Hoppa yfir valmynd

10 Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Umfang

Málefnasviðið nær yfir starfsemi stjórnvalda sem miðar með einum eða öðrum hætti að því að veita einstaklingum þjónustu og tryggja grundvallarréttindi þeirra. Starfsemi málefna-sviðsins er á ábyrgð dómsmálaráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra og skiptist það í fimm málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefna-sviðsins í heild á tímabilinu 2021–2023.

Tafla: Heildarúgjöld málasviðsins

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Meginmarkmið málefnasviðsins eru þrjú. Í fyrsta lagi að réttindi einstaklinga séu gerð skýr og aðgengileg með greinargóðri upplýsingagjöf stjórnvalda. Í öðru lagi að málsmeðferð stjórnvalda sé fagleg og skilvirk og loks að viðskiptavinir séu ánægðir með þjónustu og gæði.

Fjármögnun

Útgjaldarammi málefnasviðsins hækkar um 4,4 ma.kr. árið 2024 frá gildandi fjárlögum. Skýrist það að mestu af tímabundnu 5,6 ma.kr. viðbótarframlagi til að mæta fjölgun umsækjenda um alþjóðlega vernd, auk 300 m.kr. framlags til fjölgunar starfsmanna á verndarsviði Útlendingastofnunar og fellur það framlag niður á árinu 2026. Á móti falla niður tímabundin 1,2 ma.kr. framlög til þessara mála á árinu 2024. Breytingar á öðrum rekstrarframlögum milli ára á áætlunartímabilinu skýrast aðallega af hagræðingarkröfu sem gerð er til rekstursins og framlaga til kosninga. Árið 2025 fellur niður 180 m.kr. framlag vegna stafrænna umbreytinga hjá sýslumannsembættum árin 2023–2024.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Tafla: Fjárheimildir málasviðsins

Helstu áherslur 2024–2028

BÆTT

Málaflokkar 

10.1 Persónuvernd

Undir málaflokkinn fellur starfsemi Persónuverndar sem annast m.a. eftirlit með fram-kvæmd laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, reglugerðar (ESB) 2016/679 og laga nr. 75/2019 um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Að persónuvernd og málefnum tengdum lögbundnu hlutverki Persónuverndar er vikið í ýmsum stefnum ríkisins, t.d. Menntastefnu 2030, Stefnu Íslands um gervigreind, Netöryggisstefnu Íslands fyrir árin 2021–2036 og stefnu um stafræna þjónustu hins opinbera.

Helstu áskoranir

Vinnsla persónuupplýsinga eykst stöðugt og óteljandi möguleikar myndast á aukinni dreifingu, miðlun og vinnslu upplýsinga. Samhliða hraðri tækniþróun sækja bæði einstaklingar og þeir sem vinna með persónuupplýsingar í auknum mæli í ráðgjöf og leiðbeiningar frá Persónuvernd. 

Öryggi persónuupplýsinga heyrir til grundvallarréttinda sem gæta þarf í uppbyggingu stafrænnar þróunar. Með hliðsjón af velsældarmarkmiðum ríkisstjórnarinnar um grósku í nýsköpun og betri samskipti við almenning þarf Persónuvernd að hafa burði til þess að sinna hvoru tveggja í senn, eftirlits- og leiðbeiningarhlutverki. Með hliðsjón af auknum verkefnum og innkomnum erindum til Persónuverndar er ein helsta áskorun stofnunarinnar að sinna öllum þeim hlutverkum sem stofnuninni eru falin. Í því sambandi er til þess að líta að Persónuvernd þarf á hverjum tíma að vera reiðubúin að taka að sér ný og breytt hlutverk eftir því sem réttarsviðið þróast, þar á meðal í Evrópu. Ýmsar gerðir Evrópusambandsins eru nú í farvatninu sem snerta vernd persónuupplýsinga og má gera ráð fyrir að við innleiðingu þeirra í EES-rétt aukist verkefni Persónuverndar enn frekar.

Tækifæri til umbóta

Á undanförnum árum hefur Persónuvernd brugðist við auknum verkefnum, m.a. með nýju málaskrárkerfi og rafrænum skilum, nýjum málsmeðferðarreglum og skilgreiningu málsmeðferðartíma. Hjá stofnuninni eru enn tækifæri til umbóta. Helst ber að líta á þrjú meginmarkmið í því sambandi. Fyrsta markmiðið er að rýna enn frekar verklag á bak við málaflokka stofnunarinnar til að stytta málsmeðferð. Annað meginmarkmiðið er að bæta samskipti við almenning og rekstraraðila með auknum stafrænum samskiptum. Að lokum er tækifæri til að efla enn frekar hið lögbundna hlutverk Persónuverndar sem felur í sér að efla vitund og skilning almennings á áhættu, reglum og réttindum í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga. Slík verkefni geta m.a. falið í sér kynningar Persónuverndar fyrir fyrirtæki, stjórnvöld, menntastofnanir og aðra, bæði á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu.

Að lokum liggur nú fyrir á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um persónu-vernd og vinnslu persónuupplýsinga og lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslu-tilgangi sem er ætlað að létta á verkefnaálagi hjá Persónuvernd, m.a. með því að einfalda málsmeðferð stofnunarinnar í kvörtunarmálum og gera hana skilvirkari. Vonir standa til að með tillögðum breytingum nái stofnunin að ljúka fleiri kvörtunarmálum á hverju ári en hún hefur gert hingað til.

Markmið og aðgerðir innan málaflokksins miða að því að tryggja að farið sé að persónu-verndarlögum í hvívetna á grunni skilvirks og trúverðugs eftirlits með vinnslu persónu-upplýsinga.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2022

Viðmið 2024

Viðmið 2028

Aukið gagnsæi og skilvirkni, lögmæt og sanngjörn vinnsla til að tryggja samræmda vernd einstaklinga á EES-svæðinu.

16.6

Þátttaka í evrópsku samræmingarkerfi.

0%

10%

14%

16.6

Þýðing leiðbeininga, tilmæla og ákvarðana frá Evrópska persónu­verndarráðinu.

0

5%

10%

16.6

Auka hlutfall þeirra sem þekkja réttinn til persónu­verndar með aukinni fræðslu, m.a. í formi myndbanda og hlaðvarpa.

0 [1]

50%

60%

Aukið traust almennings til öryggis við vinnslu persónuupplýsinga í atvinnulífinu og hjá stjórnvöldum.

16.6

Jákvætt viðhorf til Persónuverndar.

45,6%[2]

50%

55%

16.6

Ánægja með þjónustu, sbr. þjónustukönnun hjá stofnunum ríkisins (Likert-skali).

3,4[3]

3,6

3,8

Bætt stefnumótun, vandaðri áætlanagerð og markvissara árangursmat.

16.6

Afgreidd frumkvæðismál og úttektir.

24

30

30

16.6

Fjöldi mála afgreidd innan áætlaðra tímamarka.

0[4]

80%

90%

[1] Samkvæmt könnun Maskínu 2022 þekkja 87% til stofnunarinnar Persónuverndar (þ.e. hafa þekkingu á stofnuninni, góða eða slæma). Þekking á þeim réttindum sem stofnuninni ber að verja er hins vegar ekki þekkt stærð en verður könnuð framvegis.
[2] Samkvæmt könnun Maskínu 2022 – lækkun frá 2021 (48,6%).
[3] Samkvæmt könnun á þjónustu ríkisstofnana frá 2022 – lækkun um 0,1 frá 2021.
[4] Unnið er að því að skilgreina betur hámarksafgreiðslutíma eftir málategundum. Þessi tölfræði er því ekki til eins og er en verður unnin framvegis.

Breytingar hafa verið gerðar á markmiðum og mælikvörðum málaflokksins frá fjármála-áætlun 2023–2027 sem miða að því að tryggja að farið sé að persónuverndarlögum í hvívetna á grunni skilvirks og trúverðugs eftirlits með vinnslu persónuupplýsinga. Auk þess voru nokkrir mælikvarðar útfærðir nánar til þess að ná betur utan um það sem þeim er ætlað að mæla. Efnislegar breytingar fela í sér að markmiðið um aukið traust tekur nú til trausts almennings til vinnslu persónuupplýsinga hjá ábyrgðaraðilum en tiltók áður einnig traust fyrirtækja til atvinnulífs og eftirlits með vinnslu persónuupplýsinga. Sá mælikvarði, sem lýtur að því að auka þekkingu, lýtur nú að aukinni fræðslu almennt en var áður takmarkaður við gerð myndbanda og hlaðvarpa. Mælikvarða sem lýtur að ánægju hefur verið breytt og miðar nú við þjónustu almennt en áður við hraða þjónustunnar eingöngu. Mælikvarðinn um afgreidd frumkvæðismál og úttektir hefur verið færður frá öðru markmiði til þess þriðja. Mælikvarði sem áður var við þriðja markmið hefur verið tekinn út og í stað hans settur nýr mælikvarði um fjölda mála sem eru afgreidd innan áætlaðra tímamarka.

10.2 Trúmál

Á undanförnum árum hefur skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum og meðlimum þeirra fjölgað talsvert en meðlimum í Þjóðkirkjunni hefur að sama skapi fækkað. Þar koma bæði til ýmsar breytingar á samsetningu og viðhorfum þjóðarinnar og breytingar á lögum og verklagi varðandi skráningar í trúfélög. 

Ráðuneytið hefur um nokkurt skeið haft til skoðunar málefni er varða bálstofur. Ástæða þess er m.a. sú að bálstofan í Fossvogi, sem er eina bálstofa landsins og hefur verið rekin af Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma (KGRP) frá árinu 1948, hefur greint frá því að endurnýja þurfi brennsluofna bálstofunnar og að samhliða því þurfi að byggja nýja bálstofu vegna plássleysis. Áfram verður unnið að stefnumótun í málaflokknum innan gildandi kirkjugarðasamkomulags.

10.3 Sýslumenn 

Verkefni

Undir málaflokkinn fellur starfsemi sýslumannsembætta sem eru níu talsins og fara með staðbundið framkvæmdarvald ríkisins í héraði ásamt því að sinna sérverkefnum á landsvísu, sjá nánar á bls. 255 í fjármálaáætlun 2023–2027. Um sýslumenn gilda lög nr. 50/2014, um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, og eru umdæmismörk þeirra ákveðin með reglugerð. Í mars 2021 gaf dómsmálaráðuneytið út skýrslu sem unnið er eftir og hefur að geyma stefnu málaflokksins til framtíðar. Heiti skýrslunnar er „Sýslumenn – Framtíðarsýn; umbætur á þjónustu og rekstri“.

Helstu áskoranir

Í ríkisstjórnarsáttmálanum er m.a. lögð áhersla á að unnið verði að umbótum í þjónustu og rekstri sýslumanna í samræmi við útgefna framtíðarsýn þar um, auk þess að ráðist verði í hagræðingu verkefna samhliða stafrænni þróun. Áform ráðuneytisins um heildarendurskoðun löggjafar, sem varða annars vegar skipulag embættanna og hins vegar verkefnin, eru meðal þeirra aðgerða sem ráðuneytið mun vinna að næstu árin til stuðnings framangreindum áherslum.

Skýrsla dómsmálaráðuneytisins um framtíðarsýn sýslumannsembættanna ásamt þeim úttektum sem unnar hafa verið undanfarin ár á rekstri og stjórnsýsluframkvæmd embættanna benda á ýmsar áskoranir sem sýslumannsembættin standa frammi fyrir næstu árin við óbreyttar aðstæður. Helstu áskoranir málaflokksins tengjast náið þremur velsældaráherslum ríkisstjórnarinnar: kolefnishlutlausri framtíð, grósku í nýsköpun og betri samskiptum við almenning. Úttektunum ber saman um að tækifæri eru m.a. fyrir aukna sérhæfingu, nánari verkaskiptingu, bætta nýtingu fjármagns og aukna notkun stafrænna lausna fyrir máls-meðferðina. Ekki verður hins vegar séð að embættin geti nýtt sér tækifærin að öllu leyti við óbreytt skipulag embættanna.

Núverandi skipulag sýslumannsembættanna, með níu staðbundnum stjórnvöldum á sama málefnasviði og níu jafnsetta forstöðumenn sem deila faglegri ábyrgð á framkvæmd sömu verkefna, er ekki aðeins kostnaðarsamt, heldur er skipulagið til þess fallið að flækja stefnu-mótun og ákvörðunartöku sem tefur framþróun í málaflokknum. Sömuleiðis felur óbreytt skipulag í sér misræmi í málsmeðferð sem er fyrir vikið óskilvirkari og ógagnsærri út frá þjónustuupplifun almennings.

Tækninni og innleiðingu stafrænna lausna fylgja ýmsar áskoranir fyrir sýslumannsembættin, eins og þær sem snúa að reglulegri endurskoðun verklags og sértækum aðgerðum til að tryggja örugga og vandaða vinnslu við meðferð mála, uppfærslu hugbúnaðar og áfram-haldandi þróun. Verði ekki brugðist við þeim kröfum sem fylgja nútímastjórnsýslu og þá sérstaklega þeim aðstæðum sem einkenna starfsemi sýslumannsembættanna, þ.e. um náið samstarf og verkaskiptingu um land allt, er hætt við að með tímanum fjari undan grundvelli fyrir áframhaldandi dreifðri starfsemi embættanna.

Stafrænum lausnum fylgja ýmis útgjöld sem smærri embætti eiga erfiðara með að fjármagna og fyrir vikið er hætt við að embættin verði af tækifærum sem stærri embættin munu nýta sér. Óbreytt staða með níu sýslumannsembættum takmarkar möguleika á jafnari dreifingu nýrra starfa og verkefna út á landsbyggðina enda eru embættin í misgóðri stöðu til að takast á við breytingarnar.

Helstu áskoranir sýslumannsembættanna út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum varða hlutfallsskiptingu kynjanna, eftir því hvort um er að ræða almennt skrifstofufólk eða sérfræðinga. Í dag er hlutfallsskipting allra starfsmanna 18% karlar á móti 82% konum. Hlutföll háskólamenntaðra starfsmanna er svo til jöfn, þ.e. 55% karlar og 45% konur, en hjá almennu skrifstofufólki er staðan allt önnur þar sem 11% starfsfólks eru karlar og 89% konur. Mikilvægt er að taka á þessari ójöfnu kynjaskiptingu og leita allra tiltækra ráða til að jafna hlutfallið í öllum störfum hjá sýslumannsembættunum, sjá nánar á bls. 256 í fjármálaáætlun 2023–2027. Unnið er að greiningu á einstaka málefnasviðum sem sýslumannsembættin fara með framkvæmd á með það að markmiði að kanna hvort þar halli meira á annað kynið við meðferð mála. Niðurstaða greiningar liggur ekki fyrir.

Tækifæri til umbóta

Vorið 2022 kynnti dómsmálaráðherra áform sín um að fylgja eftir þeirri stefnumótunar-vinnu sem átt hefur sér stað undanfarin ár í málaflokknum, með endurskoðun laga um fram-kvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði og þeirrar löggjafar sem gildir um verkefni sýslumanna með það að meginmarkmiði að bæta þjónustuna við almenning. Til þess að ná megi umræddu markmiði þykir árangursríkast að taka gildandi löggjöf til gagngerrar endurskoðunar og er því í frumvarpi til laga um sýslumann lögð til sú breyting á skipulagi núverandi níu embætta að þau verði sameinuð í eitt, með svæðisbundinni skiptingu undir yfirstjórn eins sýslumanns. Meginmarkmiði frumvarpsins um að bæta þjónustu embættanna er skipt upp í þrjú undirmarkmið sem eru þau að: 1) gera þjónustuna eins góða og hægt er gagnvart almenningi, 2) hámarka nýtingu þess fjármagns sem ráðstafað er til reksturs sýslumanna og verkefna þeirra og 3) uppfylla þau markmið sem stefnt er að í byggðaáætlun og ríkisstjórnarsáttmálanum. Eru markmiðin jafnframt talin samræmast áherslum og markmiðum málaflokksins í fjármálaáætlunum undanfarinna ára og framtíðarstefnu ráðuneytisins fyrir málaflokkinn.

Ýmis tækifæri fylgja því að taka núverandi skipulag sýslumannsembættanna til gagngerrar endurskoðunar, s.s. með aukinni verkaskiptingu milli embættanna og/eða niðurfellingu áhrifa umdæmismarka sýslumanna. Slíkar hugmyndir kalla hins vegar í flestum tilfellum á lagabreytingar en þær einar og sér leysa ekki vandann sem embættin standa frammi fyrir í dag enda myndu gæði þjónustunnar alltaf ráðast af því svigrúmi sem hvert embætti hefur í rekstri. Sameinað embætti er talið í betri stöðu til að tryggja sambærilegt þjónustustig óháð staðsetningu þjónustuþega og starfsstöðva enda sé fjárheimildum málaflokksins þá ekki skipt milli fleiri embætta sem eru í misgóðri aðstöðu til að takast á við þær áskoranir sem fylgja rekstrinum. Af þeirri ástæðu er brýnt að leita allra tiltækra ráða til að hagræða í rekstri, s.s. í kostnaði vegna yfirstjórnar og stoðþjónustu, þannig að verja megi fjárheimildunum í þarfari hluti sem eru til þess fallnir að styðja við framtíðarsýnina. Breyttar rekstrarforsendur munu styðja enn frekar við stafræna framþróun og skapa m.a. tækifæri fyrir auknar tengingar milli opinberra kerfa og þannig draga úr óþarfa ferðum almennings vegna opinberrar þjónustu. Þótt framboð stafrænna lausna hafi aukist undanfarin ár er ljóst að frekari tækifæri eru fyrir hendi til að bæta þjónustuna með stafrænum umbótum. Markmið málaflokksins um áframhaldandi úrbætur á stafrænni þjónustu styður þannig við velsældaráherslur um bindingu og minni losun gróðurhúsalofttegunda, grósku í nýsköpun við framkvæmd opinberra starfa og betri samskipti við almenning.

Þeirri fjárhagslegu hagræðingu, sem reiknað er með að fáist við breytt skipulag sýslumannsembættanna til lengri tíma, verður varið í áframhaldandi uppbyggingu og framþróun sameinaðs embættis ásamt því að fjármagna eftir atvikum ný verkefni annars staðar úr stjórnkerfinu. Þannig er hvorki gert ráð fyrir að hagræðingin leiði til lækkunar fjárheimilda né fækkunar starfa hjá sýslumanni. Markmið lagabreytinganna er að styrkja starfsemi sýslumanns og að efla starfsemina, sérstaklega á landsbyggðinni, með fjölgun verkefna og stöðugilda, og um leið styrkja byggðir landsins og þjónustuna við almenning. Ekki verður séð að því markmiði verði náð með öðrum hætti en að nýta hagræðinguna í þágu áframhaldandi uppbyggingar málaflokksins.

Með breyttri framkvæmd og endurskipulagningu starfa og verkefna verður auðveldara að ráðast í þarfar skipulagsbreytingar innan málaflokksins og færa störf frá höfuðborgarsvæðinu til landsbyggðarinnar. Þannig gefst tækifæri bæði til að tryggja jafnt aðgengi að þjónustu embættanna og jafna tækifæri almennings til opinberra starfa. Ráðuneytið hefur þegar hrundið ýmsum verkefnum af stað sem er ætlað að efla starfsstöðvarnar á landsbyggðinni. Vinnan tengist m.a. aðgerð A.8. Stjórnsýslustöðvar ríkis í héraði í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036 sem er á ábyrgð dómsmálaráðuneytisins.

Með sameinuðu embætti skapast auk framangreinds tækifæri til að jafna dreifingu nýrra starfa og verkefna út á landsbyggðina enda yrði starfsemin þá rekin á einum fjárlagalið og embættinu stýrt af einum forstöðumanni sem hefði skyldur gagnvart öllu landinu. Núverandi níu sýslumannsembætti eru í misgóðri stöðu til að grípa tækifærin sem fylgja stafrænum umbótum og dreifa verkefnunum skipulega á allar starfsstöðvar landsins. Breytingar á yfir-stjórn sýslumannsembættanna, t.d. með fækkun sýslumanna niður í einn, eru betur til þess fallnar að vinna að því markmiði að standa vörð um störfin á landsbyggðinni.

Áhættuþættir

Gangi áformin um heildarendurskoðun á skipulagi og verkefnum sýslumannsembættanna ekki eftir er m.a. gert ráð fyrir að fjárheimildir málaflokksins dugi ekki til að ráðast í nauðsynlegar umbreytingar sem fylgja stafrænni framþróun og að almenningur upplifi áfram misræmi í framkvæmd og þjónustu sýslumanna enda verði embættin áfram í misgóðri stöðu til að sinna verkefnunum og mæta auknum og óvæntum kostnaði. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að störfin hjá sýslumannsembættunum muni ekki dreifast jafnt yfir landið gangi áform um heildarendurskoðun á skipulagi embættanna ekki eftir. Hætt er við að fjarað geti undan rekstrargrundvelli smærri starfsstöðva þar sem ný verkefni og störf sem fylgja tækninni munu með tímanum færast til stærri embætta sem hafa svigrúm í rekstri til að grípa tækifærin sem fylgja stafrænum umbótum. Hver sýslumaður ber ábyrgð á eigin rekstri og starfsfólki og þykir ljóst að sú staða muni vinna gegn markmiðum stjórnvalda um jafnt aðgengi að þjónustu embættanna og jöfn tækifæri almennings til opinberra starfa. Nauðsynlegt er að grípa inn í áður en í óefni er komið og tryggja rekstur fámennari starfsstöðva sýslumannsembættanna.

Markmið og mælikvarðar

Markmið
HM
Mælikvarðar
Staða
2022
Viðmið 2024
Viðmið 2028
Að bæta þjónustu sýslumanns.
16.6
Ánægja viðskiptavina með þjónustuna.[1]
85%
86%
88%
16.6
Traust almennings til sýslumanns.[2]
89%
90%
91%
16.6, 16.10
5.b, 9.1
Nýting á vef sýslumanns.[3]
37%
40%
50%
Að bæta stafræna þjónustu sýslumanna.
16.6
Hlutfall rafrænna umsókna (eyðublöð og sjálfsafgreiðsla).[4]
62%
70%
85%
16.6
Hlutfall rafrænna færslna í þing­lýsingu.[5]
38%
50%
65%
11.a, 11.b,
16.7
Hlutfall stöðugilda sérfræðinga á landsbyggðinni.
14%
17%
25%
Að jafna aðgengi að opinberri þjónustu.
16.6,
16.10
Fjöldi daga í afgreiðslu erinda.[6]
49
47
43

[1] Hlutfall þeirra sem eru mjög ánægðir, frekar ánægðir og hvorki né með þjónustu sýslumannsembættanna, samkvæmt könnun sem er framkvæmd af Gallup og ber heitið „Ánægja með þjónustu sýslumanna“.
 [2] Hlutfall þeirra sem bera fullkomið traust, mjög mikið traust, frekar mikið traust eða hvorki né til sýslumannsembættanna, samkvæmt könnun sem er framkvæmd af Gallup og ber heitið „Ánægja með þjónustu sýslumanna“.
 [3] Hlutfall þeirra sem öfluðu sér upplýsinga af þjónustuvef sýslumanna samkvæmt könnun sem er framkvæmd af Gallup og ber heitið „Ánægja með þjónustu sýslumanna“.
 [4] Hlutfall rafrænna umsókna og sjálfsafgreiðsluerinda sem voru í notkun yfir 12 mánaða tímabil, miðað við stöðuna í lok árs.
 [5] Fjöldinn reiknast sem hlutfall þeirra rafrænna færslna af heild þeirra áfanga/skjaltegunda sem hafa verið innleiddir og í notkun yfir 12 mánaða tímabil, miðað við stöðuna í lok árs. Árið 2022 var aðeins í boði að þinglýsa með rafrænni færslu aflýsingarvottorðum og veðskuldabréfum.
 [6] Fjöldi daga reiknast sem miðgildi á meðal dagafjölda málaflokka samkvæmt skráningu í starfskerfi sýslumanna (sifjamála, dánarbús-, lögráða-, aðfarar- og nauðungarsölukerfi).

Í fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027 voru markmiðin skilgreind sem bætt þjónusta sýslumannsembættanna, að bæta stafræna þjónustu sýslumanna og að efla samræmda máls-meðferð. Þriðja markmiðinu hefur verið breytt ásamt því að mælikvarðar fyrir annað markmiðið hafa verið útfærðir nánar.

Undir markmiðinu „Að bæta stafræna þjónustu sýslumanns“ var í fjármálaáætluninni að finna mælikvarðana „Hlutfall stafrænna umsókna (eyðublöð og sjálfsafgreiðsla)“ og „Hlutfall rafrænna færslna í sjálfvirka þinglýsingu“. Þessum mælikvörðum hefur verið breytt efnislega ásamt því að viðföngin sem verið er að mæla hafa breyst. Fyrri mælikvarðinn orðast nú þannig: „Hlutfall rafrænna umsókna (eyðublöð og sjálfsafgreiðsla)“. Við árangursmælingar vegna ársins 2021 var aðeins byggt á þeim tölfræðiupplýsingum sem lágu fyrir í byrjun árs 2022 sem voru nýting rafrænna umsókna fyrir heimagistingu og sakavottorð. Nú er búið að innleiða fleiri málaflokka í rafrænt umsóknarkerfi sýslumanna sem stofnar annars vegar sjálfvirkt mál í starfskerfi sýslumanna og hins vegar fyrir sjálfsafgreiðslu þjónustuþega. Viðföngin sem nú er verið að mæla eru eftirfarandi: Fjölskyldumál, heimagisting, vanrækslugjald, leyfisveitingar, lögmannsréttindi, skírteini og vottorð. Mælikvarðinn „Hlutfall rafrænna færslna í þinglýsingar“ vegna þeirra áfanga/skjaltegunda sem í boði er að þinglýsa rafrænt þykir betur til þess fallinn að endurspegla samfélagsvirði og gefa tækifæri til að mæla og sýna fram á jákvæðar breytingar næstu árin. Ef mælikvarðanum yrði ekki breytt væri lítið svigrúm til úrbóta þar sem hlutfall rafrænna þinglýsinga, sem fór í handvirka vinnslu árið 2022, var mjög lágt.

Markmiðið um að efla samræmda málsmeðferð hefur verið umorðað og felst nú í því að jafna aðgengi að opinberri þjónustu. Inntak markmiðsins er það sama þrátt fyrir þessa breytingu og því verður áfram stuðst við mælikvarðann „Fjöldi daga í afgreiðslu erinda“ við mat á árangri.

10.4 Stjórnsýsla dómsmálaráðuneytis 

Verkefni

Undir stjórnsýslu dómsmálaráðuneytis falla m.a. rekstur ráðuneytisins, Stjórnartíðindi og Schengen-landamærasjóður. Verkefni dómsmálaráðuneytisins varða m.a. dómstóla, réttarfar, almannavarnir, löggæslu, trúmál og kosningar. Þá heyrir einnig undir ráðuneytið verkefni varðandi framfylgd laga og reglna um undirbúning stjórnarfrumvarpa. 

Í samræmi við framtíðarsýn fyrir réttarvörslugátt, stafrænt flæði gagna á milli stofnana réttarvörslukerfisins, er markmiðið að árið 2025 verði hægt að senda gögn að fullu stafrænt á milli stofnana í réttarvörslukerfinu. Árið 2024 verður megináhersla á að innleiða ferli sem snúa að einkamálum. Þótt framtíðarsýnin um þróun kerfisins liggi fyrir miðað við núverandi skilgreiningu verkefnisins er ljóst að enn eru stofnanir og ferli sem munu bætast við og verkefninu því hvergi nærri lokið. Nánari upplýsingar um réttarvörslugátt má finna í fjármálaáætlun 2023–2027, kafli 10.4 á bls. 259.

Tekin hefur verið ákvörðun um það að setja á laggirnar stafrænt DMR, einingu innan dómsmálaráðuneytis. Einingin mun halda utan um stafræn verkefni ráðuneytisins og stofnana þess, setja upplýsingatæknistefnu þess og mun hafa eftirfarandi markmið:

  • Samnýta þekkingu, aðgerðir og lágmarka tvíverknað í upplýsingatækni.
  • Tryggja að hugbúnaðarkerfi DMR og stofnana þess séu hæf til að styðja við núverandi hlutverk og geta stutt áframhaldandi stafræna þróun og breytt vinnulag. 
  • Auka stafrænan þroska stofnana með samræmdum kröfum og innleiða örugg vélræn gagnasamskipti á milli kerfa til að styðja við frumkvæði í þjónustu.

Unnið verður að uppbyggingu einingarinnar á tímabili fjármálaáætlunar en þegar eru nokkur verkefni tengd upplýsingamálum rekin af skrifstofu fjármála og rekstrar, annars vegar verkefni innan ráðuneytisins og hins vegar verkefni í samvinnu við stofnanir ráðuneytisins. Bæði verkefnin um réttarvörslugátt og um stafræna einingu dómsmálaráðuneytis styðja við velsældarmarkmiðin um grósku í nýsköpun og betri samskipti við almenning þar sem í verkefnunum er ávallt haft að leiðarljósi að leita bestu leiða til þess að þjónusta almenning, hraða málsmeðferð og nýta til þess nýjustu tækni og lausnir. Við nýtingu tæknilegra lausna og í stafrænni þjónustu verður ætíð horft til þess að tryggja aðgengi og jafnræði ólíkra hópa.

Ráðuneytið fer með forystu og samhæfingu í gæðamálum við gerð lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna. Framþróun faglegra og vandaðra verkferla og vinnubragða þvert á ráðuneyti við gerð þeirra er því veigamikill þáttur í starfseminni. Má í því sambandi nefna áherslu á skýrleika og skilvirkni nýrrar löggjafar í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Tækifæri eru til að hagnýta stafræna tækni til að spara tíma og bæta þjónustu.
Fjölga þarf málum sem efnt er til opins samráðs um í samráðsgátt stjórnvalda. Tengjast þau verkefni m.a. upplýsingastefnu stjórnvalda (nóv. 2022) þar sem lögð er áhersla á að stjórnvöld stuðli að þátttöku almennings í stefnumótun og ákvarðanatöku með opnu samráði og mark¬vissri upplýsingagjöf.

Undanfarin ár hefur átt sér stað vinna við uppfærslu rafræns reglugerðasafns. Jafnframt hefur verið unnið að þarfagreiningu vegna endurnýjunar kerfa fyrir Stjórnartíðindi og Lög-birtingablaðið. Vinna við reglugerðasafnið, sem felst í því að fella breytingareglugerðir inn í stofnreglugerðir, er komin vel á veg. Stjórnartíðindi og Lögbirtingablaðið byggja á kerfum sem þarfnast heildarendurskoðunar. Aðkallandi er að halda áfram að tryggja umhverfi fyrir birtingu laga, reglugerða og annarra reglna og tilkynninga sem nauðsynlegar eru hverju réttarríki. Kerfi Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðsins byggja í grunninn á sömu ferlum og þörfum og reglu¬gerðasafnið en auk þess þarf að samtengja kerfin svo hægt sé að stuðla að sjálfvirkri uppfærslu reglugerða að lokinni formlegri birtingu þeirra. Vinnan sem er fram undan við kerfin þrjú tengist því náið og gert er ráð fyrir að uppfærslunni ljúki á árinu 2024.

10.5 Útlendingamál 

Verkefni

Undir málaflokkinn heyrir starfsemi Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála samkvæmt lögum um útlendinga nr. 80/2016 og gildandi reglugerðum á málefnasviðinu. Útlendingastofnun annast stjórnsýslulega meðferð umsókna og erinda vegna vegabréfsáritana, dvalarleyfa, ríkisborgararéttar, alþjóðlegrar verndar og brottvísana. Kærunefnd útlendingamála er sjálfstæð stjórnsýslunefnd með sömu valdheimildir og ráðherra sem úrskurðaraðili á æðra stjórnsýslustigi.
 
Undir málaflokkinn heyrir einnig þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd skv. lögum um útlendinga nr. 80/2016 og gildandi reglugerðum á málefnasviðinu. Það er félags- og vinnumarkaðsráðuneytið sem ber ábyrgð á 27. og 33. gr. laganna um móttökumiðstöð og rétt¬indi umsækjanda um alþjóðlega vernd en Vinnumálastofnun annast framkvæmd þjónustunnar frá júlí 2022. Þá opnaði félags- og vinnumarkaðsráðuneytið móttökumiðstöð fyrir umsækjend¬ur um alþjóðlega vernd vorið 2022. Vinnumálastofnun, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Útlendingastofnun og Fjölmenningarsetur hafa haft aðsetur í móttökumiðstöðinni en sambýli stofnananna hefur leitt af sér betra samstarf og aukið skilvirkni við móttöku, ráðgjöf og þjónustu til umsækjenda um alþjóðlega vernd. 

Helstu áskoranir

Helsta áskorun málaflokksins er og verður áfram erfiðleikar við að spá fyrir um fjölda umsókna um alþjóðlega vernd á ári hverju. Fjölmörg atriði spila þar inn í, þar á meðal ytri þættir, sem ómögulegt er að hafa stjórn eða áhrif á. Gera þarf ráð fyrir sveiflum í þessum málum með tilheyrandi ófyrirsjáanleika varðandi útgjöld. Árið 2022 var metár í fjölda umsókna um alþjóðlega vernd, ekki einungis vegna fjöldaflótta frá Úkraínu í kjölfar innrásar Rússa í landið heldur einnig vegna annarra umsókna. Áfram verður áskorun að greina betur útgjöld mála¬flokksins, spá fyrir um fjölda umsækjenda og tryggja fjármögnun og rekstur málaflokksins á þann hátt að mögulegt sé að bregðast árlega við sveiflum í fjölda umsækjenda.
 
Til að mæta þessu og koma í veg fyrir tafir á afgreiðslu umsókna er gert ráð fyrir 300 m.kr. tímabundnum framlögum til tveggja ára til Útlendingastofnunar, en á móti fellur niður 196 m.kr. framlag til að mæta auknum fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd og umsækjenda frá Úkraínu.
 
Umsækjendum um alþjóðlega vernd er almennt að fjölga í Evrópu. Ástæðurnar eru margar og fjölbreyttar. Mikilvægt er að horfast í augu við nýjan raunveruleika, málaflokkurinn hefur vaxið gríðarlega og mun umfang hans ekki minnka teljanlega á næstunni. Að því sögðu er mikilvægt að málaflokkurinn sé ekki rekinn sem átaksverkefni heldur að starfsemi allra hlutað¬eigandi stofnana og fjármögnun málaflokksins geti tekið mið af stöðunni hverju sinni þannig að hægt sé að bregðast við fjölgun og fækkun umsækjenda með nauðsynlegum mannafla svo skilvirk og skjót málsmeðferð sé tryggð hverju sinni. Gert er ráð fyrir 5.550 m.kr. tíma¬bundnum framlögum til tveggja ára vegna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd.
 
Líkt og fram kemur á bls. 11–12 í fjármálaáætlun 2023–2027 lagði fjöldi úkraínskra borgara á flótta, m.a. til Evrópu í kjölfar þess að rússneski herinn hóf innrás í Úkraínu 24. febrúar 2022. Dómsmálaráðherra tók í framhaldinu ákvörðun um að virkja 44. gr. útlendingalaga nr. 80/2016 en það þýðir að flóttamenn frá Úkraínu geta komið hingað til lands og fengið tímabundna vernd á grundvelli hópmats. Sú ákvörðun var framlengd til eins árs, nánar tiltekið til og með 3. mars 2024. Árið 2022 komu alls 2.345 einstaklingar frá Úkraínu og sóttu um tímabundna vernd á grundvelli 44. gr. Búast má við svipuðum fjölda árið 2023 en spádómur lengra fram í tímann ræðst eðli málsins samkvæmt af framvindu átakanna í Úkraínu.
 
Í kjölfar úttektar föstu eftirlitsnefndarinnar með Schengen-samstarfinu, sem fram fór árið 2017, á innleiðingu og beitingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2008/115/EB um sameiginleg viðmið og skilyrði fyrir brottvísun ríkisborgara utan EES sem dveljast ólöglega á yfirráðasvæði aðildarríkjanna (brottvísunartilskipunin) hafa verið gerðar athugasemdir við að ekki sé til staðar hérlendis lokað úrræði fyrir útlendinga sem bíða endursendingar. Þessar athugasemdir ítrekaði eftirlitsnefndin við úttekt sem fram fór hér á landi í maí 2022. Samkvæmt ábendingum nefndarinnar þyrfti á næstu árum að fara fram vinna við að setja á laggirnar slíkt úrræði.
 
Helstu áskoranir í þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd tengjast náið tveimur velsældaráherslum ríkisstjórnarinnar, þ.e. öryggi í húsnæðismálum og virkni í námi og starfi. Umræddar áherslur hafa bein áhrif á þjónustu Vinnumálastofnunar við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Áskorun hefur verið fyrir stofnunina að tryggja búsetuúrræði fyrir umsækjendur vegna aukins fjölda sem sótt hefur um vernd á undanförnum mánuðum, lengri málsmeðferðar og almenns húsnæðisskorts hér á landi. Til að mæta þeirri áskorun hefur stofnunin tekið fjölda búsetuúrræða á leigu víðs vegar um landið til að hýsa umsækjendur um alþjóðlega vernd, auk þess sem opnuð hefur verið fjöldahjálparstöð þar sem unnt er í neyðartilvikum að hýsa umsækjendur um alþjóðlega vernd í stuttan tíma eða þar til viðunandi húsnæði finnst fyrir viðkomandi. Þá veitir Vinnumálastofnun umsækjendum félagslegan stuðning í formi virkniúrræða, m.a. með samningi við Rauða krossinn.
 
Umsóknum um dvalarleyfi fjölgaði um 40% frá árinu 2019 til ársins 2022. Þannig hefur meðaltalsfjöldi umsókna á mánuði farið úr 480 árið 2019 í 680 árið 2022. Fyrirséð er að um-sóknum mun halda áfram að fjölga sé tekið mið af þörfum atvinnulífs og mannfjöldaspám Hagstofunnar. Þessi aukning hefur falið í sér nýjar áskoranir fyrir Útlendingastofnun.
 
Helstu áskoranir við afgreiðslu umsókna í málaflokknum tengjast náið þremur velsældar-áherslum ríkisstjórnarinnar, þ.e. kolefnalausri framtíð, grósku í nýsköpun og betri samskiptum við almenning. Heimasíða Útlendingastofnunar á island.is verður gagnvirk þegar fram líða stundir, leiðir fólk betur áfram og styður það í umsóknarferli sínu. Þá er hafin vinna við innleiðingu á nýju upplýsingatæknikerfi sem einnig verður gagnvirkt þegar fram líða stundir. Þessar tvær aðgerðir styðja beint við þau þrjú markmið ríkisstjórnarinnar sem hér hafa verið nefnd. 
Með aukinni rafrænni þjónustu er dregið úr þörf fólks til að ferðast til og frá stofnuninni og senda gögn á pappír. Gera má ráð fyrir minni þörf á almennum rekstrarvörum hjá stofnuninni og minni geymsluþörf á skjalasafni sem allt stuðlar að kolefnishlutlausri framtíð.
 
Líkt og fram kemur á bls.12 í fjármálaáætlun 2023–2027 eru upplýsingar um kyn hluti af grunnskráningu einstaklinga í upplýsingakerfi Útlendingastofnunar. Meðal umsækjenda um vernd komu konur oftast sem hluti af fjölskyldu eða sem einstætt foreldri. Gögn um alþjóðlega vernd endurspegla að einhverju leyti þau stöðluðu kynjahlutverk að konur beri ábyrgð á umönnun barna og fjölskyldulífi. Lög um útlendinga nr. 80/2016 gera ráð fyrir að einstaklingsbundnar þarfir umsækjenda um alþjóðlega vernd séu greindar og metnar og þjónusta veitt hverjum og einum umsækjanda í samræmi við þær þarfir. Þá er ávallt tekið mið af einstaklingsbundnum aðstæðum umsækjenda við mat á því hvort viðkomandi teljist hafa þörf fyrir alþjóðlega vernd hér á landi. Gögn um dvalarleyfi bera með sér að konur fái heldur útgefin leyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar en karlar á grundvelli atvinnu. Staða kynjanna á málefnasviðinu er vissulega ólík. Ekki hefur verið talin þörf á sérstökum aðgerðum þar sem sá kynbundni munur sem gögn sýna fram á er óviðráðanlegur.

Tækifæri til umbóta

Eitt af áherslumálum í gildandi sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf er mótun skýrrar og heildstæðrar stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks sem miðar að því að fólk sem sest hér að hafi tækifæri til inngildingar og virkrar þátttöku í samfélaginu og á vinnumarkaði. Í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu er hafin vinna við framangreinda stefnumótun. Sú vinna verður unnin í breiðu samráði við hagaðila sem koma að málefnum innflytjenda og flóttafólks.
 
Þegar kemur að þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd þykir almennt mikilvægt að kerfi og stofnanir, sem meta einstaklingsbundnar aðstæður og hagsmuni, séu skilvirk og að greining á viðkvæmri stöðu fari fram í upphafi umsóknarferlis til að veitt þjónusta sé mannúðleg, við hæfi og framkvæmd fullnægjandi. Þá má ætla að tækifæri felist í samþættingu þjónustu og frekari virkjun sveitarfélaga til að annast þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2022

Viðmið 2024

Viðmið 2028

Fagleg og skilvirk máls­meðferð stjórnvalda í þágu þjónustu­þega.

16.6,

16.9, 16.10

Fjöldi daga þar til niðurstaða um dvalarleyfi liggur fyrir.

ÚTL:

90

 

KNÚ:

44

ÚTL:

40

 

KNÚ:

40

ÚTL:

35–40

 

KNÚ:

40

16.6, 16.9, 16.10

Fjöldi daga þar til niðurstaða um alþjóðlega vernd liggur fyrir.

ÚTL

124*

 

KNÚ:

48

 

ÚTL:

90

 

KNÚ:

90

 

ÚTL:

90

 

KNÚ:

90

 

 

 

Aukin ánægja viðskiptavina og almennings.

16.6, 16.9, 16.10,

5.b

Hlutfall rafrænna umsókna um endurnýjun dvalarleyfa og ríkisborgararétt hækki.

Ekki hafið

60%

95%

Greinarbetri aðgengi og upplýsingagjöf um réttindi einstaklinga.

16.10

Niðurstaða úr skönnun opin­berra vefja.

90,1%

91%

92%

*Að undanskildum veitingum tímabundinnar verndar vegna fjöldaflótta frá Úkraínu en að meðtöldum slíkum veitingum var málsmeðferðartími umsókna um vernd árið 2022 alls 48 dagar.

Áfram verður unnið með mælikvarða um hlutfall umsókna um rafræna móttöku og af-greiðslu umsókna um endurnýjun dvalarleyfa og ríkisborgararétt. Með aukinni áherslu á raf-ræna stjórnsýslu og að teknu tilliti til þess að rafræn stjórnsýsla stuðli að styttri málsmeðferðartíma, bættri þjónustu og betri, öruggari og skilvirkari samskiptum við samstarfsaðila þykir rétt að til staðar sé mælikvarði sem endurspegli það.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum