Hoppa yfir valmynd
7. júlí 1998 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ástand og þróun umhverfismála á Íslandi á árinu 1995

Skýrsla um ástand og þróun umhverfismála
á Íslandi á árinu

1995

Gefin út samkv. 9. gr. laga nr. 21/1993


Umhverfisráðuneytið
júlí 1997






Efnisyfirlit

Formáli

4

1 Stjórnarskipti 5

1.1 Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarflokkanna 5
1.2 Verkefnaskrá umhverfisráðuneytisins 5
1.3 Vinna að framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun 6
1.4 Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnar vegna loftslagssamnings
Sameinuðu þjóðanna 7

2 Breytingar á stofnunum og málaflokkum
ráðuneytisins 8

2.1 Flutningur Mengunarvarnadeildar Siglingamálastofnunar
ríkisins til Hollustuverndar ríkisins 8
2.2 Flutningur Veiðistjóraembættisins til Akureyrar 8
2.3 Aukið hlutverk Veðurstofu Íslands í ofanflóðamálum 8
2.4 Gróðurkortagerð flyst til Náttúrufræðistofnunar Íslands 8
2.5 Náttúrustofa Austurlands tekur til starfa 9
2.6 Náttúrustofa Suðurlands stofnuð 9

3 Lög sem sett voru á árinu 1995 á sviði
umhverfismála 10

3.1 Lög nr. 53/1995 um stuðning við framkvæmdir 10
sveitarfélaga í fráveitumálum 10
3.2 Lög nr. 54/1995 um vernd Breiðafjarðar 10
3.3 Lög nr. 93/1995 um matvæli 10
3.4 Lög nr. 50/1995 um breytingar á lögum nr. 28/1985 um
varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum 11
3.5 Lög nr. 70/1995 um breyting á lögum nr. 32/1986 um
varnir gegn mengun sjávar 11

4 Umhverfisheilsuvernd 12

4.1 Hlutverk Hollustuverndar ríkisins 13
4.2 Ábyrgð sveitarfélaga 13
4.3 Matvæla- og heilbrigðiseftirlit 13
4.4 Eiturefnaeftirlit 15

5 Fráveitumál 18

5.1 Boðað átak í fráveitumálum 18
5.2 Þróun fráveitukerfa hérlendis 18
5.3 Fráveitunefnd 1992–1993 18
5.3.1 Staða fráveitumála 19
5.3.2 Kröfur um hreinsun fráveituvatns 19
5.3.3 Flokkun viðtaka 19
5.3.4 Framkvæmdir 20
5.3.5 Eftirlit 20
5.4 Framgangur málsins 20
5.5 Fráveitunefnd 1995– 21
5.5.1 Störf nefndarinnar 1995 21

6 Alþjóðasamstarf 22

6.1 Norrænt samstarf 22
6.2 Alþjóðlegur sáttmáli um loftslagsbreytingar 22
6.3 Umhverfisnefnd Sameinuðu þjóðanna 23

7 Útstreymi gróðurhúsalofttegunda 25

7.1 Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna rammasamnings
Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar 25
7.1.1 Fjórar meginleiðir 26
7.1.2 Almennar og hagrænar aðgerðir 27
7.1.3 Sértækar aðgerðir 28
7.1.4 Eftirlit með aðgerðum vegna rammasamnings 32
7.1.5 Rannsóknir og vöktun 32
7.2 Útstreymi ýmissa loftteguna á Íslandi 33
7.2.1 Útstreymi koltvíoxíðs 34
7.2.2 Útstreymi metans og annarra gróðurhúsalofttegunda 36
7.2.3 Útstreymi brennisteins- og köfnunarefnisoxíða 36
7.2.4 Útstreymi blýs 38
7.2.5 Útstreymi annarra mengunarefna í lofti 39

Formáli

Skýrsla þessi um ástand og þróun umhverfismála á Íslandi á árinu 1995 er gefin út samkvæmt 9. gr. laga nr. 21/1993 um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Er hér um aðra skýrslu sinnar tegundar að ræða en sú fyrsta kom út 1995 og tók mið af ástandi og þróun mála við árslok 1994. Sú skýrsla var unnin út frá þeirri forsendu að gefa heildaryfirlit yfir stöðu umhverfismála í landinu og þróun þeirra frá landnámi til vorra daga. Í þeirri skýrslu sem hér birtist er tekið almennt á málum eins og þau þróuðust á árinu 1995 auk þess sem sérstaklega er fjallað um umhverfisheilsuvernd, fráveitumál, alþjóðasamstarf og útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Er ætlunin að í framtíðinni verði, auk umhverfismála almennt, ákveðnum þáttum gerð sérstök skil og mun það ráðast af því hvað er efst á baugi hvaða mál fá sérstaka umfjöllun.
Skýrsla fyrir árið 1996 er í vinnslu og mun væntanlega koma út fyrir árslok. Ætlunin er að setja hana á Alnetið sem og þær skýrslur sem gefnar verða út hér eftir en jafnframt verða þær prentaðar.
Sú er von mín og ósk að skýrsla þessi þjóni þeim tilgangi að gefa sem besta mynd af ástandi og þróun umhverfismála í landinu og stuðli þannig að því að stjórnvöld sem og landsmenn allir fái yfirlit yfir stöðu mála og hvað þurfi að gera til að bæta úr því sem aflaga hefur farið eða stefnir í óefni.



Guðmundur Bjarnason
umhverfisráðherra

1 Stjórnarskipti

Stjórnarskipti urðu á árinu 1995. Þann 23. apríl tók ríkisstjórn Sjálf-stæðisflokks og Framsóknarflokks við af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Við stjórnarskiptin tók Guðmundur Bjarnason við embætti umhverfisráðherra af Össuri Skarphéðinssyni.

1.1 Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarflokkanna
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru talin upp meginmarkið ríkisstjórnarinnar og þar segir m.a.:
"Að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi um mengunarvarnir og verndun lífríkis sjávar. Unnið verður að markvissari endurvinnslu og endurnýtingu. Stuðlað verður að bættri ferðaþjónustu er falli vel að umhverfissjónarmiðum. Áhersla verður lögð á að Ísland hafi ímynd hreinleika og umhverfisverndar."

1.2 Verkefnaskrá umhverfisráðuneytisins
Í framhaldi af stefnuyfirlýsingunni var unnin verkefnaskrá fyrir umhverfisráðuneytið. Þar segir eftirfarandi um markmið, áherslur og leiðir í umhverfismálum:
"Hreint umhverfi er auðlind sem verður æ verðmætari. Það er því mikilvægt fyrir Íslendinga að nýta auðlindir sínar af fyrirhyggju og vernda náttúruperlur sínar og ómengað umhverfi – og sjá til þess um leið að landið og afurðir þess hafi ímynd hreinleika og hollustu. Helstu atvinnugreinar og vaxtarbroddar íslensks atvinnulífs eiga mikið undir því að það takist. Með skipulagðri náttúruvernd og úrbótum í sorphirðu, endurnýtingu og fráveitumálum er stefnt að því að Ísland geti við upphaf nýrrar aldar verið í fararbroddi ríkja heims hvað varðar umhverfisvernd og sjálfbæra þróun.

Meginmarkmið ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum eru:


• að vernda náttúru landsins á þann hátt að fólki gefist kostur á að njóta hennar;
• að vinna að endurheimt náttúrugæða;
• að draga úr mengun;
• að stuðla að skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda, draga úr sóun og auka endurnýtingu;
• að taka þátt í lausn hnattrænna vandamála og standa við alþjóðlegar skuldbindingar.

Aukin meðvitund almennings og virk þátttaka einstaklinga og fyrirtækja í umhverfisvernd eru grundvallaratriði til að ná fram þessum markmiðum á sem hagkvæmastan hátt. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum munu fyrst og fremst stuðla að því að svo megi verða.
Lögð verður áhersla á að nota hagræn stjórntæki þar sem þess er kostur til að ná fram markmiðum ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum. Áhersla verður lögð á aukna fræðslu, innan og utan skólakerfisins.
Ríkisstjórnin mun leggja áherslu á að ná víðtækri samstöðu með sveitarfélögum og samtökum einstaklinga og fyrirtækja um framkvæmdaáætlun í umhverfismálum til næstu aldamóta.
Kannað verður hvernig ráðuneyti og stofnanir þeirra geta gengið á undan með góðu fordæmi í umhverfismálum með því að auka nýtni og taka tillit til sjónarmiða umhverfisverndar í daglegum rekstri sínum." Verkefnaáætlunina í heild má sjá á heimasíðu umhverfisráðuneytisins.

1.3 Vinna að framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun
Auk vinnu við stefnumótun umhverfisráðuneytisins var haldið áfram vinnu við gerð víðtækrar framkvæmdaáætlunar, sem taka skal til stjórnkerfisins og þjóðfélagsins.
Í september 1993 skipaði þáverandi umhverfisráðherra sjö starfshópa til að vinna að gerð framkvæmdaáætlunar til næstu aldamóta, sem hefði sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Hóparnir fjölluðu um eftirfarandi málaflokka:


• umhverfismál og landbúnað
• umhverfismál og sjávarútveg
• umhverfismál, iðnþróun og orkumál
• umhverfismál, ferða- og samgöngumál
• úrgangsmyndun, sorphirðu og meðferð á spilliefnum
• umhverfismál og byggðaþróun
• umhverfisfræðslu

Í vinnu starfshópanna tóku alls þátt 124 einstaklingar, sem tilnefndir voru af ýmsum aðilum í þjóðfélaginu, svo sem þingflokkum, sveitarfélögum, aðilum vinnumarkaðarins, ýmsum stofnunum, samtökum bænda og neytenda og ýmsum áhugamanna- og umhverfisverndarsamtökum.
Hópunum var falið að skilgreina sjálfbæra þróun í viðkomandi málaflokkum og setja markmið til skemmri og lengri tíma, auk þess að gera tillögur um aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Sumir hóparnir skiluðu skýrslum á árinu 1994 en þeir síðustu á haustdögum 1995.
Jafnskjótt og allar skýrslurnar sjö lágu fyrir setti Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra á fót starfshóp sem fékk það verkefni að setja saman drög að framkvæmdaáætlun, sem samþykkt yrði af ríkisstjórninni og yrði byggð á skýrslum hópanna sjö. Formenn hópanna, eða staðgenglar þeirra hjá viðkomandi ráðuneytum, voru fengnir í starfshópinn til að aðstoða umhverfisráðuneytið við þá vinnu, en auk þess voru ráðuneytinu til ráðgjafar fulltrúar frá forsætis- og fjármálaráðuneytinu, auk fulltrúa þingflokka ríkisstjórnarflokkanna. Hugmyndin með þessum síðasta hluta vinnunnar við framkvæmdaáætlunina er sú að leitast við að færa hana í búning sem gerði ríkisstjórninni kleift að samþykkja hana og auka vægi hennar þar með.
Fljótlega varð ljóst að til að smíða skjal sem gæti orðið grunnurinn að framkvæmdaáætlun þurfti mun meiri vinnu en að draga saman efni skýrslnanna sjö. Starfshópurinn reyndi að velja úr hinum mikla fjölda af tillögum sem var að finna í skýrslunum. Við það val var haft að leiðarljósi að tillögurnar væru skýrar og framkvæmanlegar á þeim tíma sem áætlunin tekur til.
Samhliða þeirri ákvörðun umhverfisráðherra haustið 1995 að vinna framkvæmdaáætlun upp úr skýrslum hópanna sjö ákvað hann að boða til umhverfisþings árið 1996 – fyrstu samkomu sinnar tegundar hér á landi – þar sem lögð yrðu fyrir drög að framkvæmdaáætluninni. Hugmyndin að baki umhverfisþinginu er að ná sem víðtækastri samstöðu í þjóðfélaginu um metnaðarfulla framkvæmdaáætlun í umhverfismálum.

1.4 Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnar vegna loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna
Í nóvember 1995 samþykkti ríkisstjórnin sérstaka framkvæmdaáætlun vegna rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Sjöundi og síðasti kaflinn í skýrslu þessarari fjallar um þá framkvæmdaáætlun auk þess sem þar eru birtar tölulegar upplýsingar um útstreymi gróðurhúsalofttegunda og mengandi efna í andrúmsloftið. Með áætluninni er stefnt að því að losun gróðurhúsalofttegunda verði ekki meiri árið 2000 en var árið 1990, ef frá er talin ný stóriðja.

2 Breytingar á stofnunum og málaflokkum ráðuneytisins

Umhverfisráðuneytið var stofnað árið 1990 og er enn í mótun. Þetta mótunarstarf kemur m.a. fram í þeim miklu breytingum sem urðu á starfsemi einstakra stofnana ráðuneytisins árið 1995.

2.1 Flutningur Mengunarvarnadeildar Siglingamálastofnunar ríkisins til Hollustuverndar ríkisins
Starfsemi Mengunarvarnadeildar Siglingamálastofnunar ríkisins, sem starfað hafði í samræmi við lög nr. 20/1986 um Siglingamálastofnun ríkisins frá árinu 1986, var færð til Hollustuverndar ríkisins 1. júlí 1995 og starfar þar nú sem sérstök deild, Mengunarvarnir sjávar. Þó að Siglingamálastofnun heyrði undir samgönguráðuneytið fór umhverfisráðherra með yfirstjórn Mengunarvarnadeildarinnar allt frá stofnun umhverfisráðuneytisins. Hér var því um að ræða hagræðingu í stjórnsýslu og tilfærslu verkefna milli stofnana en ekki ráðuneyta.

2.2 Flutningur Veiðistjóraembættisins til Akureyrar
Á árinu var starfsemi embættis Veiðistjóra flutt frá Reykjavík til Akureyrar í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að flytja stofnanir ríkisins frá höfuðborgarsvæðinu út á landsbyggðina. Jafnframt komu til framkvæmda breytingar á starfsemi embættisins í samræmi við lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum nr. 64/1994. Meginbreytingarnar á starfseminni tengjast annars vegar útgáfu veiðikorta og hins vegar aukinni þátttöku Náttúrufræðistofnunar Íslands í hagnýtum rannsóknum á villtum dýrum.

2.3 Aukið hlutverk Veðurstofu Íslands í ofanflóðamálum
Alþingi samþykkti á árinu breytingar á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum nr. 28/1985 sem fólu m.a. í sér tilflutning málaflokksins frá félagsmálaráðuneyti yfir til umhverfisráðuneytis og verulega aukningu á ábyrgð og hlutverki Veðurstofu Íslands í þessum málaflokki. Skv. eldri gerð laganna hafði Veðurstofan annast öflun og úrvinnslu gagna um snjóflóð og snjóflóðahættu og gefið út viðvaranir. Með breytingum á lögunum var stofnuninni að auki falið að gera hættumat í þeim sveitarfélögum þar sem talin er hætta á ofanflóðum og einnig að gefa út viðvaranir um staðbundna snjóflóðahættu svo og að lýsa yfir og aflétta hættuástandi. Þá var Veðurstofunni gert að ráða starfsmenn til að kanna og fylgjast með hættu af skriðuföllum og snjóflóðum í þeim umdæmum þar sem þörf er á slíku.

2.4 Gróðurkortagerð flyst til Náttúrufræðistofnunar Íslands
Samningar tókust við landbúnaðarráðuneytið og Rannsóknastofnun landbúnaðarins um fluning á sérhæfðum búnaði og starfsmönnum sem unnið hafa að gerð gróðurkorta frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins til Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þessi starfsemi hafði að mestu legið niðri um nokkurra ára skeið vegna fjárskorts.

2.5 Náttúrustofa Austurlands tekur til starfa
Á árinu tók til starfa Náttúrustofa Austurlands í Neskaupstað en hún var stofnuð 1994 og er fyrsta náttúrustofan sem starfar samkvæmt lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur nr. 60/1992.

2.6 Náttúrustofa Suðurlands stofnuð
Á árinu var tekin akvörðun um stofnun Náttúrustofu Suðurlands sem skal starfa í Vestmannaeyjum.


3 Lög sem sett voru á árinu 1995 á sviði umhverfismála

3.1 Lög nr. 53/1995 um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum
Forsögu þessarar lagasetningar má rekja til ársins 1990. Þá tók gildi mengunarvarnareglugerð sem tók til allrar mengunar í ytra umhverfi, þ.á m. mengunar frá fráveitukerfum. Væri fráveituvatni veitt í ár eða vötn skyldi hreinsibúnaður að lágmarki vera rotþró og allt skólp sem leitt væri í sjó skyldi grófhreinsað og leitt minnst 5 m niður fyrir meðalstórstraumsfjöruborð eða 20 m út frá meðalstórstraums-fjörumörkum. Þegar við setningu reglugerðarinnar var ljóst að tiltölulega kostnaðarsamt yrði að framfylgja henni og að vafist gæti fyrir mörgum sveitarfélögum að fjármagna slíkar framkvæmdir.
Fráveitunefnd sem starfaði á árunum 1992–1993 á vegum umhverfisráðuneytisins vann að úttekt á fráveitum í sveitarfélögum landsins og stefnumörkun um úrbætur og í stefnu ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum sem sett var fram í ritinu "Á leið til sjálfbærrar þróunar" árið 1993 og segir m.a.: "Verið er að ljúka úttekt á fráveitum í sveitarfélögum landsins og unnið er að stefnumörkun um úrbætur. Stuðlað verður að því að framkvæmdir í frárennslismálum verði hafnar um allt land ekki síðar en árið 1995."
Lögin um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum eru unnin á grundvelli starfa fráveitunefndar og er markmið þeirra að stuðla að framkvæmdum við fráveitur sveitarfélaga með styrkveitingum úr ríkissjóði á tímabilinu 1. maí 1995 til 31. desember 2005.

3.2 Lög nr. 54/1995 um vernd Breiðafjarðar
Árið 1978 ályktaði Alþingi "að skora á ríkisstjórn að stuðla hið fyrsta að því, að hið fjölþætta lífríki Breiðafjarðar verði kannað og verndað, eftir því sem þurfa þykir, í samráði við heimamenn og náttúruverndarsamtök." Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er á það bent að að fram hafi komið hugmyndir um setningu sérstakra laga um vernd Breiðafjarðar líkt og gilda um Mývatn og Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu. Breiðafjörður hafði verið á náttúruminjaskrá frá árinu 1978.
Vernd Breiðafjarðar er að því leyti frábrugðin verndun skv. náttúruverndarlögum að auk verndunar náttúruminja er þessum nýju lögum ætlað að vernda menningarverðmæti, stuðla að auknum rannsóknum á lífríki og jarðfræði svæðisins og renna styrkum stoðum undir eyjabúskap og aðra hefðbundna nýtingu hlunninda. Þá er með setningu laganna ætlunin að búa í haginn fyrir vaxandi fjölda ferðamanna.

3.3 Lög nr. 93/1995 um matvæli
Á árinu öðluðust gildi ný lög um matvæli, sem komu í stað laga nr. 24/1936. Lögunum er ætlað að tryggja öryggi matvæla og hollustuhátta og rétta viðskiptahætti með matvæli s.s. umbúðamerkingar, auglýsingar og aðra kynningu og upplýsingamiðlun. Lögin eru löguð að Evrópulöggjöf á þessu sviði í samræmi við skuldbindingar í evrópsku efnahagssamstarfi (EES-samningurinn).
Lögin taka til framleiðslu og dreifingar matvæla. Þau ná til allra matvæla, þ.á m. neysluvatns. Þau gilda því aðeins um meðferð matvæla á einkaheimilum að þar fari fram eftirlitsskyld matvælaframleiðsla. Samkvæmt lögunum telst áfengi til matvæla en hvorki tóbak né lyf. Um þessa þætti gilda sérlög, s.s. áfengislög, tóbaksvarnalög og lyfjalög.
Eftirlit með framkvæmd laganna er í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna undir stjórn Hollustuverndar ríkisins og yfirstjórn umhverfisráðherra nema þar sem málið fellur undir landbúnaðarráðherra vegna eftirlitsstarfa dýralækna, innflutnings og útflutnings búfjárafurða, smitsjúkdóma búfjár, meðferðar, mats og skoðunar á sláturafurðum og heilbrigðisskoðunar eldisfisks. Yfirdýralæknir er ráðgjafi landbúnaðarráðherra um þessi mál. Mál er varða meðferð og innflutning, geymslu og vinnslu sjávarafurða vegna útflutnings þeirra heyra undir sjávarútvegsráðherra og honum til ráðgjafar er Fiskistofa.
Sérstakt samstarfsráð, matvælaráð, skipað fulltrúum frá Hollustuvernd ríkisins, Fiskistofu og yfirdýralækni skal vinna að samræmingu laga og reglna og fyrirmæla um matvæli og matvælaeftirlit.
Öll framleiðsla og dreifing matvæla er háð leyfi heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga.

3.4 Lög nr. 50/1995 um breytingar á lögum nr. 28/1985 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum
Breytingarnar fela í sér að yfirstjórn málaflokksins færist frá félagsmálaráðuneyti til umhverfisráðuneytis og fer Veðurstofa Íslands með rannsóknir og forvarnir. Kveðið er á um gerð áætlana um rýmingu húsnæðis á afmörkuðum svæðum þegar Veðurstofan gefi út viðvörun um snjóflóðahættu og lýsi yfir hættuástandi. Þá eru sett inn í lögin ákvæði um greiðslur úr Ofanflóðasjóði til eigenda þeirra húseigna, sem keyptar kynnu að verða eða fluttar vegna yfirvofandi snjóflóðahættu.

3.5 Lög nr. 70/1995 um breytingu á lögum nr. 32/1986 um varnir gegn mengun sjávar
Alþingi samþykkti breytingar á lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit með síðari breytingum og eru þær breytingar til komnar vegna flutnings Mengunarvarnadeildar Siglingamálastofnunar ríkisins til Hollustuverndar ríkisins sem starfar þar áfram sem sérstök deild, Mengunarvarnir sjávar.


4 Umhverfisheilsuvernd

Með umhverfisheilsuvernd er átt við almennt heilbrigðiseftirlit, svo sem hýbýlaeftirlit, matvælaeftirlit, eiturefnaeftirlit, mengunareftirlit og eftirlit með nauðsynjavöru og vöruskráningu. Á þessum þáttum er einkum tekið í lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit með síðari breyt-ingum, lögum nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni og lögum nr. 93/1995 um matvæli.
Lögin um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit ná yfir breitt svið og meðal þeirra þátta sem þeim er ætlað að ná til má nefna eftirfarandi:
• Hreinlæti og þrifnaður innanhúss
• Neysluvatn, vatnsból og vatnsveitur
• Salerni og frárennsli
• Sorphirðumál
• Meindýr og eyðing þeirra
• Íbúðarhúsnæði
• Gistihús og veitingastaðir
• Matvælaiðnaður
• Matvælaeftirlit
• Meðferð og notkun matvæla
• Skólar
• Hárgreiðslu-, snyrti- og nuddstofur
• Barnaheimili og leikvellir
• Heibrigðisstofnanir og lækningastofur
• Íþróttahús og baðstaðir
• Fangelsi
• Samkomuhús
• Kirkjugarðar, líkhús og meðferð líka
• Vélknúin farartæki
• Gripahús og alifuglabú
• Hávaði, varmastreymi og óþefur frá hvers konar starfsemi
• Starfsleyfi fyrir atvinnurekstur
• Umhvefisstjórn og eftirlitskerfi fyrirtækja
• Umhverfismerki á vörur
• Úttekt á mengunarhættu
• Loftmengun

Umhverfisráðuneytinu var falin yfirstjórn þessa málaflokks frá 1. júní 1994 en hann heyrði áður undir heilbrigðisráðuneytið. Landlæknir er ráð-gjafi ráðherra og ríkisstjórnar um allt er lýtur að hollustuháttum og heilbrigðiseftirliti.
Þar sem þessi málaflokkur hefur nýlega flust til ráðuneytisins þykir ástæða til að kynna tvo þætti hans sérstaklega á þessum vettvangi, þ.e. matvæla- og heilbrigðiseftirlit og eftirlit með eiturefnum og hættulegum efnum.
4.1 Hlutverk Hollustuverndar ríkisins
Hollustuvernd ríkisins starfar samkvæmt lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og hefur skv. lögunum yfirumsjón með heilbrigðiseftirliti, mengunarvarnaeftirliti, eiturefnaeftirliti og rannsóknum sem tengjast þessum málaflokkum. Starf Hollustuverndar beinist þannig fyrst og fremst að því að vernda þau lífsskilyrði sem felast í ómenguðu umhverfi, þrifalegum hýbýlum, heilnæmum matvælum og skaðlausum nauðsynjavörum og sér stofnunin um framkvæmd nær allra laga og reglugerða er varða matvæli, eiturefni og mengunarvarnir í landinu.

4.2 Ábyrgð sveitarfélaga
Hollustuvernd ríkisins hefur yfirumsjón með eftirliti innan málaflokksins, en eftirlitið sjálft er í höndum sveitarfélaga, á þeirra ábyrgð og á þeirra kostnað. Frá þessu er þó sú undantekning að eftirlit með innfluttum matvælum svo og eiturefnum og hættulegum efnum er í höndum Hollustu-verndar ríkisins. Samkvæmt lögunum um hollustuhætti og heilbrigðis-eftirlit skal ekkert sveitarfélag vera án heilbrigðiseftirlits og í landinu skulu starfa 46 heilbrigðisnefndir á 13 heilbrigðiseftirlitssvæðum, kjörnar af sveitarstjórnum. Hlutaðeigandi héraðslæknir er formaður svæðis-nefndar sem að öðru leyti samanstendur af formönnum heilbrigðisnefnda á svæðinu. Á hverju heilbrigðiseftirlitssvæði starfar heilbrigðis-fulltrúi sem er framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits. Heilsugæslulæknar eru faglegir ráðunautar heilbrigðisnefnda.

4.3 Matvæla- og heilbrigðiseftirlit
Markmið með lögum og reglugerðum á sviði matvæla er að stuðla að öryggi og gæðum matvæla og auka fræðslu til neytenda.
Matvæla- og heilbrigðissvið Hollustuverndar ríkisins fer með yfirumsjón matvælaeftirlits og sér um samræmingu á eftirliti heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga.
Starfsemi matvæla- og heilbrigðissviðs greinist í þrjá meginþætti sem eru:

Eftirlit sem greinist í:
• Heilbrigðiseftirlit sem fjallar m.a. um réttindi og skyldur heilbrigðisfulltrúa, verksvið heilbrigðisnefnda, reglur um sundstaði o.fl.
• Matvælaeftirlit sem tekur m.a. til framkvæmdar innra eftirlits í matvæla-fyrirtækjum.
• Innflutningseftirlit sem tekur m.a. til eftirlits með innflutningi matvæla, sýnatöku af grænmeti og ávöxtum vegna varnarefna og skoðunar vöru vegna merkinga og aukefna.
• Matvælaörverufræði sem fjallar m.a. um málefni er varða matareitranir og matarsýkingar.

Ráðgjöf sem tekur til:
• Efnainnihalds matvæla, m.a. aðskotaefna, aukefna, bragðefna, leysiefna og sótthreinsiefna. Einnig efnainnihalds neysluvatns.
• Gæðastjórnunar og innra eftirlits. Þar er m.a. leiðbeint um fyrstu skrefin í innra eftirliti skv. GÁMES-eftirlitskerfinu (GÁMES = greining áhættuþátta og mikilvægra eftirlitsstaða) og gæðastjórnun í matvælafyrirtækjum.
• Manneldismála og vörustaðla og fjallar m.a. um barnamat, megrunarfæði, bætiefni og náttúruvörur, íblöndun bætiefna í matvæli, ofnæmi og óþol.
• Umbúðamerkinga matvæla og fjallar m.a. um almennar merkingar umbúða, merkingu næringargildis o.fl.

Störf að undirbúningi löggjafar, t.d. varðandi:
• EES-samninginn og alþjóðasamninga.
• Lög og reglur um matvæli.
• Reglur um almennt heilbrigðiseftirlit.

Þessi einfaldaða lýsing á starfsviði matvæla- og heilbrigðissviðs ætti að sýna hve þessi málaflokkur er yfirgripsmikill og margslunginn og eftir-far-andi listi yfir nýlegar reglugerðir á matvælasviði undirstrikar það enn frekar.

• Reglugerð nr. 518/1993 um aðskotaefni í matvælum
• Reglugerð nr. 537/1993 um efni og hluti sem er ætlað að snerta matvæli
• Reglugerð nr. 531/1993 um efni og hluti úr plasti sem er ætlað að snerta matvæli
• Reglugerð nr. 527/1993 um leirílát sem er ætlað að snerta matvæli
• Reglugerð nr. 541/1993 um filmur úr sellulósa sem er ætlað að snerta matvæli
• Reglugerð nr. 538/1993 um vinýlklóríð í efnum og hlutum sem er ætlað að snerta matvæli
• Reglugerð nr. 588/1993 um merkingu, kynningu og auglýsingu matvæla
• Reglugerð nr. 586/1993 um merkingu næringargildis
• Reglugerð nr. 579/1993 um aukefni í matvælum
• Reglugerð nr. 587/1993 um bragðefni í matvælum
• Reglugerð nr. 557/1993 um hraðfryst matvæli
• Reglugerð nr. 289/1994 um leysiefni til notkunar í matvælaiðnaði
• Reglugerð nr. 446/1994 um sérfæði
• Reglugerð nr. 447/1994 um kaffi, kaffikjarna og kaffibæti
• Reglugerð nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla
• Reglugerð nr. 142/1995 um breyting á reglugerð nr. 588/1993 um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla
• Reglugerð nr. 294/1995 um menntun, réttindi og skyldur heilbrigðisfulltrúa
• Reglugerð nr. 319/1995 um neysluvatn
• Reglugerð nr. 389/1995 um nítrósamín í gúmmítúttum og snuðum
• Reglugerð nr. 390/1995 um ölkelduvatn
• Reglugerð nr. 391/1995 um hunang
• Reglugerð nr. 392/1995 um mjólkurprótein
• Reglugerð nr. 426/1995 um sykur og sykurvörur
• Reglugerð nr. 428/1995 um aldinsultur og sambærilegar vörur
• Reglugerð nr. 561/1995 um ávaxtasafa og sambærilegar vörur
• Reglugerð nr. 562/1995 um 1. breytingu á reglugerð nr. 289/1994 um leysiefni til notkunar í matvælaiðnaði
• Reglugerð nr. 563/1995 um 1. breytingu á reglugerð nr. 518/1993 um aðskotaefni í matvælum

Sem dæmi um verkefni á vegum matvæla- og heilbrigðissviðs má nefna framkvæmd reglugerðar nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla sem í daglegu tali er nefnd "matvælareglugerð" og tók gildi hinn 20. september 1994. Í matvælareglugerðinni eru settar fram grundvallarkröfur um hollustuhætti ásamt kröfum um bæði opinbert eftirlit og innra eftirlit í matvælafyrirtækjum.
Samkvæmt reglugerðinni skulu fyrirtæki og aðilar sem framleiða eða dreifa matvælum hafa starfsleyfi opinbers eftirlitsaðila. Einnig er matvælafyrirtækjum gert að starfrækja innra eftirlit til að tryggja gæði, öryggi og hollustu matvæla og að vörur uppfylli að öðru leyti þær kröfur sem til þeirra eru gerðar. Þessum ráðstöfunum skal koma á með því að taka mið af GÁMES-eftirlitskerfinu. Ákvæði um innra eftirliti tóku gildi 14. desember 1995.
Til að tryggja sem best framgang matvælareglugerðarinnar gengust Hollustuvernd ríkisins og Embætti yfirdýralæknis fyrir yfirgripsmiklum námskeiðum um innra eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla og sóttu námkeiðið fulltrúar matvælaframleiðenda, dýralæknar og heilbrigðisfulltrúar sem annast eftirlit í héraði fyrir hönd heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna.

4.4 Eiturefnaeftirlit
Samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit skal Hollustuvernd ríkisins annast eftirlit með eiturefnum og hættulegum efnum í nauðsynjavörum, svo og vöruskráningu vegna eiturefna og hættulegra efna. Jafnframt annast hún framkvæmd laga nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni og reglugerða settra samkvæmt þeim lögum.
Með eiturefnum er átt við efni sem sérstaklega eru skráð á lista yfir eiturefni svo og sérhverja efnasamsetningu og varning sem hefur að geyma slík efni í því formi og magni að venjuleg notkun þeirra feli í sér hættu á eitrunum í mönnum og dýrum.
Með hættulegum efnum er átt við efni sem sérstaklega eru skráð á lista yfir hættuleg efni svo og sérhverja efnasamsetningu og varning sem hefur að geyma slík efni í því formi og magni að venjuleg notkun þeirra feli í sér hættu fyrir heilsu manna eða dýra.
Eiturefnasvið Hollustuverndar ríkisins fer með yfirumsjón eiturefna-eftirlits og greinist starfsemin í eftirtalda meginþætti:

Eftirlit með eiturefnum og hættulegum efnum, t.d.:
• Merkingar á vörum, þ.e. umsjón með því að merkingar eiturefna og hættulegra efna á vörum sem innihalda slík efni séu í samræmi við reglugerð þar að lútandi.
• Innflutningseftirtlit, innflutningsheimildir og vöruskráning, þ.e. eftirlit með að lög-bundnar takmarkanir á innflutningi einstarkra efna séu virtar og skráning vöru sem inniheldur eiturefni og hættuleg efni.
• Innflutningheimildir fyrir sótthreinsiefni og fúavarnarefni.
• Eftirlit með efnainnihaldi í hreinlætisvörum sem notaðar eru í matvæla-iðnaði með tilliti til skaðsemi hættulegra efna fyrir heilsu fólks og fyrir umhverfið.
• Skráning, undanþágur og starfsleyfi varðandi varnarefni, en það eru illgresis-eyðar, skordýraeyðar, stýri-efni og útrýmingarefni sem notuð eru í landbúnaði og garðyrkju og til útrýmingar meindýra.
• Eftirlit með snyrtivörum. Undir þennan þátt falla ýmis mál varðandi leyfi til útflutnings, innflutnings, sölu og dreifingu á snyrtivörum skv. reglugerð þar að lútandi.

Verkefni vegna EES-samningsins:
• Vinna við undirbúning og breytingar á reglugerðum varðandi eiturefni og hættuleg efni.
• Nýjungar á sviði eitur-efna og hættulegra efna innan EES.

Erlent samstarf:
• Norræn samvinna. Þátttaka í norrænu efnanefndinni og norrænu vöruöryggisnefndinni.
• Alþjóðleg samvinna. Þátttaka í samstarfi Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna varðandi ósoneyðandi efni.

Þessi stutta upptalning sýnir mikilvægi virks eitur-efna-eftirlits í því að tryggja heilnæmt umhverfi og skaðlausar nauðsynja-vörur í nútíma samfélagi. Eftirfarandi listi yfir reglugerðir á sviði eiturefnaeftirlits undirstrikar mikilvægi málaflokksins enn frekar.

• Reglugerð nr. 74/1983 um bann við innflutningi og notkun asbests
• Reglugerð nr. 39/1984 um útgáfu og afgreiðslu eiturbeiðna og annarra tilsvarandi leyfa
• Reglugerð nr. 50/1984 um notkun eiturefna og hættulegra efna í landbúnaði og garðyrkju og til útrýmingar meindýra
• Reglugerð nr. 147/1985 um merkingu á nauðsynjavörum sem innihalda eiturefni o.fl.
• Reglugerð nr. 238/1986 um eftirlit með framkvæmd laga nr. 85/1968 um eiturefni og hættuleg efni, sbr. lög nr. 52/1988
• Reglugerð nr. 137/1987 um notkun og bann við notkun tiltekinna eiturefna og hættulegra efna
• Reglugerð nr. 196/1987 um takmörkun á sölu á kveikjaragasi
• Reglugerð nr.149/1989 um meindýraeyða
• Reglugerð nr. 236/1990 um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna og hættulegra efna og vörutegunda sem innihalda slík efni
• Reglugerð nr. 520/1991 um innflutning, framleiðslu og dreifingu leikfanga úr blýi
• Reglugerð nr. 389/1994 um takmörkun á sölu gerileyðandi efna sem innihalda etanól
• Reglugerð nr. 521/1994 um þvotta og hreingerningarefni
• Reglugerð nr. 690/1994 um snyrtivörur
• Reglugerð nr. 694/1994 um takmörkun við framleiðslu, notkun og innflutningi leikfanga, skrautmuna og spaug- eða gabbvarnings, sem innihalda tiltekin efni
• Reglugerð nr. 22/1995 um brennisteinsmagn í gasolíu
• Reglugerð nr. 84/1996 um innflutning, notkun og förgun PCB efna, PCT efna og umhverfisskaðlegra staðgengilefna
• Reglugerð nr. 445/1996 um notkun og bann við notkun tiltekinna efna í málningu, lökkum og viðarvörn
• Reglugerð nr. 447/1996 um notkun og bann við notkun kadmíums og efnasambanda þess
• Reglugerð nr. 448/1996 um notkun og bann við notkun tiltekinna efna við meðhöndlun á textílvörum
• Reglugerð nr. 449/1996 um bann við notkun tiltekinna eiturefna og hættulegra efna


5 Fráveitumál

5.1 Boðað átak í fráveitumálum
Mengunarvarnir og aðgerðir á sviði mengunarmála eru meðal mikilvægustu málaflokka umhverfisráðuneytisins.Með stofnun ráðuneytisins árið 1990 urðu ákveðin tímamót í meðferð fráveitumála sem og annarra þátta umhverfismála sem við það fengu aukið vægi í opinberri umfjöllun. Þetta kemur m.a. fram í stefnu og starfsáætlun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks "Velferð á varanlegum grunni" frá 1991 en þar segir um fráveitumál: "Ríkisstjórnin mun í samvinnu við sveitarfélögin beita sér fyrir því að gerð verði úttekt á fráveitum í öllum sveitarfélögum landsins á kjörtímabilinu og áætlun gerð um úrbætur. Sérstök áhersla verður lögð á að allri losun umhverfisskaðlegra efna í almennar fráveitur verði hætt."
Mengun vegna skólps er eitt af stærstu umhverfisvandamálum sem fylgja þéttbýli. Með skólpi er átt við mengað vatn frá hýbýlum manna og tilheyrandi atvinnu- og þjónustustarfsemi. Meginhluti skólpsins er að uppruna neysluvatn og er það, ásamt regnvatni, leysingavatni o.fl., leitt út fyrir þéttbýli eftir leiðslum í viðtaka sem oftast er sjór en stundum einnig fallvötn eða stöðuvötn.

5.2 Þróun fráveitukerfa hérlendis
Fyrstu holræsi hér á landi voru byggð fljótlega eftir aldamótin 1900 en áður hafði skólpi verið veitt eftir opnum skurðum. Holræsakerfin veittu skólpinu yfirleitt stystu leið til sjávar og enduðu oftast í opnum útrásum í fjöruborðinu með tilheyrandi mengun.
Árið 1990 tók gildi fyrsta heildarmengunarvarnareglugerð hér á landi og tók hún til allarar mengunar í ytra umhverfi, þ.á m. mengunar frá fráveitukerfum. Reglugerðin gerði reyndar ekki miklar kröfur um hreinsun fráveituvatns. Væri því veitt í ár eða vötn skyldi hreinsibúnaður að lágmarki vera rotþró. Allt skólp sem leitt væri í sjó skyldi grófhreinsað og leitt minnst 5 m niður fyrir meðalstórstraumsfjöruborð eða 20 m út frá meðalstórstraumsfjörumörkum.
Við setningu reglugerðarinnar var ljóst að tiltölulega kostnaðarsamt yrði að framfylgja henni og að vafist gæti fyrir mörgum sveitarfélögum að fjármagna slíkar framkvæmdir. Næstu tvo áratugina á undan hafði þó víða verið unnið að fækkun útrása og framlengingu þeirra lengra út í sjó. Þrátt fyrir það má telja lílegt að þegar mengunarvarnareglugerðin tók gildi hafi varla fundist nokkur löglegur útrásarstútur við strendur landsins.

5.3 Fráveitunefnd 1992–1993
Í febrúar 1992 skipaði umhverfisráðherra nefnd til að gera úttekt á ástandi fráveitumála og móta stefnu í þessum málum. Nefndinni var ennfremur ætlað að kanna ástand fráveitumála á landinu og benda á leiðir til úrbóta. Þar skyldi tekið mið af sérstöðu Íslands og þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem Íslendingar hafa tekið á sig eða líklegt væri að þeir myndu gangast undir. Í skipunarbréfi nefndarinnar var bent á tilskipanir Evrópubandalagsins er varða vatnsmengun og meðferð skólps en þær eru hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og mun ítarlegri en samsvarandi íslensk lög og reglugerðir. Fráveitunefndin lauk störfum með skýrslu til umhverfisráð-herra í nóvember 1993.

5.3.1 Staða fráveitumála
Könnun fráveitunefndarinnar á ástandi fráveitumála í 65 þéttbýliskjörnum um allt land á árinu 1992 leiddi í ljós að þessi mál voru þá enn víða í ólestri þó svo að sums staðar væri töluverð hreyfing í átt til úrbóta. Skólpi var víða veitt beint í ferskvatn eða sjó án nokkurrar hreinsunar og oft svo skammt út að á fjöru féll frá útrásaropum. Á 53 þéttbýlisstöðum með um 194.000 íbúa var ekki um að ræða neina hreinsun á skólpinu, á 7 þéttbýlisstöðum með um 28.000 íbúa fór hluti skólpsins í rotþrær og á 5 þéttbýlisstöðum með um 7.000 íbúa fór allt skólp í rotþrær.

5.3.2 Kröfur um hreinsun fráveituvatns
Nefndin kynnti sér kröfur um hreinsun fráveituvatns í nágrannalöndunum og þróun þessara mála á alþjóðavettvangi. Þar hafa hreinsikröfur verið hertar og miða fyrst og fremst að því að koma í veg fyrir ofauðgun næringarefna í viðtakanum og draga úr bakteríumengun.
Mörg af ríkjum Evrópu þurfa að veita skólpi í landlukt innhöf. Við þær aðstæður er mun meiri hætta á skólpmengun en gerist hér við land þar sem viðtakinn er opið haf. Í tilskipun Evrópubandalagsins um hreinsun skólps frá þéttbýli er almennt gert ráð fyrir svonefndri tveggja þrepa hreinsun þ.e. líffræðilegu niðurbroti með örverum auk aflfræðilegrar hreinsunar, t.d. síunar.
Sjórinn við Íslandsstrendur er fremur snauður af næringarefnum og þéttleiki byggðar og iðnaðarstarfsemi á landinu yfirleitt mun minni en í öðrum löndum Evrópu. Því ætti ekki að vera jafn mikil þörf á hreinsun skólps hér við land og gerist víða í Evrópu.
Í tilskipun Evrópubandalagsins er veitt undanþága frá tveggja þrepa hreinsun þar sem viðtaki er sjór og sýnt fram á að hann sé lítt viðkvæmur, þ.e. lítil sem engin hætta á ofauðgun næringarefna. Hafsvæðið umhverfis Ísland flokkast sem síður viðkvæmt og því gildir almennt að eins þreps hreinsun (t.d. síun) nægi fyrir flesta þéttbýlisstaði við sjóinn. Fráveitunefndin taldi að þetta væri þó háð þeim skilyrðum að fylgst væri með viðtakanum og að gripið yrði til frekari hreinsunar ef mæliniðurstöður bentu til að ástand viðtakans væri óviðunandi.

5.3.3 Flokkun viðtaka
Fráveitunefndin lagði til að hreinsun fráveituvatns skyldi uppfylla þau markmið sem fram koma í tilskipun Evrópubandalagsins. Hreinsiþörf þyrfti því að ákveða út frá eiginleikum viðtaka á hverjum stað.
Í tilskipuninni er gert ráð fyrir að viðtakar séu flokkaðir á ákveðinn hátt en sú flokkun er nokkuð önnur en gert er ráð fyrir í íslensku mengunarvarnarreglugerðinni. Nefndin lagði til að fram færi flokkun á viðtökum hér á landi með tilliti til þess hvernig hreinsa skuli fráveituvatn á hverjum stað og einnig að breytingar yrðu gerðar á mengunarvarnareglugerðinni til samræmis við tilskipun Evrópubandalagsins.
Einnig benti nefndin á sjálfsagða nauðsyn þess að koma í veg fyrir að eitur- og spilliefni berist í fráveituvatnið.

5.3.4 Framkvæmdir
Fráveitunefnd benti á að víða væri skortur á upplýsingum um fráveitukerfi í byggðarlögum og að sveitarstjórnir yrðu að sjá til þess að úr því yrði bætt. Þá þyrftu sveitarfélögin að gera framtíðaráætlanir um framkvæmdir í fráveitumálum. Einnig þyrftu sveitarfélögin að vakta aðstæður í viðtakanum og sýna fram á að hann þoli álagið af fráveituvatninu.
Fráveitunefnd lagði til að þessum málum yrði fylgt eftir og komið á skrið með því að stjórnvöld veittu sveitarfélögum styrki til framkvæmda í fráveitumálum og stuðluðu þannig að því að úrbætur hæfust sem fyrst.

5.3.4 Eftirlit
Nefndin lagði til að almennt eftirlit yrði heima í héraði undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins. Þá benti nefndin á að skilgreina þyrfti ábyrgð ríkisvalds, sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga í fráveitumálum.

5.4 Framgangur málsins
Stefna ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum var sett fram í ritinu "Á leið til sjálfbærrar þróunar" árið 1993 og þar segir m.a.: "Verið er að ljúka úttekt á fráveitum í sveitarfélögum landsins og unnið er að stefnumörkun um úrbætur. Stuðlað verður að því að framkvæmdir í frárennslismálum verði hafnar um allt land ekki síðar en árið 1995."
Stórt skerf í átt til framfara í fráveitumálum var stigið þann 8. mars. 1995 með setningu laga nr. 52/1995 um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum. Markmið laganna er að stuðla að framkvæmdum við fráveitur með styrkveitingum, en með fráveitum er í lögunum átt við leiðslukerfi og búnað til að meðhöndla skólp sem fullnægir kröfum laga og reglugerða um hreinsun þess áður en því er veitt í viðtaka.
Samkvæmt lögunum geta framkvæmdir við fráveitur á vegum sveitar-fálaga, sem unnar verða á tímabilinu 1. maí 1995 til 31. des 2005, notið styrks úr ríkissjóði og getur fjárhagslegur stuðningur ríkisins numið allt að 200 milljónum króna á ári skv. nánari ákvörðun fjárlaga, en þó aldrei hærri upphæð en nemur 20% af staðfestum heildarkostnaði styrkhæfra framkvæmda næstliðins árs.
Samkvæmt lögunum er frumkvæði um gerð áætlana og framkvæmdir í fráveitumálum í höndum sveitarstjórna og á þeirra ábyrgð.

5.5 Fráveitunefnd 1995–
Fráveitunefnd skv. ofangreindum lögum var skipuð í apríl 1995. Hlutverk nefndarinnar skv. 6. grein laganna er að fjalla um styrkumsóknir og framkvæmda- og kostnaðaráætlanir sveitarfélaga vegna framkvæmda í fráveitumálum á yfirstandandi ári og áætla styrkhæfni hverrar áætlaðrar framkvæmdar. Í samræmi við mat á styrkumsóknum sveitarfélaga skal nefndin gera tillögu til umhverfisráðherra um framlag til fráveitumála sveitarfélaga á fjárlögum næsta árs.

5.5.1 Störf nefndarinnar 1995
Á fyrsta starfsári nefndarinnar var miklum tíma varið í að móta starfsreglur vegna úthlutunar styrkja. Samþykktar voru eftirfarandi reglur um styrkveitingar:

Eftirfarandi framkvæmdir, sem eru unnar á vegum sveitarfélaga og á ábyrgð þeirra, eru styrkhæfar enda séu þær hluti af samþykktri heildaráætlun sveitarfélags um úrbætur í fráveitumálum, í þéttbýli og dreifbýli:

• Holræsaframkvæmdir, þ.e. sniðræsi, útrásir, dreifistútar og situr-lagnir.
• Skólphreinsimannvirki, þ.e. botnfelliþrær, rotþrær, fleytiker, sand- og fituskiljur, síur eða annar búnaður sem fullnægir markmiðum og kröfum mengunarvarnareglugerðar um hreinsun.
• Önnur mannvirki sem eru nauðsynlegur hluti af samþykktri heildaráætlun sveitarfélagsins, þ.e. dælustöðvar, yfirföll, mælimannvirki og búnaður til meðhöndlunar seyru.

Auk þess er heimilt að styrkja aðrar framkvæmdir við fráveitukerfi ef sýnt er að þær framkvæmdir leiði til lægri stofnkostnaðar við framkvæmd heildaráætlunar fyrir viðkomandi sveitarfélag.
Einnig vann fráveitunefndin ítarlegar leiðbeiningar um gerð heildaráætlana fyrir fráveituframkvæmdir sveitarfélaga.
Nefndinni bárust 29 umsóknir um styrki til fráveituframkvæmda á árinu 1995 að upphæð samtals 113.021.941 kr. og mat nefndin 20 umsóknir styrkhæfar, samtals 97.736.014 kr.

6 Alþjóðasamstarf

Alþjóðastarf umhverfisráðuneytisins felst annars vegar í því að gæta íslenskra hagsmuna á sviði umhverfismála á alþjóðavettvangi og hins vegar í þátttöku í samstarfi ríkja um stefnumörkun og upplýsingamiðlun á sviði umhverfismála. Alþjóðastarf á vegum ráðuneytisins árið 1995 beindist einkum að eftirtöldum málefnum:

6.1 Norrænt samstarf
Þátttaka umhverfisráðuneytisins í norrænu samstarfi er nokkuð umfangsmikil. Frá mars 1994 hafði Ísland formennsku í norrænu ráðherra- og embættismannanefndunum í eitt ár. Helsta markmið ráðuneytisins á formannsári var að auka samstarf um norðlægari svæði og var í því sambandi lögð sérstök áhersla á varnir gegn mengun hafsins og umhverfisvernd á norðurslóðum. Þá var lögð áhersla á að tengja starfsemina því samstarfi sem á sér stað innan Rovaniemiferlisins, Barentsráðsins og starfi Umhverfisstofnunar Evrópu í Kaupmannahöfn.

6.2 Alþjóðlegur sáttmáli um loftslagsbreytingar
Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun, sem haldin var í Rio de Janeiro í júní 1992, skrifuðu 153 ríki undir rammasamning um loftslagsbreytingar. Ísland tók ekki þátt í gerð samningsins en var í hópi þeirra ríkja sem undirrituðu hann. Samningurinn tók gildi 21. mars 1994. Meginmarkmið samningsins er að stuðla að aðgerðum sem koma í veg fyrir alvarlega röskun á loftslagi af manna völdum. Í honum eru ákvæði um að iðnríkin sem mesta ábyrgð bera á útstreymi gróðurhúsalofttegunda móti hvert fyrir sig stefnu í þessum málum og geri ráðstafanir til að takmarka útstreymið svo að það verði ekki meira árið 2000 en það var árið 1990.
Í kjölfar aðildarinnar var ákveðið að Ísland tæki þátt í milliríkjanefnd samningsins. Fyrsta aðildarríkjaþing var haldið í Berlín 28. mars til 7. apríl 1995. Þar var samþykkt að hefja samningaviðræður til að styrkja ákvæði samningsins og stefnt að því að ljúka samningi á árinu 1997.
Að mati íslenskra stjórnvalda gætu breytingar á samningnum skipt verulegu máli fyrir íslenska hagsmuni. Þær gætu einnig haft talsverðan kostnað í för með sér fyrir þjóðarbúið en um leið skapað ný tækifæri til nýtingar innlendra orkugjafa. Með virkri þátttöku í samningaviðræðum gætu íslensk stjórnvöld haft áhrif á að breytingarnar á samningnum féllu sem best að íslenskum aðstæðum. Þátttaka í samningaviðræðum stuðlar auk þess að því að auka trúverugleika Íslands á alþjóðavettvangi á sviði umhverfisverndar og auðlindanýtingar.
Á grundvelli viðræðna sem fram fóru á milli iðnaðar- og viðskipta-, sjávarútvegs-, landbúnaðar-, samgöngu- og utanríkis-ráðuneytis ákváðu íslensk stjórnvöld að taka þátt í samningaviðræðunum og leggja sérstaka áherslu á eftirfarandi atriði:
• Að ákvæðum samningsins verði ekki breytt en nýjar skuldbindingar og ákvæði til að styrkja samninginn komi fram í bókun við hann.
• Að væntanleg bókun og nýjar skuldbindingar taki til allra gróðurhúsalofttegunda en ekki einvörðungu koltvíoxíðs.
• Að töluleg markmið um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda miðist á fyrsta stigi við núverandi hlutdeild hreinna orkugjafa í orkunotkun viðkomandi lands í stað tiltekins viðmiðunarárs. T.d. að ríki sem nú þegar afla 20–30% af heildarorkuþörf frá hreinum og endurnýjanlegum orkugjöfum verði undanþegin frekari aðgerðum þar til önnur vestræn ríki hafa almennt náð sama marki.
• Að vinna að því að nýjar skuldbindingar takmarki ekki möguleika aðildaríkjanna til að auka nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa vegna iðnaðarframleiðslu jafnvel þó framleiðsluferlin auki losun gróðurhúsalofttegunda staðbundið, enda komi hún í stað framleiðslu sem hefði í för með sér meiri losun í alþjóðlegu samhengi. Á sama hátt verði það metið jákvætt ef ríki stuðlar að útflutningi á orku framleiddri með hreinum og endurnýjanlegum orkugjöfum.
• Að aðgerðir sem auka gróður og binda þar með aukið kolefni í jörð verði metnar jafngildar aðgerðum til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.
• Að þau ríki sem sýna fram á að þau geti ekki, miðað við þá tækni sem í boði er, dregið frekar úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda, verði undanþegin tölulegum ákvæðum þar að lútandi.

Á síðari hluta árs 1995 voru haldnir tveir samningafundir en ætlunin er að ljúka samningum í desember 1997. Fyrsti hluti samninga-viðræðnanna beindist einkum að því að greina hvaða valkostir eru fyrir hendi.

6.3 Umhverfisnefnd Sameinuðu þjóðanna
Umhverfisnefnd Sameinuðu þjóðanna var stofnuð af alsherjarþinginu haustið 1992 til að fylgjast með og stuðla að framkvæmd samþykkta Ríóráðstefnunnar. Nefndin fjallar um skýrslur aðildarríkajanna og alþjóðlegra stofnana og gerir tillögur til alsherjarþingsins, ríkisstjórna og alþjóðlegra stofnana um frekari aðgerðir.
Þriðji árlegi fundur nefndarinnar var haldinn 11.–28. apríl 1995 í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Á dagskrá fundarins voru árleg viðfangsefni nefndarinnar, þ.á m. fjárhagsleg og tæknileg aðstoð við þróunarríkin til að gera þeim kleift að framkvæma samþykktir Ríóráðstefnunnar, aðgerðir til að stuðla að breyttum framleiðslu- og neysluháttum í heiminum, ráðstafanir til að stemma stigu við fólksfjölgun, aðgerðir til að efla umhverfisvernd samhliða auknu frelsi í viðskiptum og leiðir til að auka þátttöku félagssamtaka í stefnumótun og framkvæmdum á sviði umhverfismála. Þá fjallaði nefndin sérstaklega um framkvæmdir þeirra samþykkta Ríóráðstefnunnar er lúta að vernd og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda á landi og líffræðilegrar fjölbreytni, svo sem um landnýtingu og sjálfbæran landbúnað.
Stjórn Umhverfisnefndar Sameinuðu þjóðanna er kosin árlega og situr í eitt ár. Í upphafi fundarins var Magnús Jóhannesson ráuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins kosinn einn af fjórum varaforsetum nefndarinnar. Með því að eiga fulltrúa í stjórninni gafst Íslandi tækifæri á að hafa áhrif á undirbúning og skipulag næsta fundar nefndarinnar vorið 1996.
Í mars 1995 var haldinn í Reykjavík næst síðasti samningafundurinn af fjórum um gerð alþjóðlegrar áætlunar um verndun hafsins gegn mengun frá landi. Gerð áætlunar lauk í nóvember 1995 í Washington og var hún samþykkt af 111 ríkjum. Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur umsjón með framfylgd áætlunarinnar.


7 Útstreymi gróðurhúsalofttegunda

Á árinu 1995 samþykkti ríkisstjórnin framkvæmdaáætlun vegna rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Í þessum kafla er framkvæmdaáætlunin birt og að auki eru birtar til glöggvunar tölulegar upplýsingar um útstreymi ýmissa lofttegunda af manna völdum á Íslandi, bæði þeirra sem valda gróðurhúsaáhrifum (s.s. koltvíoxíðs) og annarra sem teljast mengandi þó þau hafi lítil eða engin áhrif á hitabúskap andrúmsloftsins (s.s. brennisteinstvíoxíðs og blýs).
Gróðurhúsaáhrif af manna völdum eru talin hafa leitt til lítils háttar hlýnunar á jörðinni á undanförnum áratugum og eru talin geta valdið mun meiri hlýnun á næstu áratugum, um 1,0-–5,5˚C fram að miðri næstu öld. Talið er að svo snögg umskipti geti haft gífurlegar umbreytingar í för með sér: Gróðurbelti færast til; veðurkerfi breytast; sum landsvæði þorna upp á meðan úrkoma eykst annars staðar; sjávarstaða hækkar m.a. vegna bráðnunar jökla; og hafstraumar, m.a. Golfstraumurinn, kunna að breytast. Þessar breytingar á náttúrufari geta svo aftur á móti skapað vandamál á borð við uppskerubrest, aukinn flóttamannavanda og aukna flóðatíðni á strandsvæðum.
Af þessum sökum skrifuðu flestar þjóðir heims, þ.á m.Íslendingar, undir rammasamning Sameinuðu þjóðanna vegna loftslagsbreytinga í Rio de Janeiro árið 1992. Markmið hans er ekki að koma alveg í veg fyrir hlýnun lofthjúpsins af mannavöldum – enda er það líklega óhjákvæmilegt jafnvel þó að útstreymi gróðurhúsalofttegunda af manna völdum hætti alveg – heldur sú að draga úr hraða breytinganna, þannig að umskiptin verði ekki of snögg og auðveldara verði að takast á við afleiðingarnar.


7.1 Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar
Ríkisstjórnin samþykkti 17. október 1995 sérstaka framkvæmdaáætlun vegna loftslagsbreytinga. Framkvæmdaáætlunin tók mið af niðurstöðum koltvíoxíðsnefndar, sem þáverandi umhverfisráðherra skipaði í ársbyrjun 1991 til að kanna útstreymi gróðurhúsalofttegunda og leggja grunn að framkvæmdaáætlun til að takmarka útstreymi þeirra í samræmi við skuldbindingar rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.
Markmið stefnu ríkisstjórnar Íslands til þess að sporna gegn gróðurhúsaáhrifum er að útstreymi koltvíoxíðs og annarra gróðurhúsalofttegunda verði ekki meira um næstu aldamót en það var árið 1990, í samræmi við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að þessu markmiði verði náð á sem hagkvæmastan hátt. Því munu þjóðhagslega hagkvæmar aðgerðir hafa forgang, svo sem bætt nýting eldsneytis í farartækjum, þar með talið í fiskiskipum. Áfram verður lögð áhersla á að auka hlutdeild vatnsafls og jarðhita í orkunotkun og draga þannig úr losun gróðurhúsalofttegunda sem er samfara brennslu jarðefnaeldsneytis. Ríkisstjórninni er ljóst að vatnsorka og jarðhiti hafa þegar að mestu leyti komið í stað jarðefnaeldsneytis á þeim sviðum þar sem það er tæknilega unnt og hagkvæmt, og sjá þessir orkugjafar þjóðinni nú fyrir nálega 2/3 hlutum af frumorkunotkuninni. Þess vegna leggur ríkisstjórnin áherslu á landgræðslu og skógrækt til að skapa aukið svigrúm, auka öryggi í framkvæmdaáætluninni og draga úr líkum á því að ófyrirséðar breytingar á forsendum komi í veg fyrir að Ísland nái settu markmiði.
Það er álit ríkisstjórnarinnar að skuldbindingar um takmörkun útstreymis gróðurhúsalofttegunda eigi ekki að koma í veg fyrir að reist verði ný stóriðjufyrirtæki í landinu, ef þau vilja nýta sér hinar hreinu orkulindir landsins, jafnvel þótt fyrirtækin noti kol eða koks sem hráefni og auki útstreymi gróðurhúsalofttegunda vegna þess. Þó vill ríkisstjórnin leggja áherslu á að ávallt verði nýtt besta fáanlega tækni í nýjum stóriðjuverum, sem kunna að verða reist á Íslandi á næstu árum, svo að útstreymi gróðurhúsalofttegunda vegna hráefnisnotkunar eða iðnferla verði eins lágt og tæknilega er mögulegt.

7.1.1 Fjórar meginleiðir
Í framkvæmdaáætluninni leggur ríkisstjórnin einkum áherslu á fjórar meginleiðir, þ.e.a.s. hvetjandi aðgerðir, fræðslu, hagstjórnartæki og þvingandi aðgerðir.
Með hvetjandi aðgerðum er átt við aðgerðir ríkisstjórnarinnar og stofnana hennar, til þess að efla starf sveitarfélaga, einkaaðila og áhugamannafélaga svo það stuðli enn frekar að takmörkun á útstreymi gróðurhúsalofttegunda eða að aukinni upptöku koltvíoxíðs.
Fræðsla er mikilvægur hluti framkvæmdaáætlunarinnar, og verður henni beint að almenningi, atvinnuvegunum og nemendum í skólum landsins. Markmiðið er að efla þekkingu fólks á umhverfinu og áhrifum mannlegra athafna á loftslagið. Jafnframt er stefnt að því að virkja almenning, fyrirtæki, ýmis samtök og stofnanir til samstarfs um að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda og auka upptöku koltvíoxíðs í lífmassa.
Megináhersla er lögð á aðgerðir sem eru beinlínis hagkvæmar eða aðgerðir sem stuðla jafnframt að öðrum markmiðum og ávinningi. Af þessum sökum leggur ríkisstjórnin áherslu á eftirfarandi aðgerðir:

1. Olíusparnað, einkum í fiskveiðum, samgöngum og iðnaði.
2. Aukna nýtingu mengunarlausra, innlendra orkugjafa þar sem það er þjóðhagslega hagkvæmt.
3. Gerð heildarskipulags fyrir landnýtingu á Íslandi. Lögð verði áhersla á sjálfbæra landnýtingu og aðlögun landbúnaðar og annarra atvinnuvega að henni.
4. Landgræðslu og skógrækt til að stöðva landeyðingu, vinna upp það sem tapast hefur af ræktuðu landi og bæta gróðurfar. Jafnframt verði komið upp nytjaskógum þar sem það hentar.
Mestur hluti (64%) útstreymis koltvíoxíðs á Íslandi er rakinn til hreyfanlegra uppsprettna (samgangna og fiskveiða). Afgangurinn, eða um 36%, eru staðbundnar uppsprettur, einkum iðnaðarferli í stóriðju og ofnar og katlar í iðnfyrirtækjum. Hlutur staðbundinnar orkuvinnslu í losun koltvíoxíðs var einungis 17,7% árið 1990 eða mun minni en hjá öðrum iðnríkjum. Þetta gerir það að verkum að þungamiðjan í íslensku framkvæmdaáætluninni beinist að því að draga úr útstreymi frá bifreiðum og skipum (þ.m.t. fiskiskipum). Ríkisstjórninni er þó ljóst að torvelt verður að beita þvingandi aðgerðum í sjávarútveginum, sem er burðarásinn í efnahagslífi þjóðarinnar og skilar meira en helmingi gjaldeyristekna landsins. Ekki er heldur talið framkvæmanlegt að takmarka útstreymi koltvíoxíðs frá iðnaðarferlum að neinu marki, því að eina leiðin til þess væri að takmarka framleiðslu fyrirtækjanna.
Óvissa ríkir um árangur aðgerða, einkum þar sem flestar þeirra snerta margar smáar uppsprettur eins og eru á Íslandi. Þótt árangurinn sé óviss telur ríkisstjórnin mikilvægt að framkvæmdaáætlunin taki á öllum helstu uppsprettum gróðurhúsalofttegunda í landinu. Haft verður virkt eftirlit með árangrinum m.a. með því að vinna ítarlega útstreymisreikninga á hverju ári. Síðan mun ríkisstjórnin endurskoða framkvæmdaáætlunina í ljósi fenginnar reynslu, og efla ákveðnar aðgerðir eftir því sem þurfa þykir.

Vegna hinna sérstöku aðstæðna á Íslandi, þ.e. að staðbundin orkuvinnsla er nú þegar að mestum hluta knúin hreinum orkugjöfum, og vegna mikilvægis fiskveiða sem erfitt er að takmarka útstreymi frá, er talsverð áhersla lögð á bindingu koltvíoxíðs í gróðri í fyrirliggjandi framkvæmdaáætlun. Þannig verður landgræðsla og skógrækt efld töluvert, og jafnframt stefnt að því að stöðva jarðvegseyðingu. Settar hafa verið fram sérstakar framkvæmdaáætlanir í þessu skyni.
Stefnumiðum og aðgerðum ríkisstjórnarinnar er skipt í tvo hluta, annars vegar almennar og hagrænar aðgerðir sem ná til almennings og meginhluta atvinnulífsins, og hins vegar sértækar aðgerðir, sem eiga við einstakar atvinnugreinar eða þjónustusvið samfélagsins.

7.1.2 Almennar og hagrænar aðgerðir
Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að áhersla verði lögð á hvetjandi aðgerðir, fræðslu og hagstjórnartæki til að takmarka útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.
Ríkisstjórnin hyggst stuðla að markvissri eflingu fræðslu um gróðurhúsaáhrifin og leiðir til að takmarka útstreymi gróðurhúsalofttegunda, bæði í fjölmiðlum, í skólum og á öðrum vettvangi. Í þessu skyni verður leitað samstarfs við sveitarfélög, skóla, stofnanir, félög og atvinnufyrirtæki eftir því sem við á. Fræðslunni verður beint til almennings, nemenda, atvinnurekenda og starfsmanna helstu atvinnugreina.
Ríkisstjórn Íslands hyggst endurskoða skattlagningu eldsneytis, svo að hún taki mið af útstreymi koltvíoxíðs og verki takmarkandi á það. Stefnt er að því að leggja á sérstakan CO2-skatt á þá notkun jarðefnaeldsneytis sem ekki tengist starfsemi í alþjóðlegri samkeppni, en að öðru leyti verði fylgt hliðstæðum reglum sem settar verða um CO2-skatt í samkeppnislöndum.
Ríkisstjórnin hyggst endurskoða gjaldtöku af bifreiðum og eldsneyti með það fyrir augum að auka hlutfall sparneytinna bifreiða. Stefnt er að því að vörugjöld á mengunarlausa bíla, t.d. rafbíla, verði felld niður.
Umhverfisráðherra mun skipa sérstaka "umsjónarnefnd ráðuneytanna", að höfðu samráði við aðra hlutaðeigandi ráðherra, til að hafa umsjón með framkvæmdaáætlun vegna rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Hlutverk nefndarinnar verður m.a. það að meta á hverju ári árangur af framkvæmdum og aðgerðum í fyrirliggjandi framkvæmdaáætlun. Jafnframt mun hún gera tillögur til viðkomandi ráðuneyta eða framkvæmdaaðila um nýjar eða hertar aðgerðir eða endurskoðun aðgerða, eftir því sem hún telur þörf á til að ná settu markmiði um takmörkun útstreymis og aukningu upptöku gróðurhúsalofttegunda.
Settar verða reglur til að takmarka notkun flúorkolefna og annarra öflugra og langlífra gróðurhúsalofttegunda eftir því sem kostur er.
Rannsóknir og vöktun í tengslum við áhrif loftslagsbreytinga og viðbrögð við þeim verða efldar á markvissan hátt.
Komið verður upp eftirliti með framkvæmd stefnumiða og aðgerða, m.a. með reglulegri endurskoðun útstreymisreikninga og gerð spár um þróun útstreymis.
Framlög til þróunaraðstoðar verða aukin fram til aldamóta, og er stefnt að því að þau verði a.m.k. 0,3–0,4% af þjóðarframleiðslu árið 2000.

7.1.3 Sértækar aðgerðir
Meginviðmið ríkisstjórnarinnar er að stefnt skuli að því að takmarka útstreymi frá hverri atvinnugrein, eftir því sem kostur er, með það fyrir augum að heildarútstreymi koltvíoxíðs vegna innlendrar neyslu verði ekki meira árið 2000 en það var árið 1990. Þó verði leitast við að halda þeirri meginreglu að halda í lágmarki kostnaði þjóðfélagsins við að ná settu markmiði.

A Sjávarútvegur
Ríkisstjórnin hefur falið sjávarútvegsráðuneytinu að koma eftirfarandi framkvæmdaáætlun vegna fiskveiða í framkvæmd, í samvinnu við umhverfisráðuneyti og iðnaðarráðuneyti. Lögð verður áhersla á eftirfarandi þætti:
• Starfshópur um umhverfis- og orkumál í fiskveiðum
Sjávarútvegsráðherra mun skipa sérstakan starfshóp að höfðu samráði við umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra til þess að gera áætlun um hvernig megi ná settu markmiði um að draga úr útstreymi koltvíoxíðs og annarra gróðurhúsalofttegunda frá fiskiskipaflotanum.
• Markviss efling orkusparnaðar við fiskveiðar
Sjávarútvegsráðuneytið mun beita sér fyrir aðgerðum til að stuðla að orkusparnaði hjá fiskiskipaflotanum á sem flestum sviðum. Meðal verkefna verður könnun á hagkvæmni og eldsneytisnotkun mismunandi veiða og veiðarfæra og gera tillögur um aðgerðir, s.s. beitingu hagstjórnartækja. Auk þess verður unnið að eflingu fræðslu fyrir útgerðarmenn, skipsstjóra og vélstjóra um leiðir til að koma í veg fyrir sóun eldsneytis og til að draga úr notkun eldsneytis við fiskveiðar og siglingar.
• Rafmagn til skipa í höfnum
Gerðar verða ráðstafanir til þess að í öllum höfnum geti skip fengið rafmagn úr landi á samkeppnisfæru verði við rafmagn frá ljósavélum. Ef þurfa þykir verði jafnframt settar reglur sem takmarka notkun ljósavéla í höfnum.

B Samgöngur
Ríkisstjórnin hefur falið samgönguráðuneytinu í samvinnu við umhverfisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið að koma í framkvæmd stefnumiðum og aðgerðum til að takmarka útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Lögð verður áhersla á eftirfarandi atriði:
• Heildstætt skipulag samgangna m.t.t. umhverfis- og orkumála
Samgönguráðherra skipar sérstakan starfshóp, að höfðu samráði við umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra, til að leggja grunn að heildstæðu skipulagi samgangna í landinu m.t.t. umhverfis- og orkumála. Starfshópnum verður falið að stuðla að stórefldri fræðslu til að draga úr sóun eldsneytis og bæta nýtingu ökutækja. Starfshópurinn mun einnig láta gera könnun á hagkvæmni og eldsneytisnotkun mismunandi samgönguleiða með það að markmiði að efla þjóðhagslega hagkvæmar, lítt mengandi og eldsneytissparandi samgönguleiðir.
• Efling almenningssamgangna
Komið verður á markvissu og virku samstarfi við sveitarfélög um að efla almenningssamgöngur í þéttbýli. Stuðlað verður að því að við gerð bæjar- eða borgarskipulags verði lögð sérstök áhersla á almenningssamgöngur. Kannað verður hvort hagkvæmt er að rafvæða ákveðnar leiðir almenningsfarartækja.
• Bætt aðstaða fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur
Gerðar verða ráðstafanir til þess að gangandi og hjólandi vegfarendur eigi örugga og greiðfæra leið um borgir og bæi um allt land. Til að styðja við framkvæmdir á þessu sviði verður komið á samstarfi við sveitarfélög og skipulagsyfirvöld eftir því sem þurfa þykir.
• Upplýsingaskylda söluaðila nýrra bifreiða
Lögleiddar verða reglur um að söluaðilum nýrra bifreiða sé skylt að veita væntanlegum kaupendum með samræmdum hætti upplýsingar um eldsneytisnotkun nýrra bifreiða sem boðnar eru til sölu.

• Takmörkun á notkun lífrænna leysiefna við vegagerð
Til þess að minnka útstreymi rokgjarnra lífrænna efna verður Vegagerð ríkisins falið að leita hagkvæmra leiða til að draga úr leysiefnanotkun og minnka mengun af völdum lífrænna leysiefna við gerð vega.

C Iðnaður
Ríkisstjórnin hefur falið iðnaðarráðuneytinu að hrinda stefnumiðum ríkisstjórnarinnar vegna útstreymis gróðurhúsalofttegunda frá iðnaði í framkvæmd, í samráði við umhverfisráðuneytið. Helstu markmið ríkisstjórnarinnar eru að efla orkusparnað og auka notkun hreinna orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis, og að takmarka útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá iðnaði svo það verði ekki meira árið 2000 en það var árið 1990. Það er skoðun ríkisstjórnarinnar að þess skuli gætt að þetta markmið komi ekki í veg fyrir að hinar hreinu orkulindir landsins verði nýttar t.d. í nýjum stóriðjufyrirtækjum, jafnvel þótt fyrirtækin stundi starfsemi sem óhjákvæmilega felur í sér aukið útstreymi koltvíoxíðs eða annarra gróðurhúsalofttegunda vegna iðnaðarferla. Í framkvæmdaáætluninni verður lögð áhersla á eftirfarandi þætti:
• Orkusparnaðarátak í iðnaði
Sett verður af stað eldsneytis- og orkusparnaðarátak í iðnfyrirtækjum. Sérstök áhersla verður lögð á að koma í veg fyrir orkusóun og draga úr notkun jarðefnaeldsneytis.
• Aukin áhersla á vatnsafl og jarðvarma
Stuðlað verður enn frekar að notkun jarðvarma og raforku úr vatnsafli, í stað jarðefnaeldsneytis, á sem flestum sviðum. Stuðlað verður að áframhaldandi rafvæðingu katla í iðnaði þar sem það er hagkvæmt. Leitað verður leiða til þess að gera raforkuverð til iðnaðar samkeppnisfært við olíu á sem flestum sviðum.
• Dregið úr útstreymi frá iðnaðarferlum
Gerð verður úttekt á möguleikum til þess að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá iðnaðarferlum og notkun hráefna í iðnaði. Kannaðir verða möguleikar á að nýta viðarafganga, viðarkurl eða viðarkol í auknum mæli sem kolefnisgjafa í járnblendiverksmiðjunni.

D Landbúnaður (landnýting, landgræðsla og skógrækt)
Ríkisstjórnin hefur falið landbúnaðarráðuneytinu að sjá um að gera sérstakar landgræðslu- og skógræktaráætlanir í samvinnu við umhverfisráðuneytið. Meginmarkmið með þeim verði að stöðva hraðfara jarðvegs- og gróðureyðingu í landinu fyrir næstu aldamót og vinna aftur sem mest af því sem tapast hefur af gróðri landsins. Til viðbótar verður stefnt að því að auka árlega bindingu koltvíoxíðs í lúpínu, skógi og öðrum gróðri þannig að hún verði a.m.k. 100 þúsund tonnum meiri árið 2000 en hún var árið 1990. Lögð verður áhersla á eftirfarandi þætti í áætluninni:
• Landgræðsluáætlun
Gerð verður sérstök landgræðsluáætlun fyrir allt landið og verður fyrstu útgáfu hennar lokið eigi síðar en árið 1996. Meginmarkmið áætlunarinnar verður að stöðva hraðfara jarðvegs- og gróðureyðingu í landinu fyrir næstu aldamót og vinna aftur sem mest af því sem tapast hefur af gróðri landsins, í samræmi við stefnumið ríkisstjórnarinnar. Leitað verður leiða til þess að koma á öflugu samstarfi við bændur og aðra hagsmunaaðila við þessi verkefni.
• Skógræktaráætlun
Að teknu tilliti til heildarskipulags fyrir landnýtingu á Íslandi, sem fyrr var getið, og landgræðsluáætlunar verði jafnframt unnin sérstök skógræktaráætlun. Stefnt verður að því að efla skógrækt um allt land svo að um aldamótin verði plantað fjórfalt fleiri trjáplöntum á ári en gert var 1990. Jafnframt verði markvisst unnið að því að draga úr þéttleika plöntunar, í samræmi við ráðleggingar Skógræktar ríkisins. Áhersla verði lögð á að gera landeigendum á svæðum sem til þess henta kleift að hefja nytjaskógrækt, m.a. með styrkjum til gróðursetningar í nýja skógræktarreiti
• Verkefni vegna bindingar koltvíoxíðs í lífmassa
Ríkisstofnunum á sviði landgræðslu og skógræktar verði falið að samræma og stýra aðgerðum, í landgræðslu- og skógræktaráætlun og með öðrum aðgerðum ef þörf krefur, til að auka árlega bindingu koltvíoxíðs í gróðri á sem hagkvæmastan hátt um 100 þúsund tonn fyrir lok aldarinnar. Markmiðið verði að standa við skuldbindingar rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar um aldamótin og efla upptöku koltvíoxíðs og bæta gróðurfar í landinu til lengri tíma. Sérstök áhersla verði lögð á arðsamar framkvæmdir, m.a. plöntun nytjaskóga og stöðvun land- og jarðvegseyðingar.

E Sorphirðu- og úrgangsmál
Ríkisstjórnin hefur falið umhverfisráðuneytinu að framfylgja stefnu sinni í sorphirðu- og úrgangsmálum og stuðla að því að dregið verði eins og kostur er úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda og annarra mengunarefna frá sorpförgun. Lögð verður áhersla á eftirfarandi þætti:
• Minna sorp
Markvisst verður stefnt að því að draga úr umbúðamagni, efla endurvinnslu og auka jarðgerð sorps með það að markmiði að draga úr sorpförgun um 50% fyrir næstu aldamót. Unnin verður sérstök "sorphirðuáætlun" fyrir allt landið, til þess að ná settu marki. Við gerð hennar verður sérstaklega hugað að notkun hagstjórnartækja til að efla endurvinnslu og jarðgerð úrgangs og draga úr sorpmagni.
• Brennsla metans
Könnuð verði myndun metangass í sorphaugum höfuðborgarsvæðisins í Álfsnesi og kannaðar leiðir til nýtingar eða eyðingar þess.

• Opinni brennslu sorps hætt
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að allri opinni brennslu sorps á landinu skuli hætt fyrir 1. janúar 1996.

7.1.4 Eftirlit með aðgerðum vegna rammasamnings
Mikilvægur þáttur fyrirliggjandi framkvæmdaáætlunar er eftirlit með framgangi verkefna, til þess að unnt sé að endurskoða og endurskipuleggja aðgerðir til að uppfylla skuldbindingar rammasamningsins. Af þessum sökum hefur ríkisstjórnin ákveðið að koma á eftirliti með framgangi einstakra verkefna og aðgerða í fyrirliggjandi framkvæmdaáætlun vegna gróðurhúsaáhrifa. Eftirlitið felst m.a. í eftirfarandi þáttum.
Á vegum umhverfisráðuneytisins verður á hverju ári unnið útstreymisbókhald til að fylgjast með þróun útstreymis gróðurhúsalofttegunda frá öllum uppsprettum af manna völdum, og til að meta upptöku koltvíoxíðs í lífmassa. Auk þess verður haft eftirlit með gangi einstakra stefnu-miða, aðgerða og verkefna í áætluninni, og lagt mat á áhrif þeirra á útstreymi eða bindingu gróðurhúsalofttegunda. Jafnframt verða spár um útstreymi árið 2000 endurskoðaðar á hverju ári.
Umhverfisráðuneytið mun síðan í samvinnu við hlutaðeigandi ráðuneyti og stofnanir yfirfara fyrri stefnumið og aðgerðir úr framkvæmdaáætluninni, og endurskoða áætlunina. Ef þurfa þykir verða ákveðin verkefni efld eða ný tekin upp. Þannig verður markvisst stefnt að því að uppfylla skuldbindingar rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, svo að útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2000 verði ekki meira en það var árið 1990.

7.1.5 Rannsóknir og vöktun
Ríkisstjórnin hyggst efla rannsóknir og vöktun á Íslandi til að auka þekkingu á áhrifum loftslagsbreytinga á Íslandi og til þess að leggja grunn að aðgerðum til að draga úr skaðsemi þeirra breytinga sem búist er við. Helstu rannsókna- og vöktunarþættir, sem ríkisstjórnin leggur áherslu á, eru: Veðurfarsrannsóknir, vöktun andrúmslofts, hafrannsóknir, könnun á áhrifum sjávarborðshækkunar á Íslandi, og rannsóknir á sviði landgræðslu og skógræktar.
A Veðurfarsrannsóknir og vöktun andrúmslofts

Ríkisstjórninni er ljóst að lífsskilyrði á Íslandi og atvinnuhættir eru afar viðkvæm fyrir breytingum á veðurfari. Af þessum sökum hyggst ríkisstjórnin styðja og efla rannsóknir á veðurfari landsins og veðurfarsbreytingum í landinu, sem og vöktun andrúmslofts með tilliti til gróðurhúsalofttegunda. Jafnframt verði markvisst fylgst með erlendum rannsóknum á veðurfarslíkönum og niðurstöðum þeirra um líklegar veðurfarsbreytingar vegna gróðurhúsaáhrifa, og stuðlað að þátttöku íslenskra vísindamanna í alþjóðlegu samstarfi á þeim vettvangi. Þannig verði tryggt að ávalt sé til staðar þekking í landinu á eðli og áhrifum loftslagsbreytinga á Íslandi.
B Hafrannsóknir og könnun á áhrifum sjávarborðshækkunar

Hagsæld á Íslandi byggist að verulegu leyti á fiskveiðum og vinnslu sjávarafurða. Ríkisstjórnin hyggst af þeim sökum efla rannsóknir á áhrifum hugsanlegra loftslagsbreytinga á samskipti lofts og sjávar, hafstrauma og lífsskilyrði í sjó. Þannig verði aukin þekking manna á hugsanlegum áhrifum á framleiðslugetu íslenskra hafsvæða, útbreiðslusvæði nytjafiska, hrygningarstöðvar og leiðir fiskigangna.
Jafnframt verði gerð athugun á hugsanlegum afleiðingum sjávarborðshækkunar á Íslandi og kannaðar leiðir til þess að draga úr skaðsemi hennar. Sérstaklega verði hugað að flóðahættu í sjávarplássum víða um landið og möguleikum til aðlögunar eða mótvægis gegn aukinni flóðahættu.
C Rannsóknir á sviði landgræðslu og skógræktar
Landgræðsla og skógrækt á Íslandi eru ekki aðeins mikilvægar til þess að hamla gegn landeyðingu og bæta lífsskilyrði í landinu. Þær eru líka meðal þeirra leiða sem lögð er áhersla á til að efla bindingu koltvíoxíðs í lífmassa og vinna þannig gegn auknum styrk koltvíoxíðs í lofti, með það fyrir augum að hamla gegn auknum gróðurhúsaáhrifum. Af þessum sökum hyggst ríkisstjórnin efla landgræðslu- og skógræktarstarf í landinu, með auknum rannsóknum á kolefnishringrás í jarðvegi og gróðri á Íslandi, með áherslu á þá þætti, sem ráða hraða uppsöfnunar og losunar kolefnis í jarðvegi og plöntum. Einnig verði áhrif landgræðslu- og skógræktaraðgerða á hraða uppsöfnunar á lífrænu efni könnuð til að leggja grundvöll fyrir áætlanagerð og auka hagkvæmni aðgerða við að auka bindingu koltvíoxíðs í lífmassa. Loks verði efldar rannsóknir á umfangi og hraða jarðvegs- og gróðureyðingar með tilliti til taps á kolefni jarðvegsins og m.t.t. tapaðrar getu íslenskra gróðurlenda til að binda CO2.

7.2 Útstreymi ýmissa loftteguna á Íslandi
Loftmengun er óvíða minni í hinum iðnvæddu löndum en á Íslandi. Kemur þar margt til: Landið er fámennt og strjálbýlt, það er langt frá helstu iðnaðarsvæðum Evrópu og Norður-Ameríku og tíðir vindar ná oftast að dreifa staðbundinni loftmengun í þéttbýli áður en hún nær að verða sýnileg. Þá er hlutfall hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa af heildarorkunotkun hvergi hærra á meðal ríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).
Hér eru birtar töflur um útstreymi nokkurra lofttegunda á Íslandi 1990-1995: koltvíoxíðs (CO2) , köfnunarefnisoxíða (NOx) brennisteinstvíoxíðs (SO2) og blýs. Losun koltvíoxíðs veldur langmestu um gróðurhúsaáhrif af völdum Íslendinga, jafnt sem á heimsvísu. Hinar ofantöldu lofttegundirnar valda litlum eða engum gróðurhúsaáhrifum, en séu þær í of miklu magni geta þær verið skaðlegar heilsu manna og öðru lífríki. Einnig er hér fjallað um útstreymi fleiri lofttegunda í þessum kafla, þó að nákvæmt yfirlit um árlega losun þeirra sé ekki birt.

7.2.1 Útstreymi koltvíoxíðs
Koltvíoxíð (CO2) er náttúrleg lofttegund í andrúmsloftinu og má segja að koltvíoxíð sé ein helsta undirstaða lífs á jörðinni, þar sem plöntur vinna lífræn kolefnissambönd úr því og það á einnig stærstan þátt í náttúrlegum gróðurhúsaáhrifum, sem valda því að hitastig hér á jörðinni er yfir 30˚C hærra en ella væri. Aukning koltvíoxíðs í andrúmsloftinu af manna völdum og aukin gróðurhúsaáhrif af þeim sökum valda hins vegar áhyggjum.
Samkvæmt rammasáttmála Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar skulu aðildarríki sáttmálans leitast við að takmarka útblástur gróðurhúsalofttegunda þannig að hann verði ekki meiri árið 2000 en hann var árið 1990. Þrátt fyrir þetta markmið er talið að ríki heims hafi samanlagt losað 12% meira koltvíoxíð árið 1995 en viðmiðunarárið 1990.


Árið 1995 var áætlað heildarútstreymi koltvíoxíðs af manna völdum á Íslandi 2.282 þús. tonn. Það var um 135 þús. tonnum meira en viðmiðunarárið 1990, sem er aukning um 6,3%. Aukningin miðað við fólksfjölda á tímabilinu 1990-1995 var um 1,5%.
Stærstur hluti útstreymis koltvíoxíðs á Íslandi er tilkominn vegna brennslu innflutts jarðefnaeldsneytis, eða um 77,7% af heildarútstreyminu árið 1995. Afgangurinn var að mestu tilkominn vegna ýmissa iðnaðarferla, en hlutur þeirra nam um 18,6% af heildarútstreymi.

1. tafla. Útstreymi koltvíoxíðs á Íslandi á árunum 1990 og 1995 flokkað eftir uppsprettum.

Uppspretta 1990 1995

Fiskiskip 655 772
Önnur skip 59 37
Vegasamgöngur 630 682
Önnur eldsneytisbrennsla 330 282
Jarðvarmavirkjanir 79 79
Járn- og stáliðnaður 203 238
Önnur iðnaðarferli 186 187

Ef CO2-útstreymi vegna eldsneytisbrennslu er flokkað nánar eftir uppsprettum (sbr. 1. töflu) kemur í ljós að stærstur hlutinn er vegna eldsneytisbrennslu fiskiskipaflotans (um 772 þús. tonn árið 1995, eða um 33,8% af heildarútstreymi) og vegna vegasamgangna (682 þús. tonn árið 1995, eða um 29,9% af heildarútstreymi). Hlutur eldsneytisbrennslu í iðnaði af heildarútstreymi CO2 var 9,3%, hlutur eldsneytisbrennslu skipa annarra en fiskiskipa var 1,6% og hlutur eldsneytisbrennslu vegna húshitunar og sundlauga var einnig um 1,6%.
Ef hlutur einstakra liða árið 1995 er borinn saman við árið 1990 kemur í ljós að koltvíoxíðsbrennsla fiskiskipaflotans hefur aukist um 17,9% á tímabilinu. Hluti af skýringunni á þessari aukningu er líklega auknar úthafsveiðar Íslendinga. Útstreymi vegna vegasamgangna jókst á sama tíma um 8,3% og útstreymi vegna iðnaðarferla um 9,0%. Á hinn bóginn varð samdráttur í útstreymi koltvíoxíðs vegna eldsneytisbrennslu í iðnaði (um 12,8%), eldsneytisbrennslu skipa annarra en fiskiskipa (um 37,3%) og eldsneytisbrennslu vegna húshitunar (um 14,0%).
Útstreymi CO2 á mann á Íslandi var um 8,6 tonn árið 1990, sem var nokkru minna en að meðaltali í ríkum OECD, þar sem það var um 12,0 tonn/íbúa.

7.2.2 Útstreymi metans og annarra gróðurhúsalofttegunda
Koltvíoxíð er ekki eina lofttegundin sem veldur gróðurhúsaáhrifum, þó CO2 sé stærsti þátturinn í gróðurhúsaáhrifum af manna völdum, þar sem meira er dælt af því út í andrúmsloftið en af nokkurri annarri lofttegund. Meðal annarra gróðurhúsalofttegunda eru metan (CH4), tvíköfnunarefnisoxíð (N2O) og ýmis flúor- og klórkolefnissambönd.
Þessar lofttegundir valda mismiklum gróðurhúsaáhrifum miðað við magn útstreymis og venjan er að umreikna áhrifin yfir í ígildi koltvíoxíðs. Þannig myndi 100 tonna útblástur af lofttegund A með 50-falda gróðurhúsavirkni koltvíoxíðs verða umreiknaður sem ígildi 5.000 tonna af koltvíoxíði.
Langmestan hluta gróðurhúsaáhrifa af manna völdum á Íslandi má rekja til koltvíoxíðs, eða rúmlega þrjá fjórðu hluta. Þar á eftir koma metan (9%), flúorsambönd (8%) og tvíköfnunarefnisoxíð (5%).
Metanútstreymi á Íslandi var áætlað 23.000 tonn árið 1990 sem er ígildi yfir 250.000 tonna af koltvíoxíði, hvað gróðurhúsaáhrif varðar. Metan á sér einkum tvær uppsprettur á Íslandi, á sorpurðunarstöðum og í iðrum búpenings. Metanútstreymi skiptist nokkurn veginn jafnt á milli búpenings og sorphauga, en um 5% koma frá búfjáráburði og eldsneytisbrennslu. Aukin endurvinnsla úrgangs, einkum úrgangstimburs og pappírs, hefur valdið því að metanútstreymi frá sorphaugum hefur minnkað og heildarútstreymi metans er talið hafa minnkað um 10% frá 1990.
Útstreymi flúorsambanda, einkum tetraflúorkolefnis (CF4) var áætlað um 45 tonn árið 1990, sem samsvarar um 210.000 tonnum af koltvíoxíði. Flúorsambönd koma að langmestu leyti frá álverinu í Straumsvík.
Útstreymi tvíköfnunarefnisoxíðs (hláturgas, glaðloft) var áætlað um 550 tonn árið 1990, sem jafngildir um 150.000 tonnum af CO2 hvað gróðurhúsaáhrif varðar. Nær 90% af útstreymi tvíköfnunarefnisoxíðs var talið koma frá tilbúnum áburði og húsdýraáburði.

7.2.3 Útstreymi köfnunarefnis- og brennisteinsoxíða
Köfnunarefnisoxíð (NOx) og brennisteinstvíoxíð (SO2) verða einkum til við brennslu jarðefnaeldsneytis. Þar sem þessum lofttegundum er dælt í miklu magni út í andrúmsloftið eiga þær þátt í myndun súrrar úrkomu og mengunarþoku (smog) í stórborgum og á iðnaðarsvæðum. Köfnunarefnisoxíð eiga lítinn þátt í gróðurhúsaáhrifum, en eru þó talin hafa einhver óbein áhrif til hlýnunar lofthjúpsins. Hér á landi telst súr úrkoma ekki vandamál og íslenskur jarðvegur er að auki basískari en víðast í nágrannalöndum okkar. Íslendingar verða einkum varir við NOx og SO2 í andrúmsloftinu þegar suðlægir vindar bera hingað mengað loft frá iðnaðarsvæðum í Evrópu (og í einhverjum mæli frá Norður-Ameríku).


Hérlendis var útstreymi köfnunarefnisoxíða (einkum köfnunarefnistvíoxíðs (NO2)) áætlað 22.820 tonn árið 1995. Útblásturinn hafði aukist um 2.230 tonn frá árinu 1990 eða um 10,8%. Nær allt útstreymi köfnunarefnisoxíða var vegna brennslu jarðefnaeldsneytis og munar þar mestu um eldsneytisbrennslu fiskiskipaflotans, sem var uppspretta um 77,8% NOx-útstreymis á Íslandi árið 1995. Útstreymi á mann var 105,4 kg árið 1990, meira en í nokkru öðru ríki OECD, þar sem útstreymi var að meðaltali 44,7 kg/íbúa. Þetta skýrist með því að fiskiskipafloti okkar er mun stærri en í öðrum ríkjum.



Árið 1990 var útstreymi brennisteinstvíoxíðs á Íslandi áætlað um 8.220 tonn, en árið 1995 var það um 8.110 tonn. Þetta jafngildir samdrætti um 1,3%. Meira en tveir þriðju hlutar af útstreyminu, eða 67,3%, voru raktir til brennslu eldsneytis (einkum gasolíu og svartolíu í iðnaði og samgöngum), en tæpur þriðjungur til iðnaðarferla, einkum málmbræðslu. Útstreymi SO2 á mann var 25,8 kg árið 1990, eða um helmingi minna en að meðaltali í löndum OECD, þar sem útstreymi var 49,4 kg/íbúa.

7.2.4 Útstreymi blýs
Heilsuspillandi loftmengun á Íslandi er minni en víðast hvar í nágrannalöndunum, eins og áður segir. Eitt þeirra efna sem menn hafa haft hvað mestar áhyggjur af í því sambandi er blý, enda er talið að mikið magn blýs í andrúmslofti geti m.a. valdið greindarskorti í börnum.
Mjög mikið hefur dregið úr blýmengun síðan blýmagn í bensíni var minnkað og enn frekar eftir að sala á blýlausu bensíni hófst á Íslandi árið 1988. Útblástur blýs var áætlaður um 13 tonn árið 1990, en einungis um 4 tonn 1995. Þetta er minnkun um rúma tvo þriðju hluta á fimm ára tímabili. Þessi samdráttur í blýmengun væri enn meira áberandi ef samanburðurinn næði nokkrum árum lengra aftur í tímann. Í þessu sambandi má geta þess að mælt blýmagn í lofti í Reykjavík minnkaði um þrjá fjórðu hluta á árunum 1986 til 1989, skv. tölum frá Hollustuvernd ríkisins.
Skýringarinnar er fyrst og fremst að leita í aukinni notkun blýlauss bensíns. Árið 1990 var hlutdeild blýlauss bensíns í heildarbensínnotkun Íslendinga 52,5%, en árið 1995 hafði hún aukist í 86,7%.

7.2.5 Útstreymi annarra mengunarefna í lofti
Útstreymi kolmónoxíðs (CO) var áætluð rúm 26.000 tonn árið 1990, en það myndast einkum við ófullkominn bruna eldsneytis, s.s. í bílum í lausagangi.
Útstreymi rokgjarnra lífrænna efna annarra en metans var áætlað tæp 6 þúsund tonn árið 1990 og eru tæpir tveir þriðju hlutar útstreymisins vegna samgangna, en rúmur þriðjungur rakinn til málningar og leysiefna, lagningar vegaklæðningar o.s.frv.
Svifryk í andrúmslofti hefur verið mælt við Miklatorg í Reykjavík og reynst vera 23–35 µg/m3, samanborið við 7–8 µg/m3 í dreifbýli á Íslandi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum