Hoppa yfir valmynd

22 Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og menningarmála

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð mennta- og barnamálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og menningar- og viðskiptaráðherra. Það skiptist í þrjá málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2021–2023.

Tafla: Heildarúgjöld málasviðsins

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Menntun og mannauður er grundvöllur velsældar til framtíðar og með því að hlúa að skapandi hugsun, þekkingu og virkri þátttöku og farsæld allra er samkeppnishæfni Íslands aukin. Framtíðarsýn málefnasviðsins felur í sér að Ísland hafi ávallt á að skipa framúrskarandi menntakerfi sem sé í stakk búið að bregðast við breytingum og áskorunum fram undan.

Framtíðarsýn fyrir leikskóla- og grunnskólastig og framhaldsfræðslu er að einstaklingar verði sjálfstæðir og virkir þátttakendur í samfélaginu og vel undirbúnir undir frekara nám. Framtíðarsýn fyrir stjórnsýslu mennta- og barnamála er að hún auki lífsgæði fólks í landinu og verði til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag. Starfsemi á málefnasviðinu verði í fremstu röð og standist samanburð við nágrannaríki.

Meginmarkmið á leik- og grunnskólastigi er að nemendur finni til vellíðunar og öryggis í öllu skóla- og frístundastarfi sem byggir á stefnu um skóla fyrir alla með það að markmiði að þeir búi yfir skapandi og gagnrýninni hugsun, félagsfærni og annarri hæfni á námssviðum leik- og grunnskóla. Meginmarkmið með framhaldsfræðslu er að fleiri einstaklingar úr markhópnum nýti sér þjónustuna og velji nám sem nýtist til frekara náms eða starfa. Megin­markmið fyrir stjórnsýslu mennta- og barnamála er að tryggja að menntun, aðbúnaður og réttindi barna á Íslandi séu ávallt í fyrirrúmi.

Fjármögnun 

Gert er ráð fyrir því að útgjaldarammi málefnasviðs lækki um 439 m.kr. frá fjárlögum 2023 til ársins 2028. Helstu breytingar á útgjöldum málefnasviðs má skýra með niðurfellingu tímabundinna fjárheimilda.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Tafla: Fjárheimildir málasviðsins

Helstu áherslur 2024–2028

MENNTUN OG VELFERÐ TIL FRAMTÍÐAR  -  Hæfni fyrir framtíðina. Jöfn tækifæri fyrir alla. Geðheilbrigði, vellíðan og öryggi.

22.1 Leikskóla- og grunnskólastig

Verkefni

Ábyrgð á málaflokknum liggur annars vegar hjá sveitarfélögum sem bera ábyrgð á rekstri og kostnaði leik- og grunnskóla og einstökum þáttum skólastarfs og hins vegar hjá ráðuneytinu sem fer með stefnumótunar-, yfirstjórnar- og eftirlitshlutverk eins og nánar er kveðið á um í lögum um leikskóla og lögum um grunnskóla. Málaflokkurinn styður við velsældaráherslu ríkisstjórnarinnar um virkni í námi og starfi með áherslu á mikilvægi framúrskarandi menntunar í leik- og grunnskólum og virkan snemmbæran stuðning þar sem komið er til móts við náms- og félagslegar þarfir nemenda í skóla án aðgreiningar, sjá nánar á bls. 352 í fjármálaáætlun 2023–2027.

Helstu áskoranir

Áhrifa kórónaveirufaraldursins á skólastarf, nemendur og fjölskyldur þeirra gætir enn og er brýnt að veita áfram öflugan stuðning við skólakerfið til að standa vörð um menntun, velferð og farsæld í samræmi við áherslur stjórnvalda á mikilvægi gæði menntunar og andlegs heil­brigðis.

Mæta þarf þörfum nemenda með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn og nemenda í viðkvæmri stöðu til að stuðla að auknum jöfnuði í menntun og til að auka virkni þessara hópa í námi og starfi. Sú mikla áskorun menntakerfisins sem felst í auknum fjölda þessara nemenda og barna í leit að alþjóðlegri vernd kallar á aukinn stuðning frá miðlægri skólaþjónustu og styrkingu kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. (Sjá einnig málefnasvið 29.7 Málefni innflytjenda og flóttamanna.) Íslenskt samfélag hefur verið að takast á við áhrif stríðsátaka í Úkraínu og móttöku flóttabarna og fjölskyldna þeirra, en árið 2022 var metár í móttöku flóttabarna. Þessi fjöldi er áskorun fyrir íslenskt menntakerfi enda koma mörg barn­anna úr erfiðum aðstæðum sem kallar á aukinn stuðning, s.s. sálrænan stuðning, stuðning við foreldra og stuðning við íslenskunám og almenna móttöku.

Það er einnig áskorun að styðja við íslenskt menntakerfi þannig að innleiðing laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna verði markviss og að væntanleg lög um skóla­þjónustu og nýja ráðgjafar- og stuðningsstofnun á sviði menntamála nái fram að ganga. Sér­staklega má hér nefna ráðningar á fjölbreyttum hópi fagfólks til starfa í skólum, s.s. leikskóla­kennurum, náms- og starfsráðgjöfum, kennsluráðgjöfum, sálfræðingum, talmeinafræðingum og öðru viðeigandi fagfólki á sviði mennta- og velferðarmála. Sjá nánar á bls. 353–354 í fjármálaáætlun 2023–2027.

Kynjamunur er ein birtingarmynda framkvæmdar leik- og grunnskólastarfs sem endur­speglast m.a. í mismunandi þörf á viðbótarstuðningi í námi, áhugahvöt, vali á viðfangsefnum, námsárangri og líðan kynja. Gripið hefur verið til ýmissa aðgerða til að draga úr kynjamun í skólastarfi á þessum skólastigum, m.a. með áherslu á snemmbæran stuðning, með grunnþætti almennrar menntunar. Um jafnrétti og aðgerðir tengdum framkvæmdaáætlun í jafnréttis­málum, sjá nánar á bls. 353–354 í fjármálaáætlun 2023–2027.

Greining á framkvæmd skólaþjónustu hefur dregið fram ákveðna veikleika undanfarið, s.s. ójafnt aðgengi að þjónustu eftir aldri nemenda og búsetu, að skortur sé á samfellu og þjónustustigi milli skólastiga, á fyrirbyggjandi og snemmtækum aðgerðum, á viðeigandi stuðningi við nemendur og starfsfólk og á stuðningi við skólaþróun. Þá liggur fyrir að skólaþjónusta er skilgreind með ólíkum hætti annars vegar á leik- og grunnskólastigi og hins vegar framhaldsskólastigi.

Hraður vöxtur fyrsta skólastigsins samhliða örum samfélagslegum breytingum hefur skapað áskoranir undanfarin ár sem kalla á markviss viðbrögð ríkis, sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila.

Tækifæri til umbóta

Í aðdraganda fjármálaáætlunar, með gildistöku nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, menntastefnu til ársins 2030 og með skipulagsbreytingum innan Stjórnarráðsins hafa verið kynnt umfangsmikil áform um að bæta heildstæða umgjörð þjónustu fyrir börn og ungmenni þvert á kerfi, sem m.a. felast í heildarendurskoðun á skólaþjónustu og stuðningi á vettvangi við börn og þá einstaklinga sem vinna með börnum, sem og nýja ráðgjafar- og stuðningsstofnun í stað núverandi undirstofnunar á sviði menntamála. Með áformunum er verið að skapa enn sterkari grundvöll til að stuðla að gæðamenntun og farsæld barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra.

Skilgreining á lágmarksþjónustu skólaþjónustu sveitarfélaga í tengslum við innleiðingu fyrstu aðgerðaáætlunar menntastefnu 2030 og verkefninu um breytingu á ráðstöfun fjármuna, sem og í tengslum við byggðaáætlun, felur í sér tækifæri til umbóta, sjá nánar á bls. 356 í fjármálaáætlun 2023–2027. Samhliða því verður unnið að samhæfingu á áherslum og mark­miðum menntastefnu 2030, markmiðum nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna (málaflokkur 29.4), markmiðum Barnvæns Íslands, auk annarra stefna og áætlana á sviði menntunar og velferðar barna og ungmenna.

Til að tryggja yngstu þegnum landsins bestu barnæsku og menntunar- og uppeldistækifæri og foreldrum besta stuðning í sínu hlutverki sem mögulegt er hverju sinni mun ráðuneytið í samráði við hagsmunaaðila vinna að innleiðingu tillagna skýrslu um Fyrstu 1000 daga barnsins, sjá nánar á bls. 355 í fjármálaáætlun 2023–2027 og málaflokk 29.4 Annar stuðningur við einstaklinga, fjölskyldur og börn.

Til að mæta fjölbreytileika nemenda í íslensku skólakerfi og stuðla að auknum tækifærum nemenda með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn vinnur ráðuneytið nú að sér­stakri aðgerðaáætlun um mótun samræmds verklags um móttöku, kennslu og þjónustu við þessa nemendur á landsvísu, fyrir ríki og sveitarfélög, þvert á skólastig og þjónustukerfi. Sam­hliða verður unnin ítarleg greining á fjárhags- og samfélagslegum ávinningi þess að markmiðin náist. Farið verður yfir og lögð til breyting á útdeilingu og nýtingu fjármuna í málaflokknum á grundvelli aðgerðaáætlunarinnar, sjá nánar á bls. 356 í fjármálaáætlun 2023–2027.

Að öðru leyti verður áfram unnið að verkefnum sem miða að því að mæta áskorunum og markmiðum málaflokksins, sbr. umfjöllun um menntastefnu 2030, menntun fyrir alla, læsi og góða íslenskukunnáttu, stærðfræði og náttúrugreinar, list-, verk- og tæknimenntun, námsgögn og nýliðun kennara á bls. 354–357 í fjármálaáætlun 2023–2027.

Áhættuþættir

Ef ekki verður brugðist við áskorunum sem uppi eru innan málaflokksins eru auknar líkur á að meginmarkmið um að allir nemendur á leik- og grunnskólastigi njóti jafnréttis til náms og finni til vellíðunar og öryggis í öllu skólastarfi nái ekki fram að ganga með miklum áhrifum á námsárangur nemenda og virkni og tilheyrandi kostnaði fyrir íslenskt samfélag. Takist ekki að fjölga kennurum og öðru fagfólki í leik- og grunnskólum mun Ísland til framtíðar litið ekki ná að hafa á að skipa framúrskarandi og sveigjanlegu menntakerfi sem stenst samanburð við það sem best gerist í nágrannaríkjum.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða
2022

Viðmið
2024

Viðmið
2028

Styrkja lestrarfærni grunnskóla-nemenda.

4.1

4.2

Hlutfall nemenda sem ná viðmiði 1 í lesfimi en það tilgreinir hvað eðlilegt þykir að 90% nemenda í a) 4. b) 7. og c) 10. bekk ættu að lágmarki að ná að lesa mörg rétt orð við lok skólaárs.

a) 80,7%

b) 67,3%

c) 69,0%

a) 85%

b) 75%

c) 75%

a, b, c) 90%

4.1

4.2.

PISA-rannsókn, hlutfall nemenda, greint eftir kynjum, sem ná 2. stigi eða hærra: a) allir b) drengir c) stúlkur.

a) 73,6%

b) 65,6%

c) 81,3%

(2018)

a) 83%

b) 75%

c) 90%

a) 88%

b) 80%

c) 95%

4.1

4.2

 

PISA-rannsókn í lesskilningi, hlutfall nemenda af erlendum uppruna sem ná 2. stigi eða hærra.

48,8%

(2018)

Meðaltali OECD náð

Meðaltali OECD náð

Styrkja færni grunnskóla-nemenda í stærðfræði og náttúru­fræði.

4.1

4.2

 

PISA-rannsókn í stærðfræði og náttúru­fræði, hlutfall nemenda, greint eftir kynjum, sem ná 2. stigi eða hærra: a) allir b) drengir c) stúlkur.

Stærðfræði:

a) 79,3%

b) 76,6%

c) 82%

 

Náttúrufræði:

a) 75%

b) 72,2%

c) 77,8%

Stærðfræði

a) 81,8%

b) 78,6%

c) 85%

 

Náttúrufræði:

a) 77,5%

b) 74,2%

c) 80,8%

Stærðfræði:

a) 82,8%

b) 81,6%

c) 84%

 

Náttúrufræði:

a) 81%

b) 77,2%

c) 84,8%

4.1

4.2

 

PISA-rannsókn í stærð­fræði og náttúrufræði, hlutfall nemenda af erlendum uppruna sem ná 2. stigi eða hærra: a) stærðfræði b) náttúrufræði

a) 62,3%

b) 52%

(2018)

Meðaltali OECD náð.

Meðaltali OECD náð.

Auka gæði menntunar í leik- og grunn-skólum.

4.1

4.2

4.5

4.7

4.a

Meðaltal viðmiða (á kvarðanum 1–4) metinna grunnskóla í ytra mati Menntamálastofnunar: a) stjórnun og fagleg forusta b) nám og kennsla c) innra mat.

(2021)

a) 3,0

b) 2,8

c) 2,7

a) 3,2

b) 3,0

c) 3,1

a) 3,5

b) 3,4

c) 3,3

4.1

4.2

 

Hlutfall grunnskóla sem hafa náms- og starfs­ráðgjafa.

(2019)

71%

80%

90%

16.6

Hlutfall kennara í leik- og grunnskólum með leyfisbréf til kennslu:

a) leikskólar – allir
b) grunnskólar – allir
c) grunnskólar – karlar
d) grunnskólar – konur

(2021)

a) 24,2%

b) 84%

c) 4%

d) 70%

a) 30%

b) 90%

c) 15%

d) 75%

 

a) 35%

b) 95%

c) 18%

d) 77%

 

*Fyrirlögn PISA sem er á þriggja ára fresti var frestað vegna Covid-19 en næsta skýrsla kemur út í lok þessa árs og stöðutölur í töflunni eru því enn frá árinu 2018.

22.2 Framhaldsfræðsla og menntun óflokkuð á skólastig

Verkefni

Meginverkefni málaflokksins lögum samkvæmt eru kennsla og þjónusta við einstaklinga með stutta skólagöngu til að auðvelda þeim að hefja nám að nýju eða þróast áfram í starfi. Markmið framhaldsfræðslu er að efla menntunarstig í landinu og stuðla jafnframt að því að nám og reynsla sem aflað hefur verið utan hins formlega skólakerfis sé metið að verðleikum. Málaflokkurinn styður við velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar um virkni í námi og starfi þar sem áhersla er lögð á ævinám til að mæta áhrifum fjórðu iðnbyltingarinnar og framtíðar­áskorunum vegna tækni- og loftslagsbreytinga.

Framhaldsfræðsla tengist samstarfi hins opinbera við samtök aðila vinnumarkaðarins og samtök um málefni fatlaðs fólks. Starfsemin fer að mestu fram hjá sjálfseignarstofnunum og félögum. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið ber ábyrgð á almennri stefnumótun í samráði við hagsmunaaðila sem og almennri stjórnsýslu og gæðaeftirliti, viðurkenningu fræðsluaðila og málefnum Fræðslusjóðs sem fjármagnar starfsemi framhaldsfræðslu.

Símenntunarmiðstöðvar eru 11 talsins og tekur starfsemi þeirra mið af samningum við ráðuneytið. Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og íslenskukennsla fyrir útlendinga falla einnig undir málaflokkinn.

Helstu áskoranir

Helsta áskorun málaflokksins er að ná til fleiri einstaklinga sem geta nýtt sér úrræði fram­haldsfræðslu til að efla grunnleikni og hæfni til áframhaldandi náms eða þátttöku í atvinnulífi. Önnur áskorun er að tengja nám og þjálfunarúrræði betur við þarfir atvinnulífs þar sem einnig er horft til framtíðar varðandi eftirspurn eftir starfsfólki og þróun starfa.

Þriðja áskorunin er að auka snerpu innan kerfisins til að geta mætt breytingum og um leið eflt grænar áherslur og gæði innan framhaldsfræðslunnar. Í skýrslunni „Ísland og fjórða iðn­byltingin“, sem forsætisráðuneytið gaf út í febrúar 2019, kemur m.a. fram að sjálfvirknivæðing verði mest í störfum sem krefjast minni menntunar. Sviptingarnar á vinnumarkaði verða því líklega mestar fyrir þau sem minnstu menntunina hafa. Samkvæmt Hagstofu Íslands var áætlað að á árinu 2021 hefði hlutfall fullorðinna (25–64 ára) sem ekki höfðu lokið námi á framhalds­skólastigi verið 21,2%. Hlutfall karla það ár var áætlað yfir því meðaltali, eða 24,1%, og hlutfall kvenna ívið lægra, eða 18,1%. Hlutfallslega hafa fleiri lokið formlegu námi á höfuð­borgarsvæðinu en víða á landsbyggðinni og þeirri stöðu þarf að mæta með því að auka samstarf fræðsluaðila til að bjóða upp á fjölbreytt og aðgengilegt nám um allt land og nýta kosti stafræns náms- og vinnuumhverfis. Kynjahalli er einnig til staðar innan framhaldsfræðslunnar þar sem konur sækja frekar námið en karlar.

Tækifæri til umbóta

Mikilvægt þykir að auka gagnsæi framhaldsfræðslukerfisins hvað varðar stíganda í námi, gæði náms og dreifingu fjármagns. Hafin er heildarendurskoðun á framhaldsfræðslukerfinu og lögum um framhaldsfræðslu, nr. 27/2010, í víðtæku samráði við hagsmunaaðila þar sem m.a. verður horft til niðurstaðna nokkurra úttektar- og greiningarverkefna háskóla- og rannsóknasetra. Nám og þjálfunarúrræði fyrir fullorðna er fjármagnað eftir mörgum leiðum og ör vöxtur hefur verið í sí- og endurmenntun á vegum fræðsluaðila, skóla, fyrirtækja og félaga. Því þarf að vera skýrt fyrir hvað framhaldsfræðslan stendur og hvað er kostað af öðrum, s.s. ýmsum starfsmennta- og starfsþróunarsjóðum aðila á vinnumarkaði. Samstarfshópur vinnur að endurskoðun og breytingum á lögum um framhaldsfræðslu þar sem ætlunin er að birta grænbók um helstu álitamál og hvítbók um stefnumótun og í kjölfarið að leggja fram nýtt frumvarp. Meta þarf hvort ný lög eigi að ná til stærri hóps fullorðinna námsmanna m.t.t. vaxandi mikilvægis ævináms og mismikillar starfsgetu þar sem sérstök áhersla er lögð á náms- og starfstækifæri innflytjenda og fatlaðs fólks.

Mikilvægt er að fræðsluaðilar taki mið af aðstæðum hverju sinni og að boðið sé upp á þann sveigjanleika sem er nauðsynlegur fullorðnum námsmönnum og þeim sem ekki geta stundað staðnám. Líta má á slíkar aðstæður sem tækifæri til breytinga á kennsluháttum en um leið áskorun hvað varðar endurmenntun og þjálfun starfsfólks. Fræðsluaðilar þurfa að þróa áfram kosti stafrænna lausna til að auka aðgengi að námi við hæfi óháð búsetu og styðja um leið við tækniþekkingu og upplýsingalæsi þeirra einstaklinga sem stunda námið. Horfa þarf til þess hvaða þættir við framkvæmd náms, s.s. efnistök, fyrirkomulag, lengd, ávinningur eða kostnað­ur, auki þátttöku í framhaldsfræðslu. Því er hafin greining á röddum innflytjenda og niður­stöðum þjónustukannana sem fræðsluaðilar leggja fyrir. Hvatt er til samstarfs fræðsluaðila til að byggja upp og taka þátt í lærdómssamfélögum, m.a. út frá svæðisbundnum áherslum.

Framkvæmdaraðilar framhaldsfræðslu eru símenntunarmiðstöðvar og aðrir viðurkenndir fræðsluaðilar um allt land sem bjóða upp á námskeið, náms- og starfsráðgjöf eða hafa frumkvæði að öðrum úrræðum fyrir markhóp laganna. Fræðsluaðilarnir eru hvattir til að þróa nám sem mætir nýjum áherslum og höfðar bæði til karla og kvenna. Mikilvægt þykir að full­orðnir hafi aðgang að námi sem eflir grunnleikni en getur um leið lagt grunn að starfs-, tækni- og iðnnámi, m.a. með verklegri nálgun, smiðjustarfi og nýskapandi vinnu. Áhersla er því lögð á aðgengi að fjölbreyttu gæðanámi fyrir alla hópa og stíganda og samfellu í námi á milli kerfa menntunar og atvinnulífs. Raunfærnimat er mikilvægt tæki til að auðvelda fólki að þróast áfram í starfi og til að fá margvíslega hæfni metna inn í áframhaldandi nám. Með aðferðum raunfærnimats fær fullorðið fólk fyrri reynslu, s.s. þátttöku á vinnumarkaði eða í félagsstörfum, metna á móti námskrám eða hæfnikröfum starfa og getur þannig stytt sér leið að settu marki og flýtt fyrir námslokum. Vinna þarf að því að gera aðgengi að raunfærnimati greiðara og skilvirkara án þess þó að tapa trausti á niðurstöðum. Þróa þarf áfram samstarf þvert á kerfi til að meta margs konar hæfni inn í formlegt nám eða til starfsþróunar, s.s. með stöðumati í íslensku fyrir innflytjendur eða mati á almennri starfshæfni til að auka líkur á þátttöku á vinnumarkaði.

Samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands fjölgar innflytjendum ár frá ári og voru þeir 16,3% af heildarmannfjölda, eða 61.148 talsins, þann 1. janúar 2022. Þá hefur Útlendingastofnun gefið út spá um aukningu á umsóknum um alþjóðlega vernd fyrir árið 2023 sem gerir ráð fyrir 4.500–6.500 umsóknum. Aðgengi að íslenskunámi og samfélagsfræðslu þarf að vera auðvelt og verið er að þróa stuðningskerfi við starfstengt íslenskunám á vinnustað. Einnig hefur samstarfshópur hafið störf um úrbætur í íslenskukennslu samhliða endurskoðun á framhalds­fræðslukerfinu og heildarstefnumótun í málefnum innflytjenda. Fjögur rannsóknarverkefni eru hafin sem byggja eiga undir faglega ákvarðanatöku um bætta námsþjónustu við innflytjendur. Þá þykir mikilvægt að einfalda ferli við mat á menntun innflytjenda þannig að þeir geti nýtt þekkingu sína og hæfni og fengið störf eða verkefni við hæfi.

Of fá námstækifæri bjóðast nemendum með þroskahömlun og skyldar raskanir sem hafa lokið námi á starfsbrautum í framhaldsskólum. Jafnframt gengur þeim erfiðlega að fá störf að námi loknu. Það er því mikil áskorun að fjölga námstilboðum og þjálfunarúrræðum sem ýta undir virkni hópsins og hvetja hann til náms. Hafin er vinna við að kortleggja námstækifæri fatlaðs fólks í víðtæku samráði sem og við innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, og snýr vinnan m.a. að gerð landsáætlunar.

Drög að tillögu til þingsályktunar um málstefnu íslensks táknmáls (ÍTM) voru unnin af starfshópi skipuðum fulltrúum Málnefndar um íslenskt táknmál, Félags heyrnarlausra og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, í víðtæku samstarfi við sérfræðinga í málaflokknum. Íslenskt táknmál (ÍTM) er hefðbundið minnihlutamál á Íslandi skv. lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011. Tillaga til þingsályktunar um mál­stefnu og aðgerðaáætlun um íslenskt táknmál er í vinnslu þar sem Samskiptamiðstöð heyrnar­lausra og heyrnarskertra verður falin meginábyrgð á framkvæmd aðgerða í aðgerðaáætlun eftir því sem við á. Aukin þjónusta við táknmálstalandi fólk gerir því kleift að taka fyllri þátt í samfélaginu en ella og stuðlar aukin þjónusta þannig að því að það standi jafnfætis einstaklingum sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.

Áhættuþættir

Framhaldsfræðslukerfið býður upp á annað tækifæri til náms og námsframboð þarf því að höfða til markhópsins og jafnt til kvenna og karla. Sú staða á einnig við um fullorðið fólk með annað móðurmál en íslensku og fatlað fólk. Það að þátttakendum fækki í vottuðu námi fram­haldsfræðslu á milli ára er metið sem áhætta og því þarf að tryggja að aðgengi sé að fjölbreyttu námi um allt land, að nám sé viðeigandi, svari eftirspurn einstaklinga og atvinnulífs og sé hagnýtt eða feli í sér sýnilegan ávinning. Efla þarf markvisst samtal aðila sem nemur breytingar og framtíðaráskoranir sem bregðast þarf við með skjótari hætti en nú er. Framsækið nám sem nýtir kosti stafrænnar tækni og er betur viðurkennt eða þekkt en í dag hefur alla burði til að ná til fleiri í markhópi sem kjósi þá framhaldsfræðslu umfram aðra sí- og endurmenntun.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2022

Viðmið 2024

Viðmið 2028

Að efla gæði og framboð íslenskukennslu fyrir full­orðna innflytjendur til að auðvelda þeim að taka virkan þátt í samfélaginu.

4.3

4.7

4.a

Fjöldi skráninga á íslensku­námskeið viðurkenndra fræðsluaðila.

8.416

12.000

15.000

Að auka ánægju útlendinga með íslenskunámskeið.

 

Hlutfall ánægðra og mjög ánægðra nemenda í sameiginlegri viðhorfs­könnun.

40%

60%

70%

Að auðvelda fullorðnu fólki með stutta skóla­göngu að afla sér menntunar og starfsréttinda.

4.3

4.7

4.a

Hlutfall fólks á vinnu­markaði sem hefur lokið námi á framhaldsskólastigi.

79%

>80%

>85%

Að efla þjónustu við táknmálstalandi fólk.

 

Fjöldi táknmálstalandi fólks sem á aðstandendur sem sækja táknmálsnámskeið.

8

16

32>

Framboð af útgefnu málörvunarefni fyrir táknmálstalandi börn (fjöldi flokka).

6

10

15

22.3 Stjórnsýsla mennta- og barnamála

Verkefni

Hlutverk mennta- og barnamálaráðuneytisins er að stuðla því að menntun, aðbúnaður og réttindi barna séu ávallt í fyrirrúmi. Ráðuneytið fer með stjórnarmálefni sem varða fræðslumál, málefni barna og ungmenna og íþróttamál. Ráðherra fer með yfirstjórn þeirra stjórnvalda sem undir hann heyra og hefur eftirlit með starfrækslu, fjárreiðum og eignum á vegum þeirra.

Á sviðinu starfar Menntamálastofnun, sbr. lög nr. 91/2015, sem hefur það hlutverk að stuðla að auknum gæðum skólastarfs og framförum í þágu menntunar í samræmi við lög og stefnu stjórnvalda, bestu þekkingu og alþjóðleg viðmið. Fyrirhugað er að setja á fót nýja þjónustustofnun á sviði menntamála sem hafi það hlutverk að styðja við skólastarf og skólaþjónustu um land allt.

Helstu áskoranir

Ráðuneytið mótar langtímastefnur í þeim stjórnarmálefnum sem undir það heyra, í samráði, og innleiðir þær með mælanlegum markmiðum og aðgerðum. Stjórnsýslan stendur frammi fyrir þeirri áskorun að samræma alla stefnu og áætlanagerð sem undir það heyrir og samþætta þjónustu sem er veitt í þágu barna. Í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er á meðal markmiða málaflokksins að endurskipuleggja úrræði fyrir börn og barnafjölskyldur í samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Ráðuneytið notar tölfræðileg gögn, m.a. til að upplýsa Alþingi og borgarana um stöðu mála, til að hafa eftirlit með starfsemi stofnana og sjóða, til að undirbyggja ákvarðanir og móta stefnu og til áætlunargerðar. Mikið magn upplýsinga er fyrirliggjandi, bæði innan ráðuneytis­ins og í hinum ýmsu gagnasöfnum, og mikilvægt er að gera þau aðgengilegri fyrir starfsmenn ráðuneytisins og almenning.

Tækifæri til umbóta

Markmið málaflokksins styður við velsældaráherslu ríkisstjórnarinnar um bætt samskipti við almenning sem miðar að því að gera þjónustuna skýrari, einfaldari og skilvirkari. Þáttur í því er að bæta upplýsingagjöf til almennings um þá starfsemi sem heyrir undir ráðuneytið.

Úrbætur beinast að bættu aðgengi að áreiðanlegum og tímanlegum gögnum. Í þessu felast tækifæri til að nýta betur fyrirliggjandi gögn og bæta tölfræðiupplýsingar sem gagnast ráðu­neytinu, m.a. í stefnumótun.

Ráðuneytið er að þróa og innleiða hagfræði- og félagsfræðilega aðferðafræði við kostnaðar- og ábatamat í tengslum við ákvarðanatöku og stefnumótun ráðuneytis. Þróun aðferðafræðinnar verður byggð á fræðilegum grunni og hyggst ráðuneytið setja á stofn ráðgjafaráð sem skipað verður fulltrúum viðkomandi faggreina í háskólasamfélaginu. Hlutverk ráðgjafaráðsins verður væntanlega tvíþætt, annars vegar að tryggja að aðferðafræði sem beitt er við mat á kostnaðar- og ábatamati ráðuneytisins sé byggð á traustum fræðilegum grundvelli og hins vegar að styðja við gerð mælikvarða verkefna ráðuneytisins og þróa aðferðafræði rannsókna sem byggist á félagsfræðilegum grundvelli. Með þessu móti telur ráðuneytið að tryggja megi faglega nálgun við ákvarðanatöku og stefnumótun, ekki síst vegna langtímasjónarmiða, en fjölmörg verkefni ráðuneytisins eru þess eðlis að árangur er ekki mælanlegur nema til lengri tíma litið þar sem um er að ræða aðgerðir sem beint er að börnum og ungmennum og kemur e.t.v. ekki í ljós fyrr en á fullorðinsárum.

Með setningu sérstakra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er komin umgjörð í lögum sem stuðlar að því að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. Við tekur innleiðing úrbóta í samræmi við framan­greind lög. Meðal markmiða með lagasetningunni er að tryggja sívirk og snemmtæk úrræði til að mæta þörfum barna og fjölskyldna þeirra með þverfaglegri samvinnu þeirra stofnana sem fara með málefni barna. Með því er einkum átt við að grípa börn sem glíma við vanda eða þurfa að öðru leyti sérstakan stuðning eins fljótt og hægt er.

Með samþykkt menntastefnu til 2030 verður unnið að innleiðingu stefnunnar á grundvelli fyrstu aðgerðaáætlunar. Meðal aðgerða er að tryggja aðgengi allra nemenda að heildstæðri skólaþjónustu þar sem þrepaskiptur stuðningur liggi til grundvallar. Önnur aðgerð miðar að markvissum stuðningi við nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Alls er níu aðgerðir að finna í fyrsta áfanga af þremur í innleiðingu nýrrar menntastefnu.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum