Hoppa yfir valmynd

25 Hjúkrunar- og endurhæfingarrými

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð heilbrigðisráðherra. Það skiptist í tvo mála­flokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2021–2023.

Tafla: Heildarúgjöld málasviðsins

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn málefnasviðsins er að einstaklingar í þörf fyrir hjúkrunar- og endurhæfingar­þjónustu njóti öruggrar, aðgengilegrar og hagkvæmrar heilbrigðisþjónustu, á réttu þjónustu­stigi. Tryggja skal virðingu fyrir mannlegri reisn þrátt fyrir skerðingu á getu og færni vegna heilsubrests. Endurhæfingarþjónusta grundvallast á þörfum notenda og kröfum um gæði, skilvirkni og árangur þar sem fylgt er lífsálfélagslegri hugmyndafræði um heilsu. Heilbrigðis­þjónusta sem veitt er öldruðum styrkir getu þeirra til að búa á eigin heimili sem lengst.

Meginmarkmið málefnasviðsins er að tryggja stigskiptingu þjónustunnar þannig að lægra þjónustustig verði fullnýtt áður en farið er yfir í það næsta.

Fjármögnun

Stærsta verkefni málefnasviðsins er áframhaldandi uppbygging hjúkrunarheimila með bæði nýjum og endurbættum hjúkrunarrýmum. Á árunum 2024–2028 er gert ráð fyrir að tekin verði í notkun a.m.k. 394 ný hjúkrunarrými og 125 endurbætt rými. Auk þessa er til skoðunar hvort ávinningur sé af því að leigja húsnæði fyrir hjúkrunarheimili.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Tafla: Fjárheimildir málasviðsins

Helstu áherslur 2024-2028

HUGSAÐ TIL FRAMTÍÐAR  -  Uppbygging sveigjanlegrar og fjölbreyttrar þjónustu. Gott að eldast.	Áframhaldandi uppbygging hjúkrunarrýma.	Viðhald og efling færni með endurhæfingu.

25.1 Hjúkrunar-, dvalar- og dagdvalarrými

Verkefni

Undir málaflokkinn fellur starfsemi hjúkrunar- og dvalarrýma á hjúkrunarheimilum og á heilbrigðisstofnunum. Undir málaflokkinn fellur einnig dagdvöl, almenn og sérhæfð, og Framkvæmdasjóður aldraðra.

Sjúkratryggingar Íslands hafa samið við rekstraraðila hjúkrunar- og dvalarrýma um rekstur þeirra og fá þeir greitt samkvæmt daggjaldi líkt og verið hefur. Hjúkrunar- og dvalarrými sem rekin eru af heilbrigðisstofnunum heilbrigðisumdæma eru á föstum fjárlögum.

Framkvæmdasjóður aldraðra stuðlar að uppbyggingu og eflingu öldrunarþjónustu um land allt. Sjóðurinn fær tekjur af sérstöku gjaldi sem lagt er á þá sem eru á aldrinum 16–69 ára og greiða tekjuskatt.

Helstu lög sem gilda um málaflokkinn eru lög um málefni aldraða, nr. 125/1999, lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 með síðari breytingum, lög um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, og lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008. Unnið er að breytingum á lögum um mál­efni aldraðra hvað varðar fyrirkomulag á færni- og heilsumati. Verkefnastjórn um heildar­endurskoðun á þjónustu við aldraða (Gott að eldast) sem skipuð er af heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra vinnur nú að drögum að þingsályktun um samþættingu þjón­ustu við aldraða. Gert er ráð fyrir að tillaga til þingsályktunar verði lögð fyrir Alþingi í mars 2023.

Helstu áskoranir

Helstu áskoranir málaflokksins í heild tengjast breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar og fjölgun aldraðra. Þessar áskoranir tengjast beint vinnu við greiningu á langtímahorfum í efna­hagsmálum og opinberum fjármálum, sbr. 9. gr. og 33. gr. laga um opinber fjármál.

Hlutfall fólks 67 ára og eldra af mannfjölda var 12,9% árið 2022 og reiknað er með að það verði 17,7% árið 2040. Þá verða aldraðir orðnir um 77.500 talsins í stað um 48.500 árið 2022. Með hækkandi aldri má gera ráð fyrir að fjölgun verði í hópi þeirra sem glíma við aldurstengda sjúkdóma af einhverju tagi. Mikilvægt er að þjónusta hverju sinni taki mið af því markmiði að fólk sé stutt til sjálfsbjargar, vinnufærni og sjálfstæðrar búsetu heima sem lengst og að þjón­ustan sé veitt á réttum tíma og á réttu þjónustustigi.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að auðvelda eigi eldra fólki að búa sem lengst heima með viðeigandi stuðningi og þjónustu. Þar segir einnig: „Áfram verða þróað­ar fjölbreyttari búsetu- og þjónustuleiðir til að auðvelda eldra fólki að búa sem lengst heima, svo sem með sveigjanlegri dagþjálfun ...“ Í samræmi við viðmið nágrannalanda er stefnt að því að a.m.k. 85% einstaklinga 80 ára og eldri geti búið á eigin heimili með viðeigandi aðstoð. Í ársbyrjun 2023 búa nú 84% einstaklinga 80 ára og eldri á eigin heimili.

Almenn hjúkrunarrými á landinu voru alls 2.790 í lok árs 2022 og hafði fjölgað um 60 rými frá árslokum 2021. Ef miðað er við heildarfjölda íbúa 67 ára og eldri búa um 5,6% þess aldurshóps á hjúkrunarheimili. Ef gert er ráð fyrir sambærilegri nýtingu hjúkrunarrýma og nú er þarf að fjölga hjúkrunarrýmum um 602 fram til ársins 2028. Í Framkvæmdaáætlun um byggingu hjúkrunarrýma er gert ráð fyrir 394 nýjum rýmum á landinu öllu sem opnuð verða á árabilinu 2024–2028.

Þá er einnig mikilvægt að vinna áfram með áhersluatriði í stefnu í geðheilbrigðismálum þar sem lögð er áhersla á að byggja upp aukna þekkingu á hjúkrunarheimilum til að veita öldruðu fólki geðheilbrigðisþjónustu. Sú stefna er í takt við velsældaráherslur ríkisstjórnar­innar um andlegt heilbrigði þar sem fjölbreytt geðheilbrigðisþjónusta og forvarnir eru í for­grunni.

Óskýr skil ábyrgðar milli ríkis og sveitarfélaga til að mæta þörfum íbúanna fyrir þjónustu á réttu þjónustustigi er einnig áskorun. Það getur dregið úr skilvirkni þjónustunnar og hag­kvæmni í nýtingu fjár.

Mönnun fagfólks og ófaglærðs fólks er og mun verða mikil áskorun á komandi árum vegna samkeppni um mannafla.

Ákvarðanir varðandi hjúkrunar-, dvalar- og dagdvalarrými hafa mikil kynja- og jafnréttis­áhrif og á það við um þau sem starfa við þessa þjónustu sem og þau sem eiga rétt á þjónustunni og aðstandendur þeirra. Skoðun á kynjamun hefur hingað til einskorðast við tvö kyn en mikil­vægt er horfa til fleiri kynja í frekari rannsóknum. Konur eru oftar en karlar skráðar aðal­umönnunaraðilar og einnig annast þær oftar aðstandendur sína en karlar. Karlar eru yngri þegar þeir flytja inn á hjúkrunarheimili og hjúkrunarþyngd þeirra er metin meiri. Konur bíða að meðaltali lengur eftir hjúkrunarrými en karlar. Konur eru í meiri hluta þeirra sem starfa við umönnun á hjúkrunarheimilum en þar eru karlar hlutfallslega fleiri í stjórnunarstöðum.

Tækifæri til umbóta

Helstu tækifæri til umbóta í málaflokknum og til betri nýtingar fjármuna í heilbrigðis­kerfinu öllu eru annars vegar að stuðla að því að eldra fólk geti búið sem lengst á eigin heimili með viðeigandi aðstoð og hins vegar að fjölga hjúkrunarrýmum. Tækifærin felast í samþætt­ingu heimaþjónustu, sbr. Gott að eldast, fjölgun dagdvalarrýma og auknu aðgengi að tíma­bundnum og varanlegum hjúkrunarrýmum, til að koma í veg fyrir langvarandi legu aldraðra í sjúkrarýmum. Í því sambandi má vísa til skýrslu starfshóps á vegum fjármála- og efnahags­ráðherra, Þjónusta við aldraða: Árangur fjárveitinga, sem birt var á vef ráðuneytisins í maí 2022. Þá er vinna hafin í samstarfi heilbrigðisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis við að endurskoða fasteignafyrirkomulag, fjármögnun og framtíðaruppbyggingu hjúkrunar­heimila.

Áhættuþættir

Breyting á aldurssamsetningu þjóðarinnar hefur bæði áhrif á forsendur til mönnunar þjónustunnar og tekjustofna til að standa undir henni. Því er ljóst að finna þarf leiðir til að minnka þörf fyrir dýrustu og mannfrekustu úrræði þjónustunnar, hjúkrunarheimilin. Það er gert með seinkun á þörf fyrir þjónustuna með heilsueflingu og öðrum forvörnum aldraðra, með fjölgun dagdvalarrýma og samþættingu þjónustu ríkis og sveitarfélaga.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2022

Viðmið 2024

Viðmið 2028

Biðtími eftir hjúkrunarrýmum verði undir 90 dögum.

3.8

Hlutfall þeirra (öll kyn) sem biðu skemur en 90 daga eftir hjúkrunarrými.

57%

75%

85%

25.2 Endurhæfingarþjónusta

Verkefni

Undir málaflokkinn fellur endurhæfingarþjónusta sem er ætluð einstaklingum, óháð aldri, sem þarfnast þverfaglegrar endurhæfingar vegna færniskerðingar af völdum veikinda, slysa eða af öðrum ástæðum. Hér undir fellur m.a. endurhæfing á Reykjalundi og öðrum endurhæfingarstöðvum, auk starfsemi SÁÁ o.fl. Þjónusta málaflokksins er í flestum tilfellum rekin á grundvelli þjónustusamninga Sjúkratrygginga Íslands við rekstraraðila.

Í apríl 2020 voru gefin út drög að endurhæfingarstefnu og í kjölfarið var gefin út fimm ára aðgerðaáætlun fyrir heilbrigðistengda endurhæfingu í september 2021. Helstu lög sem gilda um málaflokkinn eru lög um málefni aldraðra, nr. 125/1999, lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, lög um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, og lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008.

Helstu áskoranir

Talsvert vantar upp á samfellu og skilvirkni endurhæfingarþjónustu almennt. Þjónustu­þarfir eru ekki nægilega vel skilgreindar og forgangsröðun í úrræði skortir. Þá eru þau endurhæfingarúrræði sem eru í boði ekki nægilega fjölbreytt m.t.t. þjónustuþarfa þeirra sem þurfa á endurhæfingu að halda. Skortur er á heildstæðri nálgun í geðheilbrigðismálum og viðvarandi skortur er á sérhæfðu fagfólki á öllum stigum þjónustunnar. Þá skortir sam­vinnu milli ólíkra þjónustustiga og er mikill munur á aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu eftir búsetu.

Töluverður kynjamunur er á nýtingu endurhæfingarþjónustu. Konur eru með hærri sjúkdómsbyrði á meðan tíðni áfengis- og vímuefnavanda er hærri meðal karla. Innlögnum karla í áfengis- og vímuefnameðferð fækkaði þó um 21% milli áranna 2019 og 2020 en hlutfall kvenna hækkaði á sama tíma. 61% skjólstæðinga í endurhæfingu á Reykjalundi var konur árið 2020. Meðalfjöldi koma var svipaður milli kynja en misjafnt eftir sviðum. Sama gildir um kynjahlutföll í endurhæfingu á Heilsustofnun NLFÍ, en 71% skjólstæðinga stofnunarinnar árið 2019 var konur.

Það er mikilvægt að endurhæfingarþjónustan sé samfelld, úrræðin fjölbreytt og vel nýtt með skilgreindri forgangsröðun sem byggir á greiningu á þjónustuþörfum einstakl­inga sem eru í þörf fyrir endurhæfingu. Þá þarf sú þjónusta sem er í boði að endurspegla þarfir allra kynja og huga þarf að því að meðferðarúrræði sem eru í boði við áfengis- og vímuefnavanda henti þörfum kvenna.

Tækifæri til umbóta

Endurhæfingarferlið þarf að vera heildstætt og byggja á samvinnu ólíkra stofnana og endurhæfingarúrræða. Þá eru tækifæri til staðar til að byrja endurhæfingu fyrr, t.a.m. með því að leggja mat á endurhæfingarþarfir á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar. Auk þess mætti skoða það að nýta fjarheilbrigðislausnir til eftirfylgdar í kjölfar endurhæfingar til að viðhalda árangri.

Árangur endurhæfingar, bæði líkamlegrar og geðendurhæfingar, er margvíslegur, m.a. bætt lífsgæði, endurheimt á félagslegu hlutverki og aukin þátttaka í samfélaginu. Þá getur endurhæfing fyrirbyggt ótímabæra færniskerðingu og þannig seinkað dýrari inngripum á borð við sjúkrahúsdvöl og flutning á hjúkrunarheimili.

Í aðgerðaáætlun um endurhæfingu er lagt til að notað verði staðlað matstæki til að greina endurhæfingarþarfir og að sett verði á fót samþætt tilvísanakerfi í endurhæfingu og úrræði innan vinnumálakerfisins til að tryggja samfellu í endurhæfingar­ferlinu og lág­marka biðtíma eftir úrræðum.

Íslensk stjórnvöld hafa tekið þátt í mótun kynjatengdra meðferðarnálgana í áfengis- og vímuefnameðferð og hefur Rótin – félag um velferð og lífsgæði kvenna fengið styrki í verkefni sem tengjast kynjasjónarmiðum í áfengis- og vímuefnameðferð og heilbrigðisþjónustu fyrir jaðarsettar konur.

Ein af velsældaráherslum ríkisstjórnarinnar er andlegt heilbrigði. Endurhæfing sem stuðlar að því að ná fram hámarksfærni, hvort sem er andlegri eða líkamlegri, fellur því undir fyrstu velsældaráherslu ríkisstjórnarinnar.

Áhættuþættir

Helsta áhætta þessa málaflokks er að aðgerðir til úrbóta á fyrsta stigs þjónustu bregðist, þ.e. að ekki takist að koma á fót samþættu tilvísanakerfi eða miðlægum biðlistum vegna skorts á samvinnu eða mönnun. Bæði tilvísanakerfið og miðlægir biðlistar eru lykilþættir í bættri forgangsröðun innan endurhæfingar. Sama gildir um innleiðingu ICF-grunnmats við upphaf endurhæfingar, en matið nýtist við forgangsröðun og mat á þjónustuþörfum. Án þessara aðgerða er hætta á að samfella í endurhæfingarþjónustu minnki og bið eftir úrræðum verði of löng.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2022

Viðmið 2024

Viðmið 2028

Samfella í endurhæfingar­þjónustu.

3.8

Samþætt tilvísanakerfi í endurhæfingu.

Nei

3.8

Fjöldi biðlista eftir endurhæfingarúrræðum.

> 10

1

1

Bætt þjónusta við notendur þjónustunnar.

3.8

Árangursmarkmið, framvinda skráð milli úrræða og samfellt þjónustuferli.

Nei

Innleiðing hafin

Nýr mælikvarði á samfellu í endurhæfingarþjónustu frá síðustu fjármálaáætlun er samþætt tilvísanakerfi í endurhæfingu. Einnig verður gerð krafa um árangursmarkmið í samningum um endurhæfingarþjónustu og áhersla lögð á heildstæðan feril einstaklingsins í gegnum endur­hæfingarþjónustu.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum