Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2000 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðuneyti - Ræða

Hátíðarræða Magnúsar Jóhannessonar ráðuneytisstjóra í tilefni af
10 ára afmæli umhverfisráðuneytisins þann 23. febrúar árið 2000.



Umhverfisráðherra, fyrrverandi umhverfisráðherrar, starfsfólk umhverfisráðuneytis, aðrir góðir gestir.

Aldur er afstæður. Tíu ár af mannsævinni er almennt ekki talinn langur tími hvað þá ef við leggjum þau á mælikvarða sköpunarsögunnar sem vissulega er ekki alveg út í hött þegar við ræðum um aldur umhverfisráðuneytisins. Á hinn bóginn má allt eins miða aldur ráðuneytisins við tímaskyn stjórnmálamanna enda hafa þeir stjórnað ráðuneytinu frá upphafi og munu gera það um ókomna tíð hvað svo sem líður goðsögninni um, "já ráðherra." Ein vika í stjórnmálum er eins og alþekkt er, mjög langur tími, hvað þá eitt kjörtímabil sem er bara fjögur ár í vitund okkar hinna. Spurningunni um það hvort ráðuneytið teljist ungt eða gamalt nú á tíu ára afmælinu verður því ekki svarað með óyggjandi hætti. Eitt má þó fullyrða um aldur umhverfisráðuneytisins en það er að ráðuneytið er yngsti fjölskyldumeðlimurinn í stjórnarráðsfjölskyldunni og hefur þroskast vel. Ráðuneytið nálgast nú óðum kynþroskaaldurinn og þegar að því kemur þá mega hinir fjölskyldumeðlimirnir fyrst fara að vara sig.
Stofnun umhverfisráðuneytisins átti sér langan aðdraganda í stjórnmálasögu landsins. Fyrstu hugmyndir um stjórn umhverfismála í Stjórnarráði Íslands munu hafa komið fram í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar 1974-1978 og skipaði Geir Hallgrímsson forsætisráðherra nefnd 1975 til að vinna heildarlöggjöf um stjórn umhverfismála. Frumvarp var lagt fram á Alþingi 1978 en náði ekki fram að ganga, enda Alþingi þá í tveimur deildum en ekki einni eins og nú er. Ýmsar fleiri tilraunir voru gerðar til að koma á yfirstjórn umhverfismála í Stjórnarráðinu á næstu árum og má heita að allar ríkisstjórnir sem störfuðu á árunum frá 1974-1990, líklega þó að undanskilinni ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar 1978-1979, hafi haft málið á stefnuskrá sinni. Ekkert varð hinsvegar úr þeim fyrirætlunum fyrr en ráðuneytið var stofnað 23. febrúar 1990. Stofnun ráðuneytisins var þannig í pólitískum undirbúningi í tæp 16 ár og hefur ekkert ráðuneyti fengið eins grundaðan undirbúning ef undan er skilið heimastjórnarráðuneyti Hannesar Hafstein 1904 sem rekja má til upphafsins að baráttu Fjölnismanna í Kaupmannahöfn á fyrri hluta 19. aldar. Enda ber að vanda vel það sem lengi skal standa.
Lokaaðdragandi að stofnun ráðuneytisins hófst 11. júlí 1989 en þá skipaði þáverandi forsætisráðherra Steingrímur Hermannsson nefnd undir forystu Jóns Sveinssonar aðstoðarmanns ráðherra til að semja frumvarp um stofnun sjálfstæðs umhverfisráðuneytis. Nefndin skilaði áliti ásamt tillögum að breytingum á lögum og reglugerð um Stjórnarráð Íslands, svo og breytingum á ýmsum lögum vegna tilflutnings verkefna til hins nýja ráðuneytis frá starfandi ráðuneytum. Eins og gögn nefndarinnar bera með sér varð veruleg andstaða við stofnun ráðuneytisins en þó umfram allt mestur ágreiningur um verkefni þess ekki hvað síst meðal margra embættismanna. Er engu líkara en margir þeirra hafi ætlað að koma í veg fyrir að ráðuneytið yrði stofnað. Ég drep hér niður í eina umsögn sem ég rakst á við hraða yfirferð á gögnum nefndarinnar í síðustu viku en þar segir m.a.:

"Stofnunin hefur hvergi lýst þeirri skoðun að nauðsynlegt sé að setja á fót sérstakt umhverfisráðuneyti til þess að fara með yfirstjórn umhverfismála í Stjórnarráði Íslands, þvert á móti hefur þeirri skoðun verið lýst að árangur opinberrar stefnu í umhverfisvernd muni á hverjum tíma ráðast frekar af vilja löggjafans til lagasetningar og útvegun fjármagns til verkefna heldur en með hvaða hætti yfirstjórn málaflokksins er komið fyrir innan stjórnkerfisins."

Eins og þið heyrið ber bréfið vott um þröngsýni og nokkurn skort á framtíðarsýn. Sá sem þetta skrifaði var þá siglingamálastjóri. Það er von mín að umræddur embættismaður hafi tekið út nokkurn þroska síðan þá.

Ráðuneytið var stofnað eins og áður sagði 23. febrúar 1990 með gildistöku einfaldrar breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands, þar sem umhverfisráðuneytinu var bætt við nafnalista ráðuneytanna. Nokkur bið varð hinsvegar á því að ráðuneytið fengi fullnægjandi tök á málaflokknum, þar sem aðrar lagabreytingar og breytingar á reglugerð um Stjórnarráðið voru ekki gerðar samtímis. Með lögum er tóku gildi 16. maí 1990 voru nokkrar stofnanir fluttar undir ráðuneytið og með breytingum á reglugerð um Stjórnarráð Íslands sem tók gildi 7. júní 1990 var verkefnum hins nýja ráðuneytis lýst. Þar með var ráðuneytið komið með það sem þurfti til að deila og drottna.
Stofnanir og starfsemi sem fluttust til ráðuneytisins 16. maí 1990 voru: Náttúruverndarráð, nú Náttúruvernd ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn, embætti veiðistjóra, Veðurstofa Íslands, Landmælingar Íslands, mengunarvarnir Hollustuverndar ríkisins og varnir gegn mengun sjávar sem þá voru vistaðar hjá Siglingamálastofnun ríkisins. Skv. lögunum fluttist Skipulag ríkisins til umhverfisráðuneytisins 1. janúar 1991. Síðan hafa þær breytingar orðið að 1. júlí 1994 fluttist Hollustuvernd ríkisins í heild til ráðuneytisins, 1. janúar 1996 umsjón ofanflóðamála og 1. janúar 1998 Brunamálastofnun ríkisins. 1. janúar 1998 tók til starfa á Akureyri ný stofnun á vegum ráðuneytisins, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Stofnanir ráðuneytisins eru nú tíu talsins. Auk þess má ekki gleyma ótölulegum fjölda nefnda og ráða sem vinna mikilvægt starf fyrir ráðuneytið.

Fyrsti umhverfisráðherrann Júlíus Sólnes stýrði ráðuneytinu frá 23. febrúar 1990 til 29. apríl 1991. Hann hlaut það vandasama verkefni að byggja upp ráðuneyti úr engu enda var það undantekning að starfsfólk flyttist með verkefnum úr öðrum ráðuneytum í umhverfisráðuneytið. Ráðuneytið var þá til húsa að Sölvhólsgötu í gamla Sambands-húsinu. Júlíus fékk mjög stuttan tíma til þess að koma stefnumálum sínum fram því í raun hafði hann ekki full tök á málaflokknum til mótunar nema í rúma tíu mánuði og þar af lentu a. m. k. þrír mánuðir í óvæginni kosningabaráttu. En starf hans í ráðuneytinu var mikilvægt enda segir gamalt íslenskt máltæki að sá veldur miklu sem upphafinu veldur. Meðal mála sem unnið var að undir forystu Júlíusar voru aðgerðir til að draga úr notkun ózoneyðandi efna, upphaf undirbúnings að þátttöku Íslands í Ríó - ráðstefnunni, alþjóðlegt samstarf um umhverfisrannsóknir á Norður Atlantshafi og mótmæli við Dounrey endurvinnslustöðinni, allt málefni sem ráðuneytið hefur byggt á síðar.

Eiður Guðnason tók við starfi umhverfisráðherra 29. apríl 1991 og sat í embætti til 14. júní 1993. Miklar breytingar urðu á starfsemi ráðuneytisins, starfsmönnum fjölgaði og grunnur var lagður að því skipulagi ráðuneytisins sem gilti þar til um síðustu áramót. 1. apríl 1992 flutti ráðuneytið í Vonarstræti 4. Aukinn styrkur ráðuneytisins leiddi m.a. til nokkurra átaka milli landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra um landgræðslu og skógræktarmálefni. Meðal mála sem unnið var að undir forystu Eiðs voru sorphirðumál og fráveitumál, aukin umhverfisvöktun í hafinu, skipulagsmál miðhálendisins, udirbúningur og þátttaka Íslands í Ríó - ráðstefnunni og mótun nýrrar umhverfisstefnu á grundvelli sjálfbærrar þróunar. Fjölmörg ný lög og lagabreytingar voru samþykktar á Alþingi að frumkvæði Eiðs og má nefna velþekkt lög um mat á umhverfisáhrifum og breytingar á skipulagslögum um skipulag miðhálendisins.

Össur Skarphéðinsson tók við starfi umhverfisráðherra 14. júní 1993 og sat í embætti til 23. apríl 1995. Meðal mála sem unnið var að undir forystu Össurar voru fjölmargar friðlýsingar, undirbúningur að stofnun þjóðgarðs á utanverðu Snæfellsnesi og verndun Breiðafjarðar. Áhersla á aðgerðir á alþjóðavettvangi vegna lífrænna þrávirkra efna og varnir gegn megnun hafsins frá landi, stuðningur við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga, aðgerðir til að bæta söfnun spilliefna og efla þátttöku almennings í bættri umgengni við landið voru meðal mála sem unnið var að á þessum tíma. Hollustuvernd ríkisins var í heild sinni flutt til umhverfisráðuneytisins í embættistíð Össurar og jukust verkefni ráðuneytisins töluvert við það.

Guðmundur Bjarnason tók við starfi umhverfisráðherra 23. apríl 1995 og sat í embætti til 11. maí 1999. Vera Guðmundar í ráðuneytinu markaði tímamót í tvennum skilningi, hann var fyrsti umhverfisráðherrann sem sat heilt kjörtímabil, en fór einnig með stjórn annars ráðuneytis samhliða umhverfisráðuneytinu. Ýmsir vildu halda því fram að á þessum tíma hefði umhverfisráðuneytið verið skúffa í landbúnaðarráðuneytinu, en það var öðru nær, ég vil þó ekki segja að landbúnaðarráðuneytið hafi verið skúffa í umhverfisráðuneytinu en líklega hefði verið betra að svo hefði verið. Í tíð Guðmundar urðu nokkrar breytingar á húsnæðismálum ráðuneytisins og flutti hluta af starfsemi ráðuneytisins í húsnæði Íslandsbanka í Lækjargötu.
Meðal mála sem unnið var að undir forystu Guðmundar voru breytingar á framkvæmd náttúruverndarmála, vernd votlendis og betri frágangur efnisnáma, gerð framkvæmdaáætlunar um sjálfbæra þróun, samþykkt umhverfisstefnu í ríkisrekstri, sérstakt átak í vörnum vegna snjóflóðahættu og aukin þátttaka Íslands í Norðurslóðasamstarfi. Brunamálastofnun ríkisins var flutt frá félagsmálaráðuneyti í umhverfisráðuneyti og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar tók til starfa á Akureyri og tvær skrifstofur Norðurslóðasamstarfssins CAFF og PAME tóku til starfa hér á landi. Fjölmörg ný lög og lagabreytingar voru samþykktar á Alþingi og nefni ég hér Spilliefnalöggjöf og Náttúruverndarlög með því sem ég tel markverðast.

Fimmti umhverfisráðherrann og sá sem hefur stystan embættisferil í ráðuneytinu er Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra en hann var umhverfisráðherra frá 11. maí til 28. maí 1999. Halldór gæti svo sem alveg átt eftir að bæta úr því síðar, þó að það verði ekki á þessu kjörtímabili. Það verða þá væntanlega átta ár því mér skilst að Halldór setjist ekki niður í ráðherrastól fyrir minna en átta ár í einu.
Núverandi ráðherra Siv Friðleifsdóttir tók við embætti 28. maí 1999. Hún hefur eins og allir fyrirrennarar hennar lagt af stað með mikinn metnað fyrir ráðuneytið. Í dag kynnti hún opinberlega verkefnaáætlun ráðuneytisins á kjörtímabilinu og hér frammi liggja eintök af bæklingi sem kom út í dag. Einnig er þar að finna upplýsingar um ráðuneytið og kynning á nýju skipulagi þess sem ég vonast til að gagnist Siv til að ná fram sem mestu af því sem hún vill koma í verk á kjörtímabilinu.

En þó ekkert ráðuneyti sé án ráðherra þá þarf meira til. Það gladdi mig þegar ég leit yfir gögn Jóns Sveinssonar um stofnun ráðuneytisins í síðustu viku að sjá það að tíu dögum eftir að ráðuneytið var stofnað þá rann allt í einu upp fyrir mönnum að það væri ekki hægt að hafa sjálfstætt ráðuneyti án ráðuneytisstjóra. Nú voru góð ráð dýr hvernig mátti bjarga þessu í horn? Þar sem Júlíus Sólnes var einnig ráðherra Hagstofu lá Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri einstaklega vel við höggi. Var því gripið til þess ráðs í hvelli að setja Hallgrím ráðuneytisstjóra og varð hann því fyrsti ráðuneytisstjórinn í umhverfisráðuneytinu og starfaði sem slíkur allt þar til Páll Líndal tók við því starfi 1. apríl 1990. Það má segja að þessi tímabæra uppgötvun Jóns Sveinssonar um óhjákvæmilega nærveru ráðuneytisstjóra í ráðuneytunum gerði hann að aufúsugesti hér í dag. Þið getið ímyndað ykkar stöðuna sem upp hefði komið ef Júlíus Sólnes hefði fengið að kynnast því að það væri vandalaust að reka ráðuneyti án ráðuneytisstjóra. Annars vil ég segja að með fullri virðingu fyrir öllum ráðherrum og ráðuneytisstjórum að vegur umhverfisráðuneytisins hefði ekki orðið eins vel gerður og raun ber vitni ef ráðuneytið hefði ekki notið þeirrar gæfu að hafa yfir að ráða frábæru starfsfólki til að sinna þeim margvíslegu verkefnum sem ráðuneytið fer með. Enn fremur að hafa sér til stuðnings öflugar stofnanir, sem allar nema ein byggja á mun lengri starfshefð en ráðuneytið, til að vinna hina tæknilegu vinnu sem er forsenda fyrir stærstum hluta þess sem ráðuneytið gerir. Vil ég á þessum tímamótum þakka starfsmönnum ráðuneytisins og stofnanna þess fyrr og nú fyrir þeirra starf og stuðning við uppbyggingu ráðuneytisins.

Þegar ég lít til baka þá hefur oft gustað um ráðuneytið einkum í fjölmiðlum þó sennilega hafi sú umfjöllun aldrei verið harðskeyttari en nú síðustu misserin. Að mínum dómi hefur sú umræða um margt verið ósanngjörn og tengst afmörkuðum einstökum málum en ekki því sem ráðuneytið er almennt að gera til að efla umhverfisvernd og búa í haginn fyrir framtíðina. Ég vona að þetta úrval mála sem ég nefndi hér áðan að unnið hefði verið á vegum ráðherranna frá upphafi minni okkur öll á hvað umhverfisráðuneytið hefur í raun breytt miklu í okkar samfélagi á tíu árum, þó ýmsir telji að betur hefði mátt gera. En þannig er lífið, það gleymist oft sem vel er gert og máli skiptir. Að ýmsu leyti vil ég þó fagna þessari umræðu því skoðanaskipti geta aldrei verið annað en til góðs hjá skynugu fólki enda ein helsta forsenda lýðræðis. Vonandi ber þessi umræða vott um að almenningur sé farinn að láta umhverfismál sig meiru skipta því það er að mínum dómi ein meginforsenda þess að okkur takist betur að ná tökum á þeim umhverfisverkefnum sem við okkur blasa á næstu árum. Hörð gagnrýni fjölmiðla sýnir líka að gerðar eru miklar væntingar til ráðuneytisins og er það vel. Flestir ráðherrarnir hafa þannig lent í ósanngjarnri fjölmiðlaatlögu út af málum sem þeir gátu ekki á neinn hátt borið ábyrgð á en höndluðu eins vel og hægt var að mínum dómi, en fjölmiðlarnir gerðu kröfu um einhvers konar kraftaverk. Hér gæti ég nefnt rauðátudauðann í Húnaflóa sem olli usla á Hornströndum 1991, strand Víkartinds á Háfsfjöru 1996 og kamfílóbaktermálið á síðasta ári. Ýmislegt annað skondið mætti rifja hér upp og vil ég nefna hér eitt lítið dæmi sem sýnir vel að sjónarhorn fjölmiðlamanna er oft dálítið skondið. Eiður Guðnason sem alin er upp hér í Norðurbænum og að hluta til suður í Garði hafði á uppvaxtarárum kynnst því hvað úrgangur snjótittlingsins var lítilfjörlegur miðað við úrgang stærri fugla. Einhverjusinni þegar fjölmiðlarnir gengu sem harðast fram í því að gagnrýna eyðslu stjórnvalda við þátttöku í Ríó ráðstefnunni, þá fór Eiður í blaðaviðtali rækilega yfir þá hagsmuni sem voru fólgnir í þátttöku okkar í ráðstenunni, rakti það skilmerkilega og sagði svo í lokin við blaðamanninn eins og þú sérð þá er kostnaðurinn tittlingaskítur miðað við þá miklu hagsmuni sem í húfi eru. Þessa skýra samlíking á góðri íslensku var gripin á lofti og tittlingaskíturinn varð eftir það miðdepill umræðunnar en ekki málefni ráðstefnunnar.

Ágætu hátíðargestir, tíu ára afmæli umhverfisráðuneytisins ber upp í lok þeirrar aldar þegar menn gerðu sér fyrst grein fyrir því að vera mannsins á jörðinni gæti ógnað sköpunarverkinu. Engu að síður mun sú öld sem nú er að kveðja ekki verða talin öld umhverfismálanna, heldur tel ég einsýnt að tækniframfarir, alþjóðavæðing og fjölgun jarðarbúa verði það sem menn munu telja markverðast við öldina þegar frá líður. Á næstu öld spái ég því hins vegar að umhverfismálin verði stærsta viðfangsefni stjórnmálanna og að umhverfisráðuneytin verði í öllum lýðræðisríkjum þungavigtarráðuneyti. Framtíð umhverfisráðuneytisins er því á margan hátt heillandi enda er lausn aðsteðjandi umhverfisvanda knýjandi nauðsyn fyrir framtíð lífs á jörðinni. Mér er sjálfum á þessum tímamótum efst í huga þakklæti fyrir þau forréttindi að hafa fengið tækifæri til þess að taka þátt í uppbyggingu umhverfisráðuneytisins og kynnast öllu því ágæta fólki sem tengst hefur ráðuneytinu og þeim verkefnum sem þar hafa verið unnin. Áfram verður haldið og framundan eru mörg ögrandi viðfangsefni.
Þakka ykkur fyrir.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum