Hoppa yfir valmynd
7. júlí 1998 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Verkefnaskrá umhverfisráðuneytisins 1996-1999

Verkefnaskrá umhverfisráðuneytisins 1996-1999


Í upphafi kjörtímabilsins gaf Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra út Verkefnaskrá umhverfisráðuneytis 1996-1999. Þar er að finna mörg helstu stefnumál ráðherrans. Texti verkefnaskrárinnar fer hér á eftir.

Inngangur

Hreint umhverfi er auðlind sem verður æ verðmætari. Sjálfbær nýting náttúruauðlinda og sjálfbær
efnahagsþróun mun stuðla að góðum lífsskilyrðum fyrir komandi kynslóðir. Það er því mikilvægt fyrir Íslendinga að nýta auðlindir sínar af fyrirhyggju og vernda náttúruperlur sínar og lítt mengað umhverfi - og sjá til þess um leið að landið og afurðir þess hafi ímynd hreinleika og hollustu. Helstu atvinnugreinar og vaxtarbroddar íslensks atvinnulífs eiga mikið undir því að það takist. Með skipulagðri náttúruvernd og úrbótum í sorphirðu, endurnýtingu úrgangs og aðgerðum í fráveitumálum er stefnt að því að Ísland geti við upphaf nýrrar aldar verið í fararbroddi ríkja heims hvað varðar umhverfisvernd og sjálfbæra þróun.

Markmið, áherslur og leiðir

Helstu markmið í umhverfismálum á kjörtímabilinu eru:

• að vernda náttúru landsins á þann hátt að fólki gefist kostur á að njóta hennar;
• að vinna að endurheimt náttúrugæða;
• að draga úr mengun og áhrifum framkvæmda á náttúrulegt umhverfi;
• að stuðla að skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda, draga úr sóun og auka endurnýtingu;
• að taka aukinn þátt í lausn hnattrænna vandamála;
• að efla umhverfisvöktun og styrkja varnir gegn náttúruvá.


Aukin meðvitund almennings og virk þátttaka einstaklinga og fyrirtækja í umhverfisvernd eru
grundvallaratriði til að ná fram þessum markmiðum á sem hagkvæmastan hátt. Aðgerðir stjórnvalda í umhverfismálum munu stuðla að því að svo megi verða.

Lögð verður áhersla á að nota hagræn stjórntæki þar sem þess er kostur til að ná fram ofangreindum
markmiðum. Áhersla verður lögð á aukna fræðslu um umhverfismál, innan og utan skólakerfisins.

Stefnt er að víðtækri samstöðu með sveitarfélögum og samtökum einstaklinga og fyrirtækja um
framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi til næstu aldamóta. Meginreglur umhverfisréttar verða lögfestar.

Í samvinnu við önnur ráðuneyti verður kannað hvernig ráðuneyti og stofnanir ríkisins geta gengið á undan
með góðu fordæmi í umhverfismálum með því að auka nýtni og taka tillit til sjónarmiða umhverfisverndar í daglegum rekstri sínum. Mótuð verður umhverfisstefna í ríkisrekstri.

Náttúruvernd

Aukinn ferðamannastraumur og vaxandi áhugi á útivist krefjast nýrra viðhorfa. Lögð verður áhersla á að ferðaþjónusta, útivist og náttúruvernd styðji hvert annað. Mikilvægt er að almenn sátt náist um framkvæmd náttúruverndar og að unnið sé að þeim málum í samvinnu við landeigendur og aðra sem nýta náttúruauðlindir. Ábyrgð heimamanna á framkvæmd náttúruverndar verður aukin í því skyni að virkja áhuga almennings á sviði umhverfismála enn frekar.

Í kjölfar breytinga á stjórnskipulagi náttúruverndarmála verða efnisþættir laga um náttúruvernd endurskoðaðir og m.a. lögð áhersla á að skilgreina rétt almennings til að njóta náttúru landsins og ábyrgð þeirra sem valda skaða á náttúrunni. Reglur um almenna nýtingu náttúrunnar verða gerðar skýrar. Settar verða skýrar reglur um efnistöku og frágang náma.

Áhersla verður lögð á skipulega skráningu einstakra þátta íslenskrar náttúru sem og kortlagningu þeirra ógna sem að henni steðja. Líffræðileg fjölbreytni verður metin og gerðar áætlanir um verndun og aðgerðir til þess að tryggja varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika og lífvera sem eru í hættu.

Á kjörtímabilinu verður samin langtíma náttúruverndaráætlun sem tekur til alls landsins og verður m.a. byggð á flokkun og skráningu náttúruminja. Áætlunin mun ná til þjóðgarða, friðlanda og annarra friðlýstra svæða, lífvera, lífsvæða, gróðursamfélaga, vistkerfa, jarðmyndana og langslagsforma og -heilda. Unnið verður að endurheimt votlendis, svo og að stofnun þjóðgarðs á utanverðu Snæfellsnesi. Stefnt er að því að ljúka gerð gróðurkorta af landinu öllu á næstu árum.

Lögð verður áhersla á að stöðva hraðfara gróður- og landeyðingu fyrir aldamót og vinna áfram að
uppgræðslu landsins í samstarfi við landbúnaðarráðuneyti.

Umhverfisvöktun og -rannsóknir

Lögð verður áhersla á virka umhverfisvöktun og að koma upplýsingum um ástand umhverfis á aðgengilegan hátt til almennings. Sérstök áhersla verður lögð á að fylgjast með mengun hafsins. Vöktunar- og viðvörunarþjónusta vegna veðurs, snjóflóða, jarðskjálfta, eldgosa, sjávarflóða og annarrar náttúruvár verður efld. Rannsóknir á eðli og orsökum náttúruhamfara verða auknar með það að markmiði að draga úr tjóni af þeirra völdum. Lögð verður áhersla á að efla þátttöku í rannsóknum á loftslagsbreytingum og ósóni í andrúmslofti og afleiðingum breytinga ekki síst vegna landfræðilegrar sérstöðu Íslands og hafstrauma. Starf stofnana ráðuneytisins sem sjá um vistun og miðlun upplýsinga um umhverfismál og tengsl þeirra við atvinnulífið verða efld.

Rannsóknir á sviði umhverfismála, þar á meðal á stofnstærð villtra dýra og fugla og gróðurfari landsins,
verða efldar. Náttúrustofum landshlutanna í tengslum við Náttúrufræðistofnun Íslands verður fjölgað. Stefnt er að því að sett verði upp stofnun um umhverfisrannsóknir á norðurslóðum og unnið að samræmingu á milli þeirra stofnana sem vinna að slíkum rannsóknum í dag.

Hollustuhættir og mengunarvarnir

Lögð verður áhersla á áframhaldandi stuðning við sveitarfélög vegna framkvæmda í fráveitumálum með það
að markmiði að þeim verði komið í viðunandi horf í byrjun næstu aldar. Unnið verður að flokkun viðtakasvæða, vöktun og áætlunargerð í samvinnu við sveitarfélögin.

Stuðlað verður að minni notkun umbúða og aukinni endurnotkun og endurnýtingu úrgangs þannig að endanleg förgun um næstu aldamót verði aðeins helmingur þess sem var árið 1991.

Framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda verður endurskoðuð með það að markmiði að framfylgja alþjóðlegum skuldbindum jafnskjótt og samningar þar um nást á alþjóðavettvangi.

Í samræmi við lög um spilliefnagjald verður lögð áhersla á að uppræta mengun af völdum spilliefna og að meðferð þeirra verði komin í viðunandi horf alls staðar á landinu eigi síðar en á árinu 1998. Unnið verður að því í samráði við sveitarfélög að koma lagi á söfnun brotamálma um land allt.

Unnið verður að frekari samræmingu matvælaeftirlits í landinu. Stefnt verður að lögfestingu frumvarps um vernd nytjavatns. Sett verða ný lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og unnið að heildstæðri löggjöf á sviði sorphirðumála. Reglur um meðferð, merkingar, flutning, eftirlit og skráningu eiturefna og hættulegra efna verða endurskoðaðar.

Fyrirtæki verða hvött til að setja sér stefnu í umhverfismálum, nota hreinni framleiðslutækni og koma á stjórn umhverfismála með innra eftirliti. Gefið verður út fræðslurit handa fyrirtækjum um þetta efni.

Unnið verður að heildarendurskoðun laga um varnir gegn mengun sjávar, m.a. með tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga og aukinnar verndunar hafsins.

Skipulags- og byggingamál

Unnið verður að gerð landsskipulags og svæðisskipulagsáætlana er taki til landsins alls. Lokið verður við svæðisskipulag á miðhálendi Íslands.

Sett verða ný skipulags- og byggingarlög, þar sem m.a. verður kveðið á um flutning á framkvæmd skipulagsáætlana til sveitarfélaga og framkvæmd byggingareftirlits á vegum sveitarfélaga verður styrkt. Sett verður ný byggingarreglugerð og skipulagsreglugerð endurskoðuð.

Lög um mat á umhverfisáhrifum verða endurskoðuð með hliðsjón af fenginni reynslu.

Unnið verður að setningu laga um landmælingar og kortagerð, þar á meðal um Landmælingar Íslands og skyldur ríkisins á þessu sviði.

Umhverfisfræðsla

Þekking á sviði umhverfismála stuðlar að virkri þátttöku almennings, sem er nauðsynleg til að stjórnvöld nái fram markmiðum um mengunarvarnir, náttúruvernd og skynsamlega nýtingu auðlinda. Efld verður fræðsla sem miðar að því að auka skilning á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og hvernig umhverfismál tengjast daglegu lífi og athöfnum, í efnahagslegu, menningarlegu og samfélagslegu tilliti.

Í samvinnu við yfirvöld skólamála verður lögð aukin áhersla á fræðslu um umhverfismál í skólum, ekki síst grunnskólum, þar sem áhersla verður lögð á virðingu fyrir náttúrunni og gildi endurnýtingar í stað sóunar. Í því skyni verður leitast við að bæta kennslugögn um umhverfismál og efla þátt umhverfisfræðslu í kennaramenntun. Unnið verður að því að efla nám í umhverfisfræðum á háskólastigi.

Alþjóðasamstarf

Lögð verður áhersla á að tryggja framgang alþjóðlegrar framkvæmdaáætlunar um vernd hafsins gegn mengun frá landi. Unnið verður að því að gerður verði alþjóðlegur samningur sem stöðvi mengun hafsins af völdum þrávirkra lífrænna efna.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna mun Ísland leggja sérstaka áherslu á sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda hafsins, varnir gegn mengun þess og aukið vægi hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa. Nýr samningur um vernd Norðaustur-Atlantshafsins (OSPAR) verður fullgiltur, svo og alþjóðasamningur um varnir gegn eyðimerkurmyndun.

Ísland mun taka virkan þátt í samningaviðræðum til að styrkja rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og leitast við að stuðla að því að samningurinn taki tillit til sérstöðu landsins, svo sem mikillar notkunar endurnýjanlegra hreinna orkugjafa.

Lögð verður áherslu á eflingu náttúruverndar á norðurslóðum, m.a. með áframhaldandi þátttöku í Norðurskautsráðinu um náttúruvernd og sjálfbæra þróun á norðurslóðum. Þátttaka Íslands í samstarfi Evrópuríkja um umhverfismál, m.a. á vettvangi Evrópsku umhverfisstofnunarinnar, sem og í umhverfisrannsóknum þ.á m. um náttúruvá, verður efld.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum