni

Undir málaflokkinn fellur rekstur forsetaembættisins. Það er viðvarandi verkefni að treysta umgjörð embættisins í samræmi við stöðu forseta Íslands sem þjóðhöfðingja, æðsta handhafa framkvæmdarvalds og annars handhafa löggjafarvalds í landinu og tryggja þannig að forsetinn fái sinnt embættisskyldum sínum innan lands og erlendis af kostgæfni og virðuleik.

3.2 Ríkisstjórn

Verkefni

Undir málaflokkinn fellur launaliður ráðherra í ríkisstjórn og aðstoðarmanna þeirra. Liðurinn tekur breytingum í samræmi við fjölda ráðherra og aðstoðarmanna á hverjum tíma.

3.3 Forsætisráðuneyti

Verkefni

Forsætisráðherra stýrir störfum ríkisstjórnarinnar og samhæfir þau, er helsti málsvari hennar og ber höfuðábyrgð á því að stjórnarsáttmálinn sé innleiddur. Forsætisráðuneytið styður við þetta hlutverk forsætisráðherra og tryggir að starfsemi ríkisstjórnarinnar sé í samræmi við lög. Í tengslum við ríkisstjórn starfa fjölmargar ráðherranefndir sem ráðuneytið hefur umsjón með.

Forsætisráðuneytið fer með mál er varða stjórnskipan lýðveldisins og samskipti æðstu handhafa ríkisvalds. Þróun stjórnskipunar og endurskoðun stjórnarskrár fellur þar undir sem og aðgerðir til að efla traust almennings til stjórnvalda og treysta lýðræðislega stjórnhætti og efla vernd mannréttinda.

Ráðuneytið fer með stjórnarfar almennt, þ.m.t. lög um Stjórnarráð Íslands, stjórnsýslulög, upplýsingalög og lög um vernd uppljóstrara. Bætt siðferði í opinberri stjórnsýslu fellur einnig hér undir, sbr. lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands.

Ráðuneytið fer með forystu og samhæfingu á vettvangi Stjórnarráðsins. Það birtist m.a. í reglulegum fundum ráðuneytisstjóra en einnig í samstarfi t.d. upplýsingafulltrúa, mannauðsstjóra og skjalastjóra ráðuneyta.

Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar verður hugmyndafræði sjálfbærni, réttlátra umskipta og aukinnar samkeppnishæfni leiðarstef í yfirstandandi umbreytingum á sviði efnahags, umhverfis og samfélags.

Forsætisráðuneytið leiðir vinnu við mótun stefnu um sjálfbæra þróun fyrir Ísland, þvert á ráðuneytin og í samstarfi við fjölda hagsmunaaðila, undir heitinu Sjálfbært Ísland. Markmiðið með þeirri vinnu er að tryggja aukið samráð og samstarf þvert á samfélagið um hagnýtar lausnir í þágu sjálfbærrar þróunar, samþættingu við velsældaráherslur og sömuleiðis um samþættingu markmiðanna í alla stefnumótun og áætlanagerð stjórnvalda.

Ráðuneytið hefur fyrir hönd Íslands leitt samstarf á vettvangi velsældarríkja undir formerkjum WEGo-samstarfsins (e. Well-being Economic Governments). Stjórnvöld í Skotlandi eru í forystu en önnur ríki í samstarfinu eru Nýja-Sjáland, Wales og Finnland, auk Kanada sem er með stöðu áheyrnarfulltrúa. Ráðuneytið er leiðandi innan Stjórnarráðsins í samstarfi við Hagstofu Íslands við að tryggja reglulega uppfærslu á 39 velsældarmælikvörðum sem ríkisstjórnin hefur valið sem leiðarljós um hagsæld og lífsgæði í landinu. Þar af hafa sex tilteknar velsældaráherslur verið settar í forgrunn sem leiðarljós við mótun áherslna í fjármálaáætlun þessari. Nánar er fjallað um stöðu og þróun velsældaráherslna í sérstakri rammagrein 8 í ritinu.

Forsætisráðherra fer með málefni þjóðlendna samkvæmt forsetaúrskurði nr. 125/2021. Þjóðlendur eru landsvæði þar sem íslenska ríkið er eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda sem ekki eru háð einkaeignarrétti. Um þjóðlendur gilda lög um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta nr. 58/1998. Nú sér fyrir endann á því umfangsmikla starfi sem lögin gerðu ráð fyrir og felst í að skera úr um mörk þjóðlendna og eignarlanda. Við tekur umsýsla ríkis og sveitarfélaga með þjóðlendum þar sem sjálfbær nýting í þágu allra landsmanna verður höfð að leiðarljósi.

Forsætisráðherra fer með formennsku í þjóðaröryggisráði og leiðir starfsemi þess. Forsætisráðuneytinu ber að veita þjóðaröryggisráði alla nauðsynlega starfsaðstöðu og aðstoð við störf þess. Meginverkefni þjóðaröryggisráðs er að hafa eftirlit með því að þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland sé framkvæmd í samræmi við ályktun Alþingis og er vettvangur samráðs um þjóðaröryggismál. Þá leggur þjóðaröryggisráð mat á ástand og horfur í þjóðaröryggismálum.

Þjóðhagsmálefni og málefni Seðlabanka Íslands heyra undir ráðuneytið sem og Hagstofa Íslands sem nánar er fjallað um á málefnasviði 6 Hagskýrslugerð og grunnskrár.

Jafnréttismál og mannréttindamál eru á verksviði forsætisráðuneytis og ítarlega er fjallað um þau mál undir málaflokki 32.2 Jafnréttismál.

Embætti ríkislögmanns og Óbyggðanefndar eru einnig á verksviði forsætisráðuneytis og er fjallað um þau undir málefnaflokki 9.3 Ákæruvald og réttarvarsla.

Umboðsmaður barna er undir málaflokki 29.4 Annar stuðningur við einstaklinga, fjölskyldur og börn.

Helstu áskoranir

Ýmsar áskoranir varða innri starfsemi ráðuneytisins, m.a. er það viðvarandi áskorun að tryggja vandaða stjórnsýslu og samhæfingu stjórnarmálefna þegar unnið er þvert á ráðuneyti. Þá stendur yfir átak í endurgerð og varðveislu gamalla húsa í umsjón ráðuneytisins, m.a. varðandi gamla Þingvallabæinn. Jafnframt er framtíðarskipan húsnæðismála Stjórnarráðsins í forgangi. Í þeirri endurskipulagningu felast margvísleg tækifæri til samnýtingar húsnæðis, samlegðar er kemur að sameiginlegri þjónustu og hagræðingar í rekstri.

Til skoðunar er hvernig nýta megi þjóðlendur til að ná markmiðum Íslands í loftslags-málum, sbr. gildandi aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, sbr. 5. gr. laga um loftslagsmál, nr. 70/2012, þar sem kveðið er á um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu hér á landi. Á grunni þess er í athugun að skilgreina verkefni sem tengir saman bindingu kolefnis og endurheimt vistkerfa á illa förnu landi í þjóðlendum með aðferðafræði vistheimtar. Miðað er við að verkefnið verði rekið á breiðum samfélagsgrunni með þátttöku hagaðila undir forystu forsætisráðherra í samráði við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og matvælaráðherra.

Mótun og framkvæmd stefnu um sjálfbæra þróun og innleiðing á hugmyndafræði velsældarhagkerfa verður forgangsverkefni ráðuneytisins og Stjórnarráðsins á komandi árum. Verkefnið er umfangsmikið og í mótun. Í því felast dýrmæt tækifæri enda endurspegla áherslurnar stefnu ríkisstjórnarinnar þar sem úrbóta er þörf og lögð er áhersla á að horft sé til framtíðar á mikilvægum sviðum með sjálfbærni alls samfélagsins að leiðarljósi. Ein stærsta áskorunin eða ógnin sem blasir við er loftslagsbreytingar og áhrif þeirra og því er brýnt að samhæfa aðgerðir og verkefni ráðuneyta á því sviði sem og öðrum er lýtur að sjálfbærnimálum.

Forsætisráðuneytið hefur um árabil gegnt mikilvægu hlutverki við endurskoðun stjórnar-skrárinnar. Á þessu kjörtímabili verður haldið áfram þeirri heildarendurskoðun sem hófst á síðasta kjörtímabili. Utanaðkomandi sérfræðingum hefur verið falið að vinna greinargerðir um þrjá mikilvæga kafla stjórnarskrárinnar, þ.e. um mannréttindi, dómstóla og Alþingi. Verða þær greinargerðir nýttar til að treysta umræðugrundvöll endurskoðunar. Það ræðst síðan af undirtektum hjá þingmönnum og í samfélaginu hvort vinna megi málið áfram og ná nægilegri samstöðu um tilteknar æskilegar breytingar á stjórnarskránni að þessu sinni.

Aðkoma forsætisráðuneytisins að alþjóðamálum hefur farið vaxandi á undanförnum árum. Endurspeglast það nú í forsetaúrskurði þar sem segir að Evrópusamvinna sé sérstakt áherslumál á sviði samhæfingar er heyri undir forsætisráðuneytið. Áfram verður unnið með utanríkisráðuneytinu og öðrum ráðuneytum að skilvirkri þátttöku í EES-samstarfinu og öflugri hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd. Ráðuneytið hyggst einnig beita sér fyrir því að efla þekkingu um EES-samninginn innan Stjórnarráðsins. Í þessu efni er m.a. byggt á tillögum í skýrslu starfshóps um EES-samstarf frá september 2019.

Þjóðaröryggisráð hefur bent á að breytt öryggisumhverfi hefur áhrif á Ísland og kallar á aukna árvekni á fleiri sviðum og krefst víðtæks samráðs og samhæfingar innan stjórnsýslunnar og á alþjóðavettvangi. Á næstu árum verður lögð áhersla á að styrkja aukið samráð og samhæfingu innan stjórnkerfisins í því skyni að stuðla að markmiðum þjóðaröryggisstefnunnar, einkum styrkingu áfallaþols samfélagsins, styrkja umgjörð þjóðaröryggisráðsins og virkrar þátttöku íslenskra stjórnvalda í norrænni, evrópskri og alþjóðlegri samvinnu á öllum sviðum þjóðaröryggis.

Tækifæri til umbóta

Það eru tækifæri að leiða þá vinnu sem er fólgin í því að útfæra og styðjast við þá 39 velsældarmælikvarða sem ríkisstjórnin hefur valið sem leiðarljós um hagsæld og lífsgæði í landinu.

Þá eru tækifæri fólgin í því að ná enn betri yfirsýn innan stjórnkerfisins yfir framtíðar-áskoranir, m.a. á vettvangi þjóðaröryggisráðs og nýstofnaðs Vísinda- og nýsköpunarráðs, og auka getu stjórnvalda og íslensks samfélags til að bregðast við fjölbreyttum aðstæðum og áskorunum sem upp geta komið.

Forsætisráðuneytið beitir sér fyrir bættu siðferði í opinberri stjórnsýslu og aðgerðum til að efla traust. Ráðuneytið tekur virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði, m.a. innan vébanda GRECO, ríkjahóps gegn spillingu. Þá hefur verið ákveðið, í þágu trausts, að efla enn frekar almenningssamráð við opinbera stefnumótun. Tækifæri í ráðuneytinu og í stjórnsýslunni almennt eru ekki síst fólgin í auknum stafrænum lausnum og leiðum til þess að ná betur til íbúa.

Áhættuþættir

Áhættuþættir felast í því ef vandamál koma upp tengt því hlutverki forsætisráðuneytisins að tryggja vandaða stjórnsýslu og samhæfingu, auk hlutverks á sviði þjóðaröryggis. Einnig er áhætta tengd því að ekki náist árangur í verkefnum Sjálfbærs Íslands til að tryggja sjálfbærni og árangur í loftslagsmálum sem hefði víðtæk efnahagsleg, samfélagsleg og umhverfisleg áhrif. 

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2022

Viðmið 2024

Viðmið 2028

Gott siðferði í opinberri stjórnsýslu.*

16.6

Traust á stjórnvöldum.

50,4%

55%

60%

 

16.6

Traust ungs fólks á stjórnvöldum.

34,5%

40%

45%

 

16.6

Siðferði opinberra starfsmanna.

30,3%

26%

18%

 

Aukin velsæld og sjálfbærni.**

16.6

Sjálfbærnivísitala – sæti.

22

15

10

 

16.6

Uppfylling heimsmarkmiðanna.

78,9

82

85

 

16.6

Jákvæð sjálfbærni áhrif ríkja.

51,4

55

65

 

Auka skilning á fjölþættri mismunun í skilningi laga um jafna meðferð.***

4,5

Fjöldi fræðslufunda til almennings og hagsmunahópa.

-

4

8

 

 

4,5

Fræðsla til annarra ráðuneyta.

-

12

12

 

 

4,5

Kærunefnd jafnréttismála – fjöldi mála til nefndarinnar.

10

12

15

 

*Stuðst er við gögn úr könnunum OECD um traust á opinberum stofnunum.
**Stuðst við Sjálfbærniskýrslu Sameinuðu þjóðanna – mat á ríkjum. https://dashboards.sdgindex.org/profiles
***Fjölþætt mismunun: Kynþáttur, þjóðernisuppruni, trú, lífsskoðun, fötlun, aldur, kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni og kyntjáning.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum