Hoppa yfir valmynd

30 Vinnumarkaður og atvinnuleysi

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð félags- og vinnumarkaðsráðherra. Það skiptist í tvo málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2021–2023.

Tafla: Heildarúgjöld málasviðsins

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn málefnasviðsins er stöðugleiki á vinnumarkaði sem þykir mikilvæg forsenda jafnvægis og vaxtar í efnahagslífi. Forsenda þess að sótt verði fram í átt að bættum lífskjörum er að velferð þátttakenda á vinnumarkaði verði höfð í fyrirrúmi sem og að stuðlað verði að því að fólk sé virkt í samfélaginu og líði vel í starfi í öruggu og heilsusamlegu starfsumhverfi sem ætlað er að tryggja vellíðan starfsfólks þannig að það verði m.a. í stakk búið til að takast á við ný verkefni á vinnumarkaði framtíðarinnar. Með þessu móti sé unnið að því að allir komi heilir heim frá vinnu. Þannig má ætla að best verði stuðlað að því að íslenskt atvinnulíf verði samkeppnishæft í alþjóðlegum samanburði.

Meginmarkmið málefnasviðsins er að flest geti verið virkir þátttakendur á vinnumarkaði, óháð kyni, aldri, búsetu, fötlun eða skertri starfsgetu til að sjá sér og sínum farborða, en almenn þátttaka á vinnumarkaði er talin ein þýðingarmesta leiðin til að koma í veg fyrir félagslega einangrun, vanlíðan og fátækt. Þá verði aðstæður á vinnustöðum í samræmi við framþróun og bestu þekkingu á hverjum tíma en í því sambandi þykir m.a. mikilvægt að skoða áhrif loftslags- og tæknibreytinga á íslenskan vinnumarkað og stuðla að réttlátum umskiptum.

Framtíðarsýn og meginmarkmið málefnasviðsins er þannig í samræmi við velsældar­áherslur ríkisstjórnarinnar, s.s. hvað varðar andlegt heilbrigði einstaklinga og virkni þeirra í námi og starfi.

Fjármögnun

Breyting á framlagi til málefnasviðsins á tímabili fjármálaáætlunarinnar skýrist einkum af því að framlög vegna atvinnuleysisbóta hækka um 5,8 ma.kr. Einnig er gert er ráð fyrir 470 m.kr. auknum framlögum til vinnumarkaðsúrræða vegna einstaklinga með skerta starfsgetu vegna heildarendurskoðunar á örorkulífeyriskerfinu. Á móti fellur niður 685 m.kr. tímabundið framlag til Vinnumálastofnunar sem veitt var árið 2021 til þriggja ára til að standa straum af auknum útgjöldum stofnunarinnar vegna aukins atvinnuleysis og fjölgunar gjaldþrota fyrir­tækja.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar. 

Tafla: Fjárheimildir málasviðsins

Helstu áherslur 2024–2028

VIRKNI ÖRYGGI  -  Draga úr fjarveru á vinnumarkaði. Efla stuðningsúrræði við fólk með mismikla starfsgetu. Öruggari og heilsusamlegri vinnustaðir.

30.1 Vinnumál og atvinnuleysi

Verkefni

Málaflokkurinn tekur til aðstoðar við einstaklinga í atvinnuleit, mats á vinnufærni þeirra og skipulags virkra vinnumarkaðsaðgerða sem og starfsendurhæfingar. Undir málaflokkinn heyra m.a. Vinnumálastofnun, Atvinnuleysistryggingasjóður, Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga, Ábyrgðasjóður launa, vinnumál, atvinnuleysi, starfsendurhæfing og starfsendur­hæfingarsjóðir. Sjá nánar bls. 433 í fjármálaáætlun 2023–2027.

Helstu áskoranir

Málaflokkurinn hefur tengingu við velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar um virkni í námi og starfi og andlegt heilbrigði.

Fjallað var um helstu áskoranir málaflokksins á bls. 436–437 í fjármálaáætlun 2023–2027 og er hér vísað til þeirrar umfjöllunar.

Almennt atvinnuleysi lækkaði nokkuð á árinu 2022. Í ársbyrjun var almennt atvinnuleysi 5,2% en var komið niður í 3,4% í árslok og var að meðaltali 3,9% á árinu. Í lok desember 2022 voru 6.848 einstaklingar skráðir án atvinnu hjá Vinnumálastofnun, 3.784 karlar og 3.064 konur. Ætla má að viðspyrna ferðaþjónustunnar hafi stuðlað að lækkandi atvinnuleysi á árinu ásamt nokkurri eftirspurn eftir starfsfólki í verslun og byggingariðnaði.

Samhliða lækkandi atvinnuleysi hefur langtímaatvinnulausum (sem verið hafa lengur en 12 mánuði án atvinnu) fækkað nokkuð en í árslok 2021 var um að ræða 3.802 einstaklinga, 2.140 karla og 1.662 konur. Í árslok 2022 var fjöldinn kominn ofan í 1.786 einstaklinga, þar af var um að ræða 981 karl og 805 konur. Vinnumálastofnun vinnur markvisst með einstaklingum sem hafa verið án atvinnu í langan tíma við að styrkja stöðu þeirra á vinnumarkaði með viðeig­andi stuðningi og úrræðum auk þess sem stofnunin vinnur markvisst að því að finna störf við hæfi hvers og eins. Í febrúar 2023 hófst sérstakt verkefni hjá Vinnumálastofnun þar sem lögð er áhersla á þjónustu og stuðning við þann hóp sem verið hefur lengst án atvinnu og byggir verkefnið á erlendri reynslu og sérstöku fjárframlagi, en markmið verkefnisins er að aðstoða langtímaatvinnulausa við að komast að nýju út á vinnumarkað sem og að greina þann vanda sem hindrar þátttöku á vinnumarkaði sé slíkur vandi til staðar.

Tækifæri til umbóta

Líkt og kemur fram í umfjöllun um málaflokk 27.2 er stefnt að því að leggja til lagabreytingar þar sem lagt verður til að stuðst verði við samþætt sérfræðimat á vinnugetu þar sem litið verði til getu einstaklinga til að framfleyta sér, eins og nánar er lýst í fjármálaáætlun 2023–2027. Mikilvægt þykir að efla þau þjónustuúrræði sem ætluð eru til að styðja fólk til þátttöku á vinnumarkaði og auka samstarf heilsugæslu, félagsþjónustu sveitarfélaga, Vinnu­málastofnunar, VIRK og Tryggingastofnunar ríkisins.

Það eru helstu markmið Vinnumálastofnunar, hvað varðar þjónustu við atvinnuleitendur, að koma í veg fyrir að einstaklingar verði langtímaatvinnulausir og að finna langtíma­atvinnu­lausum sem og einstaklingum með mismikla starfsgetu störf við hæfi, s.s. með samningum við fyrirtæki og stofnanir. Einnig er horft til aukinnar þátttöku í námi í samstarfi við menntakerfið sem og til þess að fjölga að einhverju marki þeim sem nýta sér endurhæfingarúrræði í samstarfi við endurhæfingaraðila. Slíkar aðgerðir eru afar mikilvægar til að draga úr hættu á viðvarandi óvirkni og hugsanlegri örorku en rannsóknir hafa sýnt að löng fjarvera frá vinnumarkaði getur ógnað heilsu og lífsgæðum einstaklinga.

Í desember 2022 var birt yfirlýsing um stuðning stjórnvalda vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Meðal þess sem þar kemur fram er að nefnd um heildarendurskoðun atvinnuleysistrygginga skuli ljúka vinnu sinni eigi síðar en í lok apríl 2023. Jafnframt kemur fram að unnið verði að innleiðingu á umbótum í atvinnuleysistryggingakerfinu á samnings­tímanum í samræmi við tillögur nefndarinnar. Ætla má að mikil tækifæri séu fólgin í þeirri heildarendurskoðun á atvinnuleysistryggingakerfinu sem nú stendur yfir þar sem m.a. verður unnt að aðlaga atvinnuleysistryggingakerfið að breytingum á vinnumarkaði, s.s. hvað varðar breytt ráðningarform. Í fyrrnefndri yfirlýsingu um stuðning stjórnvalda vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í desember 2022 kemur einnig fram að lagt verði mat á greiðslur og hámarksábyrgð Ábyrgðasjóðs launa með það að markmiði að þær verði endurskoðaðar á árinu 2024. Þá muni stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins sameiginlega leggja mat á tekjuöflun og ráðstöfun tryggingagjalds með það að markmiði að tryggja langtímajafnvægi í fjármögnun þeirra réttinda sem það stendur undir í Ábyrgðasjóði launa, Fæðingarorlofssjóði, starfsendurhæfingarsjóði og Atvinnuleysistryggingasjóði.

Áhættuþættir

Það sem helst getur komið í veg fyrir að markmið innan málaflokksins náist er skortur á störfum á vinnumarkaði, þ.m.t. hlutastörfum og sveigjanlegum störfum, þannig að sem flest geti verið þátttakendur á vinnumarkaði þrátt fyrir mismikla starfsgetu og óháð þjóðerni, menntun eða aldri.

Markmið og mælikvarðar

Tvö markmið hafa verið skilgreind sérstaklega fyrir málaflokkinn, sjá nánar bls. 435 í fjármálaáætlun 2023–2027.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2022

Viðmið 2024

Viðmið 2028

Draga úr fjarveru frá vinnumarkaði.

8,5,

8,6

Aukin virkni mæld sem fjöldi lang­tímaatvinnulausra sem afskrá sig hjá Vinnumálastofnun áður en þau hafa fullnýtt bótarétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins.

6.678

1.250

900

8,5,

8,6

Árangur úrræða mældur sem hlut­fall einstaklinga sem eru skráð hjá Vinnumálastofnun í atvinnuleit en afskrá sig hjá stofnuninni vegna vinnu/náms/vinnumarkaðsúrræða og hafa ekki skráð sig aftur án atvinnu hjá stofnuninni sex mánuðum síðar.

85%

85%

85%

Efla stuðningsúrræði fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu í tengslum við þátttöku þeirra á vinnumarkaði.

8.3,

3.4

Fjöldi nýrra starfstækifæra í samstarfi við atvinnulíf fyrir fólk með skerta starfsgetu.

120

200

200

*Staða mælikvarða miðar við árið 2021. Vegna gagnaflutninga milli kerfa, sem Vinnumálastofnun hefur unnið að, hefur stofnunin ekki getað kallað fram nákvæma stöðu þessa mælikvarða árið 2022.

30.20 Vinnumarkaður

Verkefni

Málaflokkurinn tekur til vinnuverndar og sáttamiðlunar á vinnumarkaði. Undir málaflokkinn heyra Vinnueftirlit ríkisins og embætti ríkissáttasemjara.

Vinnuvernd felur í sér að starfsumhverfi á vinnustöðum sé öruggt og heilsusamlegt og annast Vinnueftirlit ríkisins eftirlit með vinnuumhverfi vinnustaða á landinu, þ.m.t. vinnu­vélum og tækjum.

Sáttamiðlun á vinnumarkaði fellur einnig undir málaflokkinn en embætti ríkissáttasemjara annast sáttastörf í vinnudeilum. Enn fremur ber embættinu skylda til að halda skrá yfir gildandi kjarasamninga, fylgjast með ástandi og horfum í atvinnulífi og á vinnumarkaði um allt land, einkum þróun kjaramála og þáttum sem geta valdið ágreiningi í samskiptum samtaka atvinnu­rekenda og samtaka stéttarfélaga.

Helstu áskoranir

Ein helsta áskorun málaflokksins hvað varðar vinnuvernd felst í því að koma á kerfisbundnu vinnuverndarstarfi á vinnustöðum landsins sem byggist á samvinnu atvinnurekenda, stjórnenda og starfsfólks til að viðhalda og bæta öryggi og aðbúnað á vinnustöðum. Tilgangurinn er að koma auga á áhættuþætti í vinnuumhverfi og að bregðast við þeim, m.a. svo unnt sé að koma í veg fyrir vinnuslys, hvers konar heilsutjón og vanlíðan starfsfólks. Í því sambandi þykir jafnframt mikilvægt að skoða áhrif loftslags- og tæknibreytinga á íslenskan vinnumarkað þannig að unnt verði að setja fram tillögur um aðgerðir til að mæta þeim. Í því felst jafnframt sú áskorun að ná til ólíkra hópa með fræðslu og upplýsingum samhliða þeim öru breytingum sem eru á störfum á íslenskum vinnumarkaði. Innleiðing á kerfisbundnu vinnuverndarstarfi getur haft í för með sér breytingar fyrir öll sem starfa innan vinnustaða enda má ætla að því fylgi ávallt áskoranir að innleiða breytingar á vinnustöðum.

Með öflugri vinnuvernd má draga úr nýgengi örorku og efla framleiðni á vinnumarkaði. Vinnuumhverfið getur haft neikvæð áhrif á vellíðan og heilsu fólks þegar ekki er hugað að vinnuvernd og getur það leitt til óvinnufærni til skemmri eða lengri tíma en stoðkerfis­sjúkdómar og geðraskanir virðast vera helstu orsakir örorku hér á landi. Óhófleg streita á vinnustöðum er til þess fallin að auka líkur á heilsutjóni af ýmsu tagi en streita er þekktur áhættuþáttur í tengslum við hreyfi- og stoðkerfi einstaklinga sem og geðsjúkdóma. Auk þess þarf að líta til þess að fleiri konur en karlar greinast með stoðkerfissjúkdóma þegar líður á starfsævina sem leiða til örorku hjá rúmlega tvöfalt fleiri konum en körlum. Bendir það til þess að fleiri konur en karlar nái ekki að ljúka hefðbundinni starfsævi vegna þessa. Þá sýna erlendar rannsóknir að konur eru almennt meira frá vinnu vegna streitutengdra einkenna en karlar. Í því sambandi verður m.a. að horfa til þess að vinnustaðir þar sem áhrif frá sálfélagslegum áhættu­þáttum og áhættuþáttum sem hafa áhrif á hreyfi- og stoðkerfi starfsfólks eru mikil eru oftar en ekki vinnustaðir þar sem konur eru meiri hluti starfsfólks en skólar og vinnustaðir innan heil­brigðiskerfisins hafa verið nefndir sem dæmi um slíka vinnustaði.

Stöðugleiki á vinnumarkaði er mikilvæg forsenda jafnvægis og vaxtar í efnahagslífi. Einn af megináhættuþáttum málaflokksins að því er varðar sáttamiðlun á vinnumarkaði er fjöldi kjaradeilna milli samtaka aðila vinnumarkaðarins á hverjum tíma. Áskorun málaflokksins í þessu sambandi er að bæta vinnubrögð og styðja við samninganefndir með það að markmiði að einn kjarasamningur taki við af öðrum í því skyni að auka fyrirsjáanleika fyrir launafólk og launagreiðendur og minnka hættu á átökum á vinnumarkaði.

Tækifæri til umbóta

Málaflokkurinn hefur tengingu við velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar um virkni í námi og starfi og andlegt heilbrigði, auk þess sem málefnasviðið hefur tengingu við áherslur stjórnvalda þess efnis að sem flest geti verið virk á vinnumarkaði.

Öll njóta ávinnings af góðri vinnuvernd þar sem starfsfólki líður vel í starfi en ætla má að slíkar aðstæður auki framleiðni og dragi úr líkum á fjarveru fólks á vinnumarkaði. Það er óum­deilt að atvinnulífið nýtur góðs af virkri þátttöku sem flestra á vinnumarkaði og það sama á við um samfélagið í heild sinni þar sem gera má ráð fyrir að mikil atvinnuþátttaka fólks dragi úr kostnaði samfélagsins, s.s. í tengslum við heilbrigðisþjónustu, starfsendurhæfingu og lífeyris­greiðslur. Áhersla þarf því að vera á forvarnir í því skyni að tryggja að öll komi heil heim frá vinnu starfsævina á enda en í því sambandi þarf m.a. að huga að sálfélagslegum áhættuþáttum, áhættuþáttum sem tengjast hreyfi- og stoðkerfi, hættum frá vélum og efnum sem og umhverfis­áhrifum.

Vinnueftirlit ríkisins leggur áherslu á að hvetja til samfélagslegrar umræðu um mikilvægi vinnuverndar þannig að stuðlað sé að jákvæðri ímynd og viðhorfi almennings til vinnu­verndarstarfs. Einnig er mikilvægt að styðja og hvetja vinnustaði landsins til að koma á kerfisbundnu vinnuverndarstarfi sem byggist á samvinnu atvinnurekenda, stjórnenda og starfsfólks. Í því efni þarf að efna til almennrar umræðu um mikilvægi góðrar vinnustaða­menningar í síbreytilegu umhverfi, þar á meðal í tengslum við samskipti á vinnustöðum, til að stuðla að vellíðan og koma í veg fyrir neikvæð samskipti, s.s. einelti, ofbeldi og áreitni. Enn fremur þarf að stuðla að þátttöku allra á vinnustaðnum þar sem öll axla ábyrgð á góðri vinnuvernd og vellíðan í vinnuumhverfinu. Þar skiptir máli að líta til fjölbreytileikans á vinnu­stöðum landsins og efla vitund einstakra hópa sem taka virkan þátt á vinnumarkaði. Þá er þýðingarmikið að draga úr vinnutengdum stoðkerfisvanda.

Mikilvægt er að ríkissáttasemjari hafi yfirsýn yfir efndir kjarasamninga og bjóði upp á sáttamiðlunarþjónustu og stuðning á gildistíma kjarasamninga. Slík aðferðafræði eykur líkur á að einn samningur taki við af öðrum. Þá er mikilvægt að samningsaðilar geti komið sér saman um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga áður en viðræður hefjast. Skref í þá átt var stigið við skipun kjaratölfræðinefndar, en með skipun nefndarinnar var stofnað til sam­starfs heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga um gerð og hagnýtingu tölfræði­gagna um laun og efnahag til undirbúnings og eftirfylgni með kjarasamningum. Nefndinni er ætlað að stuðla að því að aðilar samkomulagsins hafi sameiginlegan skilning á eðli, eigin­leikum og þróun þeirra hagtalna sem mestu varða við gerð kjarasamninga. Gagnagrunnur ríkis­sáttasemjara um gildandi kjarasamninga hverju sinni eykur einnig gagnsæi og getur verið liður í upplýstri umræðu um þróun kjarasamninga.

Áhættuþættir

Það sem helst getur komið í veg fyrir að markmið innan málaflokksins náist hvað varðar öflugt vinnuverndarstarf á vinnustöðum landsins er að ekki takist að ná til vinnustaða landsins um mikilvægi góðrar vinnuverndar. Takist ekki að innleiða kerfisbundið vinnuverndarstarf á vinnustöðum er hættara en ella á slysum og vanlíðan hjá starfsfólki sem getur haft í för með sér neikvæðar afleiðingar fyrir einstaklingana sjálfa sem og tilheyrandi kostnað fyrir atvinnu­lífið og samfélagið allt.

Það sem helst getur komið í veg fyrir að það markmið innan málaflokksins náist að efla fyrirbyggjandi sáttamiðlun við gerð kjarasamninga á vinnumarkaði er að aðilar vinnu­markaðarins, með eða án atbeina eða stuðnings ríkissáttasemjara, eigi ekki í virku samtali áður en gildistími kjarasamninga rennur út.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2022

Viðmið 2024

Viðmið 2028

Öruggari og heilsusamlegri vinnustaðir.

8.8., 5.4

Hlutfall vinnustaða með áætlun um öryggi og heilbrigði.

54%

65%

80%

8.8, 5.4

Hlutfall vinnustaða sem hafa vinnuverndarfulltrúa (öryggisnefndir /öryggis­trúnaðarmenn/öryggisverðir).

27%

40%

60%

8.8, 5.4

Fjöldi vettvangsathugana og stafræn samskipti hjá Vinnueftirliti ríkisins.

1.001

1.400

2.000

Efla fyrirbyggjandi sáttamiðlun ríkissátta­semjara við gerð kjara­samninga á vinnumarkaði.

8.0,
8.8

Hlutfall kjarasamninga þar sem ríkissáttasemjari veitir samningsaðilum sátta­miðlunarþjónustu og stuðning á gildistíma fyrri kjara­samnings.

10%

30%

50%

Gerðar hafa verið breytingar á mælikvarða vegna markmiðs nr. 1 frá fjármálaáætlun 2023–2027. Nýir mælikvarðar þykja nákvæmari og betri útfærsla á fyrri mælikvörðum en þeir byggja á könnum frá Maskínu sem var framkvæmd í lok árs 2022.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum