Hoppa yfir valmynd
10. mars 2000 Matvælaráðuneytið

Álit nefndar um hlutverk íslenskra hesta og hestamanna við opinberar móttökur

Álit nefndar um hlutverk íslenskra hesta og
hestamanna við opinberar móttökur.


Hinn 10. mars l999 samþykkti Alþingi svofellda þingsályktun:
"Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að undirbúa í samvinnu við önnur stjórnvöld og samtök að íslenskir hestar og hestamenn gegni veigamiklu hlutverki við opinberar móttökur erlendra þjóðhöfðingja og við önnur hátíðleg tækifæri."
Flutningsmenn tillögunnar voru Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, þáverandi formaður landbúnaðarnefndar Alþingis, Hjálmar Árnason, alþingismaður og Jónas Hallgrímsson sem þá sat á Alþingi sem varamaður. Í greinargerð með tillögunni koma fram hugmyndir flutningsmanna:
"Íslenski hesturinn hefur vakið verðskuldaða athygli um víða veröld. Hann á vart sinn líka hvað fjölhæfni varðar í gangi og geðslagi og er einn dýrmætasti þjóðararfur sem Íslendingar eiga. Hann er eftirsóttur fjölskylduhestur í fjölmörgum löndum, dýrmæt aukabúgrein bænda en þeim fjölgar ört sem sinna eingöngu tamningu og ræktun hestsins hér á landi. Íslenskir hestamenn eiga góð viðskiptasambönd í mörgum löndum og talið er að árlega komi þúsundir ferðamanna hingað eingöngu vegna þess að þeir hafa bundist íslenskum hestum og hestamönnum tryggðarböndum.
Flutningsmenn telja að það sé þess virði að gera hlut hestsins meira áberandi við móttöku erlendra gesta, ekki síst þjóðhöfðingja. Þá standi landsliðið heiðursvörð, fólk á öllum aldri, karlar og konur, og sýni úrval íslenskra gæðinga í allri sinni litadýrð. Þessi heiðursvörður væri mikil andstaða við hermanninn með byssustinginn. Enn fremur leggja flutningsmenn til að um helgar á sumrin fari skrautreið hestamanna niður Almannagjá á Þingvöllum. Þetta væri gert til að leggja áherslu á helgi Þingvalla og hversu hesturinn er samofinn sögu þjóðarinar og stór hluti af henni. Þingvellir eiga vart sinn líka og slík reið mundi auglýsa land og þjóð.
Það er skoðun flutningsmanna að landslið hestamanna mundi í senn auglýsa íslenska hestinn sem fjölskylduhest, skapa þjóðinni sérstöðu og efla ferðaþjónustu sem atvinnugrein."

Skipun nefndar
Hinn 10. nóvember l999 skipaði landbúnaðarráðherra nefnd til þess að vinna að framgangi framangreindrar þingsályktunar. Í nefndinni eiga sæti:
Hjálmar Árnason, alþingismaður, formaður, skipaður án tilnefningar
Guðni Bragason, prótókollsstjóri, fulltrúi utanríkisráðuneytisins
Kristján Andri Stefánsson, deildarstjóri, fulltrúi forsætisráðuneytisins
      Hólmgeir Valdimarsson, framkvæmdastjóri, fulltrúi Landssambands hestamannafélaga
      Olil Amble, tamningamaður, fulltrúi Félags tamningamanna
      Ritari nefndarinnar er Hákon Sigurgrímsson, deildarstjóri í landbúnaðarráðuneytinu.
Starf nefndarinnar
Nefndin hefur haldið 5 bókaða fundi. Til viðræðna við nefndina hafa komið Róbert Trausti Árnason, forsetaritari og Óskar Þórmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli. Nefndin fór í kynnisferð til Bessastaða þar sem aðstæður voru skoðaðar undir leiðsögn forsetaritara og gæslumanns staðarins, með tilliti til þátttöku hesta og hestamanna í opinberum móttökuathöfnum. Einnig fór nefndin til Keflavíkurflugvallar og skoðaði aðstæður við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og ræddi við sýslumanninn á Keflavíkurflugvelli, Jóhann Benediktsson og Óskar Þórmundsson yfirlögregluþjón. Þá fór nefndin að Bláa lóninu, skoðaði aðstæður þar og ræddi við rekstrarstjóra fyrirtækisins.

Opinberar heimsóknir til Íslands
Ýmis stig eru á opinberum heimsóknum til Íslands. Þjóðhöfðingjaheimsóknir eru hæsta stig opinberra heimsókna. Aðrar heimsóknir hafa annars konar yfirbragð, eru styttri og einkennast oft af vinnufundum.
Heimsókir eru flestar af eftirfarandi tagi:

1. Opinber heimsókn þjóðhöfðingja (State visit eða official visit).
2. Opinber heimsókn forsætisráðherra eða ríkisstjórnaroddvita og forstöðumanna alþjóðastofnana (Official visit).
3. Opinber heimsókn utanríkisráðherra (Official visit).
4. Opinber heimsókn annarra ráðherra (Official visit).
5. Vinnuheimsóknir ráðherra (Working visit).
6. Aðrar heimsóknir sem tengjast hinu opinbera, t.d. embættismanna, sendiherra, herforingja o.s.frv.
    7. Einkaheimsóknir þjóðhöfðingja (Private visit).
    8. Einkaheimsóknir ráðherra eða forstöðumanna alþjóðastofnana (Private visit).

    Opinberar móttökuathafnir.
    Formleg móttaka erlendra þjóðhöfðingja fer núorðið fram á Bessastöðum á reit sem afmarkast af Bessastaðastofu að austan og kirkjunni að vestan. Athafnir þessar eru í mjög föstum skorðum og taka um hálfa klukkustund. Um 150 - 200 manns eru að jafnaði viðstaddir slíkar athafnir, þar með talið hinir erlendu gestir og fylgdarlið þeirra; ráðherrar og embættismenn, lögreglumenn og öryggisverðir, fréttamenn, hópur barna og lúðrasveit. Gestunum fylgja allt að 30 - 40 bifreiðar, stórar og smáar. Fremur þröngt er því til athafna á svæðinu.
    Við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli er tekið á móti erlendum þjóðhöfðingjum, með heiðursverði lögreglumanna o.fl. Þar eru aðstæður góðar og nægilegt rými til athafna en yfirmenn á staðnum mæli ekki með því af öryggisástæðum að farið sé með hesta inn á sjálft flugvallarsvæðið.
    Fyrir kemur að flugvélar erlendra þjóðhöfðingja, einkum norrænna, lenda á Reykjavíkurflugvelli og fer hin óformlega móttaka þá fram þar.
    Móttaka annarra gesta gefur ekki tilefni til sérstakra athafna.
    Við þær móttökuathafnir sem að framan greinir er ekki aðstaða til sýninga þar sem sýndar yrðu hinar ýmsu gangtegundir hestsins, heldur kæmi þar fyrst og fremst til greina skrautreið (fánareið) og/eða heiðursvörður hestamanna.

    Önnur tækifæri til þátttöku hesta og hestamanna
    Auk hinna formlegu móttökuathafna erlendra gesta gefast ýmis tækifæri til þess að fella þátttöku hesta og hestamanna inn í dagskrá heimsóknanna, allt eftir eðli þeirra og stöðu og áhugasviði hinna erlendu gesta.
    Flestar opinberar heimsóknir standa í 2 til 3 daga og er á þeim tíma reynt að gefa hinum erlendu gestum kost á að ferðast um landið og kynnast sögu þess og náttúru. Oftast er í slíkum ferðum farið um suðvesturhluta landsins eða til Akureyrar og Mývatns. Á þessum landsvæðum, t.d. á Þingvöllum, Akureyri og við Mývatn, er víða góð aðstaða til þess að fella inn í dagskrána sýningar þar sem höfuðáhersla yrði lögð á fagmennsku í reiðmennsku og að sýna hinar ýmsu gangtegundir hestsins. Einnig mætti hafa sýningar með þjóðlegu ívafi, s.s. söðulreið, lestarferð með skreið eða heybandslest o.s.frv. Við Bláa lónið á Reykjanesi er einnig ákjósanleg aðstaða til sýningarhalds, en flestir opinberir gestir sem til landsins koma munu hafa þar viðkomu, ýmist í upphafi eða við lok heimsóknar. Þá er ágæt aðstaða til reiðsýninga á mótsvæðum hestamannafélaga á Vindheimamelum í Skagafirði, Melgerðismelum í Eyjafirði, á Gaddstaðaflötum við Hellu og í Víðidal í Reykjavík. Einnig er aðstaða til móttöku og sýninga í reiðhöllum, t.d. í Víðidal í Reykjavík, í Hafnarfirði, í Kópavogi, á Hólum í Hjaltadal og á Ingólfshvoli í Ölfusi. Þá er góð aðstaða til heimsókna og minni sýninga eða útreiða á hestabúum víða um land.
    Sérstök ástæða er til þess að hafa stöðu íslenska hestsins í heimalandi viðkomandi gestsins í huga, t.d. hvort íslenski hesturinn sé þegar vel kynntur í því landi, eins og er t.d. í ýmsum Evrópulöndum, eða hvort ástæða er til að styrkja kynningu hans vegna hagsmuna í ferðamennsku eða viðskiptum. Í því sambandi væri til athugunar að tengja erlendar heimsóknir við mikilvæga atburði eins og landsmót hestamanna eða hestakaupstefnur (Islandica 2001) og gefa gestum tækifæri til að sækja slíka viðburði, ef tími leyfir. Meðal annars er ástæða til þess að hafa þetta sérstaklega í huga varðandi opinberar heimsóknir erlendra landbúnaðarráðherra.

    Sýningarlið
    Í umræðum í nefndinni hefur áhersla verið lögð á nauðsyn þess að þátttaka hesta og hestamanna í opinberum móttökum einkennist af fagmennsku. Lögð verði áhersla á að sýna hestinn sem glæsilegan gæðing en jafnframt að undirstrika ljúft skaplyndi hans og meðfærileika. Sýningarnar dragi fram kosti hestsins og sérstöðu, bæði hvað varðar gangtegundir og fjölbreytileika í litum. Vandað verði til vals á knöpum og að knapahópurinn verði sem fjölbreytilegastur t.d. karlar, konur, börn og aldraðir, allt eftir aðstæðum og eðli heimsóknanna, og undirstrika með því kosti hestsins jafnt sem gæðings og fjölskylduhests.
    Hafa þarf í huga við val á hestum og knöpum að við opinberar móttökuathafnir s.s. við Bessastaði og á Keflavíkurflugvelli, er margt sem valdið getur ótta og óöryggi hjá hestunum, t.d. leikur lúðrasveita, blikkandi ljós lögreglubíla og ljósmyndara, sláttur í fánum í hvassviðri o.fl. Því getur verið nauðsynlegt að þjálfa sýningarhesta sérstaklega til þess að mæta slíku áreiti.

    Kostnaður
    Gera má ráð fyrir að kostnaður við hvern reiðmann og hest sem þátt tekur í móttökuathöfnum sé um kr. 4.500.- á klst. (VSK innifalinn). Ef gert er ráð fyrir 8 sýningarmönnum og hestum og að verkið taki um þrjár klukkustundir með flutningi til og frá sýningarstað, yrði kostnaður kr.100 - 110 þúsund fyrir hverja móttöku. Einnig þarf að gera ráð fyrir kostnaði vegna starfa sýningarstjóra.

    Sýningar á Þingvöllum
    Auk tillagna um þátttöku hesta og hestamanna í opinberum móttökum gerir nefndin tillögu um að haldnar verði reiðsýningar fyrir ferðamenn á Þingvöllum þrjá daga í viku yfir sumarmánuðina. Nefndin telur að slíkar sýningar geti haft mikla þýðingu til kynningar á hestinum og sem aðdráttarafl fyrir ferðaþjónustuna í landinu. Hugmynd nefndarinnar er að gerður verði þjónustusamningur við fyrirtæki eða samtök til að sjá um slíkar sýningar samkvæmt skilgreindum kröfum um gæði og fjölbreytileika sýningarinnar. Um verði að ræða 8 - 10 reiðmenn hverju sinni og fái hver þeirra greiddar u.þ.b. kr. 10.000,- fyrir sýninguna. Miðað við þrjár sýningar í viku yrði kostnaðurinn um 3 milljónir króna á ári eftir fjölda reiðmanna. Leitað verði til aðila eins og Ferðamálasjóðs, Bændasamtaka Íslands, Framleiðnisjóðs landbúnaðarins o.fl. til að standa undir þeim kostnaði.

    Tillögur nefndarinnar:

    Með vísan til framanritaðs gerir nefndin eftirfarandi tillögur um þátttöku hesta og hestamanna í opinberum móttökum:

    · Þátttaka íslenskra hesta og hestamanna verði fastur liður við móttöku erlendra þjóðhöfðingja sem til landsins koma, annað hvort við hina opinberu móttöku á Bessastöðum eða við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli og hestinum með því sköpuð staða sem þjóðartákn.

    · Við móttökur á Bessastöðum verði þátttaka hesta og hestamanna í því fólgin að sveit 8 - 10 reiðmanna sem bera íslenska fánann og þjóðfána hins erlenda gests ríði á undan bifreið gestsins frá gatnamótum við Álftanesveg að móttökusvæðinu við Bessastaðastofu, um 800 m spöl. Þegar á móttökusvæðið kemur stilli reiðmennirnir sér upp að baki heiðursverði lögreglu við norðvesturenda móttökusvæðisins þar til móttökuathöfn lýkur (sjá afstöðumynd).

    · Við móttöku á Keflavíkurflugvelli ríði sveit 6 - 10 reiðmanna á undan, samsíða og á eftir bifreið hins erlenda gests, frá því að bifreiðin kemur út um hlið á flugvallarsvæðinu, meðfram Leifsstöð og að vegamótum norðan Leifsstöðvar. Þegar að vegamótunum kemur stilli reiðmennirnir sér upp á akbrautinni til suðurs á meðan bifreiðin sveigir til vesturs og ekur burt (sjá afstöðumynd).

    · Við aðrar opinberar heimsóknir verði reiðsýning (gangtegundasýning) ásamt sýningaratriðum með þjóðlegu ívafi og eftir atvikum útreiðarferð fastur liður í dagskrá heimsóknarinnar, allt eftir eðli heimsóknarinnar og áhuga hins erlenda gests.

    · Áhersla verði lögð á að nýta þátttöku hesta og hestamanna í opinberum mótttökum til þess að efla viðskiptatengsl, jafnt í þágu hrossaræktarinnar sem annarra atvinnugreina.


    · Við opinberar athafnir og reiðsýningar (gangtegundasýningar) verði áhersla lögð á fagmennsku í reiðmennsku þar sem fram koma kostir og glæsileiki íslenska hestsins og sérstaða, bæði hvað varðar gangtegundir og litafjölbreytni. Einungis verði valdir til þátttöku mjög hæfir reiðmenn sem hafa yfir að ráða úrvalssýningargripum.

    · Við opinberar athafnir og reiðsýningar verði knapar valdir úr hópi karla kvenna, barna og aldraðra. Knapar klæðist bláum jakka og hvítum buxum.

    · Val á hestum og knöpum til þátttöku í opinberum móttökum og reiðsýningum ásamt þjálfun sýningarliðsins verði í höndum sýningarstjóra, "einvalds". Þriggja manna sýningarstjórn, skipuð fulltrúum frá Landssambandi hestamannafélaga, Félagi tamningamanna og landbúnaðarráðuneyti hafi það hlutverk að velja sýningarstjóra og fylgja eftir gæðakröfum.

    · Kostnað við þátttöku hesta og hestamanna í opinberum móttökum og/eða reiðsýningum þeim tengdum greiði gestgjafi hverju sinni.

    · Í því skyni að kynna íslenska hestinn og efla ferðaþjónustuna í landinu verði efnt til skrautreiðar á Þingvöllum þrjá daga í viku, frá 15. júní - 15. ágúst. Sýningin verði í því fólgin að valinn hópur 10 manna ríði skrautreið niður Almannagjá og ljúki reiðinni með gangtegundasýningu á völlunum við Öxará.

    · Til þess að annast sýningar á Þingvöllum verði gerður þjónustusamningur við starfandi fyrirtæki eða samtök á grundvelli útboðs. Leitað verði til fyrirtækja og stofnana í ferðaþjónustu og landbúnaði um að standa straum af kostnaði við síkt sýningarhald.
    Reykjavík, 5. mars 2000



    Hjálmar Árnason
    (Sign.)


    Olil Amble Guðni Bragason
    (Sign.) (Sign.)



    Hólmgeir Valdimarsson Kristján Andri Stefánsson
    (Sign.) (Sign.)

    Efnisorð

    Var efnið hjálplegt?
    Takk fyrir

    Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

    Af hverju ekki?

    Hafa samband

    Ábending / fyrirspurn
    Ruslvörn
    Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum