Hoppa yfir valmynd
11. mars 1999 Dómsmálaráðuneytið

Ársskýrsla samstarfsnefndar samkvæmt lögum um samræmda neyðarsímsvörun nr. 25/1995 fyrir árið 1998

Hlutverk nefndarinnar er að hafa eftirlit með því að neyðarsímsvörun sé á hverjum tíma rekin samkvæmt lögum og reglum sem um hana gilda. Í skýrslunni er greint frá störfum nefndarinnar og úttekt hennar á stöðu samræmdrar neyðarsímsvörunar og samskiptum forsvarsmanna hennar og dómsmálaráðuneytis.

Samstarfsnefnd skv. lögum
um samræmda neyðarsímsvörun nr. 25/1995:



- Ársskýrsla 1998 -
febrúar 1999

Inngangur


Hér með birtist ársskýrsla samstarfsnefndar um samræmda neyðarsímsvörun, sbr. 18. gr. reglugerðar um framkvæmd samræmdrar neyðarsímsvörunar, nr. 57/1996.

Í nefndinni sem skipuð var af dómsmálaráðherra með bréfi dags. 18. febrúar 1998 eiga sæti: Rúnar Guðjónsson sýslumaður, formaður nefndarinnar og Guðmundur H. Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, báðir skipaðir án tilnefningar, Vilborg Ingólfsdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur hjá landlækni, tilnefnd af heilbrigðisráðherra, Ármann Kr. Ólafsson, aðstoðarmaður samgönguráðherra, tilnefndur af samgönguráðherra, Ólafur Proppé, formaður Landsbjargar, tilnefndur af Landsbjörgu, Björn Hafþór Guðmundsson, bæjarstjóri á Egilsstöðum og Guðjón Ingvi Stefánsson, framkvæmdastjóri SSV, báðir tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Guðmundur Jónsson, slökkviliðsmaður hjá Slökkviliði Reykjavíkur, tilnefndur af Landssambandi slökkviliðsmanna og Knútur Halldórsson, slökkviliðsmaður hjá Slökkviliði Reykjavíkur, tilnefndur af Landssambandi sjúkraflutningamanna.

Hlutverk nefndarinnar er að hafa eftirlit með því að neyðarsímsvörun sé á hverjum tíma rekin samkvæmt lögum og reglum sem um hana gilda. Nefndinni ber að huga að þeim atriðum sem nánar er mælt fyrir um í 17. gr. framangreindrar reglugerðar og rakin verða hér á eftir.

Nefndin hefur fylgst með framvindu mála hjá vaktstöð neyðarsímsvörunar, starfsemi stöðvarinnar og því hvernig neyðarverkefnum er sinnt. Framkvæmdastjóri rekstraraðila vaktstöðvar hefur mætt á alla fundi nefndarinnar og greint frá starfseminni, auk þess sem nefndin hefur fylgst með málefnum vaktstöðvarinnar á milli funda.

Í skýrslunni verður greint frá störfum nefndarinnar og úttekt hennar á stöðu samræmdrar neyðarsímsvörunar og samskiptum forsvarsmanna hennar og dómsmálaráðuneytis.

Rekstrarfyrirkomulag og rekstrarform

Eigendur Neyðarlínunnar hf. eru: Ríkislögreglustjóri, Slysavarnafélag Íslands, Landssíminn, Reykjavíkurborg, Securitas hf. og Vari hf. Í júní 1998 var gengið frá samkomulagi um sameiginlegan rekstur Vara hf. og Sívaka hf. á Neyðarlínunni hf. Þar með urðu eignaraðilar 6 í stað 7 áður. Eftir að hlutafélagið ákvað á árinu 1998 að tvöfalda hlutaféð í félaginu, voru eignarhlutar hluthafa þannig um síðastliðin áramót, að ríkislögreglustjóri, Slysavarnarfélag Íslands, Reykjavíkurborg og Securitas áttu tveggja milljón króna hlut hver aðili, Landssíminn átti einnar milljón króna hlut og Vari átti fjögurra milljóna króna hlut. Einnar milljón króna hlutur var óseldur.

Fjárhagur rekstaraðila vaktstöðvar hefur verið erfiður á árinu og tap varð á rekstrinum þrátt fyrir 25 % hækkun þjónustugjalda hjá öryggisfyrirtækjum, sem vaktstöðin þjónar. Ein af þeim ástæðum sem taldar eru hafa leitt til tapsins er sú að þjónusta vaktstöðvar við neyðarsveitir er meiri en samningurinn við dómsmálaráðuneytið gerir ráð fyrir. Auk þess að auka hlutafé félagsins til að treysta fjárhaginn, hefur verið unnið að því að útvega ný verkefni fyrir vaktstöðina. Má þar nefna símsvörun fyrir ríkislögreglustjóra og nokkur lögregluembætti eftir lokun skiptiborðs eða opnunartíma viðkomandi embættis, símsvörun úr Hvalfjarðargöngum og útkallsþjónustu fyrir Landsvirkjun á Sultartanga. Þá eru viðræður í gangi um ný verkefni, m.a. við ÍSAL og Félag sumarbústaðaeigenda. Gengið hefur verið frá framlengingu á gildandi rekstrarsamningi Neyðarlínunnar hf. við dómsmálaráðuneytið úr 8 árum í 12 ár.

Varðandi fjarskiptamálin er vert að geta þess að margir aðilar eru nú að velta því fyrir sér að taka upp stafrænt talstöðvakerfi, svonefnt TETRA - farstöðvarkerfi, en það gefur möguleika á betri og fjölbreyttari samskiptum. Kerfið býður upp á þann möguleika að hafa lokaðar rásir fyrir sérstaka hópa t.d. lögreglu, en getur tengt ólíka hópa saman ef svo ber undir. Landssíminn mun vera reiðubúinn að kanna þetta mál, en vill tryggja þátttöku lágmarksfjölda viðskiptaaðila áður en ráðist verður í verkefnið. Fyrirhugað er að af þessu geti orðið í lok ársins 1999 eða byrjun ársins 2000. Mun fyrirhugað að byrja á stór-Reykjavíkursvæðinu, en tengja síðan allt landið.
Á árinu hafa staðið yfir tilraunir með að nota SMS (smáskilaboða) kerfi Landssímans til að kalla neyðarsveitir út. Slökkvilið Reykjavíkur hefur keypt farsíma fyrir útköll sjúkrabíla og hafa þær tilraunir gefið góða raun. Vandamálið er að umferðin á SMS kerfinu hefur aukist það mikið að nauðsynlegt er að gera ákveðnar breytingar á því til að það nýtist sem best við útköll neyðarsveita. Neyðarlínan hefur verið í viðræðum við Landssímann um þetta og hefur verið lofað ákveðnum úrbótum. Aðalkrafa Neyðarlínunnar er að neyðarsveitir verði settar í hæsta forgang í kerfinu, en aðrir notendur settir í lægri forgang.

Viðræður hafa verið í gangi milli rekstraraðila vaktstöðvar og Almannavarna ríkisins um gerð viðbragðsáætlunar hjá vaktstöð í almannavarnaástandi. Viðræðurnar hafa enn ekki leitt til endanlegrar niðurstöðu, en þess er að vænta að lausn finnist innan skamms. Miklar vonir eru bundnar við slíka viðbragðsáætlun af hálfu vaktstöðvar.

Snemma á árinu gerðist það að símhringingar til vaktstöðvar duttu út um tíma vegna bilunar í símstöðvum Landssímans á höfuðborgarsvæðinu. Af hálfu rekstraraðila vaktstöðvar var brugðist hart við þessu atviki og vonandi verður tryggt að neyðarnúmerið 1-1-2 detti ekki út í framtíðinni þótt rafmagn fari af borginni. Má í þessu sambandi nefna að síðla árs datt símstöð Landssímans í Múlastöð aftur út um tíma, en það kom ekki niður á neyðarnúmerinu 1-1-2 þar sem varaleiðir til vaktstöðvarinnar í símakerfinu voru virkar.

Ekki hefur enn verið gengið frá samningi við neyðarsveit um að taka að sér hlutverk varavaktstöðvar í neyð. Viðræður hafa verið í gangi við lögregluna á Akureyri um það, en ennþá stendur á að útfæra ákveðna tæknilega hluti til þess að af þessu geti orðið. Vonir standa til að úr rætist innan skamms.

Símstöðin í vaktstöðinni var uppfærð á árinu. Þannig birtir stöðin nú óskráð númer, en slíkt var ekki unnt fyrir uppfærsluna. Gildir þetta fyrir allt landið.


Hvernig neyðarverkefnum er sinnt

Starfsfólk Neyðarlínunnar hf. telur nú 20 manns, þ.e. 17 neyðarsímaverði og 3 skrifstofumenn. Auk þess er á hverri vakt einn slökkviliðsmaður frá slökkviliði Reykjavíkur.

Innhringingar til varðstofu voru 179.564 á árinu. 129.596 var svarað, en í 49.968 tilfella slitnaði samband áður en náðist að svara. 55% innhringinga reyndust frá Reykjavík og Seltjarnarnesi og 73% af stór-Reykjavíkursvæðinu. Varðandi flokkun útkalla, var óskað aðstoðar lögreglu í 21% tilvika, slökkviliðs í 2% tilvika, almenns sjúkraflutnings í 4% tilvika, svo að dæmi séu tekin, en um þessa flokkun er að öðru leyti vísað til meðfylgjandi ársskýrslu Neyðarlínunnar hf.

Fræðslumyndir, sem rekstraraðili vaktstöðvar lét gera í samvinnu við Rauða kross Íslands og Slysavarnarfélag Íslands til kynningar á starfsemi sinni og til að uppfræða fólk um rétt viðbrögð við ýmiss konar vá voru sýndar á báðum sjónvarpsstöðvunum sumarið 1998 og þóttu þær vel gerðar. Til stendur að sýna þær á nýjan leik innan skamms.

Engar stórvægilegar breytingar hafa orðið á tækjabúnaði vaktstöðvar á árinu. Þó hefur hann verið yfirfarinn með tilliti til rekstrarlegs öryggis.

Í febrúar var tekið í notkun flettikortakerfi það sem minnst var á í síðustu ársskýrslu nefndarinnar, svonefnt EMD kerfi, bandarískt að uppruna. Það byggir á því að verklag eða verkferlar eru fyrirfram ákveðin þegar tilkynning berst í gegnum neyðarnúmerið um slys eða veikindi. Haldið er áfram þjálfun starfsmanna í meðferð flettikortanna, enda virðist hér vera um ágætt hjálpargagn að ræða við að forgangsraða í sjúkraflutninga og leiðbeina í gegnum síma meðan beðið er eftir viðeigandi hjálp.

Aukning hefur orðið á því að neyðarsveitir nýti sér þjónustu Neyðarlínunnar hf. Til dæmis hefur svonefndur hringiflutningur (flutningur á öllum símtölum til viðkomandi lögregluembættis) aukist. Fleiri embætti hafa nýtt sér eða óskað eftir þessari þjónustu.

Í desember s.l. bárust nefndinni bréf dómsmálaráðuneytis og bréf iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis þar sem fram kom að Íslenska álfélagið hf. hefði beint kvörtun til iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins vegna óánægju með þjónustu Neyðarlínunnar þegar eldur kom upp í steypuskála ÍSAL 13. nóvember 1998. Eftir að nefndin hafði aflað gagna frá málsaðilum og farið yfir málið var það niðurstaða hennar að vaktstöðin hefði alfarið farið eftir þeim verklagsreglum sem Slökkvilið Hafnarfjarðar hafði ákveðið um meðferð tilkynninga á þeirra svæði. Það hafði óskað eftir að fá símtöl flutt beint til sín vegna tilkynninga um neyðaratburði sem ættu sér stað í þeirra umdæmi og var það gert í þessu tilviki. Nefndin taldi hins vegar að viðkomandi slökkvilið hefði ekki brugðist rétt við með því að vísa beiðninni frá sér heldur hefði það átt að sækja aðstoð til að sinna þessu útkalli ef það taldi sig ekki sjálft hafa tök á að sinna því vegna starfa annars staðar. Var þetta eina kvörtunin sem nefndinni barst á árinu frá utanaðkomandi aðila.


Þjónusta við öryggisfyrirtæki

Talsverð aukning varð á þjónustu við öryggisfyrirtæki og er þjónusta vaktstöðvar við þau orðin nokkuð áberandi þáttur í starfseminni. Þótt ekki verði séð að þessi þjónusta hafi komið niður á neyðarsímsvöruninni, telur nefndin ástæðu til að fara hér varlega í sakirnar, enda er höfuðviðfangsefni vaktstöðvarinnar samkvæmt lögum að sinna neyðarsímsvörun í landinu. Gæta þarf að því sérstaklega að nægilegur mannafli sé til staðar til að sinna hvoru tveggja af kostgæfni.


Efndir neyðarsveita á lögbundnum skyldum sínum við vaktstöð

Upplýsingar frá neyðarsveitum eru forsenda þess að unnt sé að kalla út rétta aðila á réttan hátt. Þess vegna er það afar þýðingarmikið að neyðarsveitir sinni þessu hlutverki sínu skjótt og vel, verði breytingar á mannahaldi eða útkallskerfi. Þessu hefur verið ábótavant þótt stefni í rétta átt.

Ekki liggja fyrir upplýsingar frá mörgum neyðarsveitum, þótt eftir hafi verið leitað, um fjölda innhringinga beint til þeirra. Þetta hefur þó talsverða þýðingu fyrir áætlanagerð vaktstöðvarinnar. Þótt sumar neyðarsveitir virðist ennþá leggja áherslu á að kynna sín gömlu símanúmer í stað þess að beina athyglinni að neyðarnúmerinu
1-1-2, má einnig koma fram að nú hafa öll lögregluembættin í landinu merkt bifreiðar sínar með neyðarsímanúmerinu 1-1-2.

Vert er að geta þess að 1. desember s.l. stækkaði læknavaktin í Reykjavík þjónustusvæði sitt og nær það nú einnig yfir Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. Læknavaktin hefur tekið upp fjögurra stafa innhringinúmer (1770), en slík númer eru ætluð fyrir sérstaka starfsemi. Læknavaktin mun einnig sinna símsvörun utan dagvinnutíma fyrir nokkur heislugæslusvæði, þar sem aðeins einn læknir er á vakt (H1). Neyðarlínan tekur að sér að símtalsflytja þessi símtöl. Enn á eftir að ganga endanlega frá samningi um þessa þjónustu, s.s. varðandi kostnað.

Starfsfólk Neyðarlínunnar hf. hefur farið í nokkrar heimsóknir til viðbragðsaðila, s.s. lögreglu og slökkviliðs á nokkrum stöðum á landinu. Fleiri slíkar ferðir standa fyrir dyrum.

Viðhorfskönnun var gerð á vegum rekstraraðila vaktstöðvar á árinu, þar sem m.a. var spurt um álit neyðarsveita á gagnsemi neyðarnúmersins 1-1-2. Niðurstöður könnunarinnar voru þessar helstar:

Sterkar hliðar Neyðarlínunnar eru einkum taldar:
· Að um eitt samræmt númer er að ræða fyrir allt landið.
· Fagmennska starfsfólks eykst sífellt vegna sérhæfingar.
· Yfirsýn Neyðarlínunnar yfir hina mismunandi þætti sem upp koma í útköllum.
· Almennt traust gagnvart Neyðarlínunni og framfarir eftir örðugleika í byrjun.
Veikar hliðar koma einkum fram í því að:
· Starfsmenn geta ekki haft næga þekkingu á staðháttum.
· Neyðarlínan er einnig notuð í erindi sem eiga ekkert skylt við neyðarþjónustu.


Niðurlag

Í síðustu ársskýrslu nefndarinnar var vakin athygli á nauðsyn þess að stemma stigu við óheftri tengingu talvéla við neyðarnúmerið 1-1-2. Dómsmálaráðuneytið hefur málið til skoðunar og lét nefndin því í té umsögn sína um það hvar reglur um talvélar skuli helst vera, þ.e. í reglugerð um samræmda neyðarsímsvörun eða í verklagsreglum Neyðarlínunnar. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að banna þurfi tengingu sjálfvirkra talvéla við neyðarnúmerið 1-1-2 með ákvæði í reglugerðinni, nema leyfi rekstraraðila vaktstöðvar væri fyrir hendi.

Eftir að símaþjónusta var gefin frjáls á Íslandi hefur einn aðili auk Landssímans fengið leyfi til að reka símaþjónustu, Tal hf. Sá aðili hefur staðið undir væntingum notenda gagnvart neyðarnúmerinu 1-1-2 og eiga allir notendur því að geta hindrunarlaust hringt í neyðarnúmerið eins og lög standa til.

Unnið er að úttekt á aldamótahæfni vaktstöðvarinnar. Yfir standa prófanir á búnaði stöðvarinnar og er það verk vel á veg komið. Það sem vekur áhyggjur er hæfni utanaðkomandi þjónustuaðila eins og Landssímans, því vaktstöðin er algerlega háð því að fá neyðarsímtölin til sín.

Samkvæmt 18. gr. reglugerðarinnar, um framkvæmd samræmdrar neyðarsímsvörunar, skal í ársskýrslunni gera úttekt á samskiptum forsvarsmanna neyðarsímsvörunar og dómsmálaráðuneytis. Af hálfu nefndarinnar var gerð á þessu könnun og kom fram hjá fulltrúa dómsmálaráðuneytisins, að samskipti þess við framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar hf. hafi verið með ágætum á árinu. Hjá framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar hf. kom fram að samskipti hans við ráðuneytið hefðu verið eins og best verði á kosið. Nefndin hefur einnig átt ágæt samskipti við báða þessa aðila.


Reykjavík í febrúar 1999.
F.h. samstarfsnefndar

___________________________
Rúnar Guðjónsson, formaður


Fylgiskjöl:
Fundargerðir samstarfsnefndar 1998
Ársskýrsla Neyðarlínunnar hf.

Nefndarfundir - fundargerðir

Fundur 1/98 (10. fundur), 12. mars 1998

Mættir: Rúnar Guðjónsson,
Knútur Halldórsson,
Guðmundur Jónsson,
Vilborg Ingólfsdóttir,
Ólafur Proppé.

Gestur: Eiríkur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.


Formaður bauð fundarmenn velkomna, jafnframt því að ganga til dagskrár. Hann óskaði eftir því að Eiríkur Þorbjörnsson ritaði fundargerð.

1. Bréf dómsmálaráðherra um skipun nefndarinnar.

Formaður fór yfir skipunarbréf dómsmálaráðherra til nefndarmanna. Nýir menn í nefndina eru Guðmundur H. Jónsson, tilnefndur af dómsmálaráðherra og Knútur Halldórsson tilnefndur af Landssambandi sjúkraflutningamanna. Formaður bauð þá velkomna til starfa og fór yfir verkefni nefndarinnar samkvæmt reglugerð um samræmda neyðarsímsvörun nr. 570/1996. Í umræðum kom fram ósk um að leitað yrði eftir viðhorfi neyðarsveita til starfsemi Neyðarlínunnar og þeirrar þjónustu sem fyrirtækinu ber að veita.

2. Ársskýrsla nefndarinnar - undirbúningur.

Formaður lagði fram drög að ársskýrslu. Í henni er að finna fundargerðir allra funda á síðasta ári ásamt skýrslu um starfsemi Neyðarlínunnar hf. Eftir er að skrifa inngang formanns. Nokkrar umræður urðu um framsetningu skýslunnar og hvort breyta ætti uppsetningu hennar m.a. með nánari úttekt á starfsemi Neyðarlínunnar. Rætt um viðhorf almennings til neyðarnúmersins og upplýsti Eiríkur fundarmenn um viðhorfskönnun á vegum Neyðarlínunnar á síðasta ári þar sem m.a. kom fram að um 75% landsmanna þekkja neyðarnúmerið 1-1-2. Gert er ráð fyrir að gera aðra sambærilega könnun í maí á þessu ári. Formanni falið að ganga frá drögum að ársskýrslu og senda nefndarmönnun til yfirlestrar.

3. Vaktstöðin – hvað er á döfinni.

Eiríkur Þorbjörnsson gerði grein fyrir störfum Neyðarlínunnar.

Helstu atriðin sem fram komu voru þessi:

· Á síðasta ári voru innhringingar í neyðarnúmerið yfir 170.000. Um 73% hringinga koma frá Stór-Reykjavíkursvæðinu. Mál er tengdust lögreglunni voru um 30%, 4% vegna slökkviliða, 20% vegna sjúkraflutninga og lækna og í 46% tilvika var hringt í vitlaust númer eða símtalið slitið áður en svarað var. Svartími var um 4 sekúndur og meðallengd símtala um 28 sekúndur.

· Misbrestur er á að neyðarsveitir tilkynni til Neyðarlínunnar breytingar á útkallsliði eða símanúmerum. Á sínum tíma var sent bréf til allra neyðarsveita og þeim gerð grein fyrir ábyrgðinni sem á þeim hvílir.

· Í febrúar var tekið í gagnið flettikortakerfi sem kemur frá Pittsburgh í Bandaríkjunum. Kerfið er hannað af læknum, sjúkraflutningamönnum og yfirmönnum neyðarvaktstöðva. Tilgangurinn með kerfinu er að koma á samræmdum vinnureglum um forgangsröðun útkalla sjúkraliðs og samræmdu verklagi við leiðbeiningar í gegnum símann til þeirra sem eru í neyð, eða þangað til sjúkraliðið er komið á staðinn. Út frá innhringingunni metur neyðarsímvörður hvers eðlis atburðurinn er og ákveður forgang útkallsins út frá fyrirfram ákveðnu kerfi. Þegar leiðbeiningar eru gefnar í síma er farið nákvæmlega eftir kortunum og er ekki heimilt að víkja út frá þeim.


    4. Önnur mál.

    GJ óskaði eftir umræðum um ábyrgð Landssímans við að koma neyðarsímtölum til skila. Ástæðan er atvik sem átti sér stað xx. mars s.l. en þá gerðist bilun í símstöðum Landssímans hér á höfuðborgarsvæðinu sem varð til þess að ekki var hægt að hringja í Neyðarlínuna. Bilunin stóð yfir í um 15 mínútur og nefndi GJ tilvik þar sem kona reyndi að hringja í 1-1-2 og komst ekki í samband. Hann lagði til að samráðsnefndin óskaði skýringa á þessu atviki og hvað væri gert til að koma í veg fyrir að slíkt gerðist aftur. EÞ skýrði frá því að strax var haft samband við Landssímann og óskað eftir því að þeir löguðu þessa bilun. Einnig var óskað eftir skýringu á hvers vegna slíkt gæti gerst. Landssíminn gaf strax þau munnlegu svör að hér væri um óvenjulega bilun að ræða, sem hafi orsakað fleiri bilanir í öðrum símstöðvum, sem gerði það að verkum að ekki tókst að koma hringingum til Neyðarlínunnar. Óskað var eftir nánari skýringum og er þeirra beðið. Nefndarmenn voru sammála um að þetta væri mjög alvarlegt mál og yrði að gera allt til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Ákveðið að bíða eftir skýringum Landssímans á þessu atviki áður en næsta skref yrði stigið.

    Fundur 2/98 (11. fundur), 19. maí 1998

    Mættir: Rúnar Guðjónsson,
    Björn H. Guðmundsson,
    Guðjón I. Stefánsson,
    Guðmundur Jónsson,
    Guðmundur H. Jónsson
    Knútur Halldórsson,
    Vilborg Ingólfsdóttir

    Fjarverandi: Ólafur Proppé,
    Ármann Kr. Einarsson

    Gestur: Eiríkur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.


    1. Fundargerð síðasta fundar.

    Fundagerð síðasta fundar var lesin upp og samþykkt.

    2. Ársskýrsla nefndarinnar.

    Formaður lagði fram ársskýrslu nefndarinnar með fylgibréfi. Fundarmenn lýstu ánægju með skýrsluna. Vilborg greindi frá því að hún hefði kynnt skýrsluna fyrir heilbrigðisráðherra. Engar kvartanir lágu fyrir fundinum.

    3. Starfsemi Neyðarlínunnar hf.

    Eiríkur Þorbjörnsson gerði grein fyrir rekstri Neyðarlínunnar þar sem fram kom að enn er erfitt að ná endum saman peningalega, ársreikningur myndi sýna verulegt tap. Vegna þess yrði að afla meiri tekna, þar á meðal frá eigendum.

    Sagði Eiríkur frá þjónustu Neyðarlínunnar við heyrnarlausra og atviki sem upp kom 4. mars 1998 þegar símanúmerið 112 varð sambandslaust í 15 mínútur. Þá ræddi hann frekar um samskiptamál s.s. að koma boðum frá 112 á sem skjótastan hátt í stórri vá.

    Eiríkur sagði frá því að nokkuð væri um að fólk hringdi með ábendingar án þess að um kvartanir á þjónustu Neyðarlínunnr væri að ræða. Var það í framhaldi af fyrirspurn Vilborgar hvort fyrir lægju mál þar sem eitthvað hefði farið úrskeiðis. Knútur spurði hvort fólk, sem kvartaði væri bent á að leita til nefndarinnar ef það hefði athugasemd við störf Neyðarlínunnar. Þessu svaraði Eiríkur á þann veg að ekki væru dæmi um að fólk vildi frekari aðgerðir en koma ábendingum á framfæri.

    4. Önnur mál.

    Í umræðum komu fram vissar áhyggjur varðandi aukna þjónustu Neyðarlínunnar við 3ja aðila, svo sem öryggisgæslufyrirtæki. Þær varða það aðallega að þjónusta og svörun í 112 minnki ekki þó annarskonar verkefni Neyðarlínunnar aukist.



    Fundur 3/98 (12. fundur), 4. september 1998

    Mættir: Rúnar Guðjónsson,
    Guðmundur H. Jónsson
    Knútur Halldórsson,
    Vilborg Ingólfsdóttir

    Fjarverandi: Ármann Kr. Einarsson,
    Björn H. Guðmundsson,
    Guðjón I. Stefánsson,
    Guðmundur Jónsson,
    Ólafur Proppé,

    Gestur: Eiríkur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.



    1. Fundagerð síðasta fundar.

    Formaður nefndarinnar lagði fram dagskrá. Engar kvartanir lágu fyrir fundinum. Fundargerð síðasta fundar var lesin upp og samþykkt..

    2. Starfsemi Neyðarlínunnar hf.

    Eiríkur Þorbjörnsson gerði grein fyrir starfsemi Neyðarlínunnar. Verulegt tap er á rekstrinum en lagðar hafa verið fram tillögur til að snúa þeirri þróun við eða að minnsta kosti koma fjárhagnum réttu megin við núllið. Þær felast m.a. í breyttum samningi við ríkið sem framlengdur er úr átta árum í tólf og viðbótar fjárframlagi. Þjónustugjöld til öryggisgæslufyrirtækja verða hækkuð verulega og munu samningar vera að nást um það.

    Aukin þjónusta Neyðarlínunnar s.s. símsvörun fyrir ríkislögreglustjórann, símsvörun úr Hvalfjarðargöngum og útkallsþjónusta fyrir Landsvirkjum á Sultartanga eru verkefni til að renna traustari stoðum undir fjárhag Neyðarlínunnar. Þá eru viðræður í gangi um verkefni, m.a. við ÍSAL og Félag sumarbústaðaeigenda.

    Eiríkur sagði frá væntanlegri viðveru lögreglumanns í stjórnstöð Neyðarlínunnar jafnframt því sem hann gerði grein fyrir könnun sem gerð var um viðhort almennings til starfsemi Neyðarlínunnar. Það var almennt jákvætt. Þá sagði hann frá kynningarmyndum sem sýndar hafa verið í sjónvarpi og verður sýning þeirra endurtekin þegar líður á veturinn en þessar myndir verða einnig til sölu á kostnaðarverði.

    3. Önnur mál.

    Rætt var um að efla þyrfti kynningu á símanúmeri Neyðarlínunnar 112 bæði hjá lögreglu og björgunarsveitum. Fram kom að lögreglubifreiðar væru nú allar merktar símanúmerinu 112.

    Fyrirspurn frá Knúti um hvernig farið væri með gagnagrunn, persónuupplýsingar og sjúkraflutningaskráningu hjá Neyðarlínunni. Í framhaldi af því var rætt um heimild Neyðarlínunnar til gagnaskráningar. Fram kom að engar persónubundnar upplýsingar eru þar skráðar. Öll símtöl eru tekin upp og geymd í þrjá mánuði. Upplýst var að sjúkraflutningar í Reykjavík eru skráðir á kennitölu.


    Fundur 4/98 (13. fundur), 23. október 1998

    Mættir: Rúnar Guðjónsson,
    Guðmundur Vignir Óskarsson,
    Vilborg Ingólfsdóttir

    Fjarverandi: Ármann Kr. Einarsson,
    Björn H. Guðmundsson,
    Guðjón I. Stefánsson,
    Guðmundur Jónsson,
    Guðmundur H. Jónsson,
    Knútur Halldórsson,
    Ólafur Proppé,

    Gestur: Eiríkur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.


    Rúnar Guðjónsson formaður setti fundinn og stýrði honum.

    1. Fundargerð 12. fundar lögð fram.

    Ekki komu fram athugasemdir við fundargerðina.

    2. Fundasókn.

    Formaður vakti máls á því að ekki væri vel mætt á fundina og að nokkur forföll hefðu verið að undanförnu. Var því velt upp hvort það stafaði af fundartíma, sem hefur að undanförnu verið föstudagur, en ekki fékkst svar við því. Var ákveðið að ræða það betur á næsta fundi.

    3. Erindi til nefndarinnar.

    Ekki hafa nein ný erindi, fyrirspurnir eða athugasemdir borist nefndinni.

    4. Eftirlit með störfum Neyðarlínunnar.

    Þar sem eitt af meginhlutverkum nefndarinnar er að fylgjast með starfsemi neyðarlínunnar bað formaður Eirík Þorbjörnssonar framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar að greina frá því helsta og nýjasta í starfsemi hennar.



    Talvélar.
    Neyðarlínunni berast ítrekað boð frá svokölluðum talvélum, en þær gefa m.a. boð um að eldur geti verið laus í viðkomandi byggingu. Oftast er um villuboð/falsboð að ræða. Eiríkur hefur óskað eftir úrskurði um það hvort leyfilegt sé að tengja slíkar vélar við neyðarnúmerið 112 og hvernig eigi að bregðast við boðum frá talvélum. Hefur hann ítrekað rætt þetta við dómsmálaráðuneytið en ekki enn fengið svör.

    Reglugerð um öryggiskerfi og öryggisfyrirtæki.
    Eiríkur greindi frá því að hann hefði skrifað öryggisfyrirtækjum til að leita upplýsinga um það hvort þau uppfylli skilyrði reglugerðar s.s. með bíla og starfsfólk.


    Tetra - farstöðvakerfi.
    Eiríkur telur að margir aðilar s.s. Lögreglan í Reykjavík þyrfti að fara að skipta út sínum talstöðvakerfum. Nú eru margir aðilar að velta fyrir sér að fara að taka upp stafrænt talstöðvakerfi. Það gefur m.a. möguleika á betri samskiptum og eins að hafa lokaðar rásir fyrir sérstaka hópa eins og lögreglu. Landsíminn er reiðubúinn að fara að skoða þetta mál, en vill fyrst tryggja að hafa einhverja viðskiptaaðila. Fyrirhugað er að af þessu geti orðið í lok næsta árs eða byrjun 2000. Munu þá byrja á Stór-Reykjavíkursvæðinu og síðan taka allt landið.

    Aukin þjónusta við lögregluembættin.
    Nú er hafinn hringiflutningur frá lögregluembættum til 112 eftir lokun skiptiborðs eða opnunartíma viðkomandi embættis. Einnig er hafin símsvörunarþjónusta fyrir embætti ríkislögreglustjóra eftir lokun skiptiborðs.

    Uppfærsla á símakerfi.
    Neyðarlínan er sífellt að vinna að uppfærslu á símakerfinu. Vandamál var með birtingu leyninúmera en því hefur verið kippt í liðinn og fást nú öll númer birt á skjá neyðarsímvarðar.

    Rafmagnsleysi.
    Nú á að vera tryggt að 112 detti ekki út þótt rafmagnið fari af bænum. Unnið er að enn frekari úrbótum.
    Fyrir nokkru datt símstöð Landssímans í Múlastöð út um tíma, en það kom ekki niður á 112 þar sem varaleiðir í símakerfinu voru virkar.

    Fyrirspurnir/mál.
    Öðru hverju berast Neyðarlínunni beiðnir um skýrslur eða upptökur af símtölum t.d. frá viðbragðsaðilum.

    Fjármál.
    Nýverið hefur verið gerð 5 ára fjárhagsáætlun. Hún byggir m.a. á 25% hækkun á þjónustugjöldum frá öryggisfyrirtækjum. Leitað hefur verið eftir framlengingu á samningi við dómsmálaráðuneytið úr 8 árum í 12 ár.

    Samkeppnisstofnun.
    Samkeppnisstofnun gerði fyrirspurn til Neyðarlínunnar hf. vegna kvörtunar frá öryggisfyrirtæki. Þar var spurt hvort fjárhag Neyðarlínunnar hf. væri skipt upp í ríkisstyrkta þjónustu og þjónustu við öryggisfyrirtæki. Sá hugbúnaður sem Neyðarlínan hf. lét gera fyrir öryggisfyrirtækin er greiddur af fyrirtækjunum, þannig að ef þau óska eftir að hætta að kaupa þjónustu frá Neyðarlínunni hf., þá geta þau tekið afrit af hugbúnaðinum með sér.

    Upplýsingar um skjólstæðinga.
    Eiríkur greindi frá því að skjólstæðingar gætu leitað eftir því að fá skráðar upplýsingar sem vörðuðu öryggi þeirra. Á það t.d. við um sykursýkissjúklinga. Tölvunefnd gaf á sínum tíma heimild fyrir skráningu upplýsinga sem tryggir að starfsmenn Neyðarlínunnar bregðist rétt við þegar hringt er í neyðarnúmerið.

    Lögreglumaður á vakt hjá 112.
    Nú er til umræðu að lögreglumaður verði starfandi í stjórnstöð 112. Yrði hlutverk hans m.a. að létta á afgreiðslu mála sem tengjast lögregluembættum á landinu t.d. eftir lokun skiptiborða embættanna eða aðstoða við afgreiðslu mála er tengjast lögreglunni. Hans hlutverk yrði ekki að taka yfir lögreglumál heldur aðstoða við afgreiðslu eins og hver annar neyðarsímvörður á varðstofu Neyðarlínunnar.

    5. Næsti fundur.
    Ákveðið að næsti fundur verði föstudaginn 11. desember 1998 kl. 15:00, í húsakynnum Neyðarlínunnar.


    Fundur 5/98 (14. fundur), 11. desember 1998

    Mættir: Rúnar Guðjónsson,
    Ármann Kr. Einarsson,
    Guðmundur Vignir Óskarsson,
    Guðjón I. Stefánsson,
    Knútur Halldórsson,
    Vilborg Ingólfsdóttir

    Fjarverandi: Björn H. Guðmundsson,
    Guðmundur Jónsson,
    Guðmundur H. Jónsson,
    Ólafur Proppé,

    Gestur: Eiríkur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.


    Rúnar Guðjónsson formaður setti fundinn og stýrði honum. Vilborg Ingólfsdóttir og Ólafur Proppé rituðu fundargerð.

    1. Fundargerð 13. fundar lögð fram.

    Ekki komu fram athugasemdir við fundargerðina.

    2. Erindi til nefndarinnar.

    Ekki hafa ný erindi, fyrirspurnir eða athugasemdir borist nefndinni.


    3. Eftirlit með störfum Neyðarlínunnar.

    Þar sem eitt af meginhlutverkum nefndarinnar er að fylgjast með starfsemi Neyðarlínunnar bað formaður Eirík Þorbjörnssonar framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar að greina frá því helsta og nýjasta í starfsemi hennar.

    Öryggisfyrirtæki.
    Vaxandi álag tengist öryggisvörslu í fyrirtækjum og á heimilum. Umræður hafa verið í gangi varðandi fjölgun starfsmanna til að sinna þessari þjónustu.

    Læknavaktin.
    1. desember s.l. tók læknavaktin í Reykjavík yfir stærra þjónustusvæði, þ.e. einnig Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. Læknavaktin hefur tekið upp fjögurra stafa númer, en slík númer eru ætluð fyrir sérstaka starfsemi.
    Læknavaktin sinnir einnig símsvörun utan dagvinnutíma fyrir nokkur heilsugæslusvæði, þar sem aðeins einn læknir er á vakt (H1). 112 tekur að sér að símtalsflytja þessi símtöl. Enn á eftir að ganga endanlega frá samningi um þessa þjónustu s.s. varðandi kostnað.

    Misnotkun á neyðarnúmeri.
    Nokkur dæmi eru um misnotkun á neyðarnúmerinu, þ.e. að ekki sé um þörf á neyðaraðstoð að ræða heldur séu menn að ná í einhvern sem vinnur við neyðarþjónustu í einkaerindum. E.Þ. nefndi dæmi um slíkt. Tekið var á því máli af yfirmanni viðkomandi neyðarsveitar. Nokkur umræða var um misnotkun á 112. Kom þar m.a. upp sú afstaða fundarmanna að mun alvarlegra væri ef opinberir aðilar sem þekkja til alvarleika slíkrar misnotkunar eiga hlut að máli.

    Samningur við Landsvirkjun.
    Gengið hefur verið frá samningi við Landsvirkjun um útkallsþjónustu í neyð. Samningurinn nær einvörðungu til Sultartangavirkjunar.

    Kynnisferðir 112.
    Starfsfólk 112 hefur farið í nokkrar heimsóknir til viðbragðsaðila s.s. lögreglu og slökkviliðs á nokkrum stöðum á landinu, þar sem rætt er við samstarfsaðila. Til stendur að fara á nokkra staði s.s. Akureyri aftur. Var ákveðið að skoðaður yrði sá möguleiki að formaður samstarfsnefndarinnar færi með í slíka heimsókn.

    Samningur við dómsmálaráðuneytið.
    Verið er að vinna að framlengingu samnings við dómsmálaráðuneytið.

    Aukning á hlutafé.
    Ákveðið hefur verið að auka hlutafé Neyðarlínunnar hf. Munu allir eigendur tvöfalda hlut sinn nema Landssíminn.

    Samstarf við Félag sumaarbústaðaeigenda.
    Unnið er að því að koma á númerakerfi fyrir sumarbústaði sem tengist númerakerfi Vegagerðarinnar á vegum víðs vegar um landið. Getur slíkt númerakerfi komið sér vel þegar beðið er um aðstoð frá fólki í sumarbústöðum eða þegar hjálparbeiðni berst sem tengist sumarbústöðum á annan hátt.


    Útkall vegna bruna hjá Ísal.
    Greint var frá mistökum sem urðu hjá Slökkviliði Hafnarfjarðar vegna brunaútkalls frá Ísal.

    Almannavarnir ríkisins.
    Verið er að vinna að verklagsreglum með Almannavörnum ríkisins varðandi viðbrögð Neyðarlínunnar þegar almannavarnaástand verður. Vinna þessi gengur vel og er langt komin.

    Neyðarlínan hf.
    Skýrsla um starfsemi Neyðarlínunnar fyrir árið 1998.


    Inngangur.

    Árið 1998 var þriðja starfsár Neyðarlínunnar hf.. Á árinu fór mikil þróunarvinna í hugbúnaðargerð fyrir öryggisfyrirtækin og er gert ráð fyrir að taka hann í notkun í byrjun ársins 1999. Mikið var um viðræður og samninga við ýmsa aðila sem óskað hafa eftir viðbótarþjónustu eða vilja kanna nýja þjónustu af varðstofu Neyðarlínunnar. Í skýrslunni er stiklað á stóru í starfsemi Neyðarlínunnar hf. og því sem stjórnin hefur haft á sinni könnu.

    Stjórn.

    Á aðalfundi Neyðarlínunnar hf. sem haldinn var 11. júní á Hótel Loftleiðum, voru eftirtaldir kosnir í stjórn fyrir starfsárið 1998-99:

    Aðalmenn
    Ágúst Geirsson
    Esther Guðmundsdóttir
    Hannes Guðmundsson
    Haraldur Johannessen
    Hrólfur Jónsson
    Karl Jónsson

    Varamenn
    Bergþór Halldórsson
    Kristbjörn Óli Guðmundsson
    Guðmundur Arason
    Jón Bjartmarz
    Jón Viðar Matthíasson
    Erik Yeoman

    Á fyrstu fundum stjórnar skipti stjórnin með sér verkum þannig að Haraldur Johannessen er stjórnarformaður, Hrólfur Jónsson varaformaður og Ágúst Geirsson ritari. Sjórnin hélt 13 stjórnarfundi á árinu.

    Almennt um starfsemina.

    Neyðarsímsvörun hófst á miðnætti 1. janúar 1996 samkvæmt lögum nr. 25/1995. Reglugerð nr. 570/1996 um samræmda neyðarsímsvörun var gefin út 23. október 1996. Verkefni Neyðarlínunnar hf., um þjónustuna við neyðarsveitir landsins, eru skilgreind í samningnum við dómsmálaráðuneytið frá október 1995.

    Stjórn Neyðarlínunnar hf. óskaði eftir því við dómsmálaráðuneytið að gerðar yrðu breytingar á verksamningi um rekstur neyðarvaktstöðvar sem undirritaður var 2. október 1995, með viðbótarsamningi dags. 20. desember sama ár. Óskað var eftir framlengingu á samningstímanum í allt að 12 ár, auk minni háttar breytinga vegna breyttrar eignaraðildar og fleira. Í lok síðasta árs var gengið frá viðauka við samninginn við dóms- og kirkjumálaráðuneytið um framlengingu samningsins fram til ársins 2007 ásamt minni háttar breytingum á þjónustugjöldum.

    Á aðalfundi fyrirtækisins var ákveðið að tvöfalda hlutaféð og keyptu allir hluthafar viðbótarhlut nema Landssíminn hf. Í júní var gengið frá samkomulagi um samrekstur Vara hf. og Sívaka hf. sem gerði það að verkum að Vari hf. eignaðist hlut Sívaka hf. í Neyðarlínunni hf. Eftir aukningu á hlutafé Neyðarlínunnar hf. er Vari hf. orðinn stærsti hluthafi með 4 hluti. Einn hlutur er óseldur og hefur embætti Ríkislögreglustjóra hug á að kaupa þann hlut.

    Samráðsnefnd um neyðarsímsvörun, sem starfar á vegum dómsmálaráðuneytisins, hefur haldið fundi hjá Neyðarlínunni og fylgst með starfsemi vaktstöðvarinnar eins og reglugerð um neyðarsímsvörun segir til um. Ríkisendurskoðun hefur einnig fylgst með fjárreiðum Neyðarlínunnar og fengið þau gögn sem þeir hafa óskað eftir.


    Umfang starfseminnar á árinu 1997.

    Á árinu voru innhringingar 179.564 sem skiptust þannig:
      Fjöldi innhringinga svarað
      129.596
      Fjöldi slitið áður en svarað
      49.968
      samtals:
      179.564

    Skipting innhringinga milli mánaða er nokkuð jöfn eins og eftirfarandi mynd sýnir:

      Þegar skoðuð er skipting innhringinga milli landshluta kemur í ljós að um 56% þeirra er frá Reykjavík og Seltjarnarnesi. Ef teknar eru saman tölur fyrir höfuðborgarsvæðið kemur í ljós að um 74% hringinga er frá þessu svæði og hafa þær aukist um 1% stig milli ára.



      Öll mál sem koma til afgreiðslu varðstofunnar eru flokkuð eftir tegund útkalls og tilkynningu innhringjandans. Unnið hefur verið að betri flokkun innhringinga til að gefa skýra mynd af verkefnum varðstofunnar og viðbrögðum við neyðarköllum. Útköllin flokkuðust á eftirfarandi hátt á síðasta ári:



      Úr gagnagrunni varðstofunnar fást einnig gagnlegar upplýsingar sem notaðar eru til að mæla virkni kerfisins og gæði þjónustunnar. Svartími starfsmanna á varðstofunni og virkni kerfisins með tilliti til viðbragða við neyðarköllum er mjög góð og mun betri en viðmiðanir sem við höfum m.a. frá Bandaríkjunum og Evrópu:

      Meðal svartími:
      3,49
      sek.
      Meðallengd símtala:
      31,90
      sek.
      Lengsta samtal:
      38,63
      mín.

      Svartími hefur batnað frá síðasta ári sem þó var mjög góður fyrir. Þetta er fyrst og fremst að þakka velþjálfuðu starfsfólki sem leggur metnað í að vinna hratt og örugglega.


      Fjármál.

      Afkoma Neyðarlínunnar hf. hefur ekki verið nógu góð undan farin ár. Á fyrstu tveimur rekstrarárum fyrirtækisins er töluvert uppsafnað tap en á síðasta ári var þó um 5 milljónum kr. betri niðurstaða en áætlanir gerðu ráð fyrir. Á síðasta ári var hagnaður af reglulegri starfsemi um 0,5 milljónir króna en þegar tekið er tillit til fjármagns-kostnaðar er rekstrartapið á um 4,5 milljónir króna. Stjórn og stjórnendur fyrirtækisins unnu á síðasta ári að ákveðnum breytingum á rekstrinum til að bæta rekstrarafkomuna. Þar má nefna endurskoðun á samningnum við ríkisvaldið, hækkun á gjaldskrá fyrirtækisins gagnvart öryggisfyrirtækjunum og tvöföldun á hlutafénu. Þessar aðgerðir komu m.a. í kjölfar stefnumótunarvinnu sem farið var í á miðju síðasta ári. Einnig var unnið að nýjum þjónustusamningum við aðila eins og Landsvirkjun og Spöl vegna Hvalfjarðarganga sem mun gefa fyrirtækinu auknar tekjur. Í tengslum við stefnumótunarvinnu var gerð 5 ára fjárhagsáætlun sem gerir ráð fyrir verulegum rekstrarbata á seinni hluta áætlunarinnar.


      Hugbúnaður Neyðarlínunnar hf.

      Á árinu voru gerðar smávægilegar viðbætur eða breytingar á hugbúnaðinum fyrir neyðarsímsvörunina. Helstu breytingarnar voru vegna sjúkraflutninga á vegum Slökkviliðsins í Reykjavík. Upplýsingar úr kerfinu eru sendar til Rauða kross Íslands og Sjúkrahúss Reykjavíkur. Einnig voru gerðar breytingar á kerfinu m.t.t. kortakerfisins frá Pittsburgh en þar er útköllum forgangsraðað um leið og veittar eru leiðbeiningar til þeirra sem lenda í neyð eða þar til sjúkralið er komið á slysstað.

      Haldið var áfram þróun á hugbúnaði fyrir vöktun öryggiskerfa en sá búnaður er í eigu fyrirtækisins og öryggisfyrirtækjanna sem eru aðilar að Neyðarlínunni. Hugbúnaðurinn er alfarið íslenskur og unninn í samvinnu við Verkfræðistofuna Hnit eins og með hugbúnaðinn fyrir neyðarsímsvörunina. Gert er ráð fyrir að taka hugbúnaðinn í gagnið á fyrstu mánuðum ársins 1999.


      Símamál.

      Vaktstöðinn varð fyrir nokkrum áföllum á árinu vegna bilunar í símakerfi Landssímans. Neyðarvaktstöðin er tengd tveimur símstöðvum Landssímans, Múlastöð og Kópavogi, og á s.k. IN (Intelligent Networking) kerfi Landssímans að sjá um að senda okkur innhringingar í neyðarnúmerið í gegnum þær samskiptaleiðir sem virkar eru á hverjum tíma. Þar er um að ræða tvær ISDN línur og fjórar hliðrænar símalínur. Viðræður hafa verið við Landssímann um að auka rekstraröryggið eins og kostur er.

      Töluverðar umræður urðu á síðasta ári um nýtt farstöðvarkerfi fyrir neyðarsveitir. Frekari skoðun á stafrænu farstöðvarkerfi sem byggir á evrópska samskiptastaðlinum TETRA hefur átt sér stað og er Landssíminn að skoða það mál. Áætlanir eru uppi um að koma slíku kerfi á hér á landi í byrjun ársins 2000. Eftir er að ákveða hver eða hverjir sjái um rekstur slíks kerfis og með hvaða hætti Neyðarlínan komi inn í það mál. Mjög brýnt er að komast til botns í þessu máli og taka ákvarðanir því margar neyðarsveitir þurfa að endurnýja talstöðvarkerfi sín sem fyrst.

      Á árinu hafa staðið yfir tilraunir með að nota SMS kerfið (smáskilaboðakerfi) til að kalla út neyðarsveitir. Slökkvilið Reykjavíkur keypti á síðasta ári farsíma í sjúkrabílana og hafa þær tilraunir gefið góða raun. Vandamálið er rekstrarlegs eðlis af hálfu Landssímans sem hefur ekki geta tryggt viðunandi rekstraröryggi kerfisins. Umferðin á SMS kerfinu hefur aukist til muna og er nauðsynlegt að gera ákveðnar breytingar sem tryggja forgang útkalla af hálfu neyðarsveita. Viðræður hafa átt sér stað við Landssímann sem hefur ákveðið að gera töluverðar breytingar til batnaðar á SMS kerfinu.

      Þjónusta við öryggisfyrirtækin.

      Helstu verkefni Neyðarlínunnar fyrir öryggisfyrirtækin er að vakta öryggiskerfi á þeirra vegum allan sólahringinn og fylgjast með verðmætaflutning-um á daginn. Töluvert álag er á varðstofunni vegna þessarar þjónustu og eru að jafnaði tveir starfsmenn í fullu starfi við að sinna þessari þjónustu. Öryggisfyrirtækin greiða fyrir þessa þjónustu og er unnið að ákveðnum skipulagsbreytingum á varðstofunni með tilkomu nýs hugbúnaðar fyrir vöktun öryggiskerfa. Álagið á varðstofuna jókst töluvert á síðasta ári vegna þessarar þjónustu og nauðsynlegt er að endurskoða alla vinnuferla til að draga úr álagi sem mest.

      Kynningarmál.

      Fundir héldu áfram á síðast ári með neyðarsveitum á landinu. Mikið gagn er að slíkum fundum því aðilum gefst þar kostur á að kynna sín sjónarmið og segja frá verklagi við útköll á hverjum stað. Þannig tekst að ná þeim sameiginlegu markmiðum sem allir þessir aðilar hafa, að gera þjónstuna sem besta fyrir landsmenn alla. Heimsóknir neyðarsveita til Neyðarlínunnar hf. hafa aukist jafnt og þétt, enda er mikil fengur í því fyrir okkur að fá þessar heimsóknir, og fyrir neyðarsveitirnar að fá tækifæri til að skoða með eigin augum hvað fer fram á varðstofunni.

      Á árinu voru gerðar tvær kannanir á þjónustu Neyðarlínunnar hf.. Annars vegar var framkvæmd skoðanakönnun hjá almenningi þar sem könnuð var þekking á neyðarnúmerinu og viðbrögðum við slysum og hins vegar var gerð könnun á viðhorfi neyðarsveita gagnvart Neyðarlínunni hf. og þeirri þjónustu sem hún veitir. Þekking á neyðarnúmerinu er um 80% hjá landsmönnum og almenn ánægja er hjá fólki á þjónustu Neyðarlínunnar. Hjá neyðarsveitum var almennt séð ánægja með fyrirtækið og þá þjónustu sem það veitir. Neyðarsveitum finnst fagmennska hafa aukist og yfirsýn yfir hina mismunandi þætti útkalla nokkuð góð.

      Í byrjun ársins var lokið við gerð fræðslumynda um slysavarnir og viðbrögð við slysum í samvinnu við Rauða kross Íslands og Slysavarnafélags Íslands. Þættirnir fjalla um aðdraganda, afleiðingar og viðbrögð við slysum. Markmiðið með gerð þáttanna var að leggja áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir gegn slysum svo og að kenna fólki hvernig á að bregðast við þegar slys ber að höndum. Sýnd er aðkoma neyðarsveita eins og lögreglu, slökkviliðs, sjúkraliðs og þyrlu Landhelgisgæslunnar við hinar mismunandi aðstæður. Í þáttunum koma fram sérfræðingar hver á sínu sviði með upplýsingar, fræðslu og forvarnir. Hver þáttur er um 10 mínútur að lengd. Þættirnir voru sýndir í ríkisútvarpinu Sjónvarpi og á Stöð 2 síðast liði sumar og er von á endursýningum á árinu 1999.

      Unnið var að gerð kynningarbæklings á ensku og er gert ráð fyrir útkomu fyrir næsta sumar. Bæklingurinn er í samræmi við íslenska bæklinginn sem kom út fyrir tveimur árum.


      Starfsmenn.

      Starfsmenn Neyðarlínunnar hf. telur nú 20 manns, 17 neyðarsímverðir og 3 á skrifstofu. Að auki starfar einn slökkviliðsmaður frá Slökkviliði Reykjavíkur á hverri vakt. Starfsfólk vann mikið og gott starf á árinu og hefur þjálfun þeirra og þekking á neyðarsímsvörun aldrei verið betri. Farið var í heimsóknir til neyðarsveita á Suðurnesjum og til Suðurlands. Einnig voru aðstæður í Sultartanga skoðaðar, en Neyðarlínan hf. tók að sér fyrir Landsvirkjun að kalla út sjúkralið við virkjunarfram-kvæmdirnar. Hvalfjarðargöngin voru skoðuð, en Neyðarlínan hf. tók að sér að vakta neyðarsíma í göngunum fyrir rekstraraðila ganganna, Spöl hf.


      Annað í starfseminni á árinu 1998.

      Leitað hefur verið til Neyðarlínunnar hf. um ferilvöktun með bifreiðum eða tækjum. Samningar standa yfir við Stefju hf., Boðvaka hf. og Verkfræðistofuna Hnit um samvinnu við ferilvöktun af ýmsu tagi.

      Neyðarlínan hf. hefur þjónustað Heimahlynningu sf. frá upphafi neyðarsímsvörunar. Þjónustan felur í sér útkall á vakthafandi hjúkrunarfólk eftir óskum viðskiptavinar Heimahlynningar.

      Viðræður standa yfir við Almannavarnir ríkisins um samkomulag milli aðila vegna viðbragða við stóráföllum eins og snjóflóðum, jarðskjálftum o.fl. Tilgangurinn með samkomulaginu er að setja fram skýrar línur og verklag um verksvið Neyðarlínunnar hf. í almannavarnarástandi. Vonast er til að hægt verði að ganga frá samkomulaginu í byrjun ársins 1999.

      Neyðarsveitir hafa óskað eftir aukinni þjónusta frá Neyðarlínunni hf. Þar má nefna lögregluna á Snæfellsnesi, en Neyðarlínan hf. vaktar alla síma lögreglunnar eftir lokun skiptiborðs. Á síðasta ári tók Neyðarlínan hf. að sér að svara almennum síma embættis ríkislögreglustjóra eftir lokun skiptiborðs. Ef óskað er eftir útkalli starfsmanna embættisins sér varðstofan um að kalla út viðkomandi lögreglumann eða lögreglumenn.

      Á síðasta ári tók rannsóknarnefnd umferðarslysa til starfa. Neyðarlínan hf. sér um að kalla nefndina út verði alvarlegt umferðarslys á landinu. Í fyrstu mun nefndin taka sérstaklega fyrir banaslys í umferðinni og hafa verið skrifaðar nákvæmar verklagsreglur um útkall nefndarinnar og hennar verkefni.


      Niðurlag.

      Eins og þessi skýrsla gefur til kynna er starfsemi Neyðarlínunnar hf. margþætt og að mörgu að huga við skipulag og framkvæmd samræmdrar neyðarsímsvörunar. Það gefur auga leið að starfsemin hefur tekið nokkrum breytingum frá upphaflegri hugmynd um fyrirkomulag og skipulag á þjónustunni. Verklagið á eflaust eftir að breytast enn frekar með kröfunni um aukna þjónustu til handa neyðarsveitum. Viðræður hafa staðið yfir milli lögregluembættanna á höfuðborgarsvæðinu um nánara samstarf varðstofa á svæðinu. Varðstofa Neyðarlínunnar hf. mun eflaust koma inn í þær viðræður áður en langt um líður. Það er ljóst að frekari samvinna er nauðsynleg milli þeirra varðstofa sem eru á þessu svæði. Það myndi auðvelda samræmingu útkalla í stærri áföllum svo og einfalda allt skipulag.

      Þegar þessi skýrsla er skrifuð er ljóst að starfi mínu fyrir Neyðarlínuna hf. er að ljúka. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllu þeim fjölmörgu aðilum sem komið hafa að þessu máli fyrir gott og ánægjulegt samstarf. Þessi tími hefur í senn verið mér ánægjulegur og fjölbreytilegur. Það var ljóst í upphafi að fyrstu árin yrðu erfið og við myndum þurfa að samræma mörg mismunandi sjónarmið á málaflokknum. Að mínu viti hefur okkur tekist að koma á fót mjög góðri og skilvirkri neyðarsímsvörun sem stenst allan samanburð við sambærilega starfsemi annars staðar í heiminum.


      Febrúar, 1999



      Eiríkur Þorbjörnsson
      framkvæmdastjóri


      Efnisorð

      Var efnið hjálplegt?
      Takk fyrir

      Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

      Af hverju ekki?

      Hafa samband

      Ábending / fyrirspurn
      Ruslvörn
      Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum