Hoppa yfir valmynd

06 Hagskýrslugerð og grunnskrár

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, innviðaráðherra og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Undir það heyrir einn málaflokkur sem ber sama heiti og sviðið. Eftirfarandi þættir varða málefnasviðið:

  • Miðlun upplýsinga og rekstur á grunnskrám um mikilvæg réttindi. 
  • Hagskýrslugerð, samræming hagtalna og hagrannsóknir.
  • Stafrænar lausnir, öryggi, upplýsinga- og þjónustuveitur og útgáfa skilríkja.
  • Grunngerð, öflun, viðhald og miðlun landupplýsinga.
  • Stefnumótun, innleiðing og samræming opinberra gagna.

Í eftirfarandi töflu má sjá fjárhagslega þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2021–2023.

Tafla: Heildarúgjöld málasviðsins

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn málefnasviðsins er að opinber þjónusta verði byggð upp með lýðræði, skilvirkni, öryggi og þarfir almennings og atvinnulífs að leiðarljósi.

Meginmarkmið málefnasviðsins er að í opinberri þjónustu verði sjálfsafgreiðsla reglan og að gögn stjórnsýslunnar verði örugg, opin, gjaldfrjáls, heilleg, tímanleg, aðeins skráð einu sinni og varin með bestu tæknilegu lausnum á hverjum tíma.

Fjármögnun

Fjárheimild til málefnasviðsins lækkar um 302 m.kr. á tímabili áætlunarinnar og skýrist það að stórum hluta af því að niður falla tímabundin framlög frá fyrri árum.  

Tafla: Fjárheimildir málasviðsins

Helstu áherslur

SAMKEPPNIS-HÆFARA STAFRÆNT SAMFÉLAG - Aukið öryggi upplýsinga og kerfa. Aukið framboð stafrænnar þjónustu. Aukið framboð af gögnum án endurgjalds.

Málaflokkar 

6.1 Hagskýrslugerð, grunnskrár og upplýsingamál

Verkefni

Undir málefnasviðinu eru þrjár stofnanir og eitt verkefni: Hagstofa Íslands heyrir undir forsætisráðherra, Þjóðskrá Íslands heyrir undir innviðaráðherra, málefni um hagnýtingu opinberra gagna heyra undir fjármála- og efnahagsráðherra og Landmælingar Íslands heyra undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Nokkrar breytingar áttu sér stað á árinu 2022 í málaflokknum. Fasteignaskrá var flutt frá Þjóðskrá til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Öryggisflokkun gagna íslenska ríkisins var birt.

Hagstofa Íslands er miðstöð opinberrar hagskýrslugerðar í landinu og hefur forystu um tilhögun, samræmingu og framkvæmd hennar, svo og um samskipti við alþjóðlegar stofnanir um hagskýrslu- og tölfræðimálefni.

Þjóðskrá Íslands hefur það hlutverk að halda þjóðskrá, gefa út vegabréf, nafnskírteini og ýmis vottorð, auk þess að þróa og reka kosningakerfi. Áherslur stofnunarinnar endurspeglast í að auka öryggi stafrænnar stjórnsýslu með því að byggja upp innviði stofnunarinnar, þróa þjóðskrá, kosningakerfi, aðferðarfræði við miðlun gagna og innleiða nýjar öryggiskröfur skilríkja.

Landmælingar Íslands hafa það hlutverk að safna, vinna úr, varðveita og miðla landupplýsingum um Ísland. Landupplýsingar eru grundvallargögn hvers samfélags og tryggja aðgang samfélagsins að upplýsingum um umhverfi og náttúru. Landupplýsingar eru einnig mikilvægar til þess að styðja stefnumótun stjórnvalda á ýmsum sviðum, s.s. á sviði framkvæmda, skipulagsmála, umhverfismála og vöktunar á náttúruvá.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með málefni stafrænnar umbreytingar í ríkis-rekstrinum og hagnýtingu opinberra gagna. Bæði málefni styðja við markmið stafrænnar stefnu hins opinbera og öryggis- og þjónustustefnu fyrir hýsingarumhverfi (skýjaþjónustur).

Helstu áskoranir

Á síðustu árum hefur samfélagið þurft á aukinni skráningu gagna að halda, sem og miðlun ýmissa upplýsinga. Skýr sýn er á að opinber þjónusta verði byggð upp með lýðræði, skilvirkni, öryggi og þarfir almennings og atvinnulífs að leiðarljósi, eins og fram kemur bæði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og framtíðarsýn málefnasviðsins. Mikið er lagt upp úr því að í opinberri þjónustu verði sjálfsafgreiðsla reglan og að gögn stjórnsýslunnar verði m.a. tímanleg, aðeins skráð einu sinni og varin með bestu tæknilegu lausnum á hverjum tíma. Ýmsar áskoranir eru þó til staðar sem vinna þarf með, s.s. söfnun upplýsinga um umhverfisþætti, svokallaða umhverfisreikninga. Um leið er gerð rík krafa um tímanleika og heilleika gagnanna sem og persónuvernd. Með aukinni miðlun gjaldfrjálsra gagna þarf hið opinbera að endurskoða fjármögnun þeirra stofnana sem halda grunnskrár.

Áhrif stafrænna umbreytinga á störf á vinnumarkaði eru umtalsverð en misjöfn milli atvinnugreina. Umræða um áhrifin á íslenskt samfélag er skammt á veg komin en útreikningar Hagstofu Íslands sýna að miklar líkur eru á að um 28% íslensks vinnumarkaðar verði fyrir verulegum breytingum. Aukin stafræn færni er því lykilþáttur til að mæta þessari áskorun og hefur m.a. verið brugðist við því með því að bjóða starfsfólki ríkisins upp á námskeið í hagnýtri notkun skrifstofuhugbúnaðarins Microsoft 365 og annarra námskeiða. Að auki hefur verið veittur stuðningur við Stafræna hæfniklasann sem hefur það verkefni að auka stafræna hæfni í atvinnulífinu. 

Þá felst áskorun í því að örugg sjálfsafgreiðsla á netinu verði meginleið almennings og fyrirtækja að opinberri þjónustu og að stofnanir þrói og veiti þjónustu sína á stafrænu formi á netinu. Sem dæmi má nefna allar landfræðilegar upplýsingar (kort), hagtölur, tölfræði og hvers kyns ópersónugreinanleg gögn.

Tækifæri til umbóta

Mörg tækifæri eru til umbóta og er hér gerð grein fyrir þeim.

Hagskýrslugerð.

Stjórnvöld, atvinnulíf og almenningur þurfa í auknum mæli á að halda fjölbreyttum hagtölum sem uppfylla skilyrði um áreiðanleika og notagildi. Samhliða er sterkt ákall eftir gögnum sem stutt geta við þekkingarleit og rannsóknir. Gera þarf áreiðanlegar hag-tölur aðgengilegar þannig að þær nýtist til ýmiss konar ákvörðunartöku með einföldum og skýrum hætti en auk þess að lýsa framvindu efnahags- og félagsmála eru hagtölur gjarnan notaðar til stefnumótunar og þegar kemur að því að meta áhrif af ákvörðunum stjórnvalda með óvilhöllum hætti.

Til að svara ákalli samfélagsins verður unnið að aukinni tæknivæðingu og stafrænni þróun Hagstofunnar. Um leið verður lögð áhersla á stöðugar umbætur og þróun á nýjum aðferðum og tæknilausnum, þ.m.t. endurbætur á þjóðhagsreikningum, bætt framboð á upplýsingum um kjara- og vinnumarkaðstölfræði með áherslu á stuðning við kjaratölfræðinefnd og gerð færnispár, frekari greiningar á lífskjörum almennings og ýmissa þjóðfélagshópa til að styðja við áherslur um mannréttindi og jafnréttismál, auk þess að styðja við sjálfbært samfélag og stöðu landsins sem velsældarhagkerfi.

Leggja þarf aukna áherslu á aðgengi að upplýsingum og gögnum með endurbótum á stafrænum samskiptum Hagstofunnar við samfélagið, hvort sem horft er til úrtaksrannsókna Hagstofunnar, bættrar nýtingar á stjórnsýslugögnum en einnig miðlunar upplýsinga á vef Hagstofunnar. Endurbæturnar tengjast áherslum ríkisstjórnarinnar um bætt samskipti við almenning og grósku í nýsköpun.

Grunnskrár, kosningar og heildarskipulag upplýsingakerfa.

Þróun og rekstur grunn-skráa ríkisins er dreifð og mikilvægt er að auka samvirkni þeirra á milli og einnig við hin ýmsu upplýsingakerfi hins opinbera. Sóknarfæri felast í að bæta heildarskipulag opinberra upplýsingakerfa sem og þjónustuvefja og tryggja þannig betur öryggi, hagkvæmni og gæði stafrænnar þjónustu. Ríkið hefur hafið innleiðingu á gagnaflutningslaginu Straumurinn (X-Road) með það að markmiði að tengja saman öll upplýsingakerfi hins opinbera þannig að upplýsingar séu skráðar í eitt skipti í stað þess að skrá þær hjá hverri stofnun. Markmiðið er þannig að flytja gögn en ekki fólk, sem tryggir betri þjónustu, minnkar sóun, eykur skilvirkni og hefur jákvæð umhverfisáhrif.

Tækifæri er í að samhliða þessum breytingum verði greiðslufyrirkomulag endurskoðað vegna veitinga upplýsinga úr grunnskrám þar sem gögnum er dreift með öðrum hætti en nú er gert, t.a.m. með vefþjónustum. Grunnskráin þjóðskrá leggur grunninn að tekjuöflunarkerfi ríkisins, almannatryggingakerfi landsins, banka- og viðskiptamannakerfi og stafrænni opin-berri þjónustu svo eitthvað sé talið og því brýnt að kerfið sé í stakk búið að uppfylla kröfur samtímans.

Einnig liggja tækifæri í að vinna að endurhönnun og uppfærslu á skrám/gagnagrunnum Þjóðskrár Íslands til að koma til móts við auknar kröfur um vernd persónuupplýsinga og aukna þróun í upplýsingatækni. Nauðsynlegt er að stjórna hvernig og hvaða persónuupplýsingum er miðlað til að tryggja öryggi upplýsinganna og til samræmis við öryggisflokkun gagna ríkisins.

Til að mæta áskorunum er varða skráningu og miðlun gagna hefur verið lögð áhersla á að fjölga stafrænum eyðublöðum og þar með að auka sjálfsafgreiðslu í skráningu hjá Þjóðskrá Íslands. Þá er verið að vinna að því að vefuppfletti og vefþjónustum verði komið á fyrir miðlun þjóðskrárupplýsinga.

Stafræn stefna um þjónustu hins opinbera leggur m.a. áherslu á aukna samkeppnishæfni Íslands í alþjóðasamhengi. Hluti af því er að gögn hins opinbera verði gerð aðgengileg og hagnýtt að teknu tilliti til persónuverndarsjónarmiða og samþykkis einstaklinga. Að sama skapi skuli möguleikar stafrænna innviða nýttir til að auka lýðræðislega þátttöku með gagnvirkni og samráði við almenning.

Grunnskrár leika lykilhlutverk í að stuðla að bættum samskiptum við almenning sem er ein af velsældaráherslum ríkisstjórnarinnar. Framþróun grunnskráa og aðgengileiki upplýsinga tengist velsældaráherslum um grósku í nýsköpun og kolefnishlutlausa framtíð.

Opin gögn.

Opin gögn skapa jákvæð samfélagsleg, efnahagsleg og pólitísk áhrif, t.d. í formi bættrar þjónustu, gagnsæis, nýsköpunar hjá hinu opinbera og á einkamarkaði og með bættri ákvarðanatöku opinberra aðila. Opinberar stofnanir nota mismunandi aðferðafræði og hugbúnað við að safna saman gögnum og við greiningu þeirra og mismunandi hugbúnað við framsetningu. Nauðsynlegt er að stuðla að samræmingu milli opinberra stofnana varðandi gagnavinnslu. Stefnt verður að því að öll ópersónubundin opinber gögn sem megi birta séu aðgengileg á stafrænu formi, án endurgjalds. Þá verður unnið að mótun stefnu og skipulags sem tryggir markvissar aðgerðir svo opin gögn skapi verðmæti fyrir samfélagið. Þannig má fjölga nýsköpunarmöguleikum, styrkja atvinnulífið, ýta undir rannsóknir og auka traust og gagnsæi í stjórnsýslunni. Ráðgerðar eru breytingar á lögum um endurnot opinberra upplýsinga á grundvelli tilskipunar ESB 2019/1024 til að styrkja þá vegferð. Á vefsvæðinu opingogn.is veita opinberir aðilar aðgengi að gögnum sínum. Ráðgert er að endurskipuleggja vefsvæðið með tilliti til framsetningar og betra aðgengis að þeim gagnasettum og vefþjónustum sem ríkisaðilar bjóða upp á.

Kynja- og jafnréttissjónarmið.

Til að auka jafnrétti og velsæld er grundvallaratriði að styðja við jafnt aðgengi ólíkra samfélagshópa að stafrænni þjónustu og að gögnum sem varða hópinn beint. Mikilvægt er að greina frekar gögn í málaflokknum eftir kyni og öðrum bak-grunnsbreytum en haldbær gögn skortir um stöðu jaðarsettra hópa.

Þróun umboðskerfis fyrir einstaklinga með skert aðgengi eða færni í stafrænum aðgerðum er mikilvægt verkefni og tækifæri til að jafna aðstöðumun að stafrænum þjónustum ríkisins. Að sama skapi styrkir umboðskerfið öryggi og rekjanleika í stafrænni þjónustu. Umboðskerfið er þróað af Stafrænu Íslandi í samstarfi við önnur ráðuneyti. 

Auknir sjálfsafgreiðslumöguleikar auka tækifæri einstaklinga af öllum kynjum til að taka þátt í ákvörðunum er varða þeirra eigin hagsmuni og eru til þess fallnir að auka jafnrétti. Þá auka þeir einnig aðgengi þeirra sem búið hafa við ójafnt aðgengi að stafrænni þjónustu eða stafrænni hæfni. Ekki liggur fyrir mat á áhrifum á ólaunaða vinnu sem þessu kann að fylgja fyrir aðstandendur en konur sinna almennt meiri ólaunaðri vinnu en karlar. Unnið er að verkefni sem ætlað er að varpa ljósi á áhrif stafvæðingar þjónustu á jafnrétti kynjanna út frá sjónarhóli notenda. 

Áhættuþættir

Fyrirkomulag rekstrar og högunar upplýsingakerfa ríkisins hefur mikið um það að segja hvernig aðgengi að gögnum er háttað, hvernig þeim er miðlað innan ríkisins og hvernig þau eru birt einstaklingum og lögaðilum. Ríkisaðilar hafa lengi búið við dreifstýrða högun í upplýsingatækni. Slíkt fyrirkomulag býður upp á sveigjanleika en þó á kostnað samræmingar og samhæfingar. Gögn eru því ekki endilega á samræmdu formi eða notkun sambærilegra gagna aðgengileg milli upplýsingakerfa. Samræming í högun er því stór áhættuþáttur þegar kemur að aukinni hagnýtingu og einskráningu gagna. 

Markmið og mælikvarðar

Markmið
HM
Mælikvarðar
Staða 2022
Viðmið 2024
Viðmið 2028
1. Auka framboð öruggrar, stafrænnar þjónustu.
16.6
Frammistaða í stafrænni þjónustu stjórnvalda skv. EU eGovernment Benchmark.
4. sæti
1.–3.sæti
1.–3.sæti
 
16.6
Fjöldi vefþjónusta (API) aðgengilegur fyrir grunnskrár ríkisins.
12 (11%)
50 (45%)
111 (100%)
 
2. Bæta gæði, framboð og aðgengi að opinberum gögnum og auka möguleika fólks til lýðræðislegrar þátttöku.
16.6, 16.1,10.2
Árangursvísir European Data Portal fyrir opin gögn[1] sem hlutfall af hæsta gildi stigagjafarinnar.
46
70
80
 

[1] European Data Portal hefur gert úttekt (e. maturity assessment) vegna opinna gagna hjá þjóðum Evrópu sem metur stefnu, vefgátt, ávinning og gæði. Hæsta samanlagða gildi er 2.600 stig og er þjóðunum raðað eftir því hver árangur þeirra er að því að ná því marki, mældur í prósentum. https://data.europa.eu/en/publications/open-data-maturity/2022

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum