Hoppa yfir valmynd

31 Húsnæðisstuðningur

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð innviðaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra. Það skiptist í tvo málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2021–2023. 

Tafla: Heildarúgjöld málasviðsins

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn málefnasviðsins er að stöðugleiki ríki á húsnæðismarkaði þar sem framboð íbúða mætir undirliggjandi þörf mismunandi félagshópa til lengri og skemmri tíma og öllum, óháð efnahag og búsetu, er tryggt öruggt og heilnæmt húsnæði á viðráðanlegu verði í jafnvægi við umhverfið. Skipulag byggðar og landnotkunar styðji samkeppnishæfni landsins alls og einstakra landshluta og stuðli að lífsgæðum fólks í sátt við náttúru og landslag. Meginmarkmið málefnasviðsins eru jafnvægi á húsnæðismarkaði og að skipulag gefi kost á fjölbreyttri nýtingu lands um leið og mikilvægum auðlindum verði viðhaldið.

Fjármögnun

Helstu breytingar á útgjaldaramma málefnasviðsins á tímabili fjármálaáætlunar er 10 ma.kr. aukning á stofnframlögum. Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Tafla: Fjárheimildir málasviðsins

Helstu áherslur 2024–2028

JAFNVÆGI Á HÚSNÆÐIS-MARKAÐI  -  Einn ferill um húsnæðis-uppbyggingu. Skipulag í þágu byggðar. Húsnæðisöryggi fyrir ólíka félagshópa.

31.1 Húsnæðismál

Verkefni

Undir málaflokkinn falla Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), húsnæðisbætur, stofnframlög til almennra íbúða, félagslegar lánveitingar, s.s. hlutdeildarlán til kaupa á fyrstu íbúð, svo og vaxtabætur, skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar og annar stuðningur til kaupa fyrstu íbúðar. HMS hefur m.a. umsjón með faglegum undirbúningi mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með gæðum, öryggi, heilnæmi og réttleika í skráningum fasteigna og gerð fasteignamats. Einnig á HMS að stuðla að auknu aðgengi almennings að viðunandi húsnæði á viðráðanlegu verði, hvort sem er til eignar eða leigu, auk þess að meta framtíðarþörf og áætla framboð húsnæðis og stuðla þannig að auknum stöðugleika á húsnæðismarkaði. Stofnunin veitir enn fremur félagsleg húsnæðislán, annast framkvæmd húsnæðisbóta og annan húsnæðisstuðning vegna leiguíbúða í formi stofnframlaga til byggingar eða kaupa á almennum íbúðum í samstarfi við sveitarfélög.

Unnið er að þingsályktunartillögu um stefnumótun á sviði húsnæðismála sem ráðgert er að verði lögð fram á Alþingi 2023. Stefnan verður samhæfð öðrum áætlunum innviðaráðuneytisins á sviði skipulags- og samgöngumála og sveitarfélaga og byggðamála. Þá verður hún samhæfð öðrum stefnum stjórnvalda eins og við á, s.s. á sviði félagsmála.

Helstu áskoranir

Framboð íbúða á viðráðanlegu verði er ein helsta áskorunin á húsnæðismarkaði. Á grundvelli laga um almennar íbúðir nr. 52/2016 veita ríki og sveitarfélög stofnframlög til byggingar og kaupa á leiguíbúðum ætlaðar einstaklingum og fjölskyldum undir ákveðnum tekju- og eignamörkum til að stuðla að því að í boði verði leiguíbúðir á viðráðanlegu verði. Með stofnframlögum er ætlunin að skapa grundvöll fyrir leiguverð sem samræmist greiðslugetu leigjanda og sé að jafnaði ekki hærri en 25% af tekjum. Framboð íbúða hefur minnkað mikið að undanförnu samhliða mikilli hækkun á fasteignaverði. Mæta þarf hækkun húsnæðisverðs og veikri stöðu leigjenda og fyrstu kaupenda undir tilteknum tekjumörkum með því að auka aðgengi að hagkvæmu húsnæði á viðráðanlegu verði fyrir tekju- og eignalægri einstaklinga og fjölskyldur. Niðurstaða þarfagreiningar sveitarfélaga í húsnæðisáætlunum er að byggja þurfi um 37.000 íbúðir á næstu 10 árum til að mæta fólksfjölgun. Í þeirri greiningu er ekki tekið mið af nauðsynlegri uppbyggingu til að mæta uppsafnaðri íbúðaþörf sem í íbúða­þarfa­greiningu HMS er metin um 4.000 íbúðir. Að mati hagdeildar HMS gefur uppfærð mann­fjöldaspá Hagstofu Íslands og íbúðaþarfagreining sveitarfélaga sterkar vísbendingar um aukna íbúðaþörf. Er það mat hagdeildar HMS að byggja þurfi 3.000−4.000 íbúðir árlega næstu 5−10 árin til að mæta uppsafnaðri íbúðaþörf og spá um fólksfjölgun í landinu. Er þar ekki tekið tillit til vaxandi straums flóttafólks til landsins m.a. vegna stríðsátaka í Úkraínu. Samkvæmt upplýsingum frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu er áætlaður fjöldi þeirra sem munu þurfa varanlegt húsnæði eftir að hafa fengið samþykkta umsókn um alþjóðlega vernd árið 2023 í kringum 4.000 manns en óljóst er hver þróunin verður í framhaldinu.

Opinber húsnæðisstuðningur byggir á aðkomu margra ráðuneyta, stofnana og sveitarfélaga. Í umbótavinnu á sviði húsnæðismála hafa komið fram sjónarmið um að húsnæðis­stuðningskerfin séu ekki nægilega samhæfð, þau skorti almennt skilgreind markmið um áhrif á byrði húsnæðiskostnaðar, auk þess sem tryggja þurfi betur að stuðningur þróist í samræmi við verðlag. Greina þarf betur hagræn áhrif húsnæðisstuðningskerfa á húsnæðismarkaðinn og setja þarf fram upplýsingar um byrði húsnæðiskostnaðar í rauntíma með möguleika á nánari greiningu á stöðu ólíkra félagshópa. Slíkar upplýsingar eru nauðsynlegar til að meta virkni húsnæðisstuðningskerfanna með tilliti til stöðugleika og húsnæðisöryggis og til að unnt verði að greina betur virkni og samspil ólíkra húsnæðisstuðningskerfa.

Greiningar á húsnæðisstuðningi hafa leitt í ljós að stuðningurinn skiptist mjög misjafnlega eftir tekjuhópum og uppfyllir ekki þau markmið að styðja helst tekjulága einstaklinga, fyrstu kaupendur og þau sem búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað vegna þungrar framfærslubyrði. Þá hefur m.a. verið bent á nauðsyn þess að taka til skoðunar fyrirkomulag opinbers húsnæðisstuðnings við leigjendur með það að markmiði að tryggja jafnræði, einfalda kerfið og auka við fjárfestingu í félagslegu húsnæði til útleigu. Með því megi stuðla að hagkvæmara leiguverði og lægri byrði húsnæðiskostnaðar.[1] Í ljósi þessara áskorana skipaði innviðaráðherra starfshópa um annars vegar aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði og hins vegar um húsnæðisstuðning.

Sú þróun sem orðið hefur á fasteignamarkaði síðustu misseri, þ.e. hærra fasteignaverð, vaxtahækkun og takmörkun á veitingu fasteignalána, hefur dregið verulega úr möguleikum fyrstu kaupenda og tekjulægri einstaklinga til íbúðarkaupa. Hlutfall fyrstu kaupenda af fasteignaviðskiptum hefur farið lækkandi, úr 33,2% á fyrsta ársfjórðungi 2021 í 26,5% á fjórða ársfjórðungi 2022 og fjöldi fyrstu kaupa dróst einnig saman um meira en helming á sama tíma. Enn fremur lækkaði meðalkaupverð íbúða fyrstu kaupenda. Þörf er á að greina ástæðu þessarar þróunar og endurskoða og auka skilvirkni fyrirkomulags við veitingu hlutdeildarlána til að þau uppfylli betur markmið sín fyrir fyrstu kaupendur og þau sem ekki hafa átt fasteign sl. fimm ár sem eru undir tilteknum tekjumörkum. Helstu áskoranir eru að viðmiðunarverð íbúða, sem uppfylla skilyrði fyrir veitingu hlutdeildarlána, hefur ekki hækkað í takt við hækkandi húsnæðisverð og því eru fáar eignir sem uppfylla skilyrði lánanna. Samhliða hafa vaxtakjör húsnæðislána farið stighækkandi frá miðju ári 2021 og því fjölgar þeim sem ekki standast greiðslumat lánveitenda þrátt fyrir vilyrði um hlutdeildarlán sem numið geta allt að 30% af kaupverði íbúða hjá þeim einstaklingum sem eru undir viðmiðunartekjum.

Því þarf að endurskoða viðmið sem sett eru vegna veitinga hlutdeildarlána svo þau nái markmiðum sínum. Stefnt er að því að stuðningur stjórnvalda nái til allt að 480 íbúða í hlutdeildarlánakerfinu á ári hverju en til samanburðar voru hlutdeildarlánaíbúðir 151 talsins á árinu 2022. Stuðningur stjórnvalda í formi hlutdeildarlána er í gegnum húsnæðissjóð sem stendur utan ramma fjármálaáætlunar.

Stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið um kolefnishlutleysi, áskorun er fólgin í því að áætlað er að mannvirkjageirinn sé ábyrgur fyrir um 30–40% af heildarkolefnislosun á heimsvísu. Á Íslandi er talið að um 58% af kolefnislosun byggingariðnaðar séu vegna byggingarefna, framkvæmda og flutnings, um 30% vegna orkunotkunar í rekstri og um 12% vegna viðhalds.

Tækifæri til umbóta

Mörg tækifæri eru til umbóta á sviði húsnæðismála. Hér er gerð grein fyrir þeim helstu.

Framboð íbúða á viðráðanlegu verði. Með rammasamkomulagi[2] ríkis og sveitarfélaga til næstu 10 ára er sett fram sameiginleg sýn um uppbyggingu íbúða til að mæta íbúðaþörf ólíkra hópa samfélagsins og stuðla að auknum stöðugleika á húsnæðismarkaði. Það er sameiginleg sýn ríkis og sveitarfélaga að næstu tíu árin verði 30% nýrra íbúða hagkvæmar á viðráðanlegu verði og 5% til viðbótar félagslegar íbúðir á vegum sveitarfélaga. Verði uppbygging almennra íbúða í samræmi við þessar áætlanir mun hlutfall almenna íbúðakerfisins hækka úr um 2% í 6% af heildarfjölda íbúða á landinu. Gerðir verða samningar við einstök sveitarfélög á grundvelli rammasamnings með það að markmiði að auka framboð með því að tryggja lóðaframboð og veita nauðsynlegan fjárstuðning til byggingar íbúða á hagkvæmu verði.

Aukið framboð húsnæðis er lykillinn að því að draga úr vægi húsnæðisliðar á vísitölu neysluverðs og stuðlar að því að skortur myndist ekki á markaði með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu.

Markviss húsnæðisstuðningur fyrir þau sem standa höllum fæti. Stjórnvöld stefna að því að innleiða aðgerðir til að auka hlut íbúða í almenna íbúðakerfinu fyrir tekjuminni einstaklinga. Áfram verður stutt við tekjulága einstaklinga í gegnum húsnæðis- og vaxtabótakerfin. Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta voru hækkaðar um 13,8% samhliða 7,4% hækkun á tekju­mörkum frá 1. janúar 2023. Enn fremur voru eignamörk vaxtabóta hækkuð um 50% í upphafi árs 2023 og stefnt er að því að heimild til skattfrjálsrar ráðstöfunar séreignarsparnaðar til kaupa á íbúðarhúsnæði verði framlengd til ársloka 2024. Fyrirkomulag sérstaks húsnæðisstuðnings og húsnæðisbóta til leigjenda verður tekið til skoðunar með það að markmiði að tryggja jafnræði og einfalda kerfið fyrir leigjendur. Mikil áhersla er á lækkun húsnæðiskostnaðar heimila og húsnæðisöryggi í stjórnarsáttmála og þá er húsnæðisöryggi ein af velsældaráherslum ríkisstjórnarinnar.

Nauðsynlegt er að líta til þeirrar reynslu sem komin er á úrræði um beinan húsnæðis­stuðning til einstaklinga og gera viðeigandi breytingar til að þau nái betur markmiðum sínum. Húsnæðisáætlanir leiða í ljós mikla þörf á hagkvæmu leiguhúsnæði og því er áframhaldandi uppbygging almenna íbúðakerfisins mikilvæg. Í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar­innar verður á tímabili fjármálaáætlunar ráðist í sérstakt átak til uppbyggingar á leiguhúsnæði fyrir fatlað fólk og eldra fólk innan almenna íbúðakerfisins en einnig þarf að leggja áherslu á að húsnæðisstuðningur og húsnæðisúrræði mæti þörfum annarra félagshópa sem á þurfa að halda.

Uppbygging í samræmi við íbúðaþörf. Ónægt framboð byggingarhæfra lóða hefur staðið húsnæðisuppbyggingu fyrir þrifum en með rammasamningi ríkis og sveitarfélaga hefur verið lagður grundvöllur að sameiginlegri sýn og stefnu ríkis og sveitarfélaga í húsnæðismálum til lengri tíma til að tryggja nauðsynlega uppbyggingu á húsnæðismarkaði auk þess að lagðar eru til aðgerðir til að ná fram aukinni samþættingu í málaflokknum. Samningurinn felur í sér að gerð verði heildstæð húsnæðisáætlun fyrir landið allt til að meta og mæta húsnæðisþörf ólíkra hópa samfélagsins. Hann kveður m.a. á um aðgerðir sveitarfélaga til að tryggja tímanlegt framboð á lóðum og um húsnæðisstuðning frá ríkinu til að tryggja framboð hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði, auk þess sem húsnæðisáætlanir sveitarfélaga skuli notaðar til eftirfylgni á uppbyggingu. Enn fremur er lögð áhersla á að samþætta regluverk, ferla og framkvæmd í skipulags- og byggingarmálum til að auka skilvirkni og hagkvæmni. Markmið rammasamnings kveða á um að byggðar verði 35.000 nýjar íbúðir á 10 árum en á fyrstu fimm árunum verði þó byggðar 4.000 íbúðir á ári og 3.000 íbúðir næstu fimm árin þar á eftir. Vegna núverandi efna­hagsástands, blikna á lofti varðandi starfsemi verktaka og skorts á byggingarhæfum lóðum eru vísbendingar um að hægjast muni á uppbyggingarhraða 2024 og 2025 miðað við fyrri áform. Gert er ráð fyrir að hlutfall nýrra íbúða á viðráðanlegu verði að jafnaði um 30%. Þar á meðal er hér einkum horft til eftirfarandi húsnæðisstuðnings:

  1. Stofnframlög. Stjórnvöld hafa stutt við óhagnaðardrifin húsnæðisfélög með það að markmiði að auka framboð á leiguíbúðum á viðráðanlegu verði fyrir tekjulægri heimili. Áætlað er að stofnframlög verði samanlagt tæpir 19 ma.kr. á tímabili fjármálaáætlunar. Brýnt er að endurmeta framlögin fyrir næstu fjármálaáætlunargerð og horfa til þess hver þörfin er.
  2. Lánveitingar Húsnæðissjóðs. Í tengslum við stefnumótun í húsnæðismálum verður haldið áfram að greina þörf á lánveitingum. Lánveitingar Húsnæðissjóðs eru utan ramma málefnasviðsins, þ.m.t. hlutdeildarlán. Endurskoða þarf fyrirkomulag hlut­deildarlána svo þau nái betur markmiðum sínum fyrir fyrstu kaupendur og tekjulága.

Áfram verður áhersla á verkefnið Tryggð byggð[3] sem er samstarfsvettvangur allra þeirra sem koma að húsnæðismálum á landsbyggðinni. Í gegnum Tryggða byggð hefur aðgengi verið bætt að upplýsingum um sérstök landsbyggðarlán, stofnframlög og byggðaframlög, samstarf við opinbera leigufélagið Bríeti og stuðning sem HMS veitir á hönnunar- og undir­búningsstigi.

Húsnæðisöryggi og réttarstaða leigjenda. Endurskoðun húsaleigulaga stendur nú yfir á vegum starfshóps innviðaráðherra. Markmiðið er að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda í samræmi við áherslur sem fram koma í ríkisstjórnarsáttmálanum. Samkvæmt leigumarkaðskönnun[4] HMS 2022 telja 65% leigjenda sig búa við húsnæðisöryggi. Sé litið til þróunar leiguverðs samkvæmt vísitölu leiguverðs hefur leiguverð farið hækkandi undanfarna mánuði. Tólf mánaða hækkun leiguverðs nemur 10,3% miðað við janúar 2023 og hefur ekki verið meiri frá því í byrjun árs 2018 en leiguverð lækkaði um tíma, m.a. vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins.

Vistvæn mannvirkjagerð. Í samræmi við markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi þarf að draga úr loftslagsáhrifum byggingariðnaðarins. Samkvæmt ofangreindum rammasamningi ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða 2023–2032 verður leitast við að útfæra sérstakan stuðning við uppbyggingu íbúða á viðráðanlegu verði vegna vistvænnar mannvirkjagerðar og uppbyggingu í nálægð við hágæðasamgöngur. Hönnun og val á byggingarefnum vegur þungt þegar draga á úr loftslagsáhrifum og mikil verðmæti eru fólgin í núverandi byggingarmassa og því mikilvægt að innleiða hringrásarhagkerfið og draga úr auðlindanotkun og úrgangsmyndun með aukinni áherslu á endurnotkun, endurnýtingu og endurvinnslu. Einnig getur aukin orkunýtni bygginga leitt til töluverðs samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda.

Loftslagsmarkmið stjórnvalda miða við að 95% endurnýtingarhlutfall á byggingar- og niðurrifsúrgangi verði náð árið 2030 á sama tíma og stefnt er að minnkandi sóun og úrgangsmyndun innan mannvirkjageirans. Innan verkefnisins Byggjum grænni framtíð[5] hefur verið gefinn út Vegvísir að vistvænni mannvirkjagerð sem skilgreinir 74 aðgerðir í sex aðgerðaflokkum til að ná fram settum markmiðum árið 2030. Mikilvægt er að hafa skýrar áherslur í aðgerðum sem snúa að samfélagslegum áskorunum í byggingariðnaði og gert er ráð fyrir að Askur – mannvirkjarannsóknasjóður styrki hluta af rannsóknum við aðgerðirnar. Aukin áhersla er á rannsóknir á vistvænni mannvirkjagerð og nýsköpun í byggingariðnaði og því verða áfram tryggð framlög til Asks til úthlutunar í rannsóknarverkefni alls 250 m.kr. á tímabili fjármálaáætlunar.

Einföldun regluverks og stafvæðing í húsnæðismálum. Í samræmi við velsældaráherslu ríkisstjórnarinnar um húsnæðisöryggi og betri samskipti við almenning verður leitað leiða til að auka skilvirkni stjórnsýslu á sviði húsnæðis- og mannvirkjamála, m.a. með að rýna lögbundna ferla og verklag í skipulags- og byggingarmálum er varða uppbyggingu íbúðarhúsnæðis til að tryggja stöðugt framboð húsnæðis og aukna hagkvæmni. Skoðað verður hvernig nýta megi stafræna tækni og nýta þjónustu einkarekinna skoðunarstofa til að auka skilvirkni. Til að auka yfirsýn og styrkja stýritæki stjórnvalda varðandi eignarráð yfir landi og öðrum fasteignum hefur verið unnið að landeignaskrá sem verður hluti af grunnskránni fasteignaskrá. Með heildstæðri landeignaskrá er stuðlað að því að nýtingu lands og réttinda sem því fylgja sé hagað í samræmi við landkosti og með hagsmuni samfélagsins og komandi kynslóða að leiðarljósi, að teknu tilliti til mikilvægis lands frá efnahagslegu, félagslegu og menningarlegu sjónarmiði.

Greinargóðar rauntímaupplýsingar um húsnæðis- og mannvirkjamál hefur verið mikið keppikefli stjórnvalda og unnið er markvisst að því að auka upplýsingaöflun og -miðlun um húsnæðismál hjá HMS og sveitarfélögum í því skyni að auka yfirsýn og efla stefnumótun stjórnvalda í húsnæðis- og mannvirkjamálum. Áfram verður unnið að því að bæta grunnskrár á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samræmingu stafrænnar þjónustu og tengingu við Ísland.is. Þar undir er áframhaldandi þróunarvinna á samþættingu húsnæðisáætlana og mannvirkjaskrár og lokið verður við gerð fasteignamatskerfis. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga eru nú orðnar stafrænar og samræmdar sem auðveldar sveitarfélögum gerð þeirra, auk þess að bæta þær upplýsingar sem þar koma fram. Unnið verður að því að bæta húsnæðisáætlanir enn frekar sem verkfæri til að stuðla að því að húsnæðisuppbygging mæti íbúðaþörf. Þannig hafa sveitarfélög betri upplýsingar um þörf fyrir byggingarhæfar lóðir til samræmis við húsnæðisáætlanir. Mikilvægt er að húsnæðisáætlanir byggist á samræmdum skilgreiningum hugtaka og sameiginlegri aðferðafræði til mats á íbúðaþörfinni og að þar sé unnt að nálgast upplýsingar um framboð og stöðu lóða sem og uppbyggingarheimildir. Einnig þarf að tryggja að íbúðaþarfagreining og mannfjöldaspá verði nákvæmari til lengri tíma litið sem og upplýsingar um byggingu íbúða í rauntíma.

Fyrir liggur ákvörðun um að hefja vinnu við heildstæða stefnumótun í mannvirkjagerð í samvinnu við önnur ráðuneyti sem tengjast málaflokknum og verður starfið leitt af innviðaráðuneytinu.

Brunamál. Ráðist verður í stefnumótun og uppbyggingu á sviði brunamála í því skyni að efla samræmingu og samhæfingu slökkviliða svo unnt sé að auka afkastagetu brunavarna um land allt. Starfsemi Brunamálaskólans verður efld í takt við niðurstöður starfshóps um málefni skólans og nýja reglugerð um Brunamálaskólann.

Lögð verður áhersla á stafræna stjórnsýslu á sviði brunamála með áframhaldandi smíði á svokallaðri brunagátt, sem birtir rauntímaupplýsingar um starfsemi slökkviliða og stafrænar brunavarnaáætlanir sveitarfélaga sem munu nýtast stjórnvöldum sem mikilvægt stjórntæki til að ná fram heildaryfirsýn um stöðu brunamála og slökkviliða í landinu.

Kynja- og jafnréttissjónarmið. Eitt af meginmarkmiðum málefnasviðsins er að tryggja öruggt húsnæði fyrir alla. Þau sem verða fyrir áhrifum af markmiðum innan málaflokksins eru einkum efnaminna fólk. Samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofu Íslands frá 2019 var lítill munur á hlutfalli kvenna og karla sem bjuggu við íþyngjandi húsnæðiskostnað á tímabilinu 2004−2018. Af ólíkum heimilisgerðum var algengast að heimili einstæðra foreldra með börn skorti efnisleg lífsgæði (25,2%) en næst á eftir komu heimili einhleypra og barnlausra einstaklinga (11%). 

Heilt á litið má segja að bæði viðtakendur húsnæðisbóta og hlutdeildarlána séu að meiri hluta til barnlaus heimili. Hlutfall kvenna og karla í þeim hópi er nokkuð jafnt í báðum húsnæðisstuðningskerfum en þegar litið er til einstæðra foreldra eru konur aftur á móti í miklum meiri hluta og er einnig algengast að heimili einhleypra foreldra með börn skorti efnisleg lífsgæði og búi jafnvel við fátækt. Einstæðar mæður eru enn fremur líklegri til að vera á leigumarkaði en í eigin húsnæði. Ljóst er af ofangreindri umfjöllun að húsnæðisbætur og hlutdeildarlán nýtast ekki síst þessum hópum, samanborið við aðrar heimilisgerðir. Beina þarf stuðningi í enn ríkari mæli til þeirra sem mest þurfa, t.d. í húsnæðisbótakerfinu. Í stjórnar­sáttmála kemur fram að ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir stöðugri uppbyggingu húsnæðis um land allt. Ráðist verður í sérstakt átak til uppbyggingar á leiguhúsnæði fyrir fatlað fólk og eldra fólk innan almenna íbúðakerfisins. Þá verður húsnæðisöryggi og réttarstaða leigjenda bætt. Loks verður horft til áframhaldandi uppbyggingar í almenna íbúðakerfinu og framhalds hlutdeildarlána. Með þessari nálgun er komið til móts við þarfir þeirra sem hvað höllustum fæti standa á húsnæðismarkaði.

Markmið og mælikvarðar

Áherslur málaflokksins má finna í stjórnarsáttmálanum og þær undirbyggja enn fremur velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar um húsnæðisöryggi, góð samskipti við almenning, grósku í nýsköpun, kolefnishlutlausa framtíð og betri samskipti við almenning. Efni málaflokksins hefur sterka tengingu við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og þá helst markmið 11 um sjálfbærar borgir og samfélög en það markmið er síðan stutt sérstaklega með aðgerðum sem tengjast markmiðum 9, 17 og 16 og loks er markmið 13 um aðgerðir í loftslagsmálum allt umlykjandi.

Stefnt er að því að markmið og mælikvarðar verði sett fram í þingsályktunartillögu um stefnumótun á sviði húsnæðismála árið 2023.

31.2 Skipulagsmál

Verkefni

Undir málaflokkinn heyra Skipulagsstofnun og Skipulagssjóður. Skipulagsstofnun hefur umsjón með stjórnsýslu skipulagsmála og mati á umhverfisáhrifum. Verkefni stofnunarinnar eru m.a. afgreiðsla skipulagstillagna sveitarfélaga (svæðis-, aðal- og deiliskipulags) og af­greiðsla erinda framkvæmdaraðila um umhverfismat framkvæmda. Þá veitir Skipulagsstofnun upplýsingar og leiðbeiningar um skipulagsmál og fylgist með stöðu þeirra.

Skipulagssjóður starfar á grundvelli skipulagslaga og hlutverk hans er að standa straum af kostnaði við gerð aðal- og svæðisskipulagsáætlana og þróunarverkefna og rannsókna á sviði skipulagsmála sem nýtast sveitarfélögum við gerð skipulagsáætlana og grunnkorta, s.s. gróður- og vistgerðarkorta.

Í þingsályktun um landsskipulagsstefnu 2015–2026 er mörkuð stefna í skipulagsmálum. Stefnt er að því að leggja fram endurskoðaða landsskipulagsstefnu árið 2023 sem verður samhæfð við aðrar áætlanir eins og kveðið er á um í skipulagslögum en sérstök áhersla verður á samþættingu við húsnæðis- og samgöngumál ásamt byggðamálum og málefnum sveitarfélaga.

Helstu áskoranir

Framboð byggingarlóða er ein af áskorunum við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og þarf að stuðla að nægilegu framboði þeirra til lengri tíma í samvinnu við sveitarfélög eins og fram kemur í stjórnarsáttmála.

Skortur á rauntímaupplýsingum og samhæfingu milli málaflokka skipulags- og byggingar­mála er meðal áskorana sem fram hafa komið frá almenningi og uppbyggingaraðilum.

Mikill áhugi er á uppbyggingu vindorku hér á landi og er ráðgert að setja sérstök lög um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera til framleiðslu á grænni orku. Slíkri uppbyggingu fylgja áskoranir í skipulagi sveitarfélaga og er mikilvægt að mótuð sé stefna um slíka nýtingu á landsvísu. Skipulag vindorku er ein af áherslum í vinnu við endurskoðun landsskipulagsstefnu 2015–2026.

Loftslagsmál eru helsta áskorun samtímans og er skipulag kjörinn vettvangur til þess að takast á við verkefni tengd aðlögun að loftslagsbreytingum og aðgerðir til draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu þeirra. Við endurskoðun landsskipulagsstefnu verða loftslagsmál eitt af áherslumálum ráðherra sem einnig er í samræmi við velsældaráhersluna um kolefnishlutlausa framtíð.

Lögð er áhersla í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar á skipulag haf- og strandsvæða og áfram verður haldið með þá vinnu. Mikilvægt er að unnið sé heildstætt mat á því hvar þykir nauðsynlegt að unnið verði að strandsvæðisskipulagi og verkefnum forgangsraðað. Fram undan er vinna við gerð strandsvæðisskipulags Eyjafjarðar og Skjálfanda.

Tækifæri til umbóta

Við endurskoðun landsskipulagsstefnu verður lögð áhersla á að sett verði fram stefna sem stuðli að auknum stöðugleika og jafnvægi í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis þar sem tekið verði mið af hússnæðisstefnu og húsnæðisáætlunum sveitarfélaga. Jafnframt verður unnið áfram að því að samþætta betur bæði skipulagsáætlanir sveitarfélaga og svæðisskipulagsstefnu og húsnæðis-, skipulags- og samgöngumál til að ná betri nýtingu á innviðum og þjónustu og styðja við loftslagsmarkmið. Með því næst stuðningur við stjórnsýslu skipulagsmála og betri sýn yfir framboð á lóðum og húsnæði. Ráðist verður í einföldun regluverks með hliðsjón af úrbótatillögum OECD um samkeppnishömlur í skipulagsmálum frá árinu 2020. 

Stafvæðing skipulags og Skipulagsgátt eru mikilvægir þættir í bættri yfirsýn yfir nýtingu lands og aðgengi að upplýsingum um skipulagsmál í vinnslu og stöðu skipulagsmála. Skipu­lagsstofnun sinnir þar lykilhlutverki í uppbyggingu og rekstri Skipulagsgáttar auk leiðbeininga til handa sveitarfélögum vegna stafvæðingar og notkunar á Skipulagsgátt. Í Skipulagsgátt verða skipulags- og umhverfismatsmál á öllum stigum aðgengileg, umsagnir um þau, viðbrögð við athugasemdum ásamt leyfisumsóknum og leyfi til framkvæmda. Fyrsta útgáfa Skipulagsgáttar verður opnuð á fyrri hluta ársins 2023 en þá strax hefst vinna við næstu útgáfu. Stafvæðing skipulags er þegar hafin og eiga sveitarfélög nú að skila aðalskipulagsáætlunum á stafrænu formi. Með stafvæðingu skipulags næst fram yfirsýn yfir landnotkun á landsvísu, byggingarheimildir o.fl. Næsti fasi í stafvæðingu skipulags er að deiliskipulagsáætlanir verði unnar á stafrænu formi en samkvæmt skipulagslögum eiga sveitarfélög að skila deiliskipulagi á stafrænu formi frá og með 1. janúar 2025. Stafvæðing skipulags og Skipulagsgátt mun þannig einnig stuðla að bættri þjónustu við almenning og auka gegnsæi.

Verkefni skipulagsmála hafa víðtæka skírskotun til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og má þar telja m.a. markmið 11 um sjálfbærar borgir og samfélög, markmið 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu og markmið 15 um líf á landi. Þá miða verkefni málaflokksins einnig að velsældaráherslu ríkisstjórnarinnar um öryggi í húsnæðismálum.

Skipulagssjóður. Mikil aukning á umsvifum eru fram undan hjá Skipulagssjóði en strax árin 2023–2024 er margföldunar að vænta á fjölda verkefna vegna aðal- og svæðisskipulags­verkefna hjá sveitarfélögum. Gerðar eru kröfur til virkrar og vandaðrar skipulagsgerðar sveitarfélaga og samkvæmt 18. gr. skipulagslaga ber Skipulagsstofnun f.h. Skipulagssjóðs að taka þátt í kostnaði sveitarfélaga við gerð aðal- og svæðisskipulags. Almennt miðar það við 50% kostnaðar sveitarfélaga af viðkomandi skipulagsverkefni en getur numið hærri hlutdeild í tilteknum tilvikum. Þá eru tekjur ríkissjóðs af innheimtu skipulagsgjalds meiri en fjárveiting til sjóðsins. Mikilvægt er að sveitarfélög geti sinnt skipulagi eins og þörf er á og Skipulagssjóður standi straum af þeim kostnaði lögum samkvæmt. Vegna gagnrýni á fyrirkomulag innheimtu skipulagsgjalds og takmarkaðrar fjármögnunar sjóðsins hefur innviðaráðherra skipað starfshóp um endurskoðun fyrirkomulags álagningar og ráðstöfun skipulagsgjalds og á hann að skila af sér tillögu að breytingarfrumvarpi.

Kynja- og jafnréttissjónarmið. Kynja- og jafnréttissjónarmið eiga við um skipulag eins og aðra þætti í samfélaginu. Skipulagsmál sveitarfélaga tengjast byggðamálum, almannaöryggi, samgöngumálum, landbúnaði, ferðaþjónustu, orkumálum og umhverfismálum beint og óbeint. Kynin upplifa og nýta umhverfi sitt á ólíkan hátt.[6] Má nefna að kynjahalli er í sveitarfélögum með 1.000 íbúa og færri en þar búa færri konur en karlar. Færri atvinnutækifæri og mismunun í aðgengi að menntun eru meðal þess sem nefnt er sem ástæða kynjahallans.[7] Með markvissri stefnumótun sveitarfélaga í skipulagi má stuðla að fjölbreyttara framboði starfa fyrir öll kyn. Þá eru fjölbreyttari ferðamátar einnig til þess fallnir að stuðla að auknu jafnrétti en konur ferðast að öllu jöfnu styttri vegalengdir og horfa þarf til þess við forgangsröðun samgönguverkefna.[8] Enn er meiri hluti þeirra er vinna að skipulagsmálum og mannvirkjagerð karlar, til að mynda eru karlar tæplega 70% allra starfandi skipulagsfulltrúa.[9] Til að breikka sýn okkar á skipulagsmál er nauðsynlegt að fá fjölbreyttari hóp að borðinu, t.d. með því að auka þátt kvenna í ákvörðunartöku er varðar skipulagsmál. Huga verður að bættu aðgengi fyrir alla hópa samfélagsins til að komast leiðar sinnar, bæði er varðar byggingu mannvirkja og samgöngumála sem og fleiri þátta. Gott aðgengi nýtist öllum.

Markmið og mælikvarðar

Vinna stendur yfir við endurskoðun landsskipulagsstefnu þar sem m.a. er unnið að endurskoðun mælikvarða. Áætlað er að endurskoðuð landsskipulagsstefna verði lögð fram á árið 2023. Til grundvallar endurskoðun landsskipulagsstefnu eru lögð leiðarljós Landsskipulagsstefnu 2015–2026 auk markmiða skipulagslaga. Leiðarljósin eru:

  • að skipulag stuðli að sjálfbærri þróun,
  • að skipulag sé sveigjanlegt og stuðli að viðnámsþrótti/seiglu gagnvart samfélags- og umhverfisbreytingum,
  • að skipulag stuðli að lífsgæðum,
  • að skipulag styðji samkeppnishæfni.

Gert er ráð fyrir að uppbygging á endurskoðaðri stefnu verði sambærileg gildandi stefnu, þ.e. sett verði fram stefna um skipulag á miðhálendi Íslands, skipulag í dreifbýli, búsetumynstur og dreifingu byggðar og skipulag á haf- og strandsvæðum.

[1] Álit sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 11. maí 2022.
[2] Rammasamningur ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða 2023–2032 og sameiginlega sýn og stefnu í húsnæðismálum frá 12. júlí 2022 ásamt aðgerðaáætlun.
[3] https://tryggdbyggd.is
[4] https://bit.ly/3LQpSNh
[5] https://byggjumgraenniframtid.is/ 
[6] Kortlagning kynjasjónarmiða: Stöðuskýrsla 2022.
[7] Nordegio: Gender balance of total population 2016.
[8] Kortlagning kynjasjónarmiða: Stöðuskýrsla 2022.
[9] Skipulagsstofnun (e.d.). Listi yfir skipulagsfulltrúa sveitarfélaga.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum