Hoppa yfir valmynd

02 Dómstólar

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð dómsmálaráðherra. Það skiptist í fjóra málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2021–2023. 

Tafla: Heildarútgjöld málasviðsins

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn málefnasviðsins er að allir njóti réttaröryggis og grundvallarmannréttinda á Íslandi.

Meginmarkmið málefnasviðsins er að traust ríki til dómstóla með því að tryggja greiðan aðgang að þeim og réttláta málsmeðferð um leið og öryggi almennings, gagna og upplýsinga er tryggt.

Fjármögnun

Útgjaldarammi málefnasviðsins helst óbreyttur frá fjárlögum 2023 út áætlunartímabilið.  Forgangsraða þarf kostnaðaráhrifum frumvarpa til laga um breytingu á lögum um dómstóla vegna sameiningar héraðsdómstóla og fjölgunar dómara í Landsrétti og öðrum útgjaldaáformum dómstólanna þannig að þau rúmist innan útgjaldaramma málefnasviðsins.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Tafla: Útgjaldarammi málasviðsins

Helstu áherslur 2024–2028

STAFRÆNT DÓMSKERFI - Stafrænn flutningur gagna þvert á stofnanir réttarvörslukerfis með áherslu á skilvirka og örugga ferla.	Stafræn meðferð mála með áherslu á stafrænar birtingar og þinghöld.	Stafræn gögn og stafræn gagnaskil með áherslu á öryggi og bætta upplýsingagjöf.

02.1 – 02.4 Dómstólar

Verkefni

Dómsvaldið er ein af þremur stoðum ríkisvaldsins. Í stjórnarskránni er kveðið á um að dómarar fari með dómsvaldið og að þeir séu sjálfstæðir í störfum sínum. Aðeins verður kveðið á um skipun dómsvaldsins með lögum. Eins og nánar er rakið í greinargerð með fjármálaætlun 2023–2027 (bls. 182) er kveðið á um dómstólaskipunina í I. kafla laga um dómstóla, nr. 50/2016. Í II. kafla laganna er kveðið á um hlutverk og helstu verkefni dómstólasýslunnar. Í stefnu dómstólanna 2023–2028, sem unnið var að vorið 2023, koma fram gildi, markmið og áherslur dómstólanna og dómstólasýslunnar á tímabilinu.

Helstu áskoranir

Í greinargerð með fjármálaáætlun 2023–2027 (bls. 182–184) er fjallað um helstu áskoranir á málefnasviðinu. Eins og þar kemur fram liggja helstu tækifæri til umbóta í stafrænum samskiptum og stafrænni málsmeðferð fyrir dómstólum sem unnið er að á málefnasviðinu og bættri upplýsingagjöf frá dómskerfinu.

Markmið stafrænna umbóta er að dómskerfið verði einfaldara, notendavænna og málsmeðferð greiðari, án þess að gæðum og réttaröryggi verði fórnað. Þær fela í sér tækifæri til að bæta aðgengi að dómstólunum, auka skilvirkni og hagkvæmni í starfsemi þeirra og hafa jákvæð umhverfisáhrif. Áhrif stafrænnar málsmeðferðar og þróun stafrænna lausna styðja þannig við velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar hvað varðar bætt samskipti við almenning, nýsköpun og kolefnishlutlausa framtíð.

Helstu áskoranir við að ná fram tilætluðum umbótum felast í fyrsta lagi í þróun sérhæfðs hugbúnaðar sem hefur þá eiginleika og virkni sem greið stafræn málsmeðferð krefst. Óvissa er um umfang og kostnað verkefnisins en óhjákvæmilegt er að gera ráð fyrir talsverðum þjónustu- og fjárfestingarkostnaði hjá dómstólunum og dómstólasýslunni vegna þessa á næstu árum. Í öðru lagi eru stafrænar umbætur háðar ýmsum lagabreytingum, þar á meðal á réttarfarslöggjöf. Í þriðja lagi eru ýmsar áskoranir tengdar innleiðingu stafrænnar málsmeðferðar. Þjálfa og endurmennta þarf starfsfólk og leggja áherslu á tæknifærni og tæknimenntun við nýráðningar. Gera má ráð fyrir að það leiði til kostnaðarauka á næstu árum en að kostnaður lækki þegar markmiðum stafrænnar umbóta verður náð. Þá þarf að huga að tæknifærni notenda og tryggja að stafræn málsmeðferð hindri ekki aðgengi að dómstólum fyrir þá sem af ólíkum ástæðum eiga erfitt með að nýta stafrænar lausnir.

Bætt alhliða upplýsingagjöf til þeirra sem njóta þjónustu dómstóla og almennings er mikilvægur þáttur í að auka traust til dómskerfisins og stuðla að opinni og ígrundaðri umræðu um starfsemi dómstólanna. Hún tengist því velsældaráherslum ríkisstjórnarinnar hvað varðar bætt samskipti við almenning. Helstu áskoranir við að bæta upplýsingagjöf varða þróun málaskrár og samræmda og rétta skráningu upplýsinga í gagnagrunna málaskrárkerfisins. Þá þarf að vera unnt að sækja upplýsingarnar á einfaldan og hagkvæman hátt. Gera þarf breytingar á málaskrá og samræma verklag við skráningu.

Ýmsar áskoranir á málefnasviðinu tengjast húsnæðismálum dómstólanna. Þær lúta að öryggi og aðbúnaði í dómhúsum fyrir starfsfólk og alla sem þangað koma, hagkvæmni húsnæðisins og ásýnd. Fyrir liggur samræmd stefna um öryggi í dómhúsum sem lögð verður til grundvallar við mat á þörfum á umbótum í húsnæðismálum dómstólanna. Þá þarf við þarfagreiningu húsnæðis að leggja mat á þann aðbúnað sem þarf að vera fyrir hendi svo tryggja megi sem best réttaröryggi og réttláta málsmeðferð fyrir alla. Meðal þess sem bæta þarf er aðstaða fyrir túlka sem vaxandi þörf er á við rekstur dómsmála. Fyrirséð er að staða öryggismála og aðbúnaður hjá einstökum dómstólum kallar á kostnaðarsamar breytingar á húsnæði þeirra eða flutning í nýtt húsnæði. Um áskoranir í húsnæðismálum dómstólanna vísast nánar til fjármálaáætlunar 2023–2027 (bls. 184).

Álag við framkvæmd milliliðalausrar málsmeðferðar hjá Landsrétti, einkum í sakamálum, hefur verið meira en ráð var fyrir gert við undirbúning að stofnun hans. Þetta hefur haft áhrif á málshraða hjá dómstólnum. Brugðist hefur verið við með því að leggja til að gerð verði breyting á lögum um dómstóla og dómurum við Landsrétt fjölgað um einn úr fimmtán í sextán. Frumvarp þess efnis var lagt fram á vorþingi 2023.

Tækifæri til umbóta

Eins og áður segir felast helstu tækifæri til umbóta í stafrænni málsmeðferð fyrir dóm­stólum. Með henni skapast tækifæri til að stytta málsmeðferðartíma og auka hagkvæmni við meðferð mála, bæta aðgengi allra að dómstólunum óháð búsetu og stuðla þar með að jafnræði. Þá auðveldar stafræn málsmeðferð samræmda skráningu upplýsinga og er til þess fallin að minnka kolefnisfótspor dómstólanna, sbr. nánari umfjöllun um samfélagslegan ávinning og innri ábata dómstólanna af stafrænni þróun í greinargerð með fjármálaáætlun 2023–2027 (bls. 184).

Unnið er að því að sameina héraðsdómstólana í einn dómstól sem hafi starfsstöðvar þar sem héraðsdómstólarnir eru nú. Áætlað er að sameiningin leiði til einfaldari og skilvirkari stjórnsýslu og betra samræmis við verklag og framkvæmd reglna sem dómstólasýslan setur, s.s. um útgáfu dóma. Þá styrki sameiningin starfsstöðvar héraðsdómstólanna á landsbyggðinni með fjölgun starfsmanna þar og flutningi verkefna sem nú eru unnin á höfuðborgarsvæðinu en mögulegt er að vinna hvar sem er á landinu. Þannig megi jafna betur álag innan héraðs­dómskerfisins og nýta betur mannauð þess sem og auka sérhæfingu og skilvirkni. Samhliða mætti fjölga starfsfólki á starfsstöðvunum í samræmi við stefnu stjórnvalda um að fjölga störfum á landsbyggðinni. Í staðinn yrði ekki ráðið í störf sem losna á höfuðborgarsvæðinu. Sú stafræna þróun í meðferð mála fyrir dómstólum sem unnið er að mun auðvelda til muna að unnt verði að dreifa betur álagi á héraðsdómstólana frá því sem nú er og styðja við þá hagkvæmni sem að er stefnt með sameiningu héraðsdómstólana. Stefnt er að því að sameiningin taki gildi í ágúst 2024.

Söfnun á kyngreindum upplýsingum um aðila dómsmála hófst á árinu 2022 sem gefur tækifæri til að greina tölfræðiupplýsingar eftir kynjum.

Í greinargerð með fjármálaáætlun 2023–2027 (bls. 184) er gerð grein fyrir tækifærum til að bæta upplýsingagjöf til almennings og jákvæðum áhrifum af umbótum í húsnæðismálum dómstólanna.

Áhættuþættir

Helstu áhættuþættir í starfsemi dómstólanna tengjast öryggi starfsfólks og þeirra sem koma í dómhús, öryggi skjala og ýmissa gagna sem eru í vörslu dómstólanna sem og upplýsingatækniöryggi.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

 

Mælikvarðar

Staða

2022

Viðmið

2024

Viðmið 2028

Réttlát og opinber málsmeðferð

16.6

 

Málsmeðferðartími (meðaltal) áfrýjaðra einkamála[1] í dögum. Hæstiréttur

189

 

185

 

 

185

 

 

 

Málsmeðferðartími (meðaltal) áfrýjaðra sakamála[2] í dögum. Hæstiréttur

207

 

170

 

150

 

16.6

 

Málsmeðferðartími (meðaltal) áfrýjaðra einkamála[3] í dögum. Landsréttur

345

 

290

 

 

290

 

 

 

Málsmeðferðartími (meðaltal) áfrýjaðra sakamála í dögum. Landsréttur[4]

350

 

339

 

339

 

16.6

 

Málsmeðferðartími (meðaltal) munnlega fluttra einkamála[5] í dögum.

Héraðsdómstólar

394

330

300

 

 

 

Málsmeðferðartími (meðaltal) allra ákærumála[6] í dögum. Héraðsdómstólar

125

105

100

Aukin skilvirkni og gæði

 

16.6

 

 

Hlutfall stafrænna gagna[7]

 

Hlutfall stafrænna þinghalda utan aðalmeðferðar.[8]

-

 

-

40%

 

50%

 

90%

 

80%

 

 

 

 

Hlutfall mála sem fara í gegnum réttarvörslugátt í prósentum.

13.5%

50%

90%

Aukið traust til dómstóla

16.6

 

Traust til dómstóla mælt í könnun Gallup í prósentum.

40%

>50%

>55%

[1] Málsmeðferðartími telst frá útgáfu áfrýjunarstefnu fram að lyktum máls.
[2] Málsmeðferðartími telst frá því útgefin áfrýjunarstefna berst frá ríkissaksóknara fram að lyktum máls.
[3] Málsmeðferðartími telst frá útgáfu áfrýjunarstefnu að lyktum.
[4] Mælikvarðinn er breyttur frá fjármálaáætlun 2024–2027. Upphaf málsmeðferðartíma miðast nú við skráningu máls en ekki þingfestingu þess. Mál er þingfest þegar öll gögn hafa borist frá ríkissaksóknara. Á árinu 2022 liðu 159 dagar frá skráningu máls fram að þingfestingu. Það leið því 191 dagur frá þingfestingu fram að lyktun 2022. Í viðmiðum 2024 og 2028 er reiknað með sama dagafjölda frá skráningu máls að þingfestingu.
[5] Málsmeðferðartími telst frá þingfestingu máls fram að lyktum þess.
[6] Málsmeðferðartími telst frá móttökudegi máls fram að lyktum þess.
[7] Upplýsingar eru ekki til fyrir árið 2022.
[8] Upplýsingar eru ekki til fyrir árið 2022.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum