Hoppa yfir valmynd

17 Umhverfismál

Umfang

Starfsemi á málefnasviði umhverfismála er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og skiptist í fimm málaflokka. Í eftirfarandi töflu má sjá fjárhagslega þróun málefnasviðsins og einstakra málaflokka á tímabilinu 2021–2023.

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn málefnasviðsins er að Ísland verði meðal leiðandi þjóða í loftslagsmálum, með verndun náttúrufarslegra verðmæta, minni myndun og urðun úrgangs, sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og rannsóknum á þeim, og leggi þannig af mörkum fyrir komandi kynslóðir. Öryggi almennings gagnvart náttúruvá verði eins og best verður á kosið.

Meginmarkmið málefnasviðsins er:

  • Að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, aðlaga samfélag og lífríki að loftslagsbreytingum og vinna að kolefnishlutleysi Íslands.
  • Að koma á hringrásarhagkerfi með vörur og þjónustu til að stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu, draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnslu hans.
  • Að vernda náttúru Íslands, efla líffræðilega fjölbreytni og tryggja sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda.
  • Að tryggja öryggi almennings gagnvart náttúruvá.

Fjármögnun

Helstu breytingar frá fjármálaáætlun 2023–2027 eru á fjármögnun með ríkistekjum sem aukast um 1.950 m.kr. á tímabilinu 2024–2028. Þar af er aukning vegna Endurvinnslunnar hf. áætluð 835 m.kr. í samræmi við áætlaðar magnbreytingar á umsýsluþóknun og skilagjaldi, aukning vegna Úrvinnslusjóðs er áætluð 300 m.kr. vegna áætlaðra breytinga á úrvinnslugjaldi og tekjuaukning fjögurra annarra stofnana áætluð um 777 m.kr., einkum vegna aukins fjölda ferðamanna.

Einnig er um að ræða tímabundna 1.690 m.kr. aukningu fjárheimilda til Ofanflóðasjóðs til framkvæmdaverkefna auk 376 m.kr. aukningar á almennu útgjaldasvigrúmi málefnasviðsins.

Á móti falla niður 1.939 m.kr. fjárheimildir á tímabilinu og vegur þar þyngst 800 m.kr. niðurfelling fjárheimildar vegna Kyoto-bókunar sem kom inn í fjárlögum 2023 til eins árs. Að auki er gert ráð fyrir 784 m.kr. aðhaldi í starfsemi málefnasviðsins á tímabilinu.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Helstu áherslur 2024–2028

KOLEFNIS-HLUTLEYSI OG ÍSLENSK NÁTTÚRA  -  Kolefnishlutlaust Ísland, eigi síðar en 2040 með samdrætti í losun gróðurhúsa-lofttegunda í sam-ræmi við markmið Parísarsamningsins og aukinni bindingu kolefnis. Vernd íslenskrar náttúru fyrir komandi kyn-slóðir, með áherslu á fjölbreytileika lífríkis og jarðminja, endur-heimt jarðvegs og gróðurs og vernd landslags og víðerna. Efling hringrásar-hagkerfisins með verðmætasköpun byggðri á ábyrgari neyslu, samdrætti í myndun úrgangs og betri nýtingu auðlinda.

17.1 Náttúruvernd, skógrækt og landgræðsla

Verkefni

Helstu verkefni sem falla undir málaflokkinn eru: umsjón og rekstur náttúruverndarsvæða, verndun líffræðilegrar fjölbreytni, innviðauppbygging og landvarsla, gróður- og jarðvegs­vernd, stöðvun eyðingar jarðvegs og gróðurs, eftirlit með nýtingu lands, endurheimt raskaðra vistkerfa, þ.m.t. birkiskóga og mýrlendis, og uppbygging og sjálfbær nýting skógarauðlindar. Um verkefni innan málaflokksins gilda einkum lög um náttúruvernd, lög um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, lög um landgræðslu og lög um skóga og skógrækt.

Eftirtaldir ríkisaðilar falla undir málaflokkinn: Landgræðslan, Skógræktin, Vatnajökuls­þjóðgarður, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum og sá hluti Umhverfisstofnunar er lýtur að öðrum þjóðgörðum og friðlýstum svæðum. Einnig heyra undir málaflokkinn átta náttúrustofur víðs vegar um landið sem eru á forræði sveitarfélaga en fá rekstrarstyrk í gegnum fjárlög.

Helstu áskoranir

Land á Íslandi ber mjög víða merki hnignunar vistkerfa. Síðustu ár hafa fjölsóttir áfanga­staðir átt undir högg að sækja vegna ágangs. Það er áskorun að vernda líffræðilega fjölbreytni og að tryggja að nýting lands sé sjálfbær og í samræmi við ástand þess, m.a. á svæðum þar sem hætta er á jarðvegsrofi og samfara álagi vegna ferðamanna síðustu ár.

Margar stofnanir sinna umsjón lands sem sótt er heim af ferðamönnum. Samhæfing stofn­ana til að vernda svæðin fyrir álagi, sinna þjónustu og tryggja öryggi þeirra ferðamanna er því nokkur áskorun. Fjölgun ferðamanna eftir niðursveiflu vegna Covid og sífellt lengra ferða­mannatímabil veldur einnig auknu álagi á náttúruverndarsvæðin og þá hefur fjölgun skemmti­ferðaskipa og gesta þeirra á svæðin valdið því að álagstoppar á svæðunum hafa aukist. Landtaka skemmtiferðaskipa á friðlýstum svæðum er einnig nokkur áskorun þar sem ekki er til staðar regluverk í tengslum við landtöku skipa.

Fyrir liggur nýsamþykkt stefna um landgræðslu og skógrækt, Land og líf. Þar eru settar fram áherslur um heil og fjölbreytt vistkerfi, náttúrmiðaðar lausnir í loftslagsmálum, sjálfbæra landnýtingu, þekkingu, samstarf og lýðheilsu og jákvæða byggðaþróun. Unnið er að innleið­ingu stefnunnar í samræmi við aðgerðaáætlun. Losun gróðurhúsalofttegunda frá landi er stærsti einstaki losunarþátturinn í losunarbókhaldi Íslands og veruleg áskorun. Losun er mest annars vegar frá þurrkuðu mýrlendi og hins vegar virðist vera veruleg losun frá illa förnu mólendi.

Líffræðilegri fjölbreytni hefur hnignað verulega á alþjóðavísu og ábyrgð Íslands hefur aukist varðandi verndun vistgerða, vistkerfa og tegunda hér á landi. Aukið álag á vistkerfi vegna landnotkunar eykur hættu á að líffræðilegri fjölbreytni sé ógnað.

Hvað varðar áskoranir í kynja- og jafnréttismálum málaflokksins eru þær óbreyttar frá fjármálaáætlun 2023–2027 og eru í samræmi við Stöðuskýrslu 2022.

Tækifæri til umbóta

Unnið er að því að byggja innviði til að vernda náttúru og að stýra nýtingu svæða. Þessar aðgerðir hafa bætt verulega úr á mörgum þessara svæða. Ná þarf fram aukinni samlegð í verkefnum stofnana sem fara með umsjón á náttúruverndarsvæðum og öðrum svæðum sem njóta verndar. Náttúruvernd sem byggir á öflugu samstarfi nærsamfélaga, sveitarfélaga og ríkis getur stuðlað að jákvæðri byggðaþróun og sterkri umgjörð ferðamannastaða, s.s. með stofnun þjóðgarða. Staðsetning starfsstöðva náttúruverndarsvæða í nærsamfélaginu ýtir undir frumkvæði íbúa og getur styrkt áhuga á náttúruvernd.

Auka þarf áhuga landeigenda á endurheimt vistkerfa, ekki síst votlendis. Veruleg tækifæri liggja í samstarfi við landeigendur um aukna endurheimt birkiskóga og kjarrlendis, með því að friða svæði fyrir búfjárbeit eða stjórna nýtingu á markvissan hátt og auka endurheimt votlendis. Ríkið getur gengið á undan í slíkum aðgerðum á löndum í þess eigu. Einnig er aukinn áhugi á framleiðslu vottaðra kolefniseininga með aðgerðum í landnotkun en slík verkefni þurfa að lúta alþjóðlega viðurkenndum stöðlum.

Unnið er að stefnumótun og framkvæmdaáætlun fyrir líffræðilega fjölbreytni hér á landi. Sú stefna mun hafa til hliðsjónar nýsamþykktan alþjóðaramma um líffræðilega fjölbreytni sem samþykktur var á aðildarríkjaþingi samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Þar eru sett fram markmið um verndun líffræðilegrar fjölbreytni, sjálfbæra nýtingu auðlinda lífríkisins og endurheimt vistkerfa.

Áhættuþættir

Ferðamönnum hér á landi hefur fjölgað mikið á undanförnum árum. Af þeirri ástæðu hefur skapast álag á ferðamannastaði í náttúru Íslands. Til að bregðast við þessu hefur verið unnið að uppbyggingu innviða til verndar náttúrunni, samræmdum merkingum þar sem varað er við hættu og leiðbeint um góða umgengni og þróuð kerfi til að vara við hættulegum aðstæðum, s.s. veðri og færð.

Markmið og mælikvarðar

Sett eru tvö markmið fyrir málaflokkinn. Standa þau óbreytt frá fyrri fjármálaáætlun og er því vísað til fyrri áætlunar varðandi lýsingu á tilgangi þeirra. Yfirlit yfir markmið, mælikvarða og sett viðmið um framgang þeirra má sjá í meðfylgjandi töflu: 

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2022

Viðmið 2024

Viðmið 2028

1. Að bæta ástand áfangastaða innan náttúruverndarsvæða.

15.1

Hlutfall metinna áfangastaða innan þolmarka (%).

88

95

100

2. Að auka árlegt umfang uppgræðslu og endurheimtar vistkerfa og skógræktar.

13.1, 13.2, 15.1, 15.2, 15.3

Árleg ný uppgræðslu- og endurheimtar­verkefni (ha).

5.500

7.250

15.000

 

Endurheimt votlendis (ha).

85

810

2.500

 

Árleg ný skógrækt (ha).*

1.800

3.400

5.000

 

Áætluð kolefnis­binding

(t CO2-ígildi á ári).

788.000

888.000

1.214.000

 

Áætlaður samdráttur í losun gróðurhúsa­lofttegunda frá landi vegna endurheimtar votlendis (t CO2-ígildi á ári).

30.166

52.457

101.257

* Stór hluti árlegrar nýrrar skógræktar er endurheimt birkiskóga.

17.2 Rannsóknir og vöktun á náttúru íslands

Verkefni

Helstu verkefni sem falla undir málaflokkinn eru grunnrannsóknir á náttúru og auðlindum Íslands, vöktun á náttúruvá og náttúru landsins, vöktun áhrifa landnýtingar og umhverfisþátta, miðlun og hagnýting rannsókna.

Eftirtaldir ríkisaðilar falla undir málaflokkinn: Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúru­rannsóknastöðin við Mývatn og Veðurstofa Íslands.

Helstu áskoranir

Reglubundin vöktun náttúruvár er ekki fullnægjandi og því er helsta áskorunin að tryggja fullnægjandi og reglubundna vöktun vegna náttúruvár þannig að fyrir liggi nauðsynlegar upplýsingar til viðbragðsaðila. Fyrir liggur áætlun um eflingu vöktunar sem felur m.a. í sér þéttingu mælanets með áherslu á gosbeltið til að tryggja að rýming í nágrenni eldstöðva geti hafist eins fljótt og auðið er ef kemur til eldgosa.

Álag hefur aukist á náttúruverndarsvæðum hér á landi og loftslagsbreytingar geta haft í för með sér miklar breytingar á náttúrufari. Brýnt er að vakta vel þróun náttúrufars hér á landi og breytingar sem rekja má til loftslagsbreytinga. Slík vöktun leggur grunninn að þekkingu á breytingum sem rekja má til umhverfis og mannlegra athafna.

Hvað varðar áskoranir í kynja- og jafnréttismálum málaflokksins eru þær óbreyttar frá fjármálaáætlun 2023–2027 og eru í samræmi við Stöðuskýrslu 2022.

Tækifæri til umbóta

Unnið er að áætlun um innleiðingu vöktunar á lykilþáttum íslenskrar náttúru í samræmi við ákvæði laga um náttúruvernd og nú þegar hefur verið komið á vöktun á náttúruverndarsvæðum sem eru undir álagi vegna ferðamennsku.

Að vinna að því að uppfylla meginmarkmið Sendai-sáttmálans þar sem m.a. skal vinna að því að draga úr afleiðingum og áhrifum náttúruhamfara á líf og heilsu, mikilvæga innviði og grunnþjónustu.

Fyrir dyrum stendur að móta stefnu um vöktun og rannsóknir sem tengjast náttúruvá þar sem skýr mynd verði dregin upp af forgangsröðun verkefna. Mikilvægt er að endurspegla þörf samfélagsins til að geta tekist á við náttúruvá sem og afleiðingar atvika af völdum náttúruvár.

Meðal annarra tækifæra til umbóta innan málaflokksins er að auka samlegð í starfsemi stofnana, s.s. með samnýtingu húsnæðis og tækjabúnaðar, mannauðs, gagnagrunna, land­upplýsinga og miðlunar. Með þessu má bæta þjónustu og nýtingu fjármuna.

Áhættuþættir

Ófullnægjandi vöktunarstig náttúruvár getur aukið líkur á mann- og eignatjóni. Unnið hefur verið að því að skilgreina vöktunarstig og efla og þétta mælanet náttúruvár í því skyni að bæta upplýsingagjöf til viðbragðsaðila.

Loftslagsbreytingar munu að öllum líkindum hafa mikil áhrif á náttúrufar á Íslandi og haf­svæði við landið en skortur er á rannsóknum og vöktun á lífríki landsins og hafsins í tengslum við loftslagsbreytingar. Ef ekki er nægileg þekking á líklegum afleiðingum loftslagsbreytinga bæði á landi og sjó, þ.m.t. varðandi súrnun hafsins og verndarstöðu tegunda og vistgerða, er ekki hægt að laga samfélag að væntanlegum breytingum og byggja ákvarðanir, s.s. í skipulags­málum og varðandi varnir gegn náttúruvá, á bestu upplýsingum um væntanlegar breytingar á sjávarstöðu, úrkomu, vatnafari o.fl. þáttum.

Markmið og mælikvarðar

Sett eru tvö markmið fyrir málaflokkinn og standa þau óbreytt frá fyrri fjármálaáætlun og er því vísað til fyrri áætlunar varðandi lýsingu á tilgangi þeirra. Yfirlit yfir markmið, mælikvarða og sett viðmið um framgang þeirra má sjá í meðfylgjandi töflu.

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2022

Viðmið 2024

Viðmið 2028

1. Að efla vöktunarkerfi vegna náttúruvár.

13.1,

13.2,

13.3

Hlutfall árlegs mats á stöðu þéttleika mælikerfa við virkar eldstöðvar á grænu í litakerfi. (%)

80

95

95*

 

Hlutfall þess landsvæðis sem uppfært veðursjárkerfi nær til. (%)

50

66

100

2. Að efla rannsóknir á áhrifum loftslags­breytinga.

13.1,

13.2,

13.3

Hlutfall innleiðingar á miðlunar- og þjónustuáætlun skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands. (%)

40

60

100

 

Fjöldi uppsettra samtengdra sjávarborðs- og GPS-mæla í rekstri (til vöktunar og greiningar á sjávarstöðubreytingum meðfram strandlengju Íslands).

3

8

8**

*Stefnt að 100% en raunhæf óskastaða að ná 95% í mati.
** Gert ráð fyrir að átta mælar fullnægi vöktunarþörf og að uppbyggingu ljúki 2024.

17.3 Meðferð úrgangs

Verkefni

Helsta verkefni málaflokksins er að draga úr sóun með því að koma í veg fyrir myndun úrgangs og auka endurnotkun, stuðla að bættri meðhöndlun úrgangs með endurvinnslu og annarri endurnýtingu og stuðla þannig að sem minnstri förgun, í anda hringrásarhagkerfis.

Eftirtaldir ríkisaðilar falla undir málaflokkinn: Úrvinnslusjóður og Endurvinnslan hf.

Helstu áskoranir

Núverandi auðlindanotkun er mjög víða ósjálfbær og afar brýnt að takast á við þau umhverfis- og loftslagsáhrif sem neysla í nútímasamfélagi hefur í för með sér.

Magn heimilisúrgangs hér á landi á hvern íbúa er með því mesta sem gerist þegar horft er til ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu.

Endurvinnsla heimilisúrgangs er of lítil og um helmingi minni en er að jafnaði í ríkjum Evrópusambandsins. Jákvæð þróun hefur verið á undanförnum árum í því að bæta meðhöndlun úrgangs en hún hefur verið of hæg og vinna þarf að úrbótum með markvissari hætti og í stærri skrefum til þess að núverandi markmið varðandi meðhöndlun úrgangs náist.

Þar sem konur verja mun meiri tíma en karlar í ólaunaða vinnu sem tengist heimilishaldi og umönnun er líklegt að auknar kröfur um endurvinnslu á heimilum hafi þau áhrif að auka vinnuálag kvenna. Ekki hefur verið gerð sérstök rannsókn þar að lútandi en mikilvægt er að taka tillit til þessa kynjahalla og kanna áhrif slíkra aðgerða við útfærslur lausna eins og hægt er og vinna að frekari gagnasöfnun.

Tækifæri til umbóta

Að framfylgja stefnu um úrgangsforvarnir, Saman gegn sóun, þar sem áhersla er lögð á að draga úr neyslu, nýta betur og minnka sóun. Stefnunni er m.a. ætlað að auka sjálfbæra neyslu og stuðla að því að lífshættir haldist í hendur við aðferðir sem auka nýtni, nýta hluti betur svo þeir verði ekki að úrgangi, draga úr notkun einnota umbúða, stuðla að hönnun vöru með efnum sem ekki eru skaðleg heilsu og umhverfi, auka græna nýsköpun og draga enn frekar úr förgun úrgangs.

Mikill vöxtur er í nýtnihagkerfinu svokallaða og tækifæri til enn meiri vaxtar. Um 40 aðilar hérlendis sinna sölu á notuðum fatnaði, húsgögnum og öðrum nytjahlutum. Líkur eru á að samanlögð velta stærstu verslananna með notaða nytjahluti hafi numið 1,7-2 ma.kr. á árinu 2022. Sé litið til veltu tíu stærstu verslananna sem selja notuð föt þá  jókst sala þeirra um allt að 35% á milli áranna 2020 og 2021.

Mikilvæg skref til að stuðla að framþróun í meðhöndlun úrgangs voru tekin árið 2021 með setningu laga nr. 103/2021 sem breyttu lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald. Lögin komu til fullrar framkvæmdar 1. janúar 2023 og eiga m.a. að stuðla að aukinni flokkun úrgangs, í því augnamiði að auðvelda endurvinnslu hans og draga úr urðun. Nauðsynlegt er að styðja við framkvæmd þeirra grund­vallarbreytinga í úrgangsmálum sem lögin boða, s.s. varðandi uppbyggingu innviða til endurvinnslu úrgangs hér á landi.

Frekari tækifæri til umbóta felast m.a. í þeim aðgerðum sem koma fram í Í átt að hring­rásarhagkerfi, stefnu í úrgangsmálum, Úr viðjum plastsins, aðgerðaáætlun í plastmálefnum, og Minni matarsóun, aðgerðaáætlun gegn matarsóun.

Þegar þessum áskorunum er mætt ber að leggja áherslu á eflingu hringrásarhagkerfisins þar sem markvisst er komið í veg fyrir myndun úrgangs hér á landi og stuðlað að betri meðhöndlun þess úrgangs sem myndast. Einn af lykilþáttunum í því sambandi er forgangsröðun sem skal leggja til grundvallar við meðhöndlun úrgangs, svokallaður úrgangsþríhyrningur.

Í skoðun er að leggja fram frumvarp á Alþingi þar sem lagður yrði skattur á urðun almenns úrgangs, svokallaður grænn skattur, fyrir árslok 2023. Tekjum af skattinum yrði varið til verkefna til að styðja við innleiðingu hringrásarhagkerfis hér á landi.

Áhættuþættir

Að ekki takist að rjúfa þau sterku tengsl sem eru á milli neyslumynsturs nútímans og magns úrgangs sem fellur til. Jafnframt að breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 103/2021 leiði ekki til aukinnar endurvinnslu nægjanlega mikið og nægjanlega hratt, auk þess sem áhætta er fólgin í að uppbygging innviða hér á landi til meðhöndlunar úrgangs verði ekki nægjanlega hröð til að mæta því aukna magni af flokkuðum úrgangi sem full framkvæmd laganna er líkleg til að leiða til. Á það einkum við um lífrænan úrgang.

Enn fremur er fólgin í því áhætta að ekki náist samstaða um mikilvægar aðgerðir í málaflokknum, s.s. um álagningu skatts á urðun og innleiðingu banns við urðun alls lífræns úrgangs. Afleiðingarnar gætu orðið þær að mikilvæg tækifæri sem felast í virku hringrásar­hagkerfi tapist, Ísland sitji enn verr eftir en þegar er í málaflokknum og alþjóðlegar skuldbind­ingar verði ekki uppfylltar. Til að draga úr áhættunni er nauðsynlegt að ríkið styðji með mark­vissum hætti við sveitarfélög og atvinnulíf í málaflokknum, beiti sér fyrir aukinni samvinnu og samráði við þessa aðila og standi fyrir öflugri fræðslu til almennings og annarra um úr­gangsmál.

Markmið og mælikvarðar

Sett er eitt markmið fyrir málaflokkinn og stendur það óbreytt frá fyrri fjármálaáætlun og er því vísað til fyrri áætlunar varðandi lýsingu á tilgangi þess. Yfirlit yfir markmið, mæli­kvarða og sett viðmið um framgang má sjá í meðfylgjandi töflu:

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2022

Viðmið 2025**

Viðmið 2030**

1. Að auka endurvinnslu heimilisúrgangs.

11.6

12.1,

12.5

Hlutfall heimilisúrgangs sem er endurunninn.

27%*

55%

60%

* Upplýsingar um hlutfall endurunnins heimilisúrgangs fyrir árið 2022 liggja ekki fyrir. Hlutfallið var 27% árið 2021, 26% árið 2020 og 27% árið 2019.
** Viðmið um framvindu árangurs eru hér sett fram fyrir árin 2025 og 2030 í stað áranna 2024 og 2028 sem er gildistími áætlunarinnar

17.4 Varnir gegn náttúruvá

Verkefni

Helstu verkefni sem falla undir málaflokkinn eru gerð hættumats vegna ofanflóða, eldgosa, vatns- og sjávarflóða, frumathugun og hönnun varnarmannvirkja, uppbygging og viðhald varnarmannvirkja.

Eftirtaldir ríkisaðilar falla undir málaflokkinn: Ofanflóðasjóður.

Helstu áskoranir

Að tryggja ásættanlega uppbyggingu varnarmannvirkja og vöktun vegna ofanflóða (náttúruvár) þar sem hætta á mann- og eignatjóni hefur vaxið vegna áhrifa loftslagsbreytinga og veðurfarsbreytinga af þeim völdum.

Tímaramminn sem er til umráða til að ljúka þeim verkefnum sem hefur verið tekin ákvörðun um að framkvæma er stuttur.

Í skoðun er að verja jafnframt atvinnuhúsnæði og er úttekt á ofanflóðaaðstæðum á atvinnu­svæðum að ljúka.

Að tryggja uppfært hættumat.

Auknum fjármunum verður ráðstafað til málaflokksins á næstu árum til þess að ljúka fram­kvæmdum fyrr en áætlað var. Á grundvelli uppfærðrar áætlunar um uppbyggingu varnar­mannvirkja er gert ráð fyrir að uppbyggingu verði lokið árið 2033.

Markmið verkefnisins stuðlar að jafnrétti með því að tryggja öryggi íbúa og samfélags gegn ofanflóðum/náttúruvá en konur og börn hafa síður líkamlega burði til þess að bregðast við og eru því líklegri til þess að verða fyrir neikvæðum áhrifum þessa. Fjármunir, sem ráðstafað er innan málaflokksins, renna að miklu leyti til karla þar sem byggingarstarfsemi og mann­virkjagerð er karllæg atvinnugrein samkvæmt vinnumarkaðsgögnum. Á hinn bóginn er slíkum mannvirkjum ætlað að tryggja öryggi þeirra er búa og starfa á eða nálægt hættusvæðum og eru því beinir haghafar slíkra verkefna. Skortur er á rannsóknum og gögnum um stöðu kynjanna í málaflokknum að öðru leyti.

Tækifæri til umbóta

Í skoðun er að þær tekjur sem renna í sjóðinn verði nýttar til að byggja upp varnargarða.

Áhættuþættir

Hætta á ofanflóðum sker sig frá annarri náttúruvá á Íslandi þar sem líkur á manntjóni eru meiri af þeirra völdum en vegna annarrar náttúruvár. Unnið hefur verið að uppbyggingu ofan­flóðamannvirkja mörg undanfarin ár og einnig hefur vöktun verið efld og strangari kröfur gerðar um viðbrögð við yfirvofandi flóðahættu, sem og rýmingaráætlanir.

Markmið og mælikvarðar

Sett er eitt markmið fyrir málaflokkinn og stendur það óbreytt frá fyrri fjármálaáætlun og er því vísað til fyrri áætlunar varðandi lýsingu á tilgangi þess. Yfirlit yfir markmið, mæli­kvarða og sett viðmið um framgang má sjá í meðfylgjandi töflu:

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2022

Viðmið 2024

Viðmið 2028

1. Að tryggja fullnægjandi öryggi fyrir íbúa landsins gegn ofanflóðum.

11.1

11.5

Fjöldi lokinna

verkefna (af 49).

29

31

37

17.5 Stjórnsýsla umhverfismála

Verkefni

Helstu verkefni sem falla undir málaflokkinn eru loftslagsmál, stjórnsýsla náttúru­verndarmála, mat á verndargildi og friðlýsingar, að tryggja sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, að tryggja heilnæmt umhverfi og öruggar neysluvörur og mat á umhverfisáhrifum, miðlun upplýsinga til almennings, þátttökuréttindi almennings og að tryggja réttláta málsmeðferð, stjórn vatnamála og fráveitumál. Loftslagsmál eru snar þáttur í stjórnsýslu umhverfismála. Undir þennan málaflokk falla fjárheimildir til loftslagsaðgerða, loftmengunarmála og til Loftslagssjóðs. Umfangsmestu verkefni á sviði loftslagsmála eru aðgerðaáætlun í loftslags­málum sem snýr að samdrætti í losun, aðgerðaáætlun vegna aðlögunar íslensks samfélags að áhrifum loftslagsbreytinga og stefnumótun og eftirfylgni fyrir kolefnishlutlaust Ísland.

Eftirtaldir ríkisaðilar falla undir málaflokkinn: Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, umhverfis-orku- og loftslagsráðuneytið, Umhverfisstofnun og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála.

Helstu áskoranir

Að tryggja að unnið sé að því að uppfylla þær skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist í loftslagsmálum með Parísarsamningnum og jafnframt að ná þeim markmiðum ríkisstjórnar­innar að Ísland verði kolefnishlutlaust eigi síðar en árið 2040. Ýmis tækifæri eru til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í flestum geirum samfélagsins og til að virkja einstaklinga, atvinnulíf, félagasamtök og stofnanir til að vinna að verkefnum í þágu loftslagsmála. Núgild­andi Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum var sett fram árið 2020. Í áætluninni er mat lagt á væntan árangur þeirra aðgerða sem þar eru settar fram varðandi samdrátt í losun, auk þess sem fjár­mögnun er tilgreind þar sem við á. Ný markmið um samdrátt voru sett fram í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar 2021 og er unnið að uppfærslu áætlunarinnar til að ná þeim markmiðum. Þessa dagana stendur yfir samtal við atvinnulífið um aðgerðir til að draga úr losun og mun sú vinna skipta sköpum fyrir uppfærslu áætlunarinnar.

Að tryggja að fullnægjandi grunnupplýsingar liggi fyrir um mat á losun gróðurhúsaloft­tegunda og bindingu kolefnis vegna landnotkunar í losunarbókhaldi Íslands. Unnið verður í samræmi við umbótaáætlun sem kynnt var í september 2021 en jafnframt verður unnið að því að uppfæra áætlunina til að tryggja að nýjum kröfum í samræmi við hert loftslagsmarkmið sé mætt.

Að tryggja að íslenskt samfélag og lífríki búi að viðnámsþrótti frammi fyrir loftslagsvá og að aðlögun að loftslagsbreytingum sé fastur þáttur í áætlunum og starfsemi hins opinbera, stofnana, fyrirtækja og þekkt viðfangsefni meðal félagasamtaka og almennings. Gæta þarf þess að aðlögun sé hluti af ákvarðanatöku stjórnvalda og innan viðeigandi geira og atvinnugreina svo greiningar og ákvarðanir taki til loftslagsáhættu og afleiðinga hennar. Til að ná þessum markmiðum og byggt á fyrirliggjandi stefnu Í ljósi loftslagsvár (2021) er yfirstandandi undirbúningur fyrir Landsáætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum.

Að mæta auknum kröfum almennings og fyrirtækja um aukna skilvirkni, nútímavæðingu og gagnsæi í stjórnsýslunni, m.a. í tengslum við umfangsmiklar og flóknar framkvæmdir sem geta haft umtalsverð áhrif á umhverfið. Tækifæri felast m.a. í endurskoðun löggjafar og aðgerðum með það að markmiði að auka skilvirkni í ákvarðanatöku, uppfylla kröfur laga um málshraða, auk þess að tryggja aðkomu almennings og hagsmunaaðila. Tækifæri felast einnig í samþættingu verkefna, samstarfi og/eða sameiningum stofnana, m.a. í því augnamiði að veita almenningi skilvirkari þjónustu, ásamt aukinni stafrænni stjórnsýslu í samræmi við velsældar­áherslu ríkisstjórnarinnar um betri samskipti við almenning. Á næstu árum verður unnið að forgangsröðun og samhæfingu verkefna á málefnasviðinu.

Að tryggja sjálfbæra nýtingu friðlýstra svæða með skilvirkri stjórnun og vernd. Unnið er að gerð tillagna vegna framkvæmdaáætlunar náttúruminjaskrár og í framhaldinu verður lögð fram tillaga til þingsályktunar um innleiðingu hennar. Unnið verður að stofnun þjóðgarðs á þegar friðlýstum svæðum og jöklum í þjóðlendum á miðhálendinu í samræmi við stjórnar­sáttmála ríkisstjórnarinnar. Þá felast tækifæri í því að þróa samstarf við landeigendur um verkefni í náttúruvernd á svæðum sem ekki hafa hlotið friðlýsingu eða friðun en teljast sérstök sakir landslags, gróðurfars eða dýralífs.

Uppbygging og rekstur fráveitna er einn af lykilþáttum vatnsverndar og forsenda þess að skólp valdi ekki tjóni á vatnavistkerfum eða heilsu manna. Samantekt á stöðu fráveitumála sýnir að þörf er á uppbyggingu í þessum málaflokki svo tryggja megi að kröfur um full­nægjandi meðferð skólps séu uppfylltar um land allt. Sveitarfélög bera ábyrgð á fráveitumálum en ljóst er að um kostnaðarsamar framkvæmdir er að ræða. Í júní 2020 var samþykkt breyting á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna sem gerir ráð fyrir að gert verði átak á þessu sviði í samstarfi ríkis og sveitarfélaga.

Hvað varðar áskoranir í kynja- og jafnréttismálum málaflokksins eru þær óbreyttar frá fjármálaáætlun 2023–2027 og eru í samræmi við Stöðuskýrslu 2022.

Tækifæri til umbóta

Eftirspurn sveitarfélaga eftir styrkjum til uppbyggingar fráveitna eru talsvert umfram árlegar fjárheimildir til verkefnisins og mikilvægt að stjórnvöld í samvinnu við sveitarfélög forgangsraði framkvæmdum með þeim hætti að uppfylla megi markmið þess efnis að ástand fráveitumála verði með þeim hætti er stjórnvöld stefna að fyrir árslok 2028.

Áhættuþættir

ekki náist að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, t.d. vegna aukins umfangs í hag­kerfinu, skorts á samstöðu og samstarfi og að aðgerðir skili ekki þeim ávinningi sem stefnt er að. Með aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og þeim aðgerðum sem þar eru settar fram er mark­visst stefnt að því að tryggja að markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda náist.

Að ekki náist að efla aðlögunargetu ríkis, sveitarfélaga, atvinnugreina, geira og almennings til þess að halda áhættu vegna áhrifa loftslagsbreytinga innan ásættanlegrar áhættu. Áætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum er ætlað að veita utanumhald, yfirsýn, eftirfylgni og stöðutöku á vinnu við aðlögun.

Að ekki takist að koma á fullnægjandi verndun náttúruverndarsvæða þó að Alþingi hafi samþykkt að það skuli gert. Það gæti haft í för með sér óafturkræft rask á þessum sömu svæðum. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Umhverfisstofnun vinna saman að frið­lýsingum þessara svæða í samstarfi við hlutaðeigandi hagsmunaaðila. Aukinni áherslu á upp­byggingu innviða og landvörslu er einnig ætlað að tryggja fullnægjandi verndun náttúru­verndarsvæða.

Að ekki náist viðunandi árangur einstakra sveitarfélaga vegna fráveitumála sem getur valdið óafturkræfum skaða vegna mengunar, t.d. á lífríki.

Markmið og mælikvarðar

Sett eru fimm markmið fyrir málaflokkinn og standa þau óbreytt frá fyrri fjármálaáætlun og er því vísað til fyrri áætlunar varðandi lýsingu á tilgangi þeirra. Yfirlit yfir markmið, mælikvarða og sett viðmið um framgang þeirra má sjá í meðfylgjandi töflu:

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2022

Viðmið 2024

Viðmið 2028

1. Að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda í sam­ræmi við markmið Íslands í loftslagsmálum.

13

Fjöldi aðgerða í framkvæmd.

34

50

50*

 

Samdráttur í nettólosun GHL. (%)

7**

23

44***

2. Að tryggja aðlögun Íslands að loftslagsbreytingum.

13

Fjöldi atvinnugeira með skilgreindar aðlögunaraðgerðir.

<5

5

12

 

 

Fjöldi sveitarfélaga með skilgreindar aðlögunaraðgerðir.

<5

10

60

3. Að efla náttúruvernd með friðlýsingu náttúruverndar­svæða.

15.1

Hlutfall friðlýstra svæða með stjórnunar- og verndaráætlun. (%)

25

62

100

 

4. Að bæta viðmót, gagnsæi og skilvirkni stjórnsýslu.

16.6

Hlutfall stafrænna þjónustuleiða. (%)

25

50

100

5. Að efla hreinsun fráveitu.

6.3

Hlutfall hreinsaðs skólps. (%)

81****

85

95

* Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum inniheldur 50 aðgerðir sem miða að því að draga úr losun.
** Samdráttur miðast við árið 2021 sem eru nýjustu tölur.
*** Stjórnvöld hafa sett sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í losun sem fellur utan viðskiptakerfis Evrópusambandsins um losunarheimildir (ETS-kerfið) árið 2030 miðað við 2005. Hér er miðað við línulegan samdrátt frá árinu 2021.
**** Staða 2021.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum