Hoppa yfir valmynd

07 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð fjögurra ráðherra. Forsætisráðherra ber ábyrgð á starfsemi Vísinda- og nýsköpunarráðs, Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ber ábyrgð á vísindum, nýsköpun og hugverkaiðnaði, að frátöldum endurgreiðslum vegna kvikmynda­gerðar og hljóðritunar tónlistar, málefnum skapandi greina og faggildingar sem menningar- og viðskiptaráðherra ber ábyrgð á. Matvælaráðherra ber ábyrgð á málefnum Matvælasjóðs.

Málefnasviðið skiptist í tvo málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2021–2023.

Tafla: Heildarúgjöld málasviðsins

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Íslendingar þekkja ástandið þegar fiskimiðin bregðast, náttúruöflin herja á landbúnað, álverð hrynur á heimsmarkaði og heimsfaraldur kippir stoðum undan ferðaþjónustu. Besta leiðin til að draga úr hagsveiflum er að efnahagslífið byggi í vaxandi mæli á auðlindum sem eru hvorki takmarkaðar né í sama mæli háðar utanaðkomandi aðstæðum og sveiflum. Þess vegna er lykillinn að bættum lífsgæðum og fleiri tækifærum sá að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Rannsóknir, þróun, nýsköpun og hagnýting hugvits eiga því að vera inngróin í menningu og efnahagslíf þjóðarinnar. Við eigum að nýta okkur smæð þjóðfélagsins sem styrkleika en taka áfram virkan þátt í alþjóðlegu umhverfi vísinda, nýsköpunar, menningar og athafnalífs. En meginforsenda þess er að til staðar séu innviðir til að starfrækja alþjóðlega samkeppnishæf fyrirtæki og rannsóknastofnanir.

Meginmarkmið málefnasviðsins er alþjóðlega samkeppnishæft umhverfi rannsókna og nýsköpunar þar sem áhersla er lögð á gæði, alþjóðlegt samstarf og árangur, sem og skilvirkni og gagnsæi í opinberu stuðningskerfi. Þannig styður það beint við velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar um virkni í námi og starfi og grósku í nýsköpun.

Fjármögnun

Fjárhagsrammi málefnasviðsins lækkar milli áranna 2023 og 2024, úr 34,9 ma.kr í 31,5 ma.kr. Niðurfelling á tímabundnu framlagi vegna endurgreiðslna kvikmynda vegur þar þyngst, ásamt lægri framlögum í Samstarfsáætlun ESB en sú lækkun er til komin vegna gengisþróunar. Á móti er gert ráð fyrir varanlegri hækkun um 776 m.kr. á útgjaldarammanum frá og með árinu 2024 til að koma til móts við áætlaða vanfjármögnun kvikmyndaendurgreiðslna og til að tryggja aukinn fyrirsjáanleika í fjármögnun kerfisins. Í samræmi við stjórnarsáttmála og síðustu fjármálaáætlun verður á árinu 2024 aukning að fjárhæð 1,9 ma.kr. til nýsköpunarfyrirtækja vegna endurgreiðslu á kostnaði vegna rannsókna og þróunar og áframhaldandi hækkun framlaga til þessa málefnis til ársins 2026. Þá er 75%, eða 2,3 ma.kr., af tímabundinni Covid-tengdri aukningu framlaga til Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs gerð varanleg frá og með árinu 2024.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Tafla: Fjárheimildir málasviðsins

Helstu áherslur 2024–2028

VELSÆLD BYGGIR Á ÁFRAMHALDANDI SÓKN Í RANNSÓKNUM OG NÝSKÖPUN - Öflug fjárfesting i vísindum og nýsköpun í þágu velsældar. Krefjandi áskorunum, s.s. í heilbrigðis- og loftslagsmálum, mætt með öflugum tækni- og hugverkaiðnaði. Áframhaldandi sókn í vísindum og nýsköpun grundvallast á öflugu alþjóðasamstarfi.

7.1 Samkeppnissjóðir og alþjóðlegt samstarf

Verkefni

Málaflokkurinn nær yfir starfsemi Vísinda- og nýsköpunarráðs, innlenda samkeppnissjóði á sviðum vísinda og nýsköpunar og samstarfsáætlanir ESB 2021–2027. Lög sem gilda um málaflokkinn eru m.a. lög um Tækniþróunarsjóð, nr. 26/2021, lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003, og lög um Matvælasjóð, nr. 31/2020. Um hlutverk einstakra sjóða má lesa á bls. 222 í fjármálaáætlun 2023–2027. Á árinu 2022 voru samþykkt ný lög um Vísinda- og nýsköpunarráð, nr. 137/2022, sem hafa að markmiði að efla stefnumótun og samhæfingu á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar hér á landi svo að styrkja megi íslenskt þekkingarsamfélag og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Stærstu áætlanirnar í Samstarfsáætlun Evrópusambandsins 2021–2027 eru rannsókna- og nýsköpunaráætlunin Horizon Europe, mennta-, æskulýðs- og íþróttamálaáætlunin Erasmus+ og Digital Europe áætlun um stafræna innviði og færni. Þá mun Ísland taka þátt í nýrri InvestEU-áætlun sem er ætlað að styðja við fjárfestingar í innviðum, rannsóknum og nýsköpun.

Samkeppnishæft þekkingarsamfélag þarf markvissa fjárfestingu, jafnt í grunnrannsóknum sem hagnýtum rannsóknum, og mikilvægt er að tryggja gott rannsóknarumhverfi fyrir framúrskarandi vísindafólk. Öflugir samkeppnissjóðir í rannsóknum og nýsköpun eru ein af forsendum samkeppnishæfni íslensks vísinda- og nýsköpunarumhverfis og mikilvægur grunnur að sókn í erlenda sjóði og samstarfsáætlanir. Íslensku samkeppnissjóðirnir og þátttaka í samstarfsáætlunum ESB styður við allar helstu velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar, þ.m.t. virkni í námi og starfi, kolefnishlutlausa framtíð, grósku í nýsköpun og bætt andlegt heilbrigði borgaranna.

Helstu áskoranir

Áskorun nýrrar fjármálaáætlunar felst í að viðhalda og virkja frekar þann slagkraft sem myndast hefur á sviði vísinda og nýsköpunar. Á sama tíma og fjárframlög til málefnisins hafa aukist þarf að tryggja að þau nýtist með skilvirkum hætti og á þeim sviðum þar sem helst er þörf á opinberri aðkomu hverju sinni. Þá er mikilvægt að opinbert stuðningskerfi vísinda og nýsköpunar taki mið af hnattrænum og samfélagslegum áskorunum.

Loftslagsmál, heilbrigðisþjónusta og stafræn umbreyting eru meðal stærstu áskorana sem stjórnvöld standa frammi fyrir og þeim verður best mætt með öflugu vísindastarfi, rann­sóknum, þróun og nýsköpun sem er lykillinn að öflugu og fjölbreyttu hagkerfi á forsendum sjálfbærrar þróunar. Samspil atvinnulífs, háskóla- og rannsóknasamfélagsins leikur lykil­hlutverk til að svo megi verða.

Það er samfélaginu áskorun að halda uppi öflugu heilbrigðiskerfi á landsvísu, í dreifðri byggð og litlu hagkerfi. Heimsfaraldur síðustu ára varpaði ljósi á margvíslega veikleika í opinberri heilbrigðisþjónustu en beindi jafnframt sjónum fólks að mikilvægi vísindastarfs og nýsköpunar í þágu bætts heilbrigðis.

Örar tæknibreytingar og stafræn umbreyting fela í sér hvort tveggja í senn, tækifæri til framfara og áskorun fyrir atvinnulíf og samfélag. Mikilvægt er bæði fyrir samkeppnisstöðu og velferð þjóðarinnar að virkja þau tækifæri sem fylgja stafrænni umbreytingu á alþjóðlegum vettvangi en tryggja jafnframt að samfélagið og innviðir þess séu nógu sterkir og öruggir til að takast á við þær breytingar.

Ýmsar áskoranir eru til staðar hvað varðar kynjahlutfall í vísindum og þekkingargreinum. Þar má nefna að þó að árangurshlutfall kvenna sem verkefnisstjóra í samkeppnissjóðum rannsókna sé jafn hátt og karla, þá sker úthlutun öndvegisstyrkja (hæstu styrkja Rannsókna­sjóðs) sig úr hvað hlutfall kvenna varðar. Þar hafa einungis átta konur fengið styrk frá upphafi og 54 karlar.

Tækifæri til umbóta

Eins og fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar verður tekist á við samfélagslegar áskoranir með hag almennings að leiðarljósi á þeirri forsendu að velsæld verði best tryggð með traustum efnahag, jöfnum tækifærum og aðgerðum í þágu nýsköpunar, umhverfis og loftslags.

Árangur af hækkuðum framlögum til samkeppnissjóða á sviði rannsókna og nýsköpunar, sem viðspyrnu við áhrifum Covid-19 heimsfaraldurs, er smám saman að koma í ljós og til að tryggja að rannsóknirnar skili sér til lengri tíma er afar mikilvægt að ekki verði dregið úr þeirri fjárfestingu.

Niðurstöður áhrifa- og árangursmats á Rannsóknasjóði og Tækniþróunarsjóði voru birtar árið 2022 og á tímabilinu er áætluð endurskoðun á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003, með það að leiðarljósi að einfalda umgjörð starfseminnar og skýra ábyrgð hinna ýmsu aðila í stefnumótun og framkvæmd þeirrar starfsemi sem fellur undir ábyrgðarsvið laganna. Þá verður unnið að innleiðingu laga um vandaða starfshætti í vísindum og stefnumótun um opin vísindi. Hafin er vinna við greiningu og endurskoðun sjóðakerfis rannsókna og nýsköpunar í þágu einföldunar, aukinnar skilvirkni og betri þjónustu. Í þeirri vinnu verður m.a. lögð áhersla á aðgerðir sem stuðla að jafnara kynjahlutfalli þegar kemur að fjölda umsókna og úthlutun úr samkeppnissjóðum.

Ein af forsendum þess að íslenskir vísindamenn og frumkvöðlar dragist ekki aftur úr á alþjóðavísu er gott aðgengi að hágæðarannsóknarinnviðum, s.s. tækjum, aðstöðu og gagnagrunnum. Unnið er að nýjum Vegvísi um rannsóknarinnviði með það að markmiði að stuðla að markvissri uppbyggingu innviða til framtíðar.

Markmið um kolefnishlutlausa framtíð er ein af velsældaráherslum ríkisstjórnarinnar, í samræmi við alþjóðlegar áherslur í loftslagsmálum. Lögð verður áhersla á vísindalegar aðferðir, hugvit og nýsköpun sem verkfæri í baráttunni við að ná þessum markmiðum. Hér er m.a. um að ræða vísindalegar greiningar á stöðu loftslagsmála í heiminum, aðferðir hringrásarhagkerfis til að tryggja sjálfbæra nýtingu hráefna og þróun grænna tæknilausna til að minnka losun koltvísýrings í andrúmsloftið.

Unnið verður að því að efla samstarf opinberra aðila og einkaaðila í rannsóknum og nýsköpun í heilbrigðismálum, m.a. í gegnum styrki „Fléttu“, og móta stuðningsumhverfi og regluverk sem hvetur til framfara og aukins heilbrigðis.

Unnið verður að því að móta regluverk og umgjörð um stafrænar tæknibreytingar í samræmi við alþjóðlega staðla í þeim tilgangi að stafræn umskipti skili sér í aukinni hagsæld á landsvísu og feli ekki í sér aukna aðgreiningu í þjóðfélaginu.

Áhættuþættir

Markmiðin sem birtast í málaflokki 7.1 eru samtvinnuð fjárfestingu í háskólum og rannsóknarstarfsemi (sjá málefnasvið 21). Án öflugrar fjárfestingar í háskólum og rannsóknarstofnunum er hætta á dvínandi gæðum mannauðs, takmarkaðri uppbyggingu innviða og versnandi vistkerfi rannsókna og nýsköpunar.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2022

Viðmið 2024

Viðmið 2028

Vísindastarf á heimsmælikvarða

8.2

*1. Fjöldi R&Þ-starfa í fyrirtækjum og stofnunum

4.400

4.700

> 5.000

8.2

*2. Fjöldi sambirtinga í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum

2.205

2.500

3.000

Hagnýting hugvits og nýskapandi lausnir á brýnum samfélagslegum áskorunum

 

8.2

*3. Opinn aðgangur að rannsókna niðurstöðum

64%

75%

85%

8.2

*4. Fjöldi veittra einkaleyfa

9

18

32

8.2

*5. Styrkfé í lausnir við samfélagslegum

áskorunum, m.kr.

1.800

2.000

>2.400

Virkt alþjóðlegt samstarf á sviði menntunar, vísinda og nýsköpunar

8.2

*6. Styrkir úr Samstarfsáætlunum ESB á hvern íbúa (EUR)

400

425

450

8.2

*7. Árangurshlutafall í ESB áætlunum

20%

18%

18%

*1. Hagstofan. Gögn 2021. https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Atvinnuvegir/Atvinnuvegir__visinditaekni__rannsoknthroun/FYR05107
*2. https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Atvinnuvegir/Atvinnuvegir__visinditaekni__rannsoknthroun/FYR05107.px Scobus. https://www.scimagojr.com/countrysearch.php?country=IS. Gögn frá árinu 2022.
*3. Scobus. https://www.scimagojr.com/countrysearch.php?country=IS. Gögn frá árinu 2022. Gögn frá Scobus, vegið meðaltal síðustu þriggja ára.
*4. Hugverkastofa. Gögn 2022.
*5. RANNÍS. Gögn 2022. Markáætlun, styrktarsjóðir Margrétar Þórhildar og Vigdísar Finnbogadóttur eru ekki með í þessum tölum.
*6. Rannís. Gögn 2022.
*7. Rannís. Gögn 2022.
*8. Rannís. Gögn 2022.

Frá fyrri fjármálaáætlun hafa verið gerðar eftirfarandi breytingar á töflu yfir markmið og mælikvarða fyrir málaflokk 7.1. Mælikvarði um hlutfall R&Þ af VLF var færður í töflu 7.2 og mælikvarði um fjölda birtinga í ritrýndum tímaritum var færður í kafla 21. Nýir mælikvarðar eru aftur á móti „Styrkfé í lausnir við samfélagslegum áskorunum“ og „Fjöldi sambirtinga í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum“.

Lýsing á markmiðum hefur verið uppfærð. Orðalagi á markmiði nr. 2 hefur verið breytt til að skerpa á áherslum. Markmið nr. 2, „Þekking, hugvit og nýskapandi lausnir nýtist við úrlausnir á brýnum samfélagslegum áskorunum“, felur í sér tækniþróun, uppbyggingu innviða, öflugt frumkvöðlastarf og hagnýtingu hugvits sem verkfæri gegn samfélagslegum áskorunum, s.s. loftslags- og heilbrigðismálum, og að innlendir og erlendir sjóðir nýtist í því sambandi. Með breytingu á orðalagi er sjónum beint að áskorunum tengdum loftslags- og heilbrigðismálum.

7.2 Nýsköpun, hugvitsiðnaður og samkeppnishæfni

Verkefni

Málaflokkurinn nær yfir stuðningsumhverfi og aðgerðir í þágu nýsköpunar, hugvitsiðnaðar og skapandi greina. Undir málaflokkinn heyrir m.a. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Hugverkastofa, Kría  ̶ sprota- og nýsköpunarsjóður, styrkir til nýsköpunarfyrirtækja í formi skattendurgreiðslna vegna rannsókna og þróunar, og endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar og hljóðritunar á tónlist. Lög sem gilda um málaflokkinn eru m.a. lög um opinberan stuðning við nýsköpun, nr. 25/2021, lög um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997, lög um Kríu  ̶ sprota- og nýsköpunarsjóð, nr. 65/2020, lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, lög um einkaleyfi, nr. 17/1991, lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999, og lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist, nr. 110/2016.

Áhersla stjórnvalda á stuðning við fjölbreyttar stoðir efnahagskerfisins birtist m.a. í aukinni opinberri fjárfestingu í skapandi greinum. Til skapandi greina teljast m.a. bókmenntir, fjölmiðlun, hönnun og arkitektúr, kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð, safnastarf og miðlun menningararfs, myndlist og starfsemi gallería, sviðslistir, tónlist, tölvuleikjagerð og hugbúnaðarþróun sem þeim tengist.

Helstu áskoranir

Áskoranir í málaflokki 7.2 eru að mestu leyti þær sömu og lýst er í málaflokki 7.1. Í báðum málaflokkum felast áskoranir um að efla vísindi, nýsköpun og þekkingargreinar til að styðja við almenna velsæld hér á landi og samkeppnishæfni þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. Aðgerðir tengdar málefnasviði sjö miða þannig að því að byggja upp samfélag vísinda, þekkingar, nýsköpunar og hugverkaiðnaðar með það að markmiði að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar.

Á sviði nýsköpunar og hugvitsiðnaðar felst áskorun í því að vera til staðar þar sem þörfin er. Fram hefur komið að skortur sé á fjármagni á því tímabili frá því að rannsókna- og tækniþróunarsjóðir hætta að styðja við tiltekin verkefni og þar til fjárfestar sýna þeim áhuga. Þetta á ekki síst við á þeim sviðum nýsköpunar sem kalla á langt þróunartímabil og „þolinmótt fjármagn“. Önnur áskorun á sviði nýsköpunar felst í því að verkefni sem eru komin lengra á veg, vanti stuðning til frekari rannsókna, þróunar og vaxtar á alþjóðavettvangi.

Hlutfall kvenna á meðal frumkvöðla er lágt á Íslandi sem og öðrum Norðurlöndum og sýna niðurstöður greiningar KPMG fyrir Framvís – samtök engla og vísifjárfesta í nýsköpun að á árinu 2021 fengu kvenkyns teymi 2% fjármagns og blönduð teymi 53% fjármagns frá íslenskum vísisjóðum. Þegar litið er til umsókna um endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar eru karlar um 73% umsækjenda og flest nýsköpunarfyrirtæki, sem njóta endurgreiðslna vegna rannsókna og þróunar, eru í tæknigeiranum þar sem karlar eru að meiri hluta starfandi.

Brýnt er að efla heildræna gagnasöfnun og rannsóknir á sviðum skapandi greina, kortleggja virðisauka þeirra og framlag til samfélagsins. Staða greinanna er afar ólík og frekari stefnumörkun nauðsynleg til þess að tryggja megi betri samkeppnishæfni þeirra til framtíðar.

Tækifæri til umbóta

Eins og í kafla 7.1 eru tækifæri til að beita verkfærum vísinda, nýsköpunar og þekkingargreina til að mæta helstu samfélagslegu áskorunum framtíðarinnar, s.s. í loftslagsmálum, heilbrigðismálum og örum stafrænum breytingum.

Mikilvægt er að nýsköpun sé höfð að leiðarljósi gagnvart stærstu áskorunum samfélagsins, s.s. í heilbrigðismálum, loftslagsmálum og stafrænni umbreytingu. Ekki er nóg að stunda rannsóknir og þróun á sviði nýsköpunar heldur þarf að fylgja því starfi eftir með öflugri innleiðingu nýrra lausna svo íslenskt samfélag megi njóta alls þess ávinnings sem hugvitið getur boðið upp. Breytt stjórnskipan með nýju ráðuneyti háskóla, iðnaðar og nýsköpunar gefur tækifæri til aukinnar samhæfingar þvert á málaflokka ráðuneytisins.

Eitt af forgangsverkefnum ráðuneytisins felst í endurskoðun á aðkomu ríkisvaldsins að fjármögnunarumhverfi nýsköpunar með það að markmiði að tryggja að fjármögnunin skili sér þangað sem þörfin er mest á hverjum tíma. Unnið verður að endurskoðun stuðningsumhverfis nýsköpunar með skilvirkni og góða þjónustu að leiðarljósi. Í því felst m.a. að mæta mismunandi þörfum eftir vaxtaskeiði frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtækja, styðja við þróunarstarf í rótgrónum fyrirtækjum og efla nýsköpunarstarf á landsbyggðinni. Á tímabilinu verður einnig unnið að heildarendurskoðun laga um endurgreiðslur skatta vegna rannsókna og þróunar í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Unnið verður að því að auka nýsköpun og styrkja innviði í stafrænni tækni og fjarskiptum, m.a. í samstarfi við Digital Europe áætlanir ESB. Stefnt er að eflingu nýsköpunar á landsvísu með sérstökum framlögum til verkefna á landsbyggðinni og áhersla lögð á stuðning við sprota- og frumkvöðlafyrirtæki á sviði hátækni, í nánu samstarfi við háskólasamfélagið. Þá verður sjónum beint að nýsköpun í heilbrigðisþjónustu og heilbrigðistækni og auknu samstarfi milli sprotafyrirtækja og stofnana í heilbrigðisþjónustu.

Af öðrum stefnumótandi stuðningi stjórnvalda má nefna stuðning við grænar tæknilausnir og hugverkaiðnað í þágu loftslagsmála, þ.á m. stuðning við sókn í alþjóðleg samstarfsverkefni. Áhersla verður á að styðja ímynd og gæði íslensks iðnhandverks í samstarfi stjórnvalda og samtaka á vinnumarkaði og móta stefnu um sjálfbæran þekkingariðnað.

Áhersla er á samkeppnishæft atvinnulíf innan lands sem utan. Í því skyni er stefnt að einföldun regluverks og markvissum aðgerðum sem gera erlendum sérfræðingum og fjölskyldum þeirra kleift að búa og starfa hér á landi um lengri eða skemmri tíma.

Tækifæri eru á málefnasviðinu til þess að líta til aukinnar fjölbreytni hvað varðar atvinnu­greinar og þarfir. Stuðningskerfi nýsköpunar á Íslandi er víðfeðmt en misjafnt hvernig kynin nýta sér það. Tækifæri eru í því fólgin að auka sókn kvenna í nýsköpun í þau verkfæri sem stuðningskerfið býður og höfða betur til annarra minnihlutahópa í nýsköpun, s.s. frumkvöðla á landsbyggðinni og af erlendum uppruna.

Undanfarin ár hefur verið unnið að stefnumótun innan ólíkra listgreina þar sem m.a. er lögð áhersla á starfs- og stuðningsumhverfi, gagnaöflun og samfélagslegt mikilvægi þeirra. Unnið hefur verið að því að efla stuðningskerfi við framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis og í júlí 2022 var gerð breyting á lögum nr. 43/1999 sem felur í sér hækkun endurgreiðslu­hlutfalls (35%) fyrir stærri verkefni. Í kjölfarið hafa framleiðendur stærri verkefna (t.d. gerð erlendra sjónvarpsþátttaraða) beint sjónum sínum að Íslandi, með jákvæðum samfélagslegum og menningarlegum áhrifum. Undir málefnasviðið heyra framlög stjórnvalda til málefna hönnunar og arkitektúrs en framtíðarsýn nýrrar stefnumótunar hennar er að aðferðafræði hönnunar sé markvisst nýtt til þess að auka lífsgæði á Íslandi með áherslu á verðmætasköpun og sjálfbærni.

Áherslur í málaflokknum eru í samræmi við velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar um virkni í námi og starfi, grósku í nýsköpun, kolefnishlutlausa framtíð, andlegt heilbrigði og betri samskipti við almenning.

Áhættuþættir

Markmiðin sem birtast í málaflokki 7.2 eru líkt og í 7.1 samtvinnuð fjárfestingu í háskólum og rannsóknarstarfsemi (sjá málefnasvið 21). Án öflugrar fjárfestingar í háskólum og rannsóknarstofnunum er hætta á dvínandi gæðum mannauðs, takmarkaðri uppbyggingu innviða og versnandi vistkerfi rannsókna og nýsköpunar. Aðrir áhættuþættir sem tengjast málefnasviði 7.2 snúa m.a. að almennu fjármögnunarumhverfi nýsköpunar sem er síbreytilegt og háð almennum aðstæðum á markaði. Flestir núverandi virkir íslenskir framtakssjóðir hófu fjárfestingatímabilið á sama tíma og rekstraraðilar þeirra því líklegir til að hefja söfnun á fjármagni í nýja sjóði á svipuðu tímabili. Fjármögnun nýrra framtakssjóða byggir að miklu leyti á þátttöku íslenskra lífeyrissjóða sem eykur á óvissu og fjármögnunaráhættu nýsköpunarverkefna og ýtir undir þörfina fyrir öflugt og sveigjanlegt opinbert stuðningskerfi nýsköpunar á landsvísu.

Þá er hætta á að óljóst regluverk og framkvæmd í þeim stuðningi stjórnvalda sem snýr að endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar leiði til minni skilvirkni í þessum umfangsmikla stuðningi.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2022

Viðmið 2024

Viðmið 2028

Bætt samkeppnisstaða

í alþjóðlegu samhengi

9.b.1

*9. Hlutfall hugverkaiðnaðar af útflutningstekjum

14

17

>20

9.b.1

*10. Hlutfall R&Þ af VLF

2,8%

2,9%

>3%

Aukin hagnýting tæknilausna í þágu samfélagslegra áskorana

9.4.1

*11. Hagnýtar tæknilausnir í þágu samfélagsáskorana

Mælikvarði í vinnslu

Y

Z

9.4.1

*12. Losun GHL frá Íslandi (ESD), kt CO2-ig

 

2958

2730

<2500

Ný og fjölbreytt störf skapist í þekkingargreinum

9.b.1, 9.5.2

*13. Fjöldi launþega í tækni- og hugverkaiðnaði

14.100

15.000

18.000

9.b.1, 9.5.

 

*14. Fjöldi erlendra starfsmanna í vísindalegri og tæknilegri starfsemi

 

>900

 

1000

 

1400

 

5.5

*15. Hlutfall fjármagns frá vísisjóðum á Íslandi til kvenkyns stofnendateyma

<5%

12%

>25%

*9. SI sérvinnsla frá Hagstofunni. Gögn 2021.
*10. Hagstofan. Gögn 2021. https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Atvinnuvegir/Atvinnuvegir__visinditaekni__rannsoknthroun/FYR05101.px
*11. Rannís-mælikvarði í vinnslu.
*12. Umhverfisstofnun. https://ust.is/library/Skrar/loft/NIR/SummaryPamsProjections2022v1.pdf
*13. Hagstofan. Breyttur gagnabrunnur frá síðustu fjármálaáætlun. Núverandi tölur marka mælikvarðann mun betur. https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Samfelag/Samfelag__launogtekjur__3_tekjur__0_stadgreidsla/TEK02002.px
*14. Hagstofan. Gögn 2021. https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Samfelag/Samfelag__vinnumarkadur__vinnuaflskraargogn/VIN10030.px
*15. Framvís – samtök vísisjóða á Íslandi. https://www.framvis.is/_files/ugd/e4dc69_39ffba2da418450a8f3ecbd4800c9fc3.pdf

Skerpt hefur verið á lýsingu á markmiðum og mælikvörðum frá fyrri fjármálaáætlun:

Frá fyrri fjármálaáætlun hafa verið gerðar eftirfarandi breytingar á töflu 7.2 yfir markmið og mælikvarða. Mælikvarðinn með vísun í sæti á Global Innovation Index (GII) var tekinn út þar sem árangursríkara er að bæta einstaka mælikvarða innan GII. Mælikvarðinn hlutfall R&Þ af VLF var færður í töflu 7.2. Mælikvarðinn um útgjöld fyrirtækja til R&Þ sem hlutfall af VLF vék. Mælikvarðinn um losun GHL frá samgöngum á Íslandi vék. Mælikvarði um fjölda launþega í tækni- og hugverkaiðnaði breyttist í kjölfar nýrra gagna frá Hagstofu. Einnig var bætt inn mælikvarða um hlutfall fjármagns frá vísisjóðum á Íslandi sem fer til kvenkyns stofnendateyma.

Orðalagi á markmiðum hefur verið breytt með eftirfarandi hætti til að skerpa á áherslum:

1. Bætt samkeppnisstaða og velsæld byggð á nýsköpun og hugviti. Auka útflutningsverðmæti og samkeppnishæfni atvinnulífs. Lögð verður áhersla á skilvirkni í stuðningskerfi nýsköpunar þannig að opinber stuðningur og fjármögnun beinist þangað sem þörfin er mest.

2. Aukin hagnýting tæknilausna í þágu samfélagslegra áskorana. Stjórnvöld stuðli að þróun hagnýtra lausna sem dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda, þvert á atvinnugreinar, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Aukið samstarf milli fyrirtækja og opinberra stofnana, aukin áhersla á stafræna umbreytingu og eflingu nýsköpunar um allt land, m.a. í heilbrigðisþjónustu.

3. Ný og fjölbreytt störf skapist í hugverkaiðnaði. Nýsköpun og samkeppni stuðli að vexti atvinnugreina sem byggjast á hugviti um allt land. Áhersla er lögð á aukið alþjóðlegt samstarf á sviði hugvits og þekkingargreina og að Ísland sé ákjósanlegur starfsvettvangur fyrir erlenda sérfræðinga og fjölskyldur þeirra.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum